Komum okkur aftur að efninu - ræðum stjórnmál!

irska_thingid_829160.jpgÉg rakst á athyglisvert blogg Andra Geirs Arinbjarnarsonar, þar sem hann fór yfir skattatillögur írsku ríkisstjórnarinnar, sem lagðar voru fram í aukafjárlagafrumvarpi fyrir írska þingið 7. apríl síðastliðinn. Í þeim tillögum var enn hert á þeim aðhaldsaðgerðum, sem tilkynntar voru fyrir nokkrum mánuðum. Í stuttu máli felast skattatillögurnar í 25,000 kr. aukaskatti á mánuði á hvert heimili árið 2009, aðrar 24,000 kr. árið 2010 og enn aðrar 20,000 kr. árið 2011. Samtals eykst skattbyrði Íra því til ársins 2011 um 69,000 kr. á mánuði á hverja 4 manna fjölskyldu. Ég sel þessar tölur ekki dýrara en ég keypti þær, en vona að þær séu a.m.k. ýktar!

Er svipaður pakki á leiðinni inn á Alþingi Íslendinga og þá sem aukafjárlög í maí næstkomandi? Tekjutap ríkisins er eitt og sér gífurlegt vandamál og það gerir "blandaða leið VG" (skattahækkanir & niðurskurð) hugsanlega nauðsynlega, þótt ekki aðhyllist ég skattahækkunarleiðina. Um útfærsluna á slíkum hækkunum og niðurskurðinum er síðan hægt að deila um. Ég aðhyllist í það minnsta ekki leiðir vinstri manna í þeim efnum. Til viðbótar við tekjutap ríkissjóðs bætast síðan við vextir og afborganir af erlendu lánunum sem við sitjum uppi með. Stærðargráðan á halla ríkissjóðs - 30-35% - gerir það að verkum, að skattahækkanirnar og niðurskurðurinn eru svo miklar að áhöld eru upp um hvort við ráðum yfirleitt við slíkt ástand.

peningar_2_jpg_550x400_q95_829161.jpgEf skattahækkanir hér á landi verða svipaðar og hjá Írum erum við að ganga af heimilunum og fyrirtækjunum dauðum. Þær minnka þjóðarkökuna enn meira en orðið er og koma í veg fyrir nýsköpun og þann dugnað sem við þurfum á að halda til lausnar kreppunni. Skattahækkanir auka við vandamálin en minnka þau ekki. Lausnin er í senn einföld en erfið. Hún er fólgin í hóflegum niðurskurði á ríkisútgjöldum en fyrst og fremst í að framleiða meira og flytja meira út en við flytjum til landsins. Við höfum þegar tekist á við innflutninginn og nú er að takat á við útflutninginn. Einungis með því að virkja kraftinn í þjóðinni komum við hjólum atvinnulífsins af stað aftur, höldum í þá samneyslu sem við teljum nauðsynlega og aukum einkaneysluna. Við Íslendingar viljum hafa það gott og við viljum búa við gott mennta-, heilbrigðiskerfi og aðra nauðsynlega opinbera þjónustu.

landspitalinn_829162.jpgEf niðurskurðurinn hjá hinu opinbera verður of mikill gerir það að verkum að þjónustustig í menntun og heilbrigðisþjónustu færist áratugi aftur í tímann. Stór hluti þjóðarinnar mun ekki láta sér þetta lynda fyrir sig og sína afkomendur og flytur af landi brott. Í þjóðflutningum af þeirri stærðargráðu er 10-20% flytja úr er engin lausn fólgin, heldur enn meiri vandi. Það verður unga og duglega fólkið sem fer á meðan þeir sem miðaldra eru halda kyrru fyrir í húsum sínum og eldri borgarar og þeir sem minna mega sín verða eftir í landinu. Í kjölfarið verður síðan að hækka skattana á þá sem eftir verða og vinnu hafa. Við endum í óleysanlegum vítahring, sem lönd Austur-Evrópu hafa þurft að glíma við á undanförnum árum.

Ég benti á leið nauðasamninga strax í haust þegar ég efaðist um burði okkar til að komast út úr vandanum sem við erum í. Ef virkilega engin leið önnur er fær, verðum við að viðurkenna það fyrir sjálfum okkur og umheiminum og hafa þor til að semja við lánadrottna og AGS um málið. Takist samningar ekki verður að segja upp samstarfinu við AGS og reyna aðra leiðir út úr þessum vanda.

karahnjukar_829165.jpgSú lausn sem mér hugnast felst í stórfelldri atvinnuuppbyggingu, sem byggir á náttúruauðlindum okkar: jarðorkunni, vatnsorkunni og hugsanlega olíunni. Hin hliðin á teningnum, sem ekki er hægt að útiloka, eru sem fyrr segir nauðasamningar við lánadrottna, þar sem hagsmundir Íslendinga verða í fyrirrúmi. Miðað við það ástand sem Andri lýsir hér að ofan að ríkja muni í Írlandi er jafnvel tímabundin einangrun lands í kjölfar slíkra nauðasamninga skárri kostur en niðurskurður og skattahækkanir sem þjóðin hvorki getur eða vill borga!

folk_829168.jpgVið þurfum kraftmikið, ungt fólk með framtíðarsýn við stjórnvölinn en ekki þreytt, ráðþrota fólk sem þorir ekki að ræða vandamálin og þorir ekki að segja hvað það raunverulega ætlar að gera eftir kosningar.

Við þurfum fólk við stjórnvölinn, sem þorir að takast á við ástandið með þeim trompum sem við Íslendingar höfum á hendi - auðlindunum og mannauðnum okkar!

Við þurfum að skapa 20.000 störf næsta kjörtímabili og með þeirri uppbyggingu náum við inn meiri tekjum í ríkissjóð, komum í veg fyrir meiri niðurskurð og sjáum hallalaus fjárlög árið 2012.


Fræðimenn fari rétt með staðreyndir ...

Helmut KohlÉg hlustaði á minn gamla prófessor í fréttunum í kvöld, dr. Gunnar Helga Kristinsson, sem ég hef til þessa borið mjög mikla virðingu fyrir, þar sem hann bar Sjálfstæðisflokknum á brýn, að flokkurinn hefði jafnvel gerst sekur um mútuþægni.

Þegar prófessor í stjórnsýslu- og stjórnmálafræðum ýjar að slíku, um stærsta stjórnmálaflokk landsins á Alþingi í dag, er um grafalvarlegan hlut að ræða. Samkvæmt öllu því, sem ég hef lært innan Háskóla Íslands, á áralöngum lærdómsferli mínum um gagnrýnin vinnubrögð og vísindalega nálgun, ber að rökstyðja slíkar fullyrðingar mjög ítarlega. Vonandi hafa vinnubrögð innan H.Í. ekki breyst og því verður líklega enginn skortur á slíkum skýringum?

Á mínum 46 árum minnist ég eins tilfellis um pólitíska mútuþægni, sem ég setti mig mjög vel inn í. Þarna var um að ræða mál sem kom manni á knén, sem ég bar og ber mikla virðingu fyrir, dr. Helmut Kohl, fyrrverandi formanns Kristilegra demókrata í Þýskalandi og kanslara Þýskalands til 16 ára (1982-1998).

Francois MitterandStjórnmálaleg arfleifð Helmut Kohls hefur að mörgu leyti litast af þessu fjármálahneyksli, sem tengdist m.a. sölu skriðdreka til Sádi Arabíu og svikum varðandi einkavæðingu í Austur-Þýskalandi. Stór hluti þessara svika í Austur-Þýskalandi tengdist sósíaldemókratanum François Mitterrand og hinum víðfrægu frönsku Elf bensínstöðvum. Það var einmitt þetta mál, sem Eva Joly rannsakaði á sínum tíma og sakfelldi hún í kjölfarið fjölda franskra embættis- og stjórnmálamanna. Svona er heimurinn lítill!

Ég tel það fulllangt gengið að tengja fjársöfnun tveggja einstaklinga - nú nafngreindra félaga í Sjálfstæðisflokknum - og framlög tveggja nafngreindra fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins við stórfelld fjármálahneyksli og mútuþægni erlendis. Þær mútur sem um ræðir erlendis eru yfirleitt af þeirri stærðargráðu og þannig gerðar að hagsmunir fyrirtækjanna voru að fullu tryggðir. Er eitthvað slíkt á ferðinni hér? Ég tel að áður en menn koma með slíkar fullyrðingar, verði að rannsaka málin að fullu!

Staðreynd er að Geysir Green Energy eða FL-Group náðu ekki tilætluðum árangri, hvorki í Reykjanesbæ eða í Reykjavík. Reyndar voru það sjálfstæðismenn - bæði í Reykjavík og Reykjanesbæ - sem stóðu á móti fyrrgreindum viðskiptum, og voru gagnrýndir fyrir af öllum andstæðingum nema VG.

Eva JolyFyrir hvað voru þessir menn að múta embættis- og stjórnmálamönnum í Reykjanesbæ og í Reykjavík? Fyrir það að snúast gegn fyrirætlunum þeirra um yfirtöku? Staðreynd er að Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur er enn í meirihlutaeigu sveitarfélaga!

Hvílíkur endalaus þvættingur!

Ég vona að Eva Joly rannsaki þetta, kannski að Samfylkingin og VG trúi henni! 


mbl.is Söfnuðu fé fyrir flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin með alvöru formann - Bjarna Benediktsson

Bjarni BenediktssonÞeir sem fylgst hafa með þessu bloggi vita að ég var ekki par ánægður með forystu flokksins míns allt frá því í nóvember í vetur. Ótal sinnum gagnrýndi ég hana hér á blogginu og á fundum, sérstaklega hér í Reykjanesbæ. Það sem ég gagnrýndi forystuna fyrir í haust var helst hugleysi og ákvarðanafælni, hvort sem það varðaði samskipti við Samfylkinguna, aðra stjórnmálaflokka eða Breta og síðan auðvitað varðandi ákvarðanatöku í þeim ótal erfiðu málum, sem upp komu í allt haust. 

Nú hefur endanlega komið í ljós að þrátt fyrir að Geir Hilmar Haarde sé eflaust drengur góður, að mörgu leyti vel gefinn maður og vel meinandi, þá vantaði heilmikið upp á að hann hafi haft nógu stóran skammt af brjóstviti, siðferðiskennd, heilbrigðri skynsemi og það það sem ég vil kalla "pólitískri" dómgreind til að gegna stöðu formanns Sjálfstæðisflokksins eða embætti forsætisráðherra.

Nú er öldin sem betur fer önnur og í fyrsta skipti frá því að Davíð Oddsson hvarf frá völdum höfum við formann sem þorir og framkvæmir. Ég treysti Bjarna Benediktssyni og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur til að klára þetta mál þannig að allir sjálfstæðismenn geti vel við unað.

Málið verður hins vegar aðeins klárað með almennilegri vorhreingerningu, sem verður helst að vera lokið á þriðjudaginn eftir páska. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn logar vegna styrkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leki úr rannsóknargögnum kemur valdhöfum vel - tilviljun?

Þær árásir, sem Sjálfstæðisflokkurinn er undir þessa dagana, eru ótrúlegar og minna óneitanlega á þá aðför, sem gerð var að Framsóknarflokknum undir stjórn Halldórs Ásgrímssonar. Ekkert frekar en núverandi formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, ætla ég að verja þessa styrki frá Landsbankanum og FL-Group. Ég er jafnframt mjög ánægður með hversu afdráttarlaus ákvörðun formannsins var að endurgreiða þessa fjármuni.

Staðreynd er hins vegar að á þessum tíma var um fullkomlega löglegan stuðning við flokkinn að ræða, þótt vissulega megi gagnrýna hversu há upphæðin er. Hvað þau tvö fyrirtæki varðar er í hlut eiga er það að segja, að í lok árs 2006 voru þau og stjórnendur þeirra - ásamt Landsbankanum og stjórnendum hans - ásamt öðrum útrásarvíkingum í hópi óskabarna þjóðarinnar. Eini stjórnmálaflokkurinn, sem eitthvað gagnrýndi útrásina á þessum tíma voru VG. Ég leyfi mér að fullyrða, að langstærsti hluti þjóðarinnar var á þessum tímapunkti ásamt hinum stjórnmálaflokkunum og forsetanum í klappliði þessara fyrirtækja.

Það á auðsjáanlega að reyna að ganga á milli bols og höfuðs á flokknum mínum þessa dagana, en mönnum verður þar ekki kápan úr klæðinu. Mér er hins vegar spurn hvaðan allar þessar upplýsingar koma? Hverjir hafa aðgang að slíkum upplýsingum? Er líklegt að þessar upplýsingar komi frá Sjálfstæðisflokknum? Er líklegt að þeir starfsmenn, sem unnu hjá FL-Group, séu að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn nú rétt fyrir kosningar? Því miður læðist sá grunur að manni að upplýsingarnar séu úr niðurstöðum einhverra þeirra rannsóknaraðila, sem nú skoða bókhald þessara fyrirtækja. Upplýsingar sem sitjandi pólitískir valdhafar og andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa nú undir höndum.

Enginn stjórnmálaflokkur auglýsti líklega meira en Samfylkingin í síðustu kosningum. Hvaðan komu peningar fyrir þeim auglýsingum, hver ætlar að skoða þau mál og hver ætlar að birta þær upplýsingar?

Hvaða upplýsingar eru að leka nákvæmlega núna - og um hverja - eru engin tilviljun og þjóna í raun hagsmunum núverandi valdhafa í þessu landi.

Það er gott að velta þessu einnig aðeins fyrir sér! 


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunhæfar lausnir í stað óskhyggju og draumóra vinstri manna

IdnadarmennÍ nóvember á síðasta ári var atvinnuleysið 3,3%, en í desember árið var það komið upp í 4,8%. Í  janúar var atvinnuleysið komið í 6,6%, í febrúar fór það í 8,2%. Ekki batnaði ástandið í mars og er atvinnuleysið líklega komið í 9%. Spáin fyrir maí gerir ráð fyrir allt að 9,6% atvinnuleysi. Sökum þessa mikla atvinnuleysis eru þær hjáróma nú raddirnar sem gagnrýna álversframkvæmdir í Helguvík eða á Bakka eða annan orkufrekan iðnað.

BorpallurSprotastarfsemi er eitthvað sem við að sjálfsögðu verðum að líta meira til í framtíðinni og það sama á við um ferðaiðnaðinn, sem við sjálfstæðismenn stöndum að sjálfsögðu heilshugar á bak við. Lausnin á bráðavandanum, sem við nú erum í, verður hins vegar að koma annarsstaðar frá, koma hraðar og vera af annarri stærðargráðu en þessir geirar geta tryggt okkur. Tilvalið er að nota tímann á næstu árum til að styðja við bakið á ferðaiðnaði og sprotastarfsemi, þannig að þau störf taki smám saman við fólkinu sem ynni að uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu. Með þessu móti værum við Íslendingar innan 4-6 ára búnir að koma okkar atvinnumálum þannig fyrir, að hann byggðist á stöðugum grunni, þ.e.a.s. fiskveiðum, orkufrekum iðnaði, landbúnaði, iðnaði og hugsanlega olíuiðnaði.

Kina - orkuverHvað er okkur nær en að nýta þá orku sem við höfum í fallvötnunum og í iðrum jarðar og nýta hana til orkufreks iðnaðar. Hagkvæmasta og besta leið til að flytja vistvæna orku út er að umbreyta henni í ál. Í stað þess að nota mengandi brúnkol í Kína til kynda undir túrbínunum bræðum við súrálið hér með vistvænni orku og í álverum þar sem mengun er haldið í lágmarki. Loftslagið nýtur góðs af, en einnig atvinnulausir Íslendingar og tómur ríkissjóðurinn.

HelguvikÁ uppbyggingartímanum verða til 3 til 4 þúsund störf í Helguvík og á Bakka eða 6 til 8 þúsund störf samtals. Ef við höldum okkur við varfærnustu margföldunartölur um afleidd störf, þá erum við að tala um annað eins bætist við af störfum og þá myndu skapast á næstu árum 12 til 16 þúsund störf á landinu. Að framkvæmdum loknum væru síðan til 500 ársverk á hvorum stað að ótöldum margfeldisáhrifunum.

RikissjodurHér er um raunhæfa lausn á atvinnuleysinu að ræða, en ekki draumóra eða óskhyggju líkt og VG og Samfylkingin bjóða upp á. Að auki myndu skapast um 30 milljarðar tekjur fyrir ríkissjóð í formi beinna og óbeinna skatta auk þess sem atvinnuleysisbætur upp á 30 milljarða myndu sparast. Að viðbættri þeirri hagræðingu, sem nauðsynlegt er að gera á þessu og næsta ári í ríkisrekstri, væri eftir um 50-60 milljarða gat á fjárlögum, sem troða þyrfti upp í á einhvern hátt.

AlrullurStaðreynd er jafnframt að ef við ætlum að komast út úr þeim erfiðleikum, sem við óneitanlega eru í, verðum við að grípa til stórtækra aðgerða. Smáskammtalækningar duga okkur ekki, hvort heldur við erum að tala um lausnir á efnahagsmálum, atvinnumálum eða peningamálum. Skattahækkanir, aukinn ríkisrekstur, aukin skuldsetning ríkisins leysa ekki vandamálið og það gera óskhyggja og draumórar vinstri manna ekki heldur! Ef við ætlum að halda í lífskjör okkar og bæta þau síðar verðum við að stækka kökuna en ekki minnka hana. Flóknara er það ekki, flóknara hefur það aldrei verið! 

Göngum því hreint til verks með raunhæfar lausnir á vandamálunum!

Atvinnu fyrir alla!


mbl.is Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga ofsatrúarmenn að stjórna vali framkvæmdastjóra NATO

NATO og múslimar 

jp-011005-muhammed-westerga_823188.jpgÞað er vissulega athyglisverð þróun hjá NATO ef 12 skopmyndir teiknara Jyllands-Posten eru farnar að hafa áhrif á val framkvæmdastjóra bandalagsins.

Að sögn Recep Tayyip Erdoğan, forsætisráðherra Tyrklands, hefur hann fengið símtöl frá 12 þjóðarleiðtogum múslimaríkja, sem hvatt hafa Tyrki til að beita neitunarvaldi gegn skipun Foghs í embætti framkvæmdastjóra. Auk þessa gagnrýndi Erdogan danska forsætisráðherrann fyrir að láta ekki loka kúrdískri sjónvarpsstöð, sem sendir út efni frá Danmörku.

Allt frá því að skopmyndirnar birtust hefur Anders Fogh Rasmussen verið sjálfum sér samkvæmur og haldið í heiðri þá lýðræðislegu stefnu Vesturlanda að fjölmiðlar séu frjálsir og engum sé heimilt að hafa afskipti af þeim nema þeir brjóti í bága við lög.

Við minnumst að sjálfsögðu viðbragða múslimaríkjanna á sínum tíma þegar Sádi-Arabar kölluðu sendiherra sinn heim frá Danmörku og Líbýumenn lokuðu sendiráði sínu í Kaupmannahöfn. Að auki mótmæltu vopnaðir múslímar fyrir framan sendiráð Dana og brenndu danska fánanna. Múslímar voru hvattir til að hunsa vörur Dana og mjólkurvörur og aðrar landbúnaðarafurðir hrönnuðust upp. Danir létu ekki kúga sig til hlýðni og ég verð að segja að ég dáðist að þeim á þessum tíma að standa svo fast á tjáningarfrelsinu og því að láta ekki önnur ríki hafa afskipti af innanríkismálum sínum.

Múslimar hafa þó ekki aðeins kvartað vegna þessara skopmynda, heldur einnig vegna banns Frakka og fleiri ríkja við kvenslæðum, sem við Vesturlandabúar litum á sem óbein tákn um undirgefni og kúgun kvenna.

Þróun sem enginn tekur eftir 

denmark_mujahideen_823186.jpgKannanir hafa sýnt að 40% breskra múslíma styðja Sharia-lög þar í landi. Í þessari sömu könnun kom fram að 20% múslíma í Bretlandi höfðu samúð með mönnunum sem gerðu hryðjuverkaárás í Lundúnum 7. júlí 2005.Reyndar gilda Sharia lög í Bretlandi að því leyti til að múslimum er heimilt að útkljá hluta sinna mála fyrir svokölluðum "Múslímskum gerðadómi" (e. Muslim Arbitration Tribunal). Sharia lög byggja á helgiriti múslíma, Kóraninum.  Sem dæmi um ákvæði Sharia laga banna þau konum að aka bifreið eða fara út úr húsi án leyfis karlmanns auk þess sem konur verða að hylja sig frá toppi til táar þegar þær eru úti við.

Sem dæmi um dóma Múslímska gerðadómsins dæmdi hann svo í erfðamáli fyrir ekki allt svo löngu, að sonunum var dæmdur tvöfalt meiri arfur en dætrunum. Fyrir breskum dómstólum hefðu börnin að sjálfsögðu erft sömu upphæð. Í sex málum, sem lutu að heimilisofbeldi gagnvart konum, sendu dómarar Múslímska gerðadómsins mennina á reiðistjórnunarnámskeið og þeir hlutu enga frekari refsingu. Að dómnum loknum drógu konurnar kærur sínar til baka hjá lögreglunni og málið var dautt.

Virðing fyrir öðrum og virðing í okkar garð 

muslim_women_shopping.jpgVið Vesturlandabúar verðum að sjálfsögðu að virða trúarbrögð og siði þeirra sem lifa á meðal okkar, en við ætlumst að sjálfsögðu til þess sama frá öðrum, sem setjast að hjá okkur. Víðast hvar á Vesturlöndum, þar sem ég þekki til, eru í gildi einn siður og ein lög og á þetta einnig við um "fjölmenningarleg" samfélög líkt og í Bandaríkjunum. Siðurinn og lögin ná m.a. til klæðaburðar, frelsis fjölmiðla og tjáningarfrelsi almennt og þess réttarfars sem ríkir. Ég hef jafnan predikað umburðarlyndi gagnvart þeim sem hugsa öðruvísi, en slíkt umburðarlyndi má ekki leiða til misnotkunar á hugtakinu, því þá getur það snúist í andhverfu sína. Umburðarlyndi gagnvart óréttlæti, kúgun eða ofbeldi eru dæmi um slíka misnotkun.

Ef Anders Fogh Rasmussen hlýtur ekki starf framkvæmdastjóra NATO vegna þess að hann neitaði að hlýða skipunum Múslimaríkja um að skerða tjáningarfrelsi fjölmiðla og hefur skirrast við að loka sjónvarpsstöð, sem Tyrkir hafa óbeit á, verðum við Vesturlandabúar að íhuga okkar stöðu mjög alvarlega.

Líkt og Þorgeir Ljósvetningagoði er ég þeirrar skoðunar að affarasælast sé að ein lög og einn siður gildi í landinu. Ég skil því ekki afstöðu Breta varðandi undanþágu þeirra gagnvart Sharia lögunum og myndi aldrei sætta mig við slíkt fyrirkomulag hér á landi. Líkt og Anders Fogh Rasmussen myndi ég aldrei sætta mig við að önnur lönd blandi sér á framangreindan hátt í innanríkismál okkar. Ég sætti mig ekkert frekar við að ofsatrúarmenn stjórni því Varnarbandalagi, sem við Íslendingar eru meðlimir í.

 

 


mbl.is Enn deilt um Fogh
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri stjórn mun standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu

fidel_castro.jpgÞað eru ógnvænlegar tölur um atvinnuleysi sem blasa við okkur landsmönnum um þessar mundir. Ljóst er að við þurfum á 20.000 nýjum störfum að halda og það eins fljótt og hægt er, því við getum ekki boðið fólki upp á að ganga um atvinnulaust árum saman. Hvað er til ráða er spurt og Sjálfstæðisflokkurinn hefur svör við því. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki aðeins reynslu í að fást við erfið efnahagsmál, heldur einnig reynslu í að búa til þúsundir starfa. Í slíkum hlutum göngum við hreint til verks!

Það sem leikur efnahagslífið hvað verst er að endurskipulagningu fjármálakerfisins hefur ekki enn verið lokið, en því þarf að flýta sem mest má. Án skilvirks bankakerfis eru bæði fyrirtæki og heimili landsins á vonarvöl.  Líkt og nýr formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, benti á fyrir tveimur mánuðum mun endurfjármögnun bankanna kosta mun minna en ætlað var. Því er ljóst að aðgangur að lánsfé fyrir atvinnulíf og heimili verður tryggður með þeim fjármunum sem við höfum undir höndum í gegnum lán erlendis frá.

Ganga verður frá samningum við erlenda kröfuhafa sem allra fyrst svo hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin sem nú eru í gildi. Við sem eldri erum en tvævetur munum að þeir sem höndla með gjaldeyri munu alltaf finna smugur til að komast hjá höftunum. Höftin sem sett voru á varðandi gjaldeyrisviðskipti voru neyðarúrræði og ber að afnema þau sem allra fyrst. Við Íslendingar þekkjum einnig haftastefnuna allt of vel og það á eigin skinni. Við vitum að spilling og sóun þrífst allra best í skjóli hafta.

Það er deginum ljósara að vinstri menn stefna aftur í miðstýrt og ríkisvætt þjóðfélag og þeir eru þó það heiðarlegir að þeir gera ekkert leyndarmál úr því. Þjóðin verður að gera sér grein fyrir, að þrátt fyrir að það sé kannski freistandi að treysta á að "stóri bróðir" leysi öll vandamál, þá er það tálsýn ein að slíkt sé hægt. Ríkið hefur aldrei búin til nein framtíðarstörf, hvorki hér á landi eða annarsstaðar. Þjóðir í austurhluta Evrópu, Kína og víðar gerðu um áratuga skeið tilraunir með módel kommúnista og sósíalista og sú tilraun mistókst. Nei, það eru einstaklingarnir, hvort þeir starfa einir eða í hópum, sem eru drifkraftur þjóðfélagsins.

Nýir eða hækkaðir skattar munu heldur ekki leysa vandamálið, því þeir hægja aðeins enn meir á efnahagslífinu og það er nákvæmlega það sem við þurfum ekki. 

VG og stór hluti Samfylkingarinnar eru nær alfarið á móti nýtingu auðlinda okkar og þar með uppbyggingu orkufrekra atvinnugreina á borð við álver, hátæknifyrirtæki eða gagnaver. Þrátt fyrir áherslu okkar sjálfstæðismanna á nýtingu náttúru auðlindanna má að sjálfsögðu ekki ganga of nærri náttúru landsins. Það er hins vegar langt frá því að þau áform sem uppi eru geri það. 
 


mbl.is 17.944 á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dánarvottorð íslensku krónunnar gefið út á Alþingi

Nú er ekki lengur leyfilegt að nota íslenskar krónur í milliríkjaviðskiptum. Segja má að alþingismenn hafi með þessu í gær undirritað dánarvottorð íslensku krónunnar, þótt við þráumst enn við að nota 'ana blessaða til kaupa á nauðþurftum hér heima við.

Við, sem sjáum enga aðra lausn á peningamálum þjóðarinnar en upptöku evru, bíðum spennt eftir útspili þeirra, sem enn telja krónuna vera sprelllifandi og við hestaheilsu!

Ég vil taka það skýrt fram, að þótt ég sé í grunninn andsnúinn höftum á borð við gjaldeyrislögin, er líklega engin önnur leið möguleg í augnablikinu. Það var einnig viðbúið að útflytjendur sæju sér leik á borði og fyndu smugu í lögunum til að leika á kerfið og fá meira fyrir útflutning sinn með því að flytja hann út í íslenskum krónum og fá betra verð fyrir krónuna erlendis. Þessi leikur mun halda áfram þar til lögin verða afnumin, en undan því komumst við ekki á endanum.

Nú er vonandi búið að koma í veg fyrir slíka "misnotkun" - ef misnotkun má kalla - og þá hressist krónan vonandi í kjölfarið. Það verður efalaust Íslendingum og hér búsettum Norðmönnum til mikillar gleði! 


mbl.is Unnið fram eftir á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri menn og fjölmiðlar hafa ekki áhuga á sannleikanum ...

SannleikurinnNú hafa tveir skandínavískir reynsluboltar lýst því yfir að orsaka bankahrunsins sé að mestu að leita hjá stjórnendum bankanna og minna hjá íslenskum stjórnvöldum eða Sjálfstæðisflokknum. Sá fyrri sem lýsti þessu yfir var Mats Josefsson. Því miður fór lítið fyrir umfjöllun Josefsson um efnahagshrunið í íslenskum fjölmiðlum. Þeim mun meira fór fyrir sleggjudómum íslenskra fréttamanna um hlutdeild Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins að bankahruninu.

Nú lýsir finnski sérfræðingurinn, Kaarlos Jännäres, yfir sömu niðurstöðu eða að lélegur rekstur bankanna og slæm stefnumörkun auk óheppni hafi ráðið úrslitum um bankahrunið á Íslandi. Kaarlos var ráðinn af íslenskum yfirvöldum og viðurkenndur af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sömu sögu má segja um Mats Josefsson, þannig að vinstri menn og vinstri fjölmiðlar geta ekki haldið því fram að hér sé um pantaðar niðurstöður Sjálfstæðisflokksins að ræða.

Hversvegna virðast íslenskir fjölmiðlar hafa litlan sem engan áhuga á sannleikanum, en þeim mun meiri áhuga á að klína þessu bankahruni á Sjálfstæðisflokkinn og sjálfstæðisstefnuna, sem flokkurinn hefur haft á stefnuskrá í 80 ár og aldrei skaðað þessa þjóð?

Gæti verið að eitthvað annað stjórni íslenskum fjölmiðlum en leitin að sannleikanum? 


Býð mig fram til að klippa ræður Davíðs!

Ég ákvað að bíða með að blogga um líflega ræðu Davíðs Oddssonar á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Upphafleg hrifning mín á ræðunni hefur aðeins rénað, þótt vissulega hafi Davíð farið á kostum í lýsingum sínum á aðförinni eða réttara sagt eineltinu sem hann varð fyrir sem seðlabankastjóri og "aftökunni" á honum sem seðlabankastjóra, ummælum hans um lausamanninn úr Norska verkamannaflokknum og Stoltenberg og ótal margt fleira. Hver getur komið þessari ræðu á Youtube?

Þarna var hins vegar reiður maður á ferð, sem sagði sitthvað sem hann á eflaust eftir að sjá eftir að hafa sagt um fólk sem hefur dáð hann, virt og varið í áratugi. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra! Stjórnmálin eru ekki alltaf falleg og það er eitt þegar skapmenn sýna óánægju sína í hita og þunga leiksins, t.d. í kjölfar pólitískra svika og pretta eða þegar hópar leggja saman á ráð gegn mönnum og bandalög eru mynduð gegn einstaklingum eða hópum innan flokksins. Hitt er að ráðast gegn heiðarlegum manni eins og Vilhjálmi Egilssyni og þeim 80 einstaklingum, sem stóðu að mjög svo vandaðri, heiðarlegri og gagnrýnni skýrslu endurreisnarnefndar flokksins. Um þessa skýrslu var slíkur einhugur á meðal landsfundargesta að hún var varla rædd á fundinum.

Þarna var þó einnig um kennslustund að ræða fyrir hrútleiðinlega stjórnmálamenn dagsins í dag. Þarna var mönnum sýnt hversu beittur og harðskeyttur Davíð getur verið og hversu öflug kaldhæðni í bland við gott skopskyn og rök geta virkað. Davíð fór á kostum sem aldrei, en fór yfir strikið nákvæmlega eins og í hinu fræga viðtali í Kastljósi síðastliðið haust! 

Eftir meðferðina á Davíð í vetur er reiði hans og biturð þó eðlileg og skiljanleg. Ekki síst af því að stærstum hluti óánægjunnar og hatursins var beint í átt til Davíðs en ekki til þeirra sem beina ábyrgð bera á ástandinu, þ.e.a.s. útrásarvíkinganna sjálfra. Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnir undanfarinna ára bera að mínu mati mikið minni ábyrgð á þessu ástandi en þeir fyrrnefndu. Ég hafði í vetur oft á tilfinningunni að allir þessir aðilar væru fegnir að verið væri að hamast á Davíð, því á meðan fengju þeir frið.

Þið verðandi forystumenn flokksins verið að reyna að tileinka ykkur eitthvað af þeirri ræðutækni sem Davíð beitti í gær og hvernig hann talaði beint frá hjartanu og á tungumáli sem allir skilja. Takið þó alls ekki upp ósiði okkar gamla formanns. Skjótið ekki yfir markið, eða réttara sagt beitið ekki klasasprengjum þegar fallbyssur duga!

Davíð þér er fyrirgefið - allavega af mér - og vertu velkominn aftur í pontu á Landsfundi þegar þér er runnin reiðin! Vænt þætti mér um ef þú bæðir Vilhjálm og endurreisnarnefndina afsökunar á ummælum þínu. Afgangurinn má að mínu mati standa!!!

Já, hún er eins og álfur út úr hól og það á eftir að koma enn betur í ljós síðar!


mbl.is Vilhjálmur: Ómakleg ummæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband