13.12.2009 | 14:41
Umbótum í ríkisrekstri endalaust frestað...
Það er ljóst að þær umbætur, sem löngu eru tímabærar í ríkisrekstri, verður frestað og þá ekki aðeins fram á vor, heldur til hins óendanlega. Þetta gildir ekki aðeins um fækkun sýslumanna, heldur einnig um fækkun lögreglustjóra, fækkun og stækkun sjúkrahúsa og fækkun ríkisstofnana. Nú eru landsbyggðar þingmennirnir byrjaðir að hamast innan sinna þingflokka til að verja sína sýslumenn og skattstjóra. Þarna skiptir í raun engu hvað flokkurinn heitir, því þarna er algjör samstaða meðal allra þingflokka. Ég hef ekkert á móti ríkisrekstri, því sum verkefni eiga einfaldlega heima hjá ríkinu og hvergi annarsstaðar. Rétt er þó að benda á að við þá endurskipulagningu í ríkisrekstri, sem við blasir á næstu árum, er nauðsynlegt að horfa meira til einkareksturs, t.d. í menntamálum og heilbrigðisþjónustu.
Ég hef mikla óbeit á bruðli í ríkisrekstri, líkt og ég hef óbeit á bruðli í einkarekstri. Munurinn á þessu tvennu er hins vegar að í einkarekstri minnkar bruðlið hagnað eigenda - svo framarlega sem ekki er hægt að ýta slíku bruðli yfir á almenning líkt og gert var í útrásinni - á meðan að bruðli hjá ríki og sveitarfélögum er velt yfir á skattborgara. Af þessum sökum skal ávalt unnið að því eilífðarverkefni að bæta rekstur opinberra stofnana, hvort sem það er hjá ríki eða sveitarfélögum. Að mínu mati þyrfti að styrkja Ríkisendurskoðun enn frekar til að sú stofnun sé betur í stakk búin til að fara enn betur ofan í saumana á rekstri opinberra stofnana. Í raun þyrfti að vera til svipuð stofnun eða deild á vegum eða innan Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins eða á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem færi ofan í rekstur sveitarfélaga og fylgdist með rekstri þeirra. Hér er ég að tala um eitthvað öflugra batterí, en nú er til staðar með í eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.
Það er hreint með ólíkindum að við skulum á 21. öld enn reka 24 sýslumannsembætti um land allt, á sama tíma og samskipti og samgöngur hafa tekið byltingarkenndum framförum. Með þessu er ég ekki að tala um að loka eigi afgreiðslum sýslumanna, heldur skoða hvar virkilega er þörf á afgreiðslum og hvar þær mega leggjast af. Sömu sögu er að sjálfsögðu að segja um skattstjóra landsins, en þeir eru 9 talsins á meðan að skattskil eru nær eingöngu rafræn. Það sem ber að varast við slíka endurskipulagningu er að störfin færist öll á suðvesturhorn landsins, sem virðist því miður vera tilhneigingin þegar um sameiningar er að ræða. Með fjarvinnslu og nútímatækni má vinna mörg verkefni hvar sem er á landinu og það er mun betri aðferð hvað byggðarstefnu varðar, en margt það sem menn hafa tekið sér fyrir hendur á undanförnum áratugum. Það er einmitt vegna þess að allri opinberri starfsemi er hrúgað á suðvesturhornið, að andstaðan við slíkar breytingar er svo mikil á landsbyggðinni. Sé á einhvern hátt tryggt að starfsemin færist ekki til Reykjavíkur og nágrennis, er ég sannfærður um að andstaðan við slíkar þarfar breytingar mun minnka.
Breytingum á sýslumannsembættum frestað til vors | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2009 | 20:42
Máttlaus kjarabarátta: BSRB, BHM og KÍ
Það er með ólíkindum hversu máttlaus bandalög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eru, hvort sem þau eru á vegum háskólamanna, kennara eða þeirra sem eru í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja! Þetta kemur mér þó ekki á óvart eftir að hafa starfað innan stjórnar BSRB í nokkur ár. Stærstur hluti forystufólks starfsmannafélaga og bandalaga hins opinbera eru virkir meðlimir í VG og einhver smá minnihluti í Samfylkingu, en enn smærri hluti eru meðlimir Sjálfstæðisflokks, þótt smæsti hlutinn séu líklega framsóknarmenn. Framsóknarmennirnir eru þó líklega þó áhrifamestir, þar sem það fólk ræður yfirleitt ferðinni allsstaðar, eru t.d. mjög margir forstöðumenn hjá ríki og sveitarfélögum og þeir hafa þar af leiðandi meira að segja meðal ríkisstarfsmenn almennt.
Ég veit það ekki, en einhvernvegin finnst mér það þjóna litlum tilgangi að hafa bandalög starfsmanna af þessu tagi, þegar þau eru öll svo höll undir ríkisstjórnina og hvorki æmta né skræmta þegar vinstri stjórn er við völd. Væri ekki nær að leggja þessi "batterí" niður tímabundið og nota peningana í eitthvað annað, t.d. í að byggja upp norrænt velferðarþjóðfélag á Íslandi eða til að hækka örorkubætur?
Þegar laun hjá hinu opinbera eru skoðuð verður að segja að útskýringin á eitthvað hærri launum en t.d. hjá ASÍ felst í því að flestir starfsmenn eru frekar menntað fólk og margir hverjir vinna vaktavinnu. Leikskólakennarar eru með stúdentspróf og 3 ára háskólanám, kennarar eru einnig stúdentar með a.m.k. 3 ára háskólanám, menntaskólakennarar og háskólakennarar eru reyndar yfirleitt með meistaragráðu eða doktorsgráðu. Félagar í BHM eru eðli málsins samkvæmt með háskólamenntun, grunnmenntun, meistaragráðu eða doktorsgráðu. Menn sem borga ein mánaðarlaun í námslán á ári og eytt hafa 7-10 árum meiri tíma í nám en ómenntað fólk hlýtur að geta gert kröfu um meiri laun. Er það ekki bara sanngirnisatriði, eða hvernig eigum við annars að hvetja börn okkar til að fara í langskólanám?
Eigum við að taka meðallaun sjómanna og bera þau saman við meðallaun þessa háskólafólks - finnst það einhverjum sanngjarnt? Eigum við, sem erum með námslán að borga af, að krefjast "námslánaskattaafslátta"? Hver vill senda börn sín í hendur ómenntaðra leikskólakennara, grunnskólakennara, menntaskólakennara eða háskóla? Hver vill láta einhvern sem ekki hefur lokið háskólanámi skera upp á sér heilann eða hjartað? Hver vill láta ólöglærðan mann dæma sig o.s.frv.?
Koma svo: BSRB, BHM, og KÍ - aðeins meira stolt fyrir okkar hönd - berjast aðeins fyrir hagsmunum okkar sem á bak við ykkur standa - kynna fólki að opinberir starfsmenn eru fólk sem ekki á alltaf skilið lægstu launin í þjóðfélaginu!
Meðallaun ríkisstarfsmanna 458 þúsund á mánuði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.12.2009 kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.12.2009 | 17:28
Roger Boyes gagnrýnir Þjóðverja jafnt sem Íslendinga...
Ég hafði líkt og margir gaman af Roger Boyes í Silfri Egils í dag. Án þess að vilja á nokkurn hátt halda því fram að Boyes fari með tóma þvælu í viðtalinu, því mér fannst ýmislegt í málflutningi hans ágætt, fannst mér sá vinkill, að Davíð Oddsson bæri mesta ábyrgð á Hruninu koma mér kunnuglega fyrir sjónir. En eru þessi ummæli áhugaverðari þegar þau hrökkva af vörum útlendings? Er það ekki alltaf áhugaverðara þegar útlendingar lepja eitthvað upp eftir Íslendingum, er það ekki undantekningalaust meiri speki fyrir vikið? Og ég vil aftur ítreka að margt af því sem Boyes sagði var alveg prýðilegt! Ég spyr mig eðlilega með hvaða rökum styður Boyes fullyrðingar sínar? Skynsamleg rök voru allavega ekki að heyra í Silfrinu og því verður maður líklega að lesa bókina. Ég gerði mér þá vinnu að lesa eitthvað af skrifum Boyes í þýska dagblaðinu Tagesspiegel, þar sem hann að mestu skrifar um þýska menningu, þjóðverja, þýsk stjórnmál og stjórnmálamenn. Boyes skrifar af þekkingu, enda líkt og ég þýskufræðingur að mennt (þ. Germanist). Hann er t.d. ansi brattur í yfirlýsingum sínum um stjórnmálamenn, m.a. um hinn samkynhneigða borgarstjóra Berlínar, Klaus Wowereit, sem honum virðist ekki líka vel við. Af skrifum hans að dæma í Tagesspiegel, er hann meira að skrifa hárbeitta, kaldhæðna gagnrýni og skemmtipistla um Þjóðverja og Þýskaland. Í skrifum sínum um Þjóðverja og Berlínarborg er hann jafnan óvæginn og og dregur þarlenda sundur og saman í háði og spotti! Mér fannst aðferðafræðin að mörgu leyti svipuð varðandi Íslendinga. Sennilega hefur hver þjóð gagn og gaman af því að fá hárbeitta gagnrýni frá útlendingum, er ekki sagt að glöggt sé gests augað! Við ættum hins vegar ekki að taka slík skrif sem "vísindalega greiningu" á því sem hér gerðist, heldur sem hárbeitta og nytsamlega gagnrýni manns sem sér málin utan frá.
Ég hefði gaman af að vita hvaða heimildarmenn Boyes hefur umgengist hér á landi, hver matar hann á upplýsingum? Það virðist allavega vera ansi þröngur hópur manna - varla innvígðir og innmúraðir. Eru hans bestu vinir hér á landi Hörður Torfason og þeir sem voru hvað atkvæðamestir í mótmælum hér á liðnum vetri? Manni heyrist það allavega á skoðunum hans. Ég er ekki að halda því fram, að Boyes geti ekki myndað sér sjálfstæða skoðun á því sem hér gerðist, en þegar rithöfundar og blaðamenn mynda sér sjálfstæðar skoðanir á hlutunum vinna þeir úr ákveðnum upplýsingum. Það skiptir höfuðmáli hvaða upplýsingar maður skoðar og hvaða upplýsingar eru valdar ofan í mann, þegar maður les ekki og talar ekki tungumál þeirrar þjóðar, sem maður er að skrifa um. Með því að stýra aðgengi að efni er hægt að leiða menn að ákveðinni niðurstöðu. Þetta þekkjum við mjög vel, því slík blaðamennska var stunduð hér á landi af íslenskum fjölmiðlamönnum um árabil, er íslensku bankarnir og útrásarvíkingar mötuðu íslenska fjölmiðla á bulli og þvættingi. Ég er sannfærður að Davíð Oddsson og Geir H. Haarde bera mikla ábyrgð á hruninu, en mesta ábyrgð bera hins vegar stjórnendur bankanna og útrásarvíkingarnir. Boyes talaði lítið um ábyrgð þeirra manna og afsakaði t.d. Jón Ásgeir Jóhannesson að hann hefði aðeins verið fórnarlamb græðginnar, sem væri í sjálfu sér mannlegt og þar með eðlilegt.
Boyes: Of mikil áhersla á ál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2009 kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.12.2009 | 13:09
Árásir vinstri manna á oddvita sjálfstæðismanna í bæjarstjórnum landsins
Það er hreint með ólíkindum hversu árásargjarnir vinstrimenn eru gagnvart forystumönnum sjálfstæðismanna í stærstu bæjarfélögum landsins og á þetta á alveg sérstaklega við um Samfylkinguna. Sem dæmi um slíkar árásir - sumar ansi vel heppnaðar - má nefna aðsúginn að hægri meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur á meðan á REI málinu stóð, árásina á Gunnar Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi, árásina á Árna Sigfússon, bæjarstjóra í Reykjanesbæ og nú árásir á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra í Reykjavík.
Víða kasta þarna þarna liðsmenn Samfylkingarinnar steinum úr glerhúsi. Gott dæmi eru árásir Dags B. Eggertssonar núna á Hönnu Birnu. Ég spyr Dag B. Eggertsson hvað hafi farið hér úrskeiðis hjá Sjálfstæðisflokknum á tímabilinu 1991 - 2002? Um hvaða 18 ár er hann að tala? Að mínu mati byrjaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrst að gera mistök árið 2002, þegar hún seldi bankana í hendur glæpamanna. Það voru síðan ríkisstjórnir Halldórs Ásgrímssonar og Geirs Haarde, sem bera stærstu ábyrgðina á hruninu og síðast en ekki síst ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrum formanns Samfylkingarinnar. Á árunum 1999 - 2006 var Hanna Birna vissulega aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, en mér finnst full langt gengið að gera hana ábyrga fyrir ákvörðunum Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, og Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra vegna misheppnaðrar einkavæðingar bankanna. Menn skulu heldur ekki gleyma að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði að einkavæðing bankanna skyldi þannig framkvæmd að bankarnir færðust í dreifða eignaraðild.
Á sama hátt hafa forystumenn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ verið að reyna að ata Árna Sigfússon aur vegna fjármála bæjarins. Staðreynd er hins vegar að Reykjanesbær stendur nú síður verr fjárhagslega en önnur stærri bæjarfélög landsins og ef eitthvað er betur, þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður á undanförnum 10-15 árum. Árni Sigfússon hefur í raun gert kraftaverk varðandi uppbyggingu í Reykjanesbæ og það þrátt fyrir að umhverfið hafi verið honum jafn fjandsamlegt og það yfirleitt getur orðið. Árni tók að mörgu leyti við erfiðu búi í Reykjanesbæ, þar sem ljóst var upp úr lokum Kalda stríðsins árið 1990, að Bandaríkjaher myndi minnka umsvif sín hér á landi. Á svipuðum tíma og Árni settist í bæjarstjórastól var byrjað á lokun varnarstöðvarinnar, en herstöðinni síðan að öllu leyti lokað árið 2006. Þúsundir Íslendinga misstu vinnuna á árunum 1990 - 2006 og Suðurnes urðu af gífurlegum tekjum vegna þessa. Þá bera að nefna að Keflavík og Njarðvík voru framarlega í fiskvinnslu allt frá 19. öld og í byrjun 9. áratugarins var í þessum sveitarfélögum blómleg útgerð og fiskiðnaður. Í kjölfar kvótakerfisins fluttist kvótinn í burt frá Keflavík og Njarðvík og hefur bátum fækkað og flest fiskvinnslu- og frystihús hætt störfum.
Það má segja að fá ef nokkur sveitarfélög hafi orðið fyrir viðlíka blóðtöku á undanförnum áratugum þegar tveir af helstu undirstöðuatvinnuvegum hurfu á nokkrum árum. Þótt flugstöðin og önnur fyrirtæki hafi vissulega tekið við einhverjum af þessum störfum, þá verðum við að horfast í augu við þá staðreynd, að þau störf eru bæði færri og verr launuð en störf við sjósókn og hjá bandaríska varnarliðinu. Jafnaðarmenn ættu því að styðja baráttu Árna Sigfússonar og meirihluta sjálfstæðismanna í baráttunni fyrir auknum atvinnutækifærum á Suðurnesjum fyrir þá 1729 einstaklinga, sem eru atvinnulausir á Suðunesjum, en hætta árásum á menn, sem eru að vinna þarft en oft á tíðum vanþakklátt starf fyrir Suðurnesin.
Það virðist vera "taktík" Samfylkingarinnar að halda uppi stanslausum árásum á alla forystumenn Sjálfstæðisflokksins og tortryggilega á einn eða annan hátt og koma þannig höggi á flokkinn. Þetta eru ódrengileg stjórnmál, sem koma í bakið á fólki. Auðvitað var slíkur hráskinnaleikur auðveldur í kjölfar hrunsins, þar sem því miður fór ekki fram nægileg hreinsun í forystu flokksins á síðasta landsfundi eða í kosningum til Alþingis vorið 2009. Af þessum orsökum verður hægt að beita slíkum áróðri eitthvað áfram. Ég spyr hins vegar Dag á móti, hver ábyrgð Samfylkingarinnar sé á því 1 og 1/2 ári, sem Samfylkingin var í ríkisstjórn á árunum 2007 - 2009, þegar hið eiginlega hrun var í aðsigi. Ég spyr jafnframt um tengsl Samfylkingarinnar við þá glæpamenn, sem komu okkur í þá aðstöðu sem við erum í núna?
Dagur gagnrýnir borgarstjóra harðlega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2009 | 18:30
Sjálfstæðisflokkurinn á uppleið
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á uppleið á undanförnum mánuðum og er það vel. Það fólk sem snéri við okkur bakinu í síðustu kosningum er auðsjáanlega búið að fyrirgefa okkur að einhverju leyti allavega eða í það minnsta búið að fá sig fullsatt af vinstri stjórninni. Búast má við því að Sjálfstæðisflokkurinn styrki enn stöðu sína þegar skattahækkanirnar dynja með fullum þunga á landsmenn í byrjun næsta árs. Að auki má búast við fylkisaukningu þegar ríkisstjórnarflokkarnir hafa kúgað þingmenn sína til að samþykkja Icesave samkomulagið.
Samfylkingin hlýtur af hafa áhyggjur af fylgistapi sínu um þessar mundir, þótt VG megi vel við una. Ríkisstjórnin er í frjálsu falli og búast má við að það fall verði enn brattara á nýju ári og endi með skelfilegri brotlendingu næsta vor. Ekki yrði ég hissa þótt Samfylkingin sliti stjórnarsamstarfinu upp úr því og taki upp ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokknum. Það eina sem gæti komið í veg fyrir slíkt stjórnarsamstarfs er stefna Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum.
Litlar breytingar á fylgi flokka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.11.2009 | 10:39
Þjóðargjaldþrotið 2008
Það er mér ljósara með hverjum mánuði, að heiðarlegast hefði verið fyrir Íslendinga að viðurkenna strax sinn stóra ósigur haustið 2008 og lýsa yfir þjóðargjaldþroti. Það lýsti miklu óraunsæi og einfeldni þegar Davíð Oddsson, þáverandi bankastjóri Seðlabankans, lýsti því yfir í Kastljósinu, að við kæmumst upp með að neita að borga skuldir óreiðumanna með því að að skilja milli erlendrar og innlendrar bankastarfsemi, þ.e.a.s. taka innlendu bankastarfsemina með skuldum og eignum og færa undir ríkið, en láta erlendu starsemina bara "gossa". Hann bætti við að Íslendingar myndu standa uppi nær skuldlausir, því íslenska ríkið væri því sem nær skuldlaust, sem var reyndar satt og rétt á þessum tíma. Það er hreint með ólíkindum að halda að slíkt gangi upp og lýsir mjög vel hversu litla innsýn maðurinn hafði í þessi mál. Með því hins vegar að láta bankana bara "gossa" strax í gjaldþrot og yfirtaka þá ekki, þ.e.a.s. eftirláta erlendum kröfuhöfum bankana, hefði íslenska ríkið "einungis" staðið uppi með kröfur innistæðueigenda á Íslandi og erlendar kröfur innstæðueigenda.
Samfara því að lýsa yfir þjóðargjaldþroti hefði að mínu mati átt að lýsa yfir algjöru neyðarástandi í landinu. Í stað þess að biðja Guð að blessa Ísland, hefði Geir átt að fullvissa landsmenn um að innistæður þeirra væru tryggar upp að því marki sem innistæðusjóðurinn tryggði. Hann hefði jafnframt átt að lýsa því yfir að gripið hefði verið til ráðstafana til að tryggja "eðlilega" greiðslustarfsemi bankanna daginn eftir. Í kjölfarið hefði síðan því verið lýst yfir við erlenda kröfuhafa, að sökum þjóðargjaldþrots treysti Ísland sér aðeins til að greiða innlendum kröfuhöfum út þær innistæður í bönkum, sem tryggingasjóður innistæðna ábyrgist, og neita alfarið að greiða Icesave skuldbindingarnar. Skaðinn var hvort eð er skeður, þar sem allur heimurinn hefur litið svo á alla tíð frá hausti árið 2008 að Íslendingar væru gjaldþrota. Þetta sýndu Bretar mjög skýrt með notkun hryðjuverkalaganna og Gordon Brown lýsti því meira að segja yfir í heimspressunni. Þegar Bretar gripu til hryðjuverkalaganna hefðu Íslendingar átt að lýsa yfir skilningi á þessum aðgerðum þeirra gegn íslensku "útrásarglæpamönnunum". Um leið hefðum við átt að lýsa því yfir að með þessari aðgerð væru Bretar í raun að yfirtaka íslenska bankastarfsemi í Bretlandi ásamt Icesave skuldbindingunum þar í landi. Að auki værum við Íslendingar gjaldþrota og ekki borgunarmenn fyrir þessum skuldum - punktur.
Fyrri ríkisstjórnir og núverandi bitu síðan höfuðið af skömminni með því að samþykkja að standa við Icesave skuldbindingar Landsbanka Íslands. Þetta hefur eflaust leitt til þess að aðrir kröfuhafar vilja sitja við sama borð og Bretar og Hollendingar, enda að mínu mati lítill munur á því hvort kröfur eru frá einstaklingum, fyrirtækjum eða bönkum - krafa er krafa! Stundum er það þannig í lífi einstaklinga, fyrirtækja og þjóðríkja, að þau verða að viðurkenna að þeim hafi orðið á svo óbærileg mistök, að eina ráðið sé að lýsa því yfir að þau séu upp á náð og miskunn annarra komin. Vissulega gengu skilanefndir bankanna til samninga, sem líkja má við nauðasamninga, en auðsjáanlegt er að ekki hafa allir kröfuhafar sætt sig við þá niðurstöðu. Nú erum við aðeins að fresta því óumflýjanlega enn og aftur. Þá er að mínu mati eina ráðið að kyngja stolti sínu og ganga til nauðasamninga og því fyrr sem við gerum slíkt því betra.
Undirbýr mál gegn Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.11.2009 | 14:42
Nýtt herbragð Heimssýnar - er ESB nú farið að óttast Ísland?
Forheimsku og þröngsýni innan samtakanna Heimssýn eru virkilega engin takmörk sett. Nýjasta herbragð þeirra er auðsjáanlega að halda því fram, að ESB sé farið að óttast þá niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi, að aðild Íslands að sambandinu verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samkvæmt þessu höfum við ekki aðeins að óttast við inngöngu í ESB, heldur einnig Evrópusambandið gerumst við ekki aðilar að sambandinu. Engan rökstuðning er að finna fyrir þessari "hræðslu ESB" við Íslendinga. Eru þeir kannski hræddir við að við setjum þá á hausinn, að þeir verði fyrir annarri innrás eða útrás og sú atlaga geri endanlega út af við bankakerfið í Evrópu ef þeir hafa ekki stjórn á okkur?
Halda þeir ágætu einstaklingar, sem standa að þessum samtökum, að Evrópusambandinu standi ekki á sama um þótt okkar fámenna þjóð kjósi ekki að gerast aðilar samtökum sem telja rétt um 500 milljónir manna. Ég var að vona að útrásarhrokinn yrði leystur af með heilbrigðri skynsemi, en auðsjáanlega á að leysa hann af með þröngsýni og þjóðarrembu af verstu sort! Öll þessi umræða um ESB minnir mig óneitanlega þá heimskulegu umræðu, sem var svo áberandi vegna veru bandarísks varnarliðs á meðan á Kalda stríðinu stóð. Guð gefi okkur að þetta mjög svo ágæta fólk í Heimssýn sameinist ekki á annan hátt, t.d. í ríkisstjórn Íslands. Það væri ekki líft á þessu landi ef öfga þjóðernissinnar úr VG og Sjálfstæðisflokknum sameinuðust á þann hátt. Þá flyt ég af landi brott - það sver ég og sárt við legg!
ESB óttist að vera hafnað af Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
11.11.2009 | 06:49
21,7 % kjósenda (VG) halda þjóðinni í gíslingu...
Það er hreint út sagt með ólíkindum, að rétt liðlega fimmtungur landsmanna haldi allri þjóðinni í gíslingu með öfgaskoðunum sínum. Hvort sem horft er til stóriðjuandstöðu, okurskattastefnu, öfgafemínisma eða þjóðernistalíbanaisma verður að segja, að stefna VG er á skjön við stefnu allra hinna hófsömu og raunsæju flokkanna í landinu. Ég spyr mig virkilega, hvernig heldur Samfylkingin þetta samstarf út? Vissulega ráða skoðanabræður Marðar, Þórunnar og Jóhönnu ferðinni hjá Samfylkingunni nú um stundir og Árni Páll, og aðrir pólitískir vindhanar þar á bæ, sveiflast með geðsveiflum og tiktúrum gamalla allaballa í eigin flokki og öfgamannanna í VG. Allt þetta fólk ætti auðvitað meira heima í röðum VG en í flokki eðalkrata. Í samstarfi við vinstri sósíalista birtist versta hliðin á íslenskum Jafnaðarmönnum og þeim tekst einhvernvegin ekki að standa í lappirnar gegn kommunum.
Eina von þjóðarinnar er að grasrótin í Samfylkingunni sjái að sér og slíti þessu hryllings stjórnarsamstarfi sem allra fyrst. Ég þekki margt skynsamt fólk innan Samfylkingarinnar, sem hefur áttað sig á að þær aðgerðir, sem kynntar hafa verið í þágu skuldsettra fyrirtækja og almennings, eru gjörsamlega máttlausar og hjálpa lítið sem ekkert, en lengja aðeins í hengingarólinni. Sama fólk veit, að þegar skattbyrðin er aukin svo gífurlega á atvinnulífið og heimilin í landinu, skilar það sér ekki í ríkissjóð - jafnvel hætta á að tekjur ríkisins minnki bæði til styttri og þó sérstaklega til lengri tíma. Þetta sama Samfylkingarfólk veit, að eina leiðin út úr kreppunni er aukin atvinnuuppbygging á þeim fáu stöðum og í þeim atvinnugreinum, þar sem slíkt er mögulegt. Jafnaðarmenn eru raunsæismenn - bæði hér á landi og erlendis - og vita að á tímum sem þessum verður að laða að eins mikla erlenda fjárfestingu til atvinnuuppbyggingar og hægt er.
70% hlynnt erlendri fjárfestingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.11.2009 | 07:46
Hættur við að hætta - nauðsyn brýtur lög
Ég hef ekki skipt um skoðun og tel það enn óheillaþróun að LÍÚ og skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins sé tekin við Morgunblaðinu og Sjálfstæðisflokknum. Ritstjórnargreinar Morgunblaðsins undanfarnar vikur sýna að ég hafði og hef á réttu að standa. Aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hrekja mig til þess að kyngja stolti mínu og hefja að nýju blogg mitt hjá Morgunblaðinu, en að auki mun ég blogga á Eyjunni. Baráttuna gegn þessari vinstri stjórn verður að há á öllum vígstöðvum. Sjálfstæðismenn, félagar í Framsóknarflokknum og félagar í Borgarahreyfingunni verða að leggjast á eitt við að koma þessari skelfilegu ríkisstjórn frá völdum. Hagur þjóðarinnar í nútíð og framtíð er í voða. Það mun taka okkur a.m.k. 10-15 ár að komast upp úr kreppunni með þessu áframhaldi.
Málum er svo háttað, að alla aðra hluti verður að setja í annað sæti, hvort sem um er að ræða ESB-aðild eða önnur mál. Í fyrsta sæti verður að komast, að þessari hræðilegu ríkisstjórn sé umsvifalaust rutt frá völdum, ríkisstjórn sem hér er allt að eyðileggja með aðgerðaleysi í efnahagsmálum, aðgerðaleysi varðandi atvinnuuppbyggingu, framkvæmdasemi hvað skattahækkanir varðar og aumingjaskap í samskiptum við erlenda lánadrottna, hvaða nafni sem þeir nefnast. Það er í raun ótrúlegt að Íslendingar þurfi fyrst að upplifa á eigin skinni misheppnaða stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og síðan Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á liðnum 5-6 árum, en síðan finnist manni við vera að fara úr öskunni í eldinn. Ég hélt að þetta gæti ekki versnað, en sú kenning hefur verið afsönnuð, því við fórum úr öskunni í eldinn!
Hvað á ég að segja við krakkana mína núna þegar ríkið tekur vel yfir 50% af öllum tekjum yfir 500.000 - meira en önnur hver króna rennur til ríkisins! Hvernig kemst ég að þessari niðurstöðu, jú, ef börnin mín læra eitthvað og komast í álnir munu þau borga 97.186 kr. í fastagreiðslu til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og 3,75% af launum sínum, sem gera 50,6%. Við þetta bætast síðan önnur skattlagning ríkisins á vöru og þjónustu auk fjármagnstekjuskatta, sem börn mín þurfa kannski ekki að hafa áhyggjur af, þar sem þau munu aldrei eignast neitt með þessu áframhaldi. Hvernig á maður að geta hvatt þau til að fara í nám og búa hér?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.9.2009 | 12:17
Kveðjublogg - Davíð Oddsson þá og nú, auðsjáanlega ekki sami maður ...
Ég hef tekið þá ákvörðun að færa mig frá Morgunblaðinu yfir til Eyjunnar. Þetta er gert að vel yfirlögðu ráði í kjölfar þeirrar ákvörðunar eigenda Morgunblaðsins að ráða Davíð Oddsson sem ritstjóra blaðsins og opinbera þannig í verki fyrir hvað blaðið á að standa í framtíðinni, þ.e.a.s. grímulausum áróðri og lygaherferð gegn Evrópusambandinu, réttlátum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu og öðrum þeim umbótum, sem nauðsynlegar eru íslensku þjóðfélagi. Stjórnmálaskoðun mín hefur ekkert breyst og ef eitthvað er, hef ég á undanförnu ári fært mig lengra til hægri. Hægri markaðsstefna snýst nefnilega ekki um sérhagsmunagæslu fyrir ráðandi stéttir á borð við kvóta- og fjármagnseigendur, líkt og sumir virðast halda, heldur hvernig frelsið er virkjað til að úr grasrótinni spretti upp ný og framsækin íslensk sprotafyrirtæki. Yfirvalda er að tryggja - með góðri löggjöf og virku og ströngu eftirliti - að eðlileg samkeppni ríki á markaðnum og að lagaumhverfi tryggi jafnt hagsmuni fyrirtækja og neytenda, sem því miður mistókst undanfarin 5-6 ár með hörmulegum afleiðingum fyrir íslensku þjóðina. Þeir hægri menn, sem halda að sjálfstæðisstefnan snúist um sérhagsmunagæslu eru á miklum villigötum og komnir langt frá rótum stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þetta sama fólk á að leggjast yfir tímabilið 1991 - 2000, þegar sjálfstæðisstefnan var í heiðri höfð og viðskiptafrelsi og frelsi einstaklingins sýndi hvaða ótrúlegi kraftur býr í þjóðinni og hvernig slíkur kraftur er best leystur úr læðingi. Þetta sá Davíð á sínum tíma og vílaði ekki fyrir sér að á forsendum heilbrigðrar samkeppni yrðu bæði bæði Kolkrabbinn og Sambandið að víkja fyrir nýjum, öflugum viðskiptaöflum. Nú hefur Davíð hins vegar snúist á sveif með arftaka Kolkrabbans í baráttunni fyrir sérhagsmunum þeirra. Ég trúi því statt og stöðugt, að eina leiðin út úr þeim erfiðleikum, sem við svo sannarlega erum í, sé að hægri og miðju flokkar stýri landinu út úr hörmungunum. Blandað markaðshagkerfi með sterku atvinnulífi, sem m.a. byggir á frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar, öflugum sjávarútvegi og öðrum iðnaði, sé lausnin. Þetta er kannski engin töfralausn - enda engar slíkar á boðstólum - en þetta er samt lausnin.
Í kjölfar uppbyggingar í Helguvík og á Bakka verðum við síðan að leita að einhverju öðru en áli, fiski og landbúnaði til að sérhæfa okkur í, líkt og Webster Tarpley benti réttilega á í Silfri Egils sl. sunnudag. Gjarna má það tengjast áliðnaðinum, en ég hugsa þó frekar til umhverfistækni og lausna á ýmsum umhverfisvandamálum, líkt og margir hafa bent á, m.a. Ólafur Ragnar Grímsson. Leita verður sem mest má hagræðingar hjá ríkinu á næsta og þar næsta ári. Þar koma markaðslausnir ekki aðeins til greina, heldur eru þær forsenda þess að jafnvægi náist í ríkisrekstri. Auk nauðsynlegra sameininga stofnana og annarrar hagræðingar, þarf að huga að markaðslausnum, bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu. Aðgangur almennings má að sjálfsögðu ekki breytast þrátt fyrir breytt rekstrarform og kostnaður fyrir almenning má heldur ekki aukast. Sömu rök og að frama greinir gilda fyrir menntakerfið. Öflugt heilbrigðis- og menntakerfi er dýrmætasta eign okkar Íslendinga og þannig á það að haldast. Það sem ég hins vegar óttast er að vinstri sveiflan nái flugi í landinu og að umsvif hins opinbera muni aukast eftir smávægilegan niðurskurð á næsta ári. Aðgerðaleysi vinstri stjórnarinnar í ríkisfjármálum, atvinnuuppbyggingu, skuldavanda fyrirtækja og almennings á þeim átta mánuðum, sem hún hefur verið við völd, sýnir glöggt hversu vanmegnug hún er til að leysa úr vanda þjóðarinnar.
Fyrir þjóðinni fer kona, sem vill eflaust vel, en hefur hvorki getu, kjark eða heilsu til að fást við vandann og hefur að auki ekki þann nauðsynlega eldmóð í brjósti, sem nauðsynlegur er til að blása þjóðinni kjark í brjóst til að berjast út úr vandanum. Þvert á móti hafa forsætisráðherra og fjármálaráðherra keppst við að mikla vandann fyrir þjóðinni, sem er fyrir full örvæntingar. Þeir hafa lýst komandi vetri fjálglega, líkt og Móðuharðindin væru að bresta á, þegar móða og eiturgufa lagðist á jörðina, gras sviðnaði og um 75% af búfénaði féll og fimmti hver Íslendingur dó Drottni sínum. Ég hef ekki trú á að næsti vetur verði jafn erfiður og liðinn vetur og ríkisstjórnin lýsir honum, en óttast þó að hann gæti reynst okkur skeinuhættur, t.d. varðandi brottflutning fólks, ef ekkert fer að gerast varðandi atvinnuuppbyggingu.
Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn átti sig á því, að með því leyfa Davíð Oddssyni - og heldri manna klúbbi hans - að stjórna flokknum á bak við tjöldin, er engum greiði gerður. Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verða að sýna að þau eru við stjórnvölinn en ekki gamla klíkan! Ef leiðtogar flokksins gefa eftir er það ekki leiðin út úr vandanum og til styrkingar, heldur vegurinn til sundrungar og togstreitu og táknar þar með endalok þeirra beggja sem leiðtoga. Leiðin sem á að fara var vörðuð í aðdraganda síðasta landsfundar, þar sem uppgjör fór fram á vegum endurreisnarnefndar flokksins. Það augljósa var viðurkennt, þ.e. mistökin sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar urðu á við einkavæðingu bankanna og mistök og aðgerðaleysi tveggja ríkisstjórna Geirs Haarde. Það er búið að viðurkenna mistökin og nú er að læra af þeim! Niðurstaða endurreisnarnefndar var rétt, eða að embættismenn og stjórnamálamenn hefðu brugðist, auk þess sem eftirlit ekki aukið í takt við stækkun bankanna og ekki stigið á bremsuna nógu tímanlega. Afleiðingarnar voru síðan auðvitað stórslys. Í stað þess að einblína á 4-5 ár í aðdraganda hrunsins getum við sjálfstæðismenn hins vegar byrjað á að benda stoltir á hvað rétt var gert á árunum 1991-2004, þ.e. þá staðreynd að við rifum landið upp úr tveggja áratuga efnahagslegu öngþveiti til stöðugleika og í röð fremstu landa heims hvað lífskjör varðar. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sáum við hvaða álit Davíð hafði á þeirri góðu vinnu, sem þar fór fram í endurreisnarnefndinni og þeim heiðarlegu, réttsýnu og grandvöru sjálfstæðismönnum, sem þar voru að verki. Hvorki Davíð eða Geir geta viðurkennt hreinskilnislega að þeir hafi gert mistök með einkavæðingu bankanna og í kjölfar henna eða með því að Davíð fór í Seðlabankann. Formenn Sjálfstæðisflokksins eru eins og páfinn, þeir gera ekki mistök, þótt við hin gerum það öll og neyðumst stundum til að viðurkenna það opinberlega og þykjumst fyrir vikið vera menn að meiri.
Nú sýna Davíð og hagsmunaaðilar tengdir honum, að þeim er ekkert heilagt í baráttunni gegn ESB aðild og öðrum nauðsynlegum breytingum í landinu. En þessi menn stjórnast ekki einungis af afturhaldssemi og stjórnsemi, heldur af grímulausri, ískaldri og skipulegri hagsmunagæslu fyrir eigendur fjármagns og fiskveiðiheimilda í landinu. Þeir sem eiga fjármagn á Íslandi og geta lánað almenningi og fyrirtækjum í verðtryggðum krónum á okurvöxtum hafa af eðlilegum ástæðum ekki áhuga á ESB, evru, lágum vöxtum og lágu verðlagi fyrir almenning. Nei, þetta myndi nefnilega kippa fótunum undan tilvist þessa fólks og þegar slíku fólki er stillt upp við vegg er því ekkert heilagt til að að verja sína sérhagsmuni. Nokkrir milljarðar, sem slíkt fólk eyðir í að kaupa sér fjölmiðla til að heilaþvo þjóðina með grímulausum áróðri, lygum og rangtúlkunum, sem nú beinist gegn ESB aðild en áður var notaður til að verja hagsmuni útrásarvíkinganna, er peningum sem er ekki aðeins vel varið, heldur er hreinn og klár fórnarkostnaður í stríðinu um sérhagsmuni þeirra.
Mér er hugsað til málflutnings Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands 11. febrúar 2004, sem á jafn vel við fyrir fimm árum og núna, en kannski gildir ekki það sama um Jón og síra Jón:
Það verður einnig að spyrja þeirrar spurningar, hvort það skipti máli hverjir eiga fjölmiðlana. Undan þessari spurningu eigum við ekki að víkja okkur. Ekki er langt síðan blöðin hér á landi voru pólitísk málgögn sem einkum var ætlað að vera málsvarar stjórnmálaskoðana eigenda sinna. Við hljótum að vera sammála því að upplýsingagildi og áreiðanleiki margra flokksmálgagnanna var í besta falli umdeilanlegur, þó auðvitað hafi verið mikill munur á milli einstakra blaða. Þjóðviljinn sálugi, var til dæmis ekki eyða mikilli prentsvertu í að útskýra fyrir lesendum sínum ruglandina í málflutningi gömlu kommana, en var hún þó umtalsverð og efni til nokkurrar umræðu. Það var ekki tilgangur eigenda Þjóðviljans að þjóna lesendum sínum með slíkum hætti, þjónustan var við málstaðinn, málstað eigendanna og það máttu þeir eiga að ekki var siglt undir fölsku flaggi. En Þjóðviljinn var ekki einn á ferð. Á móti kom að önnur málgögn birtu öndverðar skoðanir. Tími flokksmálgagnanna er liðinn, sem betur fer. En nú virðist upp runninn annar tími hálfu verri, tími fyrirtækjamálgagna og þau hafa miklu dýpri vasa en gömlu flokksblöðin sem börðust einatt í bökkum. Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar.
Hverjir eiga djúpa vasa nú um stundir? Jú, ekkja í Vestmannaeyjum og nokkrir aðrir útgerðarmenn. Mikið var ég einu sinni sammála Davíð Oddssyni!
Myndir:
- Svarta ekkjan - eitruð kónguló
- Umhverfistækni
- Eldgos
- Góðæri
- Vestmannaeyjar
Jóhanna: Þolinmæðin á þrotum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)