23.1.2009 | 19:35
Hver hlýtur hnossið - formaður Sjálfstæðiflokksins
Margir tilkallaðir, fáir útvaldir
Ljóst er að margir verða tilkallaðir en fáir útvaldir - eða í raun aðeins einn útvalinn - þegar kemur að því hver hlýtur formannsstöðuna hjá Sjálfstæðisflokknum.
Tilkallaðir og útvaldir
Illugi Gunnarsson er erfðaprins, sem margir hefðu spáð glæstri framtíð innan Sjálfstæðisflokksins fyrir sex mánuðum síðan. Sú staðreynd veikir hins vegar stöðu hans, að hann sat í stjórn Peningamarkaðssjóðs 9 hjá Glitni þegar bankahrunið átti sér stað. Fullyrðingar Sigurðar G. Guðjónssonar í þá átt, að ríkið hefði einungis lagt sjóði 9 í Glitni til ellefu milljarða króna - eftir að sjóðnum hafði í sjálfu sér verið lokað - af því að Illugi væri þingmaður Sjálfstæðisflokksins veikir stöðu hans enn frekar. Illugi er því úr leik, a.m.k. í bili.
Guðlaugur Þór Þórðarson hefur þegar boðað, að hann kunni að sækjast eftir formannsstólnum. Guðlaugur á sér marga óvini innan flokksins eftir lúalega aðför hans og fylgismanna hans að Birni Bjarnasyni í prófkjörinu fyrir síðustu Alþingiskosningar. Hann kom í byrjun ferils síns ekki vel fyrir sig orði og "sjarmeraði" fólk ekki beinlínis upp úr skónum. Þótt ég persónulega fagni aðgerðum hans varðandi St. Jósepsspítala, eru þær mjög umdeildar. Guðlaugur á að mínu mati ekki mikinn séns í formanninn.
Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur sýnt af sér röggsemi við stjórn borgarinnar að undanförnu. Á þeim bænum hefur hún hins vegar ekki verið "plöguð" af mikilli samkeppni að undanförnu. Forverar hennar á borgarstjórastóli undanfarin ár hafa auðvitað verið hálfgerðir 2. flokks stjórnmálamenn og enginn almennilegur borgarstjóri setið við völd síðan Ingibjörg Sólrún sat við stjórnvölinn við tjörnina í Reykjavík. Það orð fer af Hönnu Birnu innan flokksins, að rignt hafi upp í nösina á henni á hennar yngri árum og sumir meina jafnvel, að hún hafi verið og sé enn frekar hrokafull. Ég þekki hana ekki persónulega, heldur af afsögn og það segir ekki alltaf rétta sögu. Hanna Birna er það sem við sjálfstæðismenn köllum óskrifað blað, vonarstjarna en tæplega "kandídat" í formann flokksins.
Ásdís Halla Bragadóttir hafði það af fyrst kvenna að verða formaður SUS. Á árunum 2000-2005 var hún bæjarstjóri í Garðabæ og vakti þar mikla athygli. Síðan tók hún árið 2005 við sem forstjóri BYKO en hætti skyndilega árið 2007 og veit ég ekki hversvegna það var - kannski erfiður yfirmaður? Það síðasta sem ég frétti af henni var að hún væri í stjórn Nova og forseti Frjálsíþróttasambandsins. Þetta er meira í áttina við verkefni forsetafrúar en verðandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Ég gæti alveg séð fyrir mér að Ásdís Halla gæti orðið varaformaður en varla formaður. Sú staðreynd, að hún hefur ekki verið áberandi í fjölmiðlum eða í flokkstarfinu á undanförnum árum finnst mér persónulega ekki meðmæli, en kannski eru það bara bestu meðmælin?
Guðfinna Bjarnadóttir er auðvitað stórgáfuð kona og sá athafnamaður kvenkyns, sem vakið hefur einna mesta athygli undanfarna áratugi. Uppbygging Háskólans í Reykjavík var ótrúlegt þrekvirki og átti Guðfinna án efa stóran þátt í því starfi. Guðfinna hefur ekki notið sín á Alþingi á undanförnum árum og virðist einhvernvegin ekki vera hluti af þingflokki Sjálfstæðismanna. Þrátt fyrir að vera stórkostlegur ræðumaður, hefur lítil farið fyrir henni í ræðustóli. Ég efast einhvern veginn um áhuga hennar á pólitísku starfi í framtíðinni og hvort hún ræður yfir þeim eldmóði, sem þarf til starfsins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefði án nokkurs efa orðið næsti formaður flokksins ef þessar aðstæður hefðu ekki skapast í haust. Þorgerður Katrín er flugmælsk og kemur einstaklega vel fyrir. Hún stendur hins vegar illa að vígi eftir bankahrunið, þar sem hún kom að málum fyrir hrun bankanna og Kaupþing fékk einn banka lán úr ríkissjóði. Síðar kom í ljós að fjölskyldan átti 500 milljónir í hlutabréfum Kaupþings. Þorgerður Katrín hefur hins vegar tækifæri, sem aðrir frambjóðendur hafa ekki, því hún getur gert það sem þjóðin og sjálfstæðismenn bíða eftir, þ.e.a.s. rekið stjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og vikið spilltum embættismönnum úr starfi. Þá gæti hún að sjálfsögðu komið fram með aðgerðir sem hjálpuðu atvinnulífinu og heimilunum í landinu. Geri hún þetta munu flestir gleyma 7 hægri ehf ævintýri þeirra hjóna og 500 milljóna tapi, sem á að vera stór hluti þess sparnaðar, sem þau hjón hafa "nurlað" saman á undanförnum árum (úps!).
Kristján Þór Júlíusson er fæddur til forystu og þykir búa yfir miklum persónutöfrum og vera góður ræðumaður - líkt og sást á síðasta Landsfundi! Eftir stúdentspróf frá M.A. var hann um árabil til sjós og eftir það lauk hann 2. stigi frá Stýrimannaskólanum. Hann er með háskólapróf í íslensku og bókmenntum auk þess að hafa kennsluréttindi og kenndi hann eitthvað sem ungur maður. Að auki hefur Kristján Þór setið um árabil í stjórnum útgerðarfélaga. Til viðbótar hefur Kristján setið í Ferðamálaráði og í stjórn Landsvirkjunar um margra ára skeið. Kristján hefur því reynslu af þremur stærstu atvinnuvegum þjóðarinnar: fiskveiðum, álvinnslu (Landvirkjun/orkuöflun) og ferðamálum (Ferðamálaráð). Kristján er ekki óumdeildur, þar sem hann sat sem bæjarstjóri (Ísafjörður, Akureyri), frekar en aðrir sem sækjast til forystu. Kosturinn við Kristján er án efa að hann hefur ekki setið í ríkisstjórn undanfarin ár og kom fyrst á þing fyrir 1 1/2 ári. Gallinn er að margir munu halda því fram að hann verði formaður Sjálfstæðisflokksins í boði Samherja.
Bjarni Benediktsson er í sjálfu sér hinn fullkomni "kandídat" í stöðu formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann lítur vel út, kemur vel fyrir sig orði og virkar yfirvegaður og rólegur. Lítið hefur sést til hans í ræðustóli og get ég því ekki dæmt um hæfileika hans þar. Þrátt fyrir ungan aldur gæti hann virkað sem landsfaðir þjóðarinnar. Margir munu þó segja að Bjarni sé aðeins yngri útgáfa af fyrri formönnum flokksins. Hann er eins og margir aðrir af forystumönnum þjóðarinnar hafa verið af hinni frægu Engeyjarætt. Af þeirri ágætu ætt voru margir af helstu frammámönnum í íslensku stjórnmálalífi undanfarin 50 ár eða svo, s.s. Bjarni Benediktsson eldri, Ragnhildur Helgadóttir, Björn Bjarnason og svo núna alnafni fyrrverandi formanns flokksins og forsætisráðherra landsins, Bjarni Benediktsson yngri.
Mörgum finnst það eflaust bera keim af einhverskonar erfðaveldi, að alnafni fyrrverandi formanns flokksins og forsætisráðherra og náfrændi Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra eigi nú að setjast í stól formanns Sjálfstæðisflokksins. Um það ætla ég ekki að dæma, en vissulega er sannleiksbroddur í þessu. Hins vegar er ljóst að reynsla sjálfstæðismanna af ráðherrum og stjórnmálamönnum af Engeyjarætt er mjög góð. Traustari og áreiðanlegri stjórnmálamenn er vart hægt að finna.
Aðrir hafa gagnrýnt að Bjarni hafi setið sem stjórnarformaður N1 og sé þar með "innviklaður" í þá fjárglæfrastarfsemi, sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Því er til að svara, að Engeyjarættin er ekki nýrík fjölskylda, heldur hefur verið vel efnuð um langan tíma og kann að fara með peninga. Flottræfilsháttur og óráðsía hefur ekki beinlínis einkennt þá fjölskyldu. Engar sögur fara af einhverjum spillingarmálum í kringum Bjarna og fjölskyldu hans. Bjarni er hins vegar líkt og margir aðrir að mörgu leyti óskrifað blað í pólitík og hefur t.d. ekki verið ráðherra á undanförnum árum eða gegnt ábyrgðarstöðu sem sveitarstjórnarmaður. Ef hann hefði gert það, kæmi hann tæplega til greina - eða er það sjálfstæðismenn góðir? Af þessum sökum er hann að mínu mati sá sem skorar hæst í augnablikinu!
Eimreiðarhópurinn á leiðarenda
Eimreiðarhópurinn, sem saman stóð af þeim Þorsteini Pálssyni, Magnúsi Gunnarssyni, Geir H. Haarde, Kjartani Gunnarssyni, Brynjólfi Bjarnasyni, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og fleirum virðist hafa sungið sitt síðasta hjá Sjálfstæðisflokknum. Þessi hópur sveigði stefnu flokksins í átt til frjálshyggju og sótti hugmyndir til Miltons Friedman og Friedrichs A. von Hayek. Þótt þessi sveigja hafi að flestu leyti fært landið fram á við má segja að í ákafanum hafi fyrrgreindum hópi láðst að setja um hana nægilega miklar reglur auk þess sem eftirliti var mjög ábótavant. Segja má að fyrsta einkavæðingin, þegar Bæjarútgerð Reykjavíkur var sameinuð einkafyrirtækinu Ísbirninum og úr varð Grandi hf, hafi heppnast mjög vel. Hins vegar verður að setja spurningamerki við framkvæmd einkavæðingar bankanna og "markaðsvæðingu" í fiskiðnaði, sem byggðist á framsali aflaheimilda (kvótakerfinu).
Í raun má segja Eimreiðarhópurinn hafi farið afskaplega vel af stað og svo hafi menn hætt að passa sig og öðlast þá trú, að þeim gæti hreinlega ekki skjátlast. Og þó að í Eimreiðarhópnum hafi verið margir "snillingar", eru snillingar menn, menn eru mannlegir og það er mannlegt að skjátlast!
Þorgerður leysir Geir af | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.1.2009 kl. 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
23.1.2009 | 08:33
Á að "haarda" málið fram í febrúar - munu andstæðingarnir segja ...
Hvaða ástæður liggja að baki frestunar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins nú korter í 12? Fundinum sem landsmenn allir - og þó sérstaklega sjálfstæðismenn - hafa beðið eftir mánuðum saman? Ég þekki minn eigin flokk nógu vel til þess að vita, að þær ástæður, sem nefndar eru, eru ekki endilega þær réttu. Er flokkurinn svona afskaplega ákvarðanafælinn eða er hann haldinn "krónískri" frestunaráráttu? Þetta slyðruorð þurfum við að reka af okkur sem allra fyrst, því það er orðið okkur fjötur um fót!
Ef halda á Landsfund núna í lok janúar er það einmitt hárrétt tímasetning ef fara á í kosningar í vor. Fundurinn á að ákvarða framtíðarstefnu flokksins og afstöðu hans til ESB aðildar. Hvernig eigum við að haga okkur næsta mánuðinn í byrjun kosningabaráttu án skýrrar stefnu og án þessa að vita hver forusta flokksins verður í næstu kosningum? Kosningabaráttan byrjar nefnilega strax í dag!
Með því að fresta fundinum um mánuð verður þeim, sem hyggja á framboð, hvort sem það er til formanns eða varaformanns flokksins eða til Alþingis, gert erfiðara fyrir. Eru einhverjir kannski að tryggja stöðu sína af því að þeir hafa heyrt af öflugu mótframboði? Eða á að róa grasrótina með því að koma með gömlu tugguna enn einu sinni, að ekki megi rugga bátnum svona rétt fyrir kosningar og við ætlum bara að halda okkur við fyrri forystu, þar sem tíminn sé svo naumur og breytingar séu svo áhættusamar?
Þessi frestun leggst illa í mig persónulega og lagðist illa í félaga mína á fjölmennum og fjörugum aðalfundi hjá Sjálfstæðisfélaginu Njarðvíkingi í gærkvöldi. Á þeim fundi var forusta flokksins og ríkisstjórnin öll mikið gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi sitt í aðdraganda bankakreppunnar og stefnu- og aðgerðarleysi sitt eftir hrun bankanna. Það má í raun vart á milli sjá, hvort ríkisstjórnin stóð sig verr fyrir eða eftir hrun bankanna, þótt hæla megi þeim fyrir fyrstu tvær vikurnar eftir hrunið. Fólk spurði eðlilega hvort að "haarda" ætti málið fram í febrúar? Ef flokksmenn tala svona, hvað segja þá andstæðingar okkar og það í byrjun kosningarbaráttu!
- Við sjálfstæðismenn viljum breytingar og þær strax!
- Tala þarf til þjóðarinnar og útskýra hvað er á seiði á máli sem þjóðin skilur
- Skipta þarf út forystu flokksins og inn þurfa að koma tiltölulega ferskir einstaklingar
- Endurnýja þarf þingflokkinn að stórum hluta í kosningum í vor og til þess þarf prófkjör
- Víkja verður úr embætti stjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits auk annarra spilltra embættismanna
- Skýra þarf framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins og endurnýja verður stefnu flokksins í anda hinnar klassísku Sjálfstæðisstefnu
- Flokkurinn þarf að kynna skýra og einfalda aðgerðaáætlun um hvernig við ætlum að koma okkur út úr kreppunni
- Taka þarf afstöðu til ESB aðildarviðræðna eða annarra kosta, s.s. einhliða upptöku annars gjaldmiðils
- Skerpa verður á þrískiptingu valdsins: auka völd Alþingis, efla aðhald með framkvæmdavaldinu, auka sjálfstæði dómsvaldsins
Ef við sjálfstæðismenn tökum á ofangreindum atriðum er möguleiki að flokkurinn komist úr þeirri lægð, sem við óneitanlega erum í, strax í vor. Þannig gætum við endurheimt traust þjóðarinnar og þar með okkar raunfylgi okkar upp á 35-40%.
Aðgerðaleysið mun leiða okkur beina leið í fylgi Framsóknarflokksins fyrir "uppreisn".
Eftir hverju er verið að bíða - Godot?
Á leiklistarvefnum er eftirfarandi lýsing á leikriti Samule Becketts, "Beðið eftir Godot":
Vladimir og Estragon, tveir flækingar hittast á sama stað á hverjum degi, hjá trénu við sveitaveginn og bíða eftir Godot. Þeir vita samt varla hver Godot er né til hvers þeir ætlast af honum. Enda kemur hann aldrei, en sendir dreng á hverjum degi með skilaboð um að hann komi örugglega á morgun. Pozzo kemur líka, umrenningur af öllu fínna tæi og hefur þræl, Lucky sem hlýðir smæstu bendingu húsbónda síns og jafnvel hugsar upphátt samkvæmt skipun. Vladimir og Estragon reyna að stytta stundirnar við að hugleiða lífið og tilveruna rifja upp ævi sína, sem gengur illa, og skipuleggja sjálfsmorð sem reynist þeim ofviða. Svo þeir bíða.
Landsfundur færður nær kosningum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.1.2009 | 08:18
Sjálfstæðisflokkurinn getur því miður sjálfur sér um kennt
Ástandið er að fara úr böndunum og aðeins spurning hvort þegar hafi "brunnið" upp úr eða hvort ástandið eigi eftir að versna. Afleiðingar þess eru augljósar eða að ríkisstjórnin myndi springa. Það yrði áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn, því þetta er ekki besti tíminn fyrir kosningar, hvað hann varðar. Því miður getur Sjálfstæðisflokkurinn sjálfum sér um kennt. Þótt Geir Hilmar Haarde hafi vissulega staðið sig vel fyrstu 2 vikurnar eftir bankahrunið hefur nær algjört aðgerðaleysi einkennt störf forystu Sjálfstæðisflokksins undanfarna 100 daga. Tilsvör forystunnar og frammistaða í fjölmiðlum hefur verið gagnrýnisverð, svo ekki sé meira sagt.
Líkja má ástandinu við að landið hafi verið sótt heim af einhverjum stórum náttúruhamförum eða að stríðsástand ríki. Bæði fyrirtækjunum og heimilum landsins er að blæða út, sumum hægt og rólega, öðrum hraðar. Aðgerðaáætlanir ríkisstjórnarinnar og IMF kunna að virka skynsamlega á suma en á flesta landsmenn virka þær gjörsamlega máttlausar. Ég er efins um að IMF hafi nokkurn tíma átt við ástand eins og hér á landi. Að falla úr efstu sætum í lífsgæðum í heiminum niður fyrir miðju innan OECD er eitthvað sem þessi stofnun þekkir ekki. IMF þekkir heldur ekki áhrif verðtryggingar og myntkörfulána, því þetta eru séríslensk fyrirbrigði. IMF gerir sér ekki grein fyrir því að hjá stórum hluta landsmanna hafa venjulegar skuldbindingar af húsnæði og bílum meira en tvöfaldast og hjá þeim sem skulda í verðtryggðum lánum - flestir landsmanna - hafa afborganir aukist um 20% á einu ári. Matvæli hafa einnig stórhækkað vegna verðbólgu og gengishruns. Fólk sem var í góðum álnum fyrir ári nær ekki endum saman lengur. Við þetta bætist síðan atvinnuleysið, sem er nýtt fyrirbæri.
Lítið annað getur bjargað ríkisstjórninni en einhver stór björgunarpakki fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Víkja verður samstundis úr embætti yfirstjórn Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins auk þess sem spilltir embættismenn í ráðuneytum og annarsstaðar verður að víkja úr stöðum sínum. Síðast en ekki síst verða forystumenn Sjálfstæðisflokksins að axla ábyrgð og gefa það skýrt til kynna - t.d. með því að þeir bjóði sig ekki fram á komandi Landsfundi flokksins í næstu viku. Með þessu er lýst yfir, að þeir vilji víkja fyrir nýju fólki innan flokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki farið fram með sömu forystu í næstu kosningar og endurnýja þarf að stórum hluta þingflokkinn. Endurskoða þarf afstöðu til ESB og leysa þá hugmyndafræðilegu kreppu, sem einkennir flokkinn í dag. Það verður aðeins gert með því að skoða sjálfstæðisstefnuna í nýju ljósi, þ.e.a.s. ekki lengur í ljósi óheftrar frjálshyggju, heldur þess blandaða hagkerfis, sem þjóðin öll vill í raun búa við. Okkar áherslur verða að sjálfsögðu þær sömu og áður, þ.e.a.s. að tryggja einstaklingsfrelsið, að best sé að eftirláta markaðnum það eftir sem hans er og við höfnum hugmyndum um stéttabaráttu en sjáum fyrir okkur Ísland þar sem alla stéttir - stétt með stétt - vinna þétt saman að því að byggja Ísland aftur upp frá grunni. Taka verður stjórnarskránna til gagngerrar endurskoðunar, þar sem skerpa verður á þrískiptingu valdsins: auka völd Alþingis, efla aðhald með framkvæmdavaldinu, auka sjálfstæði dómsvaldsins.
Komandi Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður því vinnufundur, þar sem taka þarf til hendinni. Í húfi er framtíð flokksins og ég vil segja þjóðarinnar allrar. Hægri menn eru a.m.k. 40% þjóðarinnar og okkar hugmyndir skipta jafn miklu máli og hugmyndir vinstri manna, þótt halda mætti annað síðastliðnar vikur og mánuði.
Tveir lögreglumenn slasaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.1.2009 | 10:27
Bílalán eða bílarán - íbúðalán eða íbúðarrán?
Íslenskt bílalán eða - rán
Líkt og þúsundir Íslendinga var ég fyrirhyggjulaus eyðsluseggur og keypti mér bíl fyrir rúmlega ári síðan. Fyrirhyggjulausir íslenskir bruðlarar safna ekki fyrir bílnum sínum, því ólíkt ráðamönnum þjóðarinnar hafa þeir ekki bíl og bílstjóra til að rúnta með sig. Ég átti þó fyrir útborguninni, en eftir stóðu einhverjar 3,5 milljónir og tók ég myntkörfulán fyrir því. Nú stendur þetta bílalán í eitthvað í 8 milljónum og bílinn er metinn á 4-5 milljónir - ef ég losna á annað borð við hann? Þessu láni var ekki þröngvað upp á mig, heldur tók ég það af fúsum og frjálsum vilja. Hins vegar var mér ráðlagt af Glitni - sem ég hafði átt í "góðum" viðskiptum við um árabil - að taka myntkörfulán í jenum og evrum. Ég tók lán til 7 ára og mig minnir, að ég hafi borgað rétt um 55.000 kr. af láninu í "góðærinu" fyrir um ári síðan, en nú er afborgunin um og yfir 110-120.000 kr. (veit það ekki nákvæmlega - lét frysta lánið!). Ekki virðast vera líkur á að gengi íslensku krónunnar styrkist og afborganir af láninu lækki þannig á næstunni, enginn getur sagt mér hver afborgun mín af láninu verður í næsta mánuði, hvað þá á næsta ári!
Dóttir mín er með bílalán með breytilegum vöxtum. Ekki vil ég ábyrgjast 100% þá útreikninga, sem eru hér að neðan og þeir eru í besta falli "óáreiðanlegir". Hér um lágt bílalán að ræða á gömlum bíl, sem var í byrjun árs 2008 600.000 kr., en var í lok ársins komið niður í um 500.000 kr. Vaxtaprósentan var í byrjun árs 16,7% og var núna í desember komin í 21,7%. Í byrjun árs borgaði hún um 18.000 kr. á mánuði og í desember um 20.000 kr. Ef ég margfalda þessa lánsupphæð með tölunni 6 fær ég út svipaða upphæð og ég tók á svipuðum tíma í myntkörfuláni og vonandi er samanburðurinn þá marktækur. Það verða örugglega einhverjir, sem leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál! Miðað við þetta var afborgunin í byrjun árs um 90.000 kr. fyrir 3,6 milljónir og er í lok árs um 110.000 kr. Lánið er til 4 ára með breytilegum vöxtum og því veit enginn hver afborgunin er í næsta mánuði, því hún vaxtaprósentunni í febrúar og sú vaxtaprósenta fer eftir stýrivöxtum Seðlabankans, sem ákvarðast af verðbólgu, gengi krónunnar og þenslu í þjóðfélaginu - eða er það ekki?
Íslenskt íbúðarlán eða -rán
Eftir að hafa hlotið óvænta stöðuhækkun - og þar af leiðandi hærri laun - keypti ég mér hús fyrir 5 árum og ég held jafnvel að ráðamenn þjóðarinnar geti verið mér sammála um að þetta var ekki óráðsía. Ég gat ekki staðgreitt húsið - líkt og margir þeir, sem græddu sem mest á góðærinu - og því varð ég að taka íbúðarlán. Þegar ég flutti inn í húsið var söluverð þess um 32 milljónir og lánið stóð í 17 milljónum. Nú 4 1/2 ári síðar stendur lánið í 22,5 milljónum og húsið eru 35 milljóna virði ef ég losna þá við það. Allar horfur eru á að það lækki í verði og í hvaða upphæð lánið endar veit enginn, en næsta víst er að það lækkar ekki! Ég er með verðtryggt húsnæðislán frá Glitni með 4,15% vöxtum til 40 ára. Í "góðærinu borgaði ég um 100.000 kr. af láninu en í dag borga ég um 115.000 kr. af láninu og má prísa mig sælan fyrir að hafa ekki tekið erlent lán, því þá væri það a.m.k. tvöfalt hærra. Í hvaða upphæð lánið er að fimm árum veit enginn á Íslandi og enginn getur einu sinni sagt mér hver afborgunin af láninu mínu er í næsta mánuði, hvað þá á næsta ári!
Evrulands bílalán eða -rán
Nú langar mig að athuga í hvaða stöðu ég væri í Evrulandinu Þýskalandi, þar sem ég bjó um langa hríð. Ég tala málið eins og innfæddur og þekki vel til í landinu og því lítið mál fyrir mig að kynna mér vaxtakjör og afborgunarskilmála á heimasíðu þess bílaframleiðanda, sem selur bílinn er ég ek á. Tæki ég í dag lán til 5 ára, myndi ég borga 430 evrur eða 73.100 kr. (170 kr. x 430 evrur) á mánuði í 5 ár fyrir lánið og þá ætti ég bílinn. Lánið var að sjálfsögðu ekki verðtryggt. Á "góðærisgenginu" (evran = 90) hefði afborgunin hins vegar verið 38.700 kr. í 5 ár. Ég get skoðað greiðsluáætlun mína og veit nákvæmlega hvað ég skulda í bílnum á hverjum tíma og hver næsta afborgunin, því hún er svipuð frá mánuði til mánaðar, frá ári til árs.
Evrulands húsnæðislán eða -rán
Nú fór ég og leitaði eftir hagstæðasta húsnæðisláninu, sem ég gat fundið á netinu, í Þýskalandi. Ég tók söluverð hússins míns í dag - ef einhver vildi kaupa það - upp á ca. 35.000.000 kr. og reiknaðist til að það væri í evrum EUR 200.000. Ég á núna um 35% í húsinu og því yrði ég að taka lán upp á ca. EUR 130.000. Ég valdi að árleg afborgun mín af láninu yrði 3% og festi vextina í 5 ár og voru þeir þá 3,77%. Ég fékk reyndar sérstakan vaxtaafslátt, þar sem ég er skipaður embættismaður og telst því "öruggur greiðandi". Hæstu vextir voru samt lítið hærri eða rétt rúmlega 4,0%. Mánaðarleg afborgun mín af láninu yrði næstu fimm árin 726,92 evrur, sem eru á núverandi gengi (Evran = 170 kr.) 123.420 krónur. Á "góðærisgenginu" (EUR = 90) hefði afborgunin verið 65.423 kr. Að fimm árum liðinum hefði lánið mitt lækkað úr 130.000 evrum í 107.038,33 evrur. Ég get skoðað greiðsluáætlun mína og veit nákvæmlega hvað ég skulda í húsinu á hverjum tíma og hver næsta afborgunin, því hún er svipuð frá mánuði til mánaðar, frá ári til árs.
Samanburður fyrir venjulegan borgara
Afborganir af bíl og húsnæði í Evrulandi :
Evran á 90 kr.: 38.700 kr. / 430 evrur (bíll - óverðtr. lán) + 65.423 kr. / 726,92 evrur (hús - óverðtr. lán) = 104.123 kr. (samtals)* **
Evran á 110 kr: 47.300 kr. / 430 evrur (bíll - óverðtr. lán) + 79.961 kr. /726,92 evrur (hús - óverðtr. lán) = 127.261 kr. * **
Evran á 170 kr.: 73.100 kr. / 430 evrur (bíll - óverðtryggt lán) + 123.576 kr. / 726,92 evrur = 196.676 kr. (samtals)* **
** Ég veit að þetta er hæpinn samanburður og erfitt að bera saman, þar sem okkar lögmiðill er króna en ekki evra, en þar sem stór hluti þjóðarinnar hefur valið evruna sem sinn "kjörmiðil" vildi ég láta þennan samanburð fljóta með
Afborganir af bíl og húsnæði á Íslandi:
Góðæri: 90.000 kr. (bíll - lán á breytil. vext.) + 100.000 kr. (hús - verðtr. lán) = 190.000 kr. *
Góðæri: 55.000 kr. (bíll - myntkörfulán) + 100.000 kr. (hús - verðtryggt lán) = 155.000 kr. *
Hallæri: 120.000 kr. (bíll - myntkörfulán) + 115.000 kr. (hús - verðtryggt lán) = 235.000 kr.*
Hallæri: 120.000 kr. (bíll - myntkörfulán) + 240.000 kr. (hús - myntkörfulán) = 360.000 kr. *
* Að auki er Evrulands bílalánið, sem af ofan getur til 5 ára en ekki 7 og Evrulands húsnæðislánið greiðist upp á 33 árum en ekki 40.
Ísland - verðbólga = 18%.
Evruland - verðbólga = 1,6%.
Ísland - atvinnuleysi í mars 2009 = 10%
ESB - atvinnuleysi í mars 2009 = 10%
Hvar vilt þú búa - hvar viltu að börnin þín búi?
Þú velur kannski að búa á myntkörfu/verðtryggingar Íslandi, en mjög líklega þarftu þá að leggja á þig ferðalag til Evrulands í framtíðinni til að heimsækja börnin þín og barnabörn!
Fréttaskýring: Skuldin situr öll eftir þótt bíllinn sé tekinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.1.2009 | 16:52
2. lýðveldi Íslendinga - byltingu eða breytingar
Það er skemmtilegt að sjá öll þessu nýju andlit í Silfri Egils og er þetta í raun sá vettvangur í þjóðfélaginu, þar sem sannleikurinn kemst mest á flug þessa dagana. Egill vill auðsjáanlega gefa nýjum röddum tækifæri til að koma fram með algjörlega ferska sýn á hlutina. Það hefur tekist fullkomlega.
Smáborgarar eða stjórnleysingjar
Í Silfri Egils í dag spurði þáttastjórnandi Hörð Torfason, hvort hann teldi rétt að þessir grímulausu stjórnleysingja væru lykilþátttakendur í öllum mótmælum, þar sem slíkt hefði eflaust þau áhrif, að "smáborgarar" treystu sér ekki til að koma fram og mótmæla. Svar Harðar var einfalt: að allir væru velkomnir til að mótmæla og hvar ætti yfirleitt að enda, ef byrjað væri að útloka fólk frá mótmælum. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig, þótt ekki sé ég sammála.
Mér fannst þessi spurning Egils einmitt mjög góð, því ég veit að nær allir "smáborgarar" sem ég þekki - og þeir eru allnokkrir - langar í sjálfu sér til að mótmæla. Enginn þeirra hefur hins vegar áhuga á að standa hlið við hlið á skemmdarvörgum og stjórnleysingjum. Kannski erum við "smáborgararnir" svona hrokafull, en þetta er ástæðan fyrir því, að ég og 100.000 aðrir af sama sauðahúsi erum til í styðja Gay Pride gönguna, en sjáum ekki ástæðu til að mótmæla þjóðargjaldþroti og stærstu kreppu, sem landið hefur nokkurn tíma upplifað. Þessar raddir óánægðra "smáborgara" á borð við sjálfan mig vantar ekki aðeins i mótmælin á Austurvelli, heldur í alla umræðuna, hvort sem hún er í Silfri Egils eða annarsstaðar. Það er miður, því við erum sennilega stærstu áhrifavaldarnir í íslenskum stjórnmálum.
Það eina sem þeir hræðast er uppreisn smáborgaranna
Það sem Egill og fleiri blaðamenn ekki skilja, er að það eina sem forustufólk Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í raun hræðist er uppreisn okkar "smáborgaranna"! Þeir eru ekki vitund hræddir við þetta fólk á Austurvelli, því venjulegir íslenskir stjórnmálamenn eru ekki með pólitískt umboð frá þessu fólki. Nei, það hafa þeir frá okkur "smáborgurunum", það erum við sem höfum haldið þessu fólki við völd, við erum það fólk sem situr í stjórnum félaga stjórnmálaflokkanna, í fulltrúaráðum, í kjördæmisráðum, í miðstjórnum flokkanna og síðast en ekki síst sem förum á landsfundi og ákveðum hver stefna flokkanna verður og hverjir eru í forystuliðinu!
Það sem allir virðast gleyma - andstæðingar okkar "smáborgaranna" og þeir sem á okkur treysta - er að við erum bara venjulegt fólk, með okkar erlendu bílalán eða vísitölutryggðu íbúðalán, það erum við sem erum að lækka í launum eða jafnvel að missa vinnuna! Við erum jafn reið og þetta fólk á Austurvelli, en fáum hvergi nokkurs staðar útrás fyrir þá reiði!
Það versta af öllu er þó, að mínu mati, að við "smáborgarnir" - og við skiptum tugum þúsunda - erum okkur ekki meðvituð um þau völd, sem við í raun höfum. Við gerum okkur ekki grein fyrir, að við höfum alla þræði í hendi okkar til að breyta stjórnmálaflokkunum, til að breyta stefnumálunum, til að breyta því hverjir eru í forystu og hverjir sitja á Alþingi! Já, við "smáborgararnir ráðum í raun hvernig okkar þjóðfélag lítur út ef við höfum áhuga á því!
Margar góðar hugmyndir en mikið af þvættingi
Það sem pirrar mig þessa dagana eru öfgarnar í allri umræðu. Það er næstum á hverjum degi, að gamlir "sófakommar" koma fram og segja frjálshyggjuna - sem er í raun aðeins annað orð yfir markaðshyggju - dauða! Við "smáborgararnir" erum að mínu mati alls ekki sammála þessari yfirlýsingu og teljum allar fréttir af dauða kapítalismans stórýktar!
Er fólk ekki að fara aðeins fram úr sér? Vill fólk 5 ára áætlanir og sovéskan áætlunarbúskap? Hvaða valkosti höfum við aðra en einhverskonar markaðshyggju, þótt hún vissulega muni taka á sig aðeins breytta mynd eftir bankahrunið? Auðvitað brást ríkisvaldið, hvað löggjöf og eftirlit varðar, en brást markaðshagkerfið í grunninn? Ég segi nei, það brást alls ekki! Ég, sem hófsamur hægri maður og markaðssinni, hef alltaf gert mér grein fyrir annmörkum og takmörkunum markaðarins. Ég og fleiri héldum satt best að segja, að sett hefði verið nægilega sterk löggjöf varðandi samkeppni og fjármálamarkaðinn og að þær eftirlitsstofnanir, sem settar voru á stofn, væru að vinna vinnuna sína. Það að löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið stóðu sig ekki í stykkinu er eins og kenna bílum um ofsaakstur, brennivíni um áfengissýki eða mat um offitu! Lausnin er einföld: þeir sem voru blindfullir við stýrið missa ökuskírteinið fyrir lífstíð, alkahólistarnir fara í afvötnun og við átvöglin í hjáveituaðgerð eða megrun!
Lausnin mikið nær en fólki grunar
Margt af því, sem fram hefur komið að undanförnu varðandi breytingar, t.d. varðandi aðskilnað framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds get ég heilshugar tekið undir. Flestar af þessum hugmyndum eru ekki nýjar af nálinni og hafa reynst vel erlendis. Það sem þjóðin vill sjá er að kjörnir fulltrúar á Alþingi ráði í raun ferðinni á Íslandi en ekki einstakir ráðherrar. Það sem þjóðin vill sjá er aðskilnaður milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds verði tryggður, t.d. með því að ráðherrar sitji ekki á þingi. Það sem þjóðin vill sjá er aðskilnaður milli framkvæmdavalds og dómsvalds, t.d. við skipun dómara. Það sem þjóðin vill sjá er meira aðhald þingsins við framkvæmdavaldið og meira aðhald dómsvaldsins við framkvæmdavaldið. Þetta er sem fyrr sagt ekkert frumlegt og langt frá því að vera nýtt undir sólinni!
Til þess að ná fram þessum breytingum þarf ekki að fara fram bylting í landinu, líkt og margir virðast halda. Í langan tíma hefur verið ljóst að fara þarf í gagngerar breytingar á stjórnarskránni og kosningalöggjöfinni. Þetta verður hins vegar ekki gert á nokkrum mánuðum, þótt það sé hægt!
Takið virkan þátt í stjórnmálaflokkunum
Það fyrsta sem fólk þyrfti að gera í lýðræðislegu þjóðfélagi til að ná slíkum breytingum fram á lýðræðislegan hátt, er að taka virkari þátt í stjórnmálum eins og þau þekkjast í dag. Það er því miður engin önnur leið. Við erum með flokkakerfi og því verður ekki breytt á einni nóttu. Borgararnir geta annaðhvort orðið virkari innan þeirra flokka, sem nú eru við lýði og eiga við þeirra áherslur. Þar geta þeir kynnt sínar hugmyndir um breytingar. Síðan er auðvitað möguleikinn að stofna hreinlega nýjar stjórnmálahreyfingar.
Fljótari og vænlegri leið er að mínu mati sú fyrri, þ.e.a.s. að finna sínum málum framgang innan eigin flokks. Þetta hafa ég aðrir gert innan Sjálfstæðisflokksins, t.d. varðandi Evrópumálin. Næsta mál á dagskrá hjá mér innan Sjálfstæðisflokksins er að milda þá öfgafrjálshyggju, sem ríkt hefur innan flokksins um árabil og ég hef haft megnustu óbeit á. Jafnframt vil ég sjá virkara lýðræði innan flokksins og minni ákvarðanatöku að ofan, að meira sé hlustað á okkur í grasrótinni. Það var seinlegt að koma ESB umræðunni af stað innan flokksins, en það tókst. Ytri aðstæður munu nú hjálpa okkur, sem viljum breytingar innan Sjálfstæðisflokksins, við að koma öðrum breytingum á.
Dauðadá eða virka grasrót
Grasrótin í flokkunum á ekki einungis að virka sem kosningasmalar og liggja þess á milli í hálfgerðu dái. Hlutverk stjórna, fulltrúaráða og miðstjórna er ekki einungis að halda uppi einhverju smá félagslífi innan flokksins og styðja við þá, sem völdin hafa innan flokksins, heldur eiga að fara fram virkar stjórnmálaumræður í grasrótinni, umræða sem forusta flokksins á að fylgjast með og taka þátt í með flokksmönnum. Þetta á ekki að vera vandamál í svo litlu landi. Landsfundir á tveggja ára fresti duga ekki fyrir stjórnmálamenn til að finna púlsinn hjá félögum sínum í flokkunum.
Ágætu lesendur, tækifærin til breytinga eru mun nærri en þið haldið og hvet ég fólk, hvort sem það er í flokkum eða ekki, til að ganga í þær stjórnmálahreyfingar, sem standa nærri þeirra hugmyndum og leggja hönd á plóginn. Góðir leiðtogar stjórnmálaflokka munu fagna nýjum meðlimum og nýjum hugmyndum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
7.1.2009 | 21:14
Ríkistjórnarsamstarfið tryggt næstu 1-2 ár?
Auðvitað eru stjórnmálamenn betri leikarar en nær allir atvinnuleikarar landsins, enda eru þeir að leika nær allan daginn á meðan atvinnuleikarar leika aðeins á æfingum eða á sviði. Þetta þekki ég auðvitað vel sem fyrrverandi sviðslistamaður - óperu- og óperettusöngvari, sem lifði af því að leika og syngja í 10 ár.
Nú veit ég ekki hvort Geir og Ingibjörg eru svona góðir leikarar, en ég sé ekki betur en miklar kærleikar hafi tekist með þeim "hjónakornunum" og að þeirra hjónaband gæti enst alla leið til ESB aðildar - það nægir mér! Það væri óskandi fyrir hina kreppuhrjáðu íslensku þjóð að svo væri - með þeim fyrirvara þó, að ég sjálfur og hin íslenska þjóð samþykki niðurstöður ESB aðildarviðræðna.
Viðtalið við Ingibjörgu var mjög gott og kom hún mun betur út úr því en flestir aðrir ráðherra, sem ég hef séð í viðtali undanfarna mánuði. Hún var róleg og yfirveguð og glotti af og til út í annað og virtist líða vel mestan hluta viðtalsins. Það er meira en hægt er að segja um ýmsa aðra stjórnmálaleiðtoga þessa dagana, sem líta illa út, gjörsamlega úttaugaðir og þreyttir og líkt og slökkt hafi verið á þeirra stjórnmálalega loga - hafi hann nokkurn tíma almennilega logað!
Það, sem mest var um vert, lýsti leiðtogi Samfylkingarinnar eindregnum stuðningi við ríkisstjórnarsamstarfið, við Geir H. Haarde og við Árna Mathiessen. Ég vona því að stjórnin "lafi" að minnsta kosti fram á haust eða enn betra fram á þar næsta vor!
Ég vona að Samfylkingarfólk átti sig á, hversu sterkan leiðtoga þau eiga. Jafnframt vona ég. að Ingibjörg hlusti á meira á Össur og aðra "praktískt" þenkjandi ráðherra Samfylkingarinnar, svo að við komumst sem fyrst út þessari bannsettri kreppu!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.1.2009 | 22:36
Borgið brúsann en þetta kemur ykkur ekki við ...
Jónas Fr. Jónsson birtist okkur landsmönnum á skjánum rétt í þessu og tilkynnti að hugsanlega kæmi til að greina, að við fengjum að sjá útdrátt úr skýrslu þeirri eða úttekt, sem Fjármálaeftirlitið hefur látið gera um myrkraverk bankanna í aðdraganda bankakreppunnar.
Þessi sami Jónas, sem hefur verið í vinnu hjá okkur landsmönnum í nokkur ár við að fylgjast með bönkunum, er sem sagt núna að skammta ofan í okkur upplýsingar um glæpaverk þeirra, sem hann átti að fylgjast með en gjörsamlega mistókst að hafa nokkuð eftirlit með! Hann er skammta ofan í okkur upplýsingar um hvernig honum sjálfum mistókst að halda uppi eftirliti með bönkum og fjármálastarfsemi í landinu! Er ég sá eini sem sé þversögnina í þessu eða er ég að verða brjálaður?
Er ekki búið að bjóða landsmönnum upp á nóga vitleysu samt. Við erum öll annaðhvort að missa vinnuna, lækka í launum, fá hærri skatta, lélegri opinbera þjónustu, tvöföldun myntkörfulána, 20% hækkun á verðtryggðum húsnæðislánum auk erlendra skulda, sem barnabörnin okkar verða enn að greiða af.
Næsta sem við sjáum er að Davíð Oddsson lætur gera úttekt á peningamálastefnu liðinna ára og skammtar okkur það úr skýrslunni, sem við megum sjá!
Fyrr í kvöld var okkur sagt að íslenska ríkið gæti ekki farið í mál við það breska vegna þess að við værum ekki með neitt mál í höndunum. Sagt var að ítarleg úttekt hefði farið fram og þetta væri niðurstaðan. Fáum við kannski líka bara valda kafla úr þeirri úttekt?
Þrír mánuðir eru liðnir og enn hefur ekki verið hafin raunveruleg rannsókn hjá saksóknara á því hvort lög hafi verið brotin, þrátt fyrir að fyrrverandi ríkissaksóknari hefði sagt fyrir tveimur mánuðum að allar líkur bentu til þess!
Hvað er um að vera hér á landi?
Þegar "helbláir" íhaldsmenn á borð við mig eru farnir að spyrja sig slíkra spurninga ættu helstu ráðamenn landsins að átta sig á því, að þeir þurfa að herða róðurinn í leitinni að sannleikanum!!!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
4.1.2009 | 12:36
Pattstaða í íslenskum stjórnmálum
Til þessa hefur mér sýnst vera ákveðin pattstaða uppi í íslenskum stjórnmálum, sem skapast af því að báðir stjórnarflokkarnir eru þeirrar skoðunar, að þeir myndu tapa á að fara í kosningar í dag eða á næstu mánuðum. Nauðsynlegt sé að hanga saman út þetta ár og fram á það næsta, þ.e.a.s. komast að sem mestu leyti út á lygnan sjó og vera farin að eygja einhverja bót mála.
Við kosningar núna hræðist Samfylkingin að tapa forskotinu, sem hún hefur haft í undanförnum kosningum á vinstri vængnum, og að VG komið verði stóri vinstri flokkurinn í íslenskum stjórnmálum. Þá hefur Samfylkingunni ekki aðeins mistekist að vera það sameiningarafl, sem marga vinstri menn dreymdi um á sínum tíma, heldur yrði flokkurinn að "hækju" í hugsanlegu vinstra stjórnarsamstarfi. Það er eitt að láta slíkt yfir sig ganga með "stærsta" stjórnamálaflokki landsins, sem er hægri flokkur, en annað að láta neyða sig í hjónaband með Steingrími Joð og félögum.
Vandi sjálfstæðismanna er öllu meiri og þótt flokkurinn hafi bætt við sig nokkrum prósentum frá síðustu skoðanakönnun er engin ástæða til að slaka á eða fagna. Flokkurinn er einungis með um 25% atkvæða. Enn eru mjög margir kjósendur óákveðnir og minni líkur en meiri að þeir skili sér aftur til Sjálfstæðisflokksins, nema að kraftaverk eigi sér stað. Ég veit ekki hvað öðrum finnst, en mér finnst árið 2009 ekki bera með sér að það verði kraftaverkaár! Frammistaða Valhallar og borgarfulltrúa flokksins í REI málinu var til skammar og þrátt fyrir frábæra vinnu Hönnu Birnu er það mál ekki gleymt. Þótt Geir Haarde hafi notið velvilja þjóðarinnar og flokksins fyrstu vikurnar eftir bankahrunið var það skammgóður vermir og nú finnst almenningi lítið hafa gerst. Ríkisstjórnin er að mati almennings ákvarðanafælin, þreytt og rúin trausti.
Að auki er Sjálfstæðisflokkurinn algjörlega klofinn í afstöðu sinni til ESB. Yfirlýsingar formannsins, sem eflaust voru ætlaðar til að róa báðar fylkingar, hafa skilað þveröfugum tilgangi. Þetta á ekki síst við eftir ofureðlilega yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar um að rétt væri að halda þingkosningar og endurnýja umboð þingmanna, sé á annað borð farið í kosningar um ESB aðildarviðræður í vor. Nú er því ekki einungis ágreiningur um, hvort halda eigi til aðildarviðræðna, heldur einnig um hvort kjósa skuli um hvort aðildarviðræður eigi að hefjast.
Þarna opnaði forsætisráðherra að mínu mati enn eina "Pandóruöskjuna". Hugsanlega var þetta þó ekki eins rangt hjá Geir og það virðist við fyrstu sýn, því samkvæmt grísku goðafræðunum var óvíst um, hvort askjan hafi verið opnuð óvart eða vísvitandi. Eftir að búið var að opna öskjuna og hleypa því illa út, var aðeins vonin ein eftir í öskjunni!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.12.2008 | 11:10
Skýr skilaboð formanns til Landsfundar Sjálfstæðisflokksins
Hér sendir forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skýr skilaboð til Landsfundar Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn verður í lok næsta mánaðar. Þetta styrkir án efa stöðu formannsins, en hvort sem manni líkar betur eða verr hefur staða hans auðvitað verið að veikjast undanfarna 2 mánuði, þrátt fyrir að enginn hefði sennilega viljað hafa annan í brúnni fyrstu vikurnar eftir bankahrunið. Frá tímum Geirs Hallgrímssonar hefur enginn formaður Sjálfstæðisflokksins staðið frammi fyrir álíka erfiðleikum innan flokks sem utan og nafni hans Geir H. Haarde.
Ég vona svo sannarlega, að þetta sé fyrsta skrefið í átt til ESB aðildarviðræðna. Að vissum skilyrðum uppfylltum, t.d. varðandi varanlegar undanþágur frá fiskveiðistefnu ESB og lausn fyrir íslenskan landbúnað, er það von mín, að slíkar aðildarviðræður skili Íslendingum viðundandi aðildarskilmálum, sem leiða muni til inngöngu landsins í ESB.
Ég er sannfærður um að aðild Íslands að ESB mun gera okkar frábæra land að enn betri stað til að búa á.
Umsókn í þjóðaratkvæði? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2008 | 10:32
Rannsókn eða nornaveiðar - óreiðumenn eða afbrotamenn?
Árla dags miðvikudaginn 15. október, þegar klukkan var nítján mínútur gengin í níu, komst hinn trausti og sannsögli ritstjóri DV, Reynir Traustason, svo að orði:
Þegar upplausn samfélagsins er að verða að veruleika er vítavert að efna til nornaveiða gegn einstaklingum sem mönnum þykir nærtækt að kenna um ástandið. Her þeirra sem fordæma rakalaust var ræstur út með orðinu óreiðumenn. Ákveðinn hópur borgara hugsar og hagar sér eins og Ku Klux Klan og vill taka auðmenn og helst brenna þá á báli vegna þess að þeir hafi með útrásinni steypt þjóðinni í glötun.
Í lok leiðara síns bætir hann þessum orðum við:
Það er einföldun að kenna þar um hópi manna sem enginn kaus til að gæta Íslands. Við skulum láta galdrabrennur bíða en kalla til ábyrgðar þá sem bersýnilega brugðust þjóðinni. Þeir sitja á Alþingi og í ríkisstjórn.
Það merkilega er að Geir Haarde, Björn Bjarnason, Birgir Ármannsson, Hannes Hólmsteinn og Vilhjálmur Egilsson hafa einmitt varað við nornaveiðum undanfarna mánuði og hefur sumum þótt nóg um, hversu mjög þeir hafa tekið upp hanskann fyrir útrásarvíkingana. Þannig lagðist Birgir Ármannsson alfarið gegn því að reynt yrði að ná þeim peningum heim, sem eru fastir í eignum eða á reikningum þessa fólks.
Reyndar fannst mér á köflum að ríkisstjórnin hafa lítinn sem engan áhuga á að rannsaka þau brot, sem borðleggjandi er að framin voru á undanförnum árum. Það var ekki fyrr en í byrjun nóvember þegar Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, sagði sig frá rannsókn á hruni bankanna og ráðlagði ríkisstjórninni að fá erlenda aðila til aðstoðar, að ríkisstjórnin tók af allan vafa um að hún vildi umfangsmikla rannsókn á þessu máli. Fram að þeim tíma var sá eini sem þorði að nefna þessa menn réttu nafni Davíð Oddsson, en á meðan létu aðrir ráðamenn jafnvel vinsamleg orð falla um þessa afbrotamenn og vörðu þá hálfpartinn. Reyndar má segja að orðið "óreiðumenn" sé ekki rétta orðið, heldur væri nær að kalla þá landráðamenn, þjófapakk og glæpahyski!
Það vekur óneitanlega athygli að það er efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra, sem rannsakar þetta mál, en ekki Fjármálaeftirlitið. Það er ekki einungis spurning hvað sú stofnun hefur verið að gera undanfarin ár, heldur einnig hvað hún hefur verið að gera undanfarna mánuði. Kannski eru hundrað milljarðar smápeningar í augum þess fólks, sem þar vinnur, en ég minni á að hér er um 2/3 halla ríkissjóðs að ræða á þessu ári og 1/2 þeirrar fjárhæðar, sem talið er að við íslendingar verðum að greiða vegna Icesave málsins þegar upp er staðið!
Rannsaka millifærslur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |