24.1.2009 | 21:49
Förum að vilja þjóðarinnar og tökum til hendinni ...
Í raun virðast mér mótmælin til þessa hafa skilað frekar litlu, nema þá kannski að ýta undir undirliggjandi öldu óánægju í grasrót Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Þessi gífurlega ónægja í grasrót stjórnarflokkanna hefur í raun skilað mun meira en mótmælin. Það er í sjálfu sér ekki að undra, því stjórnmálamennirnir vita, að þeir geta ekki gengið gegn vilja grasrótarinnar nema í stuttan tíma og allra síst rétt fyrir Landsfundi eða hugsanlegar kosningar.
Ég vil þó leyfa mér að fullyrða, að þeir sem völdin hafa í flokkunum - og þó sérstaklega Sjálfstæðisflokknum - hafa löngu gleymt að þeir sækja í raun umboð sitt til okkar í grasrótinni. Á undanförnum dögum hefur Geir Hilmari Haarde orðið ljóst, að krafan um breytingar og endurnýjun á forystu flokksins var orðin svo hávær, að undan henni var ekki vikist. Geir og Þorgerður nutu einfaldlega ekki lengur stuðnings grasrótarinnar/landsfundarfulltrúa. Þegar við bættist, að Geir hafði veikst alvarlega, tók hann þá skynsamlegu ákvörðun, fyrir sjálfan sig og flokkinn, að bjóða sig ekki fram á Landsfundi flokksins.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og hennar stuðningsmenn áttuðu sig á því eftir fundinn í Þjóðleikhúskjallaranum, að stuðningur grasrótar Samfylkingarinnar við þetta stjórnarsamstarf var ekki lengur fyrir hendi. Ég get hins vegar ekki annað séð en að Ingibjörg Sólrún njóti fulls stuðnings innan síns flokks enda um frábæran forystumann að ræða.
Ef við skoðum nánar hversvegna forusta Sjálfstæðisflokksins nýtur ekki stuðnings og hversvegna stuðningur við ríkisstjórnarsamstarfið er nær algjörlega horfinn innan Samfylkingarinnar, er ljóst að ástæðurnar eru nákvæmlega þær sömu, þ.e.a.s. aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.
Hefði verið gripið til neðangreindra ráðstafana hefði stjórnin ekki einungis haldið velli, heldur að öllum líkindum notið stuðnings meirihluta þjóðarinnar:
- Tala hefði þurft til þjóðarinnar og útskýra á mannamáli hvað er á seyði
- Víkja hefði þurft úr embætti stjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits auk annarra spilltra embættismanna auk þess sem ráðherrar hefðu hugsanlega þurft að rýma sæti sín
- Kynna hefði þurft þjóðinni einfalda aðgerðaáætlun, hvernig hægt sé að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum í landinu
Á þessum einföldu atriðum klikkaði ríkisstjórnin gjörsamlega og því er hún búin að mála sig út í horn. Boða verður til kosninga, en að mínu mati er betra að kosningarnar verði snemma í haust en í vor. Ástæðurnar eru tímaskortur, t.d. vegna prófkjara, auk þess sem ný framboð hafa allt of lítinn tíma til að skipuleggja sig.
Ekki ætla ég að tala fyrir hönd Samfylkingarinnar - enda aðrir betri til þess - en fyrir hönd grasrótar Sjálfstæðisflokksins vil ég leyfa mér að fullyrða, að neðangreind atriði eru forsenda þess að við fáum sæmilega kosningu í komandi kosningum:
Skipta þarf út algjörlega forystu flokksins og inn þurfa að koma tiltölulega ferskir einstaklingar
Skýra þarf framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins og endurnýja verður stefnu flokksins í anda hinnar klassísku Sjálfstæðisstefnu
Endurnýja þarf þingflokkinn að stórum hluta í kosningum í vor og til þess þarf að halda prófkjör
Lofa þarf þjóðinni, að Sjálfstæðisflokkurinn styðji breytingar á stjórnarskránni í þá átt að skerpa á þrískiptingu ríkisvaldsins: auka vægi löggjafarvaldsins, efla aðhald dómsvalds og löggjafarvalds með framkvæmdavaldinu og auka sjálfstæði dómsvaldsins
Besta ríkisstjórnin fyrir þetta land væri ríkisstjórn skynseminnar, en það er að mínu mati ríkisstjórn endurnýjaðs Sjálfstæðisflokks og endurnýjaðs Framsóknarflokks. Því miður hafa yfirlýsingar nýkjörins formanns Framsóknarflokksins verið í þá átt að hann horfi meira til vinstri stjórnar. Það eigum við Sjálfstæðismenn að nota okkur á meðan við færum okkar flokk meira inn á miðjuna.
Slík stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks væri gjörsamlega ólík fyrri ríkistjórnum Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar - í sjálfu sér meiri miðjustjórn en hægri stjórn.
Það sem þjóðin ekki þarf er hrein vinstri stjórn Samfylkingar og VG, því þá ríkti hér algjör stöðnun næstu árin, atvinnuleysi og eymd.
Horfið yrði frá virkjunum og stóriðju og líklega farið að tillögum Hjörleifs Guttormssonar um friðun Drekasvæðisins. Það sem við þurfum hins vegar mest á að halda er einmitt að efla útflutninginn með öflugum sjávarútvegi, öflugri stóriðju, öflugum ferðaiðnaði og síðast en ekki síst öflugri sprotastarfsemi. Þessi uppskrift gengur þvert á stefnu VG og vinstri stjórnar.
Björn: Mikilvægt að búið sé að velja landsfundarfulltrúa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:16 | Facebook
Athugasemdir
Vona að ykkur veitist sú gæfa að standið á kröfunni um prófkjör og að þið veljið að skifta um forystu. Ég er vinstimaður sjálfur og mun aldrei kjósa ykkur en geri mér líka grein fyrir því að það er talsvert af hægrimönnum á Íslandi og þeir verða að hafa heiðarlega fulltrúa á þingi. Ekki gengur að fólki sé stillt upp við vegg með því að neyða það til að kjósa annaðhvort gegn stjórnmálaskoðunum sínum eða meðreiðarsveina glæpamannanna sem rændu hér öllu og rupluðu.
Ég óska ykkur því góðs gengis!
Héðinn Björnsson, 25.1.2009 kl. 00:16
Héðinn:
Algjörlega sammála þér. Vinstri- eða hægri - þessum málum gilda sömu lögmál, hvað varðar lýðræðislega kjörna fulltrúa okkar. Þeir verða að vera yfir allan vafa hafnir!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 25.1.2009 kl. 09:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.