Endurreisnarnefnd - gagnrýnin hugsun eða gengið í takt?

Í nýútgefinni skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins kemur fram óvægið uppgjör við fortíð Sjálfstæðisflokksins og forystu hennar. Hvort almennur vilji er innan flokksins til að samþykkja þessa gagnrýni kemur í ljós á Landsfundi flokksins.

Í skýrslu endurreisnarnefndarinnar stendur:

 

Í Sjálfstæðisflokknum rúmast margar hugmyndir og skoðanir sem leitast er við að gera skil.

 

Þetta eru engin ný sannindi innan Sjálfstæðisflokksins, þótt á allra síðustu árum hafi verið lögð meiri áhersla á að menn gengu í takt en fjölbreytni í skoðunum og hugmyndaauðgi og gildir þetta jafnt um þingflokkinn og starf Sjálfstæðisflokksins sjálfs. Gagnrýni á borð við þá sem sést frá endurreisnarnefndinni hefur ekki sést áður eftir því sem mig rekur minni til.

Til heiðurs heiðarlegu, hreinskilnu og gagnrýnu starfi endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins vil ég leyfa mér að vitna í orð Páls Skúlasonar, fyrrverandi rektors Háskóla Íslands og heimspekings, en hann setti fram eftirfarandi skilgreiningu á gagnrýnni hugsun, sem mér hefur sem fyrr segir stundum fundist vera lítið framboð á innan flokksins og enn minni spurn eftir:

 

Gagnrýnin er sú hugsun sem felst ekki á neina skoðun nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni.

 

Það er ekki alltaf einfalt að viðhafa gagnrýna hugsun á viðfangsefni lífsins og þaðan af síður í stjórnmálum, því það þýðir að maður verður stundum um lengri eða skemmri tíma að synda á móti straumnum. Það er auðveldara að elta það sem næsti maður segir eða éta það upp hrátt sem forystan segir manni að sé rétt og rangt eða það sem fjölmiðlar troða ofan í okkur af misjafnri visku sinni. Ég hef hins vegar vanið mig á að rýna í þær upplýsingar sem ég kemst yfir - og það kostar stundum nokkra leit - og mynda mér "sjálfstæðar" skoðanir á hlutunum.

Allt það sem kemur fram í gagnrýni endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins hefur birst á þessari heimasíðu undanfarin ár og því gefur að skilja að ég er nefndinni sammála í einu og öllu og það hljóta að mínu mati allir hugsandi og gagnrýnir sjálfstæðismenn að vera. Fyrir gagnrýni mína hef ég verið skammaður og atyrtur. Vissulega er það ekki alltaf skemmtilegt en vel þess virði þegar til lengdar lætur og þegar maður er sannfærður um réttmæti sinna skoðana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæll Guðbjörn

Ég verð nú bara að óska þér til hamingju með þetta!

Eiríkur Sjóberg, 21.3.2009 kl. 11:37

2 identicon

Líst vel á þessar hugmyndir þínar Guðbjörn , en er tími Perestrojku innan Sjálfstæðisflokksinns kominn? Nei , ég held ekki! Í systurflokknum ykkar sáluga, Sovéska Kommúnistaflokknum frá Brezhnev tímanum, þar sem klíkuskapur og annað ógeð viðhafðist líkt og hjá ykkur, hófst Perestrojkan ekki, fyrr en skipt hafði verið um forystu. Það þarf líka fyrst að ske hjá ykkur, annars verður engin breyting!

Friðjón G.Steinarsson (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband