Ekki hægt að skorast undan umræðu

Ég held að þessi niðurstaða sýni okkur, að þeir sjálfstæðismenn, sem ekki einu sinni vilja skoða kosti og galla ESB aðildar með m.t.t. þess að komast að vitrænni niðurstöðu um, hvort hag okkar sé ekki hugsanlega betur borgið innan sambandsins, gætu endað sem nátttröll í litlum hægri flokki.

Finnst ykkur lesendur góðir sennilegt að það fólk, sem er í forystu Samtaka verslunar og þjónustu eða í forystu Samtaka Iðnaðarins sé mjög langt til vinstri í stjórnmálum?

Ég fæ ekki betur séð en að grasrót Sjálfstæðisflokksins verði að taka af skarið í þessu máli og mynda sér sína eigin skoðun á þessu máli. Þeir sem virkilega vilja Sjálfstæðisflokknum vel, verða að hugsa sinn gang núna og sýna þor til að taka umræðuna og komast að sjálfstæðri niðurstöðu.

Að öðrum kosti gæti birst nýtt alvöru afl til hægri í næstu kosningum. Sá flokkur yrði með alvöru hægri fólk í sínum röðum og það yrði studd af alvöru peningamönnum og með stefnumál, sem venjulegt hægra fólk hefur áhuga á að komist í framkvæmd. Hver veit nema að til viðbótar við óánægjufylgi frá Sjálfstæðisflokki gæti einnig bæst við einhver fjöldi kjósenda frá Samfylkingunni og Framsóknarflokknum (óánægðir hægri kratar og ESB framsóknarmenn).

Til þessa hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið eini raunhæfi valkosturinn til hægri í stjórnmálum. Ég tel stjórnmálaflokka eða stjórnmálahreyfingar á borð við Frjálslynda flokkinn, Íslandshreyfinunguna eða Lýðræðisflokkinn ekki vera valkost fyrir viti borna sjálfstæðismenn. Nei, ég er hér að tala um alvöru afl, sem gæti hrifsað til sín helminginn af fylgi Sjálfstæðisflokksins og ætti létt með mynda ríkisstjórn með Samfylkingu, sem hefði þá hugsanlega 35-40% fylgi eftir næstu kosningar. Þá væru komnir 1 stór og 1 lítill flokkur til vinstri og 1 stór og 1 lítill flokkur til hægri í stjórnmálum. Þetta væri mjög slæmt fyrir íslensku þjóðina, því Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið ankerið í íslenskum stjórnmálum allt frá stríðslokum og tryggt hér stöðugleika.

Þetta er það, sem við stöndum frammi fyrir góðir sjálfstæðismenn. Það er ekki einfaldlega hægt að lifa endalaust á fornri frægð, hversu glæst sem hún var! Nú þarf að leggja höfuðið í bleyti og koma með nýja djarfa og framsækna stefnuskrá á næsta Landsfundi, þar sem tekið er á málum málanna í dag: ESB aðild (evru), Umhverfismálum í víðari skilningi þess orðs (lestarsamgöngur og efling almenningssamgangna, því sem næst útrýmingu jarðeldsneytis, vistvæna stóriðju - ég er alls ekki að tala um stopp stefnu), atvinnumálum (stórefla stuðning við sprotafyrirtæki og hátækniiðnað), menntamál (verðum að komast í allra fremstu röð og þar verðum við að setja okkur háleit en raunsæ markmið), fjölskyldumál (gera samfélagið mannlegra, fjölskylduvænna og barnvænna), málefni aldraðra (gera okkur grein fyrir því að þjóðfélagið er að eldast mjög hratt og koma með alvöru lausnir og hugmyndir í þeim efnum) o.s.frv. - því það er af nógu að taka hvað verkefni varðar og við þurfum að sýna að við höfum skoðanir á málunum og lausnirnar, sem þarf.

Í okkar landsfundarályktunum höfum við meira og minna tönglast á því sama í 20-30 ár! Í flestum ályktunum stendur eitthvað á þá leið að unnið skuli áfram á sama hátt að uppbyggingu á þessu eða hinu eða að sá samningur, sem við höfum hafi reynst vel og ekki ástæða til að breyta.

Nálgunin verður að vera önnur en við höfum haft undanfarin ári og líkjast meir hinum gamla Sjálfstæðiflokki - Stétt með stétt. Hin nýja sýn verður að einkennast af mannlegri og kærleiksríkri stefnu, sem við höfum því miður aðeins fjarlægst að undanförnu. Hugmyndirnar verða í senn að vera nýjar og ferskar, en samt byggja á gömlum merg og þeirri stjórnmálastefnu sem flokkurinn hefur aðhyllst frá upphafi.

 


mbl.is Verslunarmenn vilja taka upp evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband