Málþóf Samfylkingar og VG vegna vatnalaga

Eru allir búnir að gleyma skipulögðu málþófi stjórnarandstöðunnar í umræðu um frumvarp til vatnalaga fyrir nokkrum árum. Þar fóru Vinstri græn í forystu í málþófinu og Samfylkingin tók einnig þátt í hringavitleysunni.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar héldu nokkurra klukkustunda ræður þar sem minnstur hluti tímans fór í að ræða efnisatriði málsins. Stjórnarandstöðuþingmenn mættu með bókasöfn sín í ræðustól og lásu upp úr þeim. Síðan eyddu þeir tíma í að lesa upp úr umsögnum um málið, lesa blaðagreinar og endurtaka þvaðrið hvor úr öðrum!

Þetta kölluðuð vinstri flokkarnir málefnalega umræðu og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir "samræðustjórnmál".

Ég fann neðangreinda tilvitnun á vef Ungra Vinstri Grænna:

 

Þar var sjónum beint frá mikilvægi þess að skoðanir minnihlutans eigi sem greiðastan aðgang að eyrum meirihlutans. Þess í stað var einblínt á málþóf. En málþóf - sem er afar sjaldgæft - er jafnframt mikilvægt aðhaldstæki minnihlutaflokka í þingstörfum víða um heim. Lýðræði snýst sem sé ekki eingöngu um að framkvæma vilja meirihlutans, heldur líka um að koma í veg fyrir að minnihlutinn sé kúgaður.

 

 


mbl.is Fjórða stigs málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástæða til að fá hjálp frá norskum rannsóknardómara

Ég tók daginn snemma og horfði aftur á síðasta hluta Silfur Egils. Ástæðan var að ég hreifst af viðtalinu við norsk/franska rannsóknardómarann Evu Joly. Eva talaði á sömu nótum og ég hef talað allt frá því haust eða að meintir efnahagsglæpir íslenskra auðjöfra kæmu aldrei fram nema yfirvöld beittu fullri hörku í rannsókninni. Hún tók svo sterkt til orða að gera þyrfti húsleitir hjá hinum grunuðu og einfaldar yfirheyrslu eða viðtöl  skiluðu  engum árangri.


Ég er algjörlega sammála Evu um að miðað við þær upplýsingar, sem fram eru komnar, sé í raun rökstuddur grunur um að efnahagsglæpir hafi átt sér stað. Hún sagði m.a. eitthvað á þá leið að í raun dygði að skoða lífsstíl þessara auðmanna og skoða síðan á móti tekjur þeirra og eignir og kanna hvort eitthvað samræmi sé þar á milli. Þetta eru auðvitaðar aðferðir sem ég þekki vel til og eru í raun svipaðar aðferðir og lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld nota í fíkniefnamálum eða málum sem tengjast peningaþvætti.

Eva bætti við að 20-30 manna rannsóknarteymi af kunnáttusömum rannsakendum á efnahagsbrotum dygðu til að réttlætið næði fram að ganga. Líkt og ég hef þráfaldlega haldið fram á öllum fundum Sjálfstæðisflokksins allt frá bankahruninu, sagði Eva að grundvallaratriði fyrir samfélagið og samfélagssáttmálann, væri að landsmenn hefðu á tilfinningunni að þetta land byggði ein þjóð og til að traust og sátt gæti myndast í þjóðfélaginu sé algjörlega nauðsynlegt að sannleikurinn komi í ljós, að öllum steinum sé velt við.

Ég tek heilshugar undir þessi orð Evu Joly og vil bæta við að þetta er ekki síður nauðsynlegt til að eyða allri óvissu fyrir þau hundruð og þúsundir algjörlega saklausra borgara, sem ekkert hafa annað til saka unnið en að standa í algjörlega löglegum viðskiptum undanfarin ár. Hinir, sem grunaðir eru um að hafa annaðhvort svikið undan skatti eða svikið fjármuni út úr bönkum, fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum, eiga hins vegar að hljóta sanngjarna málsmeðferð en stranga dóma.


Samfylking: forystukreppa og skortur á endurnýjun

Ljóst er að Samfylkingin á undir högg að sækja, þrátt fyrir einhvern meðvind fyrst eftir stofnun nýrrar ríkisstjórnar með VG fyrir rétt rúmum mánuði síðan. Formaður Samfylkingarinnar til nokkurra ára, og sá eini sem hefur haft nægilegan kraft til að halda saman þeim 3-4 fylkingum sem "Samfylkingin" samanstendur af, hverfur nú úr stjórnmálum eftir glæstan feril. Það verður erfitt fyrir hvern þann sem tekur við af Ingibjörgu Sólrúnu að feta í hennar fótspor.

Þótt Dagur Eggertsson sé vissulega hæfileikaríkur maður, hefur hann varla úr þeirri reynslu að spila, sem þörf er á til að halda saman þeim ósamstæða hópi, sem Samfylkingin óneitanlega er. Það sést á Jóhönnu Sigurðardóttir að hún er orðin gömul og lúin og ég efast hreinlega um að hún hafi þrek til að stýra flokknum og ríkisstjórn á þeim erfiðu tímum sem nú ríkja í landinu. Forystukreppa og sundrung blasir því að mínu mati við hjá Samfylkingunni. Vinstri menn munu því auknu mæli hverfa yfir til VG, þar sem eðlileg endurnýjun hefur átt sér stað á framboðslistum og forustan er sterk.


mbl.is Þrýstingur á Jóhönnu vex
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjörlega í samræmi við mína tilfinningu

Þessi skoðanakönnun staðfestir algjörlega það sem ég upplifi á ferðalagi mínu um Suðurkjördæmi. Það er rífandi stemming á prófkjörsfundum Sjálfstæðisflokksins og almenningur er auðsjáanlega að átta sig á að það er veruleg hætta á að við gætum endað uppi með vinstri óstjórn framfarahemla sem kalla sig VG og samtínings fjögurra gamalla vinstri flokka sem kallar sig Samfylkingu.

Fólk er nefnilega ekki fífl, heldur skynsamt og tekur skynsamlegar ákvarðanir. Af þessum sökum er ég þess fullviss að Sjálfstæðisflokkurinn endi í a.m.k. 33-35% í kosningunum í vor. Ég hef jafnframt fulla trú á að hófsamt félagshyggju- og miðjufólk kjósi Framsóknarflokkinn í auknu mæli og að hann endi í 16-18%. Með þessu móti er mjög líklegt að mögulegt verði fyrir þessa tvo flokka að mynda starfhæfa ríkisstjórn, sem enduræsir og endurreisir íslenskt efnahagslíf í vor og sumar. 

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkur óákveðinna enn stærstur með 35%

Þessi athugasemd Ólafs Þ. Harðarsonar prófessors kemur að sjálfsögðu engum á óvart og er nú engin stórspeki þegar nær komið er að lokum þessa erfiða vetur. Það mikilvægasta sem dr. Ólafur lætur hafa eftir sér er: „Auðvitað getur þetta breyst verulega fram að kosningum“. Þetta á ekki síst við í þessum kosningum þegar enn eru um 35-40% kjósenda óákveðnir.

Að mínu mati eru það einmitt þessir óákveðnu kjósendur, sem athyglin ætti að beinast að. Þeir munu ráða úrslitum í kosningunum í lok apríl næstkomandi og breyting á afstöðu þeirra gæti haft úrslitaáhrif í kosningunum. Vinstri atkvæðin hafa skilað sér til vinstri flokkanna og einnig atkvæði þeirra "miðjumanna" sem voru innan Sjálfstæðisflokksins, en því miður hafa yfirgefið hann nú.

Spurningin er hins vegar hversu tryggir aðrir kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru sem snúið hafa bakinu við flokknum? Hvað gera þeir þegar á hólminn er komið? Geta gamlir sjálfstæðismenn hugsað sér að styðja vinstri stjórn, annaðhvort með því að kjósa vinstri flokk eða með því að skila auðu eða ekki fara á kjörstað? Vilja þeir byggja hér upp "skandínavískt velferðarkerfi" með fjölþrepa skattkerfi, mun hærri sköttum og endalausum ógagnsæjum millifærslum á peningum milli fólks.

Vilja gamlir sjálfstæðismenn ekki bara halda leiðinni okkar, Íslensku leiðinni, líkt og vinstri prófessorinn Stefán Ólafsson kallaði hana. Leið blandaðs hagkerfis, þar sem ríkið tekur aðeins að sér að leiðrétta markaðsbresti, tekur að sér þau verkefni sem markaðurinn sinnir alls ekki eða illa. Leið sem einkennist af hófsamri skattlagningu, leið sem tryggir frelsi einstaklinga og fyrirtækja, leið sem tryggir öllum góða afkomu, bæði þeim efnameiri og efnaminni, án þess þó að búa til "félagslegt hengirúm" fyrir fólk. Þau mistök gerðu grannþjóðir okkar og hafa æ síðan verið í hálfgerðum vandræðum og verið að reyna að skera það kerfi niður eða breyta því.

Ég hef trú á að okkar gömlu kjósendur skili sér til baka fyrir kosningar og það mun gerast í síðasta lagi í kjörklefanum. Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar verk að vinna til að það gerist örugglega. Endurnýjun verður að eiga sér stað á framboðslistum, uppgjör líkt því sem Endurreisnarnefnin lagði fram verður að klárast, skipta verður um forystu í flokknum og við verðum að eiga kraftmikinn og góðan landsfund. Þetta verk hefur hafist og nú er bara að spýta í lófana og ljúka verkinu!


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rödd hrópandans - aldrei meir!

Bæði fyrir og eftir bankahrunið fannst mér ég stundum vera eins og „Rödd hrópandans í eyðimörkinni“ (Mrk 1,3; Matt 3,3), þótt einstaka maður hafi tekið undir með mér í gagnrýni á minn gamla og ástkæra flokk. Auðvitað sá ég ekki frekar en aðrir fyrir bankahrunið. Ég varaði hins vegar ítrekað við græðgivæðingunni, klíkuskapnum og hrokanum og öðrum þeim breytingum, sem því miður urðu á mínum flokki á síðastliðnum nokkrum árum. Stór hluti grasrótarinnar jánkaði gagnrýni minni, en bætti við að okkar ágæta forystufólk væri að öðru leyti að gera svo frábæra hluti, sem íslenska þjóðin nyti góðs af, að við ættum að hafa okkur hæg. Þarna erum við í grasrótinni í raun samsek að hafa ekki staðið upp og sagt okkar meiningu, hver veit nema að einhver hefði hlustað ef við hefðum hrópað nógu hátt í auðninni!

Ýmislegt úr sjálfstæðisstefnunni hentaði frjálshyggjunni vel, t.d. hlutir á borð við einstaklingsfrelsið og atvinnufrelsið og var því þess vegna alla tíð haldið á lofti og það var og er í raun vel. Sjálfstæðismenn hafa alltaf séð, að kjölfestan í atvinnulífi þjóðarinnar hljóta að vera sjálfstæðir og kraftmiklir einstaklingar og sú staðreynd hefur að sjálfsögðu ekkert breyst. Hins vegar viku önnur mikilvæg gömul gildi fyrir nýjum og verri. Þarna á ég auðvitað við hinn kjarna sjálfstæðisstefnunnar, sem snýst um að vernda þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu, rétta þeim hjálparhönd sem á hjálp þurfa að halda vegna veikinda eða fátæktar. Að finna innra með sér að við erum öll Íslendingar og á sama báti, deilum sömu örlögum þegar upp er staðið.

Kjörorð okkar sjálfstæðismanna "stétt með stétt" gleymdist kannski ekki alveg, en það varð undir í bardaganum. Mannlegur breyskleiki varð öllu öðru yfirsterkari, brestir á borð við græðgi og hroka tóku yfirhöndina. Kjörorðið "Gjör rétt, þol ei órétt" gleymdist heldur ekki, svo sem sjá mátti í bardaga Davíðs Oddssonar og Björns Bjarnasonar við Baugsveldið. Oft á tíðum viku þessi kjörorð þó fyrir klíkuskap og pólitískum ráðningum og það var mjög miður. Gagnrýni á ráðningar og úthlutanir ýmissa bitlinga var oft á tíðum svarað með hroka og útúrsnúningum. Ég segi aldrei meir!

Þeir sem stjórnuðu Sjálfstæðisflokknum höfðu að mörgu leyti færst frá grunngildum sjálfstæðisstefnunnar í átt til óheftrar frjálshyggju og græðgivæðingar, sem ekkert á sameiginlegt með hinni eiginlegu hægri manngildisstefnu, sem sjálfstæðisstefnan er.

Það er hin sígilda sjálstæðisstefna, sem tryggt hefur flokknum gífurlega mikið fylgi meðal allra stétta allt frá stofnun hans og það er til þeirra róta sem við leitum aftur þegar við höfum farið villu vegar.


mbl.is „Flokkurinn þoli stór orð"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri sveiflan sem betur fer í rénun ...

Vonbrigðin fyrir stjórnarflokkana hljóta að vera allnokkur. Þegar vinstri bylgjan náði hámarki um miðjan nóvember var fylgi vinstri flokkanna samanlagt um 65% en hefur nú lækkað í 55%. Það eina sem hefur gerst er að eftir stjórnarslitin við Sjálfstæðisflokkinn hefur vinstra fólk nú yfirgefið VG og fært sig aftur yfir í Samfylkinguna. Tala vinstri manna er því lægri á landinu núna en í haust. Vinstri sveiflan er í rénun, þeim hefur ekki fjölgað frá því í haust heldur fækkað um nánast 10%.

Staða Samfylkingarinnar er enn aðeins veikari en við síðustu kosningar, þótt þeir hafi næstum náð fyrri styrk sínum. VG hafa styrkt sig um 10% frá síðustu kosningum, en tapað miklu sé miðað við skoðanakannanir í haust, þegar þeir höfðu meira en tvöfaldað fylgi sitt frá kosningunum. Framsóknarflokkurinn hefur styrkt sig nokkuð frá síðustu kosningum, en tapað miklu af því fylgi sem þeir bættu við sig á landsfundinum er þeir kusu sér nýja forystu.

Vissulega hefðu niðurstöður þessar mátt vera okkur sjálfstæðismönnum aðeins hagstæðari, en þróunin er þó í rétt átt - upp á við! Við höfum verk að vinna, ekki síst af því að við eigum 10% fylgi inni miðað við síðustu kosningar. Við sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hljótum að gleðjast yfir góðu gengi flokksins hér, sem er um 36%. Mörgum þykir ég eflaust mikill bjartsýnismaður þegar ég set stefnuna á við verðum með svipað fylgi á landsvísu, en ég tel það raunhæft markmið að stefna að.

Svarhlutfall í skoðanakönnuninni er 63,2%, sem er svipað og í síðustu könnun. Þetta þýðir að margir eru enn óákveðnir og í því eru fólgin sóknarfæri fyrir okkur sjálfstæðismenn. Mér segir svo hugur um, að á meðal óákveðinna kjósenda séu einmitt þessi 10%, sem nú lýsa ekki stuðningi við nokkurn flokk, en eru í raun sjálfstæðisfólk.

Ég lýsi því enn og aftur yfir að gamall sjálfstæðismaður á erfitt með að setja krossinn sinn við Framsóknarflokk eða Samfylkingu og segja má að sjálfstæðismaður sem tæki upp á því að kjósa VG ætti að leita sér lækninga hið fyrsta, því hann hlýtur að hafa orðið fyrir miklu áfalli.

Með ótrúlegum áróðri og lýðskrumi hefur vinstri mönnum tekist að skella allri skuldinni á okkur sjálfstæðismenn. Vissulega berum við einhverja ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir hér á landi, en það gera einnig aðrir flokkar og mestu ábyrgðina bera að sjálfsögðu þeir sem stjórnuðu hér viðskiptalífinu: viðskiptabankarnir og útrásarvíkingarnir. Þetta hafa erlendir sérfræðingar bent á, m.a. Svíinn Mats Gustavsson og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, en íslenskir fjölmiðlar haft lítinn áhuga á að fjalla um.

Jafnframt hafa vinstri menn í allt haust borið á borð rangar og villandi upplýsingar um skuldastöðu okkar Íslendinga og látið í ljós skína að þjóðin sé í raun gjaldþrota. Þetta er alrangt, þótt nú eftir áfallið sé staða okkar vissulega verri en áður, er hún hvað skuldir varðar í raun svipuð og annarra vestrænna þjóða.

Við sjálfstæðismenn verðum að einbeita okkur að því að ná fyrrum félögum okkar, sem yfirgefið hafa flokkinn, aftur til baka í okkar raðir, þar sem þeir eiga heima og þar sem þeir eru velkomnir að hjálpa okkur við endurreisn landsins í anda Sjálfstæðisstefnunnar. 

 

 


mbl.is Ríkisstjórnin fengi meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af valdhroka og ráðherraræði Samfylkingar og Vinstri grænna ...

Undanfarin ár hefur stjórnarandstaðan ítrekað gagnrýnt ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og samstarfsflokka hans, Framsóknarflokk og Samfylkingu, fyrir valdhroka, ráðherraræði og að keyra frumvörp í gegnum þingið á síðustu stundu og án eðlilegrar umræðu og málsmeðferðar í þinginu.

Ég verð að viðurkenna að í örfáum málum var ég þeim sammála og taldi að leyfa hefði átt meiri umræður, auk þess sem ég aðhyllist ekki þau vinnubrögð að keyra mál í gegn án þess að um þau hafi farið fram almenn umræða í þjóðfélaginu. Einnig hef ég á stundum haft áhyggjur af því sem kallað hefur verið ráðherraræði, þ.e.a.s. að ráðherrar ráði meira og minna lofum og ríkjum í vissum málaflokkum á meðan á ráðherradómi þeirra stendur.

Lög eru annaðhvort samin að undirlagi ráðherrans sjálfs eða embættismanna og sjaldnast af þingmönnum. Ef efni laganna er ekki mjög umdeilt meðal stjórnarflokkanna og í þokkalegu samræmi við stjórnarsáttmála virðast þau sjaldan stranda í ríkisstjórn. Hafi lög hlotið samþykkt ríkisstjórnar - og þar með forystumanna stjórnarflokkanna - gerir "flokksaginn" það að verkum að þau ganga hikstalaust í gegnum þingflokkana.

Alþingi hefur síðan virkað eins og hver önnur opinber afgreiðslustofnun, þar sem umræða um stjórnarfrumvörp takmarkast við gífurlegt lof stjórnarþingmanna á frumvarpinu og harðri gagnrýni og lýðskrumi vinstri stjórnarandstöðunnar - eins og þeim er svo gjarnt að viðhafa. Málefnaleg umræða hefur því miður oft á tíðum verið allt of lítil. Að þessu loknu hafa lögin síðan hlotið samþykki allra stjórnarþingmanna og stundum jafnvel einstaka stjórnarandstöðuþingmanns, sem í kjölfarið er litinn illu auga af forustu hans flokks. Sú staðreynd að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sinni, skv. 48. gr. stjórnarskrárinnar, virðist þar skipta æði litlu.

Nú er ljóst að Samfylking og Vinstri græn hafa gerst sek um það sama og þau ásökuðu aðra um árum saman. Þar var þó oft á tíðum ekki um að ræða einhver mikilvægustu lög landsins - líkt og nú - þ.e.a.s. lög um Seðlabankanna, sem tryggja eiga öruggan ramma um efnahagsstjórn landsins. Nú saka vinstri menn okkur sjálfstæðismenn okkur um málþóf, þótt þeim væri nær að líta eigin barm!

Ég hef mikla ánægju af því þessa dagana að rekja bullið frá liðnum árum ofan í vinstri mennina. Neðangreinda tilvitnun fann ég á vef Ungra vinstri grænna og von mín er að þið hafið bæði gagn og gaman af:

 

Þar var sjónum beint frá mikilvægi þess að skoðanir minnihlutans eigi sem greiðastan aðgang að eyrum meirihlutans. Þess í stað var einblínt á málþóf. En málþóf - sem er afar sjaldgæft - er jafnframt mikilvægt aðhaldstæki minnihlutaflokka í þingstörfum víða um heim. Lýðræði snýst sem sé ekki eingöngu um að framkvæma vilja meirihlutans, heldur líka um að koma í veg fyrir að minnihlutinn sé kúgaður.

 


 
 

 


mbl.is Seðlabankafrumvarp afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin ber mesta ábyrgð á þessu ástandi ...

Eftir stjórnslit ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar bentum við sjálfstæðismenn strax á að stjórnleysi myndi ríkja í landinu eftir að ríkisstjórn VG og Samfylkingar tæki við völdum. Það fer ekkert á milli mála að Jóhanna ræður ekkert við að stjórna ríkisstjórn, þar sem hennar eigin flokkur er a.m.k. klofinn í 3-4 einingar og síðan VG, sem einnig er klofinn annars vegar niður í öfgafulla femínista, umhverfisöfgamenn, gamla marxista og fólk sem hefur mesta skemmtun af því að mótmæla, brjóta og bramla og hins vegar venjulegt vel meinandi vinstri fólk, mannvini og jafnréttissinna á borð við Ögmund Jónasson. Ég myndi ekki óska versta óvini mínum að vera í stöðu Jóhönnu með allt þetta fólk og Framsóknarflokkinn á bakinu!

Þeir sem eru eldri en tvævetur þekkja þetta ástand frá fyrri vinstri stjórnum á árabilinu 1971-1991. Sú upplausn, sem óneitanlega ríkti á þessum tíma, má rekja til þess að félagshyggjumenn hafa aldrei getað unnið saman, hvorki hér á landi né erlendis.

Það er t.d. furðulegt að samstarfið í ríkisstjórn Sósíaldemókrata og Kristilegra hægri demókrata í Þýskalandi gengur mun betur en fyrra samstarf Græningja og Sósíaldemókrata. Þessir flokkadrættir og erjur meðal vinstri manna gætu út af fyrir sig verið skemmtilegt rannsóknarefni fyrir íslenska stjórnmálafræðinga ef vandamálið væri ekki að öll íslenska þjóðin líður fyrir þetta ástand. Það sem við þurfum við aðstæður líkt og nú ríkja er ekki sundrung og erjur, heldur samstaða. Nú væri tíminn fyrir alla stjórnmálamenn til hægri og vinstri að sameinast um lausnir. Nú er tíminn fyrir atvinnurekendur og launþegar að snú bökum saman en ekki berast á banaspjótum.


mbl.is Lausn ekki fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunsemdir um refsivert athæfi styrkjast

Á undanförnum mánuðum hafa æ fleiri staðreyndir komið fram, sem renna stoðum undir að um refsivert athæfi hafi verið að ræða í aðdraganda bankahrunsins. Líklegt er að bankar og aðildar tengdir þeim hafi á haldið uppi verði hlutabréfa og jafnvel átt virkan þátt í hækkun þeirra undanfarin ár.

Jafnframt eru uppi grundsemdir að fjármagni hafi verið komið undan skattgreiðslum í skattaskjól erlendis. Auk þess sem þær tryggingar er lágu að baki útlánum virðast hafa verið litlar sem engar. Ennfremur hafa komið fram upplýsingar sem setja viðskipti bankanna með krónuna í vafasamt ljós.

Hraða á rannsókn á efnahagshruninu líkt og hægt er og vanda til hennar, m.a. hvað fjölda rannsakenda varðar og kaup á sérfræðiaðstoð erlendis frá. Sem sjálfstæðismaður vil ég að sjálfsögðu að reglur réttarríkisins verði í hávegum hafðar við rannsókn og dómsmeðferð málsins. Ég legg þunga áherslu á að komi í ljós að einhverjir, sem tengjast efnahagshruninu, hafi gerst brotlegir við lög, þá eiga dómstólar skilyrðislaust að nýta sér að fullu þann refsiramma sem lögin gefa. Ákalli þjóðarinnar eftir réttlæti í þessu máli verður að svara að fullu og eins fljótt og hægt er. 


mbl.is Hlutabréfaverði var haldið uppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband