7.12.2008 | 20:29
Fræðimenn ósammála ríkisstjórninni - erum við að gera rétta hluti?
Líkt og aðrir sjálfstæðismenn var ég lengi vel mjög "skeptískur" á að rétt væri fyrir Íslendinga að semja við Breta, Hollendinga og Þjóðverja um Icesave reikningana. Ég gat engan veginn skilið, að íslenska þjóðin gæti borið ábyrgð á skuldbindingum íslenskra einkabanka erlendis. Á sama hátt var ég mjög andsnúinn lántökum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Síðar kom í ljós, að íslenskir embættismenn hefðu líklega ekki skilið reglugerðir ESB um tryggingasjóði inneigna - eða allavega ekki skilið þau ákvæði á sama hátt og ætlast var til - og að ábyrgð ríkisins á skuldbindingum bankanna erlendis væri staðreynd, sem ég væri tilneyddur til að samþykkja. Enn þann dag í dag virðist vera uppi lögfræðilegur ágreiningur um þetta mál, sem þó líklega fæst aldrei skorið úr, því málið er - eftir því sem mér skilst - ekki á leið fyrir dómstóla. Núna er hins vegar ljóst, að sökudólganna fyrir það sem gerðist, er víða að leita, t.d. hjá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabankanum, í viðskipta- og fjármálaráðuneytinu og hjá íslenskum stjórnmálamönnum.
Líkt og ég hef þegar sagt, var ég einnig sammála forystumönnum Sjálfstæðisflokksins, að sísti kosturinn fyrir Íslendinga væri í raun að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég féllst þó að lokum á, að líklega væri okkur enginn annar kostur mögulegur, en fullkomlega sáttur var ég aldrei við þá ákvörðun. Síðan kom í ljós, að AGS setti þau skilyrði fyrir lánveitingu, að samið yrði við stjórnvöld í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi um lúkningu skuldakrafna vegna Icesave reikninganna. Á þessum tíma var allt að fara í hnút hér heima og undir þeim kringumstæðum taldi ég þann kost vænstan að semja um frið, þótt mér væri það þvert um geð.
Ég er í eðli mínu ekki heigull, en á þessari stundu verð ég að viðurkenna, að þegar ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn snérust gegn okkur og engin vinaþjóða okkar - nýrra sem eldri - fannst mér við Íslendingar eiga við ofurefli að stríða, og að réttast væri að sýna undirgefni - leggja niður rófuna eða dilla henni, beygja sig niður eða jafnvel leggjast fyrir framan þessu öflugu aðila.
Eftir að hafa hlustað á tvo mæta fræðimenn í Silfri Egils í dag, þá Jón Steinsson, doktor í hagfræði frá Harvard og prófessor við Columbia University, og Jón Daníelsson, doktor í hagfræði frá Duke University í Bandaríkjunum og dósent í fjármálum við London School of Economics, vara eindregið við skuldsetningu ríkisins, verð ég að segja að ég er þeim algjörlega sammála.
Jón Steinsson lýsti því einnig yfir skýrt og skorinort, að réttarhöldin yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni - sem vinstra liðið hefur lýst sem einelti í garð Baugs - hefðu verið fullkomlega réttlætanleg. Hann sagði að menn, sem stunduðu slíkan þjófnað í almenningshlutafélögum í Bandaríkjunum eða í Bretlandi, væru leiddir út úr fyrirtækjum sínum í handjárnum.
Jón Daníelsson sagði að Íslendingar ættu einfaldlega að lýsa því yfir, að við ætluðum ekki að greiða Icesave skuldina og að við ættum að hafna IMF láninu. Hann er einnig þeirrar skoðunar, að við eigum að hleypa þessum 500 milljörðum úr landi, sem útlendingar eiga hér og - eftir því sem mér skilst - leyfa krónunni að húrra niður á meðan þessir peningar eru á leið úr landi. Hann líkti gjaldeyrishöftum ríkisstjórnarinnar við aðgerðir í Þýska Alþýðulýðveldinu forðum daga. Ég lærði í Austur-Þýskalandi og þekki því vel til gjaldeyrishaftanna, sem fólust m.a. í því, að allir - nema fáir útvaldir flokksfélagar - voru tilneyddir til að skila af sér gjaldeyri, erlendur "kapítalískur" varningur var seldur í Intershop. Með þessu ætluðu kommúnistarnir að verja gengi austurþýska marksins gagnvart því vesturþýska. Það tókst ekki og ég held að "kúrsinn" hafi farið hæst upp í að 12 austurþýsk mörk fengust fyrir 1 vesturþýskt. Múrinn féll í Berlín árið 1989 og ekki síst vegna þess að þessi efnahagsstefna gekk ekki upp, kommúnisminn og Þýska Alþýðulýðveldið voru gjaldþrota.
Mér leikur forvitni á að vita, hvað þær aðgerðir, sem Jón Daníelsson mælir með, hefðu í för með sér fyrir íslenskt þjóðfélag? Ég hefði viljað, að Egill hefði spurt Jón Daníelsson nánar út í þessa sálma. Það má vera að í fræðilegum heimi Jóns Daníelssonar sé þetta rétt stefna og sú, sem kemur okkur fljótast út úr kreppunni, en hver er fórnarkostnaðurinn og er þetta yfirleitt framkvæmanlegt - praktískt séð? Þetta þarf að mínu mati að ræða betur.
Jafnframt vildi ég gjarna vita hver fórnarkostnaðurinn væri, að segjast hreinlega ekki ætla að borga innistæðueigendum Icesave reikninganna.
Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.12.2008 | 19:57
Geir Hilmar og Þorgerður Katrín taka U-beygju
Hversvegna ræðir fólk einungis tímabundnar lausnir þessa dagana og færri virðast hafa áhuga á varanlegum lausnum vandamála? Þið megið ekki misskilja mig, því ég veit að taka verður strax á þeim vandamálum, sem upp munu koma á næstu mánuðum, þegar vísitalan mun æða stjórnlaus áfram. En eigum við ekki að ræða framtíðarlausnir um leið og við finnum lausnir á vandamálum næstu mánaða? Hver hefur áhuga á að taka áfram þátt í þessu rugli á nokkurra ára fresti næstu áratugina? Nú virðast landsmenn hafa minni áhuga á ESB aðild en fyrir nokkrum vikum og kemur það mér á óvart og þá ekki síst í ljósi frétta sem þessara.
Er ég virkilega sá eini, sem hefur séð 15 milljóna króna íbúðalán sitt fara í 20 milljónir á 4 árum. Á þessum fjórum árum er ég samt líklega búinn að borga 5 milljónir af þessu láni. þetta þýðir í raun að skulda 5 milljónum meira en fyrir 4 árum, þrátt fyrir að vera búinn að borga 5 milljónir í vexti, verðbætur og afborganir. Sama má segja um námslánið mitt. Það var 4 milljónir fyrir 20 árum þegar ég lauk námi. Ég er búinn að vera á ágætis launum - allavega miðað við ríkisstarfsmann - og búinn að borga afborganir og verðbætur - mitt lán er það gamalt að það er vaxtalaust - í 15 ár og skulda samt enn 4 milljónir. Síðan er ég með bílalán í myntkörfuláni, sem var 3,5 milljónir fyrir 1 ári, en var á miðvikudaginn var í 7 milljónum, en hafði síðan vegna 20% styrkingar krónunnar lækkað síðdegis á föstudegi í 6 milljónir. Með smá heppni gæti myntkörfulánið endað í 5 milljónum í lok næstu viku. Af þessu myntkörfuláni er ég samt búinn að borga um 700.000 kr. í afborganir á einu ári, en á því láni er að sjálfsögðu engin verðtrygging.
Venjulegur fjölskyldufaðir eins og ég þarf því - til að "funkera" á Íslandi - í raun að vera blanda af kærulausum en í senn ábyrgðarfullum fjármálasnillingi, glæframanni og krimma!
Eru Íslendingar virkilega það miklir spennufíklar, að þeir vilji ekki hafa áreiðanlega og "stabíla" mynt og elska þeir verðbólguna og hata stöðugt verðlag? Elska þeir þessa spennu og rugl, sem fylgir þenslunni og hata þeir virkilega að gera áætlanir um sína fjármál og sitt líf, sem einfaldlega standast ár eftir ár. Vilja þeir fara sex sinnum í frí, henda öllu út úr húsum sínum, kaupa nýjan bíl og sumarbústað á tveimur árum en eiga síðan ekki fyrir matnum næstu þrjú ár á eftir? Finnst okkur verðtryggingin, okurvextirnir, okurtryggingaiðgjöldin og okurmatarverðið virkilega svona spennandi?
Svei mér þá, ef ég flyt ekki bara aftur til Þýskalands, því ég vil bara eiga venjulegt, huggulegt líf, ala upp börnin mín, kaupa mér hús, kaupa mér í matinn á hóflegu verði, komast einu sinni á ári í frí og síðast en ekki síst gera áætlanir um fjármál mín: borga mínar skuldir, borga af bílnum mínum og húsinu o.s.frv.
Var ég kannski of lengi í Þýskalandi og vilja aðrir Íslendingar kannski bara eitthvað allt annað en ég - elska þeir kannski þessa bölvaða vitleysu?
Frysting jafnvel óhjákvæmileg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.12.2008 | 21:41
Geðheilsa mín sveiflast með gengisvísitölunni ...
Það vantar ekki eftiráútskýringar forstöðumanna greiningardeilda og prófessora í Lundúnum þessa dagana, en ekki gátu þeir þó sagt fyrir um þá gífurlegu styrkingu, sem krónan varð fyrir síðastliðna tvo daga. Flestir hagfræðingar - sem ég las eitthvað eftir eða heyrði í - spáðu, að krónan myndi sökkva í gær. Ég mun í framtíðinni ekki reiða mig á spár hagfræðinga, frekar en jarðfræðinga er þeir eiga að segja fyrir um Suðurlandsskjálfta.
Ég er óperusöngvari, stjórnsýslufræðingur, þýskufræðingur, og útskrifaður tollvörður. Af öllum þessum "fræðigreinum" held ég að óperusöngurinn og þýskan séu þær vísindalegustu. Þannig get ég leiðrétt þýskan stíl hjá menntaskólanema með nokkurri nákvæmni og strax í byrjun aríu eða sönglags get ég með þó nokkurri vissu sagt fyrir um, hvort og þá hvernig hái tónninn í lok sönglagsins hljómar. Hvað stjórnsýslufræðin varðar er erfiðara að spá í ákvarðanir ráðuneyta eða stofnana, þar sem stjórnmálin - sú óútreiknanlega skepna - hefur svo mikil áhrif á þau mál. Sömu sögu má segja um smyglara - t.d. fíkniefnasmyglara - því þeir eru hreint út sagt ótrúlega óútreiknanlegir og uppfinningasamir.
Fyrir mig voru það hins vegar ekki mikil vísindi - eftir að haftalögin voru kynnt - að átta mig á að gengið myndi styrkjast mjög hratt. Mér var strax ljóst, að þegar fjármagnshreyfingar einskorðast við það eitt, að fólk fær gjaldeyri til að ferðast fyrir og kaupmenn og einstaklingar fá gjaldeyri til innflutnings, þá myndi gengið styrkjast hratt. Auk þess voru útflytjendur skikkaðir til að skila af sér öllum gjaldeyri fyrir útflutning sinn. Það að gengið styrkist verður síðan til þess, að útflytjendur flýta sér að koma gjaldeyri sínum í krónur, áður en krónan styrkist enn meira, því þá fá þeir minna fyrir sinn snúð. Innflutningur hefur minnkað um 50% og litlar líkur á að það breytist í bráð. Fyrirtæki eru ekki að fjárfesta í neinu, heldur að segja fólki upp og minnka við sig. Einstaklingar kaupa ekki neitt og reyna frekar að greiða niður skuldir sínar. Engar fjárfestingar eru í stóriðju eða virkjunum, því ekkert lánsfé fæst eins og er. Því verður um mjög lítið útstreymi á gjaldeyri næstu mánuði. Lágt gengi krónur stuðlar að því, að útflutningurinn er í algleymingi og ferðamenn munu flykkjast til landsins á meðan gengið er svona hagstætt. Það bendir því allt til þess, að krónan styrkist frekar á næstunni. Þetta eru nú engin kjarnorkuvísindi.
Hvað gerist þegar höftin verða tekin af og krónan verður virkilega látin fljóta - ef það verður þá nokkuð gert? Frændi minn, Dalamaðurinn Jóhannes úr Kötlum, orti fallegt jólakvæði, þar sem hann sagði að vandi væri að spá um hvað við fengjum í jólagjöf. Vandinn er svipaður með blessaða krónuna, hún getur þess vegna fallið á morgun um 20%?
Bráðum koma blessuð jólin
Bráðum koma blessuð jólin
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt
í það minnsta kerti og spil.
Kerti og spil, kerti og spil,
í það minnsta kerti og spil.
Hvað það verður veit nú enginn
vandi er um slíkt að spá.
Eitt er víst að alltaf verður
ákaflega gaman þá.
Gaman þá, gaman þá
ákaflega gaman þá.
En er þetta ekki bara allt í þessu fína. Er ekki í lagi, að við Íslendingar tökum völdin í eigin hendur og takmörkum á þennan hátt, að innlendir sem erlendir "spekúlantar" leiki sér að gengi íslensku krónunnar til þess eins að hagnast á því og valda með því ómældu tjóni á íslenskum atvinnuvegum og þjóðinni.
Hvernig geta þessir blessaðir hagspekingar gagnrýnt, að til slíkra tímabundinna aðgerða sé gripið til að koma í veg fyrir að innlendir og erlendir bankamenn rífi úr landinu - og það í gjaldeyri, sem við vorum að taka að láni - hundruð milljarða króna, sem þeir í taumlausri græðgi sinni fjárfestu hér í skuldabréfum á okurvöxtum. Þeir hljóta hafa vitað, að í þjóðfélagi með slíka okurvexti væri ekki allt með felldu? Með þessu athæfi sínu keyrðu þessir græðgisbelgir upp gengi íslensku krónunnar og stuðluðu þannig beint og óbeint að þeirri þenslu, sem hér ríkti og ýttu undir skuldasöfnun íslensku þjóðarinnar.
Íslenska þjóðin er auðvitað bullandi meðsek, en þarna þurfti tvo vitleysinga til - okkur (Íslendinga) og þá (lánadrottna okkar erlendis)!
Er ekki eðlilegt að þeir axli sína ábyrgð eins og við erum að gera?
Krónan styrktist um 11,5% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2008 | 20:57
Sjálfstæðisflokkurinn - drög að nýrri stefnuskrá?
Ég hafði gaman af þessari frétt, því hún sýnir hversu megnug okkar frábæra þjóð er við að komast út úr þeim vandræðum, sem við óneitanlega erum í. Félag viðskipta- og hagfræðinga kom fram með samantekt af bestu hugmyndum, sem komið hafa fram undanfarin misseri í þeirra röðum.
Við erum með fjöldann allan af slíkum fagfélögum og samtökum, sem fást við allt það, sem samfélagið fæst við dags daglega. Ég tel að við ættum að nýta sérþekkingu alls þess fagfólks, sem eru meðlimir í BÍL, KSÍ, ASÍ, BSRB, BHM og leyfa því fólki að koma fram með sambærilega hugmyndir til uppbyggingar á öllum sviðum samfélagsins. Á þessum erfiðu tímum erum við ekki aðeins á efnahagslegum krossgötum, heldur einnig á andlegum vegamótum.
Vinstri stefna og kommúnismi eru að mínu mati ekki svarið, frekar en í byrjun 20. aldar. Nei, það sem ég tel réttu stefnuna er skynsamleg og hófsamleg hægri stefna, þar sem það besta er nýtt úr auðhyggju og félagshyggju. Öll höfum við eitthvað fram að færa, hvert á okkar sviði og öll erum við einstök og sérstök á okkar sviði. Til þess að virkja þessa krafta sem best, þarf ekki aðeins að virkja frelsi einstaklingsins og einstaklingsframtakið, heldur einnig samvinnu og félagslega vitund okkar allra. Allt þetta sameinar sjálfstæðisstefnan einmitt svo frábærlega. Í þetta skipti snýst uppbyggingin ekki einungis um veraldlegan auð eða peningasöfnun - líkt og undanfarin ár - heldur um allsherjar uppbyggingu samfélagsins, hvort heldur það snýr að efnahag eða anda okkar sem einstaklingar eða samfélag.
Upptalningin hér að neðan sýnir, að peningar eru ekki endilega það, sem málið snýst um þegar við þurfum að forgangsraða, heldur einnig önnur gildi. Gildi sem styrkja okkur sem einstaklinga og gildi, sem styrkja fjölskylduna, samfélagið og sem styrkja okkur sem einstaklinga. Sterkt samfélag, sterkar fjölskyldur og sterkir einstaklingar þurfa því ekki að vera andstæður - þvert á móti þetta styrkir hvort annað!
Auðvitað er hér ekki um pólitískt "Manifesto" að ræða af minni hálfu, en með sáralitlum breytingum væri hægt að gera fyrrgreinda frétt úr Mogganum að stefnuskrá nýs hófsams en stórs hægri flokks. Ég breytti hugmyndum Félags viðskipta- og hagfræðinga aðeins í samræmi við mínar eigin hugmyndir um nýtt og mannvænna samfélag og vona ég að enginn reiðist mér fyrir það.
Ég er aðeins "praktískari" en viðskipta- og hagfræðingarnir, sem komu að þessari vinnu, því ég sé ekki aðeins bullandi tækifæri í sprotastarfsemi, heldur einnig í stóriðju í Helguvík og á Húsavík og olíuhreinsunarstöð fyrir vestan. Ég vil hreinlega ekki samþykkja, að það þurfi að vera mótsögn í því að vera fylgjandi stóriðju og sprotastarfsemi á sama tíma
Listamenn og aðrir þeir sem vinna í þjónustugeiranum - allt frá snyrtisérfræðingum til þeirra sem sem vinna í leikhúsi - verða gera sér grein fyrir, að það verður að framleiða eitthvað áþreifanlegt jafnt og það þarf að framleiða eitthvað óáþreifanlegt. Við Íslendingar erum fólk sem viljum ekki aðeins næringu fyrir andann, heldur einnig fyrir magann. Það verður að flytja eitthvað út til að við getum flutt eitthvað inn á þessu kalda og mannfáa landi okkar!
Hér að neðan eru sem sagt hugmyndir viðskipta- og hagfræðinga í bland við mínar, sem listamanns (óperusöngvara), húmanista (germanista) og embættismanns (stjórnsýslufræðings og tollvarðar):
Peninga-, gjaldmiðla- og alþjóðamál
- Stjórnvöld lýsi yfir ábyrgð á þeim mistökum, sem gerð hafa verið.
- Þeir sem stór mistök hafa gert - stjórnmálamenn sem embættismenn - biðjist afsökunar, taki pokann sinn og gangi
- Stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar sýni fulla pólitíska og faglega samstöðu um áætlun ríkisstjórnarinnar um efnahagsstöðugleika
- þjóðin bíði í nokkra mánuði með kosningar, þar til slík áætlun stjórnvalda er farin að virka
- Vanda þarf vel undirbúning vegna fleytingar krónunnar og upplýsa sem mest um horfur og áætlanir til lengri og skemmri tíma
- Samræmd aðgerðaráætlun um endurreisn efnahagslífsins verði sett fram og gerð opinber til að eyða óvissu á fjármálamörkuðum
- Viðræður við ESB um fulla aðild verði hafnar og flýtimeðferð við upptöku evru
Bankakerfið: Eignarhald og endurreisn
- Gagnsæ og skjót einkavæðing bankanna - þar sem ríkið hefur hugsanlega einhvern varanlegan eignahlut að lokinni einkavæðingu
- Erlendir aðilar komi að rekstri og eignarhaldi bankanna og annarra fyrirtækja, sem ríkið selur á næstu mánuðum og árum
- Lagasetning til varnar óhóflegri áhættusækni, en án þess þó, að markaðnum séu sett of ströng skilyrði
- Ítarleg endurskoðun óháðra aðila á laga- og reglugerðarumhverfi bankanna, án þess þó að bönkunum séu sett of ströng skilyrði, sem hái þeim í samkeppni við aðra banka hér á landi eða erlendis í framtíðinni
- Skapa tiltrú á framtíðarstöðugleika og framtíðar bankavexti m.a. með tafarlausri stefnumörkun er miðar að aðildarviðræðum að ESB
- Óháðar rannsóknir á hruni bankanna, sem hafnar eru yfir allar grundsemdir
- Varast ber skammtímalausnir
Atvinnusköpun og öflun gjaldeyris
- Aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum (kom fram í dag)
- Uppbygging stóriðju í Helguvík og á Húsavík (hugsanlegar stuðningsaðgerðir ríkisvaldsins til að tryggja að þessi uppbygging hefjist strax)
- Uppbygging olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum
- Auknar rannsóknir varðandi olíuvinnslu á Drekasvæðinu
- Tækifæri í heilbrigðisþjónustu - t.d. sjúklingar frá útlöndum
- Uppbygging þekkingarmiðstöðva líkt og gert var í Finnlandi
- Sjávarútvegurinn, mesta gjaldeyrisöflunin
- Tækifæri í ferðaþjónustunni
- Sprotafyrirtæki verði efld - skoðar hvernig lönd bera sig að þar sem sprotastarfsemi eru öflug
- Löðum að erlend fyrirtæki á öllum sviðum
- Lærum af reynslu annarra
Vellíðan landsmanna
- Bætt upplýsingamiðlun stjórnvalda til almennings
- Notum menninguna til að bæta líðan fólks: kirkjustarf, heilsurækt, stuðningur við óhefðbundnar aðferðir á borð við jóga eða kínverska leikfimi, myndlistasýningar, tónleikar, leikhús, kórastarf, áhugaleikhús, Lions, Kiwanis, kvenfélög, Oddfellow, Frímúrara - allt sem léttir fólki lífið og enga þröngsýni hvað þetta varðar, því við erum öll ólík og með ólíkar þarfir!
- Menntun - í víðasta skilningi þess orðs - hvað er hagnýt menntun og hvað er óhagnýt menntun? - þetta þurfum við að hugsa aðeins upp á nýtt!
- Nýting þekkingar hjálparsamtaka
- Aukum samkenndina í þjóðfélaginu
Viðskipta- og hagfræðingar afhenda stjórnvöldum tillögur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.12.2008 kl. 07:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Það væri synd að segja, að þessar slæmu niðurstöður okkar sjálfstæðismanna í skoðanakönnun Gallup komi mér á óvart. Að mér hefur verið hlegið undanfarna tvo mánuði, þegar ég hef varað við þessari atburðarás. Ég vildi að ég hefði haft rangt fyrir mér, en svo er því miður ekki.
Segja má, að frá því bankarnir hrundu fyrir tveimur mánuðum, hafi ríkisstjórninni tekist að gera fátt og það fáa sem hún hefur gert hefur verið mjög umdeilt. Þetta er eiginlega búið að vera eitt allsherjar klúður frá upphafi, hvort sem litið er til aðgerðanna eða fjölmiðlastríðsins, sem er nákvæmlega jafn mikilvægt í stríði af því tagi, sem við háum í dag.
Ummæli Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, frá því í dag:
Það er þjóðin sjálf, sem mun taka hina endanlegu ákvörðun um, hvort Ísland gengur í Evrópusambandið ...
eru svo sannarlega orð að sönnu. Þjóðin bregst einmitt við þessa stundina, t.d. með því að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn í hrönnum. Í raun má segja, að hér sé um kyrrlátan klofning að ræða eða vantraust á stefnu og forystu Sjálfstæðisflokksins. Fólkið treystir þessu fólki ekki og finnst það gjörsamlega spillt og að því standi á sama um örlög umbjóðenda sinna - íslensku þjóðarinnar. Jafn mikill sjálfstæðismaður og ég er, þýðir ekkert að loka augunum fyrir þessu. Það gildir einu, hvort þetta er rétt eða rangt, því svona kemur þetta fólkinu fyrir sjónir og það er það sem gildir í lýðræðisþjóðfélagi!
Það sem verra er, er að forusta flokksins í Valhöll virðist hafa litlar áhyggjur af þessu hruni flokksins - eins og þau haldi að þetta jafni sig að sjálfu sér, sem það gerir að sjálfsögðu ekki, þar sem djúp gjá er að myndast á milli kjósenda flokksins og þeirra sem ráða ferðinni í flokknum. Að vísu hefur verið sett af stað fundaröð um hugsanlega kosti og galla ESB aðildar, en ekki virðist mikill þungi fylgja þeirri umræðu, sbr. ummæli Styrmis í dag um "hinn þögli meirihluta". Þessi meirihluti ætlar sér ekki að hlusta á rök með og á móti ESB aðild. Nei, hann virðist þegar hafa ákveðið sig! Það sem ég hef þungar áhyggjur af er einmitt, að "hinn þögli meirihluti" ræður lögum og lofum innan Sjálfstæðisflokksins - nú sem endranær.
Þessi meirihluti er sennilega búinn að ákveða að hafna aðildarviðræðum eða hann stefnir að viðræðum með svo ströngum skilyrðum, að af aðild getur alls ekki orðið. Með þessu stefna þeir Sjálfstæðisflokknum á líknardeild íslenska stjórnmálaflokka, þar sem flokkurinn getur deilt herbergi með öðrum gömlum risa í íslensku stjórnamálalífi - Framsóknarflokknum - og nýgræðingnum - Frjálslyndum, þar til yfir lýkur fyrir þessa flokka. Í reynd deila þeir allir sömu örlögum, þótt heilsunni hafi hrakað fyrr og hraðar hjá Framsóknarflokknum og Frjálslyndum, virðist draga þeim mun hraðar af Sjálfstæðisflokknum þessa dagana.
Styrmir Gunnarssonar gleymir, að flokkur, sem einu sinni var stærsti flokkur landsins með um 40% fylgi - líkt og Finlandia vodki - er kominn niður í 20% fylgi - líkt og Campari. Það má vel vera, að Styrmir hafi á réttu að standa, að hinn svokallaði "þögli meirihluti" í þessum nú litla flokki - Sjálfstæðisflokknum - sé andsnúinn ESB aðild. Styrmir má þó ekki gleyma að 5-10% af þessum 21%, sem sjálfstæðismenn eru í dag, tilheyra hinum "háværa minnihluta" ESB sinna. Yfirgefi þessi 5-10% ESB aðildarviðræðusinna Sjálfstæðisflokkinn, mun Sjálfstæðisflokkurinn fara niður í 15% fylgi.
Skoðanakannanir sem sýna, að aðeins 30-40% þeirra, sem nú myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, vilja ESB aðildarviðræður eru eflaust réttar. Vandamálið - sem enginn talar um - er hins vegar að helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins hefur þegar yfirgefið flokkinn, m.a. vegna stefnu hans í Evrópumálum.
Fyrrverandi hægrimenn, sem yfirgefið hafa flokkinn, væru þá um 20-25%. Þessir kjósendur kjósa ekki neinn af þeim flokkum, sem voru í framboði í síðustu kosningum. Því er mjög líklegt að nýr stór hægri flokkur verði til.
Ætli Sjálfstæðisflokkurinn ekki að enda líkt og Framsóknarflokkurinn og halda fyrri stöðu sinni, sem stærsti flokkur landsins, verða ESB andstæðingar innan flokksins að láta af andstöðu sinni gegn aðildarviðræðum við ESB. Einnig verður flokkurinn að íhuga minniháttar áherslubreytingar á stefnuskrá flokksins og síðan auðvitað að axla ábyrgð á þeim mistökum, sem gerð voru í efnahagsmálum undanfarin ár. Það verður einungis gert með breytingum á forystu flokksins og breytingum á ríkisstjórn.
VG stærsti flokkurinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
29.11.2008 | 19:33
Friðrik Sophusson talar fyrir hönd meirihluta sjálfstæðismanna
Ég er sannfærður um að Friðrik Sophusson talar fyrir hönd meirihluta sjálfstæðismanna, þegar hann segir, að við ættum að ganga til ESB aðildarviðræðna. Þorsteinn Pálsson og fleiri fyrrverandi forystumenn flokksins hafa undanfarin misseri viðrað svipaðar skoðanir á þessu umdeilda máli. Niðurstöður aðildarviðræðna verða að sjálfsögðu bornar undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu og því er í raun engin áhætta fólgin í aðildarviðræðum.
Þeir sjálfstæðismenn, sem ekki vilja ganga þessa leið, eru auðsjáanlega hræddir við, að þjóðin samþykki slíka niðurstöðu og vilja af þeim sökum einfaldlega ekki taka þá áhættu að fara í aðildarviðræður og þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einkennilegt þegar fólk vill kúga meirihluta þjóðarinnar í eigin þágu.
Það er skoðun mín, að aðildarviðræður við ESB verði samþykktar á næsta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það er hins vegar engin leið að sjá, hvort niðurstöður viðræðna við ESB hljóti náð fyrir augum íslenskra kjósenda, því niðurstöðurnar liggja ekki fyrir.
Andstaða formanns Sjálfstæðisflokksins og nær alls þingflokksins við að ganga til viðræðna kemur mér sífellt á óvart. Ljóst er að þingmenn Sjálfstæðisflokksins verða að lýsa yfir skoðun sinni á þessu umdeilda máli í næsta prófkjöri flokksins til að kjósendur geti ákveðið hvaða þingmenn þeir vilja sjá á Alþingi.
Þjóðin fái að kjósa um ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.11.2008 | 10:02
Komast auðmennirnir upp með þetta athæfi og síðan á brott með þýfið?
Það virðist nokkuð á reiki hversu há skuld viðskiptabankanna verður, sem við Íslendingar þurfum að yfirtaka í kjölfar þessa hildarleiks, en tölurnar sem ég hef heyrt eru á bilinu 160-240 milljarðar króna. Ljóst er að ýmislegt á eftir að komast upp á yfirborðið í þeirra rannsókn - sem vonandi fer á fullan skrið sem allra fyrst - og við því ekki búin að bíta úr nálinni varðandi þetta mál.
Öll vissum við af launasukkinu og veisluhöldunum fyrir hundruð milljóna, sem fram fór í bönkunum. Þarna á ég ekki einungis við sukk og svínarí bankastjóranna og þeirra sem þeim stóðu næst, heldur einnig hundruð millistjórnenda, sem voru með 1-2 milljónir á mánuði og vissu nákvæmlega hvert stefndi. Að auki þáði efsta lagið í bönkum og sparisjóðum allskyns bónusa fyrir gerða samninga auk annarra greiðslna í formi kaupréttarsamninga. Í dag vitum við að stór hluti þessara viðskipta voru í besta falli á gráu svæði og siðlaus en í versta falli fullkomlega ólögleg. Gervigróðanum virðist hafa verið skipt eftir ákveðnum kerfum innan bankanna.
Ég spyr ykkur landsmenn góðir, hvort ykkur þyki eðlilegt, að allt þetta fólk komist upp með að ræna bankana um hábjartan dag með samþykki og vilja þeirra sem stjórnuðu þeim, en skilja síðan skuldasúpuna eftir handa okkur? Á meðan hlæja þessir "heiðursmenn" sig máttlausa og halda veisluhöldunum áfram og fjárfesta hér á landi og erlendis eins og ekkert hafi í skorist eða þeir lifa í hægindum og við rúm fjárráð í Noregi, Lundúnum eða annarsstaðar í heiminum! Við erum hér að tala um hundruð manna og kvenna, sem skildu eftir sig erlendis 3.200.000 króna skuld fyrir mig og mína litlu fjölskyldu! Verður það ekki að vera krafa okkar landsmanna, að í verstu tilfellunum verði þessum mönnum gert að skila því til þjóðarinnar, sem þeir annaðhvort stálu frá henni eða öfluðu sér með lánsfé, sem þeir ætla ekki að borga til baka.
Munu auðmennirnir komast upp með þetta athæfi og í kjölfarið halda á brott með þýfið líkt og um löglega fengna fjármuni sé að ræða?
Stórviðskipti borin undir bankaráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.11.2008 | 00:21
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sýnir styrk og djörfung
Loksins tekur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar við sér. Sennilega höfum við sjálfstæðisfólk og samfylkingarfólk - og reyndar aðrir landsmenn - verið of óþolinmóð og ekki gert okkur grein fyrir að fólk í ráðuneytum, stofnunum og ríkisbankastofnunum hafa eflaust unnið baki brotnu að gerð aðgerðaáætlana í formi laga og reglugerða undanfarnar vikur.
Það, sem undrar mig er, að ekki hafi verið hægt að greina frá því opinberlega, að unnið væri að gerð aðgerðaáætlana í peningamálum, atvinnumálum og félagsmálum og að slíkar áætlanir yrðu kynntar innan skamms. Hafi slíkar tilkynningar verið birtar, hafa þær farið fram hjá flestum Íslendingum. Það er miður, því við erum öll skíthrædd og öryggislaus!
Skiljanlegt er hins vegar, að ekki sé hægt að skýra frá innihaldi slíka aðgerðaáætlana á þessu stigi máls. Þetta á þó auðvitað sérstaklega við um aðgerðir í peningamálum. Kynning á aðgerðum í atvinnumálum og félagsmálum hefðu hins vegar róað þjóðina mjög mikið og það þótt einstök atriði slíkra aðgerða hefðu fyrst verið gerð heyrum kunnug síðar, þegar útfærslan væri á hreinu. Auðvitað er alltaf betra og lýðræðislegra að greina frá innihaldi slíkra stefnumála sem allra fyrst.
Aðgerðir kynntar eftir helgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.11.2008 | 16:33
Morgunblaðið í erfiðleikum - fokið í flest skjól
Ég er í eðli mínu bjartsýnn maður og í mesta lagi 1-2 daga á ári - og stundum detta jafnvel ár út - hef ég svo miklar áhyggjur, að ég sökkvi mér niður í eitthvað þunglyndi. Á þessu ári hef ég í fyrsta skipti í mörg ár átt fleiri en 1-2 þunglyndisdaga, ég hef reyndar verið hálf þunglyndur á köflum síðan bankakreppan byrjaði.
Morgunblaðið og RÚV eru fyrir fólk af minni kynslóð - og fyrir þá sem eldri eru en ég - ekki bara venjulegir fjölmiðlar, heldur einhverskonar holdgervingar stöðugleika og þess góða lífs, sem við Íslendingar höfum átt í þessu landi okkar. Mogginn kemur út og RÚV er á sínum stað, hvað sem öðru líður: náttúruhamförum, efnahagskreppum, stríðum eða annarri óáran.
Að lesa, að þetta fyrirtæki og tugir ef ekki hundruð annarra stöndugra íslenskra fyrirtækja séu í svo miklum fjárhagskröggum, að þau geti ekki greitt öllum sínum starfsmönnum laun um mánaðarmótin fyllir mig hálfgerðum kvíða og ólýsanlegum óróleika og þá ekki síst þegar maður hugsar til næstu mánaða og alls næsta árs.
Ef Morgunblaðið og RÚV eru í slíkum kröggum, að hópuppsagnir og greiðsluerfiðleikar eru framundan, þá spyr ég í einfeldni minni:
Hverju eigum við von á næsta árið?
Unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu Árvakurs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.11.2008 | 21:43
Skynsamlegt stjórnarfrumvarp Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar
Ljóst er að ríkisstjórnin þurfti að gera einhverjar ráðstafanir til að hindra fjármagnsflótta úr landi, t.d. í ljósi þeirra hundruð milljarða króna í "Jöklabréfum", sem þarf að greiða út á næstu mánuðum.
Slíkir fjármagnsflutningar hefðu getað leitt til algjörs gengishruns krónunnar á næstu vikum og mánuðum, með hrapalegum afleiðingum fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Ljóst er að þegar við horfum upp á tæp 100% gengisfellingu krónunnar á einu ári, munu íslenskir og erlendir fjármagnseigendur reyna að losa sig við þær krónur, sem þeir eiga í verðbréfum eða öðrum inneignum.
Okkur er einnig öllum ljóst að loka þarf algjörlega fyrir þann möguleika, að óprúttnir Íslendingar - eða útlendingar - geti enn einu sinni gert íslensku krónuna að féþúfu með löglegum en siðlausum gjaldeyrisviðskiptum, enda eykur það enn á óstöðugleika krónunnar.
Jafnframt er ljóst, að enginn hefur lengur trú á blessaðri krónunni okkar, hvorki Íslendingar né útlendingar. Með slíkri löggjöf er hins vegar hægt að senda skýr skilaboð út í heim, að við - hin íslenska þjóð - látum ekki lengur bjóða okkur þessa svikamyllu með okkar eigin mynt.
Við erum sterk útflutningsþjóð, sem höfum nú þegar dregið innflutning okkar saman um 50%, og ætlumst til, að okkar mynt rétti fljótt úr sér í kjölfarið. Við erum ekki til í að einhverjir "spekúlantar" notfæri sér veikleika okkar til að græða á því!
Þess vegna viljum við Íslendingar sjálf hafa svolitla stjórn í nokkurn tíma á því, hverjir selja og kaupa íslenskar krónur. Ég spyr ykkur, hvort eitthvað athugavert sé við það, sérstaklega eftir að viðskiptabankarnir og erlendir aðilar hafa um nokkurn tíma hafa bein áhrif á gengi krónunnar til að græða á því?
Er eitthvað að slíku, þegar tryggt er að almenningur og fyrirtæki munu fá gjaldeyri í hendur - vonandi á eðlilegu gengi - til sinna nota, t.d. til innkaupa á varningi fyrir okkur Íslendinga og til ferðalaga erlendis?
Í fyrrnefndum lögum er einnig tekið á þeim gjaldeyri, sem fæst fyrir vörur seldar til útlanda, t.d. fiskinn okkar allra, sem er sameign þjóðarinnar. Undanfarna tvo mánuði hafa fiskútflytjendur aðeins flutt inn hluta þess gjaldeyris, sem þeir hafa fengið fyrir vöru sína. Afganginn af þessum gjaldeyri hafa þeir selt " á svörtum markaði" erlendis, t.d. eflaust til þeirra, sem fjárfestu í íslenskum "krónubréfum", eða annarra sem þurftu á gjaldeyri að halda.
Földum við íslenskum útgerðarmönnum "varanleg" yfirráð fiskistofnanna í hendur til að þeir stælu af okkur þeim gjaldeyri, sem þeir fá fyrir afnot af þjóðareign Íslendinga?
Þessar aðgerðir eru bráðnauðsynlegar til að koma "réttu" gengi á krónuna og til þess að Íslendingar geti keypt þær nauðsynjar frá útlöndum, sem okkur öllum eru lífsnauðsynlegar!
Ég styð þessa tímabundnu aðgerð!
Geta stöðvað gjaldeyrisflutninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)