ESB aðild - fyrsta skrefið á langri vegferð ...

Það voru langar umræður af litlu tilefni í morgun þegar landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ræddu í þrjá klukkustundir tillögu Evrópunefndar flokksins. Fyrri hluti tillögu Evrópunefndar fjallaði aðallega um að hagsmunamat flokksins hefði ekki leitt neitt það í ljós sem réttlætti aðildarviðræður við ESB, en þessu mati Evrópunefndarinnar er ég algjörlega ósammála. Að auki sagði þar að Íslendingar skyldu hafa yfirráð yfir auðlindum okkar um aldur og ævi og standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu, en þessum atriðum er ég vitanlega algjörlega sammála. Um þennan fyrri hluta tillögunnar urðu litlar umræður.

Það var seinni hluti tillögunnar sem verulegur ágreiningur var um, en þar var sú skoðun flokksins reifuð að kjósa ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fara ætti í aðildarviðræður við ESB eða ekki. Að auki var kveðið á um að fara ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöður aðildarviðræðna við ESB, þ.e.a.s. aðildarsamninginn sjálfan. Um það hefur ekki verið ágreiningur í neinum stjórnamálaflokki - ekki einu sinni Samfylkingunni - að fara skuli í þjóðaratkvæðagreiðslu með aðildarsamninginn sjálfan. Eftir því sem mér er kunnugt um hefur það líka verið gert við aðild allra aðildarríkja ESB.

Margir kvöddu sér hljóðs og töluðu um ESB. Flest af því sem kom fram hjá andstæðingum ESB var byggt á fordómum og vankunnáttu. Á stundum blöskraði mér málflutningurinn, en ég hafði ekki geð í mér til að fara upp og leiðrétta það sem fram kom, vitandi vits að slíkt hefði engan tilgang á þessari stundu. Að líkja ESB aðild við Gamla sáttmála og árhundruða kúgun Norðmanna og Dana á okkur Íslendingum er að mínu mati ekki samboðið þeim sem vilja ræða þessi mál af alvöru og á málefnalegan hátt. Hræðsluáróðurinn virkar vel og það vita ESB andstæðingar mjög vel. 

Aðrir komu í ræðustól og töluðu gegn ESB af kunnáttu og með sæmilegum rökum, t.d. Björn Bjarnason og Pétur Blöndal. Ekki er ég þeim félögum sammála og þykir röksemdafærsla þeirra ekki upp á marga fiskana. Enn aðrir komu í pontu og mæltu með aðildarviðræðum, en enginn talaði beint um að við ættum að ana inn í ESB án þess að skoða málið í bak og fyrir og m.t.t. til hagsmuna Íslendinga, s.s. varðandi fiskiveiðiréttindi okkar og landbúnað. Nokkrir komu upp og vildu helst segja sig úr EES samstarfinu og kysu að því mér skildist algjöra einangrun landsins. Þetta er svipuð afstaða og VG hefur í utanríkismálum - aftur í torfkofana!

Sjálfstæðismenn eru langt frá því að vera sammála í þessu máli og við því er ekkert að gera. Sú sem að mínu mati sló í gegn á þessum fundi var Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Mikið vildi ég gefa fyrir að sjálfstæðismenn hlustuðu meira á þessa gáfuðu, reyndu og víðsýnu konu og eiginmann hennar Þór Vilhjálmsson, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, þegar kemur að málefnum Evrópusambandsins. Sömu sögu er að segja um Jónas Haralz og Einar Benediktsson. Kannski þurfa sumir sjálfstæðismenn að ná vissum aldri og þroska til að sjá ljósið í efnum Evrópusambandsins.

Engin þjóð hefur haft jafnmikið upp úr samstarfi við önnur ríki og Ísland. Ég minni þar á varnarsamstarfið, Norðurlandasamstarfið, OECD, EFTA, EES samninginn og nú síðast þá hjálp sem við fengum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Engin þjóð flytur líklega jafnmikið út og inn og við og er jafn mikið háð viðskiptum við önnur ríki. Til þessa höfum við haft vit á því að vera í öllum réttu klúbbunum þegar kemur að samstarfi við önnur ríki, nú kjósum við frekar einangrunarstefnu! 

Það mikilvægasta sem kom út úr þessari umræðu var þó að fundarmenn samþykktu að eðlilegast væri að þjóðin fengi að ráða sínum örlögum í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er lýðræðisleg og skynsamleg niðurstaða. Þegar flokkurinn samþykkti þetta fyrsta litla skref í átt að aðildarviðræðum duttu mér í hug orð Neil Armstrong þegar hann tók fyrsta skrefið á tunglinu: 

 

That's one small step for [a] man, one giant leap for mankind. 

 

Einhugur var á meðal sjálfstæðismanna um niðurstöðu endurreisnarnefndar flokksins. Gagnrýni nefndarinnar á forystu flokksins og ákvarðanir hans í efnahags- og peningamálum, mistök við einkavæðingu bankanna o.s.frv. var samþykkt einróma. Þetta gladdi mig mjög mikið, því ég átti von á að sumum þætti ályktun endurreisnarnefndarinnar ganga of langt í að viðurkenna mistök flokksins á undanförnum árum.


mbl.is Þjóðin fái að skera úr um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir kveður með stæl

Þetta var að mínu mati besta ræða sem ég hef heyrt frá Geir Hilmari Haarde, þótt vissulega hafi hún verið ansi löng og hefði mátt heyrast í nóvember 2008. Kannski hefðum við alls ekki setið á landsfundi í dag ef að þessi ræða hefði verið haldin nokkrum mánuðum fyrr? Ég ætla ekki að rekja ræðuna enda er það ágætlega gert í frétt Morgunblaðsins af fundinum. Það sem mesta athygli vakti var að Geir viðurkenndi í fyrsta skipti að rangt hefði verið staðið að einkavæðingu bankanna, en það voru að sjálfsögðu mjög afdrifarík mistök.

Þótt Geir hafi vissulega viðurkennt að ýmislegt hefði betur mátt gera varðandi eftirlit með bönkunum verður að segja að þarna hefði hann mátt vera skýrari. Mér fannst óþarfi að kenna EES samningnum um hvernig fyrir okkur er komið, því samningnum sem slíkum er ekki um að kenna. Hversvegna er þá málum ekki svona fyrir komið í Noregi, Sviss eða Liechtenstein? Það gladdi mig mjög að Geir var mjög skýr í máli að þeir sem hefðu svikið undan skatti eða á annan hátt brotið af sér muni verða að sæta ábyrgð.

Líkt og Geir sagði bera þeir mesta ábyrgð, sem stýrðu bönkunum og stærstu fjármálafyrirtækjum landsins. Það voru þeir sem leiddu þessa ógæfu yfir okkur Íslendinga og engir aðrir.

Þótt kannski sé ólíku saman að jafna datt engum í hug að skella skuldinni á bandarísk yfirvöld þegar hin hræðilegu hryðjuverk dundu á Bandaríkjunum 11. september 2001. Engu að síður voru yfirvöld vissulega gagnrýnd fyrir slæleg vinnubrögð og að með því að vinna betur saman hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir hryðjuverkin. Þessu tvennu má alls ekki rugla saman, þ.e.a.s. ábyrgð á hruninu annars vegar og hins vegar ábyrgð á að hugsanlega hefði mátt bregðast fyrr við og koma í veg fyrir jafn mikinn skaða og varð.

Annað sem athygli mína vakti var að Geir tilkynnti að málamiðlunartillaga Evrópunefndar flokksins væri tvöföld atkvæðagreiðsla, þ.e.a.s. atkvæðagreiðsla um hvort þjóðin eigi að ganga til ESB aðildarviðræðna og svo endanleg atkvæðagreiðsla um niðurstöður aðildarviðræðna. Persónulega finnst mér fyrri atkvæðagreiðslan tímaeyðsla, en ég sætti mig fullkomlega við þessa málamiðlun ef hún verður að veruleika. 

 


mbl.is Mistök gerð við einkavæðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert stefnum við sjálfstæðismenn?

Ég skrifa þetta rétt áður en ég klæði mig í mitt fínast púss og held á Landsfund Sjálfstæðisflokksins. Það er alltaf mjög sérstök og hátíðleg stund að vera við setningu Landsfundar, þar sem fulltrúar af öllu landinu koma saman og ákveða stefnu flokksins næstu tvö árin.

Þessi fundur er þó um margt sérstæður og kannski aðeins öðruvísi en fyrri fundir, þar sem flokkurinn stendur á tímamótum. Fyrst af öllu þarf fundurinn að gera upp við fortíðina. Sú skýrsla sem barst frá endurreisnarnefnd flokksins var afskaplega vönduð og gætu margir stjórnmálaflokkar tekið sér slík vinnubrögð til fyrirmyndar þegar þeir glíma við slíka fortíðardrauga. Skýrslan var óvægin en vel rökstudd og verð ég að taka undir allt sem þar kemur fram. Öll sú gagnrýni sem þar kemur fram hefur komið fram í vetur á bloggsíðu minni.

En flokkurinn stendur einnig á tímamótum hvað varðar afstöðu hans um mjög umdeilt mál innan flokksins. Þarna á ég auðvitað við hvort farið skuli í aðildarviðræður við ESB. Ég hef verið þeirrar skoðunar undanfarin ár að Íslendingar ættu að skoða aðild að ESB með ströngum skilyrðum, þ.e.a.s fullum yfirráðum yfir fiskimiðum okkar og viðunandi lausn fyrir íslenskan landbúnað. Ég vona að sjálfstæðismönnum beri gæfa til að kynna sér málin vel og komist þá að þeirri niðurstöðu að aðild Íslands að ESB og upptaka evru gæti orðið mikið gæfuspor og hjálpað okkur út úr þeim gífurlegu erfiðleikum sem við erum í. Hvorki ESB aðild eða upptaka evru eru töfralausn, rétt er það, enda eru slíkar lausnir ekki til á vandamálum sem þeim er við glímum við. Við komumst aðeins út úr vandanum með gífurlegri vinnu, sparsemi og ráðdeildarsemi.

Við sjálfstæðismenn stöndum jafnframt frammi fyrir því að kjósa okkur nýjan formann. Ég verð að viðurkenna að ég mun kjósa þann formann sem opnar á aðildarviðræður við ESB. Til þessa hefur aðeins Bjarni Benediktsson séð sér fært að gera slíkt. Ég á von á því að heyra afstöðu forystumanna flokksins til þessa máls og annarra mála á fundinum. Á sunnudaginn mun ég mun taka ákvörðun um hvaða forystu ég kýs flokknum mínum, hún mun verða vel ígrunduð!


mbl.is Evran komi í stað krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaða Sjálfstæðisflokksins til ESB aðildarviðræðna á dagskrá í næstu viku!

Það er titringur í sjálfstæðismönnum varðandi afstöðu flokksins til ESB og þó sérstaklega til afstöðu þeirra tveggja flokksmanna, sem tilkynnt hafa framboð sitt til formanns flokksins. Það er ekki hægt að segja að Bjarni Benediktsson hafi tekið skýra afstöðu til málsins líkt og núverandi formaður flokksins, sem er algjörlega andsnúinn aðildarviðræðum við ESB. Afstaða Bjarna Benediktssonar er þó mun jákvæðari gagnvart aðildarviðræðum en fyrri formanna flokksins. Hver afstaða Kristjáns Þórs Júlíussonar er veit enginn. Ljóst er að vinir Kristjáns hjá Samherja hafa verið hlynntari ESB aðildarviðræðum en aðrir útgerðarmenn hafa verið til þessa.

Sjálfur hef ég alltaf sagt að aðild kæmi þá aðeins til greina að viðunandi lending náist í sjávarútvegsmálum, þ.e.a.s. ævarandi og full yfirráð yfir íslenskum fiskmiðum. Þá hef ég sagt að sú lausn verði að bjóðast okkur í aðildarviðræðum að landið leggist ekki í eyði, þ.e.a.s ásættanleg lausn fyrir íslenskan landbúnað. Í hættu eru ekki aðeins störf bænda, heldur einnig þeirra sem starfa við afurðavinnslu, hvort sem um er að ræða kjötvinnslu eða vinnslu á mjólkurafurðum eða störf í garðyrkju. Sú lausn, sem boðið var upp á fyrir Finnland og Svíþjóð, er að mínu mati ekki ásættanleg fyrir Ísland. Líta verður til þess að landbúnaður á Íslandi er mun erfiðari en nokkurs staðar annarsstaðar í norðurhluta Evrópu eða í fjallahéruðum Evrópu.

Það sem ég óttast er að algjörir andstæðingar aðildarviðræðna við ESB verði til þess að þjóðin - og jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn - skiptist í 2 fylkingar í staðinn fyrir 3 fylkingar í dag. Segja má að í dag styðji Samfylkingin ein flokka fulla aðild að ESB með litlum sem engum skilyrðum, þ.e.a.s. hálfgert afsal fiskimiðanna okkar og að íslenskur landbúnaður verði evrópskum landbúnaði ofurseldur. Framsóknarflokkurinn styður hins vegar aðild með ströngum skilyrðum. Sjálfstæðisflokkurinn og VG eru eins og sakir standa andsnúnir ESB aðild. Þetta eru í raun þrjár ólíkar fylkingar.

Mín von er og var að Sjálfstæðisflokkurinn styðji svipaða lýðræðislega nálgun við þetta mál og Framsóknarflokkurinn gerði á landsfundi sínum og að þessir tveir mjög svo ábyrgu stjórnmálaflokkar tækju að sér að stýra aðildarviðræðum við ESB eftir 1-2 ár. Samfylkingunni er, vegna afstöðu þeirra, ekki treystandi til að leiða slíkar viðræður. Þrátt fyrir að VG hafi ekki opnað á ESB aðild er málið umdeilt innan þeirra raða, sbr. ummæli Guðfríðar Lilju á landsfundi VG núna um helgina.

Það eru tvö mál sem ráða munu úrslitum um útkomu Sjálfstæðisflokksins í vor og þar með úrslitum kosninganna í vor. Annað málið er afstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins til ESB aðildarviðræðna og hitt er óvægin "uppgjörskýrsla" endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins.

Samþykki flokkurinn ekki skilyrtar aðildarviðræður við ESB og "uppgjörsskýrsluna" er ég ansi hræddur um að enn fleiri snúi baki við flokknum í komandi kosningum. Að auki eykst hætta á klofningi flokksins vegna þessara mála og annarra sem umdeild eru innan flokksins.


mbl.is Kristján Þór í formannskjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurreisnarnefnd - gagnrýnin hugsun eða gengið í takt?

Í nýútgefinni skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins kemur fram óvægið uppgjör við fortíð Sjálfstæðisflokksins og forystu hennar. Hvort almennur vilji er innan flokksins til að samþykkja þessa gagnrýni kemur í ljós á Landsfundi flokksins.

Í skýrslu endurreisnarnefndarinnar stendur:

 

Í Sjálfstæðisflokknum rúmast margar hugmyndir og skoðanir sem leitast er við að gera skil.

 

Þetta eru engin ný sannindi innan Sjálfstæðisflokksins, þótt á allra síðustu árum hafi verið lögð meiri áhersla á að menn gengu í takt en fjölbreytni í skoðunum og hugmyndaauðgi og gildir þetta jafnt um þingflokkinn og starf Sjálfstæðisflokksins sjálfs. Gagnrýni á borð við þá sem sést frá endurreisnarnefndinni hefur ekki sést áður eftir því sem mig rekur minni til.

Til heiðurs heiðarlegu, hreinskilnu og gagnrýnu starfi endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins vil ég leyfa mér að vitna í orð Páls Skúlasonar, fyrrverandi rektors Háskóla Íslands og heimspekings, en hann setti fram eftirfarandi skilgreiningu á gagnrýnni hugsun, sem mér hefur sem fyrr segir stundum fundist vera lítið framboð á innan flokksins og enn minni spurn eftir:

 

Gagnrýnin er sú hugsun sem felst ekki á neina skoðun nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni.

 

Það er ekki alltaf einfalt að viðhafa gagnrýna hugsun á viðfangsefni lífsins og þaðan af síður í stjórnmálum, því það þýðir að maður verður stundum um lengri eða skemmri tíma að synda á móti straumnum. Það er auðveldara að elta það sem næsti maður segir eða éta það upp hrátt sem forystan segir manni að sé rétt og rangt eða það sem fjölmiðlar troða ofan í okkur af misjafnri visku sinni. Ég hef hins vegar vanið mig á að rýna í þær upplýsingar sem ég kemst yfir - og það kostar stundum nokkra leit - og mynda mér "sjálfstæðar" skoðanir á hlutunum.

Allt það sem kemur fram í gagnrýni endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins hefur birst á þessari heimasíðu undanfarin ár og því gefur að skilja að ég er nefndinni sammála í einu og öllu og það hljóta að mínu mati allir hugsandi og gagnrýnir sjálfstæðismenn að vera. Fyrir gagnrýni mína hef ég verið skammaður og atyrtur. Vissulega er það ekki alltaf skemmtilegt en vel þess virði þegar til lengdar lætur og þegar maður er sannfærður um réttmæti sinna skoðana.


Framsóknarflokkurinn ný hækja VG?

Lengi getur vont versnað. Samfylkingin hefur með yfirlýsingum sínum gefið Framsóknarflokknum til kynna að ekki sé áhugi á samstarfi við Framsókn í framtíðinni, enda flokkurinn líklega hættulegasta samkeppnin á miðjunni. Þetta eru nú þakkirnar frá Samfylkingunni fyrir að gera fyrstu vinstri stjórnina í 18 ár mögulega. Eftir samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og erfiðan skilnað hefði Framsókn átt að vera ljóst hverslags tækifærissinnar eru í Samfylkingunni og hversu margklofinn hann í raun er. Þar hittir skrattinn (Framsókn) vissulega ömmu sína í Samfylkingunni! Nú er Framsókn farin að hjálpa VG í von um að verða nýja hækjan þeirra.

Spurningin er hvort Sjálfstæðisflokkurinn færir sig meira inn á miðjuna og gerist hættulegur keppinautur Samfylkingar og Framsóknarflokks, því ljóst er að stjórnmálin öll hafa færst meira inn á miðjuna eða í raun til vinstri. Miðað við úrslitin í Reykjavík og í Norðausturkjördæmi eru líkur á miklum breytingum á stefnu Sjálfstæðisflokksins hverfandi og líklegra að flokkurinn haldi sig meira til hægri líkt og undanfarin ár.

Í lýðræðislegum flokki, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn vissulega er, er það þó grasrótin sem ræður stefnu flokksins og tekur um hana ákvarðanir á fjölmennum Landsfundi. Allir hljóta að bíða spennir eftir niðurstöðu þess fundar. 


mbl.is Samfylkingin „loftbóluflokkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjördæmaskipan - kostir og gallar

Kjördæmi ÍslandsÍ kvöld ætla ég að ræða mál sem enginn virðist þora að tala um, þótt flestir úti á landi séu sammála um að núverandi kjördæmaskipan landsins sé óréttlát og gjörsamlega út í hött. Það er kannski ekki að undra að málið sé umdeilt, þar sem styr hefur staðið um þessi mál alla tíð og engum ákvæðum stjórnarskrárinnar líklega verið jafnoft breytt og þeim um kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag.

Með það fyrir augum að gera ákvæði stjórnarskrárinnar "sveigjanlegri og varanlegri" var lagt til að í stað nákvæmra ákvæða um kjördæmamörk og úthlutun þingsæta hefði stjórnarskráin að geyma heldur færri og að sama skapi almennari ákvæði, sem hægt væri að breyta með lögum.

Davíð Oddsson var flutningsmaður um frumvarp til laga um kosningar til Alþingis, sem lagt var fram 3. apríl 1999. Í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins sameinaðist forusta allra stjórnmála um breytingarnar. Þetta gætu núverandi stjórnarflokkar og Framsóknarflokkurinn haft í huga þegar þeir reyna að þvinga fram stjórnarskrárbreytingar í í óþökk Sjálfstæðisflokksins. Þótt ég viðurkenni fúslega að minn flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hafi stundum gerst sekur um vinnubrögð í þinginu sem ég aðhyllist ekki hefur flokkurinn aldrei gerst sekur um að leiða hjá sér skoðanir minnihlutans varðandi stjórnarskrárbreytingar. Slíkt er óhæfa, þar sem um grundvallarlög (stjórnarskrá) er að ræða, sem eitt þing getur ekki breytt.

Um kjördæmaskipan á Íslandi er mælt fyrir um í 31. grein stjórnarskrárinnar og í lögum um kosningar til Alþingis. Í frumvarpi Davíðs Oddssonar um kosningalögin var lagt til að kjördæmin  tækju eftirtöldum breytingum:

Kjördæmin yrðu sex að tölu. Mörk þeirra yrðu dregin í lögum, þó þannig að landskjörstjórn yrði falið að ákveða mörkin milli kjördæmanna tveggja í Reykjavík á grundvelli íbúaskrár þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag. 

  • Þingsætatala í hverju kjördæmi verði ákveðin þannig að í hverju kjördæmi verði 9 kjördæmissæti og 1–2 jöfnunarsæti. 
  • Heimild landskjörstjórnar til að færa þingsæti á milli kjördæma til að draga úr misvægi atkvæða verði bundin við kjördæmissæti og þá eingöngu þau sem eru umfram stjórnarskrárbundið lágmark. 
  • Kjördæmissætum, eins og jöfnunarsætum, verði úthlutað samkvæmt d'Hondt-reglu.
  • Úthlutun jöfnunarsæta verði felld að fyrirmælum stjórnarskrár. 
  • Möguleikar kjósenda til að hafa áhrif á röð efstu frambjóðenda á lista verði auknir.

Þessar breytingar voru mjög miklar "réttarbætur". Kjördæmaskipunin var það hins vegar að mínu mati aðeins í sumum tilfellum.

Á næstu dögum mun ég ræða hvort þessar breytingar hafi verið til góðs eða jafnvel verið til hins verra. Jafnframt mun ég skoða fyrirkomulag það sem tíðkast í Ísrael og Hollandi - sem eru mun stærri lönd en Ísland - þar sem landið allt er eitt kjördæmi.


Sjálfstæðismenn kjósa ekki breytingar

Ljóst er að flokksbundnir Sjálfstæðismenn kjósa ekki breytingar, en þetta segi ég m.t.t. til úrslitanna í Reykjavík og í Suðurkjördæmi. Ef við lítum fyrst til þingmanna í Reykjavík hefur það eitt gerst að nokkrir þingmenn hafa hætt og þeir sem fyrir voru hafa fært sig ofar á listanum. Endurnýjun er nákvæmlega engin.

Ef horft er til Suðurkjördæmis er ástandið aðeins betra þar, en þó ekki eins mikið þegar betur er að gáð. Ragnheiður Elín Árnadóttir hlaut afgerandi stuðning í 1. sætið og er það vel. Árni Johnsen fékk ekki 1. sætið líkt og hann óskaði eftir en hins vegar mjög góðan stuðning í 2. sætið. Árni Johnsen barðist eins og ljón og hann fékk það sem hann á skilið, hvorki meira né minna. Unnur Brá Konráðsdóttir tók 3. sætið og Íris Róbertsdóttir 4. sætið. Síðan fóru alþingismennirnir Kjartan Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir í 5. og 6. sætið.

Fyrir utan Íris, sem vissulega er ný á listanum, hafa hinir þingmennirnir einungis skipt um kjördæmi eða skipst á sætum á listanum. Árni Johnsen var í 3. sæti og færist í 2. sæti í prófkjörinu (sem hann reyndar var með í síðustu kosningum en tapaði vegna útstrikana), Ragnheiður Elín var í 9. þingsætinu í Kraganum og færði sig yfir í Suðurkjördæmi, þar sem hún fær vonandi 1. sæti í Alþingiskosningunum. Unnur Brá var 5. sæti í prófkjörinu síðast og færist upp í 3. sætið. Endurnýjunin, sem allir voru að tala um á tímabili, felst því einungis í að Íris Róbertsdóttir kemur ný inn. Þetta eru svipaðar breytingar og í síðustu kosningum þegar Árni Mathiesen kom úr 1. sæti í kraganum og sem fjármálaráðherra - áður Reykjaneskjördæmi, þar sem hann hafði haft 1. sætið frá 1999 - og tók 1. sætið hjá okkur. Björk komst í 4. sætið síðast og Kjartan færðist upp 2. sæti af því að Árni Johnsen var strikaður svo mikið út. Niðurstaða mín er því að endurnýjunin sé mjög svipuð og í venjulegum hefðbundnum kosningum, þ.e.a.s. síðustu kosningum.

Við vitum að þetta er vilji flokksbundinna sjálfstæðismanna og hann ber að virða. En er þetta vilji þeirra tæpu 40% kjósenda, sem til þessa hafa kosið flokkinn? Það kemur í ljós í kosningum 25. apríl næstkomandi. Hugur minn segir mér svo að kjósendur flokksins hefðu viljað sjá meiri endurnýjun, en vonandi skjátlast mér hrapalega.

Hvað sjálfan mig varðar er ljóst að ég tapaði með glæsibrag og við því er ekkert að gera. Ég óska verðandi þingmönnum og varaþingmönnum innilega til hamingju með úrslitin. Þetta var skemmtileg kosningabarátta og drengileg og þau sem unnu eru vel að sínum sigri komin. Stuðningsmönnum mínum vil ég þakka frábært og óeigingjarnt starf.

Ég fann meðbyr í sumum málum og öðrum ekki eins og gengur og gerist. Flokksbundnir sjálfstæðismenn deila almennt ekki minni sýn varðandi ESB aðildarviðræður. Ég vil að Íslendingar skilgreini sín samningsmarkmið og hafi þau mjög ströng, m.a. vil ég skilyrða algjör og ævarandi yfirráð yfir íslensku fiskimiðunum og öðrum auðlindum og tryggja eðlileg rekstrarskilyrði fyrir íslenskan landbúnað. Viðræðurnar vil ég hefja eftir 1-2 ár þegar við erum búin að jafna okkur aðeins á því ástandi sem nú ríkir. Þessu eru því miður fáir flokksbundnir sjálfstæðismenn sammála og við því er ekkert að gera, en ég skipti ekki um skoðun af þeim sökum. Flokkurinn mun á endanum sjá að sér í þessum efnum.

Eins gagnrýndi ég þá hægri frjálshyggjusveiflu, sem einkennt hefur flokkinn og vil að flokkurinn leiti aftur til grunngilda sinna. Þetta hefur eflaust farið illa í marga líka, en ég skipti ekki um skoðun á þessu heldur. Ef flokkurinn sér ekki að sér í þessum málum mun hann enda í 15-20% fylgi.

Vandamálið er líkt og Óli Björn Kárason orðaði svo skemmtilega í grein sinni "Flokkur í ólgusjó":

 

Ég hef ekki fjarlægst flokkinn - flokkurinn hefur fjarlægst mig ...
 

Vonandi hef ég rangt fyrir mér, en hugsanlega þarf Sjálfstæðisflokkurinn að taka djúpa dýfu til að hann endurnýi þingmannalið sitt og til þess að hann hafi þor til að taka á þeirri hugmyndafræðilegu kreppu, sem hann því miður er í. Ef hann gerir það ekki munu örlög hans verða þau sömu og Framsóknarflokksins. Þessi orð mín segi ég ekki af því að ég tapaði í prófkjöri. Nei, ég held ég hafi fyrst talað á þessum nótum fyrir 6-7 árum á fulltrúaráðsfundi hjá Verði í Reykjavík og hef gert það æ síðan.

Gagnrýni mín á flokkinn, afstaða mín í ESB málum og óbeit mín á óheftri frjálshyggju kunna að hafa valdið því að ég tapaði í prófkjörinu. Það er eitthvað sem ég get fullkomlega sætt mig við.

 


Viljirðu breytingar - kýstu mig!

Næsta laugardag, 14. mars, fer prófkjör okkar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi fram. Undanfarnar vikur hef ég gert víðreist um Suðukjördæmi en tilgangurinn var að kynna mig og stefnumál mín fyrir sjálfstæðismönnum. Ég óska eftir stuðningi þínum í 3. sæti í prófkjörinu.

Um áratuga skeið hef ég fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum og starfað fyrir hann, m.a. setið í stjórnum sjálfstæðisfélaga, í fulltrúaráðum og kjördæmisráðum. Að auki hef ég tekið virkan þátt í undirbúningi margra kosninga.

Stjórnmál snúast að mínu mati um að vinna ötullega fyrir sína umbjóðendur, almenning í landinu, bæta kjör og sjá til þess að allir hafi nóg að bíta og brenna. Þótt hlutverk þingmanna sé að sjálfsögðu að taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni, verða þingmenn að passa upp á fyrirgreiðslu í sínu kjördæmi. Þetta segi ég ekki síst því á næstu árum er viðbúið að höfuðborgarsvæðið verði frekt til fjárins. Mikilvægt er að passa vel upp á hagsmuni landsbyggðarinnar, að allir fjármunir sogist ekki í hítina í höfuðstaðnum. Ég heiti því að vinna verk mín vel og samviskusamlega og óttast ekki gagnrýni fyrir að ganga erinda míns fólks á Suðurlandi og Suðurnesjum.

Það verður að fara langt til baka í íslenskri sögu til að finna tíma, þar sem meiri ábyrgð og verkefni hafa verið lögð á stjórnamálamenn. Það sem við blasir er óþrjótandi vinna og erfiði við endurreisn efnahagslífsins eftir hrunið í haust. Þessa vinnu hræðist ég ekki, heldur hlakka ég til starfsins og er tilbúinn að fórna öllum tíma mínum og axla þá ábyrgð sem þarf. Á fundum mínum hef ég kynnt mínar áherslur og hugmyndir. Þessar hugmyndir sæki ég að mestu í grunngildi sjálfstæðisstefnunnar, sem staðið hefur fyrir sínu í 80 ár og mun gera það um ókomna tíma. Áherslur mínar og hugmyndir eru m.a.:

  • Uppgjör við fortíðina.
  • Endurreisn bankakerfisins – tryggja lánafyrirgreiðslu við atvinnuvegina.
  • Berjast gegn verðbólgu og sjá til þess að stýrivextir verði lækkaðir.
  • Lækka ríkisútgjöldin og ná þannig jafnvægi í ríkisrekstri.
  • Vernda hagsmuni heimilanna sem mest má.
  • Berjast gegn atvinnuleysi með aukinni atvinnusköpun.
  • Réttlætið nái fram að ganga, í sátt við kröfur almennings þar um.
  • Þá sem saklausir eru á að hefja yfir allan grun – þeir sem sekir gerðust eiga að hljóta réttláta og sanngjarna dóma.
  • Þá fjármuni, sem komið hefur verið undan í erlend skattaskjól eða sviknir voru út úr bönkum og fjármálastofnunum, á að færa aftur til landsins.
  • Endurskoða á kvótakerfið svo um það sé betri sátt.
  • Koma á í veg fyrir of miklar skuldbindingar Íslendinga í kjölfar Icesave-deilunnar.
  • Lágmarka á skattahækkanir, þótt tæpast verði hægt að útiloka slíkar ráðstafanir.
  • Lendi fyrirtæki tímabundið í höndum ríkisins á að koma þeim í einkarekstur um leið og viðunandi verð fæst fyrir þau. Vanda verður til sölu þessara fyrirtækja og tryggja fullkomið gagnsæi.
  • Tryggja þarf að slíkt hrun hendi aldrei aftur, m.a. með enduskoðun reglna um banka og fjármálastarfsemi og skattareglna.

Ég hvet þig, kjósandi góður, að kynna þér betur stefnumál mín á heimasíðu minni:

www.gudbjorn.is

Ég tel að víðtæk reynsla mín í fjölbreyttum störfum og menntun – bæði hér á landi og erlendis – gagnist mér vel á Alþingi og tryggi þar eðlilega fjölbreytni í þingmannaflóru Sjálfstæðisflokksins.

Ég finn að mörgum hugnast nú meir hin klassísku gildi sjálfstæðisstefnunnar, sem snúa að uppbyggingu fjölbreyttrar og frjálsrar atvinnustarfsemi, uppbyggingu einstaklinganna sjálfra, frelsi þeirra og þess krafts sem þá leysist úr læðingi. Jafnframt beinum við augum okkar meir í átt til þeirra samfélagslegu gilda sem einkenndu flokkinn og þeirrar ábyrgðar sem hvert okkar tekur á sig í samfélaginu, sem meðal annars felst í því að rétta þeim hjálparhönd sem minna mega sín og sýna samstöðu á erfiðum tímum sem þessum.

Undanfarnar vikur hef ég fundið fyrir miklum stuðningi og velvild í minn garð og þá ekki síður við stefnumál mín og er ég þakklátur fyrir það. Einnig vil ég þakka þeim fjölmörgu, sem stutt hafa við bakið á mér með ráð og dáð undanfarnar vikur.

Ég vonast eftir stuðningi þínum í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.


mbl.is Lítil hreyfing á fylgi flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna treystir sér einfaldlega ekki til að leiða þennan ósamstæða hóp ...

Auðsjáanlegt að Samfylkingin er í mikilli "forystukrísu" eins og er. Þrátt fyrir að allir þeir sem hugsanlega gætu boðið sig fram á móti Jóhönnu Sigurðardóttur hafi nú þegar lýst því yfir að þeir muni ekki fara í mótframboð og styðji hana til formanns, hefur Jóhanna enn ekki sagt af eða á hvort hún vilji starfið. Auðvitað láir henni þetta enginn eftir reynslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur af eigin flokksmönnum í hennar erfiðu veikindum undanfarna mánuði.

Jóhanna veit nú það sem vissi ekki fyrir nokkrum vikum síðan. Það er eitt að vera samviska flokksins og lofa upp í ermina á sér til þeirra sem minna mega sín og reyna síðan að efna þau loforð að kosningum loknum og þiggja fyrir það ómældar vinsælir. Annað er að reyna að stýra þjóðarskútunni á ábyrgan hátt, halda efnahagslífinu gangandi, koma hallanum á ríkissjóði niður um 30% og takast á við að eyða 10% atvinnuleysi. Þá þarf að taka ákvarðanir, sem ekki eru líklegar til vinsælda hjá öllum og gætu jafnvel mistekist.

Nei, Jóhanna naut og nýtur þess að vera vinsælasti ráðherrann og sá sem sló í borðið á ríkisstjórnarfundum og heimtaði meiri peninga. Ég er ekki viss um að hún vilji enda í sögubókum sem ráðherra niðurskurðar í velferðar- og menntamálum. Reyndar held ég að þetta gildi um alla þingmenn og ráðherra VG og Samfylkingar, þetta eru flokkar sem ferst það best úr hendi að eyða og sólunda en minna fer fyrir ráðdeild og útsjónarsemi. Ég efast í raun um að Jóhanna og félagar í VG og Samfylkingu hafi kjark og þor til að takast á við þau verkefni sem framundan eru.

Þjóðin veit hins vegar að við sjálfstæðismenn höfum bæði reynsluna og getuna til þeirra verka og því mun hún kjósa okkur til forystu í lok apríl næstkomandi.


mbl.is Beðið eftir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband