17.6.2008 | 14:30
ER NÚ KREPPA EÐA EKKI – ÁKVEÐA SIG !
Verðum við ekki að hætta að hugsa svona
SVART / HVÍTT
Er alveg ringlaður ...
Er ég sá eini, sem ekki áttar sig alveg á ástandinu? Er nú kreppa eða ekki þetta er spurningin!Það er auðvitað alltaf létt að vera vitur eftir á, en mér fannst þessi svokallaða "kreppa" skella svolítið á eins og þruma úr heiðskýru lofti. Hér var allt í bullandi uppgangi og góðærið í algleymingi og síðan komu til sögunnar einhver ónýt fasteignaveðlán í Suðurríkjum BNA og allt fór í bullandi mínus um allan heim. Á að kenna Suðurríkjamönnum um allt havaríið? Er hækkandi olíuverð, matarverðshækkanir og lausafjárskorturinn um allan heim einhverjum fasteignalánum í Alabama, Mississippi, Tennessee, Arkansas, Louisiana Oklahoma og Texas að kenna?
Voru ekki teikn á lofti?
Ég er nú ekki hagfræðingur, en eru ekki í raun búin að vera teikn á lofti hér á landi í nokkurn tíma, að eitthvað mikið sé að í efnahagslífinu. Seðlabankamenn og fjármálarráðuneytið hljóta að hafa vitað af öllu þessu innstreymi á gjaldeyri, sem fylgdi jöklabréfunum og þeir hljóta að hafa séð að bankarnir voru síðan að lána sauðsvörtum almúganum þessa peninga. Höfðu menn þar á bæ - og í bankakerfinu og viðskiptalífinu almennt - engar áhyggjur af þessu ástandi? Hafði enginn áhyggjur af því að einhverntíma gætu útlendingarnir misst áhuga á að framlengja jöklabréfin, t.d. þegar vaxtamunurinn minnkaði, sem einhverjir hljóta að hafa séð að var fyrirsjáanlegt? Hafði ríkisstjórnin og Seðlabankinn virkilega engin úrræði önnur en að hækka stýrivextina, sem allir hafa séð á undanförnum árum að virkar bara alls ekki og síðan að lýsa yfir áhyggjum af málinu, sem þeir hafa gert í 2-3 ár!
Ég er nú þeirrar skoðunar að þeir, sem vilja meina að hagfræðin sé ekki vísindagrein gætu haft eitthvað til síns máls, þ.e.a.s. ef enginn getur svarað þessum spurningum mínum. Þessir gagnrýnendur hagfræðinnar, sem vísindagreinar, vilja meina að hagfræðin gangi meira út á rannsóknir á hegðun fólks og ætti því hugsanlega fremur heima hjá listgreinum, félagsvísindum eða þessvegna mannfræði. Með sömu röksemdum mætti reyndar gagnrýna jarðfræðinga, sem ekki gátu sagt til um Suðurlandsskjálftann um daginn. Ég er auðsjáanlega kominn út á hálan ís og bakka út úr þessu.
Of hátt gengi eða of lágt gengi ákveða sig!
Gengi krónunnar var að sögn útflytjenda allt of hátt skráð undanfarin ár og þar af leiðandi áttu þessi fyrirtæki í vandræðum. Hágenginu fylgdi síðan að allt of mikið var flutt inn til landsins. Þessi gífurlegi innflutningur á neysluvöru ásamt miklum innflutningi vegna stóriðjunnar gerði það að verkum, að viðskiptajöfnuður við útlönd var neikvæður um árabil. Þetta vissu allir, sem eitthvað kynntu sér málin.
Ég man að á sínum tíma þegar fastgengisstefnan var gefin upp á bátinn, var sú stefna gagnrýnd af sumum hagfræðingum og sama máli gegndi reyndar um upptöku verðbólgumarkmiðs, sem mörgum þóttu strax frá byrjun vera óraunhæf. Mig minnir að ég hafi lesið gagnrýni á þessa hluti í Morgunblaðinu strax og þessi stefna var kynnt. Margir hagfræðingar voru þeirrar skoðunar, að fljótandi gengi hentaði hugsanlega ekki svo litlu hagkerfi. Gaman væri ef einhverjir fróðari mér gætu bent á lesefni um þessi mál.
Er allt í steik eða í góðu lagi ákveða sig!
Annað, sem ég átta mig ekki alveg á, er að hér virðist allt vera í besta lagi - allavega á yfirborðinu. Við erum nýbúin að byggja risaálver fyrir austan og það er byrjað að framleiða og flytja út ál. Sama máli gegnir um álversstækkunina í Hvalfirði. Samkvæmt útreikningum Kaupþings mun útflutningur Íslendinga á áli að öllu óbreyttu - sem er reyndar varla hægt að segja við núverandi óvissuástand - aukast úr rúmum 80 milljörðum króna árið 2007 í um 170 milljarða á þessu ári og verður kominn í um 180 milljarða króna á árinu 2009. Atvinnuástand er mjög gott og kaupmáttur launa í sögulegu hámarki. Fiskverð og álverð er í hæstu hæðum. Ríkissjóður er næstum skuldlaus og rekinn með afgangi - allavega þetta árið.
Og vandamálið er hvað?
Það eina sem mér sýnist vera í ólagi er viðskiptahallinn og verðbólgan. Viðskiptahallinn hlýtur að minnka vegna gengishrunsins, en einnig vegna þess að öllum stórframkvæmdum eru lokið í bili. Síðan höfum við verðbólguna, sem hlýtur að minnka þegar gengisfellingin, matvælaverðshækkunin og olíuverðshækkunin eru komnar út í verðlagið. Bullandi framkvæmdir eru á næsta leyti í Helguvík og einnig á Bakka og jafnvel á Vestfjörðum - ef við kærum okkur um. Þetta mun hafa í för með sér mikið innstreymi af gjaldeyri og mikla uppbyggingu og aukinn útflutning á áli í framtíðinni. Þorskstofninn mun jafna sig á næsta eða þar næsta ári og þá streyma vonandi inn meiri peningar í útflutningi á þeim bænum.
Hvað er vandamálið?
Forsætisráðherra bjartsýnn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.