ESB aðild - fyrsta skrefið á langri vegferð ...

Það voru langar umræður af litlu tilefni í morgun þegar landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ræddu í þrjá klukkustundir tillögu Evrópunefndar flokksins. Fyrri hluti tillögu Evrópunefndar fjallaði aðallega um að hagsmunamat flokksins hefði ekki leitt neitt það í ljós sem réttlætti aðildarviðræður við ESB, en þessu mati Evrópunefndarinnar er ég algjörlega ósammála. Að auki sagði þar að Íslendingar skyldu hafa yfirráð yfir auðlindum okkar um aldur og ævi og standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu, en þessum atriðum er ég vitanlega algjörlega sammála. Um þennan fyrri hluta tillögunnar urðu litlar umræður.

Það var seinni hluti tillögunnar sem verulegur ágreiningur var um, en þar var sú skoðun flokksins reifuð að kjósa ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fara ætti í aðildarviðræður við ESB eða ekki. Að auki var kveðið á um að fara ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöður aðildarviðræðna við ESB, þ.e.a.s. aðildarsamninginn sjálfan. Um það hefur ekki verið ágreiningur í neinum stjórnamálaflokki - ekki einu sinni Samfylkingunni - að fara skuli í þjóðaratkvæðagreiðslu með aðildarsamninginn sjálfan. Eftir því sem mér er kunnugt um hefur það líka verið gert við aðild allra aðildarríkja ESB.

Margir kvöddu sér hljóðs og töluðu um ESB. Flest af því sem kom fram hjá andstæðingum ESB var byggt á fordómum og vankunnáttu. Á stundum blöskraði mér málflutningurinn, en ég hafði ekki geð í mér til að fara upp og leiðrétta það sem fram kom, vitandi vits að slíkt hefði engan tilgang á þessari stundu. Að líkja ESB aðild við Gamla sáttmála og árhundruða kúgun Norðmanna og Dana á okkur Íslendingum er að mínu mati ekki samboðið þeim sem vilja ræða þessi mál af alvöru og á málefnalegan hátt. Hræðsluáróðurinn virkar vel og það vita ESB andstæðingar mjög vel. 

Aðrir komu í ræðustól og töluðu gegn ESB af kunnáttu og með sæmilegum rökum, t.d. Björn Bjarnason og Pétur Blöndal. Ekki er ég þeim félögum sammála og þykir röksemdafærsla þeirra ekki upp á marga fiskana. Enn aðrir komu í pontu og mæltu með aðildarviðræðum, en enginn talaði beint um að við ættum að ana inn í ESB án þess að skoða málið í bak og fyrir og m.t.t. til hagsmuna Íslendinga, s.s. varðandi fiskiveiðiréttindi okkar og landbúnað. Nokkrir komu upp og vildu helst segja sig úr EES samstarfinu og kysu að því mér skildist algjöra einangrun landsins. Þetta er svipuð afstaða og VG hefur í utanríkismálum - aftur í torfkofana!

Sjálfstæðismenn eru langt frá því að vera sammála í þessu máli og við því er ekkert að gera. Sú sem að mínu mati sló í gegn á þessum fundi var Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Mikið vildi ég gefa fyrir að sjálfstæðismenn hlustuðu meira á þessa gáfuðu, reyndu og víðsýnu konu og eiginmann hennar Þór Vilhjálmsson, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, þegar kemur að málefnum Evrópusambandsins. Sömu sögu er að segja um Jónas Haralz og Einar Benediktsson. Kannski þurfa sumir sjálfstæðismenn að ná vissum aldri og þroska til að sjá ljósið í efnum Evrópusambandsins.

Engin þjóð hefur haft jafnmikið upp úr samstarfi við önnur ríki og Ísland. Ég minni þar á varnarsamstarfið, Norðurlandasamstarfið, OECD, EFTA, EES samninginn og nú síðast þá hjálp sem við fengum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Engin þjóð flytur líklega jafnmikið út og inn og við og er jafn mikið háð viðskiptum við önnur ríki. Til þessa höfum við haft vit á því að vera í öllum réttu klúbbunum þegar kemur að samstarfi við önnur ríki, nú kjósum við frekar einangrunarstefnu! 

Það mikilvægasta sem kom út úr þessari umræðu var þó að fundarmenn samþykktu að eðlilegast væri að þjóðin fengi að ráða sínum örlögum í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er lýðræðisleg og skynsamleg niðurstaða. Þegar flokkurinn samþykkti þetta fyrsta litla skref í átt að aðildarviðræðum duttu mér í hug orð Neil Armstrong þegar hann tók fyrsta skrefið á tunglinu: 

 

That's one small step for [a] man, one giant leap for mankind. 

 

Einhugur var á meðal sjálfstæðismanna um niðurstöðu endurreisnarnefndar flokksins. Gagnrýni nefndarinnar á forystu flokksins og ákvarðanir hans í efnahags- og peningamálum, mistök við einkavæðingu bankanna o.s.frv. var samþykkt einróma. Þetta gladdi mig mjög mikið, því ég átti von á að sumum þætti ályktun endurreisnarnefndarinnar ganga of langt í að viðurkenna mistök flokksins á undanförnum árum.


mbl.is Þjóðin fái að skera úr um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

það sem hægt er að velta sér upp úr þessu ESB - hér eru næg verkefnin en það þykir ekki við hæfi að vinna aðeins þessi óhreinu störf, nú vilja alli flykkjastu utanum þetta ESB dót. Talandi um endurreisnarnefnd því er Þorgerður Katrín en no 2 því víkur hún ekki ? þessi manneskja er gjörsamlega út úr korti

Jón Snæbjörnsson, 27.3.2009 kl. 22:31

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Aðild að ESB og upptaka evru gæti einmitt orðið hluti af framtíðarlausn mála hjá okkur!

Eigum við ekki bara að sjá til hvað menn gera á sunnudaginn varðandi varaformanninn og formanninn.

Það er ekkert gefið í þessum efnum! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.3.2009 kl. 22:36

3 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Þú segir hér að :

"Flest af því sem kom fram hjá andstæðingum ESB var byggt á fordómum og vankunnáttu"

Ég ætla ekkert að fela það að ég er andstæðingur í ESB málum, en nú spyr ég hvers vegna er það að meðfylgjendur ESB hafa ekki komið með nein rök fyrir því að ganga í ESB fyrir utan ein sem allir virðast lofsyngja og er það "Efnahagslegt öryggi", þetta eru einu rökin sem ESB sinnar hafa komið með í sinni herferð.

Þarf ekki að sækja um aðild að ESB áður en farið er í aðildarviðræður? og er þá ekki þessi umræða hvort að það eigi að fara í viðræður og síðan sækja um ef okkur líst vel á þann "díl" sem við fáum frekar tilgangslaus?

Það er alltaf verið að tala um ESB og upptöku evrunnar sem einhverja töfralausn, er ekki okkar besta lausn að halda bara í okkar krónu og bendi ég nú á nokkuð góð rök í pistli eftir Ágúst Þórhallsson að mínu mati fyrir því að fara ekki í ESB og taka ekki upp evruna.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 28.3.2009 kl. 00:12

4 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Gleymdi nátturulega að láta hlekkinn fylgja með á pistilinn sem ég var að tala um áðan.

http://www.amx.is/pistlar/4320/

Halldór Björgvin Jóhannsson, 28.3.2009 kl. 00:14

5 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Halldór. Oft heyri ég nú reyndar þessa tómu spurningu ykkar anti-ESB sinna: "Afhverju komið þið ESB sinnar aldrei með nein rök fyrir inngöngu?" Svarið er auðvitað það að við erum stanslaust að koma með rök fyrir því, ásamt nánast öllum hagfræðingum þjóðarinnar, ef ekki öllum. Ég sjálfur hef þó miklu fleiri ástæður en bara efnhagslegar fyrir því að vilja ganga inn í ESB og geturðu fundið löng komment eftir mig hér á blogginu hjá Guðbirni, þeim ágæta manni.

Varðandi þessa grein sem þú sendir tengil fyrir, þá virkar hún nú ekki mjög sannfærandi. Einfaldlega vegna þess að í greininni útlistar greinarhöfundur hugsanleg Íslands örlög fyrir Svíþjóð og Austurríki. En hann virðist einhvern trúa því að ef þau lenda í sömu stöðu og við, þá erum við einhvern veginn svo miklu betur sett heldur en þau, út af þeim skringilegu rökum að við séum með íslensku krónuna að vopni sem er jú í öndunarvél akkúrat núna og á tvöföldu gengi sem menn eru nú að sniðganga. Það sem að hann líka virðist engan veginn gera sér grein fyrir er að uppbygging Íslands myndi ekki ganga eins snurðulaust fyrir eins og hann dreymir um ef að langstærsti útflutningsmarkaður okkar lendir í sömu vandræðum og við, því þá er klárt mál að þjóðarbúið myndi verða gjaldþrota og heldur betur rætast úr neikvæðum fyrirsögnum erlendra blaða sem fara svo mikið í taugarnar á honum. 

Jón Gunnar Bjarkan, 28.3.2009 kl. 08:45

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eins og ESB meðferðinum á Landsfundi birtist mér í gegnum fjölmiðla - Þá lítur það þannig út fyrir mér eins og andstæðingar ESB hafi haft algjöran sigur. 

Ekki nóg með það heldur harðasti armur andstæðinganna.  Sá armur sem telur ESB nánast upphaf alls ills í heiminum og megintilgangur þess sé að "stela orku og fiski" af Íslendingum og skrifa miklar langlokur á bloggi og víðar um það hugðarefni sitt.

Ég bjóst svo sem við svona frekar varfærinna niðurstöðu af fundinum en að harðlínumenn skyldu hafa fullnaðarsigur - því bjóst ég ekki við.

Mér finnst það umhugsunarvert að umræddir harðlínumenn skuli hafa slíkt tak á svo stórum flokki þar sem maður hefði búist við miklu meiri stuðningi við mildari aftöðu.

Það er varla hægt annað en daga þá ályktun að mikill meirihluti Sjálfstæðismanna sé algjörlega harður móti ESB sama hvað.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.3.2009 kl. 14:27

7 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Ég er eiginlega alveg sammála Ómari.

Talíbanarnir í sjálfstæðisflokknum, Björn Bjarnason, Pétur Blöndal, Sigurður Kári og aðrir vitleysingar virtust vinsælir á landsfundi.

Jón Gunnar Bjarkan, 28.3.2009 kl. 14:37

8 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Svarið er auðvitað það að við erum stanslaust að koma með rök fyrir því, ásamt nánast öllum hagfræðingum þjóðarinnar

Samt sit ég hér fyrir framan minn skjá án þess að sjá vott af þessum rökum bæði frá þér eða nánast öllum hagfræðingum þjóðarinnar, hér er önnur grein eftir þennann ágæta mann sem gefur aðra góða ástæðu fyrir því að við ættum að halda krónunni aðeins lengur í öndunarvélinni.

http://www.siglo.is/is/news/er_kronan_ad_hefja_mikid_styrkingarferli_/?style=font2

útlistar greinarhöfundur hugsanleg Íslands örlög fyrir Svíþjóð og Austurríki

Við erum ekki þau einu sem erum með allt niður um okkur efnahagslega séð þessa dagana þannig að greinahöfundur gæti nú bara verið að hitta naglann á höfuðið, nú segi ég eftirfarandi með fyrirvara þar sem erfitt er að treysta fjölmiðlunum en þeir tönglast á því hægri vinstri að allt sé að fara til fjandans í evrópu, hví að taka þá upp evruna þar sem hún er svona óstöðug, hví ekki bara dollarann það tæki eflaust miklu minni tíma þar sem við þurfum að vera með stöðuga eigin mynt í mörg ár áður en við getum tekið upp evruna.

En ég viðurkenni það alveg að eins og staðan er með nátturuauðlindir á þessu blessaða landi á þessum tímum (t.d. kvótakerfið) þá væri lítill munur fyrir land og þjóð að því leyti hvort við erum í ESB og missum kvótann þangað eins og menn vilja halda fram eða láta það kerfi vera óbreytt eins og það er núna.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 28.3.2009 kl. 15:36

9 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Já ég vil þakka þér fyrir að benda mér á þessa grein sem bara dregur enn meira úr sannfæringu þessa ágæta manns, satt að segja eftir lestur þessarar greinar sýnist mér maðurinn vera algjörlega glórulaus.

Rétt er að nefna að hann skrifar greinina 27.01 og byrjar greinina á því að gefa í skyn að krónan sé að fara styrkjast, maður hefði reyndar haldið að botninn væri dottinn undan krónunni og hún því á botninum við 300 krónur evrunna og þannig gæti hún ekki annað en farið að styrkjast, en það virðist sem að hún sé enn að lækka og það þrátt fyrir hrunið og þrátt fyrir gjaldeyrishöftin og þrátt fyrir öll slattan allann af lánsloforðum. Hún lækkaði um 10% á síðustu tveim vikum. Svo þar fór sú kenning.

Varðandi Jim Rogers, þá hef ég ekkert nema bara gott um hann að segja. Hann hefur þó talað lengi á þessa leið og hefur aðallega verið að spá hruni Bandaríkjanna og Bretlands ekki Evrunnar eða ESB enda þótt hann sé hrifinn af hvorugu. Hann er reyndar fluttur til Asíu og lætur ekkert tilefni frá sér fara um að tilkynna fjölmiðlamönnum að hann láti dóttur sína læra Kínversku. Fínn kall sá og geturðu séð mörg myndbönd af honum á youtube. Kannski að greinahöfundirinn fáist til að hringja í Jim Rogers og láta hann vita af þessu frábæra fjárfestingarleyndarmáli sem íslenska krónan eigi að vera, og vita hvort Rogers stilli sig um að hlæja upp í opið geðið á honum.

Síðan reyndar fer hann eitthvað að tala um að evrópuríki séu lítið í að flytja út til annarra landa og lætur eins og Jim Rogers hafi sagt það en því trúi ég nú varla að hann hafi sagt því ESB er auðvitað stærsti útflytjandi í heimi þannig að eitthvað þarf hann að krukka til í hausnum og laga þessar staðhæfingar. Varðandi að Evrópa sé háð Rússum með olíu og gas þá er það auðvitað skringileg staðhæfing því olíu geta Evrópubúar flutt hvaðanæva úr heiminum. Varðandi gas já þá minnir mig að Rússar sjá ESB fyrir um 25% of gas þörf þeirra. Lönd eins og Frakkland hinsvegar ganga nánast eingöngu á local kjarnorku og flytja þá þekkingu og framleiðslu út úr landi af miklum kappi fyrir mikið fé. Svo má auðvitað deila um hvor er háðari hverjum hér en ég tel það miklu frekar vera Rússa sem eru háðari ESB eins og sést hefur þegar þeir reyna að rukka Úkraínu sem borgar aldrei Rússneska gasið og stela þar af leiðandi úr pípunum á leiðinni til ESB. Þetta hafa þeir gert í 20 ár en Rússar geta ekkert gert því þeir þurfa gjaldeyristekjurnar frá ESB.

Síðan fer hann reyndar út í einhverja frasa eins og við séum víkingar og svo vel menntuð þjóð en það er reyndar algengur frasi sem á ekki við rök að styðjast. Mikið er eytt í menntun á Íslandi en hún gefur af sér eina verstu nemendur í Vestu Evrópu. Ég var í þrem framhaldsskólum Borgarholtsskóla, Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og Iðnskólanum og man maður eftir að í flestum áföngum þá var meðaltalið fyrir verkefnaskil kannski 9-10 sem er auðvitað út úr kortinu, svo þegar þessum nemendum er stillt upp við hliðina á öðrum nemendum frá Evrópu í Pisa rannsóknum þá teika þeir lestina hvað varðar þekking. Ekki er svo betra upp á teningnum í Háskólum landsins þar sem enginn þeirra kemst inn á topp 100 í heiminum. Þessi greinarhöfundur sem er lögfræðingur er greinilegt dæmi um þessa vel menntuðu þjóð og er engu líkara en hann hafi dregið menntun sína upp úr cheerios pakka. Á meðan það er ekki neinn einasti hagfræðingur sem reynir að verja krónuna lengur þá er hann að tala um að við ættum bráðum að fara að kyssa krónuna og við munum koma út úr þessu ástandi sem einhverjir sigurvegarar með "krónuna að vopni". En á móti kemur að það þarf oft ekki mikið til að peppa almúgann upp á einhverja glórulausa málstað.

Ég vona svo auðvitað að við finnum Olíu en það er ekkert ólíklegt og þá getum við farið að kalla okkur þjóð sem býr yfir ríkulegum náttúruauðlindum. 

Satt að segja nenni ég ekki að fara útlista ástæðurnar fyrir því afhverju ég tel að við eigum að ganga í ESB því eftir tvær færslur þá myndir þú örugglega aftur spyrja, "og afhverju teljið þið ESB sinnar aldrei upp neinar ástæður fyrir því að þið viljið ganga í ESB?"

En ég skal finna eitthvað sem ég hef skrifað áður og henda því hingað inn.

Jón Gunnar Bjarkan, 28.3.2009 kl. 16:42

10 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Djöfull ertu búinn að vera duglegur við bloggið Guðbjörn, maður var heillengi að fletta í gegnum þetta allt saman.

Hérna Halldór, hér geturðu fundið mínar ástæður fyrir að ég vil fara í ESB, sjá kommentin.

http://gudbjorng.blog.is/blog/gudbjorng/entry/674053/#comments

Svo geturðu líka flett í gegnum bloggið hér á Guðbirni en hann er með stútfullt blogg af góðum og gildum ástæðum fyrir því að ganga í ESB.

Jón Gunnar Bjarkan, 28.3.2009 kl. 17:02

11 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þess má geta að Guðbjörn fór reyndar í pontu í umræðum um Evrópumál á landsfundinum, en í stað þess að svara málflutningi sjálfstæðissinna kvartaði hann aðeins yfir því enn eina ferðina að það væri svo erfitt að vera Evrópusambandssinni í Sjálfstæðisflokknum.

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.3.2009 kl. 21:05

12 Smámynd: Baldur Hermannsson

Guðbjörn, ég hlakka til að heyra þig syngja Manrico en í guðanna bænum hættu þessum Evrópusöng. Það er yfrið nóg fyrir okkur að vera með þessum þjóðum í SÞ og NATO. Snúðu þér að málefnum dagsins.

Baldur Hermannsson, 28.3.2009 kl. 23:24

13 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Þessi greinarhöfundur sem er lögfræðingur

Þetta er ekki rétt hjá þér, merkilegt nokk þá er hann með menntun sem tengist þessu sem hann er að tala um svo að hann gæti haft eitthvað til síns máls að segja.

Hérna Halldór, hér geturðu fundið mínar ástæður fyrir að ég vil fara í ESB, sjá kommentin.

http://gudbjorng.blog.is/blog/gudbjorng/entry/674053/#comments

Hér sjást engar ástæður fyrir því að þú villt fara í ESB, þarna ertu bara að útlista hver hugmyndafræðin er bak við ESB sem er vissulega göfug hugmynd en er ekkert meira en það, einnig ertu að útlista sögu ESB þarna en mjög takmarkað er þarna um rök fyrir því hvers vegna Ísland á heima í ESB.

Nú eftir þennann lestur þá gæti ég allt eins sagt um þig:

Já ég vil þakka þér fyrir að benda mér á þessa grein sem bara dregur enn meira úr sannfæringu þessa ágæta manns, satt að segja eftir lestur þessarar greinar sýnist mér maðurinn vera algjörlega glórulaus.

Það hlýtur að vera í lagi þar sem ég er ekki sammála þér ekki satt?

Satt að segja nenni ég ekki að fara útlista ástæðurnar fyrir því afhverju ég tel að við eigum að ganga í ESB því eftir tvær færslur þá myndir þú örugglega aftur spyrja, "og afhverju teljið þið ESB sinnar aldrei upp neinar ástæður fyrir því að þið viljið ganga í ESB?"

Getur kannski verið að þið teljið ykkur hafa útlistað einhverjar ástæður en hafið í raun ekki gert það? það lýtur svo sannarlega þannig út séð frá mínu sjónarhorni.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 28.3.2009 kl. 23:33

14 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Hjörtur.

Já hann hefur þá allavega farið upp í pontu, er það ekki bara jákvætt eða eru ólíkar skoðanir ekki leyfilegar lengur í sjálfstæðisflokknum. Eitthvað hef ég þó verið að heyra að þú sért að skrá þig á mælendaskrá á fundum út í bæ til að verja skoðanir anti-ESB sinna en sért að boða forföll á síðustu stundu án útskýringa og gefur þannig fundar orðið óskorað yfir til ESB sinna. Eru kannski rökin eitthvað farinn að þrjóta kallinn minn? Ég hef nú alltaf kunnað ágætlega við þig Hjörtur enda þótt við séum algjörlega á sitthvorum kantinum í evrópumálunum. Leiðinlegt að þú skyldir fjarlægja kommenta möguleikann á blogginu þínu þar sem það þú skrifar gjarnan vandaðri ádeilu á ESB heldur en margir félagar þínir í Heimssýn sem eiga það til að fara bara eitthvað út í bláinn með umræðuna. Virðast flestir best satt að segja ekki fúllum femm. Ég er nú þó hvort eð er að fara segja upp þessum blogg reikning mínum þannig að það er nú vonandi að verði til þess að gleðja ykkur félaga, einn EBé dindill farinn.

Halldór.

Jú jú, það er allt í lagi Halldór minn, en ég vil nú fullyrða að ef þú finnur ekki neinar ástæður inn á þessu bloggi eins og þú sért að gefa í skyn, nú þá er varla eitthvað hægt að eiga við þig. Þú verður þó að skilja að ástæður eru persónubundnar og því eru það ástæður enda þótt þú persónulega sért ekki sammála þeim. Var ég ekki að tína til þarna eitthvað eins og hvernig heimilin hefðu verið mikið betur sett með evru, var ég ekki að tala um að ég vildi að Íslendingar ættu að taka þátt í þessu verkefni og svona. humm....

En hvað finnst þér um þá ástæðu sem Edda Rós Karlsdóttir að Ísland gæti sparað jafnvel tugmilljarða með aðildarumsókn vegna vaxtaberandi skulda. Eitthvað las ég að Ungverjaland, fyrrum kommúnista ríki lætur ekki einu sinni bjóða sér sömu vexti og snjallasta bankaþjóð í heimi hér á Íslandi. Að Ungverjaland greiði 3,5% vexti á meðan Íslendingar 5-6%. Þar sem hvert prósentustig er geysilega mikið virði hér þá hlýtur að vera mikils til að vinna. Átti þessi blóðugi niðurskurður í heilbrigðismálum að kosta rúmlega 1 milljarð.

Jón Gunnar Bjarkan, 29.3.2009 kl. 01:11

15 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Smá leiðrétting hérna:

Þetta var skýrsla á vegum utanríkisráðuneytisins undir stjórn Össur Skarphéðinssonar.

Í henni segir að vaxtaberandi erlendar skuldir ríkissjóðs séu áætlaðar við næstu árslok um að verða orðnar 2300 milljörðum króna. Aðeins eitt prósentustig lækkun á vextum myndi því þýða 23 milljarða króna sparnað.

Vaxta kostnaðurinn sem talað er um í þessu Icesave máli eru sagðir 5-6% enda þótt ég sé á þeirri skoðun að Bretar megi greiða þessa vexti sjálfir. Og að vaxtakjör sem Ungverjalandi bjóðist séu 3,5%. 

Við þyrftum eiginlega að fá þennan ágæta greinarhöfund sem þú vitnaðir í til að lesa yfir hausamótunum á þessum vitleysingum hjá Moodys. Vita þessir vitleysingar ekki hversu vel við stöndum. Núna er álagið á Íslenska ríkið jafnt því sem það var á bönkunum okkar rétt fyrir fallið að mér skilst og þannig eru þeir beinlínis að gefa í skyn að sömu líkur séu á því að íslenska ríkið falli um sjálft sig eins og líkurnar voru á bönkunum að verða gjaldþrota rétt fyrir hrunið. 

Jón Gunnar Bjarkan, 29.3.2009 kl. 01:37

16 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Halldór:

Já, ég er nú vanur því að þegar ég byrja að tala þá líti menn á mig sem hálfgerðan kjána og bendi mér á að syngja bara. Þetta varð ég sterklega var við í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Það eru nú ekki alltaf menntuðustu eða gáfuðustu menn sem telja sig mér fremri að gáfum og vitsmunum. Listamenn eru taldir frekar illa gefið draumórafólk á Íslandi. Á meginlandi Evrópu eru þeir taldir til "elítu" landanna!

Það er eins og margir í Sjálfstæðisflokknum geti aldrei tekið mig alvarlega af því ég hafði mitt lifibrauð af listinni í 15 ár. Ef ég hefði hins vegar verið að sparka bolta einhversstaðar í 3. deild í Belgíu myndu hins vegar allir gapa upp í mig!

Ég hef það fram yfir flesta í flokknum að hafa skrifað lærða 130 síðna meistaraprófsritgerð um áhrif inngöngu Íslands í ESB og þar af leiðandi lesið um efnið nokkur þúsund síður. Í haust ætla ég að hefja doktorsnám í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, þar sem ég mun dýpka rannsóknir mínar á Evrópumálum, sérstaklega m.t.t. til skatta- og tollastefnu sambandsins. Þrátt fyrir þetta á ég ennþá von á því að menn biðji mig frekar um að syngja en tala um stjórnmál.

Minn tími mun vonandi koma, en á hvaða vettvangi það verður mun tíminn leiða í ljós og hugsanlega verð ég aldrei tekinn alvarlega?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.3.2009 kl. 09:19

17 Smámynd: Baldur Hermannsson

Æ Guðbjörn vertu ekki svona mikil prímadonna. Þegar ég harma að hafa ekki heyrt þig syngja á sviði þá meina ég það bókstaflega því ég er eldheitur óperuunnandi. Vitanlega er fengur að listamönnum í pólitík og ég hefði svo sannarlega kosið þig í prófkjörinu um daginn - en mér bara hundleiðist þessi eilífi Evrópusöngur þinn, svo einfalt er það. Vona að þú hafir skemmt þér á La Sonnambula, þú sast fyrir aftan mig.

Baldur Hermannsson, 29.3.2009 kl. 10:25

18 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Við þyrftum eiginlega að fá þennan ágæta greinarhöfund sem þú vitnaðir í til að lesa yfir hausamótunum á þessum vitleysingum hjá Moodys. Vita þessir vitleysingar ekki hversu vel við stöndum.

Þetta er ótrúlegt en satt ansi góð spurning þó að hún hafi eflaust ekki átt að vera það 8), það er einmitt málið það er búið að mála ansi ljóta mynd af okkur erlendis, þar heldur fólk að við séum að svelta og að annar hver maður sé atvinnulaus þó að staðreyndin sé sú að við erum að standa okkur bara ansi vel, 5,5% atvinnuleysi er ekki mikið ef borið er saman við mörg önnur lönd.

Þetta var skýrsla á vegum utanríkisráðuneytisins undir stjórn Össur Skarphéðinssonar.

Í henni segir að vaxtaberandi erlendar skuldir ríkissjóðs séu áætlaðar við næstu árslok um að verða orðnar 2300 milljörðum króna. Aðeins eitt prósentustig lækkun á vextum myndi því þýða 23 milljarða króna sparnað.

Ég get ekki sagt að ég beri mikið traust til þessa manns er getið er hér og því spyr ég getur verið að þetta sé frekar svartsýn spá komandi frá þessum manni?

nú þá er varla eitthvað hægt að eiga við þig

Ég vænti þess nú ekki að þú hafir haldið að þú gætir fengið mig til að taka 180 gráður í mínu áliti á ESB bara sí svona, eins og ég sagði fyrr þá er hugmyndin um ESB góð og gild en ég er bara ekki sannfærður um að hún sé fyrir hendi eins og auglýst er.

Mitt álit er það að við þurfum ekki að losa okkur við krónuna og við ESB er ekki einhver töfralausn eins og svo margir hafa farið offari við að gefa í skyn, gallinn hjá okkur eins og er er sá að okkur vantar sterkann og almennilegan lagaramma utan um fjármálakerfið til að koma í veg fyrir svona fall, þó að miðað við hvernig fjármálakerfið í heild sinni í heiminum er í dag þá er þessi kreppa okkar óhjákvæmileg með öllu þar sem þetta er hreinlega bara hringrás, fyrst þennst kerfið út svo springur bólan, svona er þetta bara þar sem peningar eru búnir til út frá skuld, en með sterkari lagaramma er hægt að dempa fallið, þetta er eins og ég tek fram mitt álit og þarf enginn að vera sammála því frekar en hann vill.

Guðbjörn

Ég vil meina að ég hafi ekki verið að kalla einn eða neinn hér kjána þó að einhverjir gæti verið mér ósammála með það, við erum bara ekki sammála og það er ekkert meira en það.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 29.3.2009 kl. 11:08

19 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

"nú þá er varla eitthvað hægt að eiga við þig

Ég vænti þess nú ekki að þú hafir haldið að þú gætir fengið mig til að taka 180 gráður í mínu áliti á ESB bara sí svona"

Þú ert að misskilja mig, ég geri mér engar gyllivonir um að snúa við afstöðu þinni. Það sem ég er að segja að það er nú ekkert hægt að eiga við þig ef þú ætlar staðfastlega að reyna hafna því að þetta blogg hér sé ekki stútfullt af ástæðum sem Guðbjörn telur góðar og gildar fyrir ESB aðild. Það er jú það sem þú ert búinn að vera halda hér fram að við gefum ekki upp neinar ástæður fyrir þvi að vilja í ESB, sem er einfaldlega rangt hjá þér. 

Atvinnuleysi á Íslandi er að mér skilst frá fréttum í gær nú þegar orðið 8,5% og fer hratt versnandi en ekki 5,5% eins og þú segir.

Ég held nú reyndar að staða Íslands sé bara virkilega mjög slæm og ég held að matsfyrirtækin séu ekkert að fara eftir einhverri ljótri mynd sem misgáfulegar fyrirsagnir erlendra blaða mála af Íslandi.

Það var til dæmis alveg frábær þáttur hjá Egil Helgasyni í dag, og í umræðu lotu nr 2 hjá honum var farið yfir málin bara eins og þau eru.  Hvernig má það til dæmis vera að þrátt fyrir að við séum með gjaldeyrishöft, þrefalda ofþenslustýrivexti, lánsloforð upp á tvöfalda þjóðarframleiðslu til að styðja við krónuna og verðtryggingu fyrir erlenda sparifjáreigendur, þrátt fyrir það þá sé krónan að lækka, er einhver sem vill leggja út í að reyna útskýra þetta? Í þættinum var meðal annars farið yfir hvernig í þessu eyðslufyllerí þá sé í raun búið að nánast þurrausa eignir þjóðarinnar, menn lögðu að veði lífeyrissjóði, tryggingasjóði og kvótaheimildir langt fram í tímann og sjóði sem hafa safnast upp á 100 árum í sparisjóðum. Þar var einn ágætur maður, Andri Geir minnir mig að hann heiti, sem kom fram með þá skoðun sína að annaðhvort haldi íslendingar sig við krónuna og alþjóðagjaldeyrissjóðinn annarsvegar eða við Evruna og ESB. Með fyrri kostinum taldi hann að íslendinga biði lítið annað en stöðnun, atvinnuleysi og spilling. Og ég er alveg sammála þessu. Ferli stöðnunnar er ekkert óþekkt fyrirbæri og það sem er að gerast á Íslandi er skólabókadæmi um byrjunina á slíku ferli. Bankarnir eru þegar farnir á hausinn, fólk er farið að flytja úr landi og fyrirtækin er farinn að gæla við að fara á brott. Erlendar vinnumiðlanir eru fjótar að þefa upp svona stöðu og bjóða menntuðu fólki vinnu erlendis. Ekki veit ég til þess að ómenntað fólk eigi til dæmis völ á þessu Kanadíska prógrammi það skilja þeir eftir fyrir okkur á meðan þeir reyna að lokka til sín fólk sem við höfum nú þegar kostað með uppeldi og menntun. Þú þarft ekki að fara lengra en til Færeyja þar sem svona stöðnun hefur átt sér stað eftir þeirra bankakreppu. Mig minnir í einhverjar tölur þaðan úr landi að kaupmáttur og fólksfjöldi sé þar á par eða minni en hann var fyrir 20 árum og það er að því að mér skilst skortur á kvenfólki þar í eyjunum. 

Hvað meinarðu svartsýni Össurar? Hann er ekki að tala um neina svartsýni. Það er bara almennt viðurkennt að þetta verði vaxtaberandi skuldir Íslendinga eins og mér skilst það. Og þetta er sú vaxtakjör sem menn eru að tala um? Nema kannski að halli ríkissjóðs verði meira en hann var áður áætlaður, þá 150 milljarðar en nú 200 milljarðar. Menn eru að tala um blóðuga niðurskurði í heilbrigðismálum fyrir kannski 2 milljarða. Hvernig ætla menn eiginlega að brúa þetta bil og hvað mun hann verða árið þar á eftir. Þessi halli er svo gríðarlegur að ef hann verður ekki tæklaður eins og skot þá verðum við gjaldþrota þjóð, því miður, það er bara svo einfalt. 

Jón Gunnar Bjarkan, 29.3.2009 kl. 21:26

20 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Það sem við þurfum að gera er að mínu mati og hvernig ég tel ESB aðildarumsókn, talandi ekki um inngöngu í ESB myndi hjálpa við það:

1. Lækka vaxtakjör á erlendum lánum ríkissjóðs.

Lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vega hér þungt, jafnvel þó að við séum ekki beinlínis að nota lánin þá eru þau samt að safna vöxtum á sig og töluvert hærri en þeim sem við fáum í Bandaríkjunum þar sem þessir peningar liggja inn á reikningi. Nú ráða ESB ríki nánast öllu sem hægt er að ráða í IMF. Bretland, Þýskaland og Frakkland hafa sama vægi og Bandaríkin og þá eru öll önnur ríki ESB eftir talin.  Belgía þetta litla land hefur til dæmis meira atkvæðamagn en Indland og forstjóri IMF eða hvað það heitir kemur ávallt frá ESB. Sjá lista yfir atkvæðamagn:

http://www.imf.org/external/np/sec/memdir/members.htm

Mér þætti nokkuð ótrúlegt ef að ESB ríki myndu ekki vinna hart að því að ná niður vaxtakjörum okkar ef við erum ESB ríki.

2. Reyna að breyta þessum jöklabréfum og öðrum eignum erlendra fjárfesta hér á landi yfir í langtíma fjárfestingar svo hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin.

Nú er það mat held ég bara allra hagfræðinga að erlendir eigendur jöklabréfa og annarra eigna hér í landi myndu róast töluvert við að þá tilkynningu að við stefnum á aðild að ESB og upptöku evru og þeim þyki þá minni ástæða til að flýja með fjármagnið annað. Ef okkur tekst þetta þá er hægt að létta miklum þrýstingi af krónunni og þá getur hún farið að hefja þetta styrkingarferli sem við höfum lengi beðið eftir. Það myndi augljóslega minnka skuldir fyrirtækja og heimila gríðarlega mikið, sérstaklega fyrirtækja.

3. Skapa atvinnu með uppbyggingu með stuðningi af erlendu fjármagni svo sem data centers eða kísilverksmiðju, vatnsverksmiðjur eða hvað það er.

Nú er það held ég bara alveg ljóst að það fer enginn að fjárfesta á Íslandi á meðan þeir eiga það á hætta að festast inn í gjaldeyrishöftunum, þannig að ef þau eru farinn þá léttist málið um allan helming. Auk þess þá hefur enginn áhuga að mér skilst að fjárfesta hér vegna krónunnar og því myndi fyrrnefnd tilkynning um stefnu að ESB og evru hjálpa hér mikið. 

Þetta þrennt myndi minnka atvinnuleysi og þar af leiðandi fólksflótta, skapa tekjur svo fleiri standi undir greiðslubyrði og minnki áhættuna á dómínó áhrifum fjöldagjaldþrots og styrkja gengið sem minnkar skuldirnar. Auk þess myndi þetta minnka vaxtabyrði af skuldum ríkissjóðs og spara okkur geysilegar fjárhæðir. 

Jón Gunnar Bjarkan, 29.3.2009 kl. 22:10

21 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón Gunnar:

Allt góð og gild rök!

Að auki höfum við báðir nefnt til sögunnar ótal rök sem mæla með aðild, bæði fyrir fyrirtæki og fjölskyldurnar í landinu.

Það fólk sem er á móti aðild virðist ekki einu sinni hafa áhuga á að hlusta á rökin sem maður nefnir!

Rökin á móti aðild þekkja allir og flest af þeim byggjast á misskilningi, rangtúlkunum og hreinum og klárum lygum.

Í raun snúast mótrökin að mínu mati aðeins um fiskinn og landbúnaðinn og náist samkomulag um þessi tvö atriði er ekkert annað að gera en að stefna inn sem allra fyrst og taka upp evru, sem gæti þó tekið nokkur ár. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 30.3.2009 kl. 20:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband