Vægir sá, sem vitið hefur meira?

Ljóst er að lögreglunni er mikill vandi á höndum, þegar öfgafólk á borð við það, sem gerði hróp og köll að þingmönnum í dag, veður uppi í þjóðfélaginu. Æstur múgur hefur í nokkrar vikur kastað eggjum að Alþingi og hefur komist upp með það nokkuð óáreitt af lögreglu. Það er því kannski ekki nema von, að "blessað" fólkið færi sig upp á skaftið.

Fyrir stuttu síðan gekk skríllinn svo langt, að ráðast inn í Seðlabankann og heimta að fá Davíð Oddsson, seðlabankastjóra, fyrrverandi forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, afhentan. Spurningin er, hvenær "eggjakokkteilarnir" verða að "mólotoff-kokkteilum" eða "hnullungum" og hvenær orð á borð við "Drullið ykkur út!" breytast í "fantaskap" af versta tagi, hvenær þetta fólk hreinlega æðir inn í Seðlabankann eða út í Skerjafjörð og tekur fólk af lífi án dóms og laga?

Ef stjórnvöld líta fram hjá þessum atburðum, sem "strákapörum", sem engu máli skipta, munu þessir "aktívistar" ekki aðeins halda uppteknum hætti, heldur færast allir í aukana. Grípi yfirvöld hins vegar til aðgerða gegn þessum lýð, mun hann einnig upplifa það sem hvatningu til að auka aðgerðir sínar.

Það er hins vegar krafa okkar - "hinna venjulega borgara" - að brugðist sé við slíkum "skrílslátum" af ábyrgð. Best er líklega að sína mildi og mikla sanngirni á vettvangi - líkt og lögreglan hefur gert til þessa - en að ákæruvaldið beiti sér síðan af fullri hörku. Athyglisvert verður að sjá, hvernig dómstólar bregðast síðan við, en mín skoðun er að beita eigi fullri hörku laganna í dómum yfir þessum "rumpulýð".

Þolinmæði og miskunsemi eru miklar dyggðir og líklega er best að bregðast við "borgaralegri óhlýðni" með því að æsa leikinn ekki um of, en öllu eru þó takmörk sett og nú finnst mér að þeim mörkum sé náð!

Að mínu mati er það heigulsháttur, að bregðast ekki við lögbrotum sem þessum og það býður hreint og beint upp á frekari stigmögnun þessa ástands.


mbl.is Ólæti á þingpöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er mjög einföld og fljótleg leið til að stöðva allt eggjakast og aðrar þær aðgerðir sem bera vott um reiði. Hún er sú að ríkisstjórnin setji bankaráð Seðlabankans og stjórn fjármálaeftirlitsins af hið snarasta og segi svo af sér í eftirrétt.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 19:44

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Eva:

Þetta hefur því miður ekkert með það að gera.

Ég vil fá bankastjórn Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins í burtu, en mun aldrei kasta eggjum að Alþingi, draga sjóræningjafána þar að húni, krefjast þess að fá Davíð afhentan eða vera með skrílslæti á Alþingi.

Það eru mörk til og það var farið yfir þau í dag!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 8.12.2008 kl. 19:51

3 identicon

Sammála þér Guðbjörn en þú Eva ég veit ekki hver þú ert en siðmenntuð ertu sennilega ekki.

Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 20:01

4 identicon

Ég veit í raun og veru ekki hvað er að gerast .  En eitt veit ég ef ég væri yngri og tápmeiri, þá, þá  fengju ekki þessir stjórnmálamenn að kemba hærurnar, alla vega ekki í þinghelgi. Þetta  fólk , sem ekki einu sinni kann að skammast sín það á skilið að,  og það vil ég ekki segja..........   Íslendingar látið ekki bjóða ykkur þetta.

j.a. (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 20:13

5 Smámynd: Heidi Strand

Við höfum sömu markmið en mismunandi leiðir. Við viljum burt með spillinguna!
Ég veit ekki hvað við getum gert til að losna við þeirra sem bera ábyrgð á þjóðargjaldþrotið, en ég sé enga aðra leið en að mótmæla.

Ég skil vel reiðin í unga fólkið sem skuldirnar munu erfa.

 

Heidi Strand, 8.12.2008 kl. 20:21

6 Smámynd: haraldurhar

    Guðbjörn í einni góðri bók stendur:  Með lögum skal land byggja, en ólögum eyða.   Það er ekki undra  eftir að þingheimur hefur sett á slík ólög og gerst hefur á sl. vikum að næturlagi, þó einhverjum bresti þolinmæðinn að núverandi stjórnvöld játi vanmátt sinn, og fari frá ásamt nokkrum tugum embættismanna. Eg á í vandræðum með að nota orðið skríll hvort sem á við ungt fólk er mótmælir hegðun núverandi valdhafa, eða hvort á að nota nafið yfir valdhafana.

haraldurhar, 8.12.2008 kl. 20:26

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

j.a.:

Það verður gaman að sjá, hvort þið sem ákallið ofbeldi og skemmdarverk, verðið jafn stolt þegar málin fara úr böndunum.

Ég spyr, hvort þið hafi einnig samúð með þeim hryðjuverkum, sem framin hafa verið undanfarin ár á Vesturlöndum? 

Heidi:

Já, ég vil burt með spillingarliðið, en ég er ekki til í hvaða aðferðir sem er til að ná því markmiði.

Eins held ég að margir verði hissa, þegar í ljós kemur hverjir stóðu hvað mest að baki þessari spillingu og hvar hún átti sér stað.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 8.12.2008 kl. 20:29

8 identicon

Kæri Guðbjörn ! ! !    Ég er alls ekki að kalla fram ofbeldi eða skemmdarverk, það er eins langt frá mér og skakki turninn í Písa.  En ef turninn fellur , hvað þá?

j.a. (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 21:34

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

ja.:

Gott mál!

Maður verður að athuga að:

Orð og gjörðum fylgir ábyrgð - þótt maður sé ungur og "vitlaus"! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 8.12.2008 kl. 22:21

10 identicon

jújú, vissulega var farið yfir mörkin í dag en hvað er til bragðs þegar einu viðbrögðin við mótmælunum eru á þann veg að þeim sem mótmælin beinast að keppast við að gera lítið úr þessum aðgerðum almúgans. Ekki að það réttlæti þá framkomu sem viðhöfð var í dag en er þó við öðru að búast eftir allan þennan tíma, án þess að hlustað sé á fólkið að þetta fari að fara úr böndum. Það er mín von að menn fari að axla ábyrgð, þó ég eigi nú bágt með að trúa að svo verði, og þá er kannski von til þess að mótmælin verði byggð á málefnalegum grunni, þ.e ef þeir sem axla eiga ábyrgð gera svo og fagfólki og sérfræðingum verður hleypt að borðinu. :(:)

:) (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 22:21

11 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

:) (IP-tala skrá) 8.12.2008 kl. 22:21:

Ég er svo hjartanlega sammála þér, að auðvitað verða þeir aðilar, sem ábyrgð bera að axla ábyrgð.

Því miður er ekki enn ljóst, hver ber í raun ábyrgð á þessu stærsta klúðri okkar frá örófi alda!

Finnst þér ekki skrítið að Geir H. Haarde og fleiri sjálfstæðismenn hafa ekki talað mjög mikið um ábyrgð og ekki heldur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og hennar samstarfsmenn. Það er helst að Össur Skarphéðinsson rífi kjaft! Er þetta ekki skrítið?

Einu sjálfstæðismennirnir sem "grátbiðja" um rannsókn á þessu máli eru:

Davíð Oddsson

&

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Guðbjörn Guðbjörnsson, 8.12.2008 kl. 22:36

12 identicon

"Það verður gaman að sjá, hvort þið sem ákallið ofbeldi og skemmdarverk, verðið jafn stolt þegar málin fara úr böndunum.

Ég spyr, hvort þið hafi einnig samúð með þeim hryðjuverkum, sem framin hafa verið undanfarin ár á Vesturlöndum? "

 Guð minn góður, það að þú skulir líkja þessu við hryðjuverk sýnir nú bara hversu fáfróður þú ert í raun og veru. Fólkið í landinu byrjaði mótmælin friðsamlega (fyrir utan nokkur rotin epli sem má alltaf finna) og það er búið að reyna friðsamlegu leiðina aftur og aftur. Ríkisstjórnin lætur ekki segjast og ákveður í staðinn að fela sig úti í horni í þeirri von að fólkið hætti. Þetta verður auðvitað til þess að fólk leitar nýrra leiða (ekki það að mér þyki eggjakast gáfuleg leið). Það þýðir samt EKKI að fólk sem er tilbúið að henda eggjum í alþingishúsið fari bara sísvona yfir í molotov cocktail. Þetta er svo mikil fjarstæða, ég kemst ekki yfir það hvað þetta eru barnaleg skrif hjá þér. Þetta er VENJULEGT FÓLK eins og þú og ég, eini munurinn er að þau misstu aleiguna, komið illa út úr óförunum sem hafa dunið yfir okkur eða þykir vænt um einhvern sem hefur lent mjög illa í því.

 Ég er viss um að ef þú hefðir misst húsið, bílinn, alla peningana (fólk er búið að missa nákomna sem hafa framið sjálfsmorð eftir hörmungarnar) að þá væri þetta aumkunarverða blogg eitthvað öðrvísi uppsett hjá þér.

 Mér fannst vera frekar mikill Sjálfstæðisfnykur af þessum skrifum hjá þér og kom það mér ekki að óvart að finna út hversu "gallharður stuðningsmaður Davíðs" þú sért. Fannst þér ekkert vert að minnast á að:

"Ég hef verið sjálfstæðismaður frá unglingsárunum" 

"Ég var gallharður stuðningsmaður Davíðs"

"Nú styð ég að sjálfsögðu minn formann og varaformann dyggilega, en er jafnframt mikill stuðningsmaður Björns Bjarnasonar og síðan auðvitað míns þingmanns, Árna Mathiesen, og bæjarstjórans míns Árna Sigfússonar."

"auk þess sem ég sit í stjórn sjálfstæðisfélagsins Njarðvíkings og í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ."

 ?

Óli Tómas (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 01:46

13 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Óli Tómas:

Þú blessar lögbrot og skemmdarverk og blessar eflaust ofbeldi þessa fólks í þinghúsi okkar, sem rétt landsmanna til að mótmæla?

Þér finnst eflaust einnig í lagi að brjótast inn á lögreglustöðvar og hrækja framan í lögreglumenn eða grýta þá!

Ertu ekki bara einn af þessu fólki, sem er að hafa sig í frammi og notar ástandið til að fá útrás fyrir neikvæðni sína, skemmdarfýsn og þorsta eftir ofbeldi. Hvaða möguleg önnur ástæða er fyrir því að þú skrifar ekki undir fullu nafni?

Má ég minna á að það fólk, sem situr þar er kosið af okkur landsmönnum í lýðræðislegum og löglegum kosningum og það ekki fyrir löngu síðan!

Þér finnst færslan mín barnalega og er það þinn góði réttur!

Já, ég hef til þessa verið góður og gildur sjálfstæðismaður, en að ég sé Davíð, Þorsteins, Geirs eða Þorgerðar Katrínar maður - það er af og frá!

Hins vegar studdi ég Davíð lengi vel og dáðist og dáist af honum sem stjórnmálamanni. Hins vegar er ég ekki hrifinn af honum sem seðlabankastjóra.

Skorrdal:

Áttu við mig eða Óla Tómas eða er ég kannski og heimskur til að skilja þessa djúpspeki þína?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 9.12.2008 kl. 07:54

14 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Félagi Guðbjörn.

Það er ljóst að þessar hertu aðgerðir mómælenda eiga ekki upp á pallborðið hjá þér og að þú sérð hæglega fyrir þér stigmögnun þeirra ef ekki er gripið í taumana. Friðsamleg mótmæli sem ekki bera árangur verða að borgaralegri óhlýðni, borgaraleg óhlýðni að ofbeldisaðgerðum, ofbeldisaðgerðir að skærum og skærur að borgarastyrjöld. Þetta leiðir þá hugann að því hvort fyrsta stigið; friðsamleg mótmæli, eigi þá nokkurn rétt á sér yfirleitt.

Þegar að ríkjandi stjórnvöld virðast engu skeyta um mótmæli fólksins (það kom fram í fréttum að nýleg skoðanakönnun sýndi að 90% þjóðarinnar taldi að þau væru réttlætanleg) og sitja sem fastast, neita að mynda þjóðstjórn (eins og meira að segja Davíð Oddson lagði til), hver eru þá úrræði almennings? Hvað með "þolinmæði og miskunnsemi" hins almenna borgara þegar kemur að spillingu og ótrúlegri handvömm stjórnvalda sem engin endir virðist vera á eins og lýsir sér best með skipun sömu aðila til að rannsaka spillinguna og skrifuðu upp á lögmæti hennar? Spurningin er sem sagt sú, um leið og þú fordæmir þessar "róttæku" aðgerðir, hvað leggur þú til að verði gert til að knýja fram viðunandi aðgerðir að hálfu stjórnvalda til að mæta að mér skilst þínum eigin kröfum og 90% þjóðarinnar sem styðja mótmælin.

Svanur Gísli Þorkelsson, 9.12.2008 kl. 11:38

15 identicon

Það er nú eitt sem mig langar að vita, og væri ágætt ef einhver gæti svarað mér? Hvaða spillingu er verið að tala um, og hvernig kom þessi spilling okkur í þetta ástand sem við erum núna í? Er verið að tala um ráðningu Davíðs sem seðlabankastjóra? Er það þessi spilling sem allir eru að tala um?

Jóhannes (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 12:56

16 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Svanur Gísli:

Stór er spurt. Ég skil gremju fólks og að það vilji kosningar. Ég er líka reiður og vil fá kosningar eins fljótt og mögulegt er. Ég sé ekki fyrir mér að það myndi bæta ástandi núna að halda kosningar. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að skoða eigi að halda kosningar seint í vor eða enn betra, næsta haust!

Já, ég sé eiginlega stigmögnun mótmælanna, hvað sem er gert! Ég vil að stjórn Seðlabankans segi af sér og stjórn Fjármálaeftirlitsins, en einungis ef þetta fólk hefur virkilega gert eitthvað af sér. Þetta verður að rannsaka og því miður hefur ekki enn verið byrjað að gera það af neinu viti. Það er auðvitað forgangsmála í þessu öllu saman, þ.e.a.s. að rannsaka hvað raunverulega gerðist, en ekki að hengja bara þá sem við höldum að hafi eitthvað gert af sér.

Hversvegna mótmælir enginn fyrir fram höfuðstöðvar Baugs, Stoða, Björgúlfsfeðga, við bankana? Er þetta fólk kannski saklaust. Sannleikurinn er að það að verið er að nota þetta í pólitískum tilgangi og ég lái það engum, því til þess eru góðar ástæður.

Hversvegna talar enginn um Samfylkinguna og lofræður Ingibjargar Sólrúnar og Össurar um útrásina. Hversvegna rifjum við ekki upp orð forystufólks Samfylkingarinnar um það einelti, sem Jón Ásgeir og félagar voru lagðir í.

Dr. Jón Steinsson, prófessor við Columbia háskóla, líkti gjörðum Jóns Ásgeirs við þjófnað og sagði að slíkir menn væru leiddir út í handjárnum í Bandaríkjunum og Bretlandi. Rifjum upp hvað Samfylkingarfólkið sagði um þau réttarhöld!

Hvaða flokkur var sá eini, sem þorði að gagnrýna þessa pésa?

Það var Sjálfstæðisflokkurinn og VG en ekki Samfylkingin!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 9.12.2008 kl. 17:15

17 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jóhannes:

Fólk fer mjög frjálsleg með orðið spillingu þessa dagana.

Hitt er svo annað mál að það er spilling út um allt í íslensku þjóðfélagi og hefur alltaf verið.

Auðvitað var það pólitísk spilling að ráða Davíð Oddsson eða Steingrím Hermannsson eða Birgi Ísleif Gunnarsson eða einhvera aðra í stól seðlabankastjóra. En svona hefur þetta verið gert alla tíð hér á landi og víða annarsstaðar. Þarna eru kratarnir og frammararnir engu betri en aðrir. VG og Frjálslyndir hafa aldrei verið við kjötkatlana og því lítil reynsla af þeim. Frjálslyndir - eða hvað þeir nú hétu - voru við völd hér í borginni í nokkra daga og slógu Íslandsmet í pólitískri spillingu!

Það er sama rassgatið undir þeim öllum í þessum málum, mínum mönnum sem ykkar, hér á landi sem í útlöndum!

Þegar ég er að tala um spillingu, þá er það eitthvað sem ekki er upp á yfirborðinu, því það er versta spillingin og þar er hún langmest. Hvaða tengingar voru á milli Exista, KB banka og Framsóknarflokksins, Baugs og Samfylkingarinnar, Landsbankans og Sjálfstæðisflokksins o.s.frv. Þetta er ekki helmingaskiptaregla, heldur þriðjungsskiptaregla.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 9.12.2008 kl. 17:24

18 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Nei, ég tek þetta ekki til mín - síður en svo.

Auðvitað snýst þetta einnig um ráðningar einstakra embættismanna. Ég er alveg sammála þér að sumir virðast hafa notið tengsla eða réttra tenginga þegar þeir hafa fengið stöður. Ég býst við að skoðanir fólks hafi þar einnig spilað inn í. Skipulegar árásir á gagnrýnisraddir hafa verið framkvæmdar af vinstra fólki jafnt sem hægra fólki. Besta dæmið um það var þegar fjölmiðlamálið svokallaða var gert tortryggilegt. Nú sjáum við afleiðingar óhefts frelsis á fjölmiðlamarkaði.

Ég er ekki sammála þér að best væri að kjósa alla embættismenn. Það er meiri hætta á spillingu og lýðskrumi þegar kosið er um slíkar stöður. Það er nóg að búa við lýðskrumið og kosningaloforðin í kringum stjórnmálamenn. Hvernig tæki kjörinn lögreglustjóri á málum við Alþingishúsið? Hann myndi fyrst hugsa með sér hvað sé líklegt til vinsælda. Hvað hefði lögreglustjóri gert varðandi Seðlabankann. Hefði hann leyft fólkinu að ná í Davíð og lúberja hann? Það hefði hugsanlega verið vinsælt meðal kjósenda!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 9.12.2008 kl. 19:02

19 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Reyndar voru efstu menn F listans sem sátu í borgarstjórn meðlimir í Íslandshreyfingunni Grænu framboði, en ekki F listanum.Það er samt ekki málið, flokkakerfið hefur greinilega liðið undir lok. Ég veit ekki hvern þessara fávitaflokka ég ætti að kjósa því þeir fáu sem mér finnst eitthvað varið í eru dreyfðir milli nokkurra flokka...

...ég vil geta kosið einstaklingana.


En.

Minna um smáatriði þeirrar algjöru yfirhalningar sem þetta land þarf. Það þarf að moka úr þessu maðkétna spillingar og einkavinavæðingarfjósi því ekki ætla sitjandi valdhafar að bjarga þessu.

Þessar aðgerðir eru ekki ofbeldi, en láir þú fólki fyrir að bíta frá sér þegar valdi er beitt til þess að meina því að nýta lýðræðislegan rétt sinn til táknrænna aðgerða? Það gerðu sér allir grein fyrir því að þessi aðgerð yrði ekki kornið sem fyllti mælinn, en er ekki kominn tími til að Íslendingar vakni og fylgist betur með hvað er að gerast í landinu?

ÓÚTFYLLTUR TÉKKI HEFUR VERIÐ AFHENTUR RÍKISSTJÓRN LANDSINS AF ALÞINGI VEGNA ICESAVE MÁLSINS: ÞAÐ ÞÝÐIR AÐ HVERT BARN SEM FÆÐIST Í DAG Á ÍSLANDI ER SJÁLFKRAFA STÓRSKULDUGT!

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 9.12.2008 kl. 19:14

20 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Og þú dirfist að lá ungu fólki það að mótmæla því að þetta sé merki um það sem koma skal; þrælkun þjóðarinnar, okkar sjálfra og barnana okkar...

...er þér sama um komandi kynslóðir?

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 9.12.2008 kl. 19:16

21 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

J. Einar Valur Bjarnason Maack:

Þar sem stjórnvöld - Fjármálaeftirlitið, Seðlabanki, forsætis- og viðskiptaráðuneyti - brugðust algjörlega í eftirlitshlutverki sínu eru okkur allar bjargir bannaðar og við neyðumst til að borga þessar innistæður. Mér skilst að þegar búið er að selja eignir Landsbankans, séu þetta um 100 milljarðar króna, sem eru engin smámynt en samt skárra en 400 milljarðar. Auðvitað þarf að rannsaka hvar eftirlitið brást og hverjir bera ábyrgð á því.

Ég veit ekki hvernig fólk almennt sér fyrir sér að við ættum að snú okkur í þessu máli? Ef við neitum að borga er líklegt að öll 27 ríki ESB loki hreinlega sínum mörkuðum fyrir okkur. Á þessa markaði fer bróðurpartur okkar útflutnings og þaðan kemur bróðurpartur innflutningsins líka. Hvar eigum að fá lán og fyrirgreiðslu?

Við værum sett á sama stig og Kúba eða Norður-Kórea hefur verið undanfarna áratugi.

Auðvitað varð að láta ríkisstjórnina fá þennan "óútfyllta tékka"! Hvernig á hún annars að semja. Á hún kannski að hringja heim í hvert skipti sem eitthvað breytist í samningaviðræðunum og spyrja Alþingi um áframhaldandi leyfi. Slíkt gengur auðvitað ekki upp, það sjá allir heilvita menn.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 9.12.2008 kl. 22:32

22 identicon

"Þú blessar lögbrot og skemmdarverk og blessar eflaust ofbeldi þessa fólks í þinghúsi okkar, sem rétt landsmanna til að mótmæla?

Þér finnst eflaust einnig í lagi að brjótast inn á lögreglustöðvar og hrækja framan í lögreglumenn eða grýta þá!"

 Það sem gerir þig að HRÆÐILEGUM penna og rökræðara er tilhneiging þín til að leggja öðrum orð í munn. Ég sagðist aldrei blessa skemmdarverk eða ofbeldi og sagði aldrei að mér fyndist í lagi að brjótast inn á lögreglustöðvar og að það væri í lagi að hrækja á lögreglumenn og grýta þá. Þetta er allt uppspunnið í þínu höfði og ef þetta er það eina sem þú hefur til málanna að leggja, þá er ég ansi hræddur um að þinn málstaður sé ansi illa á sig kominn. Og svona til þess að útrýma öllum misskilning þá blessa ég EKKI neitt af þessu.

 "Ertu ekki bara einn af þessu fólki, sem er að hafa sig í frammi og notar ástandið til að fá útrás fyrir neikvæðni sína, skemmdarfýsn og þorsta eftir ofbeldi. Hvaða möguleg önnur ástæða er fyrir því að þú skrifar ekki undir fullu nafni?"

  Þetta á einmitt til að gerast þegar fólk á undir högg að sækja í rökræðum. Þú reynir að setja mig upp sem einhvern villimann sem er svo litaður að hann gæti ekki hugsanlega haft neitt jákvætt eða uppbyggjandi að segja. Þetta segir þú án þess að þekkja mig NEITT! Nú ertu ekki að leggja mér orð í munn, þú ert að leggja upp fyrir fólk minn persónuleika. Það fynda er að þú gæti ekki haft meira rangt fyrir þér, ég einmitt svo heppinn að ég og mín fjölskylda komum vel út úr þessum hörmungum og töpuðum litlu sem engu. Svo ekki sé talað um að ég hef ekki tekið þátt í mótmælunum sjálfur. Ég tel mig vera mjög jákvæðann, uppbyggilegann og er alltaf á móti ofbeldi.

Ég er ekki vanur að bæta athugasemdum við blogg hjá fólki sem ég þekki ekki (varð bara að gera það í þessu tilviki þar sem færslan þín er með þeim heimskulegustu sem ég hef lesið) og gerði mér bara hreinlega ekki grein fyrir þeirri "reglu" að það yrði að skrifa fullt nafn til þess að vera ekki kallaður illum nöfnum. Ég heiti semsagt Óli Tómas FREYSSON (ekki það að Óli Tómas hafi ekki verið nóg fyrir þig til þess að finna út hver ég er, það eru til tveir Óli Tómas í heiminum og hinn Ólinn er frændi minn). 

"Má ég minna á að það fólk, sem situr þar er kosið af okkur landsmönnum í lýðræðislegum og löglegum kosningum og það ekki fyrir löngu síðan!"

Þó svo að fólkið í landinu hafi kosið þá á þess að gera sér grein fyrir því að þetta lið væri í raun og veru ekki starfi sínu vaxið, þá þýðir það ekki að fólk megi ekki vera reitt og megi ekki heimta breytingar. Ef að sekur maður væri dæmdur saklaus en síðan kæmi sekt hans í ljós stuttu seinna þá fyndist mér ekki skrítið ef fórnarlamb hans myndi heimta að honum yrði samt sem áður refsað. 

Óli Tómas FREYSSON (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 15:45

23 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Skorrdal

Nei, nei, ég er í raun ekki viðkvæmur fyrir þessu að öðru!

Læt nú sumt vaða hér netinug og stundum þarf maður aðeins að stílfæra hlutina.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.12.2008 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband