18.10.2008 | 22:49
Vinstri menn aðhyllast aftöku án dóms og laga
Fólk á að mótmæla, mislíki því eitthvað og ég er í raun hissa á að engin hópmótmæli hafi átt sér stað undanfarna daga og vikur. Ég er því hins vegar mjög ósammála að gera Davíð Oddsson að einhverskonar holdgervingi alls þess, sem mistekist hefur undanfarin 6-7 ár.
Davíð ber vissulega mikla ábyrgð líkt og margir aðrir, sem komið hafa að þessum málum. Sumir eru stærri leikendur í þessum sorgarleik, s.s. stjórn Seðlabankans, stjórn og forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins, Viðskiptaráðuneytið, fjármálaráðuneytið, forsætisráðuneytið og svo auðvitað forstöðumenn bankana og útrásarvíkingarnir. Hluta ábyrgðarinnar má meira að segja senda til Alþingis, sem til þessa hefur ekki talið sig þurfa að axla neina ábyrgð. Hversvegna tryggði Alþingi ekki nógu góða lagaumgjörð fyrir fjármálastofnanir. Hver fer með löggjafarvaldið á Íslandi?
Mér sýnist, að hér sé um pólitískar nornaveiðar af verstu sort að ræða, þar sem markmiðið er að koma höggi á ákveðinn stjórnmálaflokk í gegnum fyrrum leiðtoga hans og þjóðarinnar um árabil. Sjálfstæðisflokkurinn bera vissulega mikla ábyrgð á því, hvernig málum er fyrir komið, en það gera aðrir flokkar einnig - að VG undanskyldum. Forystumenn flokkanna, þingflokkar og stjórnmálaflokkarnir sjálfir munu þurfa að sæta pólitískri ábyrgð fyrir það sem gert var og það sem ekki var gert á undanförnum mánuðum og árum. Í þessu uppgjöri fólksins í landinu verða margir að segja af sér og öðrum verður sagt upp, pólitískt umboð margra þeirra, sem stjórnað hafa landinu undanfarið mun ekki verða framlengt. Sem sjálfstæðismaður segi ég auðvitað því miður!
Við sjálfstæðismenn verðum að koma fram af heiðarleika í því mikla uppgjöri, sem framundan er og axla ábyrgð á mistökum okkar. Annars mun trúverðugleiki flokksins skaðast og fólk mun ekki treysta okkur í framtíðinni. Ég vil heiðarlegt, umfangsmikið og nákvæmt uppgjör. Ég er því ekki sammála mörgum samflokksmönnum mínum, sem mér virðast hvetja til, að öllu verði í raun gleymt eða sópað undir teppið og flestum þeirra, sem þátt tóku í þessu sukki og svikum við þjóðina, verði fyrirgefið. Best er að einhverjir aðrir en Íslendingar framkvæmi uppgjörið. Best væri að fá fá erlenda aðila til verksins og treysti ég norska fjármálaeftirlitinu og/eða ríkisendurskoðun Noregs best til að taka þessi mál út hjá okkur.
Nornaveiðaveiðarnar, sem fram fóru í dag, eru ekki skref í átt til heiðarlegs uppgjörs, heldur er hér um venjubundið lýðskrum vinstra liðsins að ræða. Aðgerðirnar eru þeim, sem til þeirra stofnuðu, til skammar. Fjölmenn og friðsamleg mótmæli, þar sem landsmenn krefjast uppgjörs og að þeir, sem sökina bera í þessu máli, verði látnir axla fulla ábyrgð á gjörðum sínum, eru hins vegar nauðsynleg og skynsamleg.
Nornaveiðar - aftökur án dóms og laga - líkt og vinstri menn bjóða nú upp, sundra þjóðinni og skapa upplausnarástand!
Mótmæla Davíð Oddssyni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.10.2008 | 11:07
Öryggisráðið - sorglegur skrípaleikur allt frá 1945
Það er auðvitað löngu tími til kominn á uppstokkun öryggisráðsins, sem hefur nú ekki verið ýkja valdamikið í gegnum tíðina. Öryggisráðið er arfur frá síðari heimsstyrjöldinni, þegar sigurveldi styrjaldarinnar gáfu hvort öðru sæti og síðan held ég að ráðið hafi lagst svo lágt að bjóða fjölmennasta ríki heims, Kína, sæti í ráðinu árið 1972. Þau lönd, sem eiga fast sæti í ráðinu eru Kína, Frakkland, Rússland, Bretland og Bandaríkin.
Það er auðvitað stóreinkennilegt að "wanna be" heimsveldi á borð við Bretland og Frakkland skuli enn vera með fastafulltrúa í ráðinu, á meðan ESB er ekki með fulltrúa og t.d. Indland ekki heldur eða jafnvel Japan eða Þýskaland! Þegar litið er til íbúafjölda mætti auðvitað nefna fleiri lönd á borð við Indónesíu, Brasilíu, Pakistan o.s.frv.
Þeir sem eitthvað hafa fylgst með alþjóðamálum vita, að öryggisráðið hefur í raun mjög sjaldan gripið til hjálpar fyrir lítilmagnann í stríðshrjáðum löndum, heldur aðeins ef hagsmunum þeirra, sem hafa fasta setu í ráðinu, hefur verið ógnað, t.d. vegna olíuauðlinda eða annarra svipaðra hagsmuna. Þau ríki, sem fast sæti eiga í ráðinu, hafa síðan iðulega beitt neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir aðgerðir í löndum, þar sem þau styðja annan hvorn stríðsaðilann. Loksins þegar ráðið hefur gert eitthvað hefur það verið mjög seint og skaðinn nánast skeður, þ.e.a.s. tugir ef hundruð þúsunda saklausra borgara hafa þegar látið lífið.
Ég veit satt best að segja ekki hvað menn voru að hugsa, þegar ákveðið var að taka þátt í þessu spillta valdatafli alvöru og "wanna be" heimsvelda!
Bretar vorkenna Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.10.2008 | 07:07
Fullveldi og sjálfstæði Íslands tryggt með ESB aðild 17. júní 2009
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.10.2008 | 21:44
Ísland og ESB - atvinnuleysi, hagvöxtur og verðbólga
Nú geta andstæðingar ESB útskýrt fyrir mér muninn á íslensku og evrópsku atvinnuleysi, hagvexti og verðbólgu!
Hver er munurinn á ESB atvinnuleysi upp á 4-5%
og
íslensku atvinnuleysi upp á 4-5% ?
Eins óska ég eftir útskýringu á hvort sé betra:
hægur hagvöxtur ESB upp á 2-5%
eða
íslenskur hagvöxtur upp á +7% eða -7% ?
Þá getur kannski einhver upplýst mig um muninn á:
ESB verðbólgu upp á 3-5%
og
og íslenskri upp á 15-20%
Ég veit, hvað ég og meirihluti þjóðarinnar myndi velja, en reynið endilega að sannfæra mig um eitthvað annað! Við erum nefnilega flest engir "spennufíklar", heldur viljum bara vinna okkar vinnu og fá sæmileg laun, giftast og eignast börn og eiga fyrir nauðsynjum og kaupa íbúð eða hús!
Stærri eru nú draumar Jóns og Gunnu ekki. Þau vilja gera áætlanir, vera í greiðsluþjónustu og eiga fyrir reikningunum sínum um mánaðarmót. Þau vilja vita hvað hlutirnir kosta í búðinni á morgun og einnig hvert bensínverðið ca. er á morgun.
Jón og Gunna óska ekki eftir að verða að taka myntkörfulán vegna vaxtaokurs hér á landi og sitja uppi með tvöfaldar afborganir að ári liðnu eða að lánin þeirra og afborganir af húsinu hækki um 20% á ári, þau óska ekki eftir 20% hækkunum á öllum nauðsynjum og kaupmáttarmissi upp á 10-15%.
ORÐIÐ ER LAUST:
Spá 4-5% atvinnuleysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.10.2008 | 17:02
Ég neita að borga brúsann fyrir þetta!
Ágæti lesandi!
Ég hef einu sinni lent í því að á mig var fellt lán. Það var ekki há upphæð og ég var borgunarmaður fyrir því. Ég vissi að þetta gat fallið á mig, en tók samt áhættuna. Það var heimskulegt af mér. Ég hafði samband við bankann og spurði hversvegna bankinn hefði ekki sagt nei við viðkomandi, þar sem bankinn gæti séð af tekjum lántaka að hann/hún væri ekki borgunarmaður/-kona fyrir þessari uppæð. Hins vegar væri viðkomandi mér svo nákominn, að ég gæti ekki sagt nei og því "yrði" ég hreinlega að skrifa undir. Bankinn sagði að þetta væri mitt mál og ég skrifaði undir.
Tæpu ári seinna var lánið komið í innheimtu hjá lögfræðingum. Ég hafði samband við bankann og minnti hann á orð mín varðandi skuldunautinn. Þeir sögðu að ég hefði skrifað undir og játti ég því. Þar sem ég er með "sambönd" fór ég með þetta alla leið á toppinn í einn af bankastjórum KB banka. Þar var fyrir indælismaður, sem skoðaði laun viðkomandi og viðurkenndi, að bankinn hefði aldrei átt að lána henni/honum þessa upphæð eða nokkra aðra upphæð ef því var að skipta. Það varð lokum að samkomulagi að við skiptum skuldinni bróðurlega á milli okkar. Báðir bárum við jú eiginlega ábyrgðina. Þetta fannst mér sanngjörn lausn og virti ég viðkomandi bankastjóra og bankastofnunina (KB banka) mikils fyrir þetta.
Ég skrifaði ekki undir lán íslensku bankanna í útlöndum og tel mig því ekki í ábyrgð fyrir þeim. Ég neita hreinlega að borga þessi lán.
Ábyrgir í þessu máli eru íslenska Fjármálaeftirlitið, Breska fjármálaeftirlitið, Hollenska fjármálaeftirlitið, hugsanlega Seðlabanki Íslands og viðkomandi ríkja auk ríkisstjórnar Íslands og þó alveg sérstaklega forsætisráðuneytið (ráðuneyti efnahagsmála), viðskiptaráðuneytið (ráðuneyti bankastofnana) og fjármálaráðuneytið (ráðuneyti ríkisfjármála).
Auðvitað eru síðan þeir einstaklingar, sem lögðu inn í bankann á mun hærri vöxtum en gerast nokkurs staðar ábyrgir. Þá hefði átt að gruna að eitthvað bogið var við þetta allt saman.
Móðir mín seldi íbúðina sína fyrir 4 1/2 ári síðan og síðan þá hafa allir verið hneykslaðir, að ég ráðlagði henni að setja andvirðið á verðtryggða reikninga á sæmilegum vöxtum en ekki í hlutabréf eða peningasjóði. Þetta gerði ég af því að ég treysti engum, en varð að koma peningunum einhversstaðar fyrir.
Séreignarsparnaðurinn minn er hjá Allianz í Þýskalandi af því að ég treysti ekki innlendum stofnunum fyrir honum. Ég hef ekki og mun aldrei kaupa hlutabréf á minni ævi. Ég fjárfesti í gömlu einbýlishúsi, sem ég er langt kominn með að endurnýja. Ekki einu sinni þessi fjárfesting er örugg, því ég gat ekki staðgreitt húsið. Í byrjun átti ég 1/2 hús, ná ég bráður 1/3 úr húsi og kannski eftir eitt ár á ég ekkert hús - hver veit! Verðtryggingin étur allar eignir upp, sem maður á.
Það er til fólk, sem treysti þessu öllu ekki og reyndi að tryggja sig í bak og fyrir, en lendir núna í borga reikninginn fyrir sukkið á öllum í kringum sig.
ÉG NEITA ÞVÍ ALFARIÐ!
Matsfyrirtækin sitja undir ámæli vegna Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2008 | 23:27
Þvílík flétta - tær snilld Árni og félagar
Í stað þess að níða skóinn af Árna Mathiesen í Washington ætti fólk að gera sér grein fyrir því að Árni er í raun með fjöregg þjóðarinnar í höndum sér.
Og hverjum öðrum en 1. þingmanni Suðurlands og fjármálaráðherra er betur treystandi fyrir slíku verkefni?
Þetta með lánið frá Rússum, ferð á þriðjudaginn til Moskvu, fund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington, gjaldþrot bankanna hér heima, fund G-8, fund 15 ríkja ESB, yfirlýsingar Gordons Brown, mér sýnist allt ganga í sömu átt og þvílíkt "tæming":
Við öll og Guð elskum Ísland og það mun aldeilis rætast úr þessu hjá okkur!
Fundað stíft með IMF | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2008 | 09:29
Þjóðnýting eigna óreiðumanna upp í skuldir
Að mínu mati ætti að þjóðnýta allir eignir svokallaðra "óreiðumanna" hér á landi og erlendis og nota peningana, sem fást fyrir eignirnar síðar, til að greiða upp skuldir Íslendinga vegna þeirra ábyrgðar, sem landið hefur auðsjáanlega bakað sér.
Í kjölfar ESB aðildar standa viðskiptamenn Evrópu í röðum til að kaupa íslenska matvöruverslun, banka, Olíufélög og tryggingafélög.
Skiltunum verður einfaldlega skipt út: Carrefour í stað Hagkaupa og Bónus heitir þá kannski bara Aldi.
Matvælaverð verður viðráðanlegt, iðgjöld tryggingarfélaga lækka stórlega og bankavextir lækka niður í það sama og í Evrópu.
Ég þekki sæmilega til mála í Finnlandi og nákvæmlega þetta gerðist þar. Finnar gengu í ESB þegar þeir voru í mikilli krísu vegna hruns á viðskiptum þeirra við Rússa í kjölfar loka kalda stríðsins.
Þeir hafa blómstrað síðan þá og það munum við einnig gera innan ESB.
Ísland enn í kastljósinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
11.10.2008 | 10:45
"Wannabe" heimsveldi og fyrrverandi kúgarar fátækra þjóða
Afstaða Breta í öllum málum er á sömu lund og hjá öðrum "wannabe" heimsveldum og fyrrverandi og núverandi kúgurum þjóða.
Þrátt fyrir að það hafi í raun verið Bandaríkjamenn og Rússar, sem unnu síðari heimsstyrjöldina, eignuðu Bretar sér að miklu leiti sigurinn í síðari heimsstyrjöldinni og þá aðallega á kostnað Rússa, sem færðu langstærstu fórnina í síðari heimsstyrjöldinni, þótt fáir á Vesturlöndum virðist enn átta sig þeirri "tragedíu". Þetta gerði það síðan að verkum að þjóðernistilfinning og hroki Breta jókst að sama skapi.
Bretar hefur einnig tekist að koma heiminum í skilning um að þeir séu einhver mesta menningarþjóð í heimi og með eina glæsilegustu menningarsögu heims. Það fer þó víðsfjarri að svo sé. Mestu menningarþjóðir Evrópu eru auðvitað Ítalir, Þjóðverjar og síðan koma Frakkar og Bretar þar á eftir. Síðan eru auðvitað til margar aðrar stórar menningarþjóðir í heiminum, s.s. Indland og Kína. En það voru þjóðir sem Bretar forsmáðu og niðurlægðu um langan tíma. Nei, Bretar hafa ekki verið mótandi í menningu Evrópu - nema þá í leiklist hvað Shakespeare varðar.
Auðvitað eiga myndlist og tónlist sér sterkastar rætur og hefð á Ítalíu. Mest áhrif í okkar bókmenntasögu höfðu auðvitað þjóðverjar "via" Danmörku, en skandínavískar bókmenntir voru gegnumsmitaðar af þýskum áhrifum og nægir þar að minna á Heine, Goethe, Schiller o.s.frv. endalaust Í tónlistinni er þetta það sama, þar sem þýsk/austurrísk áhrif frá Mozart, Haydn, Beethoven, Wagner, Brahms, Mahler o.s.frv. endalaust voru ráðandi og mótandi um alla Evrópu. Sömu sögu er að segja um heimspeki og sálarfræði, þar sem þýska menningarsvæðið var ráðandi auk þess sem einn og einn Dani stakk upp höfðinu.
Bretar og Bandaríkjamenn hafa mikla minniháttarkennd gagnvart okkur þessum miklu menningarþjóðum Evrópu. Á meðan þeir voru uppteknir við að leggja undir sig nýlendur og kúga og drepa þar fólk eða drepa hvorn annan í villta vestrinu eða drepandi aðra kynþætti (Indíána og blökkumenn) voru Ítalir, Frakkar og Þjóðverjar að semja sinfóníur og óperur eða að mála meistaraverk, sem enn er hægt að dást að eða að skrifa bundið og óbundið mál, sem við elskum enn þann dag í dag eða velta fyrir sér heimspeki og sálarfræði. Bretar og Bandaríkjamenn hafa alla tíð reynt að stela bestu listamönnum og vísindamönnum Evrópu og máttur þeirra byggir að miklu leyti á þessari staðreynd. Þrátt fyrir mikla fátækt eiga Íslendingar aðkomu að þessum menningararfi í formi fornbókmenntanna.
Vera þeirra og Bandaríkjamanna hér á landi hafði mikil áhrif á íslenska menningu. Fyrir stríð höfðum við litið á okkur sem norræna menn og röktum ættir okkar til Norðurlandaþjóðanna og síðan til norðurhluta Mið-Evrópu (Germana - þýskra ættbálka og einnig germanskra frísa - Holland/Belgía). Nær allir Íslendingar, sem fóru til náms lærðu í Þýskalandi og Danmörku og þangað sóttum við allar okkar fyrirmyndir.
Seinni heimsstyrjöldin og nasisminn sáu til þess að Íslendingar og aðrar Norðurlandaþjóðir fjarlægðust frændur sína í Þýskalandi, Hollandi og Frísana í Belgíu og það samband hefur aldrei náð sér almennilega á strik aftur. Þótt áhugi Þjóðverja á okkur og okkar menningu sé enn mikill, hefur sá áhugi ekki verið endurgoldinn hér á landi. Íslendingar gapa enn upp í það sem bandarískt eða enskt er og bera sjónvarpsdagskráin og önnur menningaráhrif glöggt vitni um þetta.
Það er kominn tími til að við höllum okkur meira að raunverulegum vinum okkar og frændum á Norðurlöndunum og í Mið-Evrópu.
Það er kominn tími til að við hættum að hanga í rassgatinu á engilsaxneskri og bandarískri menningu og snúum okkur meira inn á við og til þeirra þjóða, sem skyldasta menningar hafa. ESB aðild er hluti að slíku ferli.
Bretar hafa sýnt ESB starfinu lítinn sem engan áhuga og eru í grunninn á móti því. Þeir telja sig - líkt og sumir Íslendingar - vera of góðir fyrir slíkt samstarf!
Of góðir fyrir Mozart, Beethoven, Goethe, Shiller, Schopenauer, Freud, Titian, Da Vinci ...
HÆTTUM AÐ HUGSA LÍKT OG BRETAR, LÍKT OG EINANGRAÐIR OG ILLA MENNTAÐIR VARGAR!
Íslendingar þrjóskir og ósveigjanlegir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.10.2008 | 07:46
Uppgjör innan Sjálfstæðisflokksins framundan
Ég get í dag tekið undir 50% af þeirri gagnrýni, sem fram kemur á minn flokk Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn og reyndar einnig Samfylkinguna þessa dagana, en þeir einu sem eru stikkfrí er VG.
Borðleggjandi er að stjórnvöldum - og þar með Sjálfstæðisflokkurinn - hafa orðið á gífurleg mistök á undanförnum 6-7 árum. Það hlýtur því að vera stórt uppgjör framundan í Sjálfstæðisflokknum. Ég vil benda á að ég er ekki að tala um einhverjar nornaveiðar - því öll tókum við meira og minna þátt í vitleysunni. Nei, ég á við hugmyndafræðilegt uppgjör og stefnubreytingu. Þeir sem ekki sjá þetta eru líkt og strúturinn að stinga höfðinu í sandinn.
Ég hef breytt skoðun mínni varðandi hvar þetta uppgjör á að eiga sér stað. Í byrjun var ég þeirra skoðunar að við ættum að gera þetta á hefðbundinn hátt og ræða þetta sem einkamál stjórna sjálfstæðisfélaganna, fulltrúaráða og kjördæmisráða flokksins. Þar sem flokkurinn myndi skaðast illilega ef uppgjörið færi einungis fram innan flokksins verður það að fara fram innan hans sem utan - kjósendur flokksins krefjast þess.
Fyrir um 17 árum síðan var þeim Sjálfstæðisflokki, sem ég gekk í fyrir um 30 árum síðan, hreinlega rænt eða réttara sagt "hijacked" fyrir framan augun á okkur. Allir stjórnmálaflokkar skiptast í a.m.k. þrjá hópa og það gerir Sjálfstæðisflokkurinn einnig:
- Hófsama (íhaldsmenn)
- Meðreiðarsveina (fylgja hópunum á víxl)
- Öfgamenn (frjálshyggjumenn/stuttbuxnadrengi)
Í tilfelli Sjálfstæðisflokksins tóku öfgamennirnir völdin í kjölfar mikilla efnahagserfiðleika og innri togstreitu innan flokksins og lofuðu lausnum. Að stórum hluta stóðu þeir við orð sín og lausnirnar sem þeir höfðu boðað virkuðu. Ávaxtanna hefur íslenska þjóðin notið ríkulega undanfarin ár og mun gera það um ókomna framtíð. Sú stefna, sem tekin var 1991 og fylgt var til 2001 var í meginatriðum hárrétt, þótt mistök hafi verið gerð líkt og sjá má í dag. Þessi velgengni jók enn á vinsældir öfgamannanna og fjöldi meðreiðarsveina þeirra jókst innan flokksins og meðal þjóðarinnar þeim óx ásmegin.
Við þetta var í sjálfu sér ekkert að athuga. Þeim tókst meira að segja að hluta til að sannfæra mig, þótt aldrei hafi ég yfirgefið mitt fólk í flokknum og hef aðhyllst ríkisrekið RÚV og að heilsugæslan og menntakerfið ættu að meginstofni til að vera hjá ríkinu o.s.frv., þótt önnur rekstrarform ætti að mínu mati ekki að útiloka. Hjá mér er þetta sem sagt ekki spurning um trúarbrögð, heldur um heilbrigða skynsemi og ég trúi því ekki að allur rekstur sé hagkvæmari eða betri í einkarekstri. Þetta er ekki eitthvað, sem ég er að finna upp við núverandi aðstæður, heldur geta þeir, sem til mín þekkja innan flokks og utan vitnað um þessa skoðun mína.
Undanfarin 1-2 ár hef ég síðan einnig verið hlynntur aðildarviðræðum við ESB. Fyrir ofangreindur skoðanir hef ég verið hart gagnrýndur og kallaður bölvaður hægri krati og sumir jafnvel ýjað að því að ég ætti alls ekki heima í Sjálfstæðisflokknum, heldur í Samfylkingunni. Þessu er ég algjörlega ósammála. Ég er og verð hægri maður.
Ég segi nú bara að ef okkur "hægri krötunum" yrði hent út núna við þessar aðstæður er hætta á að allir meðreiðarsveinarnir fylgi með! Það færi um ýmsa, þegar Sjálfstæðisflokkurinn væri kominn með 5-10%, því meira fylgi hefur hinn frábæri fyrrum foringi okkar Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn og meðreiðarsveinar þeirra á þingi ekki í dag.
Nú er kominn tími til, að við íhaldsmennirnir tökum aftur völdin í okkar gamla flokki - með hjálp meðreiðarsveinanna - og þeir örfáu frjálshyggjumenn og ESB andstæðingar, sem enn eru innan flokksins, verða að sætta sig við það eða stofna lítinn sætan frjálshyggjuflokk með 5% fylgi.
Auðhyggjan er langt í frá að vera dauð úr öllum æðum frekar en félagshyggjan, en hins vegar eru nýfrjálshyggjan og kommúnisminn svo steindauð, að allar endurlífgunartilraunir eru vita gagnslausar.
Lifi hið mannvæna "blandaða hagkerfi", þar sem ríkisafskipti eru lágmörkuð, en samt ekki hikað við að nota þau af skynsemi til að leiðrétta markaðsbresti!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.10.2008 | 22:17
95% þjóðarinnar vantreysta Fjámálaeftirliti, Seðlabanka ...
Líkt og líklega 95% þjóðarinnar vantreysti ég Fjármálaeftirliti, Seðlabanka og ríkisstjórn Íslands aðeins um þessar mundir. Stjórnvöld, sem leyfa erlendum skuldum bankanna að vaxa í að vera 1500% af þjóðarframleiðslu landsins, hljóta að vera frekar sjaldgæf. Ég er handviss um að Seðlabanki Evrópu hefði ekki leyft Íslendingum slíka vitleysu værum við í myntbandalaginu. Þeir fylgjast náið með efnahagslífi aðildarríkja myntbandalagsins m.t.t. til verðbólgu, erlendra skulda ríkisins og viðskiptabanka, ríkisbúskapsins, viðskiptahalla o.s.frv. Ég geri ráð fyrir að Evrópski seðlabankinn fylgist einnig með því, hvort aðildarríki myntbandalagsins séu borgunarmenn fyrir skuldum sínum? Finnst ykkur það ekki einnig líklegt? Kannski þurfum við bara einhvern, sem fylgist með okkur? Sérstaklega ef maður lítur til sögu landsins síðan við eignuðumst okkar eigin gjaldmiðil.
Vandamál okkar er eflaust margþætt, en við mér blasa aðallega við tvö vandamál. Það hefur verið skrúfað fyrir lánalínur (gjaldeyrislínur) til landsins, sem veldur því að bankarnir geta ekki endurfjármagnað sig. Við þetta þurrkast upp allur gjaldeyrir á gjaldeyrismarkaði vegna þess að bankana vantar gjaldeyri til að borga til baka lánin sín og til að selja fyrirtækjum og einstaklingum gjaldeyri, sem annaðhvort stunda viðskipti við útlönd eða eru á leiðinni erlendis. Gjaldeyrir hækkar því í verði í samræmi við markaðslögmálin. Það eykur enn verðbólguna og er í dag það eina sem kyndir undir verðbólgubálinu, þar sem eftirspurn innanlands er líklega dottin niður.
Ég spyr því eins og fáviti: myndi það engu breyta ef við værum með evru í gangi hér og borguðum okkar skuldir með þeim. Væri ég þá með blandað gjaldeyrislán á bílnum mínum og margir aðrir (ekki ég) með gjaldeyrislán á húseignum sínum, sem hafa hækkað um 50-60%? Nú erum við með 20% verðbólgu, sem er drifin af gengisfalli krónunnar.
Er eitthvað annað land með slíka verðbólgu vegna 50-60% verðfalls síns gjaldmiðils. Myndi það engu breyta fyrir bankana ef ég greiddi þeim húsnæðislán og bílalán til baka í evrum - væri róðurinn ekki einfaldari. Gætum við ekki þá borgað innflutninginn okkar með evrum? Myndi ég ekki borga í Bónus með evrum, sem myndi greiða heildsalanum með evrum, sem greiddi birgjunum úti með evrum.
ER ÉG SVONA HEIMSKUR EÐA MYNDI EVRA EKKI EINFALDA ÞETTA FERLI AÐEINS?
Annað. Hversvegna á Evrópski seðlabankinn að hjálpa okkur? Við erum ekki í myntbandalaginu og ekki einu sinni í ESB. Við höfum einmitt sýnt hroka gagnvart aðild að ESB og talið okkur of góða fyrir sambandið. Nefnið mér eina góða ástæðu. Lönd ESB hafa ekki ákveðið aðgerðir sín á milli, ok! En myndu þau ekki hjálpa aðildarríki ESB eða myntbandalagsins, ef allir bankarnir væru komnir á hausinn og þjóðin á barmi gjaldþrots, með skuld upp á 15 falda þjóðframleiðslu sína?
ÉG HELD ÞAÐ NÚ!
FME yfirtekur Kaupþing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.10.2008 kl. 06:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá er verið að leggja lokahönd á aðgerðir ESB til lausnar efnahagskreppunni. Nú geta ESB andstæðingar ekki lengur sagt að ESB sé ósamstíga og grípi ekki til aðgerða eða að ESB sé að liðast í sundur og einnig myntbandalagið.
Ég legg til að við göngum í ESB þann 17. júní 2009.
Miðað við styrk fullveldisins í dag og næstu 20-30 ár - meðan við greiðum niður skuldir óreiðumanna og fjárglæframanna - mun fullveldi og sjálfstæði það, sem Jón Sigurðsson lagði grunninn að, einungis styrkjast við inngöngu í ESB.
Orðið er laust: