Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Okkur vantar andlega uppörvun en ekki þessa stanslausu neikvæðni ...

VetrarvedurÉg er vægast sagt orðinn þreyttur á þessum stanslausu yfirlýsingum Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur, að næsti vetur verði hræðilega erfiður. Það er landsmönnum fyllilega ljóst, að næsti vetur verður óskemmtilegur, þótt ekki væri nema vegna reynslunnar af síðasta vetri. Að tuða um þetta sí og æ gerir ástandið ekki betra. Ég er alls ekki að biðja um að ríkisstjórnin fegri ástandið, en fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Öll þjóðin gengur um með kvíðahnút vegna þessa og ríkisstjórnin virðist ekki vera að gera neitt, nema þá kannski að tala ástandið enn meira niður, eins og ekki sé nóg komið af því? Þótt ég sé sjálfstæðismaður óskaði ég þessari ríkisstjórn velfarnaðar. Við þurfum öll á því að halda, að þessari ríkisstjórn takist vel upp með verkefni sín - þjóðarhagur er undir. Vissulega fór stjórnin vel af stað, þegar hún samþykkti aðildarviðræður að ESB, sem er eitthvað sem við hefðum átt að gera þegar árið 2000, þegar við vorum tilbúin í það. Nei, það sem við þurfum er einhver sem sameinar þjóðina á þessum erfiðu tímum og talar í hana kjark og þor til að takast á við viðfangsefnin, sem eru ærin. Við höfum nóg af úrtölu- og svartsýnismönnum á blogginu og úti í þjóðfélaginu, þótt ekki tali ríkisstjórnin og þingmenn allt norður og niður. Slíkt er ekki háttur alvöruleiðtoga þjóða, sem eru í stórum vanda! Stjórnarherrar, sem halda að þeir geti byggt þetta land upp með neikvæðri umræðu vaða í villu. Slíkir valdhafar skaða þjóðina meira en þeir gagnast henni og gera grafalvegt ástand enn verra!

FyrirgefningMikilvægt er að rannsóknarnefndir og sérstakur saksóknari klári vinnu sína sem fyrst, en vandi sig samt engu að síður við vinnuna. Þjóðin mun heldur ekki finna ró í sínum beinum og sálarfrið fyrr en þau mál hafa verið gerð upp og skýrð á mannamáli fyrir henni. Þjóðin mun heldur ekki vera þeirrar skoðunar, að réttlætinu hafi verið fullnægt fyrr en þeir sem ábyrgð bera á því hvernig komið er fyrir henni hafa svarað fyrir gjörðir sínar. Þetta gildir jafnt um stjórnmálamenn, embættismenn, bankamenn og viðskiptajöfra. Að þessu loknu verður þjóðin að fyrirgefa minniháttar misgjörðir og eyða verður þeirri tortryggni, sem við finnum fyrir allsstaðar í þjóðfélaginu. Að lokum - og vonandi sem fyrst - verðum við einnig að fyrirgefa stærri yfirsjónir fyrrnefndra aðila. Það verður hins vegar ekki mögulegt fyrr en þeir sjá hvað þeir hafa gert af sér og hafa beðið þjóðina opinberlega afsökunar á því. Sá tími virðist því miður - eins og er - langt undan. Það mun taka okkur mun lengri tíma að komast út úr þeirri alvarlegu efnahagslegu og andlegu kreppu, sem við fyrirfinnum okkur í, ef við ætlum halda áfram á vegferð tortryggni og haturs út í náungann. Þjóðfélagssáttmáli sá er samfélag okkar byggir allt á er byggður á trausti og engu öðru en trausti.  Maður sem er fullur af hatri og óbeit á sjálfum sér og öðrum er sjálfum sér verstur og samfélag sem byggir á vantrausti og hatri er slæmt þjóðfélag og ekki aðeins fátækt af veraldlegum auði, heldur einnig andlegum auði. Munum að lokum, að fyrirgefningin gerir okkur sjálfum meira gagn en þeim sem er fyrirgefið.


mbl.is Upplausn hér verði Icesavelögum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagna "Blairisma" VG og Samfylkingar ...

Sundhöll SelfossÉg fagna þessu spori ríkisstjórnarinnar og kannski er henni ekki alls varnað? Það er þó einkennilegt með Samfylkinguna, að hér í Reykjanesbæ er hún á móti Fasteign, sem er fasteignafélag í eigu Álftaness, Fjarðarbyggðar, Fljótsdalshéraðs, Garðabæjar, Grímsnes-og Grafningshrepps, Norðurþings, Reykjanesbæjar, Sandgerði, Vestmannaeyja, Sveitarfélagsins Voga, Sveitarfélagsins Ölfus og fjármálafyrirtækjanna Borgunar, Íslandsbanka hf., Kreditkorta og Nýja Kaupþings banka hf., en getur síðan verið fylgjandi svipuðu rekstrarfyrirkomulagi hjá ríkinu. Fasteignafélög sem þessi byggja á þeirri hugmyndafræði, að mikil hagkvæmni liggi í samstarfi milli opinberra aðila og einkaaðila um samfélagsverkefni eða PPP (public private partnership). Markmið slíkra fyrirtækja er að skila virðisauka fyrir samstarfsaðila sína og eigendur og með því að afmarka verkefni sem slík fyrirtæki taka að sér, búa þau við nánast enga markaðsáhættu og standa vel af sér kreppur sem þær er við núna búum við.

Síðan setur Samfylkingin lög um uppskiptingu orkuframleiðslufyrirtækja og veitufyrirtækja - reyndar vegna ESB löggjafar, sem varð að taka upp hér á landi - og finnst það til mikillar prýði af því að hugmyndin kemur frá Brussel, en síðan er Samfylkingin mótfallin uppskiptingunni og sölu HS orku hér í Reykjanesbæ? Hugmyndin er reyndar góð og gild og ekki hef ég neitt á móti ESB, svo sem lesendum þessa bloggs má vera kunnugt um.

Eldri borgararSíðan minni ég á að einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni er ekki nýr af nálinni hér á landi. Heimilislæknar, einkareknar heilsugæslustöðvar, sérfræðingar á ýmsum sviðum sjúkdóma, sjálfstæðar rannsóknarstofur, DAS, Grund og fleiri elliheimili, SÍBS, SÁÁ, Sólheimar og Náttúrulækningafélagið eru staðreynd á Íslandi og dæmi um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni, sem hefur viðgengist með góðum árangri um áratuga skeið. Ég man í svipinn aðeins eftir tveimur dæmum um gagnrýni á slæman rekstur eða að ásakanir hafi komið upp um óráðsíu og hrein og klár svik (Sólheimar og Birgið). Þaðan af síður man ég eftir að illa hafi verið farið með fólk á slíkum stofnunum eða að þjónustan hafi verið gagnrýnd fyrir að vera lakari en hjá ríkisstofnunum! Skilur einhver svona stjórnmál! 

Ég hlakka svo til að heyra frá meðlimum VG og hvað "einn fremsti sérfræðingur Breta" í þessum efnum, Allyson M. Pollock, prófessor við Edinborgarháskóla, sem jafnframt veitir forstöðu rannsóknarstofnun á þessu sviði, hefur um allt þetta að segja (búinn að lesa mér til um hann og þótti ekki mikið til um)!


mbl.is Í athugun að einkaaðilar reisi fangelsi sem ríkið leigi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagræðum og leggjum embætti forseta Íslands niður ...

BessastaðirÉg hef áður bent á að embætti forseta Íslands sé algjörlega gagnslaust embætti, enda er það raunverulega aðeins til af því að fyrsta íslenska stjórnarskráin var afrit af dönsku stjórnarskránni. Það er í lófa lagið að auka völd og áhrif forseta Alþingis og hann gæti hæglega sinnt opinberum skylduverkum forsetans.

Ég legg því til að skoðaður verði möguleiki á því sem allra fyrst að stjórnarskránni verði breytt og embætti forseta Íslands verði lagt niður. Með embættisfærslum sínum í kringum fjölmiðlafrumvarpið og svo núna með staðfestingu Icesave ábyrgðarinnar er augljóst að núverandi forseti er aðeins pólitísk framlenging vinstri manna á Íslandi enda fyrrverandi liðsmaður þeirra. 


mbl.is Yfirlýsingin hefur ekkert lagalegt gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær á að skoða stjórnendur lífeyrissjóðanna?

Ég veit ekki hvers vegna fólki stendur svona á sama um hvað verður um framlag þess í lífeyrissjóðinn sinn. Ef ég man rétt þá er framlag launþega á almennum launamarkaði á bilinu 11% en hjá ríkinu 15,5% af heildarlaunum.

Með þessa peninga valsa lífeyrissjóðirnir, kannski ekki að eigin vild, en að því er virðist án mikils eftirlits og aðhalds, líkt og dæmin undanfarin ár sýna okkur. Erlendar fjárfestingar hafa verið gagnrýndar, en þær eru nú það sem bjargar sjóðunum. Tiltölulega lítið hefur verið fjallað um hvað áhættufjárfestingar hafa kostað lífeyrissjóðsfélaga á undanförnum árum og hversu mikið tapaðist, nema þá í öfgatilfellum. Sumir segja jafnvel að verið sé að fela tap lífeyrissjóðanna? Hvað er satt í því efni og hversvegna ganga fjölmiðlar ekki í að upplýsa þau mál?

Í flestum tilfellum sitja sömu aðilar enn við stjórn sjóðanna, þótt þeir hafi sýnt svo hroðalega neikvæða afkomu á undanförum árum. Stjórnendur á hinum almenna vinnumarkaði hefðu verið reknir umsvifalaust og hjá ríkinu hefðu þeir fengið á sig stjórnsýsluúttekt frá Ríkisendurskoðun og í kjölfarið áminningu eða jafnvel strax verið veitt lausn frá embætti.

Hverslags huldustofnanir eru þessir lífeyrissjóðir, sem nær enginn sjóðsfélagi virðist fylgjast með, þótt allir virðist treysta á þessa sjóði þegar þeir verða gamlir eða eru neyddir til að þiggja örorkulífeyri? Nú ætla lífeyrissjóðirnir að setja á stofn fjárfestingarsjóð, sem er að mörgu leyti ágæt hugmynd, en í umboði hvers eru slíkar stórákvarðanir teknar? Var boðað til sjóðsfélagafundar?

Hvernig væri, að hver einn og einasti lífeyrissjóður boðaði til aukafundar, þar sem fjárhagsstaða sjóðanna væri kynnt og skýrð fyrir félögum, þ.e.a.s. hvað mikið tapaðist vegna glæfralegra áhættufjárfestinga á undanförnum árum. Þurfa þessir menn enga ábyrgða að bera frekar aðrir, þótt það eigi að heita svo að þeir séu í "þjónustu almennings í landinu"?


mbl.is Fjárfestingasjóður ræddur af meiri þunga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burt með vinstri menn og ríkisvæðingu - við viljum hagvöxt, atvinnu og framkvæmdir

Það verður að teljast furðuleg forgangsröðun hjá ríkisvæðingar vinstri stjórninni, að eftir að stór hluti íslenskra fyrirtækja - ekki aðeins bankarnir - er kominn í hendur ríkisins, fyrirtæki og heimili landsins eru á leið í fjöldagjaldþrot, fjöldaatvinnuleysi ríkir í landinu, gífurlegur halli á ríkissjóði neyðir stjórnvöld til að skera niður laun, þjónustu og framkvæmdir og stutt virðist vera í miklar uppsagnir hjá ríkinu, þá sé það eina sem stjórnvöldum dettur í hug að kaupa til baka fyrirtæki, sem að hluta til hefur verið einkavætt.

Með þessu er ríkið ekki aðeins að koma í veg fyrir að 100 milljarða fjárfesting í orkuiðnaðinum á Suðurnesjum verði að veruleika á næstu árum - sem kæmi í knallhörðum gjaldeyri til landsins - heldur einnig að setja áform um álver á Suðurnesjum í hættu, áform um kísilverksmiðju á Suðurnesjum í hættu og áform um byggingu gagnavers á gamla varnarsvæðinu í hættu.

Hvar ætlar Steingrímur J. Sigfússon og stúdentinn Katrín Júlíusdóttir að fá fjármagn til uppbyggingar í landinu? Hafa þau enn ekki áttað sig á því að aðstæður eru aðrar nú en árið 2007 og að lánamöguleikar okkar eru og verða næstu árin nær engir?

Við þurfum hér fólk við völd, sem hefur eitthvað annað á stefnuskránni en ríkisvæðingu þess litla atvinnurekstrar, sem enn er ekki kominn í hendur ríkisins. Burt með vinstri menn og ríkisvæðingu - við viljum hagvöxt, atvinnu og framkvæmdir!


mbl.is Vilja hlut Geysis Green
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar og Hollendingar verða ekki taldir meðal vinaþjóða Íslendinga næstu áratugina

Fyrstu viðbrögð mín við hjásetu sjálfstæðismanna voru þau að þetta hafi verið röng ákvörðun. Flokkurinn hefði átt að vera klofinn í afstöðu sinni og í sjálfu sér ekkert rangt við það. Bjarni Benediktsson útskýrði síðan ágætlega afstöðu sína og þingflokksins til þessa máls. Ég kaupi þau rök og jafnframt sáttur við að Birgir Ármannsson og Árni Johnsen hafi kosið á móti samkomulaginu. Svipaða niðurstöðu hefði ég viljað sjá í ESB málinu, en því miður breyttist Sjálfstæðisflokkurinn í þennan venjulega hagsmunagæsluflokk í því máli.

Ég held jafnvel að það komi ágætlega út gagnvart Bretum og Hollendingum að Sjálfstæðisflokkurinn hafi samþykkt fyrirvarana og þeir þar með hlotið yfirburðastuðning innan þingsins. Hjásetan sýndi að Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn samkomulaginu sem slíku, en áttar sig á því að við þessar aðstæður er ekki hægt að leggjast gegn því. Þannig er Bretum og Hollendingum gefið til kynna að áhersla þingsins er á fyrirvarana en ekki samkomulagið. Það er síðan styrkur fyrir ríkisstjórnina í viðræðum Breta og Hollendinga, að rétt tókst að merja samkomulagið í gegn með því að setja fyrirvarana og tala stjórarþingmenn til.

Bretum má með þessu vera ljóst, að þjóð og þing eru andsnúin þessu samkomulagi og telja það óréttlátt og ósanngjarnt, að þjóðin beri ábyrgð á skuldum þeirra óreiðumanna, sem til þeirra stofnuðu. Íslendingum hafi frá upphafi verið stillt upp við vegg í þessu máli - líkt og Þjóðverjum í lok heimsstyrjaldarinnar síðari - og okkur hafi frá upphafi verið hótað öllu illu borgum við ekki allt upp í topp með vöxtum og vaxtavöxtum. Við myndum einangrast á alþjóðavettvangi, ýjað var að því að viðskiptahindranir yrðu settar upp, EES samningurinn væri í hættu, ESB aðildarviðræður kæmust í uppnám og lánamöguleikar okkar hjá AGS og Norðurlöndunum yrðu að engu gerð, tryggt yrði að lánstraust okkar yrði ekkert um aldur og ævi. 

Hvaða kost áttum við annan en að samþykkja þetta ólánssamkomulag. Þetta var kúgun tveggja frekar stórra þjóða gegn örríki á norðurhjara! Við komumst í góða aðstöðu til að launa Bretum og Hollendingum lambið gráa þegar við komumst í ráðherraráð ESB og aðrar stofnanir sambandsins. Þessar þjóðir geta ekki reitt sig stuðning okkar í erfiðum málum og af þeim hafa þessar tvær þjóðir nóg af, allavega Bretar. Við erum ekki lengur "vinaþjóðir" þessara þjóða og verðum það ekki innan ESB þegar/ef við verðum aðildarríki ESB. Vegna þess ofbeldis, sem Bretar og Hollendingar hafa beitt okkur verða samskiptin köld næstu áratugina. Sagan hefur kennt okkur að Bretar eru ofbeldisfull þjóð, sem svífst einskis og framkoma Hollands gagnvart nýlendum þess var engu skárri. Ég hef ímugust á þessum þjóðum! 

Koma tímar, koma ráð!


mbl.is Icesave losi lánastíflu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi er 11,7% - nei við 100 milljaðra fjárfestingu - ábyrg stefna?

SvartsengiÞjóðin verður að skilja, að með þeirri furðulegu stefnu, sem ríkisstjórnin stendur fyrir, er hún okkur stórhættuleg . Vinstri stjórnin berst um hæl og hnakka gegn virkjunum og stóriðju um land allt og hefur sýnt sig andsnúna allri annarri atvinnuuppbyggingu, s.s. olíuvinnslu.

Ef þessi stefna er ekki réttlætt með öfgaumhverfisstefnu, þá er bætt um betur og fjárfestingum upp á 70-100 milljarða hafnað af því að það eru útlendingar sem vilja fjárfesta í orkuiðnaði. Hefur sú staðreynd farið framhjá því ágæta fólki, sem með veikum mætti er að reyna að stjórna landinu, að við Íslendingar njótum ekki ekki lengur trausts erlendis og að við fáum þar af leiðandi engin lán næstu árin. Það verður nógu erfitt að endurfjármagna núverandi skuldir Landsvirkjunar og fleiri orkufyrirtækja, hvað þá að reyna að fá lán til nýrra framkvæmda, t.d. í orkufrekum iðnaði. Hvað sem Samfylkingin og VG segja er leiðin út úr kreppunni að framleiða meira og flytja meira út - flóknara er það nú ekki!

Nú er tæpt ár liðið frá hruninu og ég spyr ykkur landsmenn góðir:

Er það ábyrg stjórnarstefna við núverandi aðstæður að segja nei við 70-100 milljarða fjárfestingu á Reykjanesi, þegar atvinnuleysi þar var í júlí 11,7%?

Er það ábyrg stjórnarstefna að skilja fyrirtæki og heimili landsins eftir hjálparlaus og nær gjaldþrota í heilt ár? 

Verðum við ekki að koma þessari ríkisstjórn frá völdum?

Verðum við ekki að sækja búsáhöldin okkar?

Hvar er stjórnarandstaðan?

Hvað segir fólkið í landinu?

Hvar er leiðtogi okkar? 


mbl.is Greiðsluviljinn að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkislandbúnaður og ríkissementsverksmiðja - "kartöfluöryggi" og "sementsöryggi" ...

KaupfélagiðÞað fer ekki á milli mála að harðlínu vinstristjórn er tekin við stjórnartaumunum. Daglegar yfirlýsingar Jóns Bjarnasonar staðfesta þetta svo ekki leikur neinn vafi á þar um. Í gær kom yfirlýsing um að ríkið ætti að kaupa til baka þær jarðir, sem það hefur verið að selja á undanförnum 20 árum. Þetta átti að gera til að tryggja "fæðuöryggi" landsmanna. Er einhver að deyja úr hungri hér? Það væri helst að við myndum deyja úr kartöfluskorti af því að það fraus í Þykkvabænum um mitt sumar! Ég vona að Pólverjar eða einhver önnur Evrópuþjóð aumkvi sér yfir okkur og sendi okkur jarðepli, svo "kartöfluöryggi" okkar sé tryggt í vetur, því það íslenska brást okkur svo illilega. Við þurfum auðvitað líka að búa við "sementsöryggi". Steingrímur J. Sigfússon bætir síðan um betur og vill hrekja í burtu einu fjárfestana, sem sýna landinu einhvern áhuga um þessar mundir og vilja reisa orkuver á Suðurnesjum til að álverið, kísilverksmiðjan og gagnaverið komist af stað. Eru hér ekki tugþúsundir manna og kvenna atvinnulaus, stefnir ekki í meira atvinnuleysi, vill einhver lána okkur peninga til framkvæmda, er ekki í lagi heima hjá þessu fólki?

Við skulum vona að aðrar þjóðir fari ekki að hugsa líkt og VG og vilji tryggja "fisköryggi" sinna þjóða eða "álöryggi" eða "ferðamannaöryggi" sitt! Þessi verndunarstefna, sem birtist í einangrunarstefnu og verndartollum, kom ekki aðeins okkur Íslendingum illa í kjölfar kreppunnar miklu 1929-30, heldur allri heimsbyggðinni í efnahagslega lægð, sem varði annarsstaðar um áratuga skeið, en hjá okkur Íslendingum allt þar til fyrir 10-15 árum. Vörumst höftin, vörumst einangrunarhyggju og heimóttarskap! Sækjum fram með meiri framleiðslu og meiri útflutningi á því sem hagstætt er að framleiða hér á landi. Þannig komumst við fljótt út úr vandanum.

Leið VG og Samfylkingar - ríkisvæðing og verndartollar - er sama leið og leiddi fátækt yfir þessa þjóð. Sú stefna varð til þess að lífskjör hér á landi voru mun lakari en annarsstaðar í Norður-Evrópu um áratuga skeið! Vissulega gerðum við sjálfstæðismenn hrapaleg mistök á undanförnum 5-7 árum, en uppbyggingarstefna á árunum 1991 - 2001 - áður en mistökin við einkavæðingu bankanna voru gerð - var hárrétt.

Það er munur á hægri og vinstri stefnu! 


mbl.is Ísland ekki eftirsóttur markaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðblinda í íslensku samfélagi

Nicolo MacchiavelliÞótt ekki sé ég níhilisti hef ég í nokkur ár haft áhuga þessu fyrirbæri. Áhugi minn vaknaði í BA námi í þýsku, þar sem þessi mál bar – eðli málsins samkvæmt – nokkrum sinnum á góma. Í meistaranámi mínu í Opinberri stjórnsýslu var okkur ráðlagt, af dr. Gunnari Helga Kristinssyni, að lesa bókina Furstinn eftir Macchiavelli. Ég hafði lesið bókina nokkrum árum áður og haft mjög gaman af. Ég las hana aftur árið 2005 og hafði ekki jafn gaman af. Ég sá sem var, að Ísland var að mörgu leyti ekki ósvipað litlu borgríki á Ítalíu á miðöldum, þar sem algjör aðskilnaður hafði orðið milli stjórnmála og siðferðis og það sem verra var algjör aðskilnaður milli stjórnmála og kristilegs siðferðis. Þeir sem lesið hafa bókina hljóta að samsinna mér í þessu efni. Hugleiðingar mínar í dag eru sprottnar upp úr Kastljósviðtali Sigmars Guðmundssonar við Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, fyrir nokkrum dögum, hugleiðingum mínum og pælingum í vetur um hrunið, nepótisma og aðra pólitíska spillingu, níhilisma, siðblindu, hvar sem hún finnst og bókina Furstann eftir Macchiavelli. Mér finnst þetta allt saman tengjast órjúfanlegum böndum.

TurgenevNíhilismi dregur nafn sitt af latneska orðinu „nihil”, sem þýðir í raun „ekkert”. Níhilismi er þannig einhverskonar heimspeki orðsins „nei”. Níhilistinn heldur því blákalt fram, að siðferði eða þekking byggist aðeins á huglægu mati eða vali viðkomandi, sem byggist á tilfinningu en ekki staðreyndum og séu því í raun ekki til og því ekki marktæk. Stjórnmálaleg útgáfa níhilisma er svipuð, eða að eyðileggja beri allar valdastofnanir þjóðfélagsins án þess að eitthvað eigi að koma í stað þeirra. Siðmenning okkar, sem byggir að stórum hluta á trúarbrögðum, heimspeki og svo auðvitað ofangreindu huglægri þekkingu og siðalögmálum sé aðeins tilraun til að fela þá staðreynd að lífið sé tilgangslaust. Ég spyr í framhaldi af þessu, hvort sú ágæta stefna frjálshyggjan hafi ekki gengið of langt á Vesturlöndum á undanförnum árum líkt og kommúnisminn gerði á sínum tíma. Breyttist ekki hugmyndin um frjálsa verslun og viðskipti í meðförum misviturra stjórnmálamanna margra Vesturlanda í hálfgerðan pólitískan níhilisma? Með sömu rökum og félagshyggjumenn halda því fram að vinstri stefnan sé ekki dauð úr öllum æðum, þrátt fyrir skipbrotið sem stefnan leið í formi kommúnismans, vil ég leyfa mér að fullyrða, að „hófleg” frjálshyggja sé heldur ekki dauð úr öllum æðum, þrátt fyrir að kapítalismann hafi steytt á skeri!

ENRONÞað sem einkennir siðblinda einstaklinga er skeytingar- og virðingarleysi þeirra gagnvart óskrifuðum og stundum jafnvel skrifuðum reglum samfélagsins og gagnvart meðborgurum sínum. Siðblinda einskorðast þó ekki aðeins við einstaklinga, heldur magnast hún jafnvel upp þegar margir koma saman. Þetta kom mjög skýrt fram í ENRON málinu fræga, sem Kristján G. Arngrímsson blaðamaður gerir mjög góð skil í grein sinni í Morgunblaðið 7. júní 2006. Kristján lýsir þar niðurstöðum rannsókna „siðblindusérfræðinganna” og sálfræðinganna Robert Hare og Paul Babiak á siðblindu innan fyrirtækja. Þar er skýrt frá því, að siðblinda sé ekki geðveiki, heldur sé um persónuleikabrest að ræða. Grundvallareinkenni brestsins séu algjört samviskuleysi og fullkominn skortur á hluttekningu og samúð. Siðblindingjar séu: „ ... gráðugir, sjálfselskir, svikulir, óáreiðanlegir og gjarnir á að fá óhamin reiðiköst. Þeir eru rándýrin í mannfélaginu. En við fyrstu kynni eru þeir algjörlega heillandi, skilningsríkir og sjálfsöryggið skín af þeim.” Ég spyr ykkur lesendur góðir á þessi lýsing ekki vel við um viðbrögð útrásarvíkingana okkar, viðbrögð stjórnenda bankanna og viðbrögð stjórnmálamanna, sem sök eiga að máli?

Big Business & CrimeAf þessu leiðir, að ekki er hægt að lækna siðblindu eins og hvern annan sjúkdóm. Það sem er enn verra, er að það fer eftir stað og stund og gildismati þjóðfélagins hverju sinni, hvað við teljum siðblindu og hvað ekki. Mér er t.d. hugsað til þess þegar styrjaldir eða náttúruhamfarir dynja yfir og allt mat manna breytist eins og hendi sé veifað. Menn, sem við myndum telja miskunnarlausa og kaldrifjaða, eru hetjurnar í stríðinu, en verða síðan afbrotamenn og úrhrök eftirstríðsáranna eða kaldrifjaðir, miskunnarlausir stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar þeirra sömu ára, sem allir hafa í miklum metum. Þeir Hare og Babiak rekja þær miklu breytingar, sem orðið hafa á umhverfi stórfyrirtækja í Bandaríkjunum á undanförnum árum, sem fólust m.a. í því að gömul og stór fyrirtæki skruppu saman og og runnu saman við önnur auk þess sem samkeppni hafi mjög harðnað. Allt þetta hafi í raun búið í haginn fyrir fólk haldið siðblindu án þess að til þess hafi verið ætlast. Hare heldur því fram, að nær eina leiðin til frama innan fyrirtækja sé að ganga siðblindingjunum á hönd. Þjóðfélagið ýti síðan undir þessa þróun með meiri áherslu á hluti á borð við „ ...yfirborð og stíl á kostnað áherslu á innihald og grunnatriði”. Ef þetta á ekki við um árin 2002 - 2008 sérstaklega hér á landi, en þó einnig víða á Vesturlöndum?

Siðblindir einstaklingar færa sig upp á skaftið með tímanum. Í byrjun eru brotin smávægileg og ekki mjög tíð, þeim fjölgar síðan hratt og stöðugt hraðar auk þess sem þau vaxa að umfangi og alvarleika. Þetta gerir síðan siðblindingjum auðveldara fyrir að halda sínu striki án þess að brjóta lögin eða jafnvel fremja glæpi í skjóli eða með tilstilli laganna líkt og hér á Íslandi varðandi Icesave reikningana. Enn heldur Kristján áfram:

Ekki svo að skilja að allir sem komast til metorða innan stórfyrirtækja séu fyrirlitlegir siðleysingjar. Fyrr mætti nú vera. Metorðin segja ekkert um siðgæði fólks, það eru aðferðirnar sem það beitir, og þá fyrst og fremst viðhorf þeirra til samstarfsmanna sinna, sem skera þar úr. Hare segir að líklega sé erfðagalla um að kenna - en vissulega hafi félagslegt umhverfi áhrif - að siðblint fólk finnur ekki tilfinningar á borð við depurð, ótta, sektarkennd og iðrun, þótt það hafi fullkomlega vitsmunalegan skilning á þessum tilfinningum.
 
En siðblindingjarnir upplifa aldrei tilfinningarnar sjálfar og geta þar af leiðandi ekki haft eiginlegan skilning á því hvernig öðru fólki - sem hefur þessar tilfinningar - raunverulega líður. Og þar af leiðandi geta siðblindingjarnir ekki sett sig í spor þessa fólks. Það mætti líkja þessu við að maður myndi lesa og læra allt sem hægt er að læra um tannpínu, en maður myndi samt ekki í raun og veru skilja þjáningu þess sem haldinn er tannpínu ef maður hefði aldrei fengið hana sjálfur.
 
Hare telur að í Norður-Ameríku sé um það bil eitt prósent íbúanna siðblint. Þótt siðblint fólk sé í sumum tilfellum vissulega fært um að fremja morð sé það í flestum tilvikum greint og vel upp alið og "nýti" því þennan eiginleika sinn fremur til að öðlast völd, virðingu og peninga. Siðblindingjar séu því í fæstum tilvikum beinlínis hættulegir. 


Hér að neðan gefur síðan að líta ýmsar tegundir persónuleikatruflana af andfélagslegri gerð, sem byggist á grein Gylfa Ásmundssonar, sálfræðings, í tímaritinu Geðvernd, 1 tbl. 1999. Ég tel hana lýsa mjög vel ýmsu því, sem við Íslendingar höfum upplifað í stjórnmálum og viðskiptum áundanförnum árum:

Persónuleikatruflanir af andfélagslegri gerð:

• Tillitsleysi við aðra og hneigð til að brjóta á öðrum í eiginhagsmunaskyni.
• Virðingarleysi fyrir siðum, reglum og lögum sem leiðir oft til afbrota.
• Viðkomandi beita ofbeldi ef það þjónar eigin stundarhagsmunum.
• Beita lygum og blekkingum auðveldlega.
• Hafa litla stjórn á löngunum, framkvæma fljótt það sem þeim dettur í hug en sjá ekki fyrir afleiðingarnar og læra ekki af reynslunni.
• Hafa grunnar tilfinningar og hafa ekki samúð með öðrum nema á yfirborðinu.
• Hafa ekki hæfileika til að tengjast öðrum tilfinningaböndum.
• Samviskuleysi.
• Siðblinda.

Geðhrifa persónuleikaröskun (hystrionics)

Helstu einkenni:

• Ýkt geðbrigði.
• Athyglissýki.
• Framkoma þeirra hefur stundum á sér kynferðislegt yfirbragð.
• Sjálflæg persónuleikaröskun (narcissistisk)


Einkenni: 

• Sjálfmiðaðir og sjálfumglaðir einstaklingar.
• Hafa lítið innsæi í eigið sálarlíf.
• Eiga erfitt með að setja sig í spor annarra og taka tillit til þeirra.
• Eiga erfitt með að taka gagnrýni og sjá yfirleitt ekki sök hjá sjálfum sér.
• Þegar þessir eiginleikar verða mjög áberandi í fari manns, sérstaklega ef þeir hafa truflandi áhrif á samskipti hans við annað fólk, flokkast það undir persónuleikaröskun.


Heimildir:

Kristján G. Arngrímsson, Viðhorf - Snákar í jakkafötum - Morgunblaðið, 7. júní, 2006 .
Gylfa Ásmundssonar, sálfræðingur, Andfélagsleg persónuleikaröskun (antisocial) 
Geðvernd, 1 tbl. 1999.
Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við við Háskóla Íslands, (http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=247)


mbl.is Hagar í gjörgæslu Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað mistókst í "hægri tilrauninni"?

Liberal CrapÞað er einkennilegt en um leið hressandi að tilheyra að nýju minnihlutahópi. Fyrstu grein mína í fjölmiðla skrifaði ég í Morgunblaðið aðeins 16 ára gamall, en það var fyrir 31 ári síðan. Greinin var um frjálshyggju og hvernig sú ágæta stefna gæti leitt okkur út úr þeim vanda, sem við var að etja á því herrans ári 1978. Allt frá þessum tíma og til þessa dags hef ég verið þeirrar skoðunar að séríslensk útfærsla af frjálshyggju væri lausnin á vandamálum þeim sem hrjáðu okkur áratugum saman og gætu farið að hrjá okkur að nýju sé ekki rétt haldið á málum.

Vandamál Íslendinga alla tíð hafa verið blokkamyndanir á borð við Sambandið og Kolkrabbann, klíkuskapur innan stjórnmálaflokkanna og gífurleg ættdrægni (e. nepotism). Ég taldi að með því að gefa fólki fullkomið athafnafrelsi, koma á samkeppni á markaði á Íslandi og frjálsu flæði á fjármagni og vöru myndi Ísland blómstra sem aldrei fyrr. Draumur minn rættist og ríkisstjórn sú sem tók við völdum árið 1991 kom í áföngum á  því frelsi hér á landi, sem mig og marga aðra hægri menn hafði dreymt um í langan tíma. Við vorum ekki hissa þegar allt fór að blómstra á Íslandi og upp spruttu í skjóli frelsis metnaðarfullir einstaklingar, sem komu af stað metnaðarfullum fyrirtækjum er uxu hratt og örugglega. Þarna á ég t.d. við fyrirtækið Össur, Marel en einnig fyrirtæki sem nú eru því miður komin í ónáð hjá flestum Íslendingum, t.d. Bakkavör og Bónus. Allt voru þetta í byrjun fyrirtæki sem spruttu upp fyrir tilstilli einstaklinga, sem höfðu úr engu öðru að spila en eigin hugviti, gífurlegum dugnaði og útsjónarsemi og á þessu komst maður og kemst býsna langt! Öll voru þessi fyrirtæki - allavega tímabundið - óskabörn þjóðarinnar.

Ólafur Ragnar & fjölmiðlalöginAllt gekk vel í byrjun, en í síðasta lagi árið 2003 - 2004 fóru að renna á mig tvær grímur. Ég sá að vissir einstaklingar stóðu ekki aðeins í rekstri sinna fyrirtækja - líkt og eigendur Marels og Össurar -, heldur stóðu þeir einnig í pólitík. Þessir athafnamenn fóru að kaupa fjölmiðla í gríð og erg og réðust í útgáfu blaðs, sem þeir dreifðu ókeypis í öll hús. Í byrjun hugsaði ég með mér, að það væri nú bara ágætt að fá þessi blöð send heim, en fljótlega sá ég að þessi blöð voru hápólitísk og að markmið þeirra var að stóru leyti að breiða út skoðanir eigenda sinna. Þetta kom best í ljós í aðdraganda kosninga eða þegar mál komu upp, sem eigendum þessara fjölmiðla mislíkaði niðurstaðan í. Stöð 2 tók sömu breytingum og þær útvarpsrásir, sem reknar voru í sama rekstrarfélagi. Þetta sáu fleiri en ég og reynt var að koma böndum á þá starfsemi, þannig að ekki væri hægt að misnota fjölmiðla á þennan hátt. Það tókst ekki, þar sem fjölmiðlar auðjöfranna héldu uppi grímulausum áróðri gegn þeirri löggjöf, sem takmarka átti áhrif þeirra. Með þessum gífurlega áróðri tókst að heilaþvo meirihluta Íslendinga. Eini stjórnmálaflokkurinn, sem tók einarða afstöðu með auðmönnunum, var Samfylkingin. Samfylkingin virðist stundum ekki hafa neina eiginlega stefnuskrá, nema kannski afgerandi afstöðu varðandi aðild Íslands að ESB, sem ég reyndar einnig aðhyllist. Nei, þessi stjórnmálaflokkur myndar sér skoðun eftir því hvernig vindurinn blæs, þ.e. hvaða skoðun flokkurinn heldur að almenningur hafi eða muni hafa. Þar sem auðjöfrarnir stjórnuðu skoðunum almennings í landsins, stjórnuðu  þeir einnig lýðskrumurunum í Samfylkingunni og skoðunum forseta Íslands - meðhjálpara Samfylkingarinnar og klappstýru útrásarvíkinganna - og með hans hjálp tókst síðan að koma í veg fyrir að fjölmiðlalögin tækju gildi. Auðjöfrunum, Samfylkingunni og forsetanum tókst að mynda djúpa gjá milli þjóðar og þings.

Davíð & GeirÞarna sá ég, að ríkisstjórnin og meirihluti þingsins stjórnuðu ekki lengur þessu landi, heldur ólígarkar Íslands. Þegar Davíð ákvað að hætta létti mér mikið, því ég vissi að Geir H. Haarde tæki við og þar með mildari stefna Sjálfstæðisflokksins. Mér stóð að mörgu leyti stuggur af öfgakenndum skoðunum Davíðs síðustu árin. Eftir á að hyggja voru þær kannski öfgafullar en réttar. Því miður áttaði Davíð sig of seint og gjörðir fylgdu ekki alltaf orðum, en kannski var á þessum tíma við ofurefli að eiga? Mildari stefnu var allavega ekki það sem ólígarkarnir þurftu á að halda, svo mikið er víst. Ég treysti því að Geir gæti talað við Jón Ásgeir, Björgúlf og Hannes og síðan auðvitað við stjórnendur bankanna. Ég taldi að fyrst við værum komin með nýtt Samband og nýjan Kolkrabba - sem ég var þó engan vegin sáttur við og vonaðist til að losna við eða a.m.k. minnka völd þeirra - þá væri nauðsynlegt að stjórnmálamenn allra flokka væru í sæmilegu sambandi þá menn eða allavega helst ekki algjörlega upp á kant við þá líkt og Davíð hafði verið síðustu árin. Mér varð því miður að ósk minni og það átti síðan eftir að koma í ljós ég hefði betur ekki óskað mér þessa. Auðsjáanlega tókust miklir kærleikar með Geir og útrásarvíkingunum, allavega ef dæma má út frá styrkjum til Sjálfstæðisflokksins og hvernig Geiri og Solla héldu hvern fundinn á fætur öðrum til að auglýsa hversu frábær útrásin væri og hversu traustir íslensku bankarnir væru. Síðan fór sem fór. 

Síldarverksmiðju ríkisinsHvað hafði mistekist hjá okkur í "hægri tilrauninni", eins og sósíalistinn Kristin Halfvorsen, fjármálaráðherra Noregs, kallar tímabilið 1991 - 2008. Hvernig gat eitthvað, sem byrjaði svona vel farið algjörlega á hliðina á 4-5 árum. Er svaranna að leita í stefnunni sjálfri - frjálshyggjunni? Hlaut þetta að enda með ósköpum? Svarið við þessum spurningum er auðvitað ekki einfalt. Í tilraun sem þeirri er fram fór hér og í mörgum löndum Vestur-Evrópu á undanförnum áratugum, þegar ríkisfyrirtæki voru einkavædd og opinber rekstur var færður yfir til einkaaðila hefur auðvitað ýmislegt farið á annan veg en ætlað var. Var við einhverju öðru að búast? Það gat ekki allt tekist jafn vel. Vinstri menn benda á klassísk dæmi á borð við járnbrautirnar í Bretlandi og póstinn í sumum löndum, þar sem verð fyrir póstsendingar hefur hækkað. Sumt af þeirri gagnrýni á við rök að styðjast og annað ekki. Minna er gert að því að benda á það sem vel hefur farið. Enginn talar lengur um hvernig ástandið var hér fyrir 20-30 árum, þegar útgerðin var rekin með tapi og sveitarfélög styrktu bæjarútgerðir um land allt og fella þurfti reglulega gengið til að bjarga gjörsamlega vonlausum útgerðum. Enginn talar um hversu vel tókst til þegar Síldarverksmiðjur ríkisins voru seldar og mörg önnur fyrirtæki. Enginn talar um hvernig lífskjör á Íslandi breyttum á árunum 1991 - 2002. Mín skoðun er að tilraunin sem slík hafi alls ekki mistekist, allavega ekki fyrri hluti hennar. Nei, frekar má segja að framkvæmd síðari hluta tilraunarinnar hafi farið út um þúfur. Kannski má þetta að hluta til rekja til þess að Davíð varð veikur og við tók "veikur" leiðtogi. Kannski var þjóðin búin að fá nóg af "ofríki" eða stjórnsemi Sjálfstæðisflokksins? Það er erfitt að sjá hver gróf stærstan hluta þessarar grafar, en ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn, Seðlabankinn og Davíð og Fjármálaeftirlitið bera þar mikla ábyrgð, en mesta ábyrgð bera þó útrásarvíkingarnir og stjórnendur bankanna. "Frjálshyggjan" sem slík ber ekki ábyrgð á því hruni, sem hér hefur orðið, en auðvitað reyna andstæðingar okkar á vinstri vængnum að gera sér mat úr þessu!

 

BarnauppeldiVið sem eigum börn, vitum að börn hafa gott af því að njóta ákveðins frelsis þegar þau eru að alast upp. Þannig og aðeins þannig læra þau að taka ábyrgð á sjálfum sér. Á meðan börnin eru mjög lítil njóta þau þessa frelsis á þann hátt, að við leyfum þeim að halda að þau séu ein - t.d. úti í garði - en við erum samt að fylgjast með þeim. Síðar fá þau að fara eitthvað aðeins lengra til að leika með vinum sínum, en um slíkar ferðir setjum við þeim reglur, t.d. hvað þau mega gera og með hverjum þau mega leika sér, hvenær þau eiga að koma heim o.s.frv. Þessu til viðbótar gilda síðan almenn lög í landinu sem vernda okkur sem fjölskyldu, lög sem vernda frelsi einstaklingsins og mannréttindi og síðan barnaverndarlög og reglur um útivist barna o.s.frv.

Unglingar í vandræðumAð mínu mati má heimfæra þessa "hægri tilraun" okkar Íslendinga upp á barnauppeldi. Fyrri hluti tilraunarinnar tókst afskaplega vel. Það var síðan þegar barnið var komið á unglingsaldurinn, sem vandamál fóru að koma upp á. Hugsanlega er hluta vandamálanna að leita í uppeldinu þegar þau voru aðeins börn. Hugsanlega er alls ekki við okkur að sakast sem foreldrar og aðeins við eðlislag unglingsins? Það þýðir lítið að velta sér upp úr þessu núna, þótt gott sé að læra af reynslunni. Nú er unglingurinn kominn í fíkniefni, stórskuldugur og handrukkarar á eftir honum og það eina sem hægt er að gera er að leita til erlendrar sérfræðistofnunar til að fá hjálp og koma unglingnum fyrir á meðferðarstofnun. Frændur okkar og vinir hafa áhyggjur og eru til í að veita okkur alla þá hjálp, sem við þurfum. Þau hafa þó sett okkur ákveðin skilyrði fyrir þeirri hjálp. Það fyrsta er að viðurkenna vandann og búa til áætlun um lausn hans. Síðan er að taka afleiðingunum. Í "hægri tilraun" okkar Íslendinga láðist okkur að segja barninu okkar - sem var að mörgu leyti vel af Guði gert - að frelsi fylgir ábyrgð, að frelsi fylgir eftirlit og að frelsi fylgja reglur, sem þarf að fara eftir og foreldrarnir eiga að fylgja eftir!

SpillingÞað var ekki frelsi í viðskiptum eða krafa um eðlilega arðsemi eða krafa um hagræðingu eða einkavæðingu eða að rekstur væri færður úr höndum ríkisins í hendur einkaaðila, sem kom okkur í þá aðstöðu sem við erum í núna. Nei, það var stjórnlaus og hömlulaus græðgi óprúttinna einstaklinga - ég leyfi mér að segja glæpamanna -, sem höfðu græðgina eina að leiðarljósi og höfðu aðeins eitt markmið og það var að verða ofurríkir, hvað sem það kostaði þjóðina! Það sem setti okkur á hausinn var getuleysi stjórnvalda til að hafa eftirlit með þessum mjög svo þekkta breyskleika mannsins, setja þessum einstaklingum skýrar reglur og fylgjast með að þeir fari nákvæmlega eftirþeim reglum!

Íslenska þjóðinVerkefni næstu mánaða er að leysa að nýju úr læðingi kraft þjóðarinnar. Þessi kraftur býr innra með okkur öllum og brýst fram með því að gefa einstaklingunum frelsi til athafna og varðveita frelsi í viðskiptum og samskiptum manna á milli. Þannig gætum við upplifað aftur svipað uppbyggingarskeið og á árunum 1991 - 2002.

Annað verkefni dagsins er að setja einfaldar en skýrar reglur er koma í veg fyrir efnahagslegan harmleik svipaðan þeim eru við gengum í gegnum haustið 2008. Þessum reglum bera að fylgja stíft eftir með virku eftirliti. Varast ber þó að drepa í dróma frumkvæði, kraft og áræði íslensks athafnafólks með of flóknum reglum og umfangsmiklum hömlum á viðskiptalífið. Verði það gert hverfum við aftur til þess ástands sem ríkti á árunum 1950 - 1990.

Aldrei reis sól menningar, vísinda, stjórnmála og lista jafn hátt á íslenskum himni og á tíma frelsisins á árunum 1991 - 2002.

 

 


mbl.is Telegraph: Ekkert venjulegt hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband