Komum okkur aftur að efninu - ræðum stjórnmál!

irska_thingid_829160.jpgÉg rakst á athyglisvert blogg Andra Geirs Arinbjarnarsonar, þar sem hann fór yfir skattatillögur írsku ríkisstjórnarinnar, sem lagðar voru fram í aukafjárlagafrumvarpi fyrir írska þingið 7. apríl síðastliðinn. Í þeim tillögum var enn hert á þeim aðhaldsaðgerðum, sem tilkynntar voru fyrir nokkrum mánuðum. Í stuttu máli felast skattatillögurnar í 25,000 kr. aukaskatti á mánuði á hvert heimili árið 2009, aðrar 24,000 kr. árið 2010 og enn aðrar 20,000 kr. árið 2011. Samtals eykst skattbyrði Íra því til ársins 2011 um 69,000 kr. á mánuði á hverja 4 manna fjölskyldu. Ég sel þessar tölur ekki dýrara en ég keypti þær, en vona að þær séu a.m.k. ýktar!

Er svipaður pakki á leiðinni inn á Alþingi Íslendinga og þá sem aukafjárlög í maí næstkomandi? Tekjutap ríkisins er eitt og sér gífurlegt vandamál og það gerir "blandaða leið VG" (skattahækkanir & niðurskurð) hugsanlega nauðsynlega, þótt ekki aðhyllist ég skattahækkunarleiðina. Um útfærsluna á slíkum hækkunum og niðurskurðinum er síðan hægt að deila um. Ég aðhyllist í það minnsta ekki leiðir vinstri manna í þeim efnum. Til viðbótar við tekjutap ríkissjóðs bætast síðan við vextir og afborganir af erlendu lánunum sem við sitjum uppi með. Stærðargráðan á halla ríkissjóðs - 30-35% - gerir það að verkum, að skattahækkanirnar og niðurskurðurinn eru svo miklar að áhöld eru upp um hvort við ráðum yfirleitt við slíkt ástand.

peningar_2_jpg_550x400_q95_829161.jpgEf skattahækkanir hér á landi verða svipaðar og hjá Írum erum við að ganga af heimilunum og fyrirtækjunum dauðum. Þær minnka þjóðarkökuna enn meira en orðið er og koma í veg fyrir nýsköpun og þann dugnað sem við þurfum á að halda til lausnar kreppunni. Skattahækkanir auka við vandamálin en minnka þau ekki. Lausnin er í senn einföld en erfið. Hún er fólgin í hóflegum niðurskurði á ríkisútgjöldum en fyrst og fremst í að framleiða meira og flytja meira út en við flytjum til landsins. Við höfum þegar tekist á við innflutninginn og nú er að takat á við útflutninginn. Einungis með því að virkja kraftinn í þjóðinni komum við hjólum atvinnulífsins af stað aftur, höldum í þá samneyslu sem við teljum nauðsynlega og aukum einkaneysluna. Við Íslendingar viljum hafa það gott og við viljum búa við gott mennta-, heilbrigðiskerfi og aðra nauðsynlega opinbera þjónustu.

landspitalinn_829162.jpgEf niðurskurðurinn hjá hinu opinbera verður of mikill gerir það að verkum að þjónustustig í menntun og heilbrigðisþjónustu færist áratugi aftur í tímann. Stór hluti þjóðarinnar mun ekki láta sér þetta lynda fyrir sig og sína afkomendur og flytur af landi brott. Í þjóðflutningum af þeirri stærðargráðu er 10-20% flytja úr er engin lausn fólgin, heldur enn meiri vandi. Það verður unga og duglega fólkið sem fer á meðan þeir sem miðaldra eru halda kyrru fyrir í húsum sínum og eldri borgarar og þeir sem minna mega sín verða eftir í landinu. Í kjölfarið verður síðan að hækka skattana á þá sem eftir verða og vinnu hafa. Við endum í óleysanlegum vítahring, sem lönd Austur-Evrópu hafa þurft að glíma við á undanförnum árum.

Ég benti á leið nauðasamninga strax í haust þegar ég efaðist um burði okkar til að komast út úr vandanum sem við erum í. Ef virkilega engin leið önnur er fær, verðum við að viðurkenna það fyrir sjálfum okkur og umheiminum og hafa þor til að semja við lánadrottna og AGS um málið. Takist samningar ekki verður að segja upp samstarfinu við AGS og reyna aðra leiðir út úr þessum vanda.

karahnjukar_829165.jpgSú lausn sem mér hugnast felst í stórfelldri atvinnuuppbyggingu, sem byggir á náttúruauðlindum okkar: jarðorkunni, vatnsorkunni og hugsanlega olíunni. Hin hliðin á teningnum, sem ekki er hægt að útiloka, eru sem fyrr segir nauðasamningar við lánadrottna, þar sem hagsmundir Íslendinga verða í fyrirrúmi. Miðað við það ástand sem Andri lýsir hér að ofan að ríkja muni í Írlandi er jafnvel tímabundin einangrun lands í kjölfar slíkra nauðasamninga skárri kostur en niðurskurður og skattahækkanir sem þjóðin hvorki getur eða vill borga!

folk_829168.jpgVið þurfum kraftmikið, ungt fólk með framtíðarsýn við stjórnvölinn en ekki þreytt, ráðþrota fólk sem þorir ekki að ræða vandamálin og þorir ekki að segja hvað það raunverulega ætlar að gera eftir kosningar.

Við þurfum fólk við stjórnvölinn, sem þorir að takast á við ástandið með þeim trompum sem við Íslendingar höfum á hendi - auðlindunum og mannauðnum okkar!

Við þurfum að skapa 20.000 störf næsta kjörtímabili og með þeirri uppbyggingu náum við inn meiri tekjum í ríkissjóð, komum í veg fyrir meiri niðurskurð og sjáum hallalaus fjárlög árið 2012.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Góður pistill.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.4.2009 kl. 16:01

2 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Ég er allavega ekki að fara að sjá VG eða Samfylkingu fara auka störf, ég myndi frekar að þeirra aðal mál sé skattahækkun, en þetta vill fólk víst, miðað við síðustu kannanir allavega.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 13.4.2009 kl. 16:43

3 identicon

mér finnst "sjálfstæðis"fólk vera skjóta sig doldið í fótinn með því að vera með þennan hræðsluáróður um fyrirhugaðar skattahækkanir ( ef þær verða) því ég veit ekki ekki betur en Árni M og Geir H hafi einmitt boðað mikinn niðurskurð og auknar álögur áður en sú stjórn féll, en málið er auðvitað að þá átti að hlífa þeim seim nóg hafa á handa milli og átti að sækja þetta aukna skattfé í grunna vasa láglaunafólks.

En aðal útgangspunkturinn er auðvitað sá að sjallar VORU BÚNIR að boða aukna skattaálögur og gríðarlegan niðurskurð.

Hitt er svo annað mál að reka hallalausan ríkissjóð, því er ég fylgjandi en að ætla sér að fara reka ríkissjóð sem einhverja gróðamiðstöð fyrir misvitra pólíkusa er auðvitað útí hött, ríkissjóð á að reka á jöfnu s.s á núlli.

Bestu kveðjur úr Kraganum. 

Sigurður H (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 18:50

4 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Frábær pistill og tek heilshugar undir hann. Nú eru 12 dagar í kosningar og tími til kominn að við hættum að ræða þessa styrki flokkana. Sem aldrei fyrr er þörf á að við ræðum stefnumál flokkana og þær úrbætur sem teljast nauðsynlegar til að stuðla að endurreisn þjóðarinnar.

Hilmar Gunnlaugsson, 13.4.2009 kl. 19:25

5 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Ég skil vel þá Sjálfstæðismenn (sem og Framsókn og Samfylkingu) sem vilja ýta til hliðar umræðu um fjárstyrki til flokka sinna en við hana verða menn nauðugir viljugir að búa fram að kosningum, enda þar mál á ferðinni sem óhjákvæmilegt er að verði upplýst, ekki bara til málmynda.

Ég tek hins vegar undir með Guðbirni í málefnalegu innleggi hans að önnur og stærri vandamál blasa við til úrlausnar. Það var athyglisvert að hann rifjaði upp stöðuna á Írlandi um þessar mundir, m.a. í ljósi þess að Írar hafa um áratugi verið í Evrópusambandinu og búið við evru sem gjaldmiðil. Nú sitja þeir reyrðir í viðjar Myntbandalagsins og eiga ekki annars úrkosti en skera niður ríkisútgjöld og knýja fram stórfelldar launalækkanir hjá þorra almennings.

Hérlendis blasa auðvitað við miklar þrengingar, en ég mæli ekki með því að við þeim verði brugðist með áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum sem litið til baka eru hluti af því hruni sem hér varð (Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál o.fl.) sl. haust.

Ég hvet þá sem lesa þessar línur, og eiga þess kost, að fara og sjá kvikmynd Sigurðar Gísla Pálmasonar, Draumalandið. Viðtalið við hann í Fréttablaðinu sl. laugardag var líka mjög gott að mínu mati og hann vísaði þar í leiðir út úr erfiðleikunum.

Hjörleifur Guttormsson, 13.4.2009 kl. 20:38

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Er alveg öruggt að þessar írsku tölur séu réttar ?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.4.2009 kl. 20:44

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ómar Bjarki:

Ég fékk þetta blogg sem ábendingu frá mjög ábyrgum aðila, sem að sögn var búinn að staðreyna tölurnar.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 18.4.2009 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband