3.11.2008 | 09:04
Óttast ekki aðeins um heiðarleika, heldur einnig dómgreind þessara manna
Ég er enginn fjármálasnillingur, en hef samt staðið í þeim viðskiptum, sem flestir aðrir hafa staðið í um ævina, þ.e.a.s. að kaupa bifreiðar og íbúðarhúsnæði. Gísli Reynisson segir í viðtali sínu við Morgunblaðið þetta:
Hverjum Þá virðist sem svo, að Nordic Partners hafi greitt mun hærra verð en áður var talið. Félagið hafi nefnilega yfirtekið allar skuldir eignarhaldsfélags hótelanna og það þýði að kaupverðið sé mun hærra en þær 700 milljónir danskra króna, sem upphaflega var áætlað að Nordic Partners hafi greitt.
Hverjum heilvita manni dytti í hug að segja: ég ætla að fá þetta hús og yfirtek skuldirnar; ég þarf ekkert að vita nákvæmlega hvað skuldirnar eru háar!
Á hverjum andskotanum var þetta fólk eiginlega? Það getur ekki bara hafa verið á græðgi eða er víman af henni svona rosaleg?
Óvissa um fjármögnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.11.2008 | 19:48
Fjölmiðlalögin aftur upp á ríkisstjórnarborðið
Fjölmiðlar eru skoðanamyndandi í þjóðfélaginu. Þeir ráða hvað birtist og hvað ekki birtist í fjölmiðlum og einnig hversu mikla og djúpa umfjöllun mál fá.
Dreifð eignaraðild er það eina, sem getur tryggt sanngjarna og eðlilega umfjöllun fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi. Sú þróun, sem við séð á undanförnum árum, er stórhættuleg lýðræðinu í landinu. Undanfarna daga höfum við séð svart á hvítu hvernig auðmenn hafa misnotað sína aðstöðu til að kasta ryki í augu almennings.
Á tímum sem þessum, þegar hálfgerð upplausn er á fjármálamarkaði og eigur landsmanna og auðmanna ganga kaupum og sölum er gegnsæi mikilvægara en nokkurn tíma áður. Með setningu stjórnsýslulaga og upplýsingalaga var gegnsæi og ábyrgð aukin í opinberri stjórnsýslu á Íslandi. þetta var gert í tíð Davíðs Oddssonar og af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Fjölmiðlalögin áttu einnig að vera spor í þá átt að tryggja eðlilega gagnrýna umræðu fjölmiðla í þjóðfélaginu. Í stað þess að styðja við þessi bráðnauðsynlegu lög ákváðu Samfylkingin og VG að nota málið í pólitískum hráskinnaleik og til að klekkja á ríkisstjórninni og þó sérstaklega Davíð Oddssyni.
Í umboði Samfylkingarinnar og VG hafa auðmenn landsins nú stjórnað umræðunni undanfarin ár og þannig komið í veg fyrir eðlilegt eftirlit fjölmiðla með útrásinni, bönkunum og stórfurðulegum fjárfestingum Íslendinga hér á landi og erlendis.
Vissulega báru stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins mikla ábyrgð á því hvernig málum eru fyrirkomið í dag. En hvar voru fjölmiðlar? Hvernig stóð á að gagnrýn umræða í garð auðmanna átti sér alls ekki stað, þrátt fyrir að allar viðvörunarbjöllur hafi hringt og fjöldi erlendra fjölmiðla hafi gert sér mat úr feigðarför víkinganna. Getur ekki einmitt verið að eignarhaldið á fjölmiðlum hafi komið í veg fyrir eðlilega rannsóknarblaðamennsku og ýtt undir hversu mjög fjölmiðlar göptu upp í útrásarpésana.
Það hlýtur að vera krafa okkar sjálfstæðismanna, að tryggt verði að fjölmiðlalögin verði aftur sett á dagskrá Alþingis. Hvort þau verða samþykkt í þeirri mynd, sem þau voru eða í nýrri mynd er mér sama um, en ljóst er að lögin voru nauðsynleg á sínum tíma og eru það enn.
Félag Jóns Ásgeirs keypti fjölmiðla 365 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.11.2008 | 09:37
Sjálfstæðismenn: vinnum að breytingum innan flokksins ...
Því miður eru allar mínar hrakspár að ganga eftir og í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri sýnir sig, að Sjálfstæðisflokkurinn er orðið þriðja stærsta stjórnmálaaflið á Íslandi. Það er þó mikill misskilningur í gangi hjá vinstra liðinu í landinu, að kjósendur séu að færa sig til vinstri og að hægri menn sveiflist yfir í VG eða Samfylkinguna eins og ekkert sé!
Nei, stór hluti hófsamra sjálfstæðismanna er genginn í "Hægri flokk óákveðinna", en eftir sitja frjálshyggjumennirnir og nokkrir íhaldshundar á borð við sjálfan mig, sem eiga hvergi annarsstaðar heima. Þessi Flokkur óákveðinna - sem er reyndar aðeins stærri en Samfylkingin - verður örlagavaldurinn í næstu kosningum. Þetta finnast mér vera staðreyndir, sem liggja í augum uppi. Með þessu brotthlaupi sínu eru sjálfstæðismenn annaðhvort að lýsa yfir óánægju sinni með efnahagsástandið eða stærsta ágreiningsmálið innan flokksins í dag, sem er hvort fara eigi í aðildarviðræður og stefna að ESB aðild eður ei.
Það þarf engum blöðum um að fletta, að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið brugðust á undanförnum árum og þar á bæ verða menn að axla ábyrgð og fara. Einnig má vera, að þegar betur kemur í ljós, hver ber ábyrgð í þessu máli, þá verði einhverjir stjórnmálamenn að taka pokann sinn. Ég set þó stórt spurningamerki við það, hvort einhverjir stjórnmálamenn hefðu yfirleitt getað séð fyrir þá hörmunaratburði, sem yfir okkur hafa dunið á undanförnum vikum. Þetta er þó ekki fullkomin afsökun, því stjórnmálamennirnir hefðu átt að heyra í þeim viðvörunarbjöllum, sem hringdu víða hér á landi og erlendis undanfarin ár. Þetta mega stjórnmálamenn í öðrum flokkum, fjölmiðlar, "hagdeildir" bankanna, sumir "fræðimenn" og almenningur einnig taka til sín.
Hvað sem öðru líður vil ég spyrja: er rétta leiðin að segja sig frá stjórnmálaflokki, þegar maður er ósammála afstöðu forystumanna eða frammistöðu þeirra í einhverju einstöku máli. Nei, það er að mínu mati röng aðferð. Fyrst á að reyna að vinna þeim breytingum, sem maður vill gera á flokknum sínum brautargengis. Sé ágreiningurinn hins vegar svo djúpstæður og málið það mikilvægt, geta aðstæður kallað á, að nauðsynlegt sé að yfirgefa flokkinn og þá ekki endilega til að ganga í annan flokk, heldur hugsanlega með það að markmiði að stofna nýjan flokk.
Haldi fram sem horfir - þ.e.a.s. með fylgistapi og stjórnleysi innan flokksins og sé það vilji meirihluta flokksmanna - gæti þurft að gera breytingar á forystunni. Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu er slíkt þó örþrifaráð. Forusta flokksins verður þó að gera sér grein fyrir því, að á einum mánuði hafa allar forsendur breyst og í kjölfarið hefur hugsunarhátturinn í þjóðfélaginu og innan flokksins breyst. Þetta krefst hreinlega einhverra áherslubreytinga varðandi stefnu og hugmyndafræði flokksins, s.s. fráhvarf frá óheftri frjálshyggju og brotthvarf til fyrri gilda flokksins, sem miðju og hægri flokks. Þessu hef ég - og reyndar mikið fleiri - talað fyrir í nokkur ár en lítið verið hlustað.
Þær breytingar, sem ég vil að verði á Sjálfstæðisflokknum er að hann breytist í hófsamari hægri flokk og að hann styðji aðildarviðræður að ESB. Fyrir aðildarviðræðurnar verðum við að skilgreina vel ströng skilyrði fyrir aðild, t.d. í þá átt að íslenskur landbúnaður og sjávarútvegur geti þrifist í landinu til langframa - þar má ekkert gefa eftir!
Það hugnast mér illa að eftirláta Samfylkingunni einni að semja um aðild að ESB!
Samfylking með langmest fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.11.2008 | 13:12
Krónan - minningargrein
In memorian
Þegar krónan fæddist var hún frekar veikburða, en hafði þó mikinn stuðning frá foreldrum sínum í Danaveldi fyrstu æviárin. Á barns- og unglingsárunum náði krónan sér síðan aldrei verulega á strik, þótt hún væri landsmönnum til yndisauka, þar sem hún minnti þá á að þeir voru orðin frjáls og fullvalda þjóð. Vegna heilsuleysis treysti krónan sér nær alla tíð aldei í ferðalag til útlanda og lítill áhugi virtist vera hjá útlendingum að bjóða henni til síns heima. Því hefur krónan að mestu haldið sig á heimaslóðum alla sína ævi.
Þrátt fyrir heilsuleysið náði hún sér aðeins á strik einu sinni eða tvisvar á sinni stuttu en lánlausu ævi. Lánið var þó alltaf skammvinnt og það var líkt og örlögin vildu ekki að krónan nyti sannmælis á borð við aðrar myntir. Ítrekuð áföll og mótlæti voru hennar örlög og oft var henni hreinlega ekki hugað líf, t.d. árunum 1971 - 1991. Krónan hafði á þessum tíma þó ekkert val og þótt þjóðin elskaði hana ekki, þarfnaðist hún hennar, þar sem um engan annan valkost var að ræða! Krónan barðist því af veikum mætti fyrir lífi sínu og þjónustaði landsmenn eins og hún gat lengst af ævi sinnar. Það var ekki hennar sök að hún var veik og vanmáttug og því fyrirgáfu landsmenn henni jafnan.
Það má segja, að aðeins með hjálp nútíma haglæknisvísinda hafi tekist að koma lífi aftur og aftur í krónuna. Oft á tíðum jafnaði hún sig síðan nær fullkomlega og eftir að tekið var upp á að senda hana á heilsuhæli í Hveragerðis á nokkurra ára fresti, átti hún nokkur góð ár. Krónan fékk síðan vægt áfall árið 2001-2002. Á þessum tímapunkti hefði mönnum átt að vera ljóst, að tími var kominn til að senda hana á eftirlaun. Mikill er máttur nútíma læknavísinda og með mikilli inngjöf af peningamagni beint í æð og með því að gefa henni róandi og örvandi lyf á víxl, tókst að halda í krónunni lífi í nokkur ár til viðbótar.
Gömlu ráðin, sem þeir höfðu notað áratugum saman dugðu einfaldlega ekki lengur. Árið 2004 ákvað krónan, háöldruð og fárveik að láta draum sinni rætast og fara heimsreisu - það var feigðarför. Í þessu ferðalagi sínu veiktist hún af nýjum og óþekktum "græðisvírus". Auk þess komst hún í kynni við óprúttna aðila, sem seldu öllum sem hafa vildu hluta líffæra hennar. Sum líffæranna margseldu þeir jafnvel. Ónæmiskerfið réði ekki neitt við neitt og framhaldið þekkjum við.
Allt frá árinu 2007 hefur mátt sjá, að heilsu krónunnar hrakaði mjög hratt. Undanfarna mánuði er hún síðan búin að vera á gjörgæsludeild og nær meðvitundarlaus. Því miður gerðu læknarnir hver mistökin á fætur öðru í endurlífgunartilraunum og bætti það ekki úr skák. Óljóst er hvort mannlegum mistökum er um að kenna eða vankunnáttu. Réttarlæknar munu skera úr um það.
Nú liggur hún dáin og alein í líkhúsinu. Krónan var lengst af vinafá og átti sér aðeins örfáa aðdáendur. Nú síðustu mánuðina hafa flestir þessara örfáu vina snúið baki við henni og fáir heimsóttu hana á banalegunni. Jafnvel Hannes Hólmsteinn Gissurarson afneitaði næstum krónunni í Kastljósinu í gærkvöldi. Vanþakklæti eru laun heimsins.
Það eru þó örfáir aðilar, sem enn halda tryggð við krónuna og það jafnvel eftir að hún er dáin. Ég vil færa Geir Haarde, Agli Jóhannessyni, Hirti J. Guðmundssyni og félagasamtökunum LÍÚ öðrum aðstandendum krónunnar innilegar samúðarkveðju á þessari ögurstundu.
Ég veit af eigin reynslu að það er erfitt fyrir aðstandendur horfast í augu við sannleikann, að horfast í augu við dauðann, því hann er sár. Staðreyndirnar tala þó sínu máli og krónan er látin og við verðum að sætta okkur við það. Við skulum því öll leggjast á bæn og biðja fyrir krónunni, nú þegar hún er lögð af stað í sitt síðasta ferðalag.
Kæru vinir, ég hef varla brjóst í mér til að segja ykkur sannleikann, en sé mig samt tilknúinn til þess. Sum ykkar virðast jafnvel halda - í ykkar einlægu barnstrú - að hægt sé að endurvekja krónuna. Sannleikurinn er, að dauðinn er grimmur og krónan mun ekki snú aftur. Aðeins er vitað um eitt slíkt kraftaverk og það átti sér stað fyrir um 2008 árum síðan.
En hafið samt hugfast á þessum erfiðu tímum, að það er líf fyrir krónuna okkar eftir dauðann. Í himnaríki krónunnar er fjöldinn allur af öðrum myntum, sem hlotið hafa sömu örlög og þar ríkir eilíf sæla og hamingja fyrir allar fyrrverandi myntir þjóða heimsins.
Amen.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.10.2008 | 13:26
Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson og fleiri - viljið þið Sjálfstæðisflokkinn dauðan?
Á undanförnum árum hefur bullandi launaskrið einkennt alla hópa vinnandi fólks nema opinbera starfsmenn, sem hafa dregist verulega aftur úr öðrum launafólki landsins.
Engar kjarabætur fengust fyrir þetta í síðastu kjarasamningum og núna vill Sigurður Kári Kristjánsson lækka laun opinberra starfsmanna.
Hvað með öryggið hjá opinberum starfsmönnum, en það eru þau rök, sem við höfum þurfað að hlusta á frá örófi alda fyrir því að vera á lægstu launum í samfélaginu.
Sigurður Kári Kristjánsson, ég veit ekki hvað ég og aðrir opinberir starfsmenn eru yfirleitt að kjósa þennan flokk.
Það styttist í, að við hægri kratar neyðumst til að segja okkur úr Sjálfstæðiflokknum til að stofna okkar eigin flokk og yfirgefum ykkur frjálshyggjumennina.
Það verða þung spor þegar ég þarf að yfirgefa gamla flokkinn minn eftir 31 ár og áratuga starf í þágu hans.
Veltu fyrir þér í nokkrar mínútur hversu margir frjálshyggjumenn eru á Íslandi í dag.
Niðurskurður en ekki skattar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.10.2008 | 21:32
Sterkt til orða tekið eða hvað?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.10.2008 kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.10.2008 | 19:41
Elskum við eða hötum við'ana, blessaða, helvítis krónuna!
Fyrst skilgreining frá Seðlabanka Íslands:
Stýrivextir
Stýrivextir eru þeir vextir, sem yfirvöld nota til að reyna að hafa áhrif á markaðsvexti. Víðast eru þetta vextir á einhvers konar seðlabankaútlánum eða -innlánum. Tilgangur með hækkun slíkra vaxta getur verið að draga úr ofþenslu og verðbólgu eða hækka gengi gjaldmiðils. Hér á landi eru stýrivextir þeir vextir, sem Seðlabanki Íslands ákveður á fyrirgreiðslu við lánastofnanir í formi svokallaðra lána gegn veði (áður endurhverf verðbréfaviðskipti), en í þeim viðskiptum geta lánastofnanir fengið fé að láni frá Seðlabankanum í 7 daga gegn veði í skuldabréfum.
Og svo eitthvað frá mér:
Stýrivextir á Íslandi í dag
Ljóst er að stýrivextir á Íslandi í dag eru 18%. Hækkun stýrivaxta hjá Seðlabanka Íslands í dag var upp á 6%.
Stýrivextir í Bandaríkjunum í dag eru 1,5%, eða 1/4 af hækkun stýrivaxta hjá Seðlabanka Íslands í dag.
Þetta jafngildir einnig því, að stýrivextir séu 12 sinnum hærri á Íslandi í dag en í Bandaríkjunum. Á sama hátt má segja, að stýrivextir á Íslandi í dag séu 4,8 sinnum hærri en innan ESB og um 3,5 sinnum hærri en í Noregi.
Munið, að yfirdráttarvextir í neðangreindum löndum og yfirdráttarvextir á krítarkortun o.s.frv. eru aðeins hærri en sjá má hér að neðan, en ekki afar mikið. Verðbólgustigið í löndunum segir heilmikið til um stýrivextina, því stýrivextirnir eru sjaldan eða aldrei lægri en verðbólgan, en þó eru auðvitað undantekningar frá þeirri reglu eins og öllum reglum.
Stýrivextir í nokkrum löndum
- Ísland - 18,00%
- ESB - 3,75%
- Bandaríkin - 1,50%
- Kanada - 2,25%
- Noregur - 5,25%
- Danmörk - 5,50%
- Svíþjóð - 4,25%
- Slóvakía - 3,75%
- Ísrael - 3,50%
- Kórea - 4,25%
- Nýja Sjálands - 6,5%
- Ungverjaland - 11,5%
- Víetnam -13,00%
- Indland - 8,00%
- Sameinuðu arabísku furstadæmin - 1,50%
- Kúvæt - 4,50%
- Kína - 3,87%
- Ástralía - 6,00%
Stýrivextir hækkaðir um 6 prósentur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.10.2008 kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.10.2008 | 08:08
Geir talar um nokkur ár - Þorgerður um nokkra mánuði
Það er deginum ljósara, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur rétt fyrir sér og Geir Hilmar Haarde hefur rangt fyrir sér, hvað varðar ákvarðanatöku um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til ESB aðildar. Það er ekki hægt að bíða í nokkur ár, heldur í allra mesta lagi í nokkra mánuði með ákvörðun um aðild landsins að ESB. Flýta verður Landsfundi flokksins og halda hann í janúar eða í febrúar. Þegar 70% þjóðarinnar aðhyllast ESB aðild má búast við kosningum um þetta mál næsta vor. Þjóðin mun sjá til þess á einn eða annan hátt. Sjálfstæðisflokkurinn verður að hafa breytt um afstöðu í þessu máli fyrir þann tíma, því líf flokksins eru undir og staða hans, sem stærsta flokks landsins.
Yfir 40% kjósenda eru ókveðnir eða munu skila auðu í næstu kosningum, sbr. umfjöllun Fréttablaðsins fyrir nokkrum dögum. Stór hluti þessa fólks eru sjálfstæðismenn, sem ekki eru sáttir við stefnu síns flokks í Evrópumálum.
Af þessum 60% kjósenda, sem afstöðu taka, eru aðeins 29% á því, að þeir vilji kjósa Sjálfstæðisflokkinn og rúmur helmingur af þeim - eða 50,5% - virðist aðhyllast ESB aðild. Þarf vitnanna við, hvað á að gera?
Fyrir utan Þorgerði Katrínu virðist þingflokkurinn standa að baki formanninum, sem undir venjulegum kringumstæðum væri gott. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins standa hins vegar að baki Þorgerði Katrínu í þessu máli og á þá verður að hlusta. Það er ekkert mál að útvega nýjan þingflokk og flestum þeirra - alla vega frjálshyggjupésunum - verður hvort sem er skipt út í næsta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins eða í síðast lagi í þingkosningum og þá ekki síst ef þeir skipta ekki um skoðun á aðild að ESB. Sumir þessara manna ættu nú þegar að fara að svipast um eftir vinnu.
Það þurfa menn að víkja og síðan verðum við Sjálfstæðismenn að grafa upp hina gömlu, góðu og sígildu sjálfstæðisstefnu og setja hana á oddinn ásamt aðild að ESB. Það er lykillinn okkar að velgengni í framtíðinni.
Það er mikill misskilningur, að Íslendur hugsi eins og aðrir Norðurlandabúar, þegar kemur að stjórnmálum. Á Íslandi eru um 50% þjóðarinnar hægra fólk en ekki vinstri fólk og það breytist ekki svo glatt! Hafa ber það hugfast!
Þorgerður: Taka þarf afstöðu til ESB og evru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2008 | 09:39
Evru í stað krónu - stöðugleika í stað óðaverðbólgu og gengishruns
Niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins ríma við vel skrif mín hér á vefnum undanfarna mánuði - eða á ég í millitíðinni að segja undanfarið ár! Í dag eru hvorki meira en minna en 70% þjóðarinnar hlynnt ESB aðild.
Meira að segja eru 50,5% af þeim 29%, sem enn kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eru hlynnt ESB aðild. Þar sem Sjálfstæðismenn, sem ekki eru hlynntir aðild, eru um 14% landsmanna, þá er afganginn - 15% - að finna í VG og Framsóknarflokknum.
Spurning er hversu lengi þessi rúmi helmingur sjálfstæðismanna, sem enn eru eftir í flokknum, bíða eftir landsfundi til að fá að útkljá þessi mál? Fari hlutirnir svo að ESB aðild verður ekki samþykkt á Landsfundi má búast við að mikið fylgi plokkist af Sjálfstæðisflokknum og að hann hafi niður í 18-20% fylgi. Ástæðan fyrir því að 50,5% af 29% fylgi fer ekki forgörðum, eru sauðtryggir kjósendur flokksins á borð við sjálfan mig.
Líkt og ég bloggaði um í gær eru 35% kjósenda enn óákveðnir og stór hluti af þessum kjósendum eru eflaust þeir, sem vita ekki sitt rjúkandi ráð vegna efnahagsástandsins. Enginn veit, hvort þetta fólk lítur á aðild að ESB sem lausn vandamálanna, en niðurstaða þess efnis að 70% þjóðarinnar sé fylgjandi aðild, styður þó þá skoðun.
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er kominn niður í 18-20% og nægt framboð er af ESB hægri krötum er ólíklegt að einhverjir fyrrverandi og núverandi sjálfstæðismenn hugsi sér ekki gott til glóðarinnar og stofni ESB hægri flokk. Slíkur flokkur væri með ósköp svipaða stefnuskrá og núverandi Sjálfstæðisflokkur - nema kannski að hún yrði örlítið hægri kratískari. Með því að velja hægri kratíska stefnu væri hægt að ná í þá kjósendur, sem ónægðir hafa verið með hægri frjálshyggjusveiflu Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar undanfarin ár og aðhyllast hin gömlu gildi flokksins Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins - stétt með stétt, flokkur litla mannsins auk þess, sem hægt væri að gleypa fylgi Frjálslyndra í einum bita. Með því að lýsa yfir stóriðjustoppi eftir Bakka gæti þessi hægri ógn okkar sjálfstæðismanna nælt í nokkra hægri græna. Hægra fólk breytist ekki í komma yfir nóttu - svo mikið er víst!
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins átta sig vonandi á að stórhætta er á slíkri fléttu eins og málum er háttað í dag!
Verðbólgan nú 15,9% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.10.2008 | 13:08
Léttir fyrir okkur sjálfstæðismenn
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins kjósa:
- 36% Samfylkinguna
- 29% Sjálfstæðisflokkinn
- 23% VG
- 7% Framsóknarflokkinn
- 4% Frjálslynda
Minnihluti styður stjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.10.2008 kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Viðurkenni, að ég er bullandi meðvirkur ...
Ég vil byrja á að taka fram, að ég er flokksbundinn sjálfstæðismaður og mjög virkur þáttandi í flokknum. Ég er sennilega það sem kallað eru íhaldsmaður og stefna Sjálfstæðisflokksins er mín stjórnmálastefna, sem ég aðhyllist fölskvalaust. Þrátt fyrir það er ég búinn að aðhyllast ESB aðildarviðræður í rúmlega eitt ár. Ég sé ekkert ósamræmi í þessu tvennu og þar er ég ekki einn á báti, því samkvæmt nokkrum skoðanakönnunum er rétt rúmur helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins hlynntur ESB aðild og stuðningsmönnum fer frekar fjölgandi en fækkandi.
Áhugaleysi forystu flokksins
Ég verð að viðurkenna, að ég er svolítið hissa þessa dagana hversu margir í forystu Sjálfstæðisflokksins - og margir sjálfstæðismenn yfirleitt - virðast ekki hafa nokkurn áhuga á að vita hvað meirihluti kjósenda flokksins vill. Gildir þar einu, hvort um er að ræða afstöðu venjulega sjálfstæðismanna til uppgjörs varðandi, hver ber ábyrgð á falli bankanna og efnahagskreppunni, gamla kvótakerfið, ESB aðild eða einhver önnur ágreiningsatriði innan flokksins!
Af nornaveiðum, brottkasti og ESB bákninu
Eðlilegt uppgjör við þá, sem ábyrgð bera á núverandi ástandi er kallað "nornaveiðar" og má alls ekki fara fram, heldur á að reyna að þagga þetta niður og fela hvað í raun gerðist undanfarin 3-4 ár.
Stórgallað fiskveiðistjórnunarkerfi er lofað og prísað, þrátt fyrir að allir viti, að kerfið virkar alls ekki nógu, hvað vernd fiskistofnanna varðar auk þess sem þjóðin þurfti að horfa upp á sína "eign" úthlutað oft á tíðum á vafasömum forsendum.
Þegar ESB aðild ber á góma er gaman að fylgjast með svörum minna forystumanna. Aðildin er ýmist ekki á dagskrá eða á dagskrá. Ef hún er á dagskrá, þá hefur hún líka alltaf verið á dagskrá og að auki mikið áhugamál forystufólks flokksins. Sumir segja að endurskoða verði afstöðu flokksins innan nokkurra mánaða, en aðrir segja að það eigi að gera innan nokkurra ára á meðan enn aðrir vilja helst aldrei ganga í ESB. Allar þessar skoðanir hafa birst undanfarna daga, t.d. í samtölum við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Geir H. Haarde í dag og Árna Johnsen á Alþingi í dag. Viðtalið við Sigurð Kára Kristjánsson í morgun var þó merkilegast af þeim öllum, því í einu og sama viðtalinu lýsti hann yfir áhuga á að skoða aðild að ESB þegar allt væri komið í lag eftir nokkur ár, en hafði einnig áhuga á að skoða málin fljótlega í ljósi breyttra aðstæðna eða jafnvel að ganga aldrei í ESB, þar sem aðild hentaði okkur hreinlega ekki - það var engu líkara en maðurinn væri geðklofa!
Blanda af ólýðræðislegum hugsunarhætti og algjöru áhugaleysi á skoðunum umbjóðenda sinna
Þessi ólýðræðislega hegðun og áhugaleysi forystumanna Sjálfstæðisflokksins á skoðunum þeirra, sem þessir menn hafa umboð sitt frá, er flokknum hreint út sagt stórhættulegt. Ég vil taka það fram, að ég vil alls ekki að mínir forystumenn verði lýðskrumarar á borð við forystu Samfylkingarinnar, en einhvern milliveg hlýtur að vera hægt að finna.
Það skal í ykkur, hvort sem þið viljið þetta eða ekki!
Þetta minnir mig óneitanlega á þegar ég var barn. Pabbi minn var togaraskipstjóri og fólk á mínu heimili sat og stóð eins skipstjórinn sagði. Það var aðeins borðað á "glasi" - klukkan 12.30 og 18.30 og það var heragi á heimilinu, þegar hann var heima. Við dáðum og elskuðum auðvitað "kallinn" hann pabba og fannst þessi "milíterismi" skemmtileg afþreying frá "liberalisma" mömmu, því á þessum tíma voru sjómenn eiginlega alltaf úti á sjó.
Er pabbi var heima var fiskur í flest mál og þegar við bræðurnir vorum búnir að fá nóg af fiskinum og mótmæltum, þá hló pabbi og gerði að gamni sínu - en var að sjálfsögðu fullkomin alvara. Hann sagði - líkt og forystumenn Sjálfstæðisflokksins í dag:
"Þetta skal í ykkur, hvort sem þið viljið þetta eða ekki!"
Þessi merkilega ólýðræðislega hegðun af hálfu forystumanna Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár - sem maður samþykkti sem krakki - er farin að pirra mig svo um munar núna þegar maður hefur aðeins fullorðnast!