Býð mig fram til að klippa ræður Davíðs!

Ég ákvað að bíða með að blogga um líflega ræðu Davíðs Oddssonar á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Upphafleg hrifning mín á ræðunni hefur aðeins rénað, þótt vissulega hafi Davíð farið á kostum í lýsingum sínum á aðförinni eða réttara sagt eineltinu sem hann varð fyrir sem seðlabankastjóri og "aftökunni" á honum sem seðlabankastjóra, ummælum hans um lausamanninn úr Norska verkamannaflokknum og Stoltenberg og ótal margt fleira. Hver getur komið þessari ræðu á Youtube?

Þarna var hins vegar reiður maður á ferð, sem sagði sitthvað sem hann á eflaust eftir að sjá eftir að hafa sagt um fólk sem hefur dáð hann, virt og varið í áratugi. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra! Stjórnmálin eru ekki alltaf falleg og það er eitt þegar skapmenn sýna óánægju sína í hita og þunga leiksins, t.d. í kjölfar pólitískra svika og pretta eða þegar hópar leggja saman á ráð gegn mönnum og bandalög eru mynduð gegn einstaklingum eða hópum innan flokksins. Hitt er að ráðast gegn heiðarlegum manni eins og Vilhjálmi Egilssyni og þeim 80 einstaklingum, sem stóðu að mjög svo vandaðri, heiðarlegri og gagnrýnni skýrslu endurreisnarnefndar flokksins. Um þessa skýrslu var slíkur einhugur á meðal landsfundargesta að hún var varla rædd á fundinum.

Þarna var þó einnig um kennslustund að ræða fyrir hrútleiðinlega stjórnmálamenn dagsins í dag. Þarna var mönnum sýnt hversu beittur og harðskeyttur Davíð getur verið og hversu öflug kaldhæðni í bland við gott skopskyn og rök geta virkað. Davíð fór á kostum sem aldrei, en fór yfir strikið nákvæmlega eins og í hinu fræga viðtali í Kastljósi síðastliðið haust! 

Eftir meðferðina á Davíð í vetur er reiði hans og biturð þó eðlileg og skiljanleg. Ekki síst af því að stærstum hluti óánægjunnar og hatursins var beint í átt til Davíðs en ekki til þeirra sem beina ábyrgð bera á ástandinu, þ.e.a.s. útrásarvíkinganna sjálfra. Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnir undanfarinna ára bera að mínu mati mikið minni ábyrgð á þessu ástandi en þeir fyrrnefndu. Ég hafði í vetur oft á tilfinningunni að allir þessir aðilar væru fegnir að verið væri að hamast á Davíð, því á meðan fengju þeir frið.

Þið verðandi forystumenn flokksins verið að reyna að tileinka ykkur eitthvað af þeirri ræðutækni sem Davíð beitti í gær og hvernig hann talaði beint frá hjartanu og á tungumáli sem allir skilja. Takið þó alls ekki upp ósiði okkar gamla formanns. Skjótið ekki yfir markið, eða réttara sagt beitið ekki klasasprengjum þegar fallbyssur duga!

Davíð þér er fyrirgefið - allavega af mér - og vertu velkominn aftur í pontu á Landsfundi þegar þér er runnin reiðin! Vænt þætti mér um ef þú bæðir Vilhjálm og endurreisnarnefndina afsökunar á ummælum þínu. Afgangurinn má að mínu mati standa!!!

Já, hún er eins og álfur út úr hól og það á eftir að koma enn betur í ljós síðar!


mbl.is Vilhjálmur: Ómakleg ummæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Sæll Guðbjörn, þú ert mikill ljúflingur, en þessa ræðu á ekki að klippa. Hún stendur eins og hún er. Davíð gagnrýndi ekki bara andstæðinga í stjórnmálum hann beindi gagnrýninni líka inn á við. Inn í flokkinn sem sagt er að sé í naflaskoðun. Verða menn þá ekki að byrja á því að finna naflann.

Menn hafa kannski ekki hugleitt ráðningu Vilhjálms í þessu ljósi fyrr en Davíð hafði orð á því, en nú komast þeir ekki hjá því. Verk Vilhjálms hljóta að skoðast í því ljósi. Hverra hagsmuna þjónaði barátta Vilhjáms fyrir inngöngunni í ESB? Þar fór hann mikinn og lét sem hann  hefði samtökin á bak við sig. En á daginn kom að könnun sem gerð var á vegum SA sýndi aðeins 43% stuðning, 40% á móti og afgagnurinn tók ekki afstöðu. Óheppileg niðurstaða sem átti að þagga niður.

Á meðan ódýrt erlent fjármagn flæddi inn í landið hæddist SA að tilraunum SÍ til að halda niðri verðbólgu með háum vöxtum. Á þeim tíma ullaði SA á allar tilraunir SÍ til að vinna gegn verðbólgu. Síðan það þraut hefur Vilhjálm farið um eins og torgsölukona. Æpt og skrækt í hvert sinn sem vaxtaákvarðanir eru teknar. Satt, vextir eru að sliga allt og alla, en ætli ódýra fjármagnið sem aðilar að SA veltu sér upp úr í eina tíð eigi engan þátt í ástandinu sem nú ríkir? Það er ekki bæði haldið og sleppt. 

Og hvað er SA annað en þau félög sem að baki þess standa. Þessa dagana hefur fækkað í félagatalinu.

Ragnhildur Kolka, 29.3.2009 kl. 10:35

2 Smámynd: hilmar  jónsson

Jæja eru bara menn aðeins farnir að horfast í augu við raunverulegt eðli ykkar ástsæla spámanns ?

hilmar jónsson, 29.3.2009 kl. 15:05

3 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Mikið vona ég að dagar valdbeitingar, hroka og eineltis víki sem fyrst fyrir heiðarlegu, opnu samfélagi, þar sem byggt er á siðferði og ábyrgu framferði.

Saga Íslands svo langt sem hún nær, sýnir að þeir Íslendingar sem höfðu völd eða áttu von um frama, hafa alltaf stutt misbeitingu valds. Íslendingar hafa engin dæmi úr sögunni þar sem þeir hafa stutt opið, sanngjarnt kerfi. Sorglegt reyndar að Íslendingar geti ekki sýnt fram á að þeir hafi stutt lýðræðislega þróun mannréttinda, þrátt fyrir allt þjóðarstoltið.

Allt aftur til fyrstu samtímaheimilda finnast dæmi þess þegar Íslendingar hafa beitt valdi til að hefta sjálfsákvörðunartöku þeirra sem minna vald höfðu (bændur vs fiskimenn og strandbúar).

Tímabil Davíðs í stjórnmálum flokkast undir svona valdbeitingu, í skjóli hroka og eineltis.

Sá tími er liðinn. Vona ég.

Baldvin Kristjánsson, 29.3.2009 kl. 15:09

4 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Davíð þarf svo sannarlega EKKI að biðjast afsökunar. 

Hvenær og hvar hefur Vilhjálmur Egilsson gagnrýnt bankana að undanförnu, eða svo mikið sem talað um að þessir viðskiptaþjófaútrásarvíkingar eigi einhverja sök á bankahruninu.  Ég get ekki séð það. 

Og því eiga orð Davíðs í ræðunni fullan rétt á sér.  Menn verða bara að grenja ef þeir þola ekki gagnrýni.

Sigurður Sigurðsson, 29.3.2009 kl. 19:21

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er aðeins eitt raunverulegt hatramt og hættulegt „bully“ á sjónarsviði íslenskra stjórnmála - og er þar enn þó hann hafi fyrir löngu lofað að láta sig hverfa. Sá gerir alla hluti persónulega og persónugerir öll málefni, - og heldur í ofanálag að allt sem allir aðrir séu að hugsa og gera snúist um hann og hann einan. - Raunverulegir vinir hans ættu raunverulega að hjálpa honum að ná raunverulegum tökum á tilverunni.

Helgi Jóhann Hauksson, 29.3.2009 kl. 19:40

6 Smámynd: Ásgeir Jóhann Bragason

Guðbjörn alvöruleiðtogar byðjast aldrei afsökunar,enda keppist kerfið við að setja svona karaktera á ritalín og allskyns sálfræðinga svona er ÍSLAND Í dag.

Ásgeir Jóhann Bragason, 29.3.2009 kl. 21:39

7 identicon

Vilhjálmur Egilsson var ráðinn til Samtaka Atvinnulífisins af því að Jóni Ásgeiri þóknaðist það. Sömuleiðis var Þór Sigfússon stjórnarformaður samtakana honum líka þóknanlegur. Þór Sigfússon situr í stjórn lífeyrissjóðsins ALvíb (glitnir) og í stjórn Mosaic fashion. Af hverju má ekki segja hlutina eins og þeir eru Guðbjörn?

Anna María (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 22:37

8 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þið megið ekki taka Davíð niður af stallinum, það er ykkar Jesú nýupprisinn eftir krossfestinguna. Þið verðið endilega að halda í trúnna á Hann í þeirri eyðimerkurgöngu sem er framundan.

Gunnlaugur B Ólafsson, 29.3.2009 kl. 23:22

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Líkt og ég hef margoft lýst yfir snúast ummæli Davíðs Oddssonar að mínu mati um þessa skýrslu en ekki hvort hann hafði á réttu að standa varðandi hvort Vilhjálmur Egilsson og Þór Sigfússon hafi verið Jóni Ásgeiri og einhverjum öðrum þóknanlegir í sínar stöður.

Á að hálshöggva alla sjálfstæðismenn sem voru í samskiptum við einhverja af þessum 30 útrásarvíkingum, þá er ég hræddur að fáir viðskiptamenn landsins væru eftir! Mátti þá vera í samskiptum við Björgúlfana en ekki þá sem eru og voru Davíð þóknanlegir? Hverslags bull er þetta eiginlega?

Auðvitað áttu flestallir aðilar í viðskiptum og samskiptum hver við annan í þessu litla landi. Spurningin nú eftir hrunið snýst aðeins um hverjir gerðu eitthvað siðlaust eða ólöglegt, sviku undan skatti eða sviku peninga út úr bönkum eða fjármálastofnunum, hverjir hlutu lán upp á hundruð ef ekki þúsundir milljóna án nokkurra trygginga og hjá hverjum skuldir voru felldar niður án nokkurrar augljósrar skýringar?

Davíð og félagar ráða bara alls engu lengur í flokknum, en ef Davíð vill koma upp í pontu og skemmta okkur aðeins má hann það! Hann þarf bara að halda sig innan skikkanlegra marka og ekki sýna fólki dónaskap. Honum er hins vegar fullkomlega leyfilegt að skjóta á vinstri menn eða útlendinga ráðna af því!

Og já, við sjálfstæðismenn stöndum saman! Og já, við hlæjum og skemmtum okkur saman og það var góð stemming á meðan Davíð hélt ræðu sína! Og hvað með það? 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 30.3.2009 kl. 07:19

10 Smámynd: Halldór Halldórsson

Guðbjörn!  Flokkurinn átti að geyma þetta skemmtiatriði til Landsfundarhófsins um kvöldið.  Auðvitað er ég sekur um að hafa tekið þátt í að hlægja að upphafsbröndurum trúðsins, en brosið á mér fór stirðnandi eftir því sem "fyndnin" varð skítlegri.  Alveg þangað til að Davíð réðst af ódulbúnu hatri á Vilhjálm Egilsson; þá stóð ég upp og labbaði út af Landsfundinum!  Í framtíðinni mun ég gæta þess að labba út hvar og hvenær sem Davíð Oddsson byrjar að halda tölu; ég get sjálfur valið og borgað mig inn á þær brandarasýningar sem ég vil sjá og heyra.

Halldór Halldórsson, 30.3.2009 kl. 09:01

11 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er kanski sjúklegast í öllu þessu að sjá hið mikla klapp og ánægju landsfundarfulltrúa með jafn skítlegt eðli og kom fram í þessari ræðu. Það er áhyggjuefni að flokkurinn getur ekki afgreitt á vitrænan hátt grundvallarmál eins og stöðu gjaldmiðils og skipan samstarfs þjóða innan Evrópu, en dettur inn í foringjamúgsefjun sem minnir á stemmingu í germönsku fundahaldi um miðja síðustu öld.

Gunnlaugur B Ólafsson, 30.3.2009 kl. 09:24

12 identicon

Það á ekkert að hálshöggva þá en það er gott að vita hver greiðir þeim laun.  Fyrir hverja vinna þeir?  Um það snýst málið. 

Anna María (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 11:09

13 Smámynd: Bjarki Á

Davíð er Davíð og hvar Davíð keypti ölið veit ég ekki.

Öllum er frjálst að hafa skoðanir.

Hvet ég því alla til að hlusta á ræðuna í heild sinni og heyra skoðanir hans enda margir góðir punktar.

  http://wms0a.straumar.is/xd/DavidOddson.wmv

Bjarki Á, 30.3.2009 kl. 11:17

14 identicon

JÆJA er þessi blessaði ræðumaður þá orðinn holdgerfingur Jesú Krists??

Eða hvað

Steinunn Hlynsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 12:36

15 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gunnlaugur:

Það er enn sjúklegra að líkja Landsfundi Sjálfstæðisflokksins við fundi Þýska nasistaflokksins!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 30.3.2009 kl. 15:08

16 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þú settir fram þessa samlíkingu í orðum en ekki ég. Múgsefjun tengd foringjadýrkun náði lengst í Þýskalandi fyrir miðja síðustu öld. Fólki leið vel á óvissutímum að heyra í einstaklingi sem að lét eins og hann vissi hvað hann væri að fara, þó hann hafi verið með alvarlega persónuleikaröskun. Að ná fólkinu með sér inn í stemmingu sem að var þó í raun mannfjandsamleg.

Af þessum toga var ræða Davíðs. Hún var sett fram af skítlegu eðli þar sem var reynt að gera lítið úr útliti fólks eða hæðast að sjúkdómum. Salurinn veltist um af hrifningu af því að fólkinu leið eins og óvissu væri eitt og nú þyrfti bara að hlýða leiðsögn hins nýupprisna foringja. Að klappa bara á réttum stöðum. Það var ekki fyrr en skítkastið beindist að flokksstarfinu að hinn klappandi lýður vaknaði og fór að hugsa um inntakið.

Held þú ættir að bjóðast til að klippa algjörlega þátt Davíðs Oddssonar út úr flokksstarfinu og finna leiðir að sönnu frelsi undir merkjum kærleika í mannlegum samskiptum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 31.3.2009 kl. 09:13

17 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ætlaði að láta þennan link yfir á góð skrif Illuga Jökulssonar "Síðasti pistill um Davíð"

Gunnlaugur B Ólafsson, 31.3.2009 kl. 09:15

18 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gunnlaugur:

Að líkja einhverjum stjórnmálaflokki við Nasistaflokkinn í Þýskalandi og Davíð þá við Hitler er grafalvarlegt.

Ef þú værir í Þýskalandi væri þú örugglega búinn að fá heimsókna frá Lögreglunni, þ.e.a.s ef menn teldu þig með öllum mjalla. Annars væru aðrir búnir að heimsækja þig og koma þér í öruggt skjól.

Málflutningur þinn - fæ óbragð við að nota þetta orð um ummæli þín -  er fyrir neðan allan hellur og einkennist af lýðskrumi.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.4.2009 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband