Sjálfstæðismenn kjósa ekki breytingar

Ljóst er að flokksbundnir Sjálfstæðismenn kjósa ekki breytingar, en þetta segi ég m.t.t. til úrslitanna í Reykjavík og í Suðurkjördæmi. Ef við lítum fyrst til þingmanna í Reykjavík hefur það eitt gerst að nokkrir þingmenn hafa hætt og þeir sem fyrir voru hafa fært sig ofar á listanum. Endurnýjun er nákvæmlega engin.

Ef horft er til Suðurkjördæmis er ástandið aðeins betra þar, en þó ekki eins mikið þegar betur er að gáð. Ragnheiður Elín Árnadóttir hlaut afgerandi stuðning í 1. sætið og er það vel. Árni Johnsen fékk ekki 1. sætið líkt og hann óskaði eftir en hins vegar mjög góðan stuðning í 2. sætið. Árni Johnsen barðist eins og ljón og hann fékk það sem hann á skilið, hvorki meira né minna. Unnur Brá Konráðsdóttir tók 3. sætið og Íris Róbertsdóttir 4. sætið. Síðan fóru alþingismennirnir Kjartan Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir í 5. og 6. sætið.

Fyrir utan Íris, sem vissulega er ný á listanum, hafa hinir þingmennirnir einungis skipt um kjördæmi eða skipst á sætum á listanum. Árni Johnsen var í 3. sæti og færist í 2. sæti í prófkjörinu (sem hann reyndar var með í síðustu kosningum en tapaði vegna útstrikana), Ragnheiður Elín var í 9. þingsætinu í Kraganum og færði sig yfir í Suðurkjördæmi, þar sem hún fær vonandi 1. sæti í Alþingiskosningunum. Unnur Brá var 5. sæti í prófkjörinu síðast og færist upp í 3. sætið. Endurnýjunin, sem allir voru að tala um á tímabili, felst því einungis í að Íris Róbertsdóttir kemur ný inn. Þetta eru svipaðar breytingar og í síðustu kosningum þegar Árni Mathiesen kom úr 1. sæti í kraganum og sem fjármálaráðherra - áður Reykjaneskjördæmi, þar sem hann hafði haft 1. sætið frá 1999 - og tók 1. sætið hjá okkur. Björk komst í 4. sætið síðast og Kjartan færðist upp 2. sæti af því að Árni Johnsen var strikaður svo mikið út. Niðurstaða mín er því að endurnýjunin sé mjög svipuð og í venjulegum hefðbundnum kosningum, þ.e.a.s. síðustu kosningum.

Við vitum að þetta er vilji flokksbundinna sjálfstæðismanna og hann ber að virða. En er þetta vilji þeirra tæpu 40% kjósenda, sem til þessa hafa kosið flokkinn? Það kemur í ljós í kosningum 25. apríl næstkomandi. Hugur minn segir mér svo að kjósendur flokksins hefðu viljað sjá meiri endurnýjun, en vonandi skjátlast mér hrapalega.

Hvað sjálfan mig varðar er ljóst að ég tapaði með glæsibrag og við því er ekkert að gera. Ég óska verðandi þingmönnum og varaþingmönnum innilega til hamingju með úrslitin. Þetta var skemmtileg kosningabarátta og drengileg og þau sem unnu eru vel að sínum sigri komin. Stuðningsmönnum mínum vil ég þakka frábært og óeigingjarnt starf.

Ég fann meðbyr í sumum málum og öðrum ekki eins og gengur og gerist. Flokksbundnir sjálfstæðismenn deila almennt ekki minni sýn varðandi ESB aðildarviðræður. Ég vil að Íslendingar skilgreini sín samningsmarkmið og hafi þau mjög ströng, m.a. vil ég skilyrða algjör og ævarandi yfirráð yfir íslensku fiskimiðunum og öðrum auðlindum og tryggja eðlileg rekstrarskilyrði fyrir íslenskan landbúnað. Viðræðurnar vil ég hefja eftir 1-2 ár þegar við erum búin að jafna okkur aðeins á því ástandi sem nú ríkir. Þessu eru því miður fáir flokksbundnir sjálfstæðismenn sammála og við því er ekkert að gera, en ég skipti ekki um skoðun af þeim sökum. Flokkurinn mun á endanum sjá að sér í þessum efnum.

Eins gagnrýndi ég þá hægri frjálshyggjusveiflu, sem einkennt hefur flokkinn og vil að flokkurinn leiti aftur til grunngilda sinna. Þetta hefur eflaust farið illa í marga líka, en ég skipti ekki um skoðun á þessu heldur. Ef flokkurinn sér ekki að sér í þessum málum mun hann enda í 15-20% fylgi.

Vandamálið er líkt og Óli Björn Kárason orðaði svo skemmtilega í grein sinni "Flokkur í ólgusjó":

 

Ég hef ekki fjarlægst flokkinn - flokkurinn hefur fjarlægst mig ...
 

Vonandi hef ég rangt fyrir mér, en hugsanlega þarf Sjálfstæðisflokkurinn að taka djúpa dýfu til að hann endurnýi þingmannalið sitt og til þess að hann hafi þor til að taka á þeirri hugmyndafræðilegu kreppu, sem hann því miður er í. Ef hann gerir það ekki munu örlög hans verða þau sömu og Framsóknarflokksins. Þessi orð mín segi ég ekki af því að ég tapaði í prófkjöri. Nei, ég held ég hafi fyrst talað á þessum nótum fyrir 6-7 árum á fulltrúaráðsfundi hjá Verði í Reykjavík og hef gert það æ síðan.

Gagnrýni mín á flokkinn, afstaða mín í ESB málum og óbeit mín á óheftri frjálshyggju kunna að hafa valdið því að ég tapaði í prófkjörinu. Það er eitthvað sem ég get fullkomlega sætt mig við.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Mér fannst niðurstaðan sorgleg í Reykjavik.

Vonlaust er fyrir nýtt fólk að komast að.

Ég má ekki kjósa hérna en þarf að lifa með það sem aðrir velja.

Heidi Strand, 15.3.2009 kl. 12:50

2 Smámynd: Snorri Magnússon

Heill og sæll.

Ég var einmitt að ræða þessi mál við nokkra sjálfstæðismenn í gærkvöldi og í dag og voru þeir, nánast allir, á þeirri skoðun sem þú viðrar í pistli þínum hér að ofan.  Ég held að þátttakan í prófkjörinu endurspegli líka afstöðu flokksmanna - þeir nenna ekki einu sinni að mæta á kjörstað til að hafa áhrif!!

Það verður sorglegt, satt best að segja, ef sú verður raunin að Sjálfstæðisflokkurinn endi í Framsóknarfylgi áður en hann sér að sér.

Snorri Magnússon, 15.3.2009 kl. 13:06

3 Smámynd: Þór Jóhannesson

Við hverju bjóstu? Og með því að kjósa svo D-lista í kosningum kýst þú heldur ekki breytinar!

Svona er þetta nú öfugsnúið allt saman!

Þór Jóhannesson, 15.3.2009 kl. 14:03

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Snorri

Eigum við ekki að vona að flokkurinn fari í nauðsynlega endurskoðun á sínum málum á Landsfundinum, sem er eftir tæpar tvær vikur  

Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.3.2009 kl. 14:46

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Þór:

Þú segir nokkuð! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.3.2009 kl. 14:47

6 identicon

Borgarahreyfingin er eitthvað fyrir þig xO  

Takk annars fyrir að opna á kommentin, það eru ekki alir Sjálfstæðismenn sem það þora.

Kolla (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 01:42

7 Smámynd: Árni Árnason

Sæll og blessaður vinur

Já það má velta þessum hlutum fyrir sér fram og til baka. Umræðan um breytingar er greinilega ofmetin og bara  í nösunum á fólki. Ein leiðrétting við pistilinn er að Unnur Brá var ekki þingmaður, þannig að ef við fáum 4 þingmenn aftur þá eru tveir nýjir. Ég tel að flokkurinn sé ekki ennþá alveg að átta sig á þörfinni á breytingum og þá á ég ekkert bara við hvað varðar frambjóðendur, heldur líka á málefnunum. Ég og þú sem töpuðum stórt getum lítið tjáð okkur um úrslitin án þess að fólk segi að maður sé tapsár, en það verður gaman að vita hvernig Suðurnesjamenn taka þessum framboðslista. En þetta er vilji fólksins og þessir frambjóðendur stóðu sig vel.

Árni Árnason, 16.3.2009 kl. 03:32

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Kolla:

Já, þú segir nokkuð!

Ég lokaði fyrir kommentin af því að ég var í kosningabaráttu og gat ekki svarað þeim.

Árni:

Algjörlega sammála þér líkt og þú veist. Auðvitað getum við tekið afstöðu til úrslitanna í prófkjörinu þótt við höfum tapað.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einungis kosinn af flokksbundnum sjálfstæðismönnum og ekki allir flokksbundnir sjálfstæðismenn kjósa Sjálfstæðisflokkinn í Alþingiskosningum.

Ég fékk mörg símtöl í gær og voru Suðurnesjamenn ekki ánægðir með úrslitin, en þeir kusu þennan lista og kölluðu þetta sjálfir yfir sig. Við sem eyddum tíma og peningum í þetta framboð verðum að sætta okkur við að u.þ.b. 50-60% af okkar eigin bæjarbúum kusu okkur, hinir kusu Vestmannaeyinga og Sunnlendinga. Þeir um það, þeir þurfa auðsjáanlega ekki á þingmanni að halda!

Allir sem hringdu í mig kölluðu listann Vestmannaeyjalistann eða kvennaframboðið. Segir þetta ekki alla söguna? Selur þessi listi? Já, í Rangárþingi ytra pottþétt (1500 íbúar) og einnig í Vestmannaeyjum (4200 íbúar). Í Ölfus og Árborg sem ekki eru með neinn mann í fyrstu 4 sætunum, í Reykjanesbæ? Ég veit það ekki, hvað heldur þú?

Kjördæmið er stórgallað og það vita allir en enginn þorir að tala um það!

Hvaða sameiginlega hagsmuni eiga Íbúar á Suðurnesjum með Vistmannaeyingum og íbúum í Rangárþingi ytra eða í Biskupstungum? Hugsanlega eigum við hagsmuni með Ölfus og Árborg en ekki hinum héruðunum, bara alls enga!!! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.3.2009 kl. 07:18

9 identicon

Já, svona er íhaldið, engu má eða skal breyta!!

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 07:29

10 identicon

Nei, þessi listi selur ekki - og ég ætla ekki einu sinni að reyna að selja hann !!!

Eyjamenn kunna að styðja við bakið á sínu fólki.  Við kunnum greinilega líka að styðja við bakið á þeirra fólki, amk styðjum við ekki okkar fólk, nennum hreinlega ekki á kjörstað !

Ég var búin að skrifa langan pistil hérna sem datt út.  Það er kannski bara ágætt, enda hefði sjálfsagt ekki orðið almenn gleði yfir því sem þar kom fram :-)  

Við Suðurnesjamenn viljum greinilega ekki þingmann búsettan á Suðurnesjum á þing, við hringjum þá bara í eyjamenn þegar við þurfum að tuða yfir  t.d. lokunum á HSS.  Okkar vandamál standa örugglega ofar á forgangslistanum þeirra en til dæmis hin stanslausu samgönguvandamál eyjamanna.   Tja, eða hringjum í Oddný Harðar hjá Samfylkingunni ?????

Júlía (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 09:02

11 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Í prófkjörum rís meðalmennskan og gamli hrepparígurinn í hæstu hæðir eins og hér kemur berlega í ljós.  Það er greinilegt að í Sjálfstæðisflokknum er mikilvægara úr hvaða hreppi þú kemur en hvort þú hafir reynslu, þekkingu og siðferðisþrek til að taka á erfiðum landsmálum.  Og guð hjálpi þér ef þú hefur sjálfstæða hugsun og skoðanir og þorir að mótmæla meirihlutanum.  Bestu og hæfustu leiðtogar eins lands verða aldrei valdir í prófkjörum. Prófkjör eru besta tæki sitjandi valdaklíku til að viðhalda sinni stöðu og hefta endurnýjun! 

Andri Geir Arinbjarnarson, 19.3.2009 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband