27.12.2008 | 11:06
Andstæðingar ESB aðildarviðræðna orðnir rökþrota
Það er ekki nýtt í íslenskum stjórnmálum að drepa málum á dreif eða fara ofan í skotgrafirnar og koma með órökstuddar fullyrðingar þegar rökin þrýtur. Þetta hafa stjórnmálamenn stundað í öllum stórum málum, sem komið hafa upp undanfarna áratugi. Markmið Ármanns Kr. Ólafssonar og Styrmis Gunnarssonar og margra fleiri er nú í aðdraganda Landsfundar Sjálfstæðisflokksins að gera ESB aðild og Samfylkinguna tortryggilega og kasta ryki í augu fólks.
Fyrst kom bréf Styrmis, þar sem hann á mjög ósmekklegan hátt líkir Samfylkingunni við Nasistaflokk Hitlers. Síðan byrjar Ármann Kr. Ólafsson að tala um skort Samfylkingarinnar á umboði til að sækja um ESB aðild. Ég get nú ekki sagt að mér hugnist slík vinnubrögð í garð samstarfsflokks í ríkisstjórn eða til málefnis, sem er mjög umdeilt innan Sjálfstæðisflokksins. Á móti má segja að Samfylkingin hafi sjálf margsinnis orðið uppvís að svipuðum athugasemdum í garð Sjálfstæðisflokksins undanfarna 18 mánuði.
Ég veit hins vegar ekki betur en að Samfylkingin hafi verið með póstkosningu um ESB aðild fyrir einhverjum árum síðan, þar sem mikill meirihluti flokksmanna samþykkti aðildarviðræður. Síðan þá hefur Samfylkingin ein flokka verið með ESB aðild á sinni stefnuskrá og það hefur ekki verið kjósendum né alþingismönnum neitt launungamál. Af þessum sökum skil ég ekki þessar hugrenningar Ármanns og fleiri.
Þetta er hins vegar síður en svo ný aðferðafræði hjá Styrmi, því þeir sem hafa bloggað hvað mest á móti ESB aðild hafa notað svipað aðferðafræði. Þannig lét Gunnar Rögnvaldsson þessi orð falla í athugasemd við bloggfærslu 30. júní 2008:
Ennþá, eftir morðin á 40-70 milljón saklausra þegna Sovétríkjanna, eru 8 af hverjum 10 blaðamönnum kommar og hálfkommar í Evrópu. 7 af hverjum 10 svokölluðum intellectuals eru einnig kommar og hálf-kommar í Evrópu. Ennþá !!!Umræðan um ESB einkennist um margt af samskonar draumsýnum og einkenndu enn fylgismenn sósíalismans fyrir hálfri öld síðan. Því er til dæmis haldið fram í sama bláeyga sakleysinu að matarverð og vextir muni lækka um tugi prósenta ef við göngum í ESB.
Guðmundur Jónas Kristjánsson lét eftirtalin orð falla 11. september 2008:
Og hver eru hin ÞJÓÐLEGU ÁBYRGU RÖK ykkar öfga alþjóðasinnuðu krata
Enn eitt gott dæmi eru ummæli Fannars frá Rifi 11. september 2008:
EES samningurinn er og var góður sem leið til þess að auka frjálsræði í markaðsmálum. ESB er ekki samningur um opin markað. ESB er samningur um að stefna beri að stofnun nýs ríkis. Fannar frá Rifi 11. september 2008.
Og ekki hefur Bjarni Harðarson látið sitt eftir liggja:
Það rétta er að ég hef oftar en einu sinni vakið athygli á alræðistilburðum Evrópusambandsins og að í því efni líktist það öðrum alræðiskerfum. Það er tilhneiging ESB skrifræðisins til að stjórna öllu, smáu sem stóru í lífi manna og málleysingja.
Mikil áhersla er einnig lögð á leynimakkið sem á að ríkja innan sambandsins og er athugasemd Jóns Guðmundssonar frá 29. janúar á þessu ári til marks um það:
Evrópusambandið er það alvitlausasta alþjóðabatterí sem fyrir finnst í hinni stóru veröld.... Eflaust drekka þeir dýrt koníak og reykja dýra vindla á meðan þetta leynimakk fer fram!
Langbest eru þó gífuryrði Óskars Helga Helgasonar frá 28. janúar 2008. Ég held reyndar að þetta sé einmitt það sem andstæðingar ESB eru að ýja að, þ.e.a.s. að með ESB séu Þjóðverjar loksins að láta draum sinn rætast um að sameina Evrópu undir þeirra stjórn:
Auðvitað; er Stór- Þýskaland (Evrópusambandið), beint afsprengi Nasista veldis Hitlers sáluga. Þeim tókst það, Þjóðverjum, sem Hitler og fyrirrennurum hans, allt frá Ottó mikla hafði ekki tekist, þ.e., að sölsa undir sig 3/4 álfunnar.
Ég á bágt með að trúa því, að Íslendingar séu svo skyni skroppnir, að þeir láti hræðast af svo barnalegum aðdróttunum, sem að ofan getur. Hitt er svo annað mál, að við ESB aðildarviðræðusinnar verðum að benda á þann lævísa og ómerkilega áróður, sem borinn er fram. Við aðildarviðræðusinnar hræðumst ekki umræðuna um ESB eða evruna, en það gera andstæðingarnir okkar og þar sem þeir eru nú þegar rökþrota og ofurliði bornir, bjóða þeir upp á þessa endemis vitleysu.
Segir forystu ekki hafa umboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (73)
Ég vil óska þeim fjölmörgu, sem lagt hafa leið sína á bloggið hjá mér á þessu fyrsta bloggári mínu, gleðilegra jóla!
Með góðri kveðju,
Guðbjörn Guðbjörnsson
21.12.2008 | 14:19
Ansi seint um rassinn gripið - svo ekki sé sterkara að orði kveðið!
Ef ég man rétt, þá var einokun á matvörumarkaði gagnrýnd fyrir nokkrum árum af manni, sem nú um stundir er ekki beint í miklu uppáhaldi hjá þjóðinni - Davíð Oddssyni. Fyrir þetta var ekki aðeins Davíð gagnrýndur heldur og allir, sem dirfðust að kasta rýrt á afrek Jóhannesar eða Jóns Ásgeirs í Bónus. Þessir tveir virtust til langs tíma vera íslenskar þjóðhetjur og settar á stall með Jóni Sigurðssyni. Ég bjó í tólf ár í Þýskalandi og þar er til svipuð keðja, þótt ekki sé hún hlutfallslega jafn stór og Baugur, en þetta er verslunarkeðjan ALDI. Ekki eru Karl og Theo Albrecht - stofnendur verslunarkeðjunnar - settir á stall með þýskum þjóðhetjum á borð við Otto von Bismarck.
Þessi sami umdeildi maður sagði við annað tækifæri á Alþingi, að ekki væri þörf að ganga í ESB, því við Íslendingar hefðum sjálfir í hendi okkar að lækka gjöld á matvælum og gera matvælaverð sambærilegt því, sem við þekkjum frá nágrannalöndunum. Þetta varð síðan eitt af síðustu verkum síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Fjölmiðlalögin, sem í raun var fyrsta atlagan að þessari einokun nokkurra mannna, hlutu ekki náð fyrir augum þjóðarinnar. Skoðanakannanir sýndu að meirihluti þjóðarinnar var mjög sáttur við að auðjöfrar réðu hér allri fjölmiðlaumfjöllun. Sú hefur og raunin verið undanfarin ár. Þetta á án vafa nokkurn þátt í því hvernig mál þróuðust hér algjörlega eftirlitslaust af hálfu fjölmiðla og ríkisstofnana undanfarin ár. Allir sem reyndu að vara okkur við voru uppnefndir gleðispillar eða leiðindapúkar, sem ekki vildu taka þátt í veislunni, sem var að mati nær allra landsmanna - þar á meðal undirritaðs - mjög skemmtileg. Veisluþátttaka manna var misjöfn, en ég hafði sem betur fer vit á að ganga varlega um gleðinnar dyr og koma mér heim tímanlega ódrukkinn og á bílnum.
Segja má að báðar þessar tilraunir - lækkun virðisaukaskatts og vörugjalda á matvæli og fjölmiðlalögin - hafi gjörsamlega mistekist. Davíð hafði á röngu að standa og lækkun gjalda skilaði sér að mjög litlu leyti til landsmanna og fjölmiðlalögin tóku ekki gildi af því að Baugsmaður nr. 1. - forseti lýðveldisins - neitaði að skrifa undir lögin. Ríkisstjórnin sá sem var, að tilgangslaust var að bera lögin undir þjóðina, því hún skildi ekki hvaða hagsmunir voru í húfi, enda hafði ríkisstjórnin ekki - frekar en fyrri daginn - talið nauðsynlegt að útskýra þau fyrir þjóð sinni og þingi. Nei, þessi lög - líkt og svo mörg önnur - átti að keyra í gegnum þingið með þingmeirihlutanum. Ekki var reynt að ná tímanlega málamiðlun við VG, þótt slíkt hefði eflaust verið hægt með lágmarksbreytingum á lögunum. Ekki má misskilja mig, því ég var og er sammála innihaldi laganna, líkt og ég hef yfirleitt verið sammála flestu, sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram. Nei, það voru vinnubrögðin í þinginu og sá skortur á samráði við þjóðkjörna fulltrúa og landslýð er viðgengist hefur sl. 15 ár, sem mér blöskraði og blöskrar stundum enn.
Ég spyr enn of aftur eins og fávís maður, er eitthvað af þessu nýtt: hringamyndun og krosseignahald, fákeppni eða að fyrirtæki beiti markaðsráðandi stöðu sinni hér á landi. Það er nánast sama í hvaða viðskiptum fólk stendur í þessu þjóðfélagi okkar, þetta virðast vera sér íslenskir verslunar- og viðskiptahættir, sem löggjafinn hefur ekki haft minnsta áhuga á að stoppa, þótt þeir séu allstaðar bannaðir í hinum vestræna heimi.
Að menn séu að vakna til lífsins núna, eftir að við Íslendingar erum búnir að búa meira og minna við einokun frá því að Gamli sáttmáli var undirritaður árið 1262 - í heimabæ flutningsmanns frumvarpsins, Ármanns Kr. Ólafssonar, Kópavogi - er að mínu mati svo sprenghlægilegt, að mér er skapi næst að skellihlæja!
Sennilega höfum við aldrei hætt að heiðra eitt ákvæði þessa sögulega sáttmála við Hákon gamla:
Item at íslenzkir sé lögmenn og sýslumenn á landi váru af þeirra ættum, sem at fornu hafa goðorðin upp gefit.
Það er allavega ljóst, að þetta á við um pólitíska endurnýjun allra stjórnmálaflokka, því sömu erfða- og feðraveldi ráða lofum og ríkjum í öllum flokkum áratugum saman, kynslóð fram af kynslóð og engin leið virðist færa að ná þar fram breytingum.
Erfðaprinsarnir eru ákveðnir og aðeins þeim leyft að "hækka í tign", sem enga hættu skapa fyrir ráðandi öfl.
Kalla á heildarendurskoðun á samkeppnisumhverfinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.12.2008 | 09:48
Svo orðlaus, að ég fann ekki fyrirsögn!
Það er með ólíkindum að lesa um aðfarir bankanna undanfarin ár, en það versta var þó að allt var þetta gert fyrir luktum dyrum. Hér var um almenningshlutafélög, sem nær allir landsmenn voru hluthafar í gegnum lífeyrissjóði sína og því er málið enn alvarlegra. Hvernig gat slíkt átt sér stað án þess að fjölmiðlar skrifuðu um það? Svarið vita allir!
Að bankastjórar skuli hafa lánað "sínu" fólki án þess að krefjast einhverrar ábyrgðar er hreint út sagt með ólíkindum. Þetta á ekki síst við vegna þess að bankarnir hafa varla lánað einum einasta manni án ábyrgðar frá örófi alda. Þetta gildir jafnt um þá sem eru í mjög öruggri og sæmilega borgaðri vinnu á borð við mig og þá sem hafa ótryggari vinnu og lægri laun. Hér tóku þeir sig til og lánuðu samstarfsfólki sínu til kaupa í áhættufjárfestingum á borð við hlutabréf - gjörsamlega siðlaust, hreint út sagt ógeðsleg spilling!
Fyrir um átta árum síðan "neyddist" ég til að skrifa upp á lán hjá mér nákomnum aðila, sem ég vissi að var á lágum launum. Ég hafði grun um að viðkomandi gæti lent í vandræðum með afborganir og það kom síðan auðvitað upp á daginn - lánið féll á mig. Í tvö ár fór öll mín aukavinna meira og minna í greiða þetta lán. Ekki kom til greina að fella lánið niður, þótt sá bankamaður sem ég var í samskiptum við viðurkenndi fúslega, eftir að hafa skoðað fjárhag viðkomandi, að bankinn hefði aldrei átt að veita þetta lán.
Nú stend ég frammi fyrir því að lenda aftur í að borga lán annars óreiðufólks, sem skrifaði ekki einu sinni upp á lánið hjá. Ég lendi í að borga lán útrásarvíkinganna 33, sem auðsjáanlega eru þó miklu fleiri og skipta líklega hundruðum og sitja að hluta til enn í íslenskum bönkum. Það er ekki nóg með að þessir "glæpamenn" séu að fá skuldirnar sínar felldar niður, heldur á þetta fólk að halda vinnu sinni og er eflaust á mun hærri launum en flestir landsmenn.
Ég fékk netpóst um daginn, þar sem ýjað var að því, að unnið væri dag og nótt að afskriftum lána hjá hundruðum ef ekki þúsundum Íslendinga. Þar á meðal átti að vera fjöldi þingmanna, ráðamanna og annarra. Öll vitum við af lántökum ýmissa ráðamanna, sem höfðu þó vit á að koma þessum fjárfestingum sínum í hlutafélög fyrr á þessu ári, eða líklega um svipað leyti og þeir hafa frétt af hruni íslenska fjármálakerfisins. Ég trúði þessum netpósti ekki í fyrstu, en nú veit ég ekki hverju ég á að trúa og er skapi næst að halda engu sé logið upp á þetta fólk.
Ég er sem betur fer með litlar skuldir og "aðeins" með myntkörfulán á bílnum mínum upp á 7 milljónir, sem fyrir þremur mánuðum var í 3,5 milljónum. Á þessu láni er sjálfskuldarábyrgð, sem enginn virðist vera á þeim buxunum að fella ábyrgðina niður á! Ég átti 60% í húsinu mínu fyrir ári og á núna 40% í því. Um mitt næsta ár gæti ég verið eignalaus og sömu sögu segir hálf íslenska þjóðin.
Hvað er að gerast og hvað gerðist í þessu eftirlitslausa, löglausa, siðspillta þjóðfélagi okkar á undanförnum fjórum árum?
Lykilstjórnendur bankans lifa í óvissu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
19.12.2008 | 19:40
Kerfisbreytingar í ríkisrekstri - hvar er hægt að spara?
Hversvegna notar Geir Hilmar Haarde orðið kerfisbreytingar? Er það af því að það er hæfilega loðið til að hægt er að skilja það á ýmsan hátt eða er það til þess að fólk skilji það alls ekki? Sem stjórnsýslufræðingur dettur mér strax í hug breyting á rekstrarformi, t.d. úr ríkisrekstri í einkarekstur. Þó er hægt að nota orðið um ýmsar aðrar aðgerðir, sem yfirleitt miða að meiri skilvirkni í opinberum rekstri. Betra væri ef stjórnmálamenn töluðu skýrar til fólks, en ekki á "teknókratamáli". Oft er verið að tala um hluti, sem beinast alls ekki að því að minnka þjónustu eða lækka laun starfsmanna, heldur að hreinni og klárri hagræðingu, sem bitnar í raun á engum. Ekki er hægt að ætlast til að allir landsmenn fari að mínu fordæmi og ljúki mjög sérhæfðu námi í skrifræði.
Möguleikarnir til sparnaðar hjá hinu opinbera eru færri en maður gæti haldið við fyrstu sýn. Ástæðan er einföld eða að útgjöld ríkisins fara aðallega í tvo stóra málaflokka: heilbrigðismál og menntamál. Ef það á að spara eitthvað að ráði verður það að vera í þessum málaflokkum.
Hvað heilbrigðismálin varðar, þá eru tækifærin í sparnaði líklega þó nokkur. Eins og málum er nú háttað fá sjúkrahúsin fasta fjárveitingu á fjárlögum. Þessar tekjur eru í raun algjörlega óháðar hversu miklu sjúkrahúsin afkasta. Flest sjúkrahús virðast síðan nota fjárlögin meira til að styðjast við þau en að nákvæmlega sé eftir þeim farið. Árlega fara nær allar sjúkrastofnanir mjög mikið fram úr fjárlögum. Ástæðan er sögð vera að peningarnir séu of þröngt skammtaðir miðað við lögbundin verkefni stofnananna. Ekki ætla ég að bera brigður á það, enda treysti ég að fólk sé að reyna að gera sitt besta á sjúkrahúsum, líkt og annarsstaðar í opinberum rekstri. Ég hef unnið hjá hinu opinbera í yfir 20 ár og held að á flestum stöðum sé í raun vel haldið um peningana. Þetta þýðir hins vegar ekki að engir möguleikar séu til sparnaðar.
Víðast hvar annarsstaðar í heiminum hefur rekstri sjúkrahúsa verið breytt þannig, að í stað þess að fá fasta fjárveitingu á fjárlögum, hefur verið farið yfir í afkastatengt kerfi, þar sem læknum og sjúkrahúsum er greitt eftir fjölda og umfangi verkefni sinna. Þetta kerfi er að mörgu leyti ágætt, en hefur þó þann galla, að sjúkrahús reyna að komast undan því að taka sér "dýra" sjúklinga, sem ekki er mikill "hagnaður" af, en einbeita sér frekar að "hagkvæmum" aðgerðum/sjúklingum og reyna jafnvel að fjölga slíkum aðgerðum/sjúklingum eins og hægt er. Þetta var t.d. alþekkt í Þýskalandi, þar sem ég bjó um árabil. Einnig eru til önnur "réttlátari" umbunarkerfi, þar sem tekið er tillit til veikinda fólks, aldurs og annars, sem hefur áhrif á kostnað við umönnun sjúklinga. Sjúkrahúsin fá svo greitt í samræmi við kostnaðinn. Takist læknum eða sjúkrahúsum að lækna á "ódýrari" hátt halda þeir "hagnaðnum" eftir. Sjúkrahúsin reyna auðvitað að lækna sjúklinginn án þess að gera of margar blóðrannsóknir og beita hagkvæmustu mögulegu leiðum til að ná góðum árangri. Með öðrum orðum eykst kostnaðarvitund lækna og hjúkrunarfræðinga og þeir reyna að halda kostnaði í lágmarki. Nú hugsa kannski margir með sér, að þá reyni sjúkrahúsin að spara nauðsynlega umönnun. Ég tel það ólíklegt, því slíkt gæti haft í för með sér dýrari meðferð fyrir sjúkrahúsið og skaðabótakröfur sjúklinga eða aðstandenda þeirra. Slíkar kerfisbreytingar á íslensku heilbrigðiskerfi kæmu því aðallega í veg fyrir óþarfa kostnað og of miklar og "óþarfa" rannsóknir og lækkuðu með því kostnað í heilbrigðiskerfinu.
Það er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur ríkisstarfsmenn að hugsa stanslaust um kostnað við allt sem við tökum okkur fyrir hendur. Þannig hafa hlutirnir um árabil verið framkvæmdir hjá þeirri stofnun, sem ég vinn fyrir. Ég er hins vegar ekki viss um að þessi hugsun hafi gegnsýrt allan opinberan rekstur á sama hátt og hjá okkur. Ástæða þess að svo mikið var sparað hjá Lögreglu- og tollstjóranum á Suðurnesjum var sú, að um árabil hefur verkefnum fjölgað mun meira en fjárveitingar hafa hækkað.
Afar mikilvægt er fyrir ráðamenn og forstöðumenn að gera starfsfólki stofnana og almenningi ljóst, að markmið slíkra "kerfisbreytinga" sé einungis að fá meira út skattpeningnum, en alls ekki að skerða þjónustu eða lækka laun opinberra starfsmanna.
Undirbúa ný fjárlög eftir áramót | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.12.2008 | 08:08
Fjölmiðlafrumvarpið, auðjöfrarnir og stjórnmálamennirnir
Það er hreint út með ólíkindum, hvernig snúið er út úr sumum hlutum og hvernig hlutir eru stundum gerðir tortryggilegir og aðrir miklaðir og dásamaðir. Þarna er vald fjölmiðla gífurlega mikið, þótt ekki vilji ég gera lítið úr almannarómi. Bestu dæmi um slíkt eru fjölmiðlafrumvarpið og útrásin.
Ég áttaði mig á því fyrir um ári síðan að líklega væri ekki allt með felldu á Íslandi, þótt ekki hafi ég átt von á þessum skelli. Ég var hins vegar sammála ráðamönnum, að þegar þarna var komið, var lítið annað að gera en að halda sér vel og biðja til Guðs að allt færi ekki til andskotans. Það er skemmst frá því að segja að allt fór til andskotans og lengra til. Þegar leita á sökudólga eftir katastrófu sem þessa reyna allir að leiða athyglina frá sér.
Ríkisstjórnin yppir öxlum og bendir á alþjóðakreppuna. Eðlilegt er að stjórnarandstaðan krefjist afsagnar ríkisstjórnarinnar. En hvar er krafa flokksmanna stjórnarflokkanna um svör frá sínum mönnum - heiðarleg svör en ekki útúrsnúninga. Hvar eru kröfurnar um að forystu stjórnarflokkanna sé hreinlega skipt út, að menn axli ábyrgð á sínum gjörðum, hvort sem það eru sjálfstæðismenn, framsóknarmenn eða kratar!
Alþingi bendir á ríkisstjórnina, alþjóðakreppuna og útrásarvíkingana og kemst upp með það! Hversvegna er Alþingi ekki spurt um þátt þess í þessari kreppu og þeirra ábyrgð? Hvar var löggjöfin um þessi máli, þar sem krosseignatengslin og önnur óeðlileg viðskipti voru hreinlega bönnuð?
Fjármálaeftirlitið á hversu litla peninga þeir höfðu og lélega löggjöf. Hvers vegna bentu þeir ekki á hættuna, sem gæti skapast - hina raunverulegu hættu á að við færum á hausinn? Hversvegna bentu þeir ekki á að löggjöfin hér á landi væri stórgölluð?
Seðlabankinn segist hafa margvarað ríkisstjórnina við og að eftirlitið sé mestmegnis hjá Fjármálaeftirlitinu, en hvar voru viðvaranir hans að finna í opinberum gögnum eða ræðum og þá er ég að tala um alvöru viðvaranir en ekki eitthvað undir rós? Hversvegna bentu þeir ekki á að löggjöfin hér á landi væri stórgölluð? Og hversvegna studdu þeir ekki kröfu Fjármálaeftirlitsins um auknar fjárveitingar?
Viðskiptaráðuneyti - ráðuneyti bankamála - bendir á Fjármálaeftirlitið og segist treysta sínum undirstofnunum. Ég hélt það væri verkefni ráðuneyta að fylgjast með því að undirstofnanir væru að vinna vinnuna sína eða þannig var mér kennt í námi mínu í stjórnsýslufræðum.
Fjármálaráðuneytið segir málaflokkinn ekki heyra undir sig, sem er formlega rétt skýring sé litið til verkefna ráðuneytisins, en samt einkennilegt að menn þar á bæ skuli ekki hafa sé neitt athugavert við þróun mála.
Slíkar spurningar verða ekki lagðar fram og útskýringin er einföld. Það eru sameiginlegir hagsmunir ríkisstjórnarinnar, alþingismanna, annarra stjórnmálamanna, ráðuneyta, eftirlitsstofnana, auðjöfra og þeirra sem fyrir þá unnu og fjölmiðla, sem eru, voru eða verða í eigu þeirra sömu auðmanna og áttu þá, að sannleikurinn komi ekki ljós að réttu spurningarnar sé ekki lagðar fyrir þessa aðila.
Enginn veit hversu mög símtöl menn á borð við Reyni Traustason fá þessa dagana frá auðjöfrum, starfsmönnum þeirra eða spilltum stjórnmálamönnum. Mikla ábyrgð á því hvernig okkur er fyrir komið í dag bera þeir, sem stóðu á móti fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma. Berlega hefur komið í ljós, að við sem studdum fjölmiðlafrumvarpið vissum nákvæmlega hvað við vorum að gera.
Heldur landslýður að mögulegt hefði verið að koma í gegnum Alþingi og ríkisstjórn og fá samþykki fjölmiðla/auðjöfra á lögum, sem hefðu bannað krosseignatengsl og aðra lögleysu, sem aðeins er leyfð á Íslandi? Svar mitt er einfalt: aldrei. Hér þarf að sópa út af Alþingi, ráðuneytum og eftirlitsstofnunum. Bara til að það sé á hreinu, þá er ég hvorki stjórnleysingi, kommúnisti eða sósíalisti, heldur flokksbundinn íhaldsmaður í Sjálfstæðisflokknum, sem er ofboðið.
Hér þarf að koma skikki á hlutina!
Upptaka af útskýringum ritstjóra DV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.12.2008 | 07:57
Þegar einn ráðherra og einfaldur meirihluti sveitarfélags er látinn ráða ferðinni fyrir landið ...
Það er ljóst að nokkrum rugludöllum í Hafnarfirði og víðar tókst að koma slíku róti á hugi Hafnfirðinga, að þeir litu fram hjá þeirri einföldu staðreynd, að álverið í Straumsvík hafði séð hundruðum Gaflara fyrir lífsviðurviðurværi um áratuga skeið í gegnum margar kreppur og mörg góðæri.
Á sama hátt virðist núverandi umhverfisráðherra Samfylkingarinnar hafa með seinagangi sínum og fjandsamlegum yfirlýsingum komið í veg fyrir álver á Bakka við Húsavík. Er þetta virkilega réttlætanlegt - hvar var fyrirhyggjan?
Síðan halda Andri Snær, Björk, Ómar og VG áfram að predika sama ruglið og áður. Þjóðin er svo dofin, að hún segir í skoðanakönnunum, að hún vilji að þetta sama fólk stjórni landinu. Þetta eru kannski eðlileg viðbrögð hjá þjóðinni eftir að hinir stjórnmálaflokkarnir, ríkisstjórnir og stjórnvöld hafa gjörsamlega brugðist á undanförnum 3-4 árum.
En fólk, hugsið ykkur um, í guðanna bænum! Haldið þið að við lifum á loftinu, á því að selja hvort öðru einhverjar innfluttar druslur í Kringlunni eða af því að greiða hvort öðru hárið og selja hvort öðru pítsur?
Nei, líkt og aðrar ríkar þjóðir þurfum við að framleiða eitthvað áþreifanlegt - eða óáþreifanlegt - og flytja út. Gildir þar einu, hvort það er fiskur, ál, ferðaþjónusta, tölvuleikir eða annað!
Ég viðurkenni, að álverin virðast hafa brugðist í bili, en hvar er sprotastarfsemin, sem þið stóriðjuandstæðingar lofuðuð í stað álveranna?
Þið eigið næsta leik og hljótið að vera tilbúin með hugmyndir og fjármagn, meira þarf ekki! Oft var þörf, en nú er nauðsyn!
Andri, Björk, Ómar, Samfylking, Vinstri græn og útlenskir og innlendir "spekúlantar" á ykkar vegum:
útflutningstekjur verða ekki kjaftaðar inn í landið í Kastljósum eða með einhverjum yfirlýsingum, heldur þarf að vinna fyrir þeim með höndunum og hugvitssemi!
Hætt við stækkun í Straumsvík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
13.12.2008 | 11:02
Stefnuleysi, ákvarðanafælni og seinagangur vekja grunsemdir um ...
Það gleður mig að dómsmálaráðuneytið, ríkisstjórn Íslands og Alþingi hafi loksins komið sér saman um tilhögun rannsókna á bankahruninu. Sé horft til þeirrar gífurlegu reiði, sem óneitanlega ríkir í þjóðfélaginu, og kröfu almennings um að farið skuli ítarlega ofan í kjölinn á þessu hræðilega máli, má ótrúlegt virðast, að þetta ferli skuli hafa þurft að taka á þriðja mánuð.
Tilraun dómsmálaráðuneytisins og ríkissaksóknara misheppnaðist gjörsamlega, þegar Bogi Nilsson sagði sig frá málinu í byrjun nóvember. Við það tækifæri benti Bogi á, að þrátt fyrir að engar beinar eða skýrar grunsemdir lægju fyrir um lögbrot, þá væri umfang tjónsins það mikið, og vitneskja fyrir hendi um um margvíslega krosseigna- og eigendatengsl, að ástæða væri til að fara ofan í saumana á þessu máli. Þá væri kvittur uppi:
... um sitthvað misjafnt varðandi peningamarkaðssjóði bankanna; um óeðlileg lán til stjórnenda þeirra og um grunsamlegar ráðstafanir og fjármagnsflutninga skömmu fyrir hrunið svo eitthvað sé nefnt.
Bogi benti einnig á, að ljóst væri að ákæruvaldið hefði ekki á að skipa starfsmönnum, sem gætu rannsakað málið og að öll stærstu endurskoðunarfyrirtæki landsins tengdust fyrirtækjunum á einn eða annan hátt. Að auki hefðu flestir málsmetandi sérfræðingar og hagfræðingar tjáð sig um málið á opinberum vettvangi, sem skapaði erfiðleika við að sækja eitthvað til þeirra, en að auki væru hvort eð er aðeins örfáir á landinu, sem gætu framkvæmt slíka athugun.
Í bréfum til ríkissaksóknara lýsti Bogi þeirri skoðun sinni yfir:
... að leita til erlendra óháðra sérfræðinga sem framkvæmi úttekt á starfsemi bankanna, útibúa þeirra og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar fyrir hrun þeirra. Greinargerðir og niðurstöður hinna erlendu sérfræðinga geta síðan orðið lyklar að sakarefnum sem lögreglunni ber að rannsaka.
Taldi ég rétt að staðið yrði þannig að málum að leitað yrði til a.m.k. þriggja erlendra fyrirtækja sem hafa í sinni þjónustu reynda rannsóknara, forensic auditors. Senda þyrfti þeim einskonar útboð og afla tilboða frá þeim í verkið.
Þá taldi ég alþjóðleg endurskoðunarfyrirtæki sem eiga sér systurfélag hér á landi ekki koma til greina sem tilboðsgjafa.
Þessar hugmyndir voru svipaðar og margir aðrir sérfræðingar í málinu höfðu talað um allt frá því í byrjun september og komu því í sjálfu sér engum, sem kynnt hafði sér málið, á óvart. Allra síst átti þetta að koma þeim á óvart, sem eiga að heita sérfræðingar í þessum málum og vinna hjá ríkissaksóknara og í dómsmálaráðuneytinu. Hér hefur því allt gengið á afturfótunum frá því að þetta mál byrjaði og ekki nema að von að almenningi finnist þetta í hæsta móta grunsamlegt og spyrji sjálft sig spurninga á borð, hverja sé verið að vernda?
Þetta segi ég ekki síst vegna ummæla marga stjórnarliða fyrstu dagana eftir hrunið, þegar þeir reyndu jafnvel að bera blak af þessum glæpalýð: enginn bæri beina ábyrgð á málinu, málið mætti ekki enda með nornaveiðum, o.s.frv. Sumir forystumenn gengu jafnvel svo langt að segja, að bankahrunið væri einungis afleiðing aðgerða Breta og alþjóðafjármálakreppunnar. Dagljóst er að bæði þessi atriði hafa að sjálfsögðu flýtt fyrir bankahruninu, en auðvitað hefði þessi spilaborg hrunið fyrr eða síðar og þá með hugsanlega enn verri afleiðingum. Aðrir stjórnarliðar höfðu uppi yfirlýsingar um að ekki kæmi til greina að sækja þá peninga, sem þessir menn sviku út úr bankakerfinu á löngum tíma og komu úr landi. Enn þann dag í dag hafa fáir stjórnarliðar komið fram með yfirlýsingu á borð við, að við Íslendingar ætlum okkur ekki aðeins að komast til botns í þessu skelfilega máli - hvað sem það kosta - heldur ætlum við okkur að saksækja þá, sem frömdu eitthvað glæpsamlegt og að þeir glæpamenn skuli hljóta hörðustu refsingu, sem lög heimila.
Það eru yfirlýsingar á borð við þessar, sem íslenska þjóðin vill heyra frá stjórnarflokkunum. Á meðan forystumenn þessara forystuflokka taka þjóðina sína ekki alvarlega, mun öfgaflokkur á borð Vinstri græna styrkjast og eflast og stjórnleysingjar halda áfram með ofbeldi við Alþingishúsið og lögreglustöðina í Reykjavík, okkur sjálfstæðismönnum og sumu samfylkingarfólki til ama.
Samstaða um rannsóknarnefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.12.2008 | 20:12
Niðurskurður ekki lausnin, heldur þurfa hjólin að fara að snúast ...
Nú þarf ég að brjóta odd af oflæti mínu og skrifa þessa grein. Ég hef ætíð viljað halda ríkisrekstri í skorðum og studd flestar þær einkavæðingar og hagræðingaraðgerðir, sem gerðar hafa verið. Jafnframt hef ég verið fylgjandi því, að ríki og sveitarfélög bjóði þá þjónustu út, sem hagkvæmara er að koma fyrir hjá einkaaðilum. Þannig hef ég horft til þess að í framtíðinni ættum við Íslendingar að skoða enn frekari einkarekstur í heilbrigðisþjónustu og í menntakerfinu. Auðvitað verður hlutfall opinbers reksturs - t.d. í heilbrigðisþjónustu og menntakerfis og hugsanlega einnig annarrar þjónustu - hærra á Íslandi en annarsstaðar í heiminum. Ástæðan fyrir þessu eru smæð landsins og að ríkið þarf að leiðrétta hér fleiri markaðsbresti en í þjóðfélögum, þar sem markaðurinn er stærri og samkeppni meiri. Hér er því ekki um einhver trúarbrögð að ræða hjá mér, líkt og hjá sumum félaga minna í Sjálfstæðisflokknum. Ósjaldan hef ég fengið ákúrur fyrir þessa villutrú mín og óhlýðni og verið uppnefndur "bévítans" hægri krati". Ég kann vel við þetta, því veit að ég á heima í mínum Sjálfstæðisflokki með öllum hinum hægri krötunum, en ekki með gömlum "allaböllum" og herstöðvarandstæðingum í Samfylkingunni. Það er styttra frá mínum skoðunum til skoðana Péturs Blöndal en til skoðana Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra eða til skoðana Marðar Árnasonar.
Margir félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum vilja nú í kreppunni helst skera allan ríkisrekstur niður við trog. Hugmyndin er einkennileg. Það eiga einhvernvegin allir að fara á hausinn og missa vinnuna af því þeir eru að missa vinnuna. Ég minnist þess ekki, að þetta sama fólk hafi borið einhverja sérstaka umhyggju fyrir okkum ríkisstarfsmönnum í góðærinu, þegar þessir hópar - t.d. iðnaðarmenn og verslunarmenn og bankamenn - rökuðu saman peningum. Þvert á móti mátti hlusta á sama sönginn þá, þegar laun opinberra starfsmanna dröttuðust upp í 70-80% af launum á almennum launamarkaði. Allar hækkanir launafólks á opinberum markaði á þessum tíma voru ofrausn. Þessi lúsarlaun, sem eru mun lægri en á almennum launamarkaði, vill ríksstjórnin nú skera niður. Lækkun launa æðstu embættismanna verður réttlætting þess að ráðast á kjör allra opinberra starfsmanna.
Sumir félagar mínir vilja einnig fækka ríkisstarfsmönnum, hvað sem það kostar. Reyndar einkennilegt, hvað margir sjálfstæðismenn líta á opinbera starfsmenn sem ónytjunga og á opinbera þjónustu sem óþarfa. Ætli þetta fólk hafi aldrei gengið í skóla hjá hinu opinbera, sent börnin sín í leikskóla eða farið á sjúkrahús? Þetta sama fólk vill sem sagt spara í opinberri þjónustu en fara frekar í stórar framkvæmdir og bjóða þær þá auðvitað út - sem ég er auðvitað sammála. Þegar ég gagnrýni þessa afstöðu félaga minna og bendi á að ef einhvertíma er þörf á skólum og heilbrigðisþjónustu - sem er stærstu opinberu útgjaldaliðir ríkisins - þá er það einmitt í kreppum. Þá gagnrýna mínir menn mig og benda mér á að ég segi þetta aðeins af því að ég vinn hjá ríkinu. Það fyndna er að þeir, sem gagnrýna þessa afstöðu mína og vilja einungis verklegar framkvæmdir, eru einmitt iðnaðarmenn og verktakar, sem sjálfir vilja komast í feit verk hjá ríkinu. Ég svara því til að við þessar aðstæður eigi auðvitað að reyna að leggja aukna fjármuni í verklegar framkvæmdir hjá ríkinu. Þumalputtareglan er jú, að ríkið eigi að spara í verklegum framkvæmdum í góðæri en eyða þeim mun meira í þær í kreppu. Vandamálið er hins vegar, að ríkið hefur fjárfest mikið á undanförnum árum, t.d. með því að bora göng í annað hvort fjall á landsbyggðinni. Við sjálfstæðismenn þurfum að passa okkur á þessari þröngsýni, sem grafið hefur um sig meðal margra flokksmanna og verið hálfgerð tíska undanfarin 10-15 ár.
Ég held reyndar, að hér sé um skynsamleg fjárlög að ræða, þar sem farið er bil beggja - eitthvað er reynt að spyrna við fótum, hvað útgjaldaaukningu varðar, þar sem það er hægt, án þess þó að ganga frá öllum ríkisrekstri dauðum. Fjármálaráðherra og ríkisstjórnin eru svo sannarlega ekki í öfundsverðum sporum að þurfa að skera niður eftir allt góðærið og standa svo frammi fyrir gríðarlegum tekjumissi og auknum ríkisútgjöldum vegna kreppunnar, t.d. vegna aukins atvinnuleysis.
Það sem þarf núna er að hjól atvinnulífsins byrji aftur að snúast, hvort sem um útflutninginn er að ræða eða innlenda þjónustu og framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Ef hjólin snúast ekki, eykst atvinnuleysið enn meira, tekjur ríkisins dragast saman en útgjöld þess aukast. Hér þarf því að koma hlutunum úr kyrrstöðu og á hreyfingu, hvað sem það kostar og þá verður að hafa það að hallinn á ríkissjóði sé 150 milljarðar.
Hallinn yfir 150 milljarðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.12.2008 kl. 06:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2008 | 19:24
Vægir sá, sem vitið hefur meira?
Ljóst er að lögreglunni er mikill vandi á höndum, þegar öfgafólk á borð við það, sem gerði hróp og köll að þingmönnum í dag, veður uppi í þjóðfélaginu. Æstur múgur hefur í nokkrar vikur kastað eggjum að Alþingi og hefur komist upp með það nokkuð óáreitt af lögreglu. Það er því kannski ekki nema von, að "blessað" fólkið færi sig upp á skaftið.
Fyrir stuttu síðan gekk skríllinn svo langt, að ráðast inn í Seðlabankann og heimta að fá Davíð Oddsson, seðlabankastjóra, fyrrverandi forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, afhentan. Spurningin er, hvenær "eggjakokkteilarnir" verða að "mólotoff-kokkteilum" eða "hnullungum" og hvenær orð á borð við "Drullið ykkur út!" breytast í "fantaskap" af versta tagi, hvenær þetta fólk hreinlega æðir inn í Seðlabankann eða út í Skerjafjörð og tekur fólk af lífi án dóms og laga?
Ef stjórnvöld líta fram hjá þessum atburðum, sem "strákapörum", sem engu máli skipta, munu þessir "aktívistar" ekki aðeins halda uppteknum hætti, heldur færast allir í aukana. Grípi yfirvöld hins vegar til aðgerða gegn þessum lýð, mun hann einnig upplifa það sem hvatningu til að auka aðgerðir sínar.
Það er hins vegar krafa okkar - "hinna venjulega borgara" - að brugðist sé við slíkum "skrílslátum" af ábyrgð. Best er líklega að sína mildi og mikla sanngirni á vettvangi - líkt og lögreglan hefur gert til þessa - en að ákæruvaldið beiti sér síðan af fullri hörku. Athyglisvert verður að sjá, hvernig dómstólar bregðast síðan við, en mín skoðun er að beita eigi fullri hörku laganna í dómum yfir þessum "rumpulýð".
Þolinmæði og miskunsemi eru miklar dyggðir og líklega er best að bregðast við "borgaralegri óhlýðni" með því að æsa leikinn ekki um of, en öllu eru þó takmörk sett og nú finnst mér að þeim mörkum sé náð!
Að mínu mati er það heigulsháttur, að bregðast ekki við lögbrotum sem þessum og það býður hreint og beint upp á frekari stigmögnun þessa ástands.
Ólæti á þingpöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)