Kjördæmaskipan - kostir og gallar

Kjördæmi ÍslandsÍ kvöld ætla ég að ræða mál sem enginn virðist þora að tala um, þótt flestir úti á landi séu sammála um að núverandi kjördæmaskipan landsins sé óréttlát og gjörsamlega út í hött. Það er kannski ekki að undra að málið sé umdeilt, þar sem styr hefur staðið um þessi mál alla tíð og engum ákvæðum stjórnarskrárinnar líklega verið jafnoft breytt og þeim um kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag.

Með það fyrir augum að gera ákvæði stjórnarskrárinnar "sveigjanlegri og varanlegri" var lagt til að í stað nákvæmra ákvæða um kjördæmamörk og úthlutun þingsæta hefði stjórnarskráin að geyma heldur færri og að sama skapi almennari ákvæði, sem hægt væri að breyta með lögum.

Davíð Oddsson var flutningsmaður um frumvarp til laga um kosningar til Alþingis, sem lagt var fram 3. apríl 1999. Í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins sameinaðist forusta allra stjórnmála um breytingarnar. Þetta gætu núverandi stjórnarflokkar og Framsóknarflokkurinn haft í huga þegar þeir reyna að þvinga fram stjórnarskrárbreytingar í í óþökk Sjálfstæðisflokksins. Þótt ég viðurkenni fúslega að minn flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hafi stundum gerst sekur um vinnubrögð í þinginu sem ég aðhyllist ekki hefur flokkurinn aldrei gerst sekur um að leiða hjá sér skoðanir minnihlutans varðandi stjórnarskrárbreytingar. Slíkt er óhæfa, þar sem um grundvallarlög (stjórnarskrá) er að ræða, sem eitt þing getur ekki breytt.

Um kjördæmaskipan á Íslandi er mælt fyrir um í 31. grein stjórnarskrárinnar og í lögum um kosningar til Alþingis. Í frumvarpi Davíðs Oddssonar um kosningalögin var lagt til að kjördæmin  tækju eftirtöldum breytingum:

Kjördæmin yrðu sex að tölu. Mörk þeirra yrðu dregin í lögum, þó þannig að landskjörstjórn yrði falið að ákveða mörkin milli kjördæmanna tveggja í Reykjavík á grundvelli íbúaskrár þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag. 

  • Þingsætatala í hverju kjördæmi verði ákveðin þannig að í hverju kjördæmi verði 9 kjördæmissæti og 1–2 jöfnunarsæti. 
  • Heimild landskjörstjórnar til að færa þingsæti á milli kjördæma til að draga úr misvægi atkvæða verði bundin við kjördæmissæti og þá eingöngu þau sem eru umfram stjórnarskrárbundið lágmark. 
  • Kjördæmissætum, eins og jöfnunarsætum, verði úthlutað samkvæmt d'Hondt-reglu.
  • Úthlutun jöfnunarsæta verði felld að fyrirmælum stjórnarskrár. 
  • Möguleikar kjósenda til að hafa áhrif á röð efstu frambjóðenda á lista verði auknir.

Þessar breytingar voru mjög miklar "réttarbætur". Kjördæmaskipunin var það hins vegar að mínu mati aðeins í sumum tilfellum.

Á næstu dögum mun ég ræða hvort þessar breytingar hafi verið til góðs eða jafnvel verið til hins verra. Jafnframt mun ég skoða fyrirkomulag það sem tíðkast í Ísrael og Hollandi - sem eru mun stærri lönd en Ísland - þar sem landið allt er eitt kjördæmi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Þakka þér fyrir Guðbjörn. Ég mun fylgjast með pistlunum.

Hilmar Gunnlaugsson, 16.3.2009 kl. 21:36

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gott mál að einhver nennir að fylgjast með þessu hjá mér!

Miðaldra sjálfstæðismenn verða að standa saman á þessum síðustu og verstu tímum, þegar við virðumst vera í útrýmingarhættu! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.3.2009 kl. 22:08

3 Smámynd: Andri

Bara kvitta fyrir mig...

Andri, 16.3.2009 kl. 23:57

4 identicon

Sæll og blessaður,

ég hef nú heyrt lengi meðal fólks þá skoðun að alþingismenn séu of margir. Alþingismenn sjálfa hef ég nú ekki heyrt flíka þessu sérstaklega af einhverjum orsökum en væri það ekki líka ráð? Að fækka alþingismönnum um 30 og í leiðinni breyta landinu í eitt kjördæmi?

Með bestu kveðju,

KJK

Kolbeinn Ketilsson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 11:55

5 identicon

Bara ein lítil athugasemd, bæði Ísrael og Holland eru mun fjölmennari en Ísland.

Þau eru hinsvegar bæði mun minni en Ísland (Ísland er 103 000 ferkm. en Ísrael er 20 330 ferkm og Holland er 41 526 ferkm að flatarmáli)

Hins vegar er ég alveg á því að Ísland eigi að vera einungis eitt kjördæmi.

Sigvaldi Eggertsson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 12:17

6 Smámynd: Björg Árnadóttir

Ég er ekki viss um að ég sé tilbúin að kaupa það að landið eigi að verða eitt kjördæmi. Einhvern vegin hef ég á tilfinningunni að landsbyggðin muni þá hægt en nokkuð örugglega missa málsvara sína. Lansbyggðin þarf nauðsynlega á þeim að halda þ.e. aðstæður og málefni sem efst eru á baugi utan höfuðborgarsvæðisins eru iðullega allt aðrar en innan þess - og eru síst minna áríðandi en t.d. áfengisbúðaumræður höfuðborgarbúa.

Ég hef líka oftar en einu sinni velt fyrir mér hvernig ég sem Suðurnesjamaður eigi að finna til samsvörunar með því sem efst er á baugi í hinum enda kjördæmis míns, Höfn? Verður val þingmanna ekki enn fjarlægara manni með einu risastóru kjördæmi? Í mínum huga er alveg hægt að jafna vægi atkvæða þó landinu verði áfram skipt í kjördæmi.

Björg Árnadóttir, 17.3.2009 kl. 15:19

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Björg, hver segir að landsbyggðarmenn komist ekki á þing þó landið verði eitt kjördæmi? Mikilvægasti kostur þess að gera landið að einu kjördæmi er að við það minnkar kjördæmapot þingmanna.

Hvað varðar hugmynd Guðbjörns að vera með minnst níu kjördæmaþingmenn í hverju kjördæmi þá eru það 54 þingmenn í sex kjördæmum. Þá væru aðeins eftir 9 uppbótaþingmenn. Við náum aldrei jöfnuðu miðað við íbúatölu þannig. Ef það á aðeins að vera möguleiki á 1-2 jöfnunarþingmönnum fyrir utan það þá myndi það leiða til fækkunar um einn þingmann í Suðvesturkjördæmi, sem nú er með 12 þingmenn en er samm það kjördæmi, sem hefur flesta íbúa á bakvið hvern þingmann.

Slíkt myndi einnig leiða til þess að kjördæmin þrjú á höfuðborgarsvæðinu hefðu sex af þessum níu jöfnunarþingmönnum og því mundu breytingar á jöfnunarþingsætum vegna íbúaþróunar alfarið felast í hreifngum á þeim þremur jöfnunarþingmönnum, sem eftir eru milli landsbyggðarkjördæmanna.

Ég tek undir hugmynd Kolbeins um að fækka þingmönnum þó ég vilji ekki ganga jafn langt og hann allavega ekki í fyrstu atrennu. Það gæti hins vegar verið góð hygmynd að fækka um átta þingmenn með því að fækka fyrst um einn í hverju kjördæmi og síðan um anna hjá þeim tveimur kjördæmum, sem eftir þá breytingu eru með fæsta íbúa bakvið hvern þingmann.

Sigurður M Grétarsson, 17.3.2009 kl. 15:49

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég hef ekki myndað mér neina skoðun á því hvort landið eigi að vera eitt kjördæmi, en er frekar á þeirri skoðunar að þau eigi að vera fleiri en þau eru núna og smærri.

Orð mín hér að ofan eru m.a. úr athugasemdum við kosningalögin og því ekki frá mér.

Ég er einungis að skoða þessi mál frá grunni af því að svo mikið er talað um þetta en lítið rökrætt.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 17.3.2009 kl. 16:44

9 Smámynd: Björg Árnadóttir

Ég segi ekki að landsbyggðarmenn myndu ekki komast á þing. Ég segi að þeim myndi fækka og að þeir sem þangað kæmust hefðu almnennt minni tengsl við dreifbýlið.

Ég er á því eins og Guðbjörn í síðustu athugasemd að kjördæmin séu of stór ef eitthvað er. Ég sé t.d. ekki hvernig suðurnesjamenn geti valið á þing á sömu forsendum og fólk á Höfn eða Þingeyri. Kannski getur einhver sannfært mig um annað?

Björg Árnadóttir, 17.3.2009 kl. 18:42

10 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Núverandi kjördæmaskipan er meingölluð.

Ef jafnvægi milli landshluta er réttlátt verður að vera höfuðborg í hverjum landhluta.

Í annan stað eru landsbyggðarkjördæmin of stór.  Annað hvortþarf að breyta aftur til fyrra skipulags, eða hafa landið skipt í 60 einmeningskjördæmi.

Þá ættu 50 stærstu sveitarfélögin einn kjördæmakjörinn þingmann hvert og síðan væru 10 landskjörnir þingmenn. Atkvði íbúa örhreppa myndu þá einungis vega inn í útrekning landskjörinna þingmanna. 

Jón Halldór Guðmundsson, 17.3.2009 kl. 19:41

11 Smámynd: Vilborg Auðuns

Ég bíð spennt að sjá pistlana........... er á því að fækka eigi þingmönnum um helming

Vilborg Auðuns, 17.3.2009 kl. 23:53

12 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Þetta er rétt hjá þér, annað hvort ættu kjördæmin að vera eitt eða þá 6-8. Suðurnesin eiga kannski ekki margt sameiginlegt með Höfn en hvað á Akureyri sameiginlegt með Neskaupstað t.d. Hvernig gengur þeim þingmönnum að hafa samskipti við grasrótina í sínum flokkum?

Varðandi prófkjör held ég að ég myndi greiða atkvæði með því að hver og einn raði sínum mönnum á listann sem hann kýs í kjörklefanum. Hættum þessum prófkjörum í núverandi mynd. Þannig ætti að vera hægt að koma í veg fyrir smölun og þeir raða sem raunverulega ætla að kjósa flokkinn.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 19.3.2009 kl. 09:03

13 Smámynd: Björg Árnadóttir

Sammála Öddu.

Björg Árnadóttir, 19.3.2009 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband