Andri Snær, Björk, Bergur og Þórunn - þið reddið þessu!

Það er nú meiri gæfan fyrir þessa þjóð að bókin "Draumalandið - Sjálfshjálparbók handa hræddi þjóð" kom út fyrir tæpum tveimur árum eða svo. Oft var þörf á slíkri bók, en nú er hreinlega nauðsyn á slíkri lesningu og best væri að gera bókina að skyldulesningu í grunnskólum landsins.

Álverið á Bakka verður líklega ekki að veruleika og maður hefur á tilfinningunni að eitthvað bakslag sé komið í álverið í Helguvík. Það eru sem sagt engar stórframkvæmdir á döfinni hér næstu árin og ekki þarf að byggja neitt, því nóg er til af skrifstofu- og íbúðarhúsnæðinu um land allt og þá ekki síst núna þegar allir útlendingarnir eru að yfirgefa okkur.

Það misstu á þriðja þúsund manns vinnuna í hópuppsögnum um þessi mánaðarmót og ekki ólíklegt að 10-15.000 manns verði atvinnulaus á næstu mánuðum.

Nú er komið að ykkur, sem aðhyllist að fólki vinni við þetta "eitthvað annað", að finna fyrir allt þetta fólk vinnu! Með dyggri hjálp frá Andra Snæ, Þórunni, Björk og Bergi - sem ekki heldur eru par hrifin af álverum og eru með ráð undir rifi hverju - ætti ekki að vera vandamál að skapa 10.000 störf á nokkrum mánuðum og það án nokkurra fjárfestinga - hallelúja!

Nú er það ekki einungis heilsutengd ferðaþjónusta, tínsla fjallagrasa og hvalaskoðun, sem á að bjarga okkur, heldur er Samfylkingin komin fram með nýja töfralausn: "sprotastarfsemi". Hvað það nákvæmlega er skiptir ekki máli, en orðið sem slíkt er glæsilegt.

Ég er feginn að eiga svona mikið af stórgáfuðu vinstra fólki, sem hefur lausnina á takteinum og hefur efni á að hrekja burt héðan fjárfestingar og atvinnutækifæri fyrir þúsundir Íslendinga án þess að blikna.

Að vísu sér maður ekki að nokkur rök hnígi að því, að þetta fólk viti eitthvað hvað það er að tala um og komi einhverju fyrirtæki á stofn. Það er engu líkara en að það haldi að fyrirtæki verði skrifuð eða blogguð á legg án nokkurrar fjárfestingar. Þetta fólk þarf ekki að velta fyrir sér smáatriðum á borð við, hvort hlutirnir gangi upp sem viðskiptahugmyndir, séu arðbærir, þ.e.a.s. hvort hægt er að draga fram lífið á þeim! Það þarf heldur ekki að velta fyrir á hverju fólk á að lifa á meðan það er að koma undir sig fótunum. Eða hvort það henti því fólki, sem er að verða atvinnulaust, t.d. vegna menntunar þess, að vinna í því, sem þetta fólk er að stinga upp á.

 En líkt og ég segi: tækifærið er komið - spreytið ykkur!


mbl.is Dregur úr líkum á álveri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eftir að stjórnvöld trúuð á frjálshyggjuna hafa rústað efnahag þjóðarinnar er fátt til ráða. En eitt er að forðast stóriðju eins og heitan eldinn. Ég bendi á:

Tvö stærstu orkufyrirtæki Íslands skulda samtals 550 milljarða íslenskra króna. Af 70 milljarða útflutningstekjum Alcoa í Reyðarfirði fara 66 milljónir úr landi sem arður þessa erlenda auðhrings og til að borga niður skuldir Landsvirkjunar næstu 40 árin fyrir virkjunina. Alcoa þarf aðeins að borga 5% skatt af arði.

Vissulega eru umsvif í því fólgin að sprengja upp fjöll og gljúfur þessa lands, en einnig eru það umsvif að ganga um þessi sömu fjöll með ferðamenn og þjóna til borðs. Kannski þykja þau svo kerlingarleg að sveitarstjórnarmenn vilja ekki veðja á þau.

Ég óska Þingeyingum og landsmönnum öllum til hamingju með þessa frestun og vona að hún sé endanleg.

Ásdís Thoroddsen (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 14:07

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Ég hreint skil ekki Ásdís af hverju þú vilt ekki nýta þau tækifæri til atvinnuuppbyggingar sem gefast á meðan þau gefast. Hvað svo sem þau heita.

Ég skil ekki hvernig þú getur misboðið Þingeyingum með því að óska þeim til hamingju með áframhaldandi fólksfækkun.

Ég skil ekki hvernig þú getur nú, eins og staða mála er, óskað 1000 íslendingum til hamingju með það að þurfa að þiggja atvinnuleysisbætur á næstu árum í stað þess að vinna við að afla þjóðinni gjaldeyrir.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 3.11.2008 kl. 14:32

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég er mikill vinur lista og menninga og starfaði um langt skeið innan þess geira og kenni enn óperusöng.

Ég hef hins vegar alltaf áttað mig á því að hvort sem það var á tímum Medici ættarinnar eða í dag, þá þarf verðmætasköpun að standa undir list og menningu.

Það sem var svo gaman í Þýskalandi var að listamenn þar voru með þetta á hreinu, þ.e.a.s. þegar vel gekk í atvinnulífinu fóru meiri peningar í menninguna.

Íslenskir menningarvitar eru svo gjörsamlega veruleikafirrtir og úr tengslum við raunveruleikann og það er ljóður á þeirra ráði.

Við skulum sjá til hvað verður mikið sett í Kvikmyndasjóð á næsta ári. Mig rennur í grun að það verði sparað áður en gengið er á peninga til atvinnuleysisbóta, heilbrigðisþjónustu eða löggæslu.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 3.11.2008 kl. 14:38

4 identicon

Sæll Guðbjörn.  Her verða engin álver byggð á næstu árum og engin þörf fyrir þau hér, frekar en kjarnorkuver, til dæmis.   Eg er innilega sammála Ásdísi hér að framan. Nú þarf að vinna í því að hreinsa til og reyna að laga til eftir skemmdaverk nýfrjálshyggjunnar og óstjórn hins deyjandi flokks, Sjálfstæðisflokksins.   Það er svo mikil þröngsýni í ykkur hægri sinnum í atvinnumálum , eina sem kemst að eru eiturspúandi álbræðslur, sem ekkert skilja eftir í landinu, nema drulluna og skítinn úr sjálfum sér, svipað og Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir sig,  núna í dauðastríði sínu, þjóðarskuld, að jafnvirði 9 - 10 Kárahnjúkavirkjana!!

Nýir tímar eru að hefjast. Friðjón

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 19:13

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég tek þetta ekki persónulega - takið endilega við þrotabúinu ef þið haldið að þið getið gert þetta betur!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 3.11.2008 kl. 19:48

6 identicon

Auðvitað tökum við við og gerum betur, enda ekki um aðra að velja!!!!!

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 20:29

7 identicon

Sjálfstæðismenn, fjármálaeftirlit og graðir bankamenn eru búnir að setja þjóðina á hausinn ásamt rányrkju á íbúðamarkaði. Kárahnjúkavirkjun var hluti vandans og trigger þegar krónan styrktist og fyllti þjóðina af óraunhæfum væntingum um gróða sem verður aldrei í hendi og gerði mönnum kleift að skuldsetja íslensk fyrirtæki og fjárfesta erlendis á falskri krónu sem síðan varð grundvöllur enn frekari styrkingar og erlendra lána einstaklinga og síðan innflæðis erlendra verkamanna í græðgisvímu verktaka og sveitarstjórnarmanna undir algeru stjórnleysi stjórnvalda. Það þyrfti 1000 álver til að bæta tjónið. Öll starfsemi og viðskipti milli íslands og umheimsins hafa verið stöðvuð og viðskiptavild okkar í rúst. Ætlar þú virkilega að leggja árar í bát og saka nokkra einstaklinga sem hafa andæft græðginni um ástandið? Orkufyrirtækin eru gríðarlega skuldsett og hafa ekki bolmagn til frekari fjárfestinga, álverð hrapar í veröldinni.

M (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 22:17

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Á nú að fara að kenna blessaðri Kárahnúkavirkjun um darraðardansinn - ykkur er ekki viðbjargandi!

Staðreyndin er auðvitað sú að Reiðarál hefur bjargað Austfjörðum og álverið á Bakka hefði bjargað Norðausturlandi. Helguvík mun vonandi bjarga Reykjanesinu og Norðurál bjargaði Akranesi og nærliggjandi sveitarfélögum. Hafnarfjörður hefur notið tekna af álverinu í áratugi og stækkun þessi hefði bjargað þeim í gegnum kreppuna, sem þeir ganga í gegnum núna.

Hvar heldurðu að við Íslendingar værum núna ef við nytum ekki aukinna gjaldeyristekna af Reyðaráli?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 4.11.2008 kl. 09:14

9 identicon

Guðbjörn... þú móðgar Íslendinga með þessu tali þínu. Að þú skulir voga þér að gera svo lítið úr okkur, að þú skulir virkilega halda því fram að við værum ekki bara í ágætis málum vegna okkar eigin verðleika, ef ekki væri fyrir erlend stóriðjufyrirtæki sem hefðu "bjargað" okkur. Það væri réttast að kalla þig landráðamann, þvílíkt sem þú gerir lítið úr þjóð þinni, kúkar beinlínis á hana.

Björgvin (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 11:12

10 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ekki ætla ég að kalla Guðbjörn landráðamann en hans vegna ætla ég að vona að ranghugmyndirnar hafi ekki tekið sér varanlega bólfestu í kolli hans. Hann hæðist að Draumalandi Andra Snæs og öllu því fólki sem vill leita annarra leiða út úr vandanum en áframhaldandi lántökur (sem tæpast eru í boði) til þess eins að vörubílstjórar og gröfumenn geti haldið áfram að umbreyta landslagi til hins verra.

Halelúja! segir hann og fer með gamla frasann um "tínslu fjallagrasa" og "eitthvað annað" sem hann sjálfur afneitar með blinda augað á kíkinum. Guðbjörn trúir eins og margir samflokksmenn hans (kannski ekki svo margir lengur) á hina einu stóru lausn, að fá hingað alþjóðleg stórfyrirtæki sem græða á auðlindum landsins en skilja einhverja smápeninga eftir, væri ósanngjarnt að kalla það þjórfé?

Hvað sem öðru líður þá skapa fjallagrös verðmæti, atvinnu og útflutningstekjur og það er algjörlega óskiljanlegt að einhver hópur manna sé stöðugt að hæðast að fólki sem hefur byggt upp fyrirtæki eins og þetta. Guðbirni væri nær að leggja sér fjallagrös til munns og sjá hvort að heilastarfsemin braggast ekki fyrir bragðið.

Sigurður Hrellir, 4.11.2008 kl. 12:04

11 identicon

Góði Guðbjörn. Þið sjálfstæðismenn hafið því miður komið þjóðinni á vonarvöl. Þið verðið bara að viðurkenna það. Þið eigið og stýrið fjölmiðlunum og hakkið i þá sem dirfast að gagnrýna. Þið bjugguð til kerfið og ofsóttuð þá sem gagnrýndu. Þeir voru á móti öllu. Ef Steingrímur J. hefði verið við völd værum við í svipuðum málum og við vorum 1998 og enginn hefði þurft að bjarga okkur. Var lífið slæmt 1998? Semsagt bara íbúar í ágætri Skandinavíu og stærstu ruglin hefðu ekki átt sér stað heldur í besta falli hófleg stóriðjustefna og útflutningsgreinar hefðu vaxið. Bankarnir hefðu ekki verið seldir. Tekjur af álverum eru einkum laun starfsmanna. Það má ekki vanmeta þau en því miður eru engar útflutningstekjur af álverinu fyrir austan. Þú trúir kannski því sem þér er sagt, þið trúið öllu sem ykkur er sagt, en þeir sem hafa fengið að sjá tölurnar staðfesta að meira fer út til að greiða fyrir virkjunina heldur en kemur í kassann og því neikvætt gjaldeyrisstreymi og því bjargar þetta okkur alls ekki, ekki okkur, ekki krónunni ENGU. 400 menn fá laun, kannski 600 með afleiddum störfum - það er gott fyrir þá en nægir ekki heilli þjóð. En því miður þá hefurðu - eins og í svo mörgu - sem blindur sjálfstæðismaður sem styður flokk sem hefur sett þjóð sína á hausinn - í blindri hlýðni, gagnrýnislausri fylgni. Til að byggja Helguvík og Húsavík hefðu orkufyrirtækin þurft að skuldsetja sig sem nemur 500 milljörðum til viðbótar. Flokkurinn þinn eyðilagði krónuna og lánstraustið okkar. Fjármálaráðherrar þínir eyðilögðu Ísland og ekkert álver getur bjargað okkur. Ekki reyna að kenna Björk eða Bergi um að þjóð þín sé gjaldþrota. Það er rétt hjá þér. Álverin vilja ekki fjárfesta lengur enda fellur álverð. Þess vegna er EKKERT hægt að gera. EKKERT EKKERT. Ekkert getur bjargað okkar ef skuldir verða meiri en menntakerfið á ári, ef flokkurinn sem taldi að skattar væru sóun vegna þess að þeir færu bara í velferð og rugl - verða núna skattar sem fara í EKKERT. EKKERT EKKERT EKKERT. Nú skaltu gefast upp Guðbjörn og bloggaðu um EKKERT. Það sem Björk er að gera er rugl. Aðeins álver getur bjargað okkur segir þú en núna vilja þeir ekki fjárfesta og því blasir við: EKKERT. Til hamingju með EKKERT sjálfstæðismaður.

M (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 12:20

12 Smámynd: Jónas Jónasson

Ég bíð mjög spenntur eftir nýju hugmyndunum og tekningunum OG ennginn fær ENNÞÁ að vita hvað er!

NÚNA ALCOA B'UIN AÐ SL'A HEGUV'IK AF BORÐINU SÉRSTAKLEGA  VEGNA ÞESS AÐ UMHVERFISRÁÐHERRA ER MEÐ EITTHVAD ANNAD SEM KEMUR Í STAÐIN FYRIR ÁLVER.

NÚNA ER KOMIÐ AÐ ÞVÍ AÐ SAMFYLKINGIN KOMI MEÐ HUGMYNDIRNAR SÍNAR OG LEGGI ÞÆR Á BORÐIÐ.

ÞAU SKULU NÚ FÁ AD BYGGJA FAGRA ÍSLAND OG SKAFFA ATVINNU. 

Jónas Jónasson, 4.11.2008 kl. 13:19

13 Smámynd: Björg Árnadóttir

Jahérna.... umræðurnar hér að ofan sýnast mér vera skólabókadæmi um það sem mun EKKI bjarga þjóðinni né byggja okkur upp til framtíðar. Sleggjudómar og fordómar á báða bóga. Ekki gott.

Björg Árnadóttir, 4.11.2008 kl. 17:27

14 Smámynd: Heidi Strand

Tími nöktu konunnar er kominn. Neyðin kennir naktri konu að spinna.

Heidi Strand, 4.11.2008 kl. 20:29

15 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Guðbjörn.  

Manni blöskrar sá lygavefur  sem hér birtist varðandi stóriðju  Ásdís Thoroddsen ,,segir af þeim 70 milljörðum fara 66 milljarðar úr landi í gögnum umhverfisraðherra stendur eftir 31.15 milljarðar sem eftir eru í landinu.

Hinir sem á eftir koma eru ein og sami maðurinn hér er verið að blekkja.

Þeir sem vilja vitna í Andra Snæ tölfræðilega skulu minnast þess að hann fer mjög frjálslega með staðreyndir tölfræðilega en hefur það verið hrakið ofan í hann.

Smá grein sem birtist í Fjarðarpóstinum um þessi mál.

 Atvinna fyrir Hafnarfjörð, gjaldeyrir fyrir Ísland.



Nú er komið að Hafnfirðingum að taka ópólitíska ákvörðun um hag sinn, atvinnu sér til handa og bjarga heimilum sínum og stuðla að betri kjörum. Þeir andstæðingar sem hæst hrópuðu við síðustu kosningar sögðu að Hafnfirðingar þyrftu enga atvinnuuppbyggingu og að næga atvinnu væri að hafa um ókomin ár.


Ekki hafa:
Skemmtigarðurinn, Tívolíð né Dýragarðurinn sem Sól í Straumi ætlaði sér að koma á laggirnar og hafði uppi hugmyndir um í Hellahrauni og Kapelluhrauni í stað iðnfyrirtækja á svæðinu, enn litið dagsins ljós.

Hafnfirðingar verða að minnast þess að talsmaður Sólar í Straumi sagði að
" Best væri að flytja allan iðnað og alla starfsemi á svæðinu burt úr bænum til Þorlákshafnar.,,

Undirritaður spyr þá hvort Hafnfirðingar séu sammála Pétri.


Vilja Hafnfirðingar taka undir orð Péturs ?


Velkominn samdráttur


Skrifar Pétur Óskarsson formaður Sólar í Straumi 17/03/2008 á heimasíðu sína.


Heimild:
http://www.besserwisser.is/archives/57

Það eru góðir tímar á Íslandi
núna og langt síðan að svona byrlega hefur blásið fyrir neytendur og atvinnulíf. Þenslan sem hefur riðið hér húsum er í rénum og fyrir það getum við íbúar þessa lands
verið þak
klátir.

- Takk fyrir það.



Þannig á það líka að vera með byggingageirann. Annars skilst mér að þau íbúðarhús sem byggð hafa verið hér síðustu árin séu svo illa byggð að framundan sé mikið blómaskeið allra sem sinna viðgerðum og viðhaldi á húsnæði.
Ég spyr er gott að húseigendur þurfi að leggja í meiri kostnað ofan á skuldir ? Það hlakkar í Pétri
Og einhverju atvinnuleysi sem er hverju hagkerfi nauðsynlegt.


Til hamingju Ísland
.



Svo mörg voru þau orð.


Starfsfólk ÍSAL í Straumsvík og verktakar iðnfyrirtækja í Hafnarfirði standa nú fyrir undirskriftasöfnun hjá þeim sem vilja atvinnu fyrir Hafnarfjörð og gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Undirskriftum Hafnfirðinga er safnað vegna íbúakosninga um deiluskipulagið og að kosið verði á ný í bænum um það.
Framkvæmdin sem um ræðir er upp á um 1.7 til 1.8 milljarða $ eða 207 til 210 milljarða íslenskra króna. Af þeirri upphæð stendur eftir um 60% eða 120 til 130 milljarðar króna í þjóðarbúinu. Þess má geta til samanburðar að lán frá IMF til íslenska ríkisins nemur 2.0 milljörðum $ og er íslenska þjóðin þegar farin að súpa seiðið af því með stýrivaxtahækkun upp á 6 % sem þeytti stýrivöxtunum í 18%.


Ég bið því Hafnfirðinga að setja nöfn sín á undirskriftarlistann og biðja um atvinnuuppbyggingu í Hafnarfirði og aukinn gjaldeyri Íslandi til handa.



Sigurjón Vigfússon


Rauða Ljónið, 5.11.2008 kl. 20:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband