Ástæða til að fá hjálp frá norskum rannsóknardómara

Ég tók daginn snemma og horfði aftur á síðasta hluta Silfur Egils. Ástæðan var að ég hreifst af viðtalinu við norsk/franska rannsóknardómarann Evu Joly. Eva talaði á sömu nótum og ég hef talað allt frá því haust eða að meintir efnahagsglæpir íslenskra auðjöfra kæmu aldrei fram nema yfirvöld beittu fullri hörku í rannsókninni. Hún tók svo sterkt til orða að gera þyrfti húsleitir hjá hinum grunuðu og einfaldar yfirheyrslu eða viðtöl  skiluðu  engum árangri.


Ég er algjörlega sammála Evu um að miðað við þær upplýsingar, sem fram eru komnar, sé í raun rökstuddur grunur um að efnahagsglæpir hafi átt sér stað. Hún sagði m.a. eitthvað á þá leið að í raun dygði að skoða lífsstíl þessara auðmanna og skoða síðan á móti tekjur þeirra og eignir og kanna hvort eitthvað samræmi sé þar á milli. Þetta eru auðvitaðar aðferðir sem ég þekki vel til og eru í raun svipaðar aðferðir og lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld nota í fíkniefnamálum eða málum sem tengjast peningaþvætti.

Eva bætti við að 20-30 manna rannsóknarteymi af kunnáttusömum rannsakendum á efnahagsbrotum dygðu til að réttlætið næði fram að ganga. Líkt og ég hef þráfaldlega haldið fram á öllum fundum Sjálfstæðisflokksins allt frá bankahruninu, sagði Eva að grundvallaratriði fyrir samfélagið og samfélagssáttmálann, væri að landsmenn hefðu á tilfinningunni að þetta land byggði ein þjóð og til að traust og sátt gæti myndast í þjóðfélaginu sé algjörlega nauðsynlegt að sannleikurinn komi í ljós, að öllum steinum sé velt við.

Ég tek heilshugar undir þessi orð Evu Joly og vil bæta við að þetta er ekki síður nauðsynlegt til að eyða allri óvissu fyrir þau hundruð og þúsundir algjörlega saklausra borgara, sem ekkert hafa annað til saka unnið en að standa í algjörlega löglegum viðskiptum undanfarin ár. Hinir, sem grunaðir eru um að hafa annaðhvort svikið undan skatti eða svikið fjármuni út úr bönkum, fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum, eiga hins vegar að hljóta sanngjarna málsmeðferð en stranga dóma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband