Sjálfstæðismenn með sjálfstæða hugsun - Bjarni Ben og Illugi Gunnars

Það tók mig nokkurn tíma að melta þá frétt að tveir þingmenn, Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, hafi komið fram á þann hátt, sem þeir gerðu í dag og gagnrýnt stefnu ríkisstjórnarinnar, Seðlabankann og þar með okkar gamla formann Davíð Oddsson.

Þetta var djarfmannlegt og tek ég ofan fyrir þeim fyrir að hafa gert þetta, því þessu höfum við sjálfstæðismenn því miður ekki átt að venjast undanfarna áratugi. Loksins eru komnir fram ungir sjálfstæðismenn, sem þora að taka afstöðu og þora að segja sannleikann. Slíkir menn eru til forystu fallnir, en ekki þeir sem eru viljalausir málafylgjumenn annarra á þingi svo árum eða áratugum skiptir. Að ekki sé talað um copy/paste þingmennina, sem ekki hefur verið hægt að þverfóta fyrir á þingi síðustu árin. Nei, við þurfum þor og ferska nýja hugsun í Sjálfstæðisflokknum og hér virðist eitthvað slíkt vera að fæðast. Við þurfum að hrista af okkur klafa fortíðarinnar og endurnýja hina klassísku sýn hægri manna í landinu. Það þýðir ekki að koma fram áratug eftir áratug með sömu stefnumálin, sem flest öll eru hvort eð er komin í framkvæmd.

Fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins mættu hafa manndóm í sér til að gera slíkt hið sama, t.d. þegar málefni eru rædd, sem varða þeirra kjördæmi miklu. Það sem við Reyknesingar höfum mátt sjá er að okkar þingmenn taka gagnrýnislaust við öllum þeim þvættingi, sem ráðherrar henda í þá,  án þess svo mikið sem að líta á það eða reyna að hafa á þeim hlutum sjálfstæða skoðun. Þetta aflar nýjum þingmönnum flokksins í kjördæminu ekki mikils trúverðugleika, það eitt er víst.

Þannig hefur lítið orðið úr því að eitthvað af þeim miklu peningum hafi skilað sér, sem hálfpartinn var lofað á Reykjanesið eftir að herinn fór. Ef ekki væri fyrir dugnað Árna Sigfússonar, og síðan auðvitað Norðurálsmanna sjálfra, væri ekki verið að taka grunninn fyrir nýju álveri í Helguvík þessa dagana. Ég hef allavega ekki haft á tilfinningunni að þingmenn kjördæmisins hafi komið mikið þar að verki nema með því að taka skóflustungu. Sömu sögu hefur verið að segja í mörgum öðrum þjóðþrifamálum á Suðurnesjum. Það er skömm frá því að segja að síðan að Hjálmar Árnason fór af þingi eiga Reyknesingar engan þingmann, engan öflunga málsvara lengur á Alþingi, nema ef vera skyldi Grétar Mar. Þingmenn Suðurlands og Vestmanneyja sýna Reykjanesinu því miður lítinn sem engan áhuga nema rétt fyrir kosningar, þrátt fyrir að Reyknesingar séu um 22.000 og 47% íbúa kjördæmisins.

Sumir munu eflaust halda því fram að flokksaginn sé nú fyrir bí, en ég held að það sé ekki rétt. Reyndar líkar mér afspyrnuilla við þetta orð, flokksagi. Þingmenn eru einungis bundnir af sannfæringu sinni, sbr. 48. gr. stjórnarskrárinnar, og því á agi afskaplega illa við þegar talað er um þingmenn.Það þýðir ekki að þingmenn séu að snú bakinu við flokknum sínum, þótt þeir séu ósammála í stöku máli eða ósammála um leiðir að lausnum í sumum málum. Ef þingmenn eru hins vegar ósammála um markmið þurfa forystumenn flokkanna að fara að hafa áhyggjur. Það er ekki svo í þessu máli. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg Árnadóttir

Mér hefur fundist eins og Reykjanesið sé höndlað eins og það sé ekki hluti af Íslandi. Einhverra hluta vegna er allt í lagi að lofa öllu fögru fyrir kosningar og láta síðan eins og ekki þurfi að standa við neitt. Hingað til hefur það reyndar líka verið staðreynd - það hefur ekki þurft að standa við neitt!

Mikið er óskandi að einhver okkar þingmanna, sama hvar í flokki standa, muni fyrir hverja þeir voru kosnir á þing og fari að vinna fyrir þá!

Björg Árnadóttir, 23.7.2008 kl. 23:05

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Vindbelgur eða ekki vindbelgur, hann talar okkar máli og hver annar gerir það?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 24.7.2008 kl. 08:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband