Atvinnuleysi er 11,7% - nei við 100 milljaðra fjárfestingu - ábyrg stefna?

SvartsengiÞjóðin verður að skilja, að með þeirri furðulegu stefnu, sem ríkisstjórnin stendur fyrir, er hún okkur stórhættuleg . Vinstri stjórnin berst um hæl og hnakka gegn virkjunum og stóriðju um land allt og hefur sýnt sig andsnúna allri annarri atvinnuuppbyggingu, s.s. olíuvinnslu.

Ef þessi stefna er ekki réttlætt með öfgaumhverfisstefnu, þá er bætt um betur og fjárfestingum upp á 70-100 milljarða hafnað af því að það eru útlendingar sem vilja fjárfesta í orkuiðnaði. Hefur sú staðreynd farið framhjá því ágæta fólki, sem með veikum mætti er að reyna að stjórna landinu, að við Íslendingar njótum ekki ekki lengur trausts erlendis og að við fáum þar af leiðandi engin lán næstu árin. Það verður nógu erfitt að endurfjármagna núverandi skuldir Landsvirkjunar og fleiri orkufyrirtækja, hvað þá að reyna að fá lán til nýrra framkvæmda, t.d. í orkufrekum iðnaði. Hvað sem Samfylkingin og VG segja er leiðin út úr kreppunni að framleiða meira og flytja meira út - flóknara er það nú ekki!

Nú er tæpt ár liðið frá hruninu og ég spyr ykkur landsmenn góðir:

Er það ábyrg stjórnarstefna við núverandi aðstæður að segja nei við 70-100 milljarða fjárfestingu á Reykjanesi, þegar atvinnuleysi þar var í júlí 11,7%?

Er það ábyrg stjórnarstefna að skilja fyrirtæki og heimili landsins eftir hjálparlaus og nær gjaldþrota í heilt ár? 

Verðum við ekki að koma þessari ríkisstjórn frá völdum?

Verðum við ekki að sækja búsáhöldin okkar?

Hvar er stjórnarandstaðan?

Hvað segir fólkið í landinu?

Hvar er leiðtogi okkar? 


mbl.is Greiðsluviljinn að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Það er líkt og þeir vilji bara sökkva en ekki synda. Það eru til margar lausnir og tækifæri en þeim þóknast engin þeirra. Ég tek heilshugar undir með þér. Hvenær skyldi fólk átta sig á að þessi stjórn er að fara hratt í öfuga átt?

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 27.8.2009 kl. 07:39

2 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Margt til í þessu Guðbjörn. - hvernig ætlar ríkið að borga þessi uppkaup ef af yrði?

Eyþór Laxdal Arnalds, 27.8.2009 kl. 09:11

3 identicon

Það kemur hvergi fram í samningi við Magma að þeir skuldbindi sig til að fjárfesta umfram kaupin á HS Orku. Samningurinn við þá er svo fáránlegur að leitun er á öðru eins.

Verið er að veita lán uppá 70% af kaupverðinu, með 1,5% vöxtum sem greiðist í einu lagi eftir 7 ár. Slík kjör eru fáheyrð í viðskiptum. 

Verið er að selja auðlindina í raun, þar sem það er option um 130 ára nýtingu. Hér er á ferðinni eignasala, sem skapar ENGIN ný störf og er því í raun ekkert annað en dulbúin skattahækkun.

Reksturinn sem verið er að selja er fullkomnlega áhættulaus, en okkur vantar ekki fjármuni í slíkt, heldur í áhætturekstur.

Þessi epísóða er einsog beint uppúr kennslubók um arðrán í þriðja heiminum. 

Sjálfstæðismenn eiga að hafna slíkri stefnu og einbeita sér að því að fá erlent ÁHÆTTUFÉ inní landið.

Doddi D (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 10:05

4 identicon

Leigan svokallaða af nýtingarréttinum er 30milljónir á ári en arðurinn af auðlindunum, sem rennur nú þegar til samfélagsins er í kringum 5milljarða á ári. Ég hélt að sjálfstæðismenn hefðu betra viðskiptavit en svo að þið telduð hér á ferðinni góðan samning. Þar fyrir utan er talið að orkan á svæðinu dugi til næstu 60-70ára.  Að "leigutíma" liðnum verður því ekkert eftir handa þjóðinni annað en ryðgaðar háspennulínur og tómar holur.

Þið sjálfstæðismenn eruð einangraðir í ykkar afstöðu. Þjóðin hefur hafnað ykkur. 

Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 12:10

5 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Guðbjörn,

Nú ferðu of geyst!

Þú ert maður frelsis á markaði.  Ég er það líka.  Ég staldra því við þetta sem þarna er að eiga sér stað.  Og ég spyr: hvernig verður tryggt að aðgangur að raforkunni, þessari lífnauðsynlegu auðlind, verði jafn fyrir alla á markaði þegar eignarhaldið er komið í hendur einkaaðila?  Er ekki raunverulega hætta á því að samkeppnisstaða einstaklinga og lögaðila á markaði skekkist þegar greiða þarf einkaaðila fyrir aðgang að auðlindinni?

Í annan stað, þegar til lengri tíma er litið (hvað þá til 65 ára), er víst að þetta sé fjárhagslega þess virði?  Hvert renna tekjurnar eftir sölu auðlindarinnar í hendur einkaaðilum?

Eiríkur Sjóberg, 27.8.2009 kl. 16:04

6 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessaður Guðbjörn

Það þýðir ekki að þó dollurum og kúlulánum sé veifað,  þyrfi endilega að taka því athugasemdarlaust.

Hefur þú velt fyrir þér hverjir það verða sem stýra munu atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum verði áform Geysis Green og Magma að veruleika.

Finnst þér eðlilegt í ljósi reynslunnar að selja aðgang að auðlindinni fyrir kúlulán, og að bærinn okkar Reykjanesbær sem selt hefur hlut sinn í HS Orku beri þó áfram ábyrgð á skuldum HS Orku.

þú manst eins og restinn af íslensku þjóðinni eftir öllum tækifærunum sem ekki mátti missa, þar þurfti allt að gerast hratt og hugsunarlaust. Og þú sérð líka hvert sú stefna hefur fært okkur.

Finnst þér eðlilegt að samkeppnislögin verndi fyrst og fremst hagsmuni einkaðila en taki ekki tillit hverjir eru hagsmunir almennings.

Og að lokum Guðbjörn, finnst þér ekki tilkostnaðurinn sem nú þegar er fallinn á ríkið sökum þeirra stefnu og hugmyndafræði Sjálftæðismanna að einkaaðilar sú ávallt bestir til að fara með allan rekstur sé ekki orðinn nógur nú þegar. Sjáðu Icesave, Fasteign, og hvernig komið er fyrir HS Orku sem samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hefur ekki lengur aðgang að erlendum lánum. Er orðið Default eins sagt er á þeim markaði. Og þú veist hvað það þýðir.

Ég segi eins við þig eins sagt var við vin þinn og sálufélaga Hannes Hólmstein, vertu ekki að þvælast fyrir á meðan verið er skafa upp eftir ykkur skítinn.

Bestu kveðjur

Hannes Friðriksson

Hannes Friðriksson , 28.8.2009 kl. 12:39

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Doddi - Elvar - Eiríkur - Hannes:

Mín stjórnmálaskoðun, sem hægri maður, hefur ekki breyst mikið við hrunið. Ég er því hreinlega ósammála að "kapítalisminn" hafi beðið skipsbrot við hrunið í haus, en auðvitað reyna vinstri menn að bendla þá stefnu við hrunið. Hrunið stafar af græðgi siðspilltra "psykópata" og getuleysi eftirlitsyfirvalda og annarra stjórnvalda.

Beið kapítalisminn þá ekki skipsbrot árið 1930? Hann hefur nú sem verið við lýði síðan og sigraði kommúnismann og sósíalismann í hugmyndafræðikeppni.

Óheftur kapítalismi eru eitthvað sem enginn hefur aðhyllst undanfarin 80 ár eða allt frá kreppunni miklu. Vissulega er það rétt að of miklu af regluverkinu var vikið til hliðar. Ég - og flestir þeir sjálfstæðismenn sem ég þekki - hafa aldrei verið blindir í trú sinni á kapítalismann. Þótt maður hafi lesið ritverk og þýðingar Hannesar Hólmsteins á höfuðbókmenntum frjálshyggjunnar var maður aldrei sammála nema svona 60-70% af því sem þar kom fram. Við sjálfstæðismenn höfum aldrei viljað óheftan kapítalisma og það er hreint og bein ósanngjarnt að halda slíku fram.

En að vilja snúa baki við markaðshagkerfinu og stefna í átt til einhverra blöndu af Samvinnu-Íslandi, samyrkjubúum a la Jón Bjarnason og ríkisreknum sementsverksmiðjum er eitthvað sem við bjuggum við á árunum 1950-1991 og gafst ekki vel.

Kapítalisminn er við góða heilsu, þótt setja þurfi um hann strangari reglur eða réttara sagt fylgja betur eftir því regluverki sem er til staðar!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 28.8.2009 kl. 19:44

8 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Guðbjörn,

Þú ferð enn of geyst!

Það liggur svona í orðunum sem þú beinir m.a. til mín að ég sé "kommúnisti," jafnvel "Kommúnisti" með stóri K-i.  Ég ætla svo sem ekkert að þrátta við þig um það en skil ekki hvernig þú færð það út úr því sem ég skrifaði.  Bara alls ekki!  Og langar líka að segja að mér finnst blár kommúnismi (einkavina- og sérhagsmunagæsla) ekkert heillandi eða farsæl hugmyndafræði.

En ég er í prinsippinu algerlega á móti því sem er að gerast með HS Orku, og vísa hér með í fyrri athugasemd.  Fara verður mjög varlega í það að láta auðlindir einkaaðilum í té.  Þú, sem 60 - 70% kapítalisti (ja nú vandast málið, hvenær aðhyllist maður kapítalisma, og hvenær ekki.  Þessi óvissa hefur veikt hugtakið a.m.k.) hlýtur að vera maður frelsis á markaði.  Þá er það spurningin: er mögulegt, svona í prinsippinu, að samkeppni á markaði skekkist, og þar með veikist frelsi á markaði, þegar einstaklingar og lögaðilar þurfa að fara í gegnum einkaaðila til að nálgast þau lífsnauðsynlegu og grundvallandi gæði sem í auðlindinni (rafmagninu) býr?

Og önnur spurning; hversu háar fjárhæðir er samfélagið hér að missa í formi tekjumissis þessi 65 ár (hvað þá næstu 130 árin) þegar HS Orka er komin úr höndum þess?  Og hvaða viðbótar tekjumöguleika er samfélagið að missa af sem hefðu getað komið til þess með vexti fyrirtækisins?

Þriðja spurning: er tryggt að raforkuverð haldist á sambærilegu verði til heimila og fyrirtækja á svæðinu og nú er eða eru líkur á að verðið hækki meir en ella myndi verða?

Fjórða spurning: er framleiðsluöryggi þessa "súrefnis" fyrir heimili og fyrirtækin jafn tryggt í höndum einkaaðila, er mögulegt að "sparað" verði í viðhaldi t.d. eða starfsfólki (kannastu við Enron-málið og hvaða leik það fyrirtæki lék gegn sínum "viðskiptavinum"?)

Eiríkur Sjóberg, 28.8.2009 kl. 22:25

9 identicon

Að sjálfsögðu á ekki að henda eigum sínum.

Við eigum alltaf að gefa af tekjum okkar til að kenna öðrum að verða sjálfbjarga.

En orkulindirnar eigum við að reka sjálfir.

Þessa samkeppnis nefnd á að fá betri vinnureglur,

sem segja að hún skuli halda auðlindum lansins

og rekstri þeirra í höndum Íslenska ríkisins og íslenskra sveitarfélaga,

annars leggjum við hana niður.

Við höfum fullt af menntuðu fólki sem vill læra að stjórna auðlindunum fyrir okkur.

Þeim einstaklingum sem eru fastir í skuldum, eigum við að hjálpa,

hvort sem húsin eru stór eða lítil.

Gefa þeim 4-5 ár til að laga sig að þeim aðstæðum sem þeim henntar,

miðað við, nú-verandi og þá-verandi tekjur.

Það er okkur öllum í hag að þeir gæti eigna sinna, okkar áfram.

Eins er það með fyrirtækin. Öllum í hag að reka þau áfram,

en þó verður að íhuga hve mikið við þurfum af hverri starfsemi.

Til dæmis, einkareknu fyrirtækin sem eru ríkisrekin fyrirtækin í dag,

stýrðu verðinu til smærri búðanna, þannig að þeir, stóru fyrirtækin, gátu haft tvöfalda álagningu.

Þeir stýrðu markaðnum.

Erlendir aðilar stýra markaðnum líka.

Ef við hjálpum þeim ekki verða þeir að grípa hvert hálmsstrá,

sem einhverjir fjárspekulantar rétta þeim.

 Athugum að nota verðtryggðu krónuna áfram, og skuldum okkur sjálfum.

Launin verða að aðlaga sig að aðstæðum hvers tíma.

 Það er hjákátlegt, að sjá útreikninga í fjölmiðlum um, að lán hafi hækkað eða muni hækka svo og svo mikið, en gleyma því, að þá er aðili, að reikna með verðbólgu, það er verðminni krónu.

Þá lækkar lánið, jafnt og þétt, að raunvirði, með hverri afborgun, en vegna verðminni krónanna verður upphæðin hærri, þegar þú skoðar eftirstöðvarnar, tölurnar. 

Þeir sem eru lærðir í öðru en rökhugsun og reikningi ættu að fá einhvern með skilning á málinu til að aðstoða sig.

Oft er núna verið að miða við húsverð sem er nú um stundir ekki raunhæft, betra er að nota byggingakostnað.

En auðvitað þarf að aðlaga greiðslurnar til 4-5 ára eins og áður sagði.

 www.geimur.com

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 12:03

10 identicon

Útaf því sem ég var að reyna að skrifa hér á undan.

Ekki var það ætlun mín að gera lítið úr hinum ýmsu gáfum, en gott er að fá tónlistamann ef ætlunin er að flytja eða semja tónlist, málamann, ef ætlunin er að þýða úr öðru tungumáli, verkfræðing, hönnuð og húsasmið ef byggja á hús.

Gáfurnar, gjafirnar, talenturnar eru margar, tilfinninga, tóna, tungumála, einbeiting, skipulag, reikningur, yfirsýn, rökhugsun og margt fleira.

Trúlega höfum við eitthvað af þessu öllu, misjafnlega þroskað.

Ef gjafirnar eru ekki notaðar, rýrna þær og hverfa.

Sé handleggur í gifsi í mánuð, rýrnar hann.

Í Bíblíunni er sagt frá talentunum (Matteus 25:14-30), og sá sem grefur talenturnar í jörð fær tiltal.

Mörgum okkar þykir hann eiga vissar málsbætur. Ef til vill skiljum við málið ekki alveg, eitthvað hefur ef til vill skolast til í meðförum kynslóðanna.

Þarna virðist okkur sagt að nýta það sem við eigum, annars verði það tekið frá okkur.

Sýnið ástundun, æfið, og nýtið, þá fáið þið meira, nóg er til?

Tónlist, íþróttir, tungumál, lestur, vaxtarrækt, þetta reynist vel allstaðar.

Velt vöngum.

www.herad.is

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 17:08

11 identicon

Ef einhverjir ætla að selja auðlindir úr landi, þá skoðum við tvennt.

Hver setti lög um samkeppnisstofnun.

Hverjir stýra Reykjavík.

Hver hefur svarið.

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 19:38

12 identicon

Þær hugmyndir sem ég hef skrifað aðeins um hér, eru þær sem forustumenn,

Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa skipulega innrætt þjóðinni síðust 60 til 100 ár.

Að vísu hétu flokkarnir ýmsum nöfnum, en þarna voru margir mætir menn.

Þeir sem nú ætla að hafa aðra siði en þessir flokksforingjar töldu vænlegt,

skulu hugsa sig vel um. Ekki reyndist, kommúnisminn og frjálshyggjan, kæruleysið, vel.

Hvernig væri að reyna að velja hyggjuvitið og skynsemina, en ekki einhverja isma.

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband