Hvað mistókst í "hægri tilrauninni"?

Liberal CrapÞað er einkennilegt en um leið hressandi að tilheyra að nýju minnihlutahópi. Fyrstu grein mína í fjölmiðla skrifaði ég í Morgunblaðið aðeins 16 ára gamall, en það var fyrir 31 ári síðan. Greinin var um frjálshyggju og hvernig sú ágæta stefna gæti leitt okkur út úr þeim vanda, sem við var að etja á því herrans ári 1978. Allt frá þessum tíma og til þessa dags hef ég verið þeirrar skoðunar að séríslensk útfærsla af frjálshyggju væri lausnin á vandamálum þeim sem hrjáðu okkur áratugum saman og gætu farið að hrjá okkur að nýju sé ekki rétt haldið á málum.

Vandamál Íslendinga alla tíð hafa verið blokkamyndanir á borð við Sambandið og Kolkrabbann, klíkuskapur innan stjórnmálaflokkanna og gífurleg ættdrægni (e. nepotism). Ég taldi að með því að gefa fólki fullkomið athafnafrelsi, koma á samkeppni á markaði á Íslandi og frjálsu flæði á fjármagni og vöru myndi Ísland blómstra sem aldrei fyrr. Draumur minn rættist og ríkisstjórn sú sem tók við völdum árið 1991 kom í áföngum á  því frelsi hér á landi, sem mig og marga aðra hægri menn hafði dreymt um í langan tíma. Við vorum ekki hissa þegar allt fór að blómstra á Íslandi og upp spruttu í skjóli frelsis metnaðarfullir einstaklingar, sem komu af stað metnaðarfullum fyrirtækjum er uxu hratt og örugglega. Þarna á ég t.d. við fyrirtækið Össur, Marel en einnig fyrirtæki sem nú eru því miður komin í ónáð hjá flestum Íslendingum, t.d. Bakkavör og Bónus. Allt voru þetta í byrjun fyrirtæki sem spruttu upp fyrir tilstilli einstaklinga, sem höfðu úr engu öðru að spila en eigin hugviti, gífurlegum dugnaði og útsjónarsemi og á þessu komst maður og kemst býsna langt! Öll voru þessi fyrirtæki - allavega tímabundið - óskabörn þjóðarinnar.

Ólafur Ragnar & fjölmiðlalöginAllt gekk vel í byrjun, en í síðasta lagi árið 2003 - 2004 fóru að renna á mig tvær grímur. Ég sá að vissir einstaklingar stóðu ekki aðeins í rekstri sinna fyrirtækja - líkt og eigendur Marels og Össurar -, heldur stóðu þeir einnig í pólitík. Þessir athafnamenn fóru að kaupa fjölmiðla í gríð og erg og réðust í útgáfu blaðs, sem þeir dreifðu ókeypis í öll hús. Í byrjun hugsaði ég með mér, að það væri nú bara ágætt að fá þessi blöð send heim, en fljótlega sá ég að þessi blöð voru hápólitísk og að markmið þeirra var að stóru leyti að breiða út skoðanir eigenda sinna. Þetta kom best í ljós í aðdraganda kosninga eða þegar mál komu upp, sem eigendum þessara fjölmiðla mislíkaði niðurstaðan í. Stöð 2 tók sömu breytingum og þær útvarpsrásir, sem reknar voru í sama rekstrarfélagi. Þetta sáu fleiri en ég og reynt var að koma böndum á þá starfsemi, þannig að ekki væri hægt að misnota fjölmiðla á þennan hátt. Það tókst ekki, þar sem fjölmiðlar auðjöfranna héldu uppi grímulausum áróðri gegn þeirri löggjöf, sem takmarka átti áhrif þeirra. Með þessum gífurlega áróðri tókst að heilaþvo meirihluta Íslendinga. Eini stjórnmálaflokkurinn, sem tók einarða afstöðu með auðmönnunum, var Samfylkingin. Samfylkingin virðist stundum ekki hafa neina eiginlega stefnuskrá, nema kannski afgerandi afstöðu varðandi aðild Íslands að ESB, sem ég reyndar einnig aðhyllist. Nei, þessi stjórnmálaflokkur myndar sér skoðun eftir því hvernig vindurinn blæs, þ.e. hvaða skoðun flokkurinn heldur að almenningur hafi eða muni hafa. Þar sem auðjöfrarnir stjórnuðu skoðunum almennings í landsins, stjórnuðu  þeir einnig lýðskrumurunum í Samfylkingunni og skoðunum forseta Íslands - meðhjálpara Samfylkingarinnar og klappstýru útrásarvíkinganna - og með hans hjálp tókst síðan að koma í veg fyrir að fjölmiðlalögin tækju gildi. Auðjöfrunum, Samfylkingunni og forsetanum tókst að mynda djúpa gjá milli þjóðar og þings.

Davíð & GeirÞarna sá ég, að ríkisstjórnin og meirihluti þingsins stjórnuðu ekki lengur þessu landi, heldur ólígarkar Íslands. Þegar Davíð ákvað að hætta létti mér mikið, því ég vissi að Geir H. Haarde tæki við og þar með mildari stefna Sjálfstæðisflokksins. Mér stóð að mörgu leyti stuggur af öfgakenndum skoðunum Davíðs síðustu árin. Eftir á að hyggja voru þær kannski öfgafullar en réttar. Því miður áttaði Davíð sig of seint og gjörðir fylgdu ekki alltaf orðum, en kannski var á þessum tíma við ofurefli að eiga? Mildari stefnu var allavega ekki það sem ólígarkarnir þurftu á að halda, svo mikið er víst. Ég treysti því að Geir gæti talað við Jón Ásgeir, Björgúlf og Hannes og síðan auðvitað við stjórnendur bankanna. Ég taldi að fyrst við værum komin með nýtt Samband og nýjan Kolkrabba - sem ég var þó engan vegin sáttur við og vonaðist til að losna við eða a.m.k. minnka völd þeirra - þá væri nauðsynlegt að stjórnmálamenn allra flokka væru í sæmilegu sambandi þá menn eða allavega helst ekki algjörlega upp á kant við þá líkt og Davíð hafði verið síðustu árin. Mér varð því miður að ósk minni og það átti síðan eftir að koma í ljós ég hefði betur ekki óskað mér þessa. Auðsjáanlega tókust miklir kærleikar með Geir og útrásarvíkingunum, allavega ef dæma má út frá styrkjum til Sjálfstæðisflokksins og hvernig Geiri og Solla héldu hvern fundinn á fætur öðrum til að auglýsa hversu frábær útrásin væri og hversu traustir íslensku bankarnir væru. Síðan fór sem fór. 

Síldarverksmiðju ríkisinsHvað hafði mistekist hjá okkur í "hægri tilrauninni", eins og sósíalistinn Kristin Halfvorsen, fjármálaráðherra Noregs, kallar tímabilið 1991 - 2008. Hvernig gat eitthvað, sem byrjaði svona vel farið algjörlega á hliðina á 4-5 árum. Er svaranna að leita í stefnunni sjálfri - frjálshyggjunni? Hlaut þetta að enda með ósköpum? Svarið við þessum spurningum er auðvitað ekki einfalt. Í tilraun sem þeirri er fram fór hér og í mörgum löndum Vestur-Evrópu á undanförnum áratugum, þegar ríkisfyrirtæki voru einkavædd og opinber rekstur var færður yfir til einkaaðila hefur auðvitað ýmislegt farið á annan veg en ætlað var. Var við einhverju öðru að búast? Það gat ekki allt tekist jafn vel. Vinstri menn benda á klassísk dæmi á borð við járnbrautirnar í Bretlandi og póstinn í sumum löndum, þar sem verð fyrir póstsendingar hefur hækkað. Sumt af þeirri gagnrýni á við rök að styðjast og annað ekki. Minna er gert að því að benda á það sem vel hefur farið. Enginn talar lengur um hvernig ástandið var hér fyrir 20-30 árum, þegar útgerðin var rekin með tapi og sveitarfélög styrktu bæjarútgerðir um land allt og fella þurfti reglulega gengið til að bjarga gjörsamlega vonlausum útgerðum. Enginn talar um hversu vel tókst til þegar Síldarverksmiðjur ríkisins voru seldar og mörg önnur fyrirtæki. Enginn talar um hvernig lífskjör á Íslandi breyttum á árunum 1991 - 2002. Mín skoðun er að tilraunin sem slík hafi alls ekki mistekist, allavega ekki fyrri hluti hennar. Nei, frekar má segja að framkvæmd síðari hluta tilraunarinnar hafi farið út um þúfur. Kannski má þetta að hluta til rekja til þess að Davíð varð veikur og við tók "veikur" leiðtogi. Kannski var þjóðin búin að fá nóg af "ofríki" eða stjórnsemi Sjálfstæðisflokksins? Það er erfitt að sjá hver gróf stærstan hluta þessarar grafar, en ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn, Seðlabankinn og Davíð og Fjármálaeftirlitið bera þar mikla ábyrgð, en mesta ábyrgð bera þó útrásarvíkingarnir og stjórnendur bankanna. "Frjálshyggjan" sem slík ber ekki ábyrgð á því hruni, sem hér hefur orðið, en auðvitað reyna andstæðingar okkar á vinstri vængnum að gera sér mat úr þessu!

 

BarnauppeldiVið sem eigum börn, vitum að börn hafa gott af því að njóta ákveðins frelsis þegar þau eru að alast upp. Þannig og aðeins þannig læra þau að taka ábyrgð á sjálfum sér. Á meðan börnin eru mjög lítil njóta þau þessa frelsis á þann hátt, að við leyfum þeim að halda að þau séu ein - t.d. úti í garði - en við erum samt að fylgjast með þeim. Síðar fá þau að fara eitthvað aðeins lengra til að leika með vinum sínum, en um slíkar ferðir setjum við þeim reglur, t.d. hvað þau mega gera og með hverjum þau mega leika sér, hvenær þau eiga að koma heim o.s.frv. Þessu til viðbótar gilda síðan almenn lög í landinu sem vernda okkur sem fjölskyldu, lög sem vernda frelsi einstaklingsins og mannréttindi og síðan barnaverndarlög og reglur um útivist barna o.s.frv.

Unglingar í vandræðumAð mínu mati má heimfæra þessa "hægri tilraun" okkar Íslendinga upp á barnauppeldi. Fyrri hluti tilraunarinnar tókst afskaplega vel. Það var síðan þegar barnið var komið á unglingsaldurinn, sem vandamál fóru að koma upp á. Hugsanlega er hluta vandamálanna að leita í uppeldinu þegar þau voru aðeins börn. Hugsanlega er alls ekki við okkur að sakast sem foreldrar og aðeins við eðlislag unglingsins? Það þýðir lítið að velta sér upp úr þessu núna, þótt gott sé að læra af reynslunni. Nú er unglingurinn kominn í fíkniefni, stórskuldugur og handrukkarar á eftir honum og það eina sem hægt er að gera er að leita til erlendrar sérfræðistofnunar til að fá hjálp og koma unglingnum fyrir á meðferðarstofnun. Frændur okkar og vinir hafa áhyggjur og eru til í að veita okkur alla þá hjálp, sem við þurfum. Þau hafa þó sett okkur ákveðin skilyrði fyrir þeirri hjálp. Það fyrsta er að viðurkenna vandann og búa til áætlun um lausn hans. Síðan er að taka afleiðingunum. Í "hægri tilraun" okkar Íslendinga láðist okkur að segja barninu okkar - sem var að mörgu leyti vel af Guði gert - að frelsi fylgir ábyrgð, að frelsi fylgir eftirlit og að frelsi fylgja reglur, sem þarf að fara eftir og foreldrarnir eiga að fylgja eftir!

SpillingÞað var ekki frelsi í viðskiptum eða krafa um eðlilega arðsemi eða krafa um hagræðingu eða einkavæðingu eða að rekstur væri færður úr höndum ríkisins í hendur einkaaðila, sem kom okkur í þá aðstöðu sem við erum í núna. Nei, það var stjórnlaus og hömlulaus græðgi óprúttinna einstaklinga - ég leyfi mér að segja glæpamanna -, sem höfðu græðgina eina að leiðarljósi og höfðu aðeins eitt markmið og það var að verða ofurríkir, hvað sem það kostaði þjóðina! Það sem setti okkur á hausinn var getuleysi stjórnvalda til að hafa eftirlit með þessum mjög svo þekkta breyskleika mannsins, setja þessum einstaklingum skýrar reglur og fylgjast með að þeir fari nákvæmlega eftirþeim reglum!

Íslenska þjóðinVerkefni næstu mánaða er að leysa að nýju úr læðingi kraft þjóðarinnar. Þessi kraftur býr innra með okkur öllum og brýst fram með því að gefa einstaklingunum frelsi til athafna og varðveita frelsi í viðskiptum og samskiptum manna á milli. Þannig gætum við upplifað aftur svipað uppbyggingarskeið og á árunum 1991 - 2002.

Annað verkefni dagsins er að setja einfaldar en skýrar reglur er koma í veg fyrir efnahagslegan harmleik svipaðan þeim eru við gengum í gegnum haustið 2008. Þessum reglum bera að fylgja stíft eftir með virku eftirliti. Varast ber þó að drepa í dróma frumkvæði, kraft og áræði íslensks athafnafólks með of flóknum reglum og umfangsmiklum hömlum á viðskiptalífið. Verði það gert hverfum við aftur til þess ástands sem ríkti á árunum 1950 - 1990.

Aldrei reis sól menningar, vísinda, stjórnmála og lista jafn hátt á íslenskum himni og á tíma frelsisins á árunum 1991 - 2002.

 

 


mbl.is Telegraph: Ekkert venjulegt hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sannarlega, er mjög nauðsynlegt að læra af mistökunum.

Ef, við getum náð nauðasamningum við aðra kröfuhafa, en bara Holland og Bretland, eftir að fyrirvarar hafa leitt til nýrra samingaviðræðna - - en að mínu mati, er það best case, að í framhaldi þess að Alþingi hefur gert þessa fyrirvara, að þá fari fram nýjar samingaviðræður um að endurskrifa Icesave samninginn að stórum hluta.

Það kæmi mér mjög á óvart, ef Hollendinga og Breta myndu einfaldlega, samþykkja fyrirvarana, si-svona.

--------------------------

Eins og ég sagði, ef við í framhaldinu, náum að klára nauðasamninga, við aðra kröfuhafa, í framhaldinu. Þá er smá von, um að ekki sé framundan, dauður áratugur með stöðugum landflótta, og lækkandi lífskjörum.

Þá má vera, að hægt verði, að nota þær framkvæmdir sem þú hefur talað um, að eru í pípunum, til að rétta okku fljótt við.

-------------------------------------------

En, skuldir upp á nær 3 þjóðarframleiðslu, eru einfaldlega of háar, til að þær framkvæmdir dugi til að breyta einhverju stóru um þróun hagkerfisins okkar, annað en það að hún kreppan verður kannski bara áratugur en ekki 2. áratugir.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 16.8.2009 kl. 11:49

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Einar Björn:

Það er mín skoðun að á bak við þennan Icesave samning sé annar samningur, þar sem aðild Íslands að ESB spilar stóra rullu.

ESB gerir sér grein fyrir því að regluverkið var gallað og að slíkar byrðar er ekki hægt að leggja á þjóðina.

Þetta er hluti af mikið stærri pakka!

Við munum ekki getað borgað þetta og því borgum við þetta aldrei!

Auðvitað á eftir að semja um þetta aftur og aftur og aftur!

Var við öðru að búast? 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.8.2009 kl. 12:04

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Egill:

Takk  

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.8.2009 kl. 12:55

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðbjörn. Takk fyrir þennan góða pistil. Að læra af reynslunni útskrifar okkur hægt og rólega út úr skóla lífsins og klárast ekki sá skóli fyrr en síðasta daginn okkar í þessu lífi.

Víska gamla fólksins er því gríðarlega nauðsynleg samfara siðferðislegu háskólanámi af alls kynns tagi. (Manskepnan er víst með þeim ósköpum gerð að vera grimmasta skepnan ef henni er ekki kennt að taka tillit til og sýna náunganum kærleika og virðingu. Það hefur víst ekki svo mikið með pólitíska flokkastefnu að gera, tel ég.

Margrét Pála Hjallastefnu-skólastjóri er svo með réttu uppeldisaðferðirnar sem hún virðist hafa hlotið í náðargjöf inn í þetta líf. þökk sé henni. Gangi okkur öllum vel að miðla reynslu og læra af þessu lífi af heiðarlegum hug. Allir geta lært eitthvað af öllum. það er ég þakklát fyrir, meðal svo margs annars.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.8.2009 kl. 16:56

5 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"Það er mín skoðun að á bak við þennan Icesave samning sé annar samningur, þar sem aðild Íslands að ESB spilar stóra rullu.

ESB gerir sér grein fyrir því að regluverkið var gallað og að slíkar byrðar er ekki hægt að leggja á þjóðina.

Þetta er hluti af mikið stærri pakka!

Við munum ekki getað borgað þetta og því borgum við þetta aldrei!

Auðvitað á eftir að semja um þetta aftur og aftur og aftur!

Var við öðru að búast? 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.8.2009 kl. 12:04"

Ég held, að það sé ennþá langt líf eftir, í Icesave deilunni.

Menn, eru einhvern veginn, að hrósa happi í dag. 

Mér er algerlega óskyljanlegt, af hverju menn eru svo barnalegir, að gera það; þ.s. viðbrögð Breta og Hollendinga, eru eftir að koma.

Menn, gera einhvern veginn, ráð fyrir, að þeir muni OK-ja þetta. Samt, er ég enn, að sjá nokkra röksemdarfærslu fyrir þeirri afstöðu.

  •  Icesave samningurinn, var sagður góður,,,sá besti sem hægt væri að ná við núverandi aðstæður, að enginn betri samningur væri í boði, að engar líkur væru til þess, að Bretar og Hollendingar, myndu vera viljugir til að koma að samingaborði.
  • Af hverju, hefur það allt í einu breyst? Nú þegar Íslendingar, ætla að breyta einhliða, samningnum með hætti, sem ekki var talið mögulegt aðeins nokkrum vikum áður. Augljóslega, geta þær breytingar ekki gilt, nema mótaðilarnir samþykki, og af hverju eru þeir til í það akkúrat núna, þegar ekki var talið hægt að endursemja við þá áður?
  • Þetta er ekkert annað en nýtt samingstilboð, og ef Hollendingar og Bretar, samþykkja að setjast niður á ný, þá taka við samningaviðræður sem geta tekið allt frá nokkrum vikum yfir í nokkra mánuði.
  • En, það getu einnig farið þannig, að þeir vilji það ekki, og setji okkur úrslitakosti, fallið frá fyrirvörum eða samingurinn teljist ógildur.

"Það er mín skoðun að á bak við þennan Icesave samning sé annar samningur, þar sem aðild Íslands að ESB spilar stóra rullu. "

Ímyndun.

ESB er ekki einhverskonar "fairy god mother" sem allt gerir fyrir mann, ef maður bara óskar þess.

Ekki "do gooder inc.".

"Við munum ekki getað borgað þetta og því borgum við þetta aldrei!"

Augljós fjarstæða, sjá að ofan.

Þú hefur nákvæmlega ekkert fyrir þér í þessu.

Ég hef heyrt þessar fullyrðingar áður, og ekki séð nokkurn geta skýrt það með einhverju viti. 

"If something sounds to good to be true, it probably is".

 "Auðvitað á eftir að semja um þetta aftur og aftur og aftur!"

Ábyrgur einstaklingur, semur fyrst við banka um lengingar lána, eða umbreytingu þeirra, en gerir það ekki seinna, þegar í óefni er komið.

Stefnan, sem þú lýsir, er svo, óábyrg að ég á ekki nægilega sterk lýsingarorð.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 16.8.2009 kl. 18:01

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Einar Björn:

Þú misskilur mig kannski!

Þetta eru að mínu mati nauðasamningar og ekkert annað!

Bretar og Hollendingar hafa kúgað okkur til að skrifa undir þessa samninga og við reyndum að tala við Norðurlöndin og önnur lönd Evrópu, en á okkur var ekki hlustað, en það kann að breytast í framtíðinni.

Bretar og Hollendingar vilja ekki semja við okkur eða fá óháðan aðila til að dæma í málin. Við höfum viljað gera þetta allan tímann:

"It Takes Two To Tango"

Stefnan, sem ég lýsi er ekki óábyrg, heldur er þetta eina mögulega stefnan við þær aðstæður, sem eru uppi eins og eru!

Og svona "by the way" það er allt komið í óefni nú þegar og hefur verið í óefni í 2-3 ár!

Framsóknarmenn virðast lifa í einhverjum heimi, sem allir aðrir á þingi lifa ekki í. Formaður ykkar virðist sjá einhverja lausn, sem alls enginn annar á þingi sér. Framsóknarmenn umgangast alla aðra af hroka og láta sem svo að þeir séu með lausnina á þessu máli, þegar þeir bjóða í raun upp á enga lausn á málinu!

Heldur þú að þetta séu létt spor hjá Steingrími og Jóhönnu? Ég styð ekki VG eða Samfylkinguna, en mér dettur ekki til hugar að brigsla þeim um "landráð" eða að þau vilji landi sínu illa! Þau voru að gera sitt best að það reyndist ekki nóg! Auðvitað voru það mistök að senda Svavar út en ekki alvana samningamenn. Auðvitað voru það mistök að kynna okkar málstað ekki betur og auðvitað gerður Geiri og Solla mörg mistök í haust. Málin hafa hins vegar þróast þannig á undanförnum mánuðum að engin lausn önnur er á þessu máli.

Hafni Bretar og Hollendingar fyrirvörunum er ekkert annað að gera en að fella samninginn og fá þá aftur að samningaborðinu. Meira en við höfum nú þegar bakkað er ég ekki til í að bakka! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.8.2009 kl. 19:57

7 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þá ertu sammála formanni Sjálfstæðisflokksins, að þetta sé nýtt samingstilboð.

Þ.e. einnig mín skoðun.

--------------------------------------

 "Stefnan, sem ég lýsi er ekki óábyrg, heldur er þetta eina mögulega stefnan við þær aðstæður, sem eru uppi eins og eru"

Jafnvel nauðasamningar, eru samningsatriði.

I nauðasamningum, eins og hefur komið fram í fjölda nauðsamninga á markaði undanfarið, þá hefur aðili það vopn að fara fram á gjaldþrot.

Sambærileg hótun fyrir Íslands, væri um "default" gagnvart erlendum lánum.

Mér sínist þú sammála því, að samninganefndin hafi verið allt of lin.

En, ekki bara það, í nákvæmlega sömu vikunni, og ríkisstjórnin lagði Icesave frumvarpið fyrir Alþingi, en í greinargerð með því stendur að skuldir ríkisins muni hæst fara upp í 1,25 VLF, kom fram að raun skuldir væru cirka 2,5 VLF.

Ekki smá skekkja það.

-----------------------------------------

Mín röksemdafærsla fyrir að fara fram á nýjar viðræður, hefur alltaf byggst á því, að forsendur hafi verið rangar.

Þ.e. enginn vafi á, að þær voru það.

Skekkjan frá 1,25 VLF yfir í 2,5 VLF er svo stór, að allir útreikningar um möguleika til að standa undir greiðslum, eru þá um leið orðnir úreltir.

Mín skoðun, hefur æ síðan verið sú, að þetta ætti að vera grundvöllur þess, að fara fram á nýja samninga, enda er ekki rökrétt fyrir Hollendinga og Breta, að neita að semja við slíkar kringumstæður.

Ég er enn þeirrar skoðunar, að þetta sé vel hægt og að nett fáránlegt hafi verið, að draga ekki fumvarpið strax til baka, þegar forsendurnar fóru í háa loft.

-----------------------------------------

Að mínu mati, hefur ásökunin um að ganga gegn hagsmunum þjóðarinnar, verið alveg sanngjörn, eftir að kom í ljós að skuldirnar eru miklu mun hærri, en var gert ráð fyrir meðan samningar voru í bígerð, og ríkisstjórnin einfaldlega pent neitaði að taka tillit til þeirra breyttu aðstæðna, sem að mínu mati var alla tíð órökrétt afstaða.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 16.8.2009 kl. 20:17

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikið sammála flestu því sem þú segir og þó aðallega þessu með frelsið. Þar er þó vandinn mestur að skilgreina hvað í þessu frelsi eigi að vera fólgið. Sumir virðast telja að frelsið megi aldrei takmarka en þar er ég ekki á sama máli. Sá sem af einhverjum ástæðum hefur náð að skapa sér yfirburðastöðu á markaði getur auðveldlega misnotað hið óskerta frelsi.

En ef við tökum dæmi af hinu laskaða samfélagi okkar í dag þá sé ég þann versta dragbít á allar áætlanir einstaklinga til athafna í hinum og þessum reglugerðum og tilskipunum EES. Þar er eiginlega flest það bannað sem fólki gæti reynst auðveldast að nýta sér til sjálfsbjargar.

Árni Gunnarsson, 16.8.2009 kl. 20:50

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Einar Björn:

Já, ég er sammála Sjálfstæðisflokknum og það kemur örugglega engum á óvart!!!

Jú, annars! Ég er víst búinn að vera svo óþekkur í Sjálfstæðisflokknum að einhverjir eru kannski hissa að ég sé orðinn sammála flokknum. Málið er að ég aðhyllist yfirleitt "Realpolitik" þegar átt er við aðsteðjandi vandamál!

Auðvitað var samninganefndin of lin og Geir og Solla of lin í fyrra haust! Auðvitað hefur verið illa að þessum málum staðið alveg frá byrjun!

Hversvegna í ósköpum notuðum við okkur t.d. ekki sambönd okkar við Rússa og Kínverja, þó ekki væri nema til að blöffa? Af hverju fóru ekki hátt settir stjórnmálamenn strax til Rússlands, þegar stóra lánið var boðið. Af hverju var ekki talað við Kínverja? Þarna hefðu íslenskir stjórnmálamenn nútímans getað lært ýmislegt af þeim stjórnmálamönnum, sem börðust fyrir okkar hönd í þorskastríðunum og skiptir þar engu máli, hvort um hægri eða vinstri menn var að ræða! 

Þegar hlutirnir snúast um framtíðina gegnir öðru máli. Þar má maður og á maður að láta sig dreyma og hafa "framtíðarsýn" og vera bjartsýnn varðandi eigin framtíð og framtíð þjóðarinnar og fullur af barráttuvilja og krafti!

Við breytum ekki orðnum hlut, en hægt er að takast á við afleiðingar orðinna hluta á ýmsan hátt. Hægt er að láta hugfallast og festast í fortíðinni. Einnig er hægt að bregðast ekki við fortíðinni og vonast til að hlutirnir leysist af sjálfu sér, en það gera þeir aldrei. Síðan er hægt að gera það sem maður getur í stöðunni eins og hún og semja um að taka á hlutunum síðar, þegar betur stendur á. Það er það sem við Íslendingar erum að gera.

Vissulega eru skuldirnar hærri en menn vonuðust til í vetur, en það er ekki að breyta afstöðu Breta eða Hollendinga eins og sakir standa. Eftir sjö ár, Þegar kemur að skuldadögum, hefur mikið vatn runnið til sjávar. Kreppan verður ekki gleymd, en að einhverju leiti ekki enn í jafn fersku minni og núna. Þá verður búið að sanna að þeir aðilar, sem settu okkur á hausinn, voru hálfgerðir glæpamenn og að íslenska þjóðin var í raun stærsta fórnarlamb þeirra glæpaverka, en ekki sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi. Þá verðum við orðnir meðlimir í ESB og höfum betra tækifæri til að koma okkar málstað á framfæri. Hugsanlega verður hægt að taka framkvæmdina á þessum hlutum upp fyrir Evrópudómstólnum eða allavega taka þetta upp innan framkvæmdastjórnarinnar og á Evrópuþinginu. Endanlega skuldastaða þjóðarinnar og þær byrðar sem á þjóðina lögðust vegna hrunsins verða komnar í ljós. Frasar á borð við að tekið yrði tillit til ,,hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í“ munu ekki hljóma sem innantóm orð fyrir íbúa og ríkisstjórnir Hollands og Bretlands. Þeir bresku ráðherrar, sem ábyrgð báru á ákvörðunum er leiddu til hruns bankanna á Íslandi verða farnir frá völdum. Kannski verður tekin við völdum ríkisstjórn Íhaldsflokksins, sem gjarnan vilja koma höggi á Verkamannaflokkinn og taka upp fyrir okkur hanskann?

Árni Gunnarsson:

Allt frelsi er takmarkað á einhvern máta og öllu frelsi fylgir ábyrgð! Frelsi mannanna gengur aldrei lengra en svo að það skaði ekki aðra! Viðskipti eiga ekki að vera þjófnaður enda ganga slík "viðskipti" ekki til langframa!

Í eðlilegum viðskiptum eiga á endanum báðir aðilar að hagnast, þótt menn hagnist auðvitað mismikið! Séu menn að stunda viðskipti einungis á þeim nótum, að þeir einir hagnist, en viðskiptaaðilinn ekki er um arðrán eða svik að ræða. Þegar tveir menn hittast á markaði og eiga viðskipti verðum við að ætla, að annar vilji selja og hinn vilji kaupa og að ekki sé verið að þvinga þá til kaupanna eða að annar hvor aðilinn sé að blekkja hinn!

Þetta var ekki tilfellið hjá íslensku bönkunum eða útrásarvíkingunum. Útrásarvíkingarnir nauðguðu því frelsi, sem "frjálshyggjan" gaf þeim! Þeir fóru illa með frelsi markaðarins, misþyrmdu því!

Markaðslögreglan: Samkeppnisstofnun, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn og Fjármálaráðuneytið hafa það verkefni með höndum að viðskiptafrelsinu og markaðnum sé ekki nauðgað eða misþyrmt!

Markaðslögreglan stóð sig ekki í stykkinu og reglurnar um nauðgun og misþyrmingu á markaðsfrelsinu voru ekki nógu skýrar! Þessu þarf að kippa í liðinn!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.8.2009 kl. 21:38

10 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"Vissulega eru skuldirnar hærri en menn vonuðust til í vetur, en það er ekki að breyta afstöðu Breta eða Hollendinga eins og sakir standa."

Þeir hafa fram að þessu, ekki haft ástæðu til að gera það, þ.s. enginn héðan hefur borið það upp við þá.

Þeir munu ekki, koma til okkar, og bjóða slíkt fram að fyrra bragði. 

Við verðum að bera okkur sjálf eftir björginni.

"Eftir sjö ár, Þegar kemur að skuldadögum, hefur mikið vatn runnið til sjávar."

Því miður, eyðileggur ákvæðið, að hægt sé að gjaldfella lánið, vegna vandræða með óskyld lán, alveg það ákvæði.

Ég held, að meiri líkur en minni, séu að það ákvæði virkjist innan þessara 7 ára, einmitt vegna annarrra vandræða, og það verði aldrei nein 7 ára grið.

Ég hef alltaf álitið það ákvæði, hreina tálsýn, einmitt vegna ákvæðisins sem heimilar gjaldfellingu vegna annarra skuldavandræða.

Við getum ekki lækkað aðrar skuldir, með eignasölu, fyrr en þær eignir, eins og Icesave eignirnar, hafa náð að hækka í verði.

Á meðan, einmitt yfir versta tímabilið, þurfum við að búa við skuldabyrði af öllum skuldunum, þ.e. skuldabyrði langt yfir greiðslugetu okkar.

Þá reynir á, hvort við getum stöðugt fengið ný lán, til að redda okkur áfram. En, þá reynir á það, hve nálægt við erum þeirri bjargbrún, að falla niður í ruslflokk með lánshæfimat.

Endurlán, þýða viðbótarskuldir, þ.e. hækkun skulda í hvert sinn. Því hvert lán, kostar eitthvað. Það getur raunverulega gerst, að allt í einu, vilji enginn lána okkur, lánstraustið þverri, og næsta afborgun sé skammt unda. Svona, það sama og kom fyrir Glitni Banka.

Ég treysti mér alls ekki til að gíska á, hvorum meginn 50% líkurnar eru. Mín tilfinning, er að likurnar séu röngu meginn.

"Kreppan verður ekki gleymd, en að einhverju leiti ekki enn í jafn fersku minni og núna. Þá verður búið að sanna að þeir aðilar, sem settu okkur á hausinn, voru hálfgerðir glæpamenn og að íslenska þjóðin var í raun stærsta fórnarlamb þeirra glæpaverka, en ekki sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi. Þá verðum við orðnir meðlimir í ESB og höfum betra tækifæri til að koma okkar málstað á framfæri. Hugsanlega verður hægt að taka framkvæmdina á þessum hlutum upp fyrir Evrópudómstólnum eða allavega taka þetta upp innan framkvæmdastjórnarinnar og á Evrópuþinginu. Endanlega skuldastaða þjóðarinnar og þær byrðar sem á þjóðina lögðust vegna hrunsins verða komnar í ljós. Frasar á borð við að tekið yrði tillit til ,,hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í“ munu ekki hljóma sem innantóm orð fyrir íbúa og ríkisstjórnir Hollands og Bretlands. Þeir bresku ráðherrar, sem ábyrgð báru á ákvörðunum er leiddu til hruns bankanna á Íslandi verða farnir frá völdum. Kannski verður tekin við völdum ríkisstjórn Íhaldsflokksins, sem gjarnan vilja koma höggi á Verkamannaflokkinn og taka upp fyrir okkur hanskann?""

Ég er þeirrar skoðunar, að það að treysta á velvilja annarra, sé ekki góð hugmynd.

ESB, er ekki góðgerðarstofnun. ESB sannarlega hefur, apparat, sem ríki geta fengið aðstoð frá. Þeirri aðstoð, fylgja alltaf mjör ströng skilyrði. Sem dæmi, er líklegt að skilyrði væri um tilsjónarmann, sem hefði miklu mun meiri völd, en tilsjónarmaður AGS á Íslandi.

Þú ert raunverulega að tala um, að ríkisstjórn hefði mjög takmörkuð völd, til að taka ákvarðanir, um innanlandsmál um langa hríð.

Það þarf varla að taka fram, að slíkur tilsjónarmaður, myndi innleiða mjög óvinsælar aðgerðir, og að þjóðin myndi mjög fljótt verða mjög andsnúin.

Þú getur alveg bókað, að ef um einhverja eftirgjöf skulda yrði að ræða, þá væri hún í svipuðum anda, og aðgerðir okkar ríkisstjórnar þ.s. einstaklinga geta fengið tilsjónarmann, og skuldir lækkaðar hugsanlega niður í t.d. 120%.

Skuldir myndu samt vera mjög erfiðar.

-----------------------------------------------

Ég held, að það sé alveg óþarf, þannig séð, að ganga inn í ESB, í því skyni að fá eftirgjöf skulda. Ef við miðum við þá díla, sem ríki hafa fengið frá Alþjóðasamfélaginu, þá eru þeir að mínu mati, í reynd skárri en þ.s. ég held að ESB myndi bjóða okkur, þ.s. þeim fylgir ekki eins valdamiklir tilsjónarmenn, annars vegar, og, hins vegar, minnkun skulda yrði ekkert minni.

Ég er 100% sannfærður um, að þú sért að byrja á röngum enda, að við eigum að semja við Aljþóðasamfélagið, á þessu ári, en ekki seinna er við verðum kominn í enn verri vandræði.

Að mínum dómi, er okkar samingsaðstaða, miklu betri en þegar, við verðum raunverulega sokkin.

-----------------------------------------------

Nauðasamningar, eru ekki jafnt og engin samingsaðstaða. En, við höfum miklu meira svigrúm, meðan við erum enn ofan sjávar, en þegar við erum neðan.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 17.8.2009 kl. 01:25

11 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Einar Björn:

Mundu orð Sigurðar Líndal þegar hann kom út úr Stjórnarráðinu:

"Við erum sigruð þjóð ..."

Við erum, eins og sakir standa, komin upp á náð og miskunn "sigurveldanna" og verðum að sumu leyti að sætta okkur við þeirra afarkosti - því miður! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 17.8.2009 kl. 07:40

12 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég tók eftir hans orðum,,,en, hér skiptir hugarfar mestu máli.

Ef samþykkjum að við séum sigruð, neitum að berjast, þá sannarlega mun hann hafa rétt fyrir sér.

Við höfum það val, að neita að borga og lýsa yfir svokölluðu "default".

Menn láta eins og ekkert val sé til staðar. Þ.e. einfaldlega ekki rétt. Það að allir valmöguleikar séu slæmir, er ekki sama og að við getum ekki valið á milli þeirra.

Við þær aðstæður, geta Bretar og Hollendingar, hyrt eigur okkar sem þeir ná innan þeirra yfirráðasvæða. Einnig, geta þeir hyrt það fé sem nú er til staðar í Tryggingasjóði innistæðueigenda.

Vandi okkar, á sama tíma, verður sá að öll okkar innflutningsviðskipti, myndu þurfa að vera á formi staðgreiðsluviðskipta. Vöruskortur myndi vera líkleg afleiðing. 

Það myndi þurfa að taka upp skömmtun, og útbíta skömmtunareðlum.

Ég sé þetta alveg fyrir sem möguleika. Og, við getum raunverulega valið þessa leið, einmitt vegna þess að við erum matvælaframleiðendur, og þurfum ekki að óttast hungursneyð.

-----------------------------------------------------

Menn þurfa að hafa kjark og þor, að horfast í augu við veruleikann, en einnig til að berjast fyrir því, að skárri niðurstaða en hrein uppgjöf náist fram.

Þú ert búinn að lísa því ágætlega hvað hrein uppgjöf leiðir til. Við vitum það, svo baráttan snýst um að leiða hkutina til skárri vegar.

Ég raunverulega held, að gjaldþrot eða "default" sé skárra en sú uppgjafarleið sem þú leggur til, og Samfylking leggur einnig til.

Þ.e. allt í lagi í því tilviki, þó enginn vilji lána okkur. Gerir ekki ástandið neitt verra.

Aðal málið, verður hvernig útflutningsatvinnuvegum líður. Það yrði þá að koma í ljós, hvort ESB ríki myndu grípa til gagnaðgerða í gegnum EES.

En, innflutningsbann er mjög ólíklegt, þ.s Evrópu skortir fisk. Eina hættan, er einfaldlega sú, að við þyrftum að borga tolla, eins og fyrir gildistöku EES. Afleiðing þess, yrði fyrst og fremst sú, að minnka útflutningstekjur og þannig, minnka skammt innflutnings.

Fyrir daga EES, höfðum við EFTA fríverslunarsamninginn um iðnaðarvörur, svo álútflutningur er ekki í hættu. Einnig, er eftirspurn eftir áli, mikil í Kína og þ.e. engin vandræði að selja allt það ál, sem er framleitt hér. Hafðu í huga, að álfyrirtækin telja það hagkvæmt að sigla með súrál alla leið frá Ástralíu og hingað.

Svo, ég á ekki von á að nein óyfirstíganleg vandræði um útflutning myndu skapast. Útflutningsfyrirtæki, einfaldlega taka sig saman um að hafa gjaldeyrisreikninga sína t.d. í bandarískum bönkum. Þ.e. alveg hægt fyrir þau, að fá fyrirgreiðslu frá erlendum bönkum út á slíka reikninga. Einnig, ætti að vera hægt að fá þau til að taka þátt í innflutningssamlagi í samvinnu við ríkið, sem þá sægi um innflutning nauðsynjavara.

----------------------------------------

Sigruð þjóð, alls ekki.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 17.8.2009 kl. 15:15

13 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Einn viðbótarpunktur.

Skoðaðu hvað ESB er að gera fyrir Eystrasalts þjóðirnar, eða ekki?

Sbr. hefur ESB knúið Lettland til að leita til AGS. Lettland, er nú í AGS prógrammi, þó það sé meðlimaríki ESB.

ESB, þvert á þ.s. óskhyggjufólk innan Samfylkingar segir, er ekki að redda Eystrasalts-ríkjunum úr þeirra vandræðum.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 17.8.2009 kl. 15:21

14 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Einar Björn:

Þjóð, sem enginn vill lána neitt og er komin á fjóra fætur efnahagslega er "efnahagslega gjörsigruð" þjóð!

Mundu að tvær efnuðustu þjóðir 20. aldarinnar voru Þýskaland og Japan, sem voru árið 1945 svo gjörsigraðar að þar stóð varla steinn yfir steini, hvorki efnahagslega eða hvað varðar húsnæði eða fólkið í landinu. Þessar þjóðir höfðu framið hræðilega stríðsglæpi - m.a. útrýmingu gyðinga í Evrópu og stórfelldar aftöku Kínverja og annarra kynþátta í Asíu. Almenningsálitið var slíkt í heiminum, að segja mátti að litið væri á þessar tvær þjóðir sem holdsveikar í samfélagi þjóðanna. Heila kynslóð karlmanna vantaði inn í þjóðina og samt tókst þessum þjóðum.

Tuttugu árum síðar stóðu þessar þjóðir keikar sem tvær af ríkustu þjóðum heims!

Það er engin uppgjöf í mér og vandamál okkar Íslendinga eru aðeins brotabrotbrotabrot af vandamálum Japans og Þýskalands við lok síðari heimsstyrjaldarinnar! Á 2-3 árum verðum við aftur komin í fremstu röð!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 18.8.2009 kl. 07:26

15 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Baráttuviljinn, er stærsta atriðið, því að í dag, er ekki lengur hætta á að Bretar sendi hingað her, til að taka yfir stjórn landsins. Né, er líklegt að Hollendingar geri það.

-----------------------------------------

Að enginn, vilji lána okkur, er ekki það óyfirstíganlega vandamál, sem sumir láta. Enda, eins og skoðanakönnunin sem byrtist í Daily-Telegraph bendir til, ekkert sem við getum gert, til skamms tíma til að lagfæra þá stöðu. Enginn af þeim aðilum, mun hafa áhuga á viðskiptum við okkur, á næstu árum, alveg óháð því hvað við gerum.

Það þýðir einfaldlega, að við fáum ekki ný lán, eða, einungis á mjög slæmum kjörum.

Best að skoða það ástand, með kaldri rökhyggju. Við búum þegar við þetta ástand, þess vegna töldum við að við þyrftum að fá IMF, og ekki einu sinni Norðurlönd eru til í að lána, nema undir skjóli IMF.

Þetta er einungis, mjög alvarlegt mál, ef við erum að reyna að forðast, greiðsluþrot eða "default".

En, um leið við erum komin þangað, þá hefur afstaða kröfuhafa og banka, lítil frekari áhrif til versnunar okkar ástands.

-------------------------------------------

Helsta vandamálið, er að stór fjárfestingar-ævintýri, verða erfiðari. Við verðum, með öðrum orðum, að treysta á að þeir fjárfestar, geti útvegað nægilegt fjármagn, án okkar hjálpar. Það mun draga verulega úr líkum þess, að verði af þeim ævintýrum.

En ég tel reyndar, að ekkert héðan í frá, geti bjargað því ástandi.

-------------------------------------------

Tími læknar sár, og eftir nokkur ár, þá verður reiðin umtalsvert kulnuð, reikna ég með, og þá getum við gert tilraun, til að semja við kröfuhafa á ný.

Ég reikna, með öðrum orðum, með cirka 10 slæmum eða frekar slæmum árum. Þau tel ég vera næsta örugg, default eða ekki default.

-------------------------------------------

Eftir 2 ár, alveg út úr korti. Hagvöxtur byrjar hér í fysta lagi, á seinni helmingi næsta árs. Það mun taka, áratug í hagvexti hið minnsta, að vega upp tjónið, sem við höfum orðið fyrir.

Aftur á móti, þ.s. ekkert sem við getum gert, mun hafa nokkur veruleg áhrif til bötnunar okkars lánstrausts, en svo alvarleg reyði sem Evr. bankamenn, hafa gagnvart okkur, hverfur ekki sama hvað við gerum, með neinu hraði.

Þetta ástand, ásamt rekakkerisáhrifum á hagvöxt af völdum skuldabyrði, getur ekki annað, en gert hagvöxt hérlendis óverulegan, á næstu árum.

Síðan, þurfum við einnig að hafa í huga, að allir sérfræðingar úti í heimi, reikna með að hagvöxtur bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, muni vera hægur fyrstu árin eftir kreppu. Þ.e. hægari, en fyrir kreppu. Skv. spá Framkvæmdastj. ESB, verður hann líklega helmingi hægari.

Þetta skiptir einnig máli, í þessu samhengi, þ.s. sá hægvöxtur getur ekki annað en haft hamlandi áhrif á hagvöxt hérlendis.

Þannig að mín skoðun, er að væntingar ríkisstjórnarinnar, um hagvöxt í nærframtíð, séu allt of bjartsýnar.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 18.8.2009 kl. 21:01

16 Smámynd: Árni Árnason

Alltaf gaman að koma við hérna hjá þér Guðbjörn, vel unnir pistlar og skemmtileg skoðanaskipti.

Árni Árnason, 22.8.2009 kl. 04:03

17 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Árni:

Takk fyrir þetta, en við erum jú yfirleitt sammála! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.8.2009 kl. 12:38

18 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Annars vil ég þakka fyrir spjallið.

þ.e. alltaf gagnlegt, að eiga skoðanaskipti af þessu tagi, þ.s. það hjálpar manni sjálfum að þróta eigin hugmyndir.

Ég held t.d., að í samræmi við þær upplýsingar, er komu fram um hve mikið reyðir erlendir aðilar eru, skv. því sem kom fram í Telegraph í vikunni á undan, þá sé mér ljóst að ég hafi í reynd, verið of bjartsýnn.

Staðan sé enn erfiðari, en ég hélt, vegna þess að við séum nú þegar komin í þá stöðu, að enginn vilji lána okkur. Menn, hafa talað um, að enginn vilji lána okkur, nema við gerum hitt eða þetta, en málið virðist vera, að núverandi staða sé sú staða.

Þetta mun þýða, að ríkissjóður mun eiga í alveg gríðarlegum erfiðleikum við þá endurfjármögnun skulda, sem mun verða nauðsynleg,,,ef núverandi stefnu verður fram haldið.

Ég verð eiginlega, að hækka líkur á "default" úr cirka 50% upp í 65 - 75%. Þannig, að þær séu háar upp í nánast yfirgnæfandi.

Ég er enn sannfærðari en áður, að við verðum, að leita almennra nauðasamninga um okkar skuldir,,,þ.sé eina leiðin, eina hugsanlega leiðin, til að forða greiðsluþroti.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 23.8.2009 kl. 18:02

19 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Einar Björn:

Nauðasamningarnir eru eiginlega aðildarsamningarnir við ESB og þar er lausnina að finna. Auðvitað hefði verið betra að ganga til samninga við ESB án þess að um nauðasamninga væri að ræða, en svona er nú ástandið!

Ég þakka einnig gott spjall! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.8.2009 kl. 19:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband