Með eða móti ESB - "Five Easy Lessons"

Inngangur 

Þetta er langur pistill og sennilega nennir enginn að lesa hann. Það skiptir ekki öllu, því ég þarf bara að koma þessu frá mér. Allt sem fram kemur hef ég pikkað upp einhversstaðar á blogginu og því ekki um mínar skoðanir að ræða

Sumum finnst pistillinn eflaust "naive" (barnalegur, einfaldur), en hvað með það, ég læt þetta flakka, því svona kemur mér Erópuumræðan fyrir sjónir á báða bóga:

Þrír aðalflokkar ástæða fyrir að vera utan ESB

Þetta voru þau rök, sem mig minnir að fram hafi komið gegn aðild og voru þau þrískipt:

  1. Við töpum sjálfstæðinu/fullveldinu
  2. Efnahagslífið og peningamálin
  3. Óáran og holskefla þjóðfélagslegra og félagslegra vandamála, sem dynja á Íslendingum í kjölfar aðildar að ESB

I. - Fullveldi/sjálfstæði

Við skulum byrja á vandamálum, sem snúa að því að tapa "fullveldi/sjálfstæði" landsins:

  • Jón Sigurðsson snýr sér við í gröfinni

Önnur rök en tilfinningaleg - sem ég ætla ekki að gera lítið úr - komu ekki fram.

Ég spyr á móti: Hafa öll  27 aðildarríki ESB gefið frá sér fullveldið/sjálfstæðið?

II. - Efnahags- og peningamál

Nú snúum við okkur að vandamálum er snúa að efnahags- og peningamálum í kjölfar upptöku evru:

Hin frábæra króna

  • Við töpum hinni "frábæru"krónu, sem hefur mikið tilfinningalegt gildi og sálfræðilega þýðingu fyrir þjóðarsálina í okkur. Þetta er nefnilega mynt sem við "identifiserum" okkur með djúpt í iðrum þjóðarsálarinnar (finn fyrir þessu þjóðarstolti á hverju degi þegar ég handfjatla þennan gjaldmiðil, sem hefur fallið um 30% á nokkrum mánuðum)
  • Krónan er frábært hagstjórnunartæki (þetta vita allir Íslendingar í dag)
  • Krónan hefur þann eiginleika að geta fallið um 30-40% og það er að mati ESB andstæðinga mikill kostur í hagstjórn (Þekkt staðreynd - það er svo gaman þegar innfluttar vöru hækka, auðskiljanleg rök)

Gengisfall er af hinu góða

  • Við gengisfallið verða allar erlendar vörur svo dýrar að við getum ekki keypt þær lengur, við það lagast viðskiptahallinn (hann lagast fljótt og vel eins við höfum þegar séð - að auki er frábært þegar maður hefur ekki efni á að fara til útlands eða kaupa innflutta vöru og bílalánið hækkað um 30-40% á nokkrum vikum)

Verðbólga og minni kaupmáttur laga hlutina

  • Þegar verðbólgan hefur geisað í 1-2 ár - þetta 10-15% verðbólga á ári - þá hefur kaupmáttur launa dregist saman um 25-30% og það er kostur (bara augljós rök og maður gleðst ósegjanlega yfir kaupmáttarmissinum - Þá erum við komin með svipaðan kaupmátt og á Spáni - alltaf dreymt um að komast á spænsk laun og íslenskt verðlag - þvílíkur draumur í dós)
  • Þá lagast verðbólgan, því við eigum ekki lengur fyrir mat, húsnæðislánum eða bílalánum og eyðum þar af leiðandi engu ("nostalgían" blossar upp - blankheitin á námsárunum, æðislegir tímar)
  • Þá verða allir að selja húsið og bílinn eða sitja á skuldum, sem eru hærri en bílinn og húsið (enn meiri "nostalgía - maður er bara kominn í misgengis "eighties" fíling)
  • Við gætum ekki verið með okkar bullandi hagvöxt og þenslu upp á 8-9%, sem setur allt á annan endann hjá okkur (þessi tilfinning þegar við erum að sigra heiminn - "can´t beat that feeling!")

III. - Óáran, félagsleg vandamál í kjölfar ESB aðildar

Þensla/kreppa er rammíslensk - stöðugleiki "alla" ESB er eitthvað útlenskt, sem ber að forðast

  • Við gætum ekki verið með kreppu í kjölfar þenslunnar (í kreppum er yndisleg samstaða í þjóðfélaginu - allir skítblankir og maður plantar kartöflum, borðar núðlur og kaupir nautakjöt beint frá bóndanum - finnst ég vera sex ára og síldin horfin, allir til Svíþjóðar!)
  • Í kreppunni verður alltaf neikvæður hagvöxtur á Íslandi (enn meiri kreppa, gaman, gaman!)
  •  Þetta er gert til að ná þenslunni niður í 2-4%, sem er talinn "ideal" hagvöxtur meðal allra siðmenntaðra þjóða (auðvitað þarf að koma þessu niður í eðlegan hagvöxt sem tíðkast annarsstaðar)
  • Þetta þenslu/kreppu ástand er æðislegt, það er rammíslenskt - jaðrar við að vera framsóknar-þjóðlegt - og því mjög ákjósanlegt (það hafa alltaf skipst á kreppu- og þensluskeið á Íslandi og þetta er náttúrulögmál, sem ástæðulaust er að breyta)
  • Að vera með 2-4 jafnan hagvöxt er útlenskt og hræðilega hættulegt rammíslenskri þjóðarsál, sem þrífst á spennunni, sem fylgir þenslu/kreppu ástandinu (ég vil ekki útlenskan hugsunarhátt - reyndar kominn í smá "konflikt", er ekki samkvæmur sjálfum mér, en hvað með það - ef Seðlabankinn getur verið ósamkvæmur sjálfum sér og viljað 2-4% hagvöxt - sambærilegan ESB hagvexti - en vill samt ekki evru eða ESB get ég það líka)

Þensla/kreppa er fjölskylduvæn stefna  og stuðlar að því að búa til "ofurviðskiptamenn"

  • Það er frábært að vera Íslendingur, vinna í 2-3 ár í 70 tíma á viku á meðan á þenslunni stendur og vera síðan atvinnulaus í kreppunni næstu 2-3 ár og vinna ekki neitt (sjá ekki fjölskylduna í 2-3 ár og vera síðan heima atvinnulaus í 2-3 ár og ná þá að tengja aftur - frábært, eitthvað svo íslenskt og æðislegt!)
  • Þetta þensla/kreppa er auðvitað þjóðhagslega hagkvæmt, því þá fara skussarnir á hausinn (það þarf að hreinsa til í þjóðfélaginu af og til, svona höfum við búið til algjöra snillinga í rekstri og yfirtekið heiminn - dæmi: Marel, Heimsferðir o.fl. - fólk lærir á að fara á hausinn og skipta um kennitölur - lærir reyndar "the hard way" en svona erum við Íslendingar nú einu sinni ...)

Það er reyndar sannleikskorn í öllum rökum, sem er talin upp hér að framan. Og flest eiga þessi atriði við um nær öll ríki Evrópu. ESB og ríki Evrópu eru í "djúpum" skít og þurfa að taka sig saman í andlitinu og staðreynd er að eiginlega öll ríki Evrópu eru fátækari en við.

En löndin eru samt gjörólík. Hvað er t.d. líkt með efnahagsmálum eða löggjöf Svíþjóðar og Portúgal eða Tékklands og Hollands eða Lúxemborgar og Póllands. Þrátt fyrir að ég þekki ekki löggjöf allra þessara ríkja eða efnahagsmál til hlítar, veit ég að ESB ríkin eru aðeins með sameiginlega löggjöf að hluta til, þótt þeim málaflokkum fjölgi stöðugt. Ég veit einnig að mikið svigrúm er fyrir aðildarríkin til að setja sína eigin löggjöf til viðbótar og hafa þannig áhrif á gang mála innan sinna landamæra. Þjóðþingin eru ekki gjörsamlega valdalaus og ofurseld Brussel valdinu, líkt og margir hér vilja halda fram. Ég veit einnig að ekki er allt gott, sem kemur frá Brussel og að aðildinni fylgja ekki bara kostir. En er allt gott hjá okkur sjálfum og fylgja því ekki einnig gallar að vera ekki innan ESB?

Það sem ég þó get ekki séð fyrir mér er að allar þessar Grýlusögur ESB andstæðinga - sem eru taldar upp hér að neðan - séu sannar. Mér finnst lygarnar og ýkjurnar jafnslæmar, hvort sem þær koma frá fylgjendum eða andstæðingum ESB aðildar:

Barneignir og ellilífeyrisþegar

  • Innan ESB fæðast engin börn (Íslendingar vilja eignast börn og helst áður en þeir eru búnir í námi, síðan er best að basla í nokkur ár og sjá helst ekki börnin fyrr en um fermingu eða jafnvel þegar þau eru gift - síðan erum við bara góð við barnabörnin í staðinn)
  • Íslendingar verða annaðhvort steingeldir eða hætta eignast börn daginn eftir inngöngu í ESB (kemur einhver frá ESB og vanar alla Íslendinga eða er hugsanlega um einhvern ESB faraldur eða sótt að ræða, sem veldur þessu?)
  • Meðalaldur hér á landi hækkar um 10-15 ár daginn eftir að við göngum í ESB (hefur ESB yfir tímavél að ráða?)
  • ESB er hálfgert gamalmennahæli (Við höfum ekkert gamalt fólk af því að við puðum fram á grafarbakkann og erum því alltaf ung)
  • Vegna gamalmennanna og skorts á börnum eru lífeyriskerfi ESB á hausnum, þar sem enginn er til að borga í sjóðina. Hér er nóg af ungu fólki hér til að borga í sjóðina og það þarf að borga fyrir gamalmenn í ESB. (Þeir þjóðnýta íslensku lífeyrissjóðina um leið og við förum inn í ESB og sama myndi gerast með norska olíusjóðinn - líklegt?)
  • Við verðum þvinguð af ESB til að gefa lífeyriskerfið upp á bátinn (verðum við neydd til að gefa þeim innistæðuna í lífeyrissjóðunum og bannað að spara í lífeyrissjóði?)

Atvinnuleysi eykst

  • Við verðum neydd til að taka upp vinnulöggjöf, sem aðeins sumar ESB þjóðir hafa, og önnur ESB ríki eru að reyna að losa um breyta (órökrétt, ef þjóðirnar með slæmu löggjöfina eru að reyna að laga hana í átt að okkar og við verðum að breyta henni í átt til þess, sem hún var hjá þeim!)
  • Hér skellur á krónískt 10-15% atvinnuleysi yfir nótt (kemur ESB löggan og lokar fyrirtækjum hér og bannar fólki að vinna og setja upp fyrirtæki?)
  • Sambandið er með 10% atvinnuleysi vegna of hárra skatta of hárra atvinnuleysisbóta og of góðs félagslegs kerfis (gerist ekki hér, allavega ekki fyrr en í haust og þá er það íslenskt atvinnuleysi og kreppa en ekki ESB atvinnuleysi vegna stöðugleika, þarna er auðvitað gjörsamlega ólíku saman að jafna - annars vegar þjóðleg íslensk kreppa og hins vegar útlensk kreppa)
  • Sambandið er með úrelta vinnulöggjöf (við viljum geta rekið alla án ástæðu og ráðið son okkar eða frænda í staðinn - gamla ættarsamfélagið og svona réttlæti skilja Evrópubúar ekki)

Frumkvæði minnkar, skattar hækka og allir fara á félagslega kerfið

  • Frumkvæði Íslendinga og dugnaður minnkar (verða allir Íslendingar settir á geðlyf og geldir andlega af yfirlæknum ESB?)
  • Við verðum þvingaðir til að hækka skatta (það hefur aldrei tekist að ná samkomulagi um eina sameiginlega skattastefnu innan ESB, þótt sumar þjóðir vilji það - ákveður ESB að taka upp sameiginlega skattastefnu af því að við göngum í sambandið? - höfum við svona mikil áhrif?)
  • Við verðum þvingaðir til að taka upp félagslegt kerfi að hætti Dana og Svía, sem eru ekki til staðar í nema örfáum ríkja ESB (hvað með meirihluta ríkja ESB, sem eru með lélegra félagslegt kerfi en við, verða þau einnig að taka upp skandinavíska félagslega kerfið?)
  • Íslendingar verða húðlatir og fara allir á "sósíalinn" og mergsjúga félagslega kerfið (verður gerð á okkur heilaaðgerð eða hvernig á að breyta okkur á þennan hátt?)
  • Sambandið er með mikið hærri skatt en við (aðeins Danmörk er með hærra virðisaukaskattsstig en við - 25% - samt tekst þeim að vera með 25% lægra matvöruverð en við og þessu tökum við eins og hverju öðru hundsbiti)
  • allt of stórt félagslegt kerfi er innan ESB, sem tugir atvinnulausra evrópskra letingja mergsygju (þolum ekki leti - eru virkilega svona góð kerfi í austurhluta Evrópu eða í Portúgal, Spáni, Ítalíu og Grikklandi? Held ekki)

Útlendingamál 

  • Við yrðum neyddir til að hleypa inn fleiri útlendingum en við höfum gert (erum þegar ekki þegar hluti af sameiginlegum vinnumarkaði í gegnum EES og hafa útlendingar ekki þegar "flætt" inn í landið að okkar ósk?)
  • Sambandið hefur tekið upp á arma sína 100 milljónir þurfalinga í austurhluta Evrópu (erum á móti fátækum útlendingum - viljum ekki hjálpa þjóðum til sjálfshjálpar, jafnvel þótt þetta verði síðar öflugir markaðir fyrir okkar vörur)
  • Fleiri þurfalingar eru á leiðinni inn í ESB - Tyrklandi og Úkraína (viljum ekki samskipti við heiðingja og "wannabe" Evrópubúa, sem eru í raun Rússar!)

IV. - Niðurstaða

Ég hef ekki ákveðið mig enn, en það þarf að finna betri rök en þetta til að sannfæra mig. Og það gildir einnig um Samtök Iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Samtök stórkaupmanna og 60% þjóðarinnar - það er ljóst!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband