12.11.2008 | 08:14
Okkur vantar góða vini en ekki kunningja
Það er auðvitað með ólíkindum þegar "skuldinni" af þessu hafaríi er skellt á ESB, eins og það hafi skuldsett þjóðina um of, að eftitsstofnanir sambandsins og yfirstjórn hafi klikkað eða Seðlabanki Evrópu og peningastefna hans.
Nei, vitaskuld er okkur sjálfum um að kenna og þeirri taumlausu útrás, sem rekin var héðan frá Íslandi. Ytri aðstæður spiluðu síðan inn í þetta og gerðu okkur Íslendingum vandamálið reglulega sýnilegt, en líkt og við vitum voru aðrar þjóðir löngu búnir að átta sig á ástandinu hjá okkur og gagnrýna það.
Peningastefna Seðlabanka Íslands hefur verið kolröng um árabil - líkt og margir hafa gagnrýnt - og síðan bætti eftirlitsleysi þeirra stofnana, sem hlut áttu að máli ekki úr skák en síðasta naglann í líkkistuna ráku síðan ríkisstjórnin og Alþingi með grandvara- og aðgerðaleysi sínu!
Segja má, að öll þau rök, sem stuðningsmenn krónunnar töldu upp varðandi gæði hennar og notagildi hafi reynst hjóm eitt. Gildir þar einu, hvort talað er um styrk krónunnar sem hagstjórnartækis eða sveigjanleika hennar. Allir aðrir en Seðlabankinn virðast geta ráðið gengi krónunnar og skiptir þar litlu, hvort um innlenda banka er að ræða eða innlenda eða erlenda vogunarsjóði. Sveigjanleiki krónunnar, sem átti að tryggja okkur land án atvinnuleysis, er að skila okkur meira atvinnuleysi en þekkist víðast hvar á Vesturlöndum, en er hins vegar vel þekkt í Austurevrópu og í vanþróuðum ríkjum. Sveigjanleikinn gerir það að verkum að gjaldeyrisviðskipti liggja nær niðri, gengið hefur fallið um 100% og verðbólgan er komin í 20%.
Sama má segja um rök þau er lúta að andstöðu gegn ESB aðild. Það sem hefur komið í ljós er að stefna stjórnvalda undanfarin 15 ár þess efnis að við - þessi rúmlega 300.000 manna þjóð - spjörum okkur best utan ESB í sjálfvalinni einangrun hér á norðurhjara, en þó í einhverskonar lauslegu "kunningjasambandi" við Noreg, Bandaríkin og og ESB, gengur hreinlega ekki upp. Jafnvel þeir, sem við töldum til góðra vina, eru það ekki þegar á reynir, að Noregi og Færeyjum undanskildum. Brottför varnarliðsins, og hálfgerðum "vinaslit" í kjölfar þess, hefði átt að gera okkur þetta ljóst.
Við verðum einfaldlega að viðurkenna, að við - þetta örríki á norðurslóðum - ráðum ekki við að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil og sjálfstæða peningastefnu. Okkur er vitanlega betur fyrir komið í samvinnu um þetta atriði, varnir landsins og mörg önnur mál við önnur Evrópuríki. Að auki er það hagur landsins hvað atvinnuvegina varðar og einnig þjóðarinnar sem slíkrar að ganga í ESB og nægir þar að minna á augljósa kosti á borð við efnahagslegan stöðugleika, lægra vaxtastig og lægra verð á matvælum, sem vega líklega þyngst á vogarskálunum eins og sakir standa.
Þjóðin á rétt á því, að farið verði í ítarlega umræður um ESB aðild og að því loknu verði samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar skilgreind og farið í aðildarviðræður. Niðurstöður slíkra viðræðna verði síðan bornar undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta þarf að gerast í síðasta lagi næsta vor.
Okkur vantar góða vini þegar við lendum í vandræðum en ekki kunningja.
Afgreiðslu umsóknar frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.11.2008 | 23:55
Búnir að finna upp "gullgerðarvél" norðan heiða - búa til peninga úr rusli
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.11.2008 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10.11.2008 | 03:32
Gagnlegt að leggjast undir feld líkt og Þorgeir Ljósvetningagoði
Líkt og ESB sendir okkur af og til sína fulltrúa, t.d. aðila á borð við Olli Rehn, Díönu Wallis, Percy Westerlund eða Hervé Carré, sendu Haraldur Blátönn, konungur Dana, og Ólafur Tryggvason, konungur Norðmanna, þeirra fulltrúa. Þannig komu til Íslands fyrir árið 1000 saxneskur biskup að nafni Friðrekur og prestur að nafni Þangbrandur. Þeim félögum varð lítið ágengt í kristniboðinu, en öðrum þeirra tókst þó að vígja eina kirkju á meðan hinum tókst að skíra nokkra höfðingja - þar á meðal höfðingjana Hjalta Skeggjason og Gissur hvíta Teitsson frá Mosfelli. Að auki tókst Þangbrandi að vega 2-3 Íslendinga, sem höfðu níðst að honum - útlendingnum - sem er líkt og við vitum góðra manna siður okkar Íslendinga enn þann dag í dag.
Þeir örfáu, sem frelsast höfðu annaðhvort í útlöndum eða í kristniboðinu, gáfust þó ekki upp og fóru undir forystu Hjalta Skeggjasonar til Alþingis rétt fyrir þúsaldarmótin. Móttökurnar voru þar óblíðar, enda eru og voru boðberar nýrra siða þar ævinlega óvelkomnir og gildir þar einu hvort það er í dag eða fyrir 1000 árum. Hjalti var sem sagt í kjölfarið gerður landrækur fyrir "goðgá". Í dag erum við hins vegar hófstilltari - en meinum það sama - og segjum að sum mál séu einfaldlega ekki á dagskrá.
Hjalti og Gissur gáfust þó ekki upp, heldur snéru aftur til Alþingis árið 1000 og ætluðu að sannfæra Íslendinga um gæði kristinnar trúar. Ólafur Tryggvason - sem var sannkristinn maður - hélt sonum nokkurra valinkunnra Íslendinga í gíslingu til að hjálpa landanum við ákvarðanatökuna. Í dag myndum við kalla þetta léttan þrýsting.
Í stað þess að útkljá málið lýðræðislega á Alþingi, var ákveðið að fela ráðandi klíku í þjóðfélaginu - sem aðhylltist ríkjandi stjórnartrú: heiðni - málið til ákvörðunar. Fyrir þeim hópi fór Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson. Þessi fallega hefð - að klíkan taki við málinu - hafa Íslendingar viðhaldið allt til þessa dags. Með þessu móti komust við hjá því að taka sjálfstæðar ákvarðanir, sem er fljótlegt og praktískt og kemur í veg fyrir deilur innan stjórnmálaflokka. Þetta er einnig oft kallað menntað einveldi, þ.e.a.s. ef klíkan er vel menntuð og vel gefin. Sumsé, þetta á sér langa sögu meðal sannra Íslendinga, en hefur gefist mis vel etir því hverjir eru við stjórn. Eftir því sem mér skilst höfum við ekki ráðgert að afleggja þá stjórnarhætti.
Líkt og í dag byggja Íslendingar allar ákvarðanir sínar á gildum rökum og skynsemi. Því var ekki órökrétt að ætla, að þar sem hraun hafði runnið á Hellisheiði rétt þar sem Alþingi fundaði, þá hefðu guðirnir reiðst þjóðinni fyrir daður við kristnina. Snorri Þorgrímsson á Helgafelli mælti þá:
Um hvað reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?.
Við þetta róaðist þingheimur allnokkuð og hélt - líkt og í dag - áfram að afgreiða lög líkt og á kassa í Bónus.
Talsmaður ríkjandi siðar - heiðni - var enginn annar en Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson lögsögumaður. Talmaður kristni var tilnefndur Hallur Þorsteinsson á Þvottá (Síðu-Hallur). Þingmenn voru ekkert að ræða málin mikið frekar en í dag. Því sammæltust þeir Hallur og Þorgeir um það á tveggja manna tali að segja upp lög, sem allir gætu fellt sig við. Líkt og nú tíðkast, tók að sjálfsögðu talsmaður ríkjandi siðar ákvörðun um, hvað yrði upp á teningnum:
En síðan er menn komu í búðir þá lagðist hann niður, Þorgeir, og breiddi feld sinn á sig og hvíldi þann dag allan og nóttina eftir og kvað ekki orð.
Daginn eftir settist Þorgeir upp og bauð mönnum að ganga til Lögbergs, en þar hóf hann upp raust sína og sagði:
En nú þykir mér það ráð, að vér látim og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.
Niðurstaða Þorgeirs varð sú, að allir Íslendingar skyldu í orði kveðnu taka kristni en áfram skyldi þó leyft að blóta leynilega, bera út börn og éta hrossakjöt.
Þetta er merkileg niðurstaða og alveg sér íslenskt fyrirbrigði, held ég mér sé óhætt að segja. Við berjumst ekki, heldur náum einhverskonar "málamiðlun".
Líkt og samlandi minn gerði fyrir rétt rúmum 1000 árum síðan ákvað ég að beita sömu aðferðafræði við að komast að niðurstöðu. Ég var lengi vel málsvari gildandi siðar - Sjálfstæðisflokksins - og þar með jafnframt andsnúinn ESB aðild. Fyrir um ári síðan frelsaðist ég síðan og hef aðhyllst nú ESB aðildarviðræður, en aðhyllst engu að síðu að öðru leyti hægri stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Til þessa að skoða ESB aðildina; einhliða upptöku evru; aðgerðaleysi stjórnvalda undanfarin ár, fyrirhyggjuleysi og ábyrgðarleysi Alþingis; grandvaraleysi, gagnsleysi, getuleysi og rangar ákvarðanir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins; tók ég mér frí í vinnu nokkra daga í síðustu viku og eyddi helginni einnig í að íhuga málin og bera þau saman við kristnitökuna árið 1000. Af þessum sökum hef verið í litlu sambandi við mitt nánasta umhverfi í viku. Niðurstaða mín er stutt líkt og hjá Þorgeiri, því Íslendingar hata málalengingar.
- Allir Íslendingar skulu í orði kveðnu samþykkja aðildarviðræður við ESB
- Allir Íslendingar séu sammála um að krónan sé dauð
- Allir Íslendingar samþykki að við ráðum ekki við sjálfstæða peningastefnu og séu til þess ófærir líkt og Ítalir, Svartfellingar og margar aðrar þjóð og að Þjóðverjar séu öðrum þjóðum fremri við þá iðju
- Allir Íslendingar samþykki upptöku evruna einhliða fyrir jól - jólagjöf Alþingis og ríkisstjórnarinnar til landsmanna er því afnám verðtryggingar og gengisfellinga (verður mörgum þungbært)
- Öllum Íslendingum verði tryggt að þeir hafi í sig og á á meðan á kreppunni stendur
- Reynt verði að lágmarka skaða almennings og komið í vega fyrir almenna eignaupptöku íbúðarhúsnæðis, en þetta ætti að vera auðveldara í kjölfar upptöku evru og afnám verðtryggingar
- Allir Íslendingar samþykki að Alþingi og undanfarnar tvær ríkisstjórnir hafi brugðist okkur og gildir það um alla flokka, sérstaklega þá sem voru í ríkisstjórn, en einnig hina sem áttu sæti á Alþingi
- Skipta þarf út mörgum fulltrúum á Alþingi í kosningum
- Halda skal kosningar á síðari hluta næsta árs
- Aðalkosningamálið verður ESB aðild
- Þrátt fyrir inngöngu í ESB verður áfram leyft að vera sannur Íslendingur: borða selshreifa, hrútspunga, bringukolla, kæsta skötu og hákarl, flagga íslenska fánanum
- Fólk má þó nota ESB fánann með ef það vill og lleyft verður að flytja inn og borða danskar spægipylsur og franska osta
- Íslendingum ber að forðast áberandi klíkuskap og áberandi fjölskyldutengsl í stjórnmálum, þannig að ekki líti út fyrir að við búum við lénsskipulag
- Fólki er þó ekki bannað að vinna saman eða að einhver vensl séu manna á milli á þingi eða í stjórnsýslunni
- Fagmenn sinni störfum hjá hinu opinbera og hætt verði að skipa í stöður eftir stjórnmálaskoðun
- Fólk á þó að geta tekið þátt í stjórnmálum og ekki þurfa að líða fyrir það við veitingar á stöðum hjá hinu opinbera auk þess sem menntahroki verði minna áberandi í þjóðfélaginu en nú er
- Einkavinavæðing verður bönnuð
- Markaðsvæðing heldur áfram - þó aðeins ef sannað þykir að hún sé hagkvæmari en ríkisrekstur - ekki trúarbragðaatriði líkt og nú
- Við lifum áfram í blönduðu hagkerfi, þar sem öflugt félagslegt kerfi tryggir, að allir hafa nóg að bíta og brenna
- Þrátt fyrir hagræðingu í opinberum rekstri verður þjónusta við borgarana og afkoma opinberra starfsmanna tryggð á borð við stafsmenn á hinum almenna markaði
Ef við Íslendingar lærum af reynslu undanfarinna 1000 ára, gæti okkur á örfáum árum tekist að byggja hér upp enn betra þjóðfélag en við höfum í dag. Markaðurinn á að vera okkur landsmönnum sem auðmjúkur þjónn en ekki drottnandi herra og við setjum honum þær reglur, sem við teljum bestar til að hann skili sínum hlutverki sem allra best.
Það á að byggja upp þjóðfélag, sem einkennist af samhjálp og góðu öryggisneti fyrir þá, sem á því þurfa að halda. Það á ekki að byggja upp ofvaxið rándýrt félagslegt kerfi að norrænni fyrirmynd, sem mergsýgur almenning, en lætur honum hins vegar í té litla og lélega þjónustu og þá jafnvel einnig til þess fólks, sem ekki þarf á þjónustunni að halda.
Fólkinu sjálfu er öllu jafnan best treystandi fyrir sínum tekjum og á sjálft að ráða hvernig það vill eyða þeim! Sú þjóðfélagsgerð, sem við bjuggum við undanfarin ár var í sjálfu sér góð, en regluverkið og eftirlitið brást hrapalega.
Við þurfum því ekki á byltingu að halda í landinu eða vinstri sveiflu, heldur breyttum hugsunarhætti og breytingum á því kerfi, sem ekki hefur brugðist okkur í áratugi!
Fyrirfinnst einhver eða einhverjir á meðal núverandi forystu ríkjandi siðar - Sjálfstæðisflokksins - með skapgerðarstyrk Þorgeirs Ljósvetningagoða?
Hannes vísar ásökunum á bug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.11.2008 | 11:44
Frændur okkar og vinir eru Norðurlöndin og Þýskaland
Fyrir um 5-7 árum ákvað ég að hætta að hafa áhyggjur af því hvað fólk er að segja um mig. Auðvitað tókst það ekki alveg, en ég tók þó nokkur skref í áttina til þessa. Fyrsta skrefið var að segja meiningu mína, en þó aldrei á þann hátt að það særði fólk í kringum mig. Síðan tók ég ákvörðun um að vera vinur vina minna óvinur óvina minna.
Nú halda líklega allir, að ég bregðist fjandsamlega við þeim, sem eru mér ósammála. Nei, það var ekki það sem ég átti við, heldur reyni ég að umgangast eins lítið og mögulegt er það fólk, sem mér er illa við eða þoli ekki og sömu sögu er að segja um þá, sem hafa gert mér lífið leitt. Á sama tíma fylgi ég þó reglu, sem ég kynntist fyrir nokkrum árum, og útleggst á ensku "keep your enemies close" eða "haltu óvinum þínum nærri þér". Þetta geri ég þó án þess þó að hitta þá of oft eða treysta þeim á nokkurn hátt. Þessa reglu er hægt að hafa í huga varðandi umgang við Breta um alla ókomna framtíð!
Leiðum hugann að uppáhaldslandinu mínu, þar sem ég eyddi stórum hluta ævi minnar, Þýskalandi. Hver eru viðbrögð þeirra við því að tapa stórum peningum í "útrás" Íslendinga? Til þessa er ekki að sjá, að Íslendingar verði fyrir árásum þarlendra stjórnmálamanna eða er það?
Af Þjóðverjum fer það orð, að þeir séu ókurteisir og jafnvel ruddalegir. Þeir eiga að stela mat í stórum stíl af morgunverðarborðum hótela og tæma sykurkör. Það er að mínu mati mikil firra og byggir á misskilningi. Þjóðverjar smyrja sér oft brauð við morgunverðarborðið eða taka með sér ávexti, sérstaklega ef þeir eiga einhverja ferð framundan eða ef þeir eru nývaknaðir og lystarlausir. Þetta þykir sjálfsagt á þýskum hótelum og enginn hóteleigandi amast við því. Hér er því um ólíka siði að ræða.
Þjóðverjar eru upp til hópa hreinir og beinir í samskiptum sínum við fólk. Þeir eru vinir vina sinna, stundum kannski svolítið seinteknir sem vinir, en þeim mun tryggari. Það var í Þýskalandi, sem ég lærði ýmsa góða siði eins og að byrja ekki að borða fyrr en allir væru sestir við borðið og tilbúnir. Ég lærði að opna hurðina fyrir konum og ótal, ótal margt fleira í almennri kurteisi. Menn mega ekki líta svo á að ég hafi verið ókurteis, en íbúar Mið-Evrópu eru bara "dannaðri" en við Íslendingar.
Þegar við förum yfir vinahópinn í framtíðinni eigum við ekki að gleyma viðbrögðum ríkja Evrópu!
Styðja illa Íslendinga hjá IMF | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.11.2008 | 22:16
Skrílslæti, sem enginn á að taka þátt í
Vissulega er ég reiður líkt og aðrir Íslendingar, en að einhver mannlegur máttur fái mig til að taka þátt í mótmælum með þessu sama fólki og hlekkjaði sig við vinnuvélar að Kárahnúkum og í Helguvík eða Sturlu og vörubílstjórunum, sem hlýddu ekki tilmælum lögreglu í vor og voru með skrílslæti, kemur ekki til greina.
Það er kominn tími til að einhverjir aðrir taki að sér að skipuleggja mótmæli af þessu tagi. Hvar eru bandalög vinnandi fólks í landinu um þessar mundir? Þarna á ég auðvitað við ASÍ, BSRB, BHM og KÍ. Af hverju skipuleggja þessi launþegasamtök ekki víðtæk mótmæli, sem ættu auðvitað að eiga sér stað í miðri viku, þar sem öll þjóðin legði niður vinnu og streymdi á Austurvöll - eða í miðju bæja og sveitarfélaga um land allt - og mótmælti.
Á slíkum fundi mótmælti þjóðin friðsamlega en af krafti:
- gegn aðgerðaleysi stjórnvalda undanfarið varðandi rannsókn á gjörðum þeirra manna, sem leiddu til kreppunnar sem hér ríkir núna
- gegn fyrirhyggjuleysi og ábyrgðarleysi Alþingis að hafa ekki sett eðlilegt regluverk um banka og fjármálastofnanir
- gegn ríkistjórninni og ráðuneytum fyrir að sinna ekki eðlilegu eftirliti með því, hvort og hvernig undirstofnanir voru að sinna hlutverki sínu
- gegn grandvaraleysi, gagnsleysi, getuleysi og röngum ákvörðunum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins í peningamálum og eftirliti undanfarin ár.
Hefði allt þetta fólk verið að vinna vinnuna sína, er mjög líklegt að við værum ekki í þeim sporum, sem við erum í dag. Þar ber minn eigin flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, mesta ábyrgð, en aðrir flokkar geta ekki hvítþvegið sinn á þann hátt, sem þeir nú gera.
Þegar öllum þeim punktum er mótmælt, sem að ofan getur, og mótmælin beinast ekki gegn einstökum stjórnmálamönnum, embættismönnum eða stjórnmálaflokkum og slík mótmæli eru skipulögð af öllum samtökum launamanna í landinu, skal ég sem formaður stéttarfélags verða fyrstur manna til að hvetja mína félagsmenn til friðsamlegra mótmæla í miðbæ Reykjavíkur!
Eggjum kastað í Alþingishúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
7.11.2008 | 08:30
Vesturlönd mega ekki verða of sjálfhverf í kreppunni
Þrátt fyrir kreppuna megum við Vesturlandabúar ekki verða of sjálfhverf, hvað varðar vandamál þróunarríkjanna. Ljóst er að eitthvað mun draga úr þróunarhjálp iðnríkjanna á þessu erfiðu tímum í heimsbúskapnum og hjá sumum ríkum - t.d. Íslandi - mun hún nánast þurrkast út.
Af þessum sökum er mikilvægt, að Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin, ESB og Rússar fylgist vel með málum í Afríku, Asíu og Suður Ameríku, hvað stríð, óeirðir og mannréttindabrot varðar og grípi inn í þegar þess þarf.
Of oft hafa þjóðarmorð átt sér stað meðan ráðamenn heimsbyggðarinnar hafa ekki getað komið sér saman um aðgerðir til hjálpar sárasaklausu fólki. Við getum ekki aftur látið viðgangast að horfa upp á þjóðarmorð á borð það sem átti sér stað í Rúanda eða þjóðarmorðið og þjóðarhreinsunina á Balkanskaganum á árunum 1992-1995.
Á Balkanskaganum áttu þessir atburðir sér stað aðeins í dags ökufæri frá miðhluta Evrópu, þar sem ég bjó á þeim tíma - Þýskalandi. Á þessum tíma kynntist ég náið fjölskyldu frá Balkanskaganum, sem hafði flúið til Þýskalands líkt og yfir 400.000 aðrir flóttamenn. Fjölskyldufaðirinn var óperusöngvari og hafði áður verið 1. barítón í óperunni í Split. Nú unnum við báðir fyrir okkur og fjölskyldum okkar í Ríkisóperunni í Hamborg. Ég var þessari fjölskyldu oftar en einu sinni innan handar og útvegaði þeim m.a. íbúð í sama húsi og ég bjó í auk þess að lána þeim peninga fyrir fyrirframgreiðslu leigunnar, því engin var bankafyrirgreiðslan fyrir þetta fólk í þýskum bönkum. Þakklæti þeirra var mikið og það var yndisleg tilfinning að geta orðið stríðshrjáðu flóttafólki að liði.
Hörmungar gætu endurtekið sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.11.2008 | 21:51
Ég trúði á "Íslenska drauminn" eða öllu heldur "Íslensku martröðina".
Ég er einn af þeim, sem trúði á Íslenska drauminn eða ætti ég frekar að segja Íslensku martröðina.
Draumurinn felst í því að eignast fjölskyldu, börn, hús, sæmilegt innbú og góðan bíl og fyrir þennan draum erum við Íslendingar til í selja sáluna í okkur og gerum það yfirleitt!
Dagurinn hjá mér í dag var þannig, að fyrst fór ég í vinnu nr. 1. (tollstjórinn á Suðurnesjum), en skellti mér síðan á fund hjá BSRB í vinnu nr. 2 (formaður Tollvarðafélags Íslands), ég notaði auðvitað ferðina í bæinn og skellti mér í vinnu nr. 3. (söngkennari við Söngskóla Sigurðar Demetz) og kenndi þar söng í þrjár klukkustundir til kl.20.00.
Vinnutími hins íslenska"Fásts" byrjar snemma morguns og endar seint á kvöldin. Það þarf að leggja ýmislegt á sig til að geta borgað af myntkörfu bílaláninu, verðtryggða húsnæðisláninu og matvörunni og tryggingaiðgjöld í þessu guðsvolaða landi.
Á síðastliðnu ári greiddi ég 700.000 af bílaláninu mínu og á sama tíma hefur það hækkað úr 3.900.000 í 8.700.000. Þetta er fallegur bíll og sparneytinn og mér er sagt að ég fái fyrir hann 4-5 milljónir, þótt hann sé 1 1/2 árs enda kostar hann sennilega 9 milljónir nýr.
Á sl. fjórum árum hef ég borgað af húsinu mínu um 4.000.000 í vexti og afborganir. Á sama tíma hefur húsnæðislánið farið úr 17.000.000 í 21.000.000 vegna séríslenskar verðtryggingar. Verðmæti hússins hefur hækkað úr 30.000.000 í 35.000.000.
Sömu sögu er reyndar að segja um námslánin mín, sem þó eru vaxtalaus. Þau eru nánast í sömu krónutölu eftir 16 ára afborgunartíma eða í 3.000.000, en samt er ég búinn að greiða sem nemur 120% af höfuðstóli lánsins.
Ég er einn af þessum vel menntuðu íslensku mönnum með 3 háskólagráður á ágætis launum í mörgum frekar öruggum og sæmilega launuðum störfum og ástandið er svona sæmilegt. Hvað segja þá aðrir, sem ekki eru á sæmilegum launum eða atvinnulausir eða öryrkjar!
Margir munu eflaust segja um fólk sem mig:
Þið tókuð þessar ákvarðanir og því verðið þið að eiga þetta við ykkur sjálf - allt rétt og satt!
Ég bjó 12 ár innan ESB og flutti heim fyrir 12 árum í "góðærið"!
Ég þekki vel til innan ESB og veit hvað er að búa þar. Reynið hins vegar að útskýra fyrir íbúum ESB hluti á borð við:
- Myntkörfulán
- Verðtrygging
Það mun enginn skilja ykkur!
Útskýrið fyrir venjulegu fólki innan ESB - eða annarsstaðar í heiminum - að bílalánið ykkar hafi meira en tvöfaldast á einu ári á meðan þið greidduð niður 17,5% af upphaflegum höfuðstóli lánsins.
Útskýrið fyrir einhverjum innan ESB, hvernig þið eruð búin á 4 sl.árum að borga 20% af upphaflegum höfuðstól húsnæðislánsins þíns og að upphaflegur höfuðstóll lánsins hækki samt um 25%.
Útskýrið fyrir venjulegu fólki, sem hefur tekið námslán hjá siðuðum þjóðum vestan hafs eða í Evrópu, að þið hafið í 16 ár greitt hærri upphæð en nemur upphaflegum höfuðstól og að lánið sé í sömu upphæð og þegar þú laukst námi!
Útskýrið fyrir þessu sama fólki frá Evrópu að matarverð sé hér 50% hærra en meðalverð matvæla innan ESB og að þjónusta sé 30% hærri en innan ESB.
Útskýrðu fyrir þessu sama fólki - hvaðan sem það er úr heiminum - að yfirdráttarvexti séu 28%!
Fólk utan úr heimi er almenn kurteist - jafnvel gagnvart Íslendingum - og mun eflaust láta sem svo að það sé hissa á að einhver búi hér eða það spyr hversvegna ekki hafi verið gerð hér bylting!
Í raun hugsar það samt sem áður hverslags hálfvitar við eiginlega séum!
Í guðanna bænum ekki segja þeim, að ofan á þetta allt þetta saman séum við svo skuldsettasta þjóð í heimi og það taki okkur næstu tvær kynslóðir að greiða niður skuldahalann, sem þrír einkabankar og 20-30 einstaklingar hafi komið okkur í.
Ekki segja þeim að þetta sé tilkomið vegna þess, að stjórnvöld hafi ekki staðið sig í stykkinu og geri nú allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir nákvæma rannsókn mála og tali um slíka úttekt sem "nornaveiðar" á hendur hálfsaklausu fólki!
Spá 40% lækkun íbúðaverðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.11.2008 | 07:52
Ekkert nánast fjárkúgun, heldur harðsvíruð fjárkúgun
Ljóst er að ríkisstjórn Íslands er vandi á höndum og ótrúlegt að þessi vandi skuli ekki hafa verið skýrður út fyrir þjóðinni. Að aðeins tvö ríki - Bretland og Holland - séu að skilyrða alþjóðalega neyðarhjálp til lítils og varnarlauss ríkis á þennan hátt er algjörlega óafsakanleg og hneykslanleg framkoma. Í stað þess að sækja sér styrk til þjóðarinnar í þessu máli þegir ríkisstjórnin þunnu hljóði á meðan þeim er stillt upp við vegg. Auðvitað kemur ekki til greina að ganga að einhverjum afarkostum undir slíkum þrýstingi óvinaþjóða.
Fái landið ekki hjálp, legg ég til að Íslendingar útskýri fyrri stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ESB, að með þessu sé sambandið og alþjóðasamfélagið í reynd að snú baki við lítilli og varnarlausri þjóð. Hvað sjálfan mig varðar eru þetta gífurleg vonbrigði, þar sem ég hef til þessa aðhyllst alþjóðasamstarf, frjáls viðskipti þjóða á milli og undanfarið ár hef ég horft til aðildarviðræðna við ESB. Fáum við ekki fyrirgreiðslu IMF og enga neyðarhjálp frá ESB er hins vegar ljóst að ekki einungis Bandaríkin, Alþjóðasamfélagið og ESB hefur snúið baki við okkur, heldur heimsbyggðin öll.
Við Íslendingar hljótum að velta fyrir okkur hver tilgangur slíks alþjóðasamstarfs er og hvort ekki sé rétt að segja sig úr slíku samstarfi. Þarna á ég t.d. við Sameinuðu þjóðirnar, NATO, EES samninginn og öðrum alþjóðastofnunum.
Við getum hins vegar haldið tryggð við Norðurlandasamstarfið, enda virðast þeir vera þeir einu sem styðja við bakið á okkur. Auðvitað yrði slík ákvörðun afdrifarík og henni þyrfti virkilega að velta fyrir sér, en engur síður yrðum við að spyrja okkur þessarar erfiðu spurningar.
Uggandi um afgreiðslu umsóknar hjá IMF | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
5.11.2008 | 07:59
Rannsókn skal hafin strax af sérhæfðum erlendum aðilum
Það á helst ekki að gera neinum Íslendingi að rannsaka þetta mál. Landið er svo fámennt að það er alltaf um vensl eða önnur tengsl að ræða manna á milli. Því segi ég að best sé að fá erlenda rannsóknarmenn, en hafa síðan Íslendinga, sem aðstoða þá. Þannig er ekki hægt að saka rannsóknarmennina um að þeir séu í hefndarhug og komist verður hjá eftirköstum.
Þrátt fyrir að ég hafi frá fyrstu stundu barist fyrir mjög nákvæmri og heiðarlegri rannsókn - "þar sem allt verður að koma upp á borðið", líkt og menntamálaráðherra sagði - þá skulum við minnast þess hvernig ástandið var í Noregi eftir stríðið, þegar vantraust og ásakanir einkenndu landið í mörg ár.
Við megum ekki gleyma því, að allt þetta fólk, sem hugsanlega hefur eitthvað brotið af sér eða hefur gert eitthvað löglegt en siðlaust, mun líklega áfram byggja þetta land með okkur. Þótt það komist sumt hvert ekki til valda og áhrifa aftur, má hatrið ekki vera slíkt að fólkið og fjölskyldur þeirra óttist um líf sitt og limi eða geti ekki - þegar fram líða stundir - hjálpað okkur við að greiða niður skuldirnar og kom okkur aftur í fremstu röð.
Ég vil að við högum okkur eins og siðmenntuð þjóð og hröðum rannsókn á þessum máum og hugsanlegum lögreglurannsóknum og dómsmálum sem mest má til að þjóðin finni aftur til innri friðar og geti hafið það uppbyggingarstarf, sem framundan er.
Yfirlýsingin kom frá forstjóra Kaupþings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.11.2008 | 13:30
Andri Snær, Björk, Bergur og Þórunn - þið reddið þessu!
Það er nú meiri gæfan fyrir þessa þjóð að bókin "Draumalandið - Sjálfshjálparbók handa hræddi þjóð" kom út fyrir tæpum tveimur árum eða svo. Oft var þörf á slíkri bók, en nú er hreinlega nauðsyn á slíkri lesningu og best væri að gera bókina að skyldulesningu í grunnskólum landsins.
Álverið á Bakka verður líklega ekki að veruleika og maður hefur á tilfinningunni að eitthvað bakslag sé komið í álverið í Helguvík. Það eru sem sagt engar stórframkvæmdir á döfinni hér næstu árin og ekki þarf að byggja neitt, því nóg er til af skrifstofu- og íbúðarhúsnæðinu um land allt og þá ekki síst núna þegar allir útlendingarnir eru að yfirgefa okkur.
Það misstu á þriðja þúsund manns vinnuna í hópuppsögnum um þessi mánaðarmót og ekki ólíklegt að 10-15.000 manns verði atvinnulaus á næstu mánuðum.
Nú er komið að ykkur, sem aðhyllist að fólki vinni við þetta "eitthvað annað", að finna fyrir allt þetta fólk vinnu! Með dyggri hjálp frá Andra Snæ, Þórunni, Björk og Bergi - sem ekki heldur eru par hrifin af álverum og eru með ráð undir rifi hverju - ætti ekki að vera vandamál að skapa 10.000 störf á nokkrum mánuðum og það án nokkurra fjárfestinga - hallelúja!
Nú er það ekki einungis heilsutengd ferðaþjónusta, tínsla fjallagrasa og hvalaskoðun, sem á að bjarga okkur, heldur er Samfylkingin komin fram með nýja töfralausn: "sprotastarfsemi". Hvað það nákvæmlega er skiptir ekki máli, en orðið sem slíkt er glæsilegt.
Ég er feginn að eiga svona mikið af stórgáfuðu vinstra fólki, sem hefur lausnina á takteinum og hefur efni á að hrekja burt héðan fjárfestingar og atvinnutækifæri fyrir þúsundir Íslendinga án þess að blikna.
Að vísu sér maður ekki að nokkur rök hnígi að því, að þetta fólk viti eitthvað hvað það er að tala um og komi einhverju fyrirtæki á stofn. Það er engu líkara en að það haldi að fyrirtæki verði skrifuð eða blogguð á legg án nokkurrar fjárfestingar. Þetta fólk þarf ekki að velta fyrir sér smáatriðum á borð við, hvort hlutirnir gangi upp sem viðskiptahugmyndir, séu arðbærir, þ.e.a.s. hvort hægt er að draga fram lífið á þeim! Það þarf heldur ekki að velta fyrir á hverju fólk á að lifa á meðan það er að koma undir sig fótunum. Eða hvort það henti því fólki, sem er að verða atvinnulaust, t.d. vegna menntunar þess, að vinna í því, sem þetta fólk er að stinga upp á.
En líkt og ég segi: tækifærið er komið - spreytið ykkur!
Dregur úr líkum á álveri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Líkt og lesendur þessa bloggs vita hef ég til þessa verið hlynntur stóriðju. Úr þessu held ég hins vegar að best sé að fresta öllum virkjunum og stóriðju um óákveðinn tíma, enda fást hvort eð er sennilega engir peningar til slíks næstu árin.
Þjóðin hefur og ítrekað lýst því yfir, að hún hafi engan áhuga á stóriðju eða orkufrekum iðnaði. Því er kannski best fyrir landsmenn, að finna fyrst til tevatnsins, hvað atvinnuleysi varðar áður en lengra er haldið í uppbyggilegri atvinnustarfsemi á borð við stóriðju eða orkufrekan iðnað, sem skilar gífurlegum útflutningstekjum til þjóðarbúsins og alvöru launum til þeirra, sem þar vinna.
Í kvöld var t.d. athyglisverð frétt í Ríkissjónvarpinu um jarðgerðarstöð í Eyjarfirði. Hér er um samvinnuverkefni atvinnulífs og sveitarfélaga í héraði að ræða. Aðstandendur verksmiðjunnar segja markmið stöðvarinnar að breyta rusli í peninga. Afkastagetan á að vera 13.000 tonn á ári og er hugsanlega hægt að nota þetta efni sem áburð eða til uppfyllingar.
Ferlið er þannig, að fluttur slátur- og fiskúrgangur í verksmiðjuna, þar sem hann er hakkaður og malaður og blandað saman við stoðefni, sem t.d. er garðúrgangur eða trjákurl. Síðan "meltist" úrgangurinn í í 8-10 sólarhringa og "þroskast" síðan í enn lengri tíma áður en "afurðin" er til.
Ekki er enn nákvæmlega kortlagt hvað á að gera við "afurðina", en "vonir" standa til að hugsanlega sé hægt sé að nota þetta til áburðar eða sem jarðveg? þróunarverkefni er síðan framundan til að reyna að finna út úr hvað er í raun hægt að gera við úrganginn.
Eflaust er þetta síðan allt styrkt af Iðntæknistofnun og Byggðastofnun og svo auðvitað af burðugum sveitarfélögunum í nágrenninu! Þarna var sennilega um þann hátækniiðnað að ræða, sem náttúruverndarsinnar hafa svo fjálglega lýst undanfarin ár. Hátæknin felst í því að hakka einhvern ógeðslegan úrgang og láta hann úldna og blanda því saman við annan illa þefjandi, rotnandi plöntuúrgang og láta það úldna enn meira og reyna síðan að selja einhverjum þennan viðbjóð!
Þetta hljómar svo sannarlega uppbyggilega. Ekki að efa að æska landsins vill frekar vinna í úldnandi og illa þefjandi slátur- og fiskúrgangi en í snyrtilegu og nýtískulegu hátækniálveri.
Það verður varla landflóttanum fyrir að fara í Eyjafirðinum eftir að þessi gullgerðarvél rís þar!
En að sögn náttúruverndarsinna flæmir álverið fyrir austan hins vegar burt þar allt fólk og þeir einu sem fást til að vinna í álinu eru víst útlendingar!