Hvað finnst ESA um verðtrygginguna og vaxtastigið hjá okkur?

Ég er svo sem ekkert hissa á þessari niðurstöðu, því eftirlitsmönnum ESA hlýtur að koma það spánskt fyrir sjónir, að ríkisvaldið á Íslandi skuli standa í fasteignalánastarfsemi á því herrans ári 2008! Ég væri líka hissa á því, sem ESB-búi, Norðmaður, Svisslendingur eða íbúi Liechtenstein.

Auðvitað skilja þeir okkur og okkar efnahagskerfi ekki. Þeir skilja ekki verðtrygginguna, óðaverðbólguna, gengissveiflurnar, og okurvextina. Hversvegna ekki? Svarið er einfalt: þeir búa ekki við þetta ástand heima hjá sér!

Við erum búnir að koma upp hér landi svona nokkurskonar Monopoly efnahagskerfi. Á þessu Íslandopoly fer maður hring eftir hring og lendir í ýmsum ævintýrum. Maður lendir á reitnum "Íslenskur viðskiptabanki" og borgar 18% yfirdráttarvexti (í öðrum löndum lentu menn í fangelsi fyrir slíka okurvexti), síðan lendir maður á reitnum "Lögreglurannsókn á þér og fyrirtæki þínu", að því loknu dregur maður spjald og þar stendur "Borgaðu tvöfalt matvælaverð miðað við annars staðar í Evrópu", Þá heldur maður að heppnin  hljóti nú að fara að vera með manni, en þá lendir maður aftur í að draga spjald "40% gengisfall og bílalánið þitt hækkar um 700.000 krónur"!

Hvernig í ósköpunum er hægt að halda að einhver venjulegur Evrópubúi skilji þennan leik?

Þrátt fyrir að vera sjálfstæðismaður og maður frjálsrar samkeppni (og hafa mikinn skilning á sjónarmiðum ESA og íslensku viðskiptabankanna varðandi Íbúðalánasjóð) er ég samt 100% stuðningsmaður Íbúðalánasjóðs.

Mörgum finnst ég eflaust vera ósamkvæmur sjálfum mér og eflaust er það rétt. Vandamálið er að kerfið, sem við búum við er fullt af mótsögnum og einkennist vissri tvíhyggju og því erfitt fyrir venjulega dauðlega eftirlitsmenn ESA að átta sig á því, þar sem við skiljum það vart sjálf. Seðlabankinn skilur það ekki, ríkisstjórnin skilur það ekki, Alþingi skilur það ekki og viðskiptabankarnir skilja það ekki, en skilja þó hvernig er hægt að græða á því og það hafa ýmsir erlendir vogunarsjóðir og einstaklingar einnig skilið.


mbl.is Gengur gegn ríkisstyrkjareglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Mikið asskoti er þetta góður og þarfur pistill hjá þér

Haraldur Bjarnason, 27.6.2008 kl. 18:40

2 Smámynd: Óskar Arnórsson

Snilldarpistill! Alveg ótrúlega flott uppsetning og allt sagt sem þarf í fáum orðum!..

Óskar Arnórsson, 27.6.2008 kl. 19:10

3 identicon

Þetta er hárrétt. Ef það á að senda Íbúðalánasjóð í sláturhúsið, þá þarf að senda með henni öll þau meindýr sem lifa góðu lífi hér í einangrunni.

þar er ég t.d. að tala um verðtrygginguna, sem er eitt besta verðbólgufóður sem fyrirfinnst,

Krónan, sem er of lítill gjaldmiðill fyrir okkar ofvöxnu banka, sem leika sér að því að sveifla

genginu um tugi prósenta.

Og stimpilgjöldin, sem er einhver ósanngjarnasti skattur sem fyrirfinnst.

og ég tala nú ekki um þessa seðlabanka stjórn , menn voru dæmdir hér á landi, fyrir nokkrum árum, fyrir að rukka um svipaða okurvexti og seðabankinn er að rukka núna.

Rúnar Ingi (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 19:23

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gaman að sjá að svona margir eru sammála mér - er annað hægt?

Gleymdi þessu með stimpilgjöldin, sem endilega þarf að leiðrétt, til þess að fólk geti sagt upp lánunum ef betri vextir bjóðast annarsstaðar. Ef það verður ekki gert er hætta á að samkeppnin virki ekki.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.6.2008 kl. 19:33

5 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Því miður er það nú svo að Íbúðalánasjóður framleiðir ekki peninga til að lána "hagstætt".  Íbúðalánasjóður er bara banki rétt eins og aðrir bankar sem tekur lán til að lána áfram með álagningu.  Munurinn á ríkisbönkum og einkareknum er að þeir fyrrnefndu njóta ríkisábyrgðar og geta því tekið lán gegn lægri vöxtum en þeir einkareknu.  Ef almenningur í þessu landi er sammála um að farsælast sé að við veitum hvort öðru sameiginlega ábyrgð á fasteignalánum er slíkt sjálfstætt mál og gerir ekki kröfu um Íbúðalánasjóð.  Einfalt væri að veita ríkisábyrgð á fasteignalánum sama yfir hvaða afgreiðsluborð lánið væri afhent.

Þvert á móti kostar ríkissjóður alls 900 milljónir árlega sem er kostnaður sem viðskiptavinir sjóðsins bera. 

Örlítið flóknari staðreynd er að ef raunvaxtastig á Íslandi færi niður í t.d. 2-3% myndu lántakendur sjóðsins greiða upp sín lán hjá sjóðnum í stórum stíl.  Á hinn bóginn getur sjóðurinn ekki greitt upp sínar skuldir á móti og mun því verða gjaldþrota á næstu árum á kostnað íslenska skattgreiðenda.  Þú munt ekki verða janf ánægður með sjóðinn þegar að því kemur.  Íbúðalánasjóður er tímaskekkja en ímyndarsérfræðingar og stjórnmálamenn í atkvæðaveiðum hafa náð að afvegaleiða almenningsálitið.

Arnar Sigurðsson, 27.6.2008 kl. 20:24

6 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Fínn pistill, Guðbjörn.

Arnar, ekki bera í bætifláka fyrir viðskiptabankana, ég get ekki séð annað en að þeir hafi blóðmjólkað okkur og þegar þeir geta það ekki lengur segja þeir bara, stopp, ekki að ræða að við tökum eitthvað af ábyrgðinni á kreppunni á okkur, neibb, gerum hvað við getum til að fella krónuna og þar fram eftir götunum.

Ég held að það sé enginn að tala um að raunvaxtastig fari niður í 2-3%, þarf ekkert að fara svo langt niður þó það væri mögulega hægt að færa það eitthvað nær því sem það er í öðrum löndum í kringum okkur.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 27.6.2008 kl. 20:37

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Arnar

Ég veit nákvæmlega hvað þú átt við og var þinnar skoðunar þar til fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Ég tók fasteignaveðlán hjá Íslandsbanka/Glitni fljótlega eftir að þessi lán byrjuðu og fékk þau á 4.15% vöxtum - var heppinn.

Núna stend ég frammi fyrri því á næsta ári að borga vexti, með því álagi, sem þessir fjárglæframenn hafa leitt yfir sínar bankastofnanir. Ég veit auðvitað ekki í dag hvað vextirnir verða, en ég er svo sannarlega ekki bjartsýnn á framtíðin hjá Glitni. Er ég svartsýnismaður, nei, raunsæismaður!

Ég á 35 milljóna hús í Reykjanesbæ og skulda 1/2 hússins og kem því aldrei til með að fara mjög illa út úr þessari krísu. En hvað með hina? Ég tók þátt í misgengisstefnunni 1986 og man þá tíma vel, en þá brann íbúð upp, sem ég og bróðir minn keyptum með mjög litlum lánum á sínum tíma. Það fóru margir illa út úr fasteignaviðskiptum á þessum tíma og ég er einn af þeim. Slík reynsla gleymist seint og ég hélt - satt best að segja - að Íslendingar væru vaxnir upp úr slíkri villimennsku.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.6.2008 kl. 20:53

8 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Arnar minn þú ert bara ekki að átta þig á hutunum !!

Haraldur Bjarnason, 27.6.2008 kl. 21:13

9 Smámynd: Víðir Benediktsson

Fínn pistill og ég er sammála. Þetta snýst um staðreyndir og raunveruleika en ekki trúarbrögð. Skil ekki þetta komment með að íbúðalánasjóður færi á hausinn þó einhver greiddi honum skuldir. Það er jafnvægi hjá sjóðnum í innlánum og útlánum þannig að ef ég borga sjóðnum það sem ég skulda honum getur hann greitt það sem hann tók að láni til að lána mér, svo einfalt er það nú. Vissulega nýtur sjóðurinn betri kjara vegna ríkisábyrgðar og það er bara hið besta mál. Ég er ekki til í að láta hækka á mér vexti bara vegna einhverra frjálshyggjuhugsjóna. Ef ríkið getur komið til móts við mig án þess að bera skaða af ættu allir að vera sáttir.

Víðir Benediktsson, 27.6.2008 kl. 21:35

10 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll, Félagi Guðbjörn þú kemur hér ríðandi á hvítum hesti og með flasandi skikkju, vona bara að þeir sem halda um þessi mál sjái hve glæsilegur þú ert og skoði málið, rétt með hagsmuni okkar allra, hef samt litla trú  á því nema þrýst verður á, dóttur mín og hennar maður keyptu í nágrenni við þig vegna verðs og góðu sambýli  , þú er eins og rautt Ljón.

Kv, Sigurjón Vigfússon 

Rauða Ljónið, 27.6.2008 kl. 21:36

11 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Algjörlega sammála Víði. Það er ekkert að afskiptum ríkisins, þegar það varðar hagsmuni allra þegna ríkisins og enginn ber skaða af. Þetta eru - nákvæmlega eins og Víðir segir - ekki spurning um trúarbrögð. Guð - hvað ég sakna ríkisstjórnanna með Framsóknarflokknum, þar sem maður var í samstarfi við vitiborna menn.

Það er óþolandi að vera í stjórn með flokki, sem er með a.m.k. tvær skoðanir á öllum málum!

Það er margbúið að segja við mig, að í raun sé ég framsóknarmaður, en ég á voðalega erfitt með að sætta mig við það eftir að hafa verið sjálfstæðismaður í 30 ár.

Ég vil hins vegar sjá einhverja endurfæðingu "fr. renaissance" eiga sér stað hjá mínum flokki og það verður að gerast frekar hratt!

Ég vil stjórnmál, sem miða að því, að allir hafi það sæmilegt - meira vil ég ekki!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.6.2008 kl. 21:47

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Gunnar Þór

Ég er afskaplega stoltur yfir afrekum sjálfstæðismanna undanfarin 17 ár. Hvenær í sögu lands og þjóðar höfum við haft það betra - svaraðu heiðarlega!

Ég viðurkenni hins vegar mistök undanfarinna ára og skammast mín ekkert fyrir það.

Það getur alveg verið að ég hætti að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eftir að hafa kosið hann frá því að ég fékk kosningarétt, en þá þarf að vera einhver almennilegur valkostur á hægri vængnum - fyrr ekki!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.6.2008 kl. 22:59

13 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Sæll Guðbjörn,

Það er algengur misskilningur að halda að bankar ákveði vexti og að bankar græði þeim mun meira sem vextir eru hærri. Þegar Seðlabanki Íslands hækkar vexti, eykst fjármagnskostnaður banka auk þess sem þrengir að viðskiptavinum bankanna. Steingrímur Hermannsson fann út að grundvallarlögmál hagfræðinnar eigi ekki við á Íslandi. Nær væri að tala um að þau virka með töfum m.a. út af miklu vægi verðtryggðra lána til almennings. Á öllum þróuðum fjármálamörkuðum, dregst úr umsvifum banka, lántaka dregst saman og fyrirtækja hægja á fjárfestingum samfara hækkun vaxta. Bein afleiðing er m.a. að hlutabréfaverð banka lækka. Íslendingar virtust um tíma trúa orðum Steingríms og allt fór hér í öfuga átt þar til nýlega.

Öllum er frjálst að taka fasteignalán án verðtryggingar en fæstir kjósa slíkt. Það sem fæstir virðast hinsvegar skilja er að með s.k. jafngreiðslufyrirkomulagi til 40 ára kýs fólk að byrja ekki að greiða niður höfuðstól lánsins fyrr en um það leiti sem lánið er orðið 20 ára. Ástæða þess að mánaðarlegar afborganir eru hlutfallslega lágar er vegna þess að vaxtakostnaðir og sér í lagi verðbætur leggjast ofan á höfuðstól lánsins en ekki nema að hverfandi hluta ofan á mánaðarlegar afborganir. Þetta fyrirkomulag mætti líkja við n.k. staðdeyfingu gegn verðbólgu en því miður kemur verkurin bara aftur þegar deyfiáhrifin fjara út.

Hátt hlutfall verðtryggðra lána hér á landi er gríðarlegt vandamál fyrir alla hagstjórn. Oft er talað um vandamál því samfara að halda úti smæsta sjálfstæða gjaldmiðli í heimi. Staðreyndin er hinsvegar að við erum með tvo gjaldmiðla, óverðtryggða krónu sem Seðlabanki getur vaxtastýrt með hraðvirkum hætti og svo verðtryggða krónu en á hana bíta stýrivextir seðlabankans seint og illa. Ef verðbætur leggðust af meiri þunga ofan á afborganir eða Íbúðalánasjóður hætti að lána verðtryggt, myndi fólk draga saman eyðslu snarlega um leið og verðbólga eykst.

Fólk þarf líka að átta sig á að ríkisábyrgð kostar peninga. Þeir peningar eru alltaf teknir einhverstaðar frá og nýtast því ekki í annað. Þó auðvelt sé að blekkja kjósendur með því að tala um skuldlausann ríkissjóð þá dugar slíkt ekki gagnvart erlendum lánadrottnum sem skilja bókhald. Af skuldum ríkissjóðs sem hinn glaðbeitti Geir Hilmar undanskilur í sínu sjálfsglotti má nefna skuldir Landsvirkjunar, ríkisábyrgðir íbúðalánasjóðs, eftirlaunaskuldbindingar ríkisstarfsmanna, alla flokka ríkisskuldabréfa osfrv. Enginn fréttamaður hefur haft burði til að spyrja forsætisráðherra hvernig geti staðið á því að hægt sé að kaupa skuldatryggingar (Credit Default Swap) á skuldir sem ekki eru til. Sömuleiðis virðast fári velta fyrir sér af hverju kostnaðarsamt sé fyrir ríkið að taka lán erlendis ef ríkið er skuldlaust fyrir.

Varðandi athugasemdir hér að ofan um yfirvofandi gjaldþrot Íbúðalánasjóðs þá er það þannig að sjóðurinn ávaxtar sín lán með því að lána þau til húsnæðiskaupenda. Ef kaupendur greiða upp sín lán fær sjóðurinn vissulega greiddann höfuðstól að viðbættum vöxtum og situr uppi með fullt fangið af fé. Gallinn er bara sá að sjóðurinn getur ekki ávaxtað þá peninga nema að littlu leiti en getur aftur á móti ekki greitt upp sín eigin lán. Sú snilldar ákvörðun var nefnilega tekin þegar breytt var úr húsbréfakerfi yfir í íbúðabréf að gefa eftir uppgreiðsluheimild sjóðsins á lánum.

Hildigunnur sem skrifar hér athugasemd virðist ekki skilja mun á nafnvöxtum og raunvöxtum og telur bjartsýnt að raunvextir sem í dag eru 4-5% á íbúðalánum gætu farið niður í 2-3% en telur engu að síður að raunvextir mættu nálgast það sem gengur og gerist erlendis. Þannig er að raunvextir í Bandaríkjunum eru nú neikvæðir u.þ.b. -2% og raunvextir fasteignalána víðast hvar í evrópu eru í kringum 1%.

Arnar Sigurðsson, 28.6.2008 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband