Viljirðu breytingar - kýstu mig!

Næsta laugardag, 14. mars, fer prófkjör okkar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi fram. Undanfarnar vikur hef ég gert víðreist um Suðukjördæmi en tilgangurinn var að kynna mig og stefnumál mín fyrir sjálfstæðismönnum. Ég óska eftir stuðningi þínum í 3. sæti í prófkjörinu.

Um áratuga skeið hef ég fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum og starfað fyrir hann, m.a. setið í stjórnum sjálfstæðisfélaga, í fulltrúaráðum og kjördæmisráðum. Að auki hef ég tekið virkan þátt í undirbúningi margra kosninga.

Stjórnmál snúast að mínu mati um að vinna ötullega fyrir sína umbjóðendur, almenning í landinu, bæta kjör og sjá til þess að allir hafi nóg að bíta og brenna. Þótt hlutverk þingmanna sé að sjálfsögðu að taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni, verða þingmenn að passa upp á fyrirgreiðslu í sínu kjördæmi. Þetta segi ég ekki síst því á næstu árum er viðbúið að höfuðborgarsvæðið verði frekt til fjárins. Mikilvægt er að passa vel upp á hagsmuni landsbyggðarinnar, að allir fjármunir sogist ekki í hítina í höfuðstaðnum. Ég heiti því að vinna verk mín vel og samviskusamlega og óttast ekki gagnrýni fyrir að ganga erinda míns fólks á Suðurlandi og Suðurnesjum.

Það verður að fara langt til baka í íslenskri sögu til að finna tíma, þar sem meiri ábyrgð og verkefni hafa verið lögð á stjórnamálamenn. Það sem við blasir er óþrjótandi vinna og erfiði við endurreisn efnahagslífsins eftir hrunið í haust. Þessa vinnu hræðist ég ekki, heldur hlakka ég til starfsins og er tilbúinn að fórna öllum tíma mínum og axla þá ábyrgð sem þarf. Á fundum mínum hef ég kynnt mínar áherslur og hugmyndir. Þessar hugmyndir sæki ég að mestu í grunngildi sjálfstæðisstefnunnar, sem staðið hefur fyrir sínu í 80 ár og mun gera það um ókomna tíma. Áherslur mínar og hugmyndir eru m.a.:

  • Uppgjör við fortíðina.
  • Endurreisn bankakerfisins – tryggja lánafyrirgreiðslu við atvinnuvegina.
  • Berjast gegn verðbólgu og sjá til þess að stýrivextir verði lækkaðir.
  • Lækka ríkisútgjöldin og ná þannig jafnvægi í ríkisrekstri.
  • Vernda hagsmuni heimilanna sem mest má.
  • Berjast gegn atvinnuleysi með aukinni atvinnusköpun.
  • Réttlætið nái fram að ganga, í sátt við kröfur almennings þar um.
  • Þá sem saklausir eru á að hefja yfir allan grun – þeir sem sekir gerðust eiga að hljóta réttláta og sanngjarna dóma.
  • Þá fjármuni, sem komið hefur verið undan í erlend skattaskjól eða sviknir voru út úr bönkum og fjármálastofnunum, á að færa aftur til landsins.
  • Endurskoða á kvótakerfið svo um það sé betri sátt.
  • Koma á í veg fyrir of miklar skuldbindingar Íslendinga í kjölfar Icesave-deilunnar.
  • Lágmarka á skattahækkanir, þótt tæpast verði hægt að útiloka slíkar ráðstafanir.
  • Lendi fyrirtæki tímabundið í höndum ríkisins á að koma þeim í einkarekstur um leið og viðunandi verð fæst fyrir þau. Vanda verður til sölu þessara fyrirtækja og tryggja fullkomið gagnsæi.
  • Tryggja þarf að slíkt hrun hendi aldrei aftur, m.a. með enduskoðun reglna um banka og fjármálastarfsemi og skattareglna.

Ég hvet þig, kjósandi góður, að kynna þér betur stefnumál mín á heimasíðu minni:

www.gudbjorn.is

Ég tel að víðtæk reynsla mín í fjölbreyttum störfum og menntun – bæði hér á landi og erlendis – gagnist mér vel á Alþingi og tryggi þar eðlilega fjölbreytni í þingmannaflóru Sjálfstæðisflokksins.

Ég finn að mörgum hugnast nú meir hin klassísku gildi sjálfstæðisstefnunnar, sem snúa að uppbyggingu fjölbreyttrar og frjálsrar atvinnustarfsemi, uppbyggingu einstaklinganna sjálfra, frelsi þeirra og þess krafts sem þá leysist úr læðingi. Jafnframt beinum við augum okkar meir í átt til þeirra samfélagslegu gilda sem einkenndu flokkinn og þeirrar ábyrgðar sem hvert okkar tekur á sig í samfélaginu, sem meðal annars felst í því að rétta þeim hjálparhönd sem minna mega sín og sýna samstöðu á erfiðum tímum sem þessum.

Undanfarnar vikur hef ég fundið fyrir miklum stuðningi og velvild í minn garð og þá ekki síður við stefnumál mín og er ég þakklátur fyrir það. Einnig vil ég þakka þeim fjölmörgu, sem stutt hafa við bakið á mér með ráð og dáð undanfarnar vikur.

Ég vonast eftir stuðningi þínum í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.


mbl.is Lítil hreyfing á fylgi flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband