Áhuginn á ESB eykst með vaxandi atvinnuleysi og erfiðleikum

Augljóst er að yfirlýsing Olli Rehn, að Íslendingar geti ekki átt á von á einhverri sérmeðferð er kemur að varanlegum undanþágum frá fiskveiðistefnu ESB, hefur haft áhrif á afstöðu fólks til aðildarviðræðna. Hitt sem auðsjáanlega hefur haft áhrif til minnkunar áhuga landsmanna á ESB aðild - í bili a.m.k. - er að aðildarríki sambandsins skuli öll sem eitt hafa tekið afstöðu gegn hugmyndum Íslands um að greiða ekki evrópskum eigendum sparifés á íslenskum reikningum inneign sína.

Þegar fólk er búið að átta sig á, að auðvitað urðum við að fara eftir EES samningnum eins og öðrum skuldbindingum, sem við höfum skrifað undir og að sökudólgarnir eru auðvitað ekki embættismenn eða stjórnamálamenn ESB, heldur okkar eigin embættismenn, eftirlitsstofnanir og stjórnmálamenn, sem eru annaðhvort ekki læsir á tilskipanir ESB eða hunsuðu þær þrátt fyrir að skilja þær.

Það er skiljanlegt, að Olli Rehn - sem yfirmaður stækkunarmála ESB - komi ekki fram með einarða afstöðu, þar sem hann gefur í skyn, að Íslendingar fái varanlegar undanþágur á fiskveiðistefnu ESB. Á hverju átti fólk eiginlega von? Hélt fólk að ESB tæki upp veskið og þeir borguðu erlendar skuldir okkar og gæfu okkur til viðbótar undanþágu frá því máli, sem erfiðast verður að semja um - fiskveiðimálunum - áður en viðræðurnar hafa einu sinni hafist? Hér er verið að semja um knallharða hagsmuni en ekki verð á leðurjakka á tyrkneskum útimarkaði! Að auki eru þetta menn, sem kunna að semja í svona viðræðum!

Auðvitað mun taka á í aðildarviðræðum að fá þær undanþágur, sem nauðsynlegar eru fyrir okkar aðild að ESB, t.d. varðandi fiskveiðimál og landbúnaðarmál. Að mínu mati eigum við þó ótrauð að fara í viðræður við ESB - með skýr samningsmarkmið - og reyna að ná eins góðum samningi og hægt er og leggja niðurstöðuna síðan fyrir þjóðina. Telji þjóðin samninginn ekki uppfylla væntingar sínar verður honum hafnað og þá getum við snúið okkur að því að byggja upp landið án aðildar að sambandinu, t.d. með einhliða upptöku evru, dollars, norskrar krónu eða svissnesks ranka eða öðrum ráðstöfunum, sem duga landinu til framtíðar.

Það sem ekki á að gera - er að gera ekki neitt!


mbl.is Minnkandi áhugi á ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn á tímum gerjunar og framþróunar

Það var mér ljóst á fundi Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi á laugardaginn, að mikilvægir og spennandi tímar eru framundan hjá flokknum. Sumir hafa hlegið eða gert grín að ummælum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, á blaðamannafundinum um ESB málin í Valhöll um daginn, þegar hún sagði að skemmtilegir tímar væru framundan hjá flokknum. Á fundinum á laugardaginn talaði Þorgerður Katrín hins vegar um spennandi tíma framundan - sem er líklegra heppilegra orðaval - en þar er ég henni, sem fyrr segir, algjörlega sammála. Spennandi tímar geta einnig verið skemmtilegir - rétt er það, Þorgerður Katrín!

Sínum augum lítur hver gullið og vera má að margir sjálfstæðismenn séu okkur Þorgerði ekki algjörlega sammála, heldur þrái hina gömlu góðu tíma aftur, þegar meiri stöðugleiki ríki meðal þjóðarinnar. Það má ekki skilja orð mín sem svo að ég sakni þeirra tíma ekki einnig, en það er nú yfirleitt svo, að óróatímar sem þessir fela einnig í sér tækifæri. Fyrir flokkinn minn felast þessi tækifæri í að endurskoða fyrri afstöðu til ýmissa mála. Íhuga hvað hafi verið rétt gert og hvað betur mætti fara, sem er því miður ýmislegt, þótt margt hafi verið vel gert á undanförnum 17 árum. Auðsjáanlegt var að þrennt var fólki efst í huga: efnahagsmálin næstu mánuði, Evrópumálin og þróun flokksins undanfarinn 1 1/2 áratug yfir í hreinan frjálshyggjuflokk. 

Það var auðheyranlegt, að sá harði kjarni sjálfstæðismanna, sem þarna var samankominn, var ekki sérstaklega hrifinn af ESB aðild. Flestir sjálfstæðismenn virðast þó átta sig á, að krónan er ekki framtíðar gjaldmiðill í landinu. Skoðanir voru skiptar, hvort við ættum að taka upp dollar, norska krónu eða evru. Margir sjálfstæðismenn geta hugsað sér ESB aðild ef lausn finnst, sem tryggir Íslendingum varanlega undanþágu frá fiskveiðistefnu ESB og viðunandi lausn fyrir íslenskan landbúnað. Færri - en þó allmargir - virtust hafa miklar áhyggjur af sjálfstæði landsins eða fullveldi og að ákvarðanataka í sumum málum færðist til Brussel.

Mjög fáir - en þó nokkrir - sem ég hafði tal af vildu inn í ESB, þótt það þýddi að Íslendingar þyrftu formlega að lúta ákvörðunarvaldi ESB í fiskveiðimálum. Þeir sögðu, að við værum þeir einu með veiðireynslu á Íslandsmiðum og sætum því einir að fiskimiðunum og þyrftum ekki að hafa áhyggjur. Að auki ættum Íslendingar sjálfir útgerðarfyrirtæki innan ESB og kynnum að reka útgerðir, hversvegna ættu þá útlendingar ekki að geta átt í útgerðum hér á landi? Þeir sáu heldur ekki að útlendingar gætu rekið útgerðirnar betur en við og því væri enn minni ástæða til að hafa einhverjar áhyggjur. Þetta fólk benti einnig á að lausn hefði verið fundin fyrir bændur í Svíþjóð og Finnlandi og víðar, þar sem landbúnaðarskilyrði væru ekki upp það besta innan ESB. Hér væru þær enn lakari og því varla annað upp á bátnum en í þessum ríkjum.

Ég sjálfur er reyndar í hópi síðastnefnda hópsins, en vil þó taka fram, að óhugsandi er fyrir Íslendinga að samþykkja aðild að ESB án þess að á hreinu sé að við töpum ekki yfirráðum yfir fiskimiðum okkar. Jafnframt er ekki hægt að ganga í ESB án þess að viðunandi rekstrarskilyrði verði tryggð fyrir íslenskan landbúnað, því að öðrum kosti myndi byggð í landinu nær leggjast af nema í nokkrum þéttbýliskjörnum.

Ljóst er að hefja verður strax mikla fræðslu og umræðu innan Sjálfstæðisflokksins um málefni ESB, því þekkingarstigið er frekar lágt. Þetta er varla nema vona, því ESB mál hafa varla verið rædd innan flokksins í mjög langan tíma. Til að geta tekið skynsamlega ákvörðun á landsfundi flokksins í lok janúar, sem verður vonandi flokknum - og þar með landsmönnum öllum til framdráttar - þurfa flokksmenn að hafa farið í gegnum gagnrýna og upplýsta umræðu um málið.

Ég hitti engan, sem ekki vildi aftur hverfa til fyrri gilda Sjálfstæðisflokksins, sem við höfum svo sem aldrei að fullu yfirgefið, en hafa ekki verið eins áberandi undanfarin 15-20 ár og þau hefðu þurft að vera. Ljóst er að óheft frjálshyggja er á hröðu undanhaldi innan flokksins, á meðan við höldum stíft við fyrri stefnu um einstaklingsframtakið og frelsi í viðskiptum á Íslandi og á milli ríkja heimsins.

Hvað efnahagsmálin varðaði er uggur í okkur sjálfstæðismönnum, en við vorum þó sammála um eitt og það var, að stjórn mála gæti ekki verið í betri höndum en einmitt núna, þ.e.a.s. í höndum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Geir Hilmar Haarde nýtur óskoraðs stuðnings í flokknum.


mbl.is 31,6% stuðningur við stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæru samflokksmenn mínir í Sjálfstæðisflokknum, trúið þið þessu?

Yfirlýsingar forystu flokksins míns - Sjálfstæðisflokksins - hafa verið með ólíkindum allt frá því að fjármálakerfi Íslands hrundi fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan. Þegar þeir eru spurðir hver beri ábyrgð virðast allir vera sárasaklausir. Ekkert var athugavert við hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna, útrásin var ekki mistök, bankamennirnir gerðu ekki mistök, embættismenn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins gerðu ekki mistök og þaðan af síður að stjórnmálamennirnir hafi gert mistök!

Þeir einu, sem voru skammaðir opinberlega, var almenningur á 17. júní. Þá skammaði Geir Hilmar Haarde okkur í ávarpi til landsmanna fyrir að hafa keypt alla flatskjáina, jeppana og stækkað við okkur húsnæði. Auðvitað gerðu landsmenn mistök, þegar bankarnir hreinlega þvinguðu upp á okkur lán og flestir eyddu eins það ætti lífið að leysa. Við Íslendingar - sem höfum vanist því allt frá landnámstíð , að lánsfjármagni hafi verið úthlutað og skammtað á grundvelli stjórnmála- eða fjölskyldutengsla - misstum auðvitað öll vitið og líktumst börnum, sem sleppt hafði verið lausum í sælgætisbúð. Núna erum við flest fyrir utan sælgætisbúðina, ýmist með magaverk eða ælandi, og vitum ekki okkar rjúkandi ráð. Ekki að þessi stóra þjóðarskuld sé nema að hluta til þessari einkaneyslu að kenna, þegar grannt er skoðað, heldur lánum til misviturra íslenskra "fjárfesta"! Sum okkar - t.d. ég sjálfur - borðuðu mikið en ekki yfir okkur og verðum því fljót að jafna okkur. Það hentar hins vegar þeim, sem ábyrgðina bera, að skuldin sé til komin vegna fólksins, svo að það grjóthaldi kjafti og borgi reikninginn. Þetta sama fólk vill sitja áfram við kjötkatlana og það gildir jafnt um forystu Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins, því þarna eiga allir flokkar hlut að máli. Það er af þessum sökum sem Ingibjörg og Geir standa þétt saman þessa stundina.

Strax frá byrjun hefur verið lögð megináhersla á, að engar "nornaveiðar" hæfust vegna þessa máls. Þegar einhver byrjaði að tala - innan Sjálfstæðisflokks sem utan - um að rannsaka þyrfti málið ofan í kjölinn og draga þá til ábyrgðar, sem skuldsett hafa þjóðina um alla þjóðarframleiðslu sína, var engu líkara en að draga ætti sjálfa stjórnmálamennina til ábyrgðar. Og það er kannski ekki nema von, því slóðin liggur ekki einungis beint til þeirra, sem beinan þátt tóku í málinu, heldur einnig til embættismanna þeirra stofnana, sem áttu að hafa eftirlit með þessum hlutum og síðan auðvitað stjórnmálamannanna, sem skipuðu þessa embættismenn í krafti pólitískra embætta sinna. Sumir stjórnamálamannanna tóku síðan beint og óbeint þátt í sukkinu og við fyrstu sýn virðist spillingin jafnvel ná upp í efsta lag nær allra stjórnamálaflokka! 

Ég krefst uppgjörs við útrásarvíkingana, bankamennina, embættismennina - sem klikkuðu gjörsamlega - og síðast ekki síst krefst þjóðin pólitísks uppgjörs! Það þýðir ekki að hægri menn breytist í vinstri menn, heldur að þeir sem ábyrgð bera og hafa jafnvel tekið þátt í sukkinu verða að víkja úr sætum sínum, hvar í flokki sem þeir eru!

Í kjölfar þessa uppgjörs vil ég nýtt Ísland. Land þar sem frelsi einstaklingsins og frelsi fyrirtækja er tryggt og báðir aðilar spjara sig á frjálsum markaði, en þar sem yfirvöld fylgjast með því að settum reglum sé fylgt. Land þar sem er góð velferðarþjónusta á vegum ríkisins, hvert sem rekstrarform slíkrar þjónustu er. Land, sem íþyngir ekki borgurum sínum um of í skattlagningu. Land með öflugan gjaldmiðil, sem byggir á öflugu framleiðsluþjóðfélagi, land án verðtryggingar og án okurs í bankavöxtum eða á matvælum!

Allir þessir hagsmunir eru best tryggðir innan Evrópusambandsins!


mbl.is Frammistaða FME ekki undirrót sameiningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins - 1. fundur

Enn á ný geri ég, öll íslenska þjóðin og meira að segja Davíð Oddsson kröfu um ítarlega rannsókn á fjármálastofnanahruninu, sem átti sér stað fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan. Nú er "sjúklingurinn" kominn af gjörgæsludeild og þá ætti loksins að vera hægt að hefjast handa - eða hvað! Jafnvel rólyndustu menn - og þeir sem til þessa hafa verið tryggir sjálfstæðismenn - krefjast þess nú, að þeir verði dregnir til ábyrgðar, sem mesta sök áttu í þessu máli. En víkjum nú að öðru.

Á mánudaginn var haldinn enn einn fundurinn á vegum Hugmyndahúss Reykjaness. Fundirnir eru öllum opnir og fundað hefur verið um fjölda málefna. Fundirnir eru haldnir í Sjálfstæðishúsinu í Njarðvík og hafa þeir allir tekist með mestu ágætum. Á mánudagskvöldið var fundað um Evrópumál og er mál manna, að hér hafi verið um þarft framtak að ræða og nauðsynlegt.

Fundurinn byrjaði á að formenn nefndarinnar, Árni Johnsen og ég sjálfur, vorum með langa framsögu um málið. Ég reið á vaðið og í minni kynningu fór stuttlega yfir uppbyggingu ESB, en að því loknu fór ég síðan yfir kosti og galla aðildar. Að mati Árna Johnsen gerði ég meira úr kostunum en göllunum og má það vera meira en rétt hjá honum. Þetta var vegna þess að ég hélt að Árni myndi gera meira úr göllunum en kostunum.

Árni kom mér þó á óvart og kom með mjög hlutlausa úttekt, sem yfirfarin hefur verið af utanríkisráðuneytinu. Punktarnir með og á móti voru ótal margir og ætla ég ekki að gera úttekt á þeim núna, en mun birta útdrátt úr þeim síðar hér á bloggi mínu þegar ég er búinn með fundargerðina. Þetta gæti reynst fróðlegt bæði fyrir þá sem eru með og á móti, en þó sérstaklega fyrir þá sem eru enn óákveðnir.

Fjörugar umræður spunnust um þetta umdeilda mál innan flokksins og margar spurningar vöknuðu eftir að við Árni höfðum lokið máli okkar. Nokkuð margir tóku til máls og skoðanir skiptar, eins og við var að búast. Í máli nokkurra kom fram, að til þessa hafi það verið illa séð að ræða ESB aðild innan flokksins. Fundarmenn almennt fögnuðu mjög stefnubreytingu flokksins, hvað þetta varðaði og umræðu og sumir sögðu, að fleiri fundir og meiri umræða um málið væri nauðsynleg. Það sem kom mér persónulega á óvart, hversu mikinn áhuga fundarmenn sýndu sambandinu og hversu velviljaðir þeir voru.

Miðað við skoðanakannanir undanfarna mánuði og andann, sem einkenni þennan fund, kæmi mér verulega á óvart ef ekki yrði um stefnubreytingu yrði að ræða á Landsfundinum í lok janúar og að Sjálfstæðisflokkurinn stefndi ótrauður að ESB aðildarviðræðum sem allra fyrst. Fundarmenn voru þó sammála um að í samningsmarkmiðunum yrði að marka skýra stefnu varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Það kæmi ekki til mála að framselja öll yfirráð yfir fiskimiðunum til Brussel eða leggja íslenskan landbúnað í rúst! Þessu er ég fullkomlega sammála og treysti engum flokki betur til þess verks en Sjálfstæðisflokknum.


mbl.is Lána Íslandi 350 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Sjálfstæðisflokkurinn lifandi flokkur í stöðugri endurnýjun?

Ég ákvað að "endurvinna" gamlan frasa úr kosningamyndbandi Sjálfstæðisflokksins frá síðustu Alþingiskosningum. Afgangurinn af myndbandinu á því miður ekki lengur við nema að litlum hluta.

Mér datt svolítið skemmtileg samlíking í hug í morgun, þegar ég heyrði í Davíð Oddssyni. Mér varð hugsað til þess, að það væri alls ekki svo fráleit samlíking að líkja þeim hamförum, sem nú eiga sér á Íslandi, við þær hörmungar, sem riðu yfir heiminn á mörkum krítar- og tertíertímabilanna fyrir 65 milljón árum.

Á vísindavef Háskóla Íslands fann ég góðar upplýsingar um þessar hörmunar. Á þessum tíma féll loftsteinn, sem var um 10-15 km í þvermál til jarðar og splundraðist og ryk umlukti jörðina. Sennilega er þennan gíg að finna í Yukatan í Mexíkó. Þessar hörmungar þurrkuðu út um 70% allra tegunda lífvera sem þá lifðu í heiminum.

Á Vísindavefnum segir einnig að risaeðlurnar hafi verið skriðdýr, sem fram eftir svokallað aldauðaskeið, sem ríkti fyrir 250 milljón árum, og ríktu þau dýr alla miðlífsöld all þar til fyrir 65 milljón árum. Áfram segir að skriðdýrin hafi þróast hratt og lagt undir lög, loft og láð.

Nú má sjá hvernig risaeðlur íslenska stjórnmála eru að byrja að gefa upp öndina. Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson segja af sér með nokkurra daga millibili og Framsóknarflokkurinn ætlar sér auðsjáanlega endurnýjun lífdaga. Að mínu mati er þarna þó aðeins um gamalt vín á nýjum belgjum að ræða!

Steingrímur J. Sigfússon er - reyndar líkt og Guðni og Bjarni - mjög skemmtilegur stjórnmálamaður, en orðinn svolítið þreyttur í allri sinni neikvæðni, sínum upphrópunarmerkisstíl og frasastjórnmálum. Þetta sást berlega í Kastljósinu í gærkvöldi.

Samfylkingin er engu betri með Ingibjörgu Sólrúnu og Össur, sem eru auðvitað líka komin á síðasta söludag!

Frjálslyndir eru eiginlega vara, sem hefði aldrei átt að fara á markað vegna þess að hún er eiginlega ekki komin nógu langt í vöruþróun. Ef Frjálslyndir kæmust í ríkisstjórn, vildu auðvitað allir skila þeim aftur og fá endurgreitt!

Hvað með minn blessaða flokk, Sjálfstæðisflokkinn? Hvernig ætlum við í grasrótinni að reyna að telja sjálfstæðisfólki um land allt trú um að kjósa þennan flokk í næstu kosningum? Flokk, þar sem enginn ber ábyrgð, hvorki embættismenn, sem sitja í skóli valdamanna, eða ráðamenn, sem varla fást til að hefja rannsókn á stærsta bankaráni sögunnar. Stjórnmálamenn sem kalla eðlilegt uppgjör nornaveiðar. Flokk þar sem spillingin grasserar upp í efsta lag flokksins. Stjórnmálamenn, sem ætla ekki að axla ábyrgð á gjörðum sínum í þingkosningum, hvorki í vor eða næstu árin og hafa lýst því yfir að þeir telji fullkomlega eðlilegt, að þeir verði áfram í forystu flokksins í næstu framtíð.

Það er eðli náttúrunnar, að í hamförum sem þessum, deyi risaeðlurnar út og nýjar - vonandi betri tegundir, með meiri aðlögunarhæfni - spretti fram á sjónarsviðið!

 


mbl.is Arnór: Áfallið meira hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er kominn tími til að ræða uppgjör, rannsókn og framtíðina

Það var auðvitað deginum ljósara, að engin önnur lausn var til á þessu erfiða IceSave máli en að semja við Breta, Hollendinga og hin 25 ríki ESB. Það voru ekki þjóðir Evrópu, sem klúðruðu þessum málum og það var ekki heldur íslenska þjóðin, heldur var útrásarvíkingunum og íslenskum stjórnvöldum um að kenna. Reikninginn borgar síðan auðvitað þjóðin og skuldunautarnir, sem lögðu alsaklausir peninga sína í banka, sem þeir töldu örugga.

Þessu máli er þó fyrst lokið þegar þeir embættismenn, sem ábyrgð báru á eftirlits- og grandvaraleysinu, eru farnir úr sínum stöðum og þeir stjórnmálamenn, sem sváfu á verðinum, eru búnir að taka dómi þjóðarinnar í þingkosningum.

Nú er kominn tími til að ræða umfangsmikla rannsókn á þessu flókna máli og síðan uppgjör í kjölfarið. Þetta þarf að fara hratt fram, því ekki er víst að allir verði á í þeim stöðum, sem þeir eru í dag eftir að búið er að kafa ofan í málið. Við þurfum á starfhæfri ríkisstjórn að halda sem allra fyrst og þá er ég ekki að tala um vinstri stjórn, heldur sömu ríkisstjórn og er nú við völd, þó hugsanlega með einhverjum breytingum.


mbl.is Icesave-deilan leyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB - Evrópuþingið - sannleikurinn um vægi Íslendinga

Aðildarríki Evrópusambandsins eru í dag 27 og íbúafjöldinn um 492 milljónir. Þessi mikli fjöldi fólks býr á landsvæði, sem þekur 4324 milljónir ferkílómetra.

Evrópuþingið situr í Strassborg og þar eiga 785 þingmenn sæti, sem skiptast í stjórnmálaflokka, sem hér segir:

  1. Íhaldsmenn: 288 þingmenn
  2. Jafnaðarmenn : 216 þingmenn
  3. Frjálslyndir: 101 þingmenn
  4. Íhaldssamir þjóðernissinnar: 44 þingmenn
  5. Græningjar: 42 þingmenn
  6. Vinstri menn: 41 þingmenn
  7. Evrópuandstæðingar: 24 þingmenn
  8. Óháðir: 30 þingmenn

Fulltrúar á þingið eru valdir í beinum kosningum af íbúum aðildarríkjanna 27. Ofangreindir þingmenn eiga sæti í um 160 stjórnmálaflokkum innan ESB, sem hafa þó ákveðið að starfa saman í ofangreindum þingflokkum innan Evrópuþingsins.

Hér að neðan má sjá öll lönd ESB, íbúa ESB í milljónum, fjölda þingmanna, þúsundir íbúa að baki hverjum þingmanni á Evrópuþinginu og hlutfallsleg áhrif hvers þingmanns.

LandÍbúarFj. þingm. Þús.íb. á þingm.  Hlutf. áhrif
 
Malta0,40   58010,35
Lúxemborg0,47   67810,48
Kýpur0,78   61306,21
Eistland1,4   62333,54
Slóvenía2,0   72862,89
Lettland2,4   92673,10
Írland3,7   132852,91
Litháen3,7   132852,91
Finnland5,2   143712,22
Danmörk5,3   143792,18
Slóvakía5,4   143862,14
Búlgaría7,7   184281,93
Austurríki8,1   184501,84
Svíþjóð9,0   194681,76
Portúgal9,9   244122,00
Ungverjaland10,0   244161,98
Belgía10,2   244251,94
Tékkland10,3   244291,92
Grikkland10,6   244411,87
Holland15,8   275851,41
Rúmenía26,8   357661,08
Pólland38,6   547141,15
Spánn39,4   547291,13
Ítalía57,7   787391,11
Bretland59,8   787611,08
Frakkland62,1   787571,06
Þýskaland82,5   998281,00
Samanlagt485,4   7856151.35

Af ofangreindri samantekt má vera ljóst, að minnstu ríki ESB hafa hlutfallslega langmest völd innan sambandsins. Þannig hefði Ísland líklega 4-5 þingmenn á Evrópuþinginu með aðeins 320.000 íbúa á meðan Danmörk hefði aðeins 14 þingmenn með 5,3 milljónir íbúa. Við Íslendingar erum um 6,4 % af íbúafjölda Danmerkur en hefðum um 35% af þeim fjölda þingmanna, sem Danmörk hefur á Evrópuþinginu í dag.

Það er því tómt þvaður, að Íslendingar hefðu lítil áhrif innan ESB, allavega miðað við íbúafjölda og hvað Evrópuþingið varðar. Að auki hefðu Íslendingar tækifæri til að starfa innan stórra þingflokka á Evrópuþinginu að sínum hugðarmálum og að sameiginlegum hagsmunamálum stjórnmálamanna, sem hafa svipaðar skoðanir innan ESB. Þar að auki gætu Íslendingar unnið með þingmönnum Norðurlandanna, sem hafa með sér öflugt samstarf á þingi ESB. Þegar litið er til allra þessara staðreynda má vera ljóst, að Íslendingar hafa ansi marga þingmenn miðað við að þeir eru aðeins jafn margir og íbúar Bielefeld, Bonn eða Mannheim í Þýskalandi.

Hvaða bein áhrif haldið þið, að íbúar borga af svipaðri stærðargráðu og í Þýskalandi - eða annarsstaðar í Evrópu - gætu haft innan Evrópuþingsins?


mbl.is Framsókn flýtir flokksþingi og tekur fyrir tillögu um aðildarviðræður við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB & Sjálfstæðisflokkurinn - enn á ný verið að þæfa málið?

Stærsta frétt dagsins er að sjálfsögðu að Landsfundi Sjálfstæðisflokksins hafi verið flýtt til 29. janúar á næsta ári. Ég spái því að þessi fundur verði mikill átakafundur, þar sem ekki aðeins verður tekist á um ESB aðildina, heldur einnig hugmyndafræði flokksins og forystu hans.

Undanfarin 15 ár hefur flokkurinn að margra mati fjarlægst hina sígildu hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, sem gerði flokkinn að þeirri breiðfylkingu hægri fólks í landinu, sem hann er. Stefna flokksins hefur breyst í hreinan og kláran frjálshyggjuflokk og meirihluti þingflokksins styður þá stjórnmálastefnu einarðlega. Flestir kjósendur flokksins hafa hins vegar snúið baki við þeirri stefnu eða voru henni aldrei fylgjandi. Upp til hópa eru kjósendur flokksins ósköp venjulegt hægra fólk eins og ég, sem ekki eru neinir öfga frjálshyggjumenn, þótt þeir vilji að sjálfsögðu nýta hinn frjálsa markað til hagsbóta fyrir alla landsmenn.

Næststærsta fréttin er stofnun enn einnar Evrópunefndarinnar til að fara yfir kosti og galla ESB aðildar. Tilfinning mín er, að þetta sé ein viðbótar tilraun minnihluta sjálfstæðismanna, sem ekki styður aðild að ESB, til að þæfa málið. Þetta mæta fólk virðist ekki átta sig á því, að þetta er algjörlega tilgangslaus tilraun. Það verður að segja um þessa nefnd, að bæði formaður nefndarinnar og varaformaður eru mjög sjálfstæðir og sterkir einstaklingar, sem ekki láta segja sér fyrir verkum. Þeir munu eflaust vinna sitt verk af miklum heilindum og leita víða fanga og ekki taka við skipunum þeirra, sem ekki vilja aðild eða þeirra sem vilja óbreytt ástand. Það sem þarf að forðast á Landsfundi er einhverskonar málamiðlun, sem ekki tekur á málinu. Við þurfum ákvörðun - já eða nei! Ákvörðunin verður hugsanlega afdrifarík og sársaukafull fyrir flokkinn, en hjá henni verður ekki komist. Ef ákvörðunin kemur ekki mun flokknum hins vegar blæða hratt eða hægt út.

Það sem stuðaði mig verulega á fundinum í Valhöll í dag voru ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins um aðild að sambandinu. Í öðru orðinu sagðist Geir ganga opinn til samstarfs við ESB yrði það niðurstöða Landsfundar. Í hinu orðinu úthúðaði hann sambandinu fyrir afstöðu þess í Icesave málinu og spurði landsmenn, hvort þeir hefðu virkilega áhuga á samstarfi við slík ríki. Það er því engum blöðum um það að fletta, hvaða hug forsætisráðherra ber til ESB aðildar, hann vill hana ekki undir neinum kringumstæðum. Þar af leiðir, að hann mun vinna gegn ESB aðildarviðræðum fram að næsta Landsfundi. Geir var þó eins og alltaf heiðarlegur og sjálfum sér samkvæmur og sagði að allir vissu af hans afstöðu í málinu og hún kæmi því ekki á óvart.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að mínu mati aðeins um tvennt að velja. Annars vegar getur hann haldið sig við núverandi stefnu, en þá klofnar flokkurinn í tvennt. Til verður mjög lítill 10-15%, sem verður einkennileg blanda af frjálshyggju- og heimastjórnarflokki, sem heitir Sjálfstæðisflokkurinn og hins vegar verður til hófsamari hægri flokkur, sem vill ESB aðild. Til að sátt náist með örmunum, þurfa þeir báðir að gefa eitthvað eftir. Flokkurinn þarf engu að síður að breyta lítillega um stefnu og taka kúrsinn í átt til fyrri gilda og stefnu flokksins. Að auki verður að nást sátt um, að stefnt skuli að ESB aðild sem allra fyrst, helst á næsta ári. Meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins krefst þessara breytinga og einnig helstu stuðningsaðilar hans - atvinnulífið!

Leita verður allra leiða til að fá ESB til að gera undantekningu vegna upptöku evru og að hún verði tekin upp á sama tíma. Þetta ætti að vera mögulegt vegna þess neyðarástands, sem hér ríkir og smæðar markaðarins.


mbl.is Þrír leiða Evrópustarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn lýsir yfir áhuga á ESB aðildarviðræðum?

Gaman hefði verið að vera fluga á vegg þegar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundaði nýlega um Evrópumál. Getur verið að forysta flokksins sé loksins búin að átta sig á að meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins - og reyndar Íslendinga allra - aðhyllist ESB aðildarviðræður? Getur verið að óttinn við að verða 15-20% flokkur hafi loksins opnað augum á þeim, sem ekki hafa viljað setja málið á dagskrá undanfarin 10 ár? Yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, Bjarna Benediktssonar, Guðfinnu Bjarnadóttur og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur undanfarna daga og vikur geta ekki verið tilviljun ein og þetta hefur átt að leka út. Eftir rúmlega 30 ár í flokknum þekkir maður jú öll flokksagann hjá sínum mönnum og veit að varaformaðurinn og þingmennirnir þora ekki að orða slíkt nema að hafa a.m.k. vissu fyrir að verða ekki fyrir ofsóknum fyrir vikið.

Á morgun er miðstjórnarfundur Sjálfstæðisflokksins. Ég heyrði ekki betur en að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir væri að ýja að því að þar myndu ESB aðild ekki einungis bera á góma, heldur væri þar jafnvel einhverrar yfirlýsingar að vænta. Jóhanna Sigurðardóttir ýjaði að svipuðu í gær. Eru þetta tilviljanir einar saman - mér finnst það vægast sagt ótrúlegt!

Sjálfstæðisflokkurinn myndi slá margar flugur í einu höggi með yfirlýsingu um að stefnt skyldi að ESB aðild. Í fyrsta lagi myndi þetta leiða til þess að bylgja bjartsýni myndi fara um allt landið og á henni þurfum við að halda. Þetta vísaði jafnframt landsmönnum öllum veginn næstu árin. Í öðru lagi myndi þetta virkandi róandi á gengi krónunnar og að einhverju leyti jafnvel á fjámálamarkaðinn hér á landi.

Að mínu mati skyldi stefnt að aðild sem allra fyrst, helst næsta sumar. Einnig þyrfti að stefna því að fá undanþágu ESB um upptöku evru á sama tíma. Þetta væri hugsanlega hægt vegna þeirrar neyðar, sem hér ríkir í peningamálum.


mbl.is Enginn góður kostur í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Förum ekki aftur í sauðskinnskóna eða í torfkofana

Hjól atvinnulífsins eru að hætta að snúast vegna fjármagnsleysis. Margir virðast nú vera að átta sig á að það er verðmætasköpun, sem skapar tekjur fyrir fyrirtækin, vinnu fyrir almenning og síðan tekjur fyrir ríkið. Það er algjört lífsspursmál, að okkur Íslendingum takist að opna leiðir fyrir fjármagn til landsins, ef við ætlum á annað borð að byggja þetta land áfram. Fyrir stærstan hluta þjóðarinnar er það ekki valkostur að fara aftur í torfkofana eða að ganga í sauðskinnskóm - líkt og sumir stjórnarandstæðingar virðast halda - nema þá að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.

Vandamálið við "Icesave" reikningana er að ESB lítur á málið sem "prinsipp" mál. Ef ESB gengst við skilmálum Íslendinga, þá væru ríkin í raun að lýsa yfir, að bankar innan ESB bæru aðeins ábyrgð á inneignum í sínu heimalandi en ekki í öðrum aðildarríkjum sambandsins. Af praktískum ástæðum gengi þetta ekki upp, því bankar ESB starfa þvers og kruss um allt sambandið. Hætta er á að enn meira vantraust skapaðist innan bankakerfisins ef sambandið viðurkenndi, að ríki gætu sloppið við að greiða út innistæður í öðrum bönkum en í heimalandinu. Að auki gengur þetta þvert á öll grundvallar "prinsipp" ESB og myndi koma í veg fyrir frjálst flæði fjármagns og að sambandið virkaði sem um ríkjasamband sé að ræða. Í ESB samstarfinu eru hvað þetta atriði varðar algjört jafnræði á milli aðildarríkjanna og tryggir það auðvitað að ekkert eitt aðildarríkjanna getur nýtt sér réttindi, sem aðildarríkin öðlast við inngöngu í ESB, en ekki gengist við skyldunum, sem því fylgja. Þetta eru því í raun góð ákvæði tilskipunar, þótt afleiðingarnar séu hörmulegar og ósanngjarnar fyrir okkur Íslendinga, af því nokkur einkafyrirtæki misnotuðu aðstöðu sína. Hitt er svo annað mál, að þeir sem settu þessa tilskipun ESB hafa örugglega ekki horft til þess ástands, sem ríkir í dag á alþjóðafjármálamörkuðum eða til þeirra sérstöku aðstæðna sem ríkja á Íslandi í dag, þar sem bankakerfið allt hrundi. Spurningin er síðan einnig hvort íslenska þjóðin beri fulla og óskipta ábyrgð á hrapalegum mistökum eftirlitsstofnana landsins? Eins er spurning, hvort hægt sé að ætlast til þess, að íslenska ríkið beri ábyrgð á skuldum einkafyrirtækja, þegar baktryggingarsjóðir - sem nægja áttu - duga ekki þegar til kemur?

Af ofangreindu má vera ljóst, að aðeins er einn valkostur í stöðunni og það er sá kostur, sem stjórnvöld hafa valið, þ.e.a.s. að reyna til hins ýtrasta að ná samningum við Breta, Hollendinga og Þjóðvera um skuldalúkningu. Er hægt að gera þetta á hvaða forsendum sem er? Nei, að mínu mati ekki. Það eru takmörk og þau eru þau, sem að ofan getur, þ.e.a.s. við förum ekki aftur í torfkofana og sauðskinnskóna.

Ég ætla ESB ekki svo illt, að sambandið vilji gera íslensku þjóðina gjaldþrota, þótt ég trúi Bretum og Hollendingum til þess. Í Morgunblaðinu hefur verið gefið í skyn, að ESB ætlist til að Ísland viðurkenni formlega kröfur Breta og Hollendinga, en þá muni aðildarríkin hlutast til um að skilmálar verði með þeim hætti, að skuldsetning og endurgreiðslubyrði verði ekki of íþyngjandi fyrir Íslendinga.

Spurningin er síðan, hvort við Íslendingar teljum þá skilmála ásættanlega eða hvort betri kostur sé að yfirgefa landið og skella í lás og halda á heiðar Danakonungs á Jótlandi.

 


mbl.is Samningar um Icesave eina leiðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband