Íslenskt efnahagslíf sterkara en margur heldur ...

Ég hef haldið því fram í nokkrar vikur að kreppan sé mest í höfðinu á okkur og að um óþarfa taugaveiklun hafi verið að ræða undanfarna mánuði. Það er bjart framundan á Íslandi og kannski eru fjárfestar og bankar að átta sig á því núna.

Hér hefur verið um ofur eðlilega leiðréttingu að ræða á ástandi, sem hefur á stundum verið allt of tryllingslegt. Viðbrögðin eru svona mikil og sterk af því að við erum örríki með örmynt. Þegar við erum búin að jafna okkur á þessari holskeflu, verðum við að skoða vandlega, hvort ekki sé rétt að skoða kosti og galla ESB aðildar og þá sérstaklega með það fyrir augum að taka upp einhverja aðra mynt, því það er það sem háir okkur öllum mest, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar.

Útflutningurinn mun styrkjast á þessu og næsta ári vegna aukins útflutnings á áli. Einnig mun veikari króna hafa góð áhrif á útflutningsgreinarnar, sem munu blómstra, sem aldrei fyrr. Innflutningurinn mun minnka í kjölfar veikingar krónunnar og gildir það jafnt um fyrirtæki og einstaklinga.

Eitthvað atvinnuleysi mun verða í haust, en þó ekki jafnmikið og spáð var, þar sem gróska í útflutningsatvinnuvegunum mun vonandi eitthvað hjálpa til og ríkið mun auka fjárfestingar sínar. Að auki eru miklar virkjunarframkvæmdir framundan vegna álversins í Helguvík auk þess sem það þarf að byggja álverið sjálft. Öfugt við verkefnið á Kárahnjúkum og í álverið í Reyðarfirði verða þessar framkvæmdir gerðar með því vinnuafli, sem er í landinu núna. Hugsanlega verður einnig fyrr ráðist í framkvæmdir á Bakka á Norðausturlandi en ráðgert var.

Þeir sem hafa fjárfest um efni fram - bankar, fyrirtæki og einstaklingar - hafa vonandi lært sína lexíu og ganga varlegar um gleðinnar dyr í framtíðinni. Skoða verður, hvort ekki þurfi að bæta eftirlit og reglur um banka- og fjármálastarfsemi í framhaldi af þessari katastrófu.

Ég á einnig von á því að um leið og hægist um verði stórar breytingar verði gerðar á Seðlabanka Íslands.


mbl.is Krónan styrktist um 4%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband