21.6.2008 | 14:15
Bravó, Ólafur Ragnar Grímsson
Þeir sem mig þekkja vita að ég hef ekki verið hrifinn af sumu, sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur tekið sér fyrir hendur undanfarin ár og þá á ég auðvitað einungis við bein afskipti hans af stjórnmálum.
Hins vegar verður maður að viðurkenna - hvaða stjórnmálaskoðun sem maður hefur - að enginn Íslendingur fyrr og síðar hefur komið okkur jafnvel á kortið í mörgum málum og unnið jafnmikið að landkynningu og hann. Ég er allavega þeirrar skoðunar, að hann hafi betri og víðtækari sambönd en Vigdís hafði á sínum tíma, þótt hún eigi síðan heiðurinn af því að hafa þróað embættið í þá átt sem það er í dag. Báðir þessir forsetar hafa verið frábærir fulltrúar landsins á erlendri grundu - ekki spurning.
Af þessum sökum lýsi ég því yfir hér og nú að hann vinnur vel fyrir kaupinu sínu og þrátt fyrir að hafa ekki kosið Ólaf Ragnar á sínum tíma, er ég á heildina litið meira en sáttur við að hafa hann á forsetastóli þessi ár.
Hann á bara ekki að vera að skipta sér af stjórnmálum maðurinn, til þess er forseti Íslands ekki kosinn.
![]() |
Ólafur Ragnar í viðtali á CNN |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.6.2008 | 20:42
Lífið eftir bensín og olíu?
Enn og aftur bendi ég á að við verðum að breyta hugsunarhætti okkar varðandi blessaða olíuna - hún er fyrr eða síðar á þrotum.
Nú gildir á Íslandi að skoða aðra samgöngumöguleika, hvort við getum getum á einhvern hátt gert okkur minna háð olíu eða ekki. Þetta væri kjörið tækifæri fyrir "alvöru" stjórnmálamenn með "alvöru" framtíðarsýn að kynna byltingarkennd áform sín um framtíðarsamgöngur - sporvagna og hraðlestir.
Gísli Marteinn var auðsjáanlega aðeins of snemma á ferðinni með annars frábærar hugmyndir um þetta efni. Kannski er hægt að "rísækla" þessar hugmyndir hans og kannski munu aðrir hægri menn bera kyndilinn aðeins lengra?
Hér talar samt sem áður maður stóriðju, sem vill a.m.k. tvö stór álver í viðbót: Helguvík og á Bakka - síðan má hugsa sig um. Ástæðurnar er einfaldar: Að reisa álverin hér á Íslandi veldur minnstum skaða fyrir náttúruna - álver hér þýðir minni notkun á kjarnorku og brennslu kola annarsstaðar. Álið verður framleitt einhversstaðar - spurningin í dag er aðeins hvar, hvernig og með hversu mikilli mengun? Hin ástæðan er að við á Íslandi - þessu guðsvolaða landi - þurfum á störfunum, framkvæmdunum, fjárfestingunni erlendis frá og gjaldeyrinum að halda hér og nú í dag 20. júní 2008.
Þótt ég sammála umhverfisvænni stefnu í sumum málum, þýðir það samt sem áður ekki að ég undirriti stefnu VG í umhverfismálum. Sumu er ég sammála hjá VG og öðru ekki.
Tími fyrir fyrir breyttan hugsunarhátt - annarsvegar minni bifreiðaakstur og hinsvegar umhugsun varðandi heimilisúrgang (flokkun á rusli), vetnisbúskap, o.s.frv. - er þörf í öllum flokkum. Ég ætla að "rífreisa" þetta: Stjórnmálaflokkum og stjórnmálaskoðun kemur þetta ekkert lengur við - allir flokkar eru umhverfisvænir, bara mismikið!
ÞETTTA ER: "COMMON SENSE" !
19.6.2008 | 19:26
Mogginn kominn í Kúk og Piss húmor?
Ég veit að nýi ritstjórinn vildi gera blaðið létt og skemmtilegt, en á að leggjast svona lágt?
Þá tek ég bara þessi ókeypis blöð og segi Morgunblaðinu upp - maður er að borga fyrir "kvalitet"!
![]() |
Hollendingar að kafna í prumpfýlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.6.2008 | 19:17
Hvítabjörn á Laugaveginum
Hefur einhver skoðað hvar Hveravellir eru á Íslandskortinu?
Ef ég man rétt, þá eru Hveravellir á Hálendinu?
Er 1. apríl í dag?
![]() |
Þriðji björninn á Hveravöllum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2008 | 18:24
Hefndin fyrir Quantanamo
Við eigum eftir að naga á handabökin fyrir ályktun Alþingis um Quantanamo.
Þetta er auðvitað hefnd Bandaríkjaþings!
![]() |
Bandaríkjaþing gagnrýnir hvalveiðar Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.6.2008 | 19:53
Er „Laissez-faire” virkilega lausnin?
Nú er ég búinn að skoða bloggsíður allra stærstu blokkhagspekinganna minna - að vísu hefur Egill Jóhannsson ekki enn bloggað - og það virðist enginn þeirra botna neitt í neinu. Auðsjáanlega eru þeir jafn ráðvilltir og ég hvað öll þessi mál varðar. Það er mér því miður ekki huggun harmi gegn, því ég var að vona að þeir hefðu ráð undir rifi hverju.
Það er aðgerðarleysið, sem maður skilur ekki og kemur manni sífellt meira á óvart. Ég átti satt best að segja von á því að Geir myndi boða einhverjar aðgerðir í gær, en auðsjáanlega er ekkert í spilunum. Nú er ríkisstjórnin og Seðlabankinn búin að gera ekkert í nokkur ár og allt komið í kaldakol. Maður spyr sig óneitanlega, hvort það sé hugmyndin að halda því áfram. Í framhaldi spyr maður sig, hvort það sé hugsanlega líka rétta lausnin að gera ekki neitt og þessir menn séu bara svona miklu klárari en allir aðrir, sem vilja sjá einhverjar aðgerðir? Markaðnum líkar auðsjáanlega ekki heldur þetta aðgerðarleysi eða skilur bara kannski ekki heldur þessa Laissez-faire stefnu ríkisstjórnarinnar.
Ástandið er farið að minna mann óþægilega á æsku manns, unglingsárin og þegar maður var mjög ungur maður - þ.e.a.s. árin 1975-1990.
Það fer um mig hrollur við tilhugsunina eina saman!
![]() |
Gengislækkun getur þýtt verðhækkanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.6.2008 | 14:30
ER NÚ KREPPA EÐA EKKI – ÁKVEÐA SIG !
Verðum við ekki að hætta að hugsa svona
SVART / HVÍTT
Er alveg ringlaður ...
Er ég sá eini, sem ekki áttar sig alveg á ástandinu? Er nú kreppa eða ekki þetta er spurningin!Það er auðvitað alltaf létt að vera vitur eftir á, en mér fannst þessi svokallaða "kreppa" skella svolítið á eins og þruma úr heiðskýru lofti. Hér var allt í bullandi uppgangi og góðærið í algleymingi og síðan komu til sögunnar einhver ónýt fasteignaveðlán í Suðurríkjum BNA og allt fór í bullandi mínus um allan heim. Á að kenna Suðurríkjamönnum um allt havaríið? Er hækkandi olíuverð, matarverðshækkanir og lausafjárskorturinn um allan heim einhverjum fasteignalánum í Alabama, Mississippi, Tennessee, Arkansas, Louisiana Oklahoma og Texas að kenna?
Voru ekki teikn á lofti?
Ég er nú ekki hagfræðingur, en eru ekki í raun búin að vera teikn á lofti hér á landi í nokkurn tíma, að eitthvað mikið sé að í efnahagslífinu. Seðlabankamenn og fjármálarráðuneytið hljóta að hafa vitað af öllu þessu innstreymi á gjaldeyri, sem fylgdi jöklabréfunum og þeir hljóta að hafa séð að bankarnir voru síðan að lána sauðsvörtum almúganum þessa peninga. Höfðu menn þar á bæ - og í bankakerfinu og viðskiptalífinu almennt - engar áhyggjur af þessu ástandi? Hafði enginn áhyggjur af því að einhverntíma gætu útlendingarnir misst áhuga á að framlengja jöklabréfin, t.d. þegar vaxtamunurinn minnkaði, sem einhverjir hljóta að hafa séð að var fyrirsjáanlegt? Hafði ríkisstjórnin og Seðlabankinn virkilega engin úrræði önnur en að hækka stýrivextina, sem allir hafa séð á undanförnum árum að virkar bara alls ekki og síðan að lýsa yfir áhyggjum af málinu, sem þeir hafa gert í 2-3 ár!
Ég er nú þeirrar skoðunar að þeir, sem vilja meina að hagfræðin sé ekki vísindagrein gætu haft eitthvað til síns máls, þ.e.a.s. ef enginn getur svarað þessum spurningum mínum. Þessir gagnrýnendur hagfræðinnar, sem vísindagreinar, vilja meina að hagfræðin gangi meira út á rannsóknir á hegðun fólks og ætti því hugsanlega fremur heima hjá listgreinum, félagsvísindum eða þessvegna mannfræði. Með sömu röksemdum mætti reyndar gagnrýna jarðfræðinga, sem ekki gátu sagt til um Suðurlandsskjálftann um daginn. Ég er auðsjáanlega kominn út á hálan ís og bakka út úr þessu.
Of hátt gengi eða of lágt gengi ákveða sig!
Gengi krónunnar var að sögn útflytjenda allt of hátt skráð undanfarin ár og þar af leiðandi áttu þessi fyrirtæki í vandræðum. Hágenginu fylgdi síðan að allt of mikið var flutt inn til landsins. Þessi gífurlegi innflutningur á neysluvöru ásamt miklum innflutningi vegna stóriðjunnar gerði það að verkum, að viðskiptajöfnuður við útlönd var neikvæður um árabil. Þetta vissu allir, sem eitthvað kynntu sér málin.
Ég man að á sínum tíma þegar fastgengisstefnan var gefin upp á bátinn, var sú stefna gagnrýnd af sumum hagfræðingum og sama máli gegndi reyndar um upptöku verðbólgumarkmiðs, sem mörgum þóttu strax frá byrjun vera óraunhæf. Mig minnir að ég hafi lesið gagnrýni á þessa hluti í Morgunblaðinu strax og þessi stefna var kynnt. Margir hagfræðingar voru þeirrar skoðunar, að fljótandi gengi hentaði hugsanlega ekki svo litlu hagkerfi. Gaman væri ef einhverjir fróðari mér gætu bent á lesefni um þessi mál.
Er allt í steik eða í góðu lagi ákveða sig!
Annað, sem ég átta mig ekki alveg á, er að hér virðist allt vera í besta lagi - allavega á yfirborðinu. Við erum nýbúin að byggja risaálver fyrir austan og það er byrjað að framleiða og flytja út ál. Sama máli gegnir um álversstækkunina í Hvalfirði. Samkvæmt útreikningum Kaupþings mun útflutningur Íslendinga á áli að öllu óbreyttu - sem er reyndar varla hægt að segja við núverandi óvissuástand - aukast úr rúmum 80 milljörðum króna árið 2007 í um 170 milljarða á þessu ári og verður kominn í um 180 milljarða króna á árinu 2009. Atvinnuástand er mjög gott og kaupmáttur launa í sögulegu hámarki. Fiskverð og álverð er í hæstu hæðum. Ríkissjóður er næstum skuldlaus og rekinn með afgangi - allavega þetta árið.
Og vandamálið er hvað?
Það eina sem mér sýnist vera í ólagi er viðskiptahallinn og verðbólgan. Viðskiptahallinn hlýtur að minnka vegna gengishrunsins, en einnig vegna þess að öllum stórframkvæmdum eru lokið í bili. Síðan höfum við verðbólguna, sem hlýtur að minnka þegar gengisfellingin, matvælaverðshækkunin og olíuverðshækkunin eru komnar út í verðlagið. Bullandi framkvæmdir eru á næsta leyti í Helguvík og einnig á Bakka og jafnvel á Vestfjörðum - ef við kærum okkur um. Þetta mun hafa í för með sér mikið innstreymi af gjaldeyri og mikla uppbyggingu og aukinn útflutning á áli í framtíðinni. Þorskstofninn mun jafna sig á næsta eða þar næsta ári og þá streyma vonandi inn meiri peningar í útflutningi á þeim bænum.
Hvað er vandamálið?
![]() |
Forsætisráðherra bjartsýnn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2008 | 16:15
Varnarúðinn: nauðsynlegt valdbeitingartæki
Eftir alla umræðuna um varnarúða undanfarna mánuði verð ég nú að taka upp hanskann fyrir félaga mína í lögreglunni. Undanfarin ár virðist þráðurinn hafa styst svo um munar hjá borgaranum og mikið meira um ofbeldi, en gerðist fyrir nokkrum árum síðan. Ofbeldi hefur ekki einungis aukist gagnvart lögreglunni, heldur einnig gagnvart öðrum stéttum, líkt og tollvörðum, hjúkrunarstéttum, svo sem kannanir hafa staðfest og er þetta mikið áhyggjuefni.
Fyrir um aldarfjórðungi síðan var ég um nokkurra sumra skeið í lögreglunni, sem sumarafleysingamaður, og lenti þá stundum í átökum eins og gengur og gerist í lögreglunni. Ég hafði lúmskt gaman af því að ná fólki niður og tala það til og af þessum sökum kom mjög sjaldan til valdbeitingar af minni hálfu.
Það kom þó fyrir að menn - sjaldnar konur - voru svo stjórnlausir af reiði - ég leyfi mér að segja trylltir - að hvorki gekk né rak að tala þá til. Þá var úr vöndu að ráða og úrræðin fá. Fyrst var reynt að koma lögreglutökum á viðkomandi og gekk það nú svona upp og ofan, en tókst þó í flestum tilfellum.
Jafnvel á þessum tíma lenti lögreglan í kolbrjáluðum fíkniefnaneytendum eða drukknum mönnum - sjaldnar konum - sem voru svo gjörsamlega trylltir af bræði, að þeir lömdu allt og alla, sem á vegi þeirra urðu - lögreglumenn, sem saklausa borgara. Þá kom það fyrir - mjög sjaldan reyndar - að beita þurfti kylfu, sem var algjört neyðarúrræði. Við sumarmennirnir vorum ekki búnir kylfum og því voru það fastráðnir lögreglumenn, sem beittu því valdbeitingartæki, enda höfðu hlotið til þess sérstaka þjálfum.
Ég hefði mikið gefið fyrir að hafa varnarúða undir höndum á þessum árum, þótt það bíti reyndar stundum alls ekki á menn í sterkri fíkniefna- eða áfengisvímu. Um langt skeið höfum við tollverðir tekið námskeið hjá lögreglunni í lögreglutökum, þegar við erum í tollskóla ríkisins. Vegna aukins ofbeldis og hótana í okkar garð verðum við nú einnig að hljóta þjálfun í notkun á varnarúða og handjárna, en þessi búnaður er nú hluti þeirra tóla, sem tollverðir eru með í tækjabelti sínu.
Hluti af þjálfun tollvarða - og lögreglumanna - er að varnarúða er sprautað í andlit þátttakenda. Ég get ekki lýst því, hversu óþægileg tilfinning það er að fá úðann í augun. Eftir að hafa reynt þetta sjálfur er ég viss um að enginn notar varnarúðann nema að þess sé virkilega þörf.
Kosturinn við varnarúðann er að sá, sem er sprautað á er á, verður öllu jafnan gjörsamlega óvirkur og skaðar hvorki sjálfan sig né aðra. Áhrif úðans eru þó skammvinn og viðkomandi er kominn til sæmilegrar heilsu innan 1/2 klukkustundar og varanlegan skaða hlýtur enginn af úðanum. Kylfurnar geta hins vegar skaðað viðkomandi einstakling mikið meira og þá jafna menn sig ekki á stuttum tíma. Kylfurnar geta jafnvel valdið varanlegum skaða ef svo ber undir.
Ég held að það fólk, sem ekki hefur verið umkringt af kolbrjáluðu fólki, sem annaðhvort er dauðadrukkið eða útúr heiminum af fíkniefnavímu, og ætlar að ráðast á eða gera aðsúg að öðru fólki, sem hefur það eitt til saka unnið að vera við vinnu sína eða að skemmta sér, geti ekki dæmt um það, hvort slíkur úði sé nauðsynlegur eða ekki. Maður þarf sjálfur að hafa upplifað slíkar aðstæður á eigin hörundi.
Ég er algjörlega viss um að varnarúðinn er algjörlega nauðsynlegur við þær aðstæður, sem að ofan er lýst! Jafnframt tryggir hann betur en nokkuð annað valdbeitingartæki, sem á boðstólum er í dag, að einstaklingar skaði hvorki sjálfan sig eða aðra. Úðinn er því að mínu mati sem valdbeitingartæki "mjög gott", ef hægt er að nota það orð um slík tól. Ég leyfi mér því að segja að úðinn sé illskásti kosturinn og skárri kostur en kylfan. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að löggæslumenn verði almennt að hafa eitthvað til að verja sjálfan sig og aðra með. Því er það einungis spurning um hvaða valdbeitingartæki er valið.
Ég hef ekki myndað mér skoðun, hvort ástæða sé til að "vopna" lögreglumenn með "tazer" rafmagnsvopnum. Það er eitthvað, sem þarf að skoða gaumgæfilega áður en það er leyft.
![]() |
Slagsmál brutust út eftir nágrannaerjur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.6.2008 kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2008 | 10:28
Kemur engum á óvart
Það getur varla komið nokkrum á óvart að aflaverðmæti hafi dregist saman og getur varla verið nokkrum manni heldur áfall, þar sem aflaheimildir í þorski voru jú minnkaðar svo um munaði fyrir þetta ár.
Búast má við að það sama verði uppi á teningnum á næsta ári, en síðan byrja þeir nú vonandi að bæta í árið 2010.
Hún er erfið fiskifræðin líkt og hagfræðin og þeir menn ekki öfundsverðir, sem stunda þær fræðigreinar. Það er betra að átta sig á afleiðingum friðunar rjúpu og annarra tegunda, sem á landi lifa. Því þær má þó alltént frekar telja en þær tegundir, sem búa í djúphöfunum. Auðveldara er einnig að átta sig á vistkerfunum á landi en í sjó og því hafa menn hreinlega meiri þekkingu á þeim en vistkerfi hafanna, sem eru þó örugglega álíka flókin ef ekki flóknari og þau sem á landi eru.
Einhvernvegin finnst manni þó ganga hálf brösuglega að byggja upp fiskistofnana við landið. Stundum er mér hugsað til þeirra tíma þegar ég var sem barn með pabba úti á sjó og sá skip af öllum þjóðernum á miðunum svo langt sem augað eygði. Ég reyndi ekki einu sinni að telja þau, svo mörg voru þar að veiðum.
Skringilegt að eftir að Íslendingar sjálfir fengu yfirráð yfir miðunum með sinn "litla" flota, skuli allt fara í bál og brand og ofveiðin aldrei meiri. Mig hefur alltaf grunað að þetta hafi meira að gera með veiðar okkar á æti fisksins en menn vilja viðurkenna. Ég held að við verðum að velja á milli þess að veiða æti fisksins eða fiskinn sjálfan. Jafnframt held ég að sá gífurlegi fjöldi hvala, sem er í kringum landið hafi meiri áhrif en menn ætla.
Ég er enginn fræðimaður í þessum efnum og einungis spámaður, en það er eitthvað bogið við þetta allt saman, það er víst.
![]() |
Aflaverðmæti dregst saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.6.2008 | 18:35
Til þeirra er málið varðar
Misskilningur einhverra
Einhverjir virða hafa skilið orð mín á heimasíðu minni sem svo að ég hafi verið kúgaður eða undirokaður innan Sjálfstæðisflokksins vegna afstöðu minnar til Evrópuumræðu. Mér finnst þetta ekki aðeins of sterkt til orða tekið, heldur er þetta hreinlega rangt. Ég hef reyndar aldrei verið kúgaður til eins eða neins, er hreinlega ekki sú manngerð, sem læt kúga mig eða þvinga til einhverra hluta. Mér hefur heldur ekki verið bannað að tala um ESB aðildarviðræður innan Sjálfstæðisflokksins (ég legg áherslu á að ég er að tala um viðræður ekki aðild). Nei, ég er og verð hægri maður og það breytist ekkert vegna afstöðu minnar í þessu máli og ég er ánægður í mínum flokki og mun starfa áfram innan hans.
Svæfingaraðferðin
Hins vegar eru margir aðilar innan Sjálfstæðisflokksins, sem vilja svæfa umræður um ESB aðild. Síðan eru einnig margir innan flokksins, sem vilja skoða aðildarviðræður - eða a.m.k. skoða kosti og galla aðildar mjög náið - og í þeirra hópi er ég. Að svæfa málið hefur verið gert með því að segja að málið sé ekki á dagskrá, að það sé ekki tímabært að ræða það o.s.frv. Af hluta flokksmanna er þetta gert jafnvel núna, þrátt fyrir að meirihluti fólks sé að ræða þessi mál í þjóðfélaginu.
Síðan kemur jafnan þessi gullvæga setning frá sumum í flokksforystuni, að ekki sé hægt að tengja ástandið í efnahagsmálum núna við ESB umræðuna. Hvað bull er það? Hvers vegna má það ekki? Auðvitað tengjast þjóðfélagsmál og efnahagsmál líðandi stundar ákvörðunum um aðildarviðræður og það þótt slíkar viðræður hæfust fyrst innan 2-3 ára. Hins vegar er alveg rétt, að betra er að ganga til aðildarviðræðna þegar við höfum ná tökum á efnahagsástandinu. En að ekki sé rétt að ræða Evrópumálin í tengslum við efnahags- og peningamál við þær aðstæður, sem við búum við núna er algjört bull og vitleysa. Málin eru nú á báða bóga föst í neti kreddu, óþarfa tilfinningasemi og alltof heitra tilfinninga.
Ískalt mat verður að ráða
Ég vil hins vegar skoða málið á hlutlægum nótum - leggja ískalt mat á málið. Margir spyrja sig spurninga á borð við, hvar menn hafi það betra núna í Evrópu en einmitt í Sviss, Noregi og á Íslandi - þ.e. utan ESB? Ég vil snúa þessari spurningu við og spyrja til baka: Væru fyrrgreind lönd ekki bara enn ríkari væru þau innan ESB? Ég spyr einnig: Er eitthvað samband á milli ríkidæmis fyrrgreindra landa og þess að þau eru uta ESB og eru þessi lönd ekki búin að vera nokkuð rík í langan tíma? Eiga þessi lönd ekki velsæld sína öðru að þakka en að vera ekki aðilar að ESB? Á Noregur ekki ríkidóm sinn ekki olíulindunum að þakka og Sviss bönkunum og vafasamri bankaleynd? Það má einnig benda á lönd, sem voru bláfátæk fyrir 10-20 árum síðan (Írland, Spánn, Portúgal) og hafa óneitanlega hagnast gífurlega á ESB aðild. Þeirri spurningu, hvort ofangreind lönd hefðu efnast jafnmikið eða meira utan ESB, verður reyndar aldrei svarað!
Það mikilvægasta af öllu er að við Íslendingar spyrjum okkur sjálf þeirrar spurningar hvað ESB aðild hefur í för með sér fyrir okkur, áður en við lítum til annarra landa, sem eru utan ESB. Við verðum að spyrja okkur hverju við eigum velsæld okkar að þakka og hvort það hafi eitthvað með það að gera að við erum utan ESB eða hvort hag okkar sé jafnvel betur borgið innan ESB. Þetta er það sem mér finnst málið snúast um, ekkert annað.
Allur pakkinn - ekkert minna
Að auki er staðreynd að til er a.m.k. eitt land, sem er með hærri þjóðarframleiðslu en við Íslendingar innan ESB og lægra vöruverð - þ.e.a.s. mikið hærri kaupmátt - og það er smáríkið Lúxemborg. Þeir hafa landað öllum pakkanum: hárri þjóðarframleiðslu, lágu vöruverði auk þess sem þar ríkir einstakur stöðugleiki. Þetta er það sem ég vil fá fyrir okkur - allan pakkan. Ég sætti mig ekki við neitt annað en að vera í allra fremstu röð með háa þjóðarframleiðslu og lágt verð á vöru og þjónustu - með eða án ESB aðildar. Það er kaupmáttur launa, sem skiptir máli ekki eingöngu þjóðarframleiðslan. Þjóðarframleiðslan hjá okkur breytist núna í takt við gengið og hefur auðvitað minnkað í samanburði við önnur lönd, sem og kaupmáttur launa okkar hér heima og í fríum erlendis. Þetta er að stóru leyti óstöðugleikanum á genginu að kenna. En auðvitað hefur kaupmáttur launa erlendis minnkað erlendis líka, t.d. vegna olíuverðshækkana og matarverðshækkana og síðan hækkana, sem byggja á víxlverkun hækkana. Evrópubúar, sem búa við evruna, eru hins vegar lausir við 20% hækkanir á innfluttri vöru í kjölfar gengishruns þeirra gjaldmiðils.
Misskilningur minna manna
Það er misskilningur hjá forystumönnum Sjálfstæðisflokksins, að það sé eingöngu ástandið núna, sem hvetur hægri menn á borð við mig til að hugsa í átt til ESB. Ég og aðrir, sem talað höfum um þessi mál innan Sjálfstæðisflokksins, höfum verið að velta kostum og göllum ESB aðildar fyrir okkur í nokkur ár. Ég skrifaði meira að segja meistaraprófsritgerð mína um þessa hluti og byrjaði á henni fyrir tveimur árum síðan og þá var hér á bullandi uppleið. Ástæðurnar eru einfaldlega þær að við sættum okkur ekki við hæsta matvöruverð í Evrópu (þrátt fyrir eina lægstu skatta á matvöru í álfunni). Við sættum okkur heldur ekki við þá okurvexti, sem við búum við og þaðan af síður sættum við okkur við það okur, sem er á sumri þjónustu hér á landi. Ólíkt því sem margir halda fram er þar ekki eingöngu háum launakostnaði um að kenna, enda voru matvæli hér jafn dýr þegar laun hér á landi voru sambærileg og á Spáni og Portúgal. Hver getur svarað mér þeirri spurningu af hverju matarverð er 25-30 % dýrara hér en Danmörku og það þrátt fyrir að við séum með 7% virðisaukaskatt á matvælum en Danir með 25% virðisaukaskatt. Ekki er Danmörk láglaunaland?
Réttlæting okurs
Ég hlusta ekki lengur á rök Finns Árnasonar hjá Högum og annarra í smásölu og heildverslun, að þetta sé einungis landbúnaðarafurðunum að kenna. Ég hlusta ekki heldur á VG og Bændasamtökin, sem halda því fram að varningur hér á landi sé svona dýr af að kaupmáttur launa sé svo mikill hér á landi. Hvað þá með Danmörku, Svíþjóð, Finnland, Lúxemborg og svona mætti lengi telja. Er kaupmáttur launa þar lægri? Rétt er hins vegar hjá Bændasamtökunum að Þessi verðmunur er á allri vöru, hvaða nafni sem hana tjáir að nefna. En réttlætir okur á einni vöru okur á annarri?
Finnur Árnason og félagar fullyrtu á sínum tíma að með lækkun virðisaukaskatts og vörugjalda á matvæli myndu matvæli önnur en landbúnaðarvörur lækka hér í sama verð og á Norðurlöndunum. Hafa vörur aðrar en landbúnaðarvörur lækkað? Auðvitað ekki! Það verst sem við gerum er að lækka tolla á landbúnaðarafurðir einhliða án þess að ganga í ESB og treysta þessum fyrirtækjum til að skila erlendum búvörum með eðlilegri álagningu til neytenda. Það myndi aldrei gerast, heldur myndi íslensk verslun kaupa búvörurnar eins ódýrt og hægt væri og selja okkur hana síðan aftur á okurverði. Þetta er sú aðstaða, sem þessir menn vilja komast í og við sætum uppi með sama verðlag og þúsundir atvinnulausra bænda og sveitirnar auðar að fé og fólki. Svarið við því hversvegna hlutunum er svona fyrir komið hjá okkur, hlýtur að felast í því að hér ríkir einokun eða í besta falli fákeppni á öllum mörkuðum. Hvað gera stjórnvöld í því? Nákvæmlega ekkert! Davíð Oddsson - sá mikli leiðtogi - sagði að við þyrftum ekki ESB til að lækka matarverð, við gætum gert það sjálf, ef við vildum það! Hefur eitthvað gerst á undanförnum árum, t.d. með lækkun á vörugjöldum og virðisaukaskatti? Já, stjórnvöld lækkuðu skattana. Breytti það einhverju fyrir neytendur? Nei, er svarið við þessari spurningu, kaupmenn hirtu mismuninn.
Sama hvaðan gott kemur
Með aðgangi að stærra markaði getur ástandið aðeins skánað - varla versnað eða hvaða viti borni einstaklingur getur haldið öðru fram? Þá segja andstæðingar ESB að nú þegar komi ekkert í veg fyrir að þessi evrópsku fyrirtæki komi sér fyrir á íslenskum markaði. Málið er ekki svona einfalt, því kaupmenn innan ESB hafa ekki áhuga á að taka þátt í leiknum hér heima nema að hér sé Evra og sá stöðugleiki, sem henni fylgir. Jafnframt vilja þessir aðilar geta pakkað vörunni í gáma í Evrópu og flutt hingað beint og milliliðalaust og án tollafgreiðslu, líkt og á þeirra heimamarkaði - ESB. Við erum ekki hluti af þessum stóra markaði, þrátt fyrir aðildina að EES og þetta er einfaldlega staðreynd. Hagkvæmnin felst í sameiginlegum gjaldmiðli og því að verslanirnar hér á landi yrðu bara nokkrar verslanir í viðbót í einhverri stórri keðju í Evrópu. Mér er persónulega nákvæmlega sama hvort Jón Ásgeir Jóhannesson og faðir hans Jóhannes Jónsson í Bónus eru að græða á mér eða þýsku bræðurnir Karl og Theo Albrecht hjá ALDI keðjunni í Þýkalandi. Er ykkur ekki líka sama ef reikningurinn í Bónus/ALDI á föstudögum lækkar úr 15.000 kr í 9.000 kr?
Slík rök eru loddaraskapur
Annar misskilningur er að við inngöngu í ESB erfi Íslendingar öll vandamál annarra ESB ríkja. Hvílíkt bull og vitleysa. Við erfum ekki vandamál Þýskalands, sem urðu til vegna ósveigjanlegrar, gamallar þýskrar vinnulöggjafar, úrelts lífeyriskerfis, sem byggir á gegnumstreymiskerfi og sameiningar Þýskalands, sem var sundrað í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar, lágri fæðingartíðni, sem orsakast af háum sköttum á barnafólk og litlum stuðningi við það, dýrri dagvistun barna o.s.frv.
Við erfum heldur ekki vandamál kommúnistaríkjanna gömlu og þeirra fátækt, sem stafar eingöngu af þeirra hræðilegu kommúnísku sögu, eða fátækt Portúgals, staðnaðs og úrelts lífeyriskerfis Ítala eða þess vegna útþanins sósíal kerfis Dana (þótt það hafi eitthvað minnkað í seinni tíð)! Þetta er hrein og klár fásinna! En auðvitað eru risastór vandamál til staðar í Evrópu hjá fjölda þjóða: Stöðnun, fólksfækkun, lítill fjöldi barna og ungs fólks, úrelt lífeyris- og félagslegt kerfi, ósveigjanleg vinnulöggjöf og margt fleira. Nei, allur okkar innri strúktúr verður meira og minna óbreyttur og stærsti parturinn af okkar löggjöf einnig. Við töpum auðvitað ekki auðlindunum okkar, fyrirtækjunum og mannauðnum (unga fólkinu) o.s.frv. Það er hreinn og klár loddaraskapur að koma fram með slík rök.
Mjög sterk rök mæla gegn aðild
Hin réttu og sönnu rök gegn inngöngu Íslands í ESB eru nógu sterk út af fyrir sig til að það komi vöfflur á flesta venjulega Íslendinga. Við verðum til að mynda að átta okkur á þeirri staðreynd að við hér á norðurhjara erum rík og að sumu leyti heppin þjóð og kannski líka forsjál að sumu leyti. Meðvitað og ómeðvitað höfum við búið í haginn, t.d. með því að eiga mikið af ungu fólki, digra lífeyrissjóði, miklar orkuauðlindir og mikinn mannauð og mannvit. Þetta gæti orðið til þess að við borguðum mikla peninga um langa framtíð í sjóði ESB og fengjum lítið sem ekkert til baka. Ég hef t.d. litla trú á að við fáum meira úr sjóðum ESB en við borgum inn líkt og margir virðast halda. Það var kannski tilfellið árið 1996 þegar Finnland kom inn, en nú er öldin önnur eftir að öll Austur-Evrópa kom inn og fjöldi annarra bláfátækra ríkja er á þröskuldinum að koma inn. Þau rök, sem ég hef nefnt hér að framan eru alvöru rök, sem vert er að hlusta á.
Þjóðin þarf að gera upp hug sinn - ekki einungis forystumenn flokka
Það er því augljóst að það þarf að ræða gallana á ESB og átta sig á þeim, en það þarf ekki síður að átta sig á ástandinu í aðildarríkjum sambandsins ef stefnt er að bræðralagi við þessar þjóðir. Það er þessi umræða um kosti og galla ESB og bræðralags við þessar þjóðir, sem ég kalla eftir: hlutlæg umræða, sem byggist á skýrum rökum með og á móti aðildarviðræðum. Ég vil að málið verði tekið á dagskrá og rætt út og síðan sé tekin ákvörðun. Ef ákvörðunin verður að ganga á til aðildarviðræðna, þá verði það gert eins fljótt og hægt er, en annars verði málið lagt ad acta næstu árin.
Málið er mikið flóknara en svo að mér takist að gera því nokkur skil í stuttum pistli. Það þarfnast mikillar umræðu, áður en ákvörðun er tekin, því ef við förum inn er varla aftur snúið. Ég er enn á báðum áttum!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.6.2008 kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)