Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
15.8.2009 | 10:45
"Með brjóstið fullt af vonum" - nú hefst mjög hröð uppbygging Íslands af miklum krafti!
Að mínu mati hefur þetta karp um Icesave reikningana staðið allt of lengi, þar sem augljóst var að semja varð um málið. Niðurstaða málsins er á þá leið, sem ég benti á fyrir nokkrum vikum síðan, þ.e.a.s. að settir yrðu sterkir fyrirvara fyrir ríkisábyrgð á skuldinni. Ég var stoltur af frammistöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli, þar sem þeir sýndu skynsemi og ábyrgð. Framsóknarflokkurinn heldur áfram sínu lýðskrumi, sem er engum til gagns. Enginn Íslendingur er ánægður með málalokin í Icesave málinu, en allir skynsamir menn sjá að þetta hlaut að enda á þennan veg.
Staðreynd er að með ófyrirgefanlegum mistökum við einkavæðingu ríkisbankanna árið 2002 ber ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar mikla ábyrgð á því hvernig hlutirnir fóru. Mesta ábyrgð ber þó líklega fyrri ríkisstjórn Geirs H. Haarde með Framsóknarflokknum og síðan ber síðari ríkisstjórn hans með Samfylkingunni og Ingibjörgu Sólrúnu aðeins minni ábyrgð, þar sem málin voru þá þegar komin í mjög slæman farveg. Engum blöðum er þó um að fletta, að hefði ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar hafið björgunaraðgerðir þegar í stað sumarið 2007, hefði hugsanlega verið hægt að minnka skaðann, þótt ég sé mjög efins um að hægt hefði verið að bjarga íslensku bönkunum, þeir voru einfaldlega sokknir of djúpt í fen skulda og mjög vafasamra áhættufjárfestinga, sem er banvæn blanda. Þetta les ég úr bók Ólafs Arnarssonar, Sofandi að feigðarósi, þótt hann komist að annarri niðurstöðu.
Lengi getur vont versnað og við bættist að Íslendingar voru ekki aðeins amatörar í bankamálum og fjárfestingum, eftirliti með bönkum og efnahagslífinu almennt, heldur einnig í að fást við eftirköst hrunsins og kreppunnar. Ömurlega hefur verið staðið að kynningarmálum allt frá hruninu og það þrátt fyrir sérfræðingar í kynningarmálum og margir aðrir hafi margbent á brotalömina í þeim efnum - það var einfaldlega ekkert aðhafst í að kynna okkar málstað! Vissulega klúðruðu Sjálfstæðismenn og Samfylking þessu strax eftir hrunið, en ekki er heldur hægt að taka ábyrgðina af Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég held meira að segja að ástandið í kynningarmálum hafi versnað, því þótt Geir hafi nú kannski misst ýmislegt klaufalegt út úr sé, sbr. "Maybe I should have ...", þá er Jóhanna Sigurðardóttir gjörsamlega vonlaus í fjölmiðlum og reyndar að mínu mati í fleiri málum en umgangi við fjölmiðla!
Þegar slík stór mál koma upp í okkar litla þjóðfélagi er nauðsynlegt að leita til bestu sérfræðinga í heimi til að fá sérfræðiaðstoð og það var gert í allt of litlum mæli. Besta dæmið er líklega þegar "uppgjafarháskólaneminn" Svavar Gestsson, sem hefur litla sem enga reynslu í alþjóðasamningum - hvað þá í samningum við erlend stórveldi og af þessari stærðargráðu - er sendur út til Bretlands að semja um eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar fyrr og síðar með nokkrum reynslulausum eða -litlum, heiðarlegum, vammlausum og vel meinandi embættismönnum til að semja við úrvalslið breskra samningavarga.
Þótt ekki hafi ég verið sammála Anne Siebert um daginn, þá held ég að hún hafi að vissu leyti átt við mál af þessu tagi. Það er ekkert að því og í raun eðlilegt að við - 320.000 manna örþjóð - séum ekki með færustu sérfræðinga á meðal okkar í öllum málum. Við erum frábær þjóð og með marga færa sérfræðinga á flestum sviðum. Þetta gildir þó ekki um öll svið og það verðum við að viðurkenna fyrir sjálfum okkur og sækja þá sérfræðiaðstoð til útlanda, sem við höfum ekki á okkar snærum. Þessu til viðbótar kemur, að vegna fámennis þekkjast allir í kerfinu og vegna viðvarandi klíkuskapar og nepótisma er annarhvor maður í kerfinu náskyldur. Glöggt er gestsaugað og því oft best að þiggja ráð útlendinga, þegar við sjálf erum ekki dómbær sökum vankunnáttu, kunningskapar eða frændsemi. Að þessu er alls engin skömm, heldur sýnir þetta almenna, heilbrigða skynsemi!
Sem betur fer áttuðum við okkur aðeins fyrr á því, að við hefðum ekki sérfræðikunnáttu til rannsóknar á því hruni, sem hér varð og fengum því til hjálpar sérfræðinginn Evu Joly. Til viðbótar koma nú norsk og bresk yfirvöld okkur til aðstoðar og því ber að fagna eindregið. Ég vil þó setja fyrirvara við aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og er ekki jafn sannfærður um þá "sérfræðikunnáttu", sem við erum að þiggja þaðan. Ég efast hreinlega um hvort að sú efnahags- og peningamálastefna, sem þeir beita sé að virka sem skyldi við okkar aðstæður hér á Íslandi. Þeir virðast vera með einhvern staðlaðan "aðgerðapakka", sem þeir beita um allan heim og á öll hagkerfi. Engu máli virðist skipta máli hvort um þróunarland er að ræða eða land sem var eitt það ríkasta í heimi fyrir nokkrum árum eða á árunum 2002-2003, en ég tel ekki rugl tímabilið með, því það var ríkidæmi byggt á lántökum.
Rétt áður en aðildarviðræður við ESB voru samþykktar setti ég fram mína spádóma um hvernig vinstri stjórnin myndi "tækla" málin í sumar og í haust og síðan næstu 2-3 árin, en í þessu sambandi var mjög mikilvægt að gengið yrði frá Icesave samkomulaginu:
- Umsókn um aðild að ESB er lögð inn. (BÚIÐ)
Icesave samningurinn samþykktur. (BÚIÐ) - Endurfjármögnun bankanna lokið með þátttöku erlendra lánadrottna (BÚIÐ - nema Landsbanki, sem verður lokið innan skamms).
- Gengið frá erlendum lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Norðurlöndunum, Rússlandi og Póllandi (verður nú hægt að afgreiða).
- AGS fer yfir og samþykkir áætlun ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. (beðið eftir ríkisábyrgð á Icesave samningi, en er nú hægt að afgreiða).
- Hröð endurreisn efnahagslífsins, m.a. með framkvæmdum í Helguvík (fjáfestingarsamningur hefur verið samþykktur af iðnaðarráðherra) og á Húsavík og stækkun í Straumsvík, Kísilverksmiðja í Helguvík, gagnaver á Varnarsvæðinu og fleiri framkvæmdir).
- Að ofangreindum framkvæmdum koma m.a. nýir erlendir eigendur bankanna auk þess sem peningar frá lífeyrissjóðunum verða notaðir.
- ESB aðildarviðræður, þar sem komið verður á móts við okkur Íslendinga í flestum efnum.
- Evrópski Seðlabankinn byrjar að styðja við krónuna, annaðhvort um leið og aðildarviðræður fara af stað eða þegar aðild hefur verið samþykkt.
- Aðildarsamningur, þar sem viðurkennt er að ESB reglugerðinni um ábyrgðasjóðinn hafi verið ábótavant og því verði málin leyst á grundvelli Evrópusambandsins, þ.e.a.s. með þátttöku ESB í kostnaði (afskriftir á hluta Icesave skuldbindinganna), lækkun vaxta og lengingar í lánum o.s.frv.
- Aðild Íslands að ESB og hröð uppbygging íslensks efnahagslífs, m.a. vegna upptöku evru og aukinna fjárfestinga ESB landa á Íslandi, kemur Íslandi aftur í fremstu röð meðal jafningja í Evrópu og heimsins.
Það er því í raun bjart framundan, þótt við eigum framundan erfið 1-2 ár! Við höfum sýnt það og sannað Íslendingar, að á mjög skömmum tíma höfum við getað komið hjólunum af stað aftur og að hlutir sem taka 5 ár annarsstaðar höfum við gert á 1-2 tveimur árum.
Jónas Árnason, blaðamaður, útvarpsmaður og rithöfundur, fór einu með föður mínum heitnum, Guðbirni Jenssyni, sem var skipstjóri og mikill aflamaður, einn túr á togaranum Þorkeli Mána og gerði um ferðina nokkra skemmtilega útvarpsþætti. Hann átti alltaf löng viðtöl við pabba og notaði alltaf einhver ummæli hans sem titil á þættina. Eitt sinn spurði Jónas pabba, hvernig honum liði þegar hann færi út um hafnarkjaftinn á gömlu höfninni í Reykjavík. Pabbi minn svaraði á þá leið: "Maður er auðvitað með brjóstið fullt af vonum".
Látum engan taka vonina frá okkur, því þá er fokið í flest skjól!
Samkomulag í fjárlaganefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
13.8.2009 | 20:02
Laust er embætti leiðtoga fyrir íslensku þjóðina.
Staða leiðtoga fyrir lýðveldið Ísland er hér með auglýst laus til umsóknar. Leitað er að áhugasömum einstaklingi, en það er þó ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir ráðningu. Reynsla af sambærilegum störfum er æskileg, en þó ekki nauðsynleg ef viðkomandi uppfyllir neðangreind skilyrði. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst, því þjóðin er leiðtogalaus.
Leiðtogi íslensku þjóðarinnar hefur m.a. með höndum stjórnskipan lýðveldisins og stjórnarfar almennt, embætti forseta Íslands og embættisbústað, Ríkisráð Íslands, Alþingi, skipun ráðherra og lausn, skiptingu starfa milli ráðherra og ráðuneyta, ríkisstjórn og Stjórnarráð Íslands í heild, þar á meðal ráðstöfun skrifstofuhúsa og gestahúsa ríkisstjórnarinnar, fána Íslands, ríkisskjaldarmerki og þjóðsöng Íslendinga, hina íslensku fálkaorðu og önnur heiðursmerki, þjóðlendur, Þingvelli og Þingvallaþjóðgarð, hagstjórn almennt, Vísinda- og tækniráð, Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF), embætti ríkislögmanns og Umboðsmann barna.
Gerð er krafa um að umsækjandi fullnægi eftirfarandi skilyrðum:
- Hafi a.m.k. embættispróf frá Flugfreyjuskóla Íslands.
- Búi yfir umtalsverðri reynslu á sviði klækjabragða og hrossakaupa er tengjast stjórnmálum.
- Hafi sæmilegt vald á rituðu og mæltu máli, bæði íslensku og ensku (enskukunnátta er þó ekki nauðsynleg, þar sem hægt er að láta túlka öll samskipti við útlendinga ef viðkomandi hefur slaka tungumálakunnáttu).
- Eigi auðvelt með mannleg samskipti, sem er þó ekki nauðsynlegt, ef viðkomandi á erfitt með slík samskipti, en í þeim tilfellum verða þó allir að sætta sig við skapsveiflur viðkomandi, sem nálgast geðofsaköst.
- Þarf að geta lagt fólk í pólitískt einelti og tekið þingmenn í gegn og kúgað þá, jafnvel á göngum Alþingis.
- Reynsla af notkun handjárna og annarra pyntingartóla æskileg.
- Stjórnunarreynsla og leiðtogahæfileikar eru æskilegur fylgifiskur, en þó er hægt að líta framhjá slíku aukaatriðum ef viðkomandi er af réttri ætt.
- Frumkvæði og áræðni til að taka þátt í umbótastarfi, sem er þó ekki nauðsynlegt ef það hentar hagsmunum viðkomandi aðila eða fjölskyldu hans.
- Mikil samskiptahæfni og jákvætt viðmót, sem hægt er að líta fram hjá ef viðkomandi flokkur er í forustuvanda og þarf að finna einhvern sem enginn er sáttur við en allir samþykkja þó með semingi.
Laun samkvæmt ákvörðun kjararáðs, sem gætu lækkað ef leiðtoginn telur sig tilknúinn til að lækka launin vegna lýðskrums og arfaslæms fylgis.
Umsóknum fylgi upplýsingar um nám, fyrri störf og reynslu af ungliðastarfi í stjórnamálaflokknum, ættfræði, klíkustarfi sem viðkomandi hefur tekið þátt í, tengsl við þá sem virkilega ráða ferðinni innan stjórnmálaflokksins ásamt ljósriti af lista með þeim einstaklingum og fyrirtækjum, sem hugsanlega gætu styrkt flokkinn fjárhagslega og á annan hátt, ef viðkomandi verður leiðtogi þjóðarinnar (t.d. fjársterka hagsmunaaðila, stéttarfélög eða önnur samtök launamanna eða vinnuveitenda).
Umsóknargögn berist í tvíriti til skrifstofu Flokkseigendafélagsins, Jóns Sigurðssonar stræti 1, 101 Reykjavík. Eitt eintak nægir ef gögn eru send rafrænt.
Upplýsingar um starfið veitir Friðgeir Richardsen, framkvæmdastjóri Flokksins, í síma 555 2000 eða 991 95 00, netfang fridgeir.richardsen@flokkurinn .is.
Viðtöl verða höfð við umsækjendur og byggist ákvörðun um ráðningu í starfið á þeim og innsendum gögnum, peningagjöfum til flokksins, ættartengslum, tengslum við flokksklíkuna og stuðningi frá ýmsum hagsmunaaðilum.
Frekari upplýsingar um ábyrgðarsvið og almennar kröfur til stjórnenda eru á vef Flokksins, www.flokkurinn.is
Alþingi, Stjórnarráðið og Flokkurinn eru reyklausir vinnustaðir.
Æskilegt er að umsækjandi hafi reynslu af stjórnun. Einnig væri það styrkur að umsækjandi hafi öðlast reynslu við gerð þjóðhags- og verðbólguspár. Umsóknum skal skilað til mannauðssviðs Flokksins fyrir 28. ágúst 2009.
Flokkurinn - mannauðssvið
Jóns Sigurðarstræti 1
101 Reykjavík
Sneisafullur Austurvöllur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.8.2009 | 20:33
Stórveldið og herveldið Ísland ...
Ég hef lengi haldið því fram, að fáir hafi meiri innsýn í varnar- og utanríkismál landsins en Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. Ég hef lesið nær allar bækur hans um þessa málaflokka og þær eru skrifaðar af mikilli þekkingu, kunnáttu og innsæi. Jafnframt hef ég fylgst náið með skrifum Björns um þessi mál á heimasíðu hans. Í pistli Björns frá 12. ágúst bendir hann réttilega á, að auðvitað hafi Ísland enn mikla hernaðarlega þýðingu. Þeir sem fylgst hafa með umræðunni um væntanlegar siglingar um Norður-Íshafið vita auðvitað, að mikilvægið hefur frekar aukist en minnkað á undanförnum árum. Ákvörðun Bandaríkjamanna að yfirgefa landið var því, líkt og svo margar ákvarðanir Bush ríkisstjórnarinnar, illskiljanleg, fljótfærnisleg og illa ígrunduð.
Auðvitað er það rétt hjá Birni Bjarnasyni, að enginn vill að litið verði á Ísland sem hluta af áhrifasvæði Rússa. Lán frá Rússum, að þeirri upphæð sem nefnd hefur verið - 4 milljarðar dollara - hefði um margt gert okkur háða Rússum og við Íslendingar þannig komist á þeirra áhrifasvæði. Rússar eru ekki að bjóða lán af þessari stærðargráðu af hjartagæsku einni saman. Nei, þarna býr eitthvað annað og meira að baki. Það var því alveg hárrétt ábending hjá Evu Joly í nýlegri grein hennar, þegar hún sagði að engum dyldist aukinn áhugi Rússa á svæðinu. Mér er nokk sama, hvort sendiherra Rússa - sem er auðvitað bara að vinna vinnuna sína - haldi öðru fram. Ég vil ekki vera með neina Rússagrýlu og þeir eru auðvitað ekki samir við sig og engan vegin hægt að líta á þá á sama hátt og á meðan kommúnistar réðu þar ríkjum. En þeir sem eitthvað fylgjast með framgöngu Rússa í Asíu sjá, að þeir hafa engu gleymt þegar kemur að valdabrölti og að verja sína hagsmuni. Vinstri menn - sem með réttu gagnrýna Bandaríkjamenn fyrir framgöngu þeirra um allan heim - virðast aldrei sjá þegar Rússar fara fram með sama hætti og í sama heimshluta. Vinstri mönnum, sem halda að heimurinn hafi breyst svo mikið til batnaðar, að hér þurfi ekki varnir, er því vart treystandi til að stjórna landinu - allavega ekki hvað varnamálin varðar.
Björn Bjarnason er - líkt og alþjóð er kunnugt um - eiðsvarinn andstæðingur ESB aðildar okkar Íslendinga. Björn Bjarnason er líkt og ég og stærstur hluti þjóðarinnar ákafur stuðningsmaður varnarsamstarfsins við Bandaríkjamenn og aðildar Íslands að NATO. Mér er enn hlýtt til Bandaríkjamanna, enda héldu þeir uppi vörnum fyrir Íslendinga um áratuga skeið og voru okkur á allan hátt hjálplegir, bæði með fjárhagslegri aðstoð auk þess sem þeir veittu þúsundum Íslendinga vel borgaða og góða vinnu, veittu Icelandair góða fyrirgreiðslu í Bandaríkjunum, útveguðu Íslendingum hagstæð lán og veittu okkur ómetanlegan stuðning í þorskastríðunum okkar við Breta. Ég get þó tekið undir það með mörgum, að vissulega voru það mikil vonbrigði þegar Bandaríkjamenn ákváðu einhliða og með tiltölulega stuttum fyrirvara að hverfa af landi. Þótt varnarsamningurinn sé enn að formi til í gildi er staðreynd, að Bandaríkjamenn hurfu af landi þegar það hentaði þeim og án þess að taka tillit til okkar hagsmuna. Við þessu höfðu vinstri menn réttilega alltaf varað við. Við stuðningsmenn Bandaríkjanna héldum þessa þjóð vera vini okkar, en sannleikurinn er að þeir brugðust vonum okkar og slík framkoma gleymist auðvitað ekki svo fljótt. Hverjir voru það sem komu af fúsum og frjálsum vilja okkur til aðstoðar varðandi varnir landsins eftir að herinn fór? Jú, auðvitað gerðu Bandaríkjamenn það, en fyrst og fremst voru það bandamenn okkar í Evrópu, sem aðilar eru að NATO. Þetta eru þær þjóðir, sem tóku að sér varnir landsins. Bandaríkjamenn hafa margoft ýjað að því, að eðlilegasta lausnin á varnarmálum okkar, og öðrum vandamálum, sé einmitt að við göngum í ESB.
Undanfarna áratugi höfum við Íslendingar verið í skjóli Bandaríkjamanna þegar að vörnum landsins kemur og segja má að það sama hafi gilt um efnahagslegt skjól okkar. Það var einnig á grundvelli þeirrar staðreyndar, að Bandaríkjamönnum var nauðsynlegt að hafa hér herlið, að við höfðum einhvern slagkraft út á við, þegar utanríkismál bar á góma. Björn Bjarnason - og aðrir ESB andstæðingar - verða að átta sig á, að Bandaríkjamenn hafa engan áhuga á okkur lengur, hafa engan áhuga á að veita okkur fjárhagslega aðstoð eða annað skjól þegar við lendum í ágjöf. Þetta kom skýrt í ljós í vetur þegar Davíð Oddsson og Seðlabankinn leituðu hófanna um lán fyrir vestan haf og einnig þegar Árni Mathiesen fór vestur stuttu eftir hrunið og bað um fjárhagslega aðstoð í Washington. Lokað var á allar dyr. Árni talaði fyrir daufum eyrum við einhvern aðstoðaraðstoðaraðstoðarfjármálaráðherra landsins, sem tilkynnti honum að Bandaríkjamenn hefðu hvorki áhuga né vilja til að gera eitthvað fyrir okkur. Á meðan Norðurlöndin fengu mjög góða fyrirgreiðslu hjá Bandaríkjamönnum var hurðinni skellt á nefið á okkur.
Í fyrsta skipti er ég Birni Bjarnasyni ekki sammála í utanríkismálum. Björn Bjarnason hefur vissulega á réttu að standa, að hvorki Samfylkingin eða Vinstri græn sjá, að Ísland hefur "geopólitískt eða strategískt gildi fyrir NATO og Norður-Ameríku". Björn Bjarnason sér hins vegar ekki, að fyrrum bandamenn okkar, Bandaríkjamenn, átta sig ekki heldur lengur á hernaðarlegu mikilvægi landsins. Þeir einu sem átta sig á þessari staðreynd eru Rússar annars vegar og hins vegar Evrópusambandið. Sé litið til ummæla Björns, á heimasíðu hans, virðist hann vera þeirrar skoðunar, að Ísland hafi nú meiri getu en árið 1949 til að verja landið og halda þannig sjálfstæði sínu:
Hvorugum þessara flokka er því miður treystandi til að fylgja fram þeirri utanríkisstefnu á örlagatímum, sem dugar til að skapa íslensku þjóðinni nauðsynlegt svigrúmið sem sjálfstæð eyþjóð í N-Atlantshafi.
Hvaða utanríkisstefnu er Björn Bjarnason að tala um? Vera áfram í skjóli Bandaríkjanna, sem engan áhuga hafa á okkur og ekki vill hann í skjól Rússa. Í mínum augum hefur lítið sem ekkert breyst frá árinu 1949 hvað varðar okkar eigin getu til að verja okkur? Þar dugar ekki til nýtt varðskip, ný flugvél og nokkrar þyrlur og sérsveitin. Satt best að segja gætum við ekki borgað þær varnir, sem við þyrftum til að verja þetta land af einhverju viti og þetta vita í raun allir. Hvað á Björn Bjarnason við? Auðvitað er aðeins friðvænlegra í heiminum núna en fyrir 60 árum síðan, en við höfum hins vegar séð á undanförnum 10 mánuðum, að veður skipast oft skjótt í lofti í efnahagsmálunum og það sama á við um heimsfriðinn. Hver hefði trúað að heimskreppa skylli á fyrir rúmu ári síðan? Undir þá efnahagskreppu, sem skall á, vorum við sem þjóð illa undirbúin og án varna, án máttugra vina og ekki í neinu efnahagslegu varnarbandalagi. Af þessu ættum við öll að hafa lært okkar lexíu. Lítil og varnarlaus þjóð - bæði í hernaðarlegu og efnahagslegu tilliti - þarf að koma sínum málum þannig fyrir, að skelli á efnahagslegt eða hernaðarlegt gjörningaveður, þá höfum við skjól af stærri ríkjum , sem hafa bæði getu og áhuga á að veita okkur hjálp á meðan á óveðrinu stendur og til að komast aftur á fætur að fárviðrinu loknu. Í ljósi reynslunnar frá því í vetur er annað ábyrgðarleysi. Í varnarbandalaginu NATO er vissulega hjálp, en staðreynd er að Bandaríkjamenn hafa lokað á okkur og spurning hvort virkilega er á þá treystandi lengur. Enginn venjulegur Íslendingur hefur áhuga á að ganga til einhvers samstarfs við Rússa, þótt við viljum að sjálfsögðu halda góðum samskiptum við þá nú sem endranær. Evrópusambandið er það pólitíska, efnahagslega og varnarlega skjól, sem við þurfum á að halda. Þar værum við í hópi bræðraþjóða okkar á Norðurlöndum, frændþjóða okkar í Norður-Evrópu og annarra vina í Evrópu.
Staða Ísland gerbreytt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Ég ætlaði að blogga um þetta í morgun, en var svo fúll að ég ákvað að bíða til kvöldsins. Það hefur ekkert hjálpað, nú er ég fúll og reiður.
Bjarni Benediktsson, hvernig er hægt að koma fram með svona ummæli:
Við viljum ekki að hérna verði hlutirnir bara eins og í villta vestrinu þar sem er í lagi að fara á svig við lög og reglur...
Hvernig dettur einhverjum heilvita stjórnmálamanni yfirleitt eitthvað svona lagað í hug? Segjum nú sem svo að þetta sé skoðun Bjarna Benediktssonar - sem er örugglega tilfellið - þá ætti hann að halda henni út af fyrir sig, þótt ekki væri nema af tillitsemi við flokkinn, sem hann stýrir.
Þessi ummæli Bjarna Benediktssonar ættu ekki að koma manni á óvart. Allt frá því í haust klifuðu forystumenn flokksins - með Geir H. Haarde í fararbroddi - á því að hér mætti ekki stunda nornaveiðar, að allir væru saklausir þangað til þeir eru dæmdir sekir. Vissulega er það rétt athugasemd og ekki ætla ég að mæla nornaveiðum bót, en hjálpi mér Guð almáttugur!
Þegar talað var um að rétt væri að haldleggja peninga útrásarvíkinganna kom Birgir Ármannsson þeim til varnar.
Maður spyr sig ekki lengur hvað og hverja þessir menn eru að vernda, því það er svo borðleggjandi!
Fyrri forystumenn flokksins hafa verið á braut einhverskonar sjálfstortímingar í nokkur ár og þó sérstaklega á síðastliðnum vetri!
Ætlar ný forusta að klára verkið, ganga af Sjálfstæðisflokknum algjörlega steindauðum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (74)
Við Íslendingar erum á alla mælikvarða dvergþjóð. Þegar við byrjuðum að braska í útlöndum vorum við blautir á bak við bæði eyru í samanburði við nær alla Evrópubúa aðra en kannski Austur-Evrópumenn. Þetta gildir jafnt um stjórnmálamenn okkar, eftirlitsstofnanir, bankamenn og þá sem kallaðir voru útrásarvíkingar. Að mínu mati voru embættismenn okkar, bankamenn og útrásarvíkingar "amatörar" á skákborði heimsviðskiptanna, en höguðu sér eins og skákmeistarar. Menn þurfa einfaldlega að kunna meira en mannganginn þegar teflt er við stórmeistara á alvöru skákmóti!
Í allan vetur hef ég hneykslast á hversu illa hefur verið haldið á almannatengslamálum okkar Íslendinga innan Evrópu og þó sérstaklega í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi. Það eina sem ég hef séð eru neikvæðar fréttir af bruðli okkar Íslendinga og mistökum bankanna og útrásarvíkinganna. Vissulega var bruðlað hér á landi, en þær skuldir sem við sitjum uppi með voru aðeins að litlum hluta notaðar í það bruðl og við værum ekki í vandræðum með borga þær skuldir á nokkrum árum. Það er í raun alvarlegt þegar íslenskir stjórnamálamenn, hvort sem þeir heita Geir H. Haarde eða Steingrímur J. Sigfússon, reyna að telja okkur Íslendingum trú um að skuldirnar séu einungis íslensku bruðli að kenna. Af erlendum og mörgum innlendum fréttum að dæma mætti halda að allir landsmenn gerðu þarfir sínar í gullslegin klósett í 400-500 fermetra nýjum einbýlishúsum, að risastórir flatskjáir væru í öllum herbergjum hjá okkur og að við ækjum öll um á Range Rover. Flestir þeir Íslendingar, sem erlendir fjölmiðlar hafa talað við, hafa tekið undir þessi sjónarmið og nægir þar að nefna "Besserwisserinn" Hallgrím Helgason. Eina undantekningu þekki ég þó, en það er bók Halldórs Guðmundssonar, Wir sind alle Isländer - Von Lust und Frust, in der Krise zu sein, en þar eru málin útskýrð af mikilli skynsemi og yfirvegun.
Jón Hákon Magnússon og fleiri sérfræðingar í almannatengslum hafa margoft bent á þá staðreynd, að við heyjum fjölmiðlastríð og að vopnin í því stríði séu umfjöllun og stríðsvettvangurinn fjölmiðlar. Það sem barist er um eru ekki landvinningar, heldur er barist um almenningsálitið í löndum Evrópu. Flestir stjórnmálamenn - hvar sem er í heiminum nema í Norður-Kóreu og Kúbu - hafa aðeins áhyggjur af einu og það er hvernig þeir koma út í fjölmiðlum, hvaða áhrif fjölmiðlaumfjöllun um ákveðin mál hefur á almenningsálitið. Þetta sást vel á lögbanni KB banka í síðustu viku og viðbrögðum stjórnmálamanna og viðbrögðum bankans í kjölfar ummæla stjórnmálamannanna. Fjölmiðlar og almenningsálitið geta gengið frá stjórnamálamönnum og stjórnamálaflokkum á nokkrum mánuðum, stundum nokkrum vikum og í einstaka tilfellum jafnvel á nokkrum dögum eða klukkustundum. Það er þetta stríð sem við verðum að reyna að vinna, því efnahagslega stríðinu erum við þegar búin að tapa.
Nú er ég búinn að lesa Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson og bókina Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarsson. Hrunið er að mínu mati mjög gott heimildarrit og Guðni fellur ekki í sömu gryfju og Ólafur að gerast leigupenni fyrir einhverja menn úti í bæ eða láta sínar persónulegu skoðanir lita alla frásögnina. Hatur útrásarvíkinganna - sem Ólafur Arnarsson vann fyrir - á Davíð Oddssyni er ótrúlegt og Ólafur velur eins og þeir að skella allri skuldinni á Davíð. Án þess að ég vilji gera of lítið úr sök Davíð - enda ber hann nógu mikla ábyrgð í þessu máli - þá held ég að sökin liggi hjá mikið fleiri mönnum.
Hvað sem hver segir, þá var Viðeyjarstjórnin umbótaríkisstjórn, sem kom hér á viðskiptafrelsi upp úr 1991, en oft gleymist þó að stór hluti þess frelsis fylgdi ókeypis með EES samningnum. Þetta frelsisferli gekk með mestu ágætum í byrjun, þótt vissulega hafi ríkisfyrirtækin mörg hver lent í höndum vina og vandamanna þessara sömu stjórnmálamanna og menn hafi í þessu sambandi talað um einkavinavæðingu. Þótt þjóðin hafi kannski ekki verið að fullu sátt við ástandið, var það alltént skárra en SÍS og Kolkrabbinn. Á þessum tíma vorum við ekki - og erum að vissu leyti ekki enn - þjóð, sem er spillt af lýðræði, upplýstri umræðu eða góðri stjórnsýslu. Vægi atkvæða var á þessum tíma svo kolrangt að það var með ólíkindum og stjórnsýslulög og upplýsingalög - sem voru búin að vera við lýði áratugum saman erlendis - tíðkuðust ekki hér á landi. Þessu kippti umbótastjórnin í liðinn og það var vel. Ísland var að nútímavæðast. Það gerðist margt gott á tímabilinu 1991 - 2000 og því virðist stór hluti þjóðarinnar því miður vera búinn að gleyma.
Stærstu mistökin urðu þegar þessir ágætu stjórnmálamenn - Davíð og Halldór - komu tveimur stærstu viðskiptabönkum landsins í hendur "sinna manna". Davíð Oddssyni sást ekki fyrir í þessu máli og hefndin lét ekki standa á sér, byltingin borðaði að vissu leyti börnin sín. Sumum þótti SÍS gamli og Kolkrabbinn slæmur, en það sem við tók var öllu verra - líkt og við höfum því miður nú orðið vitni að. Davíð sá menn taka sér laun sem honum fundust óhófleg og hann arkaði úr Stjórnarráðinu niður í Búnaðarbanka og tók sinn sparnað út. Davíð tók upp á þeim leiða ávana að vitna í ömmu sína í tíma og ótíma. Davíð sá að þessir menn voru búnir að sölsa undir sig nær alla smásölu í landinu, bankana, tryggingafélög og annað bitastætt. Davíð sá að þessir nýju herrar stofnuðu og keyptu fjölmiðla og framreiddu sannleikann - sem Morgunblaðið hafði til þessa haft einkarétt á - á þann hátt sem auðhringunum passaði. Um þetta vildi hann setja lög, en það mistókst hrapalega og það var ekki síst vegna þess að auðmennirnir áttu almannaumræðuna og gátu stjórnað henni að eigin vild og það gerðu þeir næstu árin, með hörmulegum afleiðingum fyrir okkur öll. Davíð hafði sumsé ekki lengur stjórn á einu né neinu og það líkaði honum mjög illa. Hann var veikur og þreyttur og ákvað að hætta í "aktívum" stjórnmálum, en stjórna landinu úr baksætinu. Þetta reyndi hann að gera í rólegu en vel borguðu "innistarfi". En allt var fyrir ekki, peningaöflin höfðu með "peningagjöfum" náð yfirhöndinni í 3/4 pólitísks lífs á Íslandi og Davíð og félagar réðu ekki neitt við neitt. Aðeins einn flokkur öfgaumhverfissinna, öfgavinstrisinna og öfgafemínista lét ekki tilleiðast, enda ólíklegt að útrásarliðið hafi viljað hreiðra um sig þar á bæ eða þetta fólk hafi áhuga á samneyti við útrásarliðið. Hin pólitísku vígin féllu öll.
Útskýra þarf fyrir þjóðum Evrópu, að Íslendingar voru fyrir nokkrum árum samansafn bænda, sjómanna og verkafólks. Að viðskipti hafi allt fram á byrjun 20. aldar verið í höndum Dana, sem hafi séð um að arðræna okkur á skipulagðan hátt öldum saman. Síðan hafi nokkrar íslenskar fjölskyldur tekið við keflinu ásamt Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Forvígismenn kolkrabbans og SÍS voru ekki bara eigendur Íslands hf, heldur einnig með meirihlutaeigu í flokkseigendafélögum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þetta ágæta fólk arðrændi almenning í landinu um áratuga skeið með mjög góðum árangri. Íslensk stjórnvöld fyrri tíma höfðu aldrei áhuga á að tækla SÍS eða Kolkrabbann sem vandamál, enda var hann ekkert vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn. Þessi fyrirbrigði döguðu uppi sem nátttröll í íslensku viðskiptalífi, þegar önnur og enn myrkari öfl tóku við stjórntaumunum á íslensku viðskiptalífi. Íslensk stjórnvöld höfðu í byrjun ekki áhuga eða vilja til að tækla þau viðskiptaveldi, sem tóku við af hinum fyrri. Vissulega voru sum þeirra, eins og t.d. Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, Davíð og félögum ekki þóknanleg, en það var nú samt látið viðgangast. Þegar Davíð og félagar ætluðu að bregðast við ógninni, sem um árabil hafði arðrænt íslenskan almenning og skuldsett landið svo mikið að við verðum næstu áratugi að borga þær skuldir, var það hreinlega orðið of seint.
Við Íslendingar berum að mínu mati ábyrgð á tveimur atriðum í öllu þessu máli. Það fyrsta er að hafa kosið yfir okkur slæma stjórnmálamenn undanfarin 7-8 ár. Þessa gagnrýni má þó ekki skilja sem svo að ég sé eitthvað óskaplega hrifinn af núverandi ríkisstjórn, því getuleysi hennar er ekkert minna en þeirra er setið hafa hér verið völd undanfarin 10 ár eða svo. Í öðru lagi berum við óbeina ábyrgð á því að spilltir stjórnmálamenn skipuðu vanhæfa embættismenn í æðstu stöður Seðlabankans og í Fjármálaeftirlitið, menn sem auðsjáanlega vissu ekkert hvað þeir voru að gera.
Ég vil þessum mönnum ekki svo illa, að þeir hafi áttað sig á því að með aðgerðarleysi þeirra hafi þeir verið að setja íslensku þjóðina á hausinn, þeir vissu bara ekki betur. Ólíkt Ólafi Arnarssyni í bók hans Sofandi að feiðarósi ætla ég ekki Davíð Oddsyni, að allar hans gjörðir undanfarin ár hafi verið ein allshverjar hefndaraðgerð gagnvart Jóni Ásgeiri og Baugi. Þessar alhæfingar eru í besta falli kjánalegar. Ég ætla heldur ekki íslenskum ríkisstjórnum, þingmönnum, embættismönnum eftirlitsstofnana eða ráðuneyta annað en að þeir hafi unnið samkvæmt bestu samvisku og dugnaði, bæði fyrir og eftir hrun. Þeir kunnu bara ekki til verka, höfðu ekki þá nauðsynlegu reynslu, sem þjóðir annarsstaðar í heiminum höfðu til að fást við alþjóðlegt fjármálakerfi eða bankakreppur. Þetta óx allt saman yfirvöldum yfir höfuð. Glæpaverkin hjá bönkunum byrjuðu að mínu mati fyrir alvöru þegar þessir menn sáu að spilaborgin var að hrynja. Glæpaverkin í útrásarfyrirtækjunum voru við lýði frá byrjun þeirra og víkingarnir höfðu æft sig í glæpamennsku hérna heima áður en þeir fóru út. Í algjörri "paník" var þá reynt að bjarga hlutunum á síðustu stundu. Líklega hafa þessir menn verið haldnir þeirri áráttu okkar Íslendinga að halda að hlutirnir "redduðust" á síðustu stundu. Svoleiðis menn vill maður ekki hafa við stjórn landsins, stjórn stofnana ríkisins eða við stjórn banka eða stórfyrirtækja.
Íslenska þjóðin ber því beina pólitíska ábyrgð á málum fyrir að refsa ekki stjórnmálamönnum í kosningum fyrir að skipa vanhæfa einstaklinga í æðstu stöður ríkisins. Íslendingar bera hins vegar ekki beina ábyrgð á þeim glæpaverkum, sem unnin voru í einkabönkum eða einkafyrirtækjum hér á landi eða erlendis og leiddu til algjörs hruns efnahagslífsins. Allt þetta þarf að útskýra fyrir þjóðum Evrópu. Ég hef fulla trú á að þjóðir Evrópu sýni málinu einhvern skilning þegar þeir átta sig á að við treystum fávísum stjórnmálamönnum fyrir landinu okkar og þessir fávísu menn skipuðu vanhæfa vini og vandamenn í æðstu stöður hjá ríkinu sem brugðust eftirlitshlutverki sínu og þetta varð til þess að ótýndir glæpamenn og ævintýramenn settu landið á hausinn.
Við vorum bara sveitamenn, sem kunnum að róa til fiskjar og eitthvað til ræktunar í okkar hrjóstruga landi, en viðskiptamenn vorum við ekki þegar við ætluðum að sigra heiminn upp úr árinu 2000. Kannski að þetta takist í tilraun tvö. Reynsluna höfum við náð í, þótt hún hafi verið dýrkeypt! Svo er spurning hvort þjóðin hefur áhuga á annarri úrás?
Tveir handteknir vegna ráns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.7.2009 | 21:48
Kannski að sjálfstæðismenn fari að trúa mér núna ...
Niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins í morgun um að 60% landsmanna væru fylgjandi ESB aðildarviðræðum kom mér ekki á óvart. Þaðan af síður var ég hissa á að stuðningsmenn aðildarviðræðna við ESB innan Sjálfstæðisflokksins væru svo margir.
Um langan tíma hef ég haldið fram að um 25-30% kjósenda Sjálfstæðisflokksins væru fylgjandi ESB aðildarviðræðum. Nú hefur tiltölulega áreiðanleg skoðanakönnun sýnt fram á að tæpur helmingur sjálfstæðismanna, eða um 46,4 prósent, sé hlynntur aðild, en 53,6 prósent andsnúnir aðild. Þegar þetta er skoðað má ekki gleyma að fylgi flokksins er enn aðeins um 30%, sbr. skoðanakönnun Fréttablaðsins frá í gær. Segja má að enn vanti um 10% af fylgi Sjálfstæðisflokksins upp á miðað við fylgi flokksins í skoðanakönnun Fréttablaðsins frá því í febrúar 2008. Ég leyfi mér að fullyrða að langstærstur hluti þessara 10% séu fylgjendur ESB. Því má með sanni segja að fengjum við þessi 10% til baka, sem hlýtur að vera vilji allra sannra sjálfstæðismanna, væri meirihluti innan flokksins fyrir aðildarviðræðum við ESB.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í dag að það komi honum ekki á óvart að skiptar skoðanir séu um þetta mál meðal flokksmanna. Síðan er vitnað beint í formanninn:
"Á hinn bóginn vekur það athygli mína að mikill munur er á niðurstöðum kannana þegar spurt er hvort stuðningur sé við aðildarviðræður annars vegar, og hvort Ísland eigi að ganga í ESB hins vegar. Það er einkennandi fyrir umræðuna að mjög miklar væntingar eru gerðar til þess samnings sem okkur stendur mögulega til boða ...".
Skarplega athugað Bjarni. Hvorki ég eða Ragnheiður Ríkharðsdóttir eða Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir eða Þorsteinn Pálsson eða Vilhjálmur Egilsson eða Benedikt Jóhannesson eða Ragnheiður Helgadóttir eða Þór Vilhjálmsson eða tugþúsundir annarra hægri manna í landinu hafa farið fram á annað en viðræður við Evrópusambandið. Það er rétt að við, sem viljum aðildarviðræður við friðarbandalagið, höfum trú á að aðild að bandalagi Evrópuþjóða hafi góð áhrif á okkar samfélag hér á norðurhjara, en ekkert af okkur er til í að skrifa upp á aðild án þess að sjá samninginn þar á bak við!
Ég er í eðli mínu ekki "Besserwisser", en ansi held ég að fari um þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og í Kraganum núna, þegar þeim er ljóst að 60-70% þeirra kjósenda vilja í aðildarviðræður. Í næstu kosningum verða engin prófkjör og því lítil hjálp í "flokksvélinni" góðu, sem komið hefur mörgum frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins vel í hinum ýmsu kjördæmum, þ.e.a.s. þeim sem vel eru tengdir. Nei, nú verður aðeins ein kosningabarátta fyrir Alþingiskosningar og þar eru allir jafnir!
Hvernig ætla þingmenn Reykjavíkur og Kragans, aðrir en Ragnheiður Ríkharðsdóttir, að útskýra fyrir kjósendum sínum, að þeir hafi kosið tvisvar sinnum á móti aðild í næstu Alþingiskosningum, sem gætu orðið fyrr en síðar? Næstu kosningar munu fyrst og fremst snúast um afstöðu frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins til ESB og þá ekki síst í þéttbýliskjörnunum.
Hvenær ætli þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og í Kraganum setji í bakkgírinn? Þegar 70, 80 eða 90% landsmanna eru fylgjandi aðild eða þegar 50, 60, 70, 80 eða 90% flokksmanna eru hlynntir aðild?
Líkt og Pétur Blöndal sagði nýlega í morgunútvarpi Ríkistútvarpsins:
Leiðtogar leiða en lýðtogar eru leiddir af lýðnum
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
30.7.2009 | 20:10
Tímarnir breytast og kerfið með, en samt er nauðsynlegt að standa rétt að breytingum ...
Ekki ætla ég að gagnrýna ákvörðun Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra að landið verði gert að einu lögregluumdæmi, því slíkar hagræðingaraðgerðir - ásamt svipuðum aðgerðum varðandi varðandi skattstjóra og sýslumenn - hef ég bent á í mjög langan tíma.
Það er vissulega skiljanlegt, í ljósi erfiðrar stöðu ríkisfjármála, að farið skuli í stórkostlegan niðurskurð á framlögum til löggæslumála - líkt og skorið er niður í öllum málaflokkum hjá ríkisvaldinu -, sem birtist m.a. í formi breytinga á vaktakerfi og niðurskurði á yfirvinnu og fastri yfirvinnu o.s.frv. Svipaður niðurskurður bitnar því miður niður á starfsmönnum og starfsemi allra ríkisstofnana, m.a. þeirri sem ég vinn hjá, tollstjóra.
En hvernig í ósköpunum dettur hinu háa ráðuneyti í hug að fara í slíkar "strúktúrbreytingar" án þess að tryggja fyrir því einhvern stuðning lögreglumanna og yfirmanna löggæslu um land allt? Kannski er tími til kominn, að einhverjir sérfræðingar í breytingarstjórnun komi að slíkri endurskipulagningu hjá hinu háæruverðuga dómsmálaráðuneyti?
Ljóst er að hið háa ráðuneyti fellur ítrekað á námskeiðinu "breytingastjórnun 101".
Ísland verði eitt lögregluumdæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2009 | 20:39
Steingrímur setur skoðananabræður sína á spenann - hvað er bak við ystu Sjónarrönd ?
Líklega tala engir meira um "spillingu" og "nepótisma" en Vinstrigræn og þar á Steingrímur J. Sigfússon örugglega metið. Ég hef ítrekað haldið því fram að þrátt fyrir að ég sé kannski ekki oft sammála Steingímri, þá sé ég þeirrar skoðunar að Steingrímur sé sæmilega heiðarlegur, svona miðað við aðra stjórnmálamenn. Ég er ekki alveg jafn viss í minni sök lengur!
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins heyrði ég af einhverri skýrslu, þar sem fram kom að arðsemi orkufreks iðnaðar væri um það bil helmingur þess, sem væri af annarri atvinnustarfsemi í landinu. Mér fannst þetta merkileg frétt, þar sem ég hef verið svo einfaldur að halda því fram að orkufrekur iðnaður sé einmitt eitt af því, sem komi okkur út úr þessari bannsettri kreppu. Ég verð að viðurkenna að ég efaðist um bráðabirgða niðurstöðu skýrslunnar og því ákvað ég að skoða hverjir væru í þessari þriggja manna nefnd, sem Steingrímur J. Sigfússon skipaði í stuttu eftir að hann tók við völdum í fjármálaráðuneytinu.
Í ljós kom að fyrirtækið Sjónarrönd ehf sá um skýrslugerðina. Ég "gúglaði" það fyrirtæki og eftir að hafa skoðað heimasíðu fyrirtækisins sá ég ekki að þeir hefðu mikla reynslu í vinnu af þessu tagi. Í frétt RÚV kom reyndar í ljós að fyrirtækið hafði gert skýrslu um svipuð mál fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands. Nú, eftir að hafa séð að fyrirtækið, sem í hlut átti, hafði ekki mikla reynslu á þessu sviði, en hafði þó unnið eina skýrslu fyrir "Náttúruverndarsamtökin" sagði mér mitt "tollaranef", að hér væri ekki allt með felldu. Ég ákvað að "gúgla" vísindamennina að baki þessari skýrslu, en skv. fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins eru það þessir herramenn: Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur, dr. Sigurður Jóhannesson hagfræðingur, dr. Ásgeir Jónsson lektor við Háskóla Íslands og dr. Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Ég var að reyna að spara tíma og setti því inn nöfn hvers manns fyrir sig og síðan orðið "stóriðja", en það var til að sjá hvað mennirnir hefðu skrifað um þetta efni á netinu. Í ljós kom að þeir allir voru meira og minna bendlaðir við skrif um þessi mál, bæði á bloggi og annarsstaðar. Það sem ég fann í fljótu bragði sýndi mér að skoðun þeirra á málinu hefur verið mjög skýr í nokkurn tíma, eða að lítill sem enginn hagnaður væri af stóriðju. Það var engum blöðum um það að fletta að þarna voru á ferðinni "vísindamenn", sem voru mjög andvígir orkufrekum iðnaði. Niðurstaðan sem birtist í dag birtist eiginlega í öllum þeirra fyrri skrifum og því megum við búast við endanlegri niðurstöðu mjög fljótlega.
Helstu bráðabirgðaniðurstöður nefndarinnar voru skv. fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins þessar:
Arðsemi af fjármagni bundið í orkuvinnslu rúmlega helmingi minni að jafnaði en í annarri atvinnustarfsemi að stóriðju og fjármálastarfsemi undanskilinni.
Arðsemi íslenskra orkufyrirtækja talsvert lakari en orkufyrirtækja í Bandaríkjunum og Evrópu.
Í Evrópu og Bandaríkjunum standast orkufyrirtæki arðsemiskröfu betur en aðrar atvinnugreinar, en á Íslandi gera þau það þriðjungi verr.
Kostnaður vegna kaupa á kolefniskvótum getur haft umtalsverð áhrif á arðsemi orkufrekra fyrirtækja sem losa gróðurhúsalofttegundir.
Miðað við líklegan náttúrukostnað af dæmigerðum virkjanaframkvæmdum er þjóðhagsleg arðsemi þeirra sennilega umtalsvert minni en hefðbundnir arðsemisreikningar gefa til kynna.
Fyrirferð stóriðju jókst mjög í hagkerfinu fram á árið 2008. Ný álver tóku til starfa og verð á áli og orku hækkaði mikið um tíma. Þá hafa framkvæmdir við stóriðju kynt undir þenslu á vinnumarkaði undanfarin ár. Miklar sveiflur eru í þessum geira. Í júní 2009 er verð á áli og rafmagni frá stóriðju rétt rúmur helmingur þess sem var á sama tíma í fyrra í dollurum talið. Tekjur íslenskra orkufyrirtækja minnka að sama skapi og niðursveifla í efnahagslífinu verður meiri en ella.
Ég er samt hræddur um að nefndin verði að skoða hækkanir á álverði undanfarnar vikur áður en þeir birta endanlega niðurstöður, en þessi frétt var á vef Morgunblaðsins í dag:
Álverð hefur rokið upp síðustu dagana og var komið yfir 1.920 Bandaríkjadali tonnið á málmmarkaðnum í Lundúnum (LME) í gær. Álverð hefur aðeins einu sinni áður orðið svo hátt ef litið er til undanfarinna ára. Heimsmarkaðsverð á áli var að meðaltali um 1.700 dalir fyrir tonnið á síðasta ári og hafði verðið ekki verið jafnhátt í níu ár eða frá árinu 1995.
Ekki ætla ég að efast um að þessir ágætu stóriðjuandstæðingar hafi komist að þessari niðurstöðu á öðrum en "hávísindalegum" forsendum og beitt bestu aðferðafræði, eða efist þið ágætu lesendur nokkuð um það?
Bara til gamans hvet ég ykkur til að skoða ummæli Þorsteins Siglaugssonar hagfræðings um Landsvirkjun frá því í vor á heimasíðu hans. Ennfremur eru ummæli hans um Palestínumenn - sem ég er svo sem að hluta til sammála - mjög merkileg, þótt ekki væri nema vegna þess hvað þau samræmast vel stefnu ákveðins stjórnmálaflokks á vinstri vængnum. Þá er gaman að skoða ummæli hans um hvalveiðar, en hann virðist ekki vera mjög hlynntur þeim. Kemur það manni á óvart!
Kannski verður næsta skýrsla þeirra félaga um arðsemi hvalveiða. Ég held ég geti nú þegar getið mér til um niðurstöðu hennar.
Við skulum minnast orða Páls Skúlasonar, heimspekings og fyrrverandi rektors Háskóla Íslands, um gagnrýna hugsun:
Gagnrýnin er sú hugsun sem felst ekki á neina skoðun nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni.
150 starfa við hvalskurðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.7.2009 | 15:29
Klofnir "afturhaldskommatittir" að stjórna landinu úr aftursætinu ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.7.2009 | 10:26
Atgervisflótti brostinn á, stjórnmálamenn karpa um orðinn hlut ...
Ég hef verið gagnrýninn á mína menn í Sjálfstæðisflokknum undanfarin 1-2 ár og fengið bágt fyrir frá mörgum. Þetta skiptir mig litlu máli, því ég get synt mjög lengi á móti straumnum, eða allt þar til meirihluti minna ágætu manna sér ljósið. Þessa gagnrýni mína á Sjálfstæðisflokkinn má ekki misskilja á þann hátt, að ég hafi yfir nóttu breyst í vinstri mann - eins og margir virðast halda - því fer nefnilega víðs fjarri. Ég deili ekki jafnaðarhugsjóninni með Samfylkingunni eða umhverfisöfgahyggju og skattahækkunar- og launaflatneskjustefnu VG, hvað þá blautum draumum beggja vinstriflokkanna um einhvern óskapnað, sem þeir kalla "norræna velferðarkerfið", sem yrði til þess að Íslendingar þyrftu að borga um og yfir 50% í launaskatt.
Nei, ég var upp á kant við mína menn í einu einasta máli, sem er að ég vildi ganga til aðildarviðræðna við ESB. Nú er þetta mál vonandi komið í farveg og þá held ég áfram að berjast fyrir því að við sjálfstæðismenn göngum til þeirra viðræðna af heiðarleika og dugnaði, eins og okkur er einum lagið, þ.e.a.s. ef við finnum þá eiginleika innra með okkur eftir allt sukkið og svínaríið undanfarin ár. Við sjálfstæðismenn verðum að taka ákvörðun um hvort við ætlum að taka þátt í aðildarviðræðunum eður ei. Flokkurinn verður einnig að taka afstöðu til þess, hvort hann ætlar að vera andsnúinn aðild um aldur og ævi, þ.e. hvaða niðurstöðu sem aðildarsamningurinn skilar okkur. Þessu máli er auðvitað hægt að fresta, en okkur er með því enginn greiði gerður. Skynsamlegast fyrir flokkinn er að koma strax með einhverja yfirlýsingu um málið. Að mínu mati væri skynsamlegast - og skapaði mesta sátt innan flokksins - að segja, að við svo búið ætli flokkurinn ekki að komast að niðurstöðu í þessu máli, þ.e. afstöðu um væntanlegan aðildarsamning. Þetta er þó ekki sú yfirlýsing, sem ég kysi persónulega að sjá - líkt og flestum er ljóst - því ég vildi sjá flokkinn segja að við vildum aðild, nema að samningurinn væri svo slæmur að hann útilokaði aðild.
Nokkru áður en samningurinn verður lagður í dóm þjóðarinnar, getur Sjálfstæðisflokkurinn síðan gert upp hug sinn, hvort hann vill taka afstöðu til samningsins eða ekki. Sjálfstæðislokkurinn getur einnig ákveðið að taka ekki afstöðu til samningsins - þótt vissulega væri það einkennilegt - , en eftirlátið það frambjóðendum flokksins að gefa upp afstöðu sína í þingkosningum, er fara munu fram samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn. Ef ekki er farin sú leið að eftirláta þingmönnunum eftir þessa ákvörðun, er að mínu mati deginum ljósara, að Sjálfstæðisflokkurinn mun klofna, því hvort sem flokkurinn yrði andsnúinn eða hlynntur viðræðum, myndu stuðningsmenn eða andstæðingar ESB aðildar stofna nýjan hægri stjórnmálaflokk til að tryggja framgang síns máls á Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðisflokknum er því enn mikill vandi á höndum í þessu máli, þótt málin gætu auðvitað skýrst þegar samningurinn lítur dagsins ljós. Ef aðildarsamningurinn verður afburða góður eða slæmur gæti skapast samstaða um að hafna samningnum alfarið eða að stærstur hluti flokksins - aldrei harðlínumennirnir - samþykkti að styðja aðild Íslands að ESB.
Auðvitað þurfum við sjálfstæðismenn, sem stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og stærsta stjórnmálaafl landsins - skv. síðustu skoðanakönnun - að halda uppi málefnalegri og heiðarlegri stjórnarandstöðu á Alþingi. Fyrir utan ESB málið, þar sem sumir þingmenn fóru að mínu mati offari í málflutningi og notuðust við lygar, ýkjur og aðrar rangfærslur í málflutningi sínum, hafa mínir staðið sig ágætlega. Þannig lögðu sjálfstæðismenn fram ágætis efnahagstillögur, þótt seint væri, og hafa verið með uppbyggilega umræðu um þau fáu mál, sem borið hafa á góma. Ég er allavega feginn að sjálfstæðismenn eru ekki á sömu vegferð og þingmenn Framsóknarflokksins, sem með lýðskrumi sínu og afstöðu sinni í ESB málinu, hafa tapað miklu af sínum trúverðugleika. Sömu sögu má segja um Borgarahreyfinguna.
Í Icesave málinu hefur málflutningur margra sjálfstæðismanna verið mjög góður. Þar hafa sjálfstæðismenn í raun verið með einu réttu stefnuna, sem byggist á því að samþykkja í sjálfu sér samningana - enda líklega ekki um annað að ræða. Mikilvægt sé hins vegar, að Hollendingum og Bretum sé ljóst, að þetta samþykki þingsins sé þó háð mjög ströngum skilyrðum eða fyrirvörum. Reyndar eru fyrirvarar í samningnum sjálfum, en lögfróðir menn eru þeirrar skoðunar, að þeir gangi ekki nógu langt og að þeir séu ekki nógu skýrir og að á þessu þurfi því að gera bragarbót. Þar sem ekki var vandað til í samningaviðræðunum, sem var stjórnað af "amatörum", þarf að bæta úr núna. Fyrirvararnir verða þó að vera þannig úr garði gerðir, að samningurinn verði samþykktur af Bretlandi og Hollandi. Við þurfum á því að halda, að úr okkar lánamálum leysist og að ekki hlaupi snurða á þráðinn í aðildarviðræðunum við ESB.
Þegar þessu er lokið byrjar þó að mínu mati ballið. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, að stjórnarflokkarnir eru varla sammála um eitt einasta mál og nægir þar að nefna Evrópusambandið og Icesave, en einnig aðra hluti á borð við orkufrekan iðnað og olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Það er einmitt orkan í iðrum jarðar og í fallvötnunum, sem er það við höfum og það er það sem útlendingar hefðu hugsanlega áhuga á að lána okkur út á og byggja upp hér næstu árin. Þarna er vaxtarbroddurinn í efnahagslífinu hjá okkur næstu ár, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er ljóst að hægt er að gera átak í ferðaiðnaði og það mun skila okkur auknum gjaldeyristekjum, en stóru peningarnir eru í raforkunni og olíunni. Ætlum við okkur að komast aftur á lappirnar, verðum við að vera dugleg og sparsöm, nýta þá landkosti sem við höfum og síðast en ekki síst ganga til samstarfs við Evrópusambandið.
Hundruð flytjast til Noregs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Munurinn á því að stjórna landi og vera í aftursætinu og reyna að stjórna landinu er töluverður. Ég man að þegar ég var lítill var karl faðir minn ákaflega lítið hrifinn af þeim, sem vildu stjórna bílnum úr aftursætinu. Þetta skildi ég betur þegar ég varð fullorðinn og kynntist þessu af eigin raun. Munurinn felst aðallega í því að sá sem er við stýrið verður axla ábyrgð á akstrinum, en hinn sem er aftur í getur þvaðrað án nokkurrar ábyrgðar. Bílstjórinn verður að vega og meta hvað er rétt í stöðunni þegar litið er skammtímahagsmuna og langtímahagsmuna við aksturinn, t.d. hvaða leið á að fara, hvenær á að hemla og hvenær þarf að gefa í eða taka fram úr og síðast en ekki síst hvenær þarf að taka bensín. Þegar maður er í bílstjórasætinu þýðir ekki að gaspra og beita lýðskrumi, líkt og VG hefur verið svo tamt alla tíð frá stofnun þess flokks. Eini maðurinn innan VG, sem virðist hafa áttað sig á þessu er Steingrímur J. Sigfússon, þótt ekki vilja ég kvitta upp á vinnubrögð hans í Icesave málinu. Klofnu "afturhaldskommatittirnir" í mínum eigin flokki, Sjálfstæðisflokknum, virðast ekki heldur átta sig á því hvar lausnina er að finna!
Þegar allt hrundi síðastliðið haust og í vetur var tefld hér hálfgerð hraðskák og þá getur nú ýmislegt farið illa og menn leikið af sér. Við Íslendingar lékum því miður af okkur trekk í trekk og höfum alla tíð síðan verið í hálfgerðri "Sikileyjarvörn" og jafnvel enn ekki útséð með hvort við séum bara ekki hreinlega heimaskítsmát. Stjórnmálamenn í fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn hafa ítrekað reynt að breiða yfir slóð sína, en með misjöfnum árangri þó. Enn virðast íslenskir stjórnmálamenn stunda þetta þrátafl, sem þjóðin er algjörlega búin að fá upp í kok af.
Ég hef ítrekað lýst því yfir, að við landsmenn séum aðeins að sjá hluta af þeim samningi eða þeirri áætlun, sem við urðum að samþykkja til að hljóta fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, ESB, Bretum og Hollendingum og Norðurlöndunum, Rússum og Pólverjum. Sú stóra áætlun, sem sett var fram til bjargar Íslandi, er eitthvað á þá leið, sem getur hér að neðan. Björgunaráætlunin verður að fara fram í ákveðinni tímaröð, til að allir sem að áætluninni koma - ESB, AGS, Norðurlöndin - samþykki að vera með í henni:
Þetta er allavega eins og ég sé þetta í augnablikinu. Auðvitað lítur þetta út eins og einhverskonar töfralausn, en það hlýtur eitthvað bitastætt að liggja að baki umsnúningi Steingríms J. og sumra félaga hans í VG, í afstöðu þeirra til ESB og AGS. Þeir eru að leggja pólitíska framtíð sína og flokksins undir - ekkert minna.
ESB umsókn- Auðsjáanlegt er að umsókn Íslands að ESB kom engum á óvart innan sambandsins. Þetta sýndu m.a. jákvæð viðbrögð framkvæmdastjórnar ESB við aðildarumsókn Íslands, jákvæð viðbrögð utanríkisráðherra ESB og síðast en ekki síst jákvæð ummæli Joe Borg, framkvæmdastjóra fisveiðimála hjá ESB og Olli Rehn, framkvæmdastjóra stækkunarmála hjá ESB, þegar íslenskar sérlausnir hafa borið á góma í allan vetur. Þarna hefur Samfylkingin unnið ötullega að málum, allt frá því hún komst í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki.
Icesave samningur- Auðheyrilegt er að Icesave samningurinn tengist öllum þeim málum, sem nú eru til úrlausnar hjá ríkisstjórninni (ESB aðild, AGS láni og öðrum erlendum lánum, fjármögnun íslensku viðskiptabankanna).
Erlend lán- Svar Norræna fjárfestingarbankans við ósk Landsvirkjunar sýnir að hvergi verður lán að fá án þess að öll fyrrgreind mál komist í höfn. Samtal Steingríms J. Sigfússonar og Kristínar Halfvorsen, fjármálaráðherra Noregs, þar sem hún tilkynnir honum að öll sund séu lokuð án samþykktar Íslendinga á Icesave samningnum, segir sömu sögu.
Fjármögnun viðskiptabankanna - átti að vera lokið í febrúar en hefur verið margfrestað. Nú liggur í raun samkomulag fyrir, en ekki var hægt að ganga formlega frá því, hvers vegna? Er því ekki auðsvarað: ganga verður frá Icesave samningunum.
Fjármögnun HS orku og álversins í Helguvík og kísilverksmiðjunnar og gagnaversins- hefur verið á ís síðan í hruninu. Ég skal veðja að þetta kemst allt á skrið um leið Icesave er úr sögunni.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn & Franek Rozwadowski, sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi. Ummæli herra Rozwadowsky þess efnis að endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands yrði fyrst tekin fyrir í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar gengið hafi verið frá lánum Norðurlandanna til Íslands koma ekki á óvart í þessu samhengi. Íslenska ríkisstjórnin hefur hins vegar sagt að fyrst verði gengið frá lánum Norðurlandanna til Íslands þegar búið er að leysa Icesave deiluna við Hollendinga og Breta. Er þetta ekki mjög augljóst.
Ég veit að mörgum finnst að okkur sé stillt upp við vegg, en var við öðru að búast þegar íslenskir glæpamenn (stjórnendur bankanna og útrásarvíkingarnir) höfðu rænt sparifé hundruð þúsunda Breta og Hollendinga og að auki svikið út nokkur þúsund milljarða úr bönkum og vogunarsjóðum um heim allan, skuldir sem felldar voru niður við gjaldþrot bankanna.
Heldur fólk að erlendar ríkisstjórnir og erlendir bankamenn séu himinlifandi yfir því að Íslenski seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið leyfðu íslensku bönkunum okkar að skuldsetja sig um 12 falda þjóðarframleiðsluna? Auðvitað eru mörg ef og kannski í kenningu minni, en höfum við nokkuð annað hálmstrá til að halda í en vonina um að þessi mál leysist einhvernvegin, t.d. á þann hátt sem ég teikna upp hér að framan?