26.3.2009 | 21:10
Geir kveður með stæl
Þetta var að mínu mati besta ræða sem ég hef heyrt frá Geir Hilmari Haarde, þótt vissulega hafi hún verið ansi löng og hefði mátt heyrast í nóvember 2008. Kannski hefðum við alls ekki setið á landsfundi í dag ef að þessi ræða hefði verið haldin nokkrum mánuðum fyrr? Ég ætla ekki að rekja ræðuna enda er það ágætlega gert í frétt Morgunblaðsins af fundinum. Það sem mesta athygli vakti var að Geir viðurkenndi í fyrsta skipti að rangt hefði verið staðið að einkavæðingu bankanna, en það voru að sjálfsögðu mjög afdrifarík mistök.
Þótt Geir hafi vissulega viðurkennt að ýmislegt hefði betur mátt gera varðandi eftirlit með bönkunum verður að segja að þarna hefði hann mátt vera skýrari. Mér fannst óþarfi að kenna EES samningnum um hvernig fyrir okkur er komið, því samningnum sem slíkum er ekki um að kenna. Hversvegna er þá málum ekki svona fyrir komið í Noregi, Sviss eða Liechtenstein? Það gladdi mig mjög að Geir var mjög skýr í máli að þeir sem hefðu svikið undan skatti eða á annan hátt brotið af sér muni verða að sæta ábyrgð.
Líkt og Geir sagði bera þeir mesta ábyrgð, sem stýrðu bönkunum og stærstu fjármálafyrirtækjum landsins. Það voru þeir sem leiddu þessa ógæfu yfir okkur Íslendinga og engir aðrir.
Þótt kannski sé ólíku saman að jafna datt engum í hug að skella skuldinni á bandarísk yfirvöld þegar hin hræðilegu hryðjuverk dundu á Bandaríkjunum 11. september 2001. Engu að síður voru yfirvöld vissulega gagnrýnd fyrir slæleg vinnubrögð og að með því að vinna betur saman hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir hryðjuverkin. Þessu tvennu má alls ekki rugla saman, þ.e.a.s. ábyrgð á hruninu annars vegar og hins vegar ábyrgð á að hugsanlega hefði mátt bregðast fyrr við og koma í veg fyrir jafn mikinn skaða og varð.
Annað sem athygli mína vakti var að Geir tilkynnti að málamiðlunartillaga Evrópunefndar flokksins væri tvöföld atkvæðagreiðsla, þ.e.a.s. atkvæðagreiðsla um hvort þjóðin eigi að ganga til ESB aðildarviðræðna og svo endanleg atkvæðagreiðsla um niðurstöður aðildarviðræðna. Persónulega finnst mér fyrri atkvæðagreiðslan tímaeyðsla, en ég sætti mig fullkomlega við þessa málamiðlun ef hún verður að veruleika.
Mistök gerð við einkavæðingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það var þá stæll. Hef sjaldan séð til stjórnmálamanns með jafn litla reisn, nema ef vera skyldi Björn Bjarnason. Geir biður flokk sinn afsökunar, ekki þjóðina.
Þetta er gæfulegt kompaný sem þú ert í Guðbjörn, og ekki mjög menningarlegt, svo ekki sé dýpra tekið í árinni.
hilmar jónsson, 26.3.2009 kl. 21:22
Besta ræða Geirs segirðu, en kom hún ekki helst til of seint, og að biðjast afsökunar á eigin afglöpum á lokuð flokksfundi en ekki við þjóð sína beint er heldur lítilmannlegt.
Skarfurinn, 26.3.2009 kl. 21:42
ég hef aldrei skilið hvernig menn geta "tussast" áfram jafnvel í mörg ár og það án þess að taka nokkurntíma af skarið - bara fljóta einhvernveginn með straumnum og komast upp með það, alveg magnað eða hitt þó heldur
Jón Snæbjörnsson, 26.3.2009 kl. 21:49
Ég skil vel gremju vinstri manna núna þegar við erum að ná okkar vopnum aftur. Með vinnu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins og með stefnubreytingu í ESB málum göngum við að venju hreint til verks! Við munum að auki algjörlega endurnýja forystulið flokksins!
Þótt að mínu mati hefði mátt eiga sér stað meiri endurnýjun á framboðslistum flokksins, hefur samt sem áður átt sér stað þar mikil endurnýjun. Þannig hafa allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins annaðhvort hætt á þingi eða færst neðar á framboðslista flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn er þannig eini stjórnmálaflokkurinn, sem endurnýjar sína framboðslista!
Aðgerðaleysi og vinstri óstjórnarinnar gerir ykkur ekki heldur léttir fyrir verkum. Gengið hefur fallið um 11% á nokkrum vikum!
Ég hélt að þið ætluðuð að koma hlutunum á hreyfingu? Hvar eru aðgerðirnar fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu?
Íslendingar eru skynsamt fólk og það mun átta sig á getuleysi ykkar á næstu vikum og kjósa yfir sig allt annað en það lið sem nú stjórnar landinu!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.3.2009 kl. 22:26
Ætla að blanda mér í umræðuna svo hún verði ekki bara á karllægum nótum... Hvað áttu við Guðbjörn þegar þú segir að kannski hefðuð þið alls ekki setið á landsfundi í dag ef Geir hefði flutt þessa ræðu fyrr?
Kolla (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 22:29
Bíddu hvaða vopnum eruð þið að ná Guðbjörn ?
Hef ég verið að missa af einhverju ?
hilmar jónsson, 26.3.2009 kl. 22:33
Það hlýtur að vera eitthvað mikið að ykkur sjálfstæðismönnum þið kunnið alls ekki að skammast ykkar og þaðan af síður að biðjast afsökunar svo vel sé. Svo setjið þið fjárglæframann í annað sæti í nakjördæmi ja sveiattan þvílíkt dómgreindarleysi og algjör vanvirðing við kjósendur.
axelyngva (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 22:39
Kolla:
Hér var um tímamótaræðu að halda, því Geir viðurkenndi loksins mistök Sjálfstæðisflokksins að hafa látið tilleiðast af Framsóknarflokknum að hverfa frá dreifðri eignaraðild við sölu bankanna. Einnig viðurkenndi hann önnur mistök, s.s. ranga peningamálastefnu, hagstjórnarmistök varðandi 90% lánin, ranga tímasetningu skattalækkana og hátt vaxtastig, sem leiddi til þess að erlendir peningar streymdu til landsins, svo eitthvað sé nefnt. Þetta voru mistök sem gerð voru undanfarin 5-6 ár. Það starf sem Sjálfstæðisflokkurinn skilaði á árunum 1991 - 2003 var og er hins vegar þjóðinni mjög mikilvægt og tryggir okkur þau lífskjör, sem við höfum búið við undanfarin ár.
Hilmar:
Með því að viðurkenna þau mistök sem við gerðum - sjá hér að ofan - en á meðan halda því til haga að það var ekki hugmyndafræði flokksins sem klikkaði. Frjálsir einstaklingar og frjálst markaðshagkerfi - með eðlilegu og virku eftirliti - er það sem "blívur"!
Það hefur ekkert breyst við þessa kreppur og við munum að kreppu lokinn aftur snúa til okkar gamla blandaða hagkerfis að nýju að vísu með einhverjum breytingum þó!
Þið í VG og Samfylkingu, sem bíðið eftir einhverri sósíalískri byltingu, megið bíða ansi lengi eftir því að íslensk þjóð aðhyllist slíkar breytingar!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.3.2009 kl. 22:47
Guðbjörn: Það þarf ekkert að bíða eftir þeirri byltingu, hún er þegar hafin og þjóðin tekur þátt í henni.
Hefur það virkilega farið framhjá þér ?
Útskýringar þínar varðandi vopnin á ég ekki auðvellt með að skilja.
hilmar jónsson, 26.3.2009 kl. 22:54
Kvaddi með skömm og ekki við öðru að búast. Bað flokkinn afsökunar en sagði þjóðinni að hann kæmi ekki auga á nein mistök af sinni hálfu.
Litlaus pólitíkus og kjarklítill við að ganga fram fyrir skjöldu, kunni ekki að skoða neina hluti upp á nýtt. Var alltaf í skugga Davíðs forvera síns og greinilega meðvitaður um það sjálfur. Var stjórnað frá Valhöll og skildi ekki annað en það sem kom frá Hannesi og flokkseigendafélaginu ásamt LÍÚ.
Horfði aðgerðarlaus á meðan bankasmalarnir þeystu um híbýli fólksins dagana fyrir hrunið til að hreinsa sparifé fólksins.
En þú minnist á vopn. Mér finnst það ekki smekkleg myndlíking. Íslendingar fengu að kynnast þeim vopnum sem fylgja hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins og kynntust þeim alltof vel. Ég vona að gæfan forði þjóðinni frá vopnum sjálfstæðismanna um alla ókomna tíð.
Krosslagði svo hendurnar á borðið með skjaldarmerki Íslands í baksýn og mælti klerklegum rómi: Guð blessi Ísland!
Þvílíkur...........!
Árni Gunnarsson, 26.3.2009 kl. 22:55
Guð blessi Sjálfstæðisflokkinn.
Ekki veitir af.
hilmar jónsson, 26.3.2009 kl. 22:58
Guðbjörn, þjóðinni blæðir undan stríðstólum Sjálfstæðisflokksins. Nú var lag að slíðra sverðin og grafa stríðsaxir með því að lýsa yfir að Sjálfstæðisflokkurinn tæki sér frí frá þessum kosningum. Nei, í stað þess vígbúist þið á nýjan leik. Hvers á þjóðin að gjalda? - Sjálfur ertu of hjartagóður fyrir þennan félagsskap.
Þú svaraðir ekki spurningu minni um hvað hefði gerst ef ræða GH hefði birst fyrr?
Kolla (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 23:23
Sæll.
Já, með stæl segir þú . Lítill fannst mér stællin yfir því sem að ég fékk að heyra í sjónvarpi og útvarpi. Ég hefði ekki vilja eiga þessi orð hans í þeirri stöðu sem að hann var í og um leið og hann var að kveðja sinn flokk.
Og svona til áréttingar þá finnst mér vera tugþúsundir Íslendiga sem hvorki kenna sig við Vinstri eða Hægri en er þó ekki síður ábyrgt í sínu þjóðfélagi.
En mér finnst þú ekki hafa leyfi, nema þitt eigið að setja fólk í tvo hópa. Það er einfeldni !
Svo mikið veit ég að það eru til fleiri raddir en kvenna og karlaraddir og í ótrúlega fallegu fjölbreyttu mynstri !
Á ég þá að tala bara um Bassa og Altsópran ?
Góðar stundir.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 01:30
Öll:
Þeir sem hafa lesið þetta blogg hafa séð að ég hef sjálfstæðismanna mest gagnrýnt stefnu-, aðgerðaleysi og ákvarðanafælni fyrri ríkisstjórnar. Þótt ekki sé hægt að skella allri skuldinn á Geir H. Haarde og Sjálfstæðisflokkinn verður hann að stóru leyti að axla ábyrgð á aðgerða- og grandvaraleysi þeirra tveggja ríkisstjórna sem hann stýrði. Mér fannst Geir hins vegar komast vel frá ræðu sinni í gær og loksins axla að fullu ábyrgð á mistökum sínum, ríkisstjórna sinna og þeirra þingflokka sem hann stýrði. Það fannst mér gert með stæl, þótt það hefði mátt heyrast fyrr.
Hilmar:
Byltingin var aldrei bylting fólksins, heldur nokkur hundruð eða í mesta lagi nokkur þúsund vinstri manna. Vissulega vorum við margir sjálfstæðismenn óánægðir, en að við vildum umbylta þjóðfélaginu - langt í frá!
Og já Guð blessi Sjálfstæðisflokkinn og Ísland!
Síðan minni ég þig á þriðja boðorðið:
Þú kallar stefnu okkar "stríðstól". Voru það stríðstól sem upphófu íslensku þjóðina upp úr eymd og stjórnleysi áranna á milli 1970 - 1990? Voru það stríðstól, sem tryggðu Íslendingum mestu lífsgæði, sem þeir hafa nokkurn tíma upplifað síðan þeir byggðu þetta erfiða land á hjara veraldar?
Nei, það voru stjórnmálakenningar sem virkuðu, stjórnmálakenningar sem færðu einstaklingum og fyrirtækjum frelsi til athafna og gjörða og leystu þar með úr læðingi ótrúlega orku sem skilaði sér í auknum lífsgæðum fyrir alla Íslendinga.
Þórarinn:
Þetta er hárrétt hjá þér og ætli ég sé ekki aðeins rétt hægra megin við miðjuna.
Það eru fáir nákvæmlega á miðjunni og en færri lengst til hægri eða vinstri.
Flestir eru rétt aðeins hægra megin og vinstra megin við miðjuna. Það var von mín að síðasta ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks yrði frjálslynd og umburðarlynd ríkisstjórn miðju hægri og miðju vinstri manna sem leiddi landið fram á veginn. Sú von brást því miður!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.3.2009 kl. 07:51
Sjálfstæðismenn eru að upplifa sína spennandi tíma núna:
sjá hér
Kolla (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 13:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.