29.9.2008 | 20:18
Davíð og Geir að gera rétta hluti
Ég minnist þess vel þegar Davíð Oddsson gekk hneikslaður úr stjórnarráðinu niður í KB banka og tók út peningana hjá sjálftökumönnunum í bankakerfinu, eftir að þessir menn höfðu skammtað sér ótæpilega peninga í formi kaupréttarsamninga og ofurlauna.
Nú ganga Geir og Davíð fram og setja þessum okurlánurum, sjálftökuliði og græðgibelgjum sömu sömu skilyrði og þeir hafa sett íslenskum almenningi og fyrirtækjum undanfarin ár og þeir kvarta undan hvernig er farið er með þá.
Hvað er að þessu liði?
Þegar þeir koma á hnjánum til Seðlabankans af því að þeir hafa klúðrað sínum málum svo algjörlega að þeir hafa enga aðra útgönguleið en að leita til ríkissjóðs - almennings - um hjálp og fá þau svör að við viljum þá fá aftur til baka það sem við afhentum þeim fyrir nokkrum árum síðan og þeir hafa eytt eða klúðrað?
Halda þessir menn, að þeir fái peninga að láni án verðtryggingar og í íslenskum krónum eða lán í gjaldeyri án þess að almenningur - ríkið - vilji fá einhverja þóknun fyrir að afhenda þeim slíka fjármuni í hendur?
NEI, HÉR ER KAPÍTALISMI!
EF ÞESSIR AÐILAR ÞURFA LÁN HJÁ MÉR - ALMENNINGI - ÞÁ BORGA ÞEIR HÆSTU HUGSANLEGA VEXTI EÐA AFHENDA OKKUR HLUTABRÉFIN!
ÞEIR KUSU AÐ AFHENDA HLUTABRÉFIN!
VIÐ ERUM FRJÁLST FÓLK Í FRJÁLSU LANDI OG ÞESSIR MENN HÖFÐU VALIÐ!
![]() |
Ríkið eignast 75% í Glitni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.9.2008 | 08:01
Þúsund orð ná ekki áhrifum einnar dáðar - Ibsen
Þetta eru forvirkar aðgerðir, sem voru nauðsynlegar til að afstýra hugsanlegri "katastrófu". Svona höndla aðgerða viðskiptamenn hlutina.
Á meðan íslenska krónan hefur fallið um 25% á þessu ári og heldur áfram að falla um þetta 1-2 % á dag virðist ríkisstjórnin halla sér aftur í sætinu og bíða eftir að markaðurinn eða eitthvað kraftaverk bjargi málunum. Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki hafa gott af umganginum við "umræðustjórnmálamenn" Samfylkingarinnar. Við þurfum einhverjar gjörðir ekki orðagjálfur um væntanlegar aðgerðir.
Augljóst er að á undanförnum 6-7 mánuðum, að markaðurinn einn er ekki í stakk búinn til að leysa þau vandamál, sem við blasa. Þótt ríkisstjórnin hafi gripið til einhverra ráðstafana eru þær of máttvana og virðast ekki hafa nægileg áhrif. Þrátt fyrir að efnahagslega horfur á Íslandi til langframa séu öfundsverðar - og ég trúi virkilega að svo sé - þá eru þær mjög svo svartar til skamms tíma, svo svartar að þjóðin verður líklega öll komin á þunglyndislyf um jólin, ef fram fer sem horfir.
Bandaríska ríkisstjórnin er búin að átta sig á að ríkisvaldið þarf að leggja fram hjálparhönd í því ástandi, sem myndast hefur.
Hvenær bregst íslenska ríkisstjórnin við af krafti?
![]() |
Björgólfsfeðgar tilbúnir að bjarga Eimskip |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.9.2008 | 19:48
Þórunni burt eða ríkisstjórn með Framsóknarflokknum
Eins og málum er háttað í dag er algjörlega óábyrgt og í raun háskalegt fyrir Íslendinga að hafa umhverfisöfgamann á borð við Þórunni Sveinbjarnardóttur við stjórnvölinn í Umhverfisráðuneytinu.
Það er mín skoðun að ef Samfylkingin hefur ekki stjórn á umhverfisráðherra sínum, þá sé best fyrir Sjálfstæðisflokkinn að kanna samstarf við Framsóknarflokkinn, þrátt fyrir hinn veika meirihluta, sem slíkt samstarf þyrfti að byggja á.
Samfylkingunni væri nær að hlusta á Össur Skarphéðinsson og vini hans innan Samfylkingarinnar og sú stefna, sem sá hluti Samfylkingarinnar keyrir gæti reynst Sjálfstæðisflokknum skeinuhætt í næstu kosningum.
![]() |
Segir Bjallavirkjun ekki koma til greina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.9.2008 | 08:33
Almenningur á Íslandi borgar enn og aftur brúsann af sukki annarra
Ég á góðar æskuminningar, en minnist nokkurra neikvæðra hluta úr æsku minni (1971-1991), kjarnorkuógnarinnar, kólnun jarðar og síðan efnahagsóreiðu, sem birtist í neikvæðum viðskiptajöfnuði, gengisfellingum, verðbólgu, verkföllum, víxlhækkunum verðlags og launa.
Þetta var samt ekki jafn slæmt fyrir alla Íslendinga, því óðaverðbólgan gerði þeim einstaklingum og fyrirtækjum, sem aðgang höfðu að lánsfé, kleyft að stofna til skulda og fjárfesta í eignum, sem héldu verðgildi sínu í óðaverðbólgunni á meðan skuldirnar fuðruðu upp í verðbólgubálinu. Þannig komu margir undir sig fótunum með því að kaupa sér íbúð, hús eða byggja upp fyrirtæki, sem þeir borguðu í raun lítið sem ekkert fyrir. Aðrir fengu námslán, sem voru í raun námsstyrkur, því enginn borgaði nema brotabrot af þeim til baka. Með setningu Ólafslaga árið 1979 var verðtrygging fjárskuldbindinga tekin upp með viðmiðun við lánskjaravísitölu og þá tók annar hryllingur við - verðtryggingin.
Allir sem voru með erlendar skuldir á þessum árum - ríkissjóður og ríkisbankarnir - voru stórskuldugur. Á árunum 1971-1991 lifðum við - líkt og síðastliðin 4 ár - um efni fram. Segja má að allt frá árinu 1991 hafi allir, sem eru 50 ára og yngri, verið beint og óbeint að borga upp húsnæðislán, námslán og önnur lán, sem tekin voru erlendis og spýtt var inn í íslenska hagkerfið á þessu tímabili. Við lærðum hins vegar á þessum mistökum og undanfarin 15 ár hefur ríkissjóður verið einstaklega vel rekinn og er nú nánast skuldlaus. Það er því ekki við neinn að sakast á stjórnarheimilinu, hvað það atriði varðar. Það þarf þó ekki vitnanna við til að sjá að efnahagsstjórnin hefur að öðru leyti ekki verið upp á marga fiskana undanfarin ár.
Bankarnir okkar, fjárfestingarfyrirtæki og ýmsir fjárfestar, sem virðast í fljótu bragði hafa gerst gírugir og fjárfest og lánað óskynsamlega og tekið fyrir því erlend lán, eru hins vegar svo skuldsett að okkur Íslendingum stendur veruleg ógn af. Í sumum tilfellum virðast eignir ekki duga fyrir skuldum.
Eftir tíu ára tíma stöðugleika gerðu margir einstaklingar á borð við mig - sem voru og eru í tryggri og góðri vinnu - þau mistök fyrir 4-5 árum að reyna að gera langtímaáætlun um fjármál sín. Þeir keyptu hús með viðráðanlegum afborgunum, tóku bílalán og sumir jafnvel flatskjá. Einhverjir fóru hugsanlega offari og bættu við húsi erlendis eða rifu allt út úr húsum sínum og endurnýjuðu - flestir kusu þó meðalveginn. Á þessum tíma átti ég um 270.000 kr. eftir til að lifa af þegar ég var búinn að borga mínar mánaðarlegu skuldbindingar (húsnæðislán, bílalán, tryggingar, námslán o.s.frv.). Það var engum vandkvæðum bundið að lifa af þessari fjárhæð og allt gekk vel í 4-5 ár. Ég var jafnvel kominn með þá draumóra að ég lifði í ósköp venjulegu landi í Evrópu. Nú hafa lánin og verðhækkanir líklegast skert þessar eiginlegu ráðstöfunartekjur mínar um 30-40.000 og ekkert lát virðist vera á þeirri skerðingu. Tekjumegin á rekstrarreikningi er ekkert að bætast við.
Það er því kunnugleg saga, sem borin er á borð fyrir Íslendinga 35 ára og eldri þessa dagana og óþægileg endurtekning frá ástandinu 1971-1991. Það er óljúft fyrir mig sem sjálfstæðismann að viðurkenna að það var ekki vinstristjórn í landinu þegar þetta gerðist.
Fyrst borguðum við sukkið og svínaríið frá 1971-1991 og nú virðist allt stefna í að almenningur taki einnig skellinn fyrir sukkið í erlendum fjárfestingum og slæma efnahagsstjórn á síðastliðnum árum. Draumar mínir og vonir að Ísland væri hugsanlega "venjulegt" land eru að engu orðnir.
Er hægt að sætta sig við að skuldinni - í orðsins fyllstu merkingu - sé alfarið skellt á almenning í landinu? Er kannski engin önnur lausn til en að skella skuldinni á almenning?
Almenningur ber ekki ábyrgð á efnahagsstjórn landsins eða óskynsamlegum fjárfestingum hér á landi eða erlendis.
Ég skal taka ábyrgð á sjálfum mér, en ég er ekki til í að taka aftur ábyrgð á málum þeirra sem ábyrgðina bera á efnahagsstjórninni í landinu og slæmum fjárfestingum undanfarin 3-4 ár. Þeir geri það sjálfir.
![]() |
Ógnvænleg efnahagsþróun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.8.2008 | 17:40
LÍN - ein mánaðarlaun á ári
Jæja, þá fékk maður enn einu sinni tilkynningu um skuldfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ég minnist þessarar stofnunar, sem þeirrar leiðinlegustu opinberu stofnunar, sem ég hef nokkurn tíma átti í samskiptum við.
Nú er maður búinn að borga þetta tæp mánaðarlaun á ári til LÍN í ein fimmtán ár og lánið lækkar ekki neitt. Ég er nú ekki á neinum ofurlaunum, en sæmilegum þó, og er það vegna þess að ég kenni þó nokkuð mikið með fullri vinnu annarsstaðar. Mér sýnist að ég nái að borga þetta lán upp með því að borga ein mánaðarlaun á ári, þar til ég hætti að vinna 67 ára gamall (21 ár í viðbót). Þá er ég búinn að borga ein mánaðarlaun á ári til LÍN í 37 ár.
Tvær af þremur dætrum mínum eru nú í menntaskóla og önnur þeirra mun útskrifast sem stúdent á næsta ári og er því eðlilega farin að velta fyrir sér háskólanámi. Hún hefur nú eitthvað verið að spyrja mig um mínar hugmyndir varðandi framhaldsnám fyrir hana og ég hef nú aðallega áhuga á þeim tveimur greinum, sem munu tryggja henni sæmilegar tekjur - þ.e. læknisfræði og verkfræði.
Hvernig get ég með sæmilegri samvisku bent henni á aðrar háskólagreinar, t.d. sjúkraþjálfaranám, hjúkrunarfræðinám, kennaranám o.s.frv. Ef ég ráðlegði henni það, væri hún líkt og ég með nokkrar milljónir í námslánum á bakinu og hefði varla meiri laun en hún er með núna á vídeóleigunni sem hún vinnur á!
Ekki get ég annað en sagt henni að það langa nám, sem ég á að baki hafi einungis kostað mig peninga, en launalega séð hafi það eiginlega ekki fært mér nokkurn skapaðan hlut nema ánægjuna af að læra!
Á ég kannski að ráðleggja henni að halda áfram að afgreiða vídeóspólur og ís og eina með öllu yfir afgreiðsluborðið?
Með smá heppni og dugnaði gæti hún jafnvel orðið sjoppueigandi!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2008 | 12:58
Langavitleysa - borgarstjórn Reykjavíkur
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2008 | 11:40
Óendanlegir möguleikar til að bæta heiminn
Ég myndi sjálfur eflaust þurfa að borga þess 25 dollara, þar sem ég er allt of feitur. Mér finnst þetta í sjálfu sér athyglisverð hugmynd, sem Guðlaugur Þór og kona hans, Ágústa Johnson, væru örugglega mjög hlynnt. Ég myndi örugglega taka af mér 20-30 kíló væri þetta tekið upp hér, þar sem 750 dollarar á mánuði myndu hreinlega setja mig á hausinn og mér væri engin önnur leið fær.
En til að gæta jafnræðis - sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga - ætti auðvitað að leggja 25 dollara á alla þá, sem meðvitað eða ómeðvitað geta kostað skattborgarann einhverja peninga með því að leggjast á sjúkrahús. Þá meina ég þá sem reykja, stunda ekki íþróttir, borða óhollan mat (og þá ekki endilega fitandi), drekka áfengi, eru með krabbamein, heilablóðfall, hjartasjúkdóma, MS og MND og yfirleitt alla sjúkdóma sem fyrirfinnast eða bara slæma liði eða léleg líffæri. Að ég tali nú ekki fólk með "genetíska" galla eða á börn, sem veikjast vegna slíkra galla. Síðan þyrfti auðvitað að leggja 25 dollara á þá sem eru í íþróttum, aka hratt, eru í fjallgöngum, sjá illa eða eru mjög utan við sig. Slíkt fólk er alltaf að lenda í slysum - tognandi á hlaupum, dettandi á skíðum, hrapandi í fjöllum, lendandi í bílslysum og það er verið að keyra á þetta fólk sem er annars hugar og það kostar milljónir að gera allt þetta fólk upp.
Spurning hvort við bættum við 25 dollurum fyrir hvern áhættuþátt. Þannig fengi maður 25 dollara fyrir að vera feitur, 25 dollara fyrir að vera með erfðagalla, 25 dollara fyrir að eignast veikt barn, 25 dollara fyrir að vera í íþróttum, 25 dollara fyrir að vera með léleg líffæri að hámarki þó 100 dollarar á mann á dag. Þá myndu flestir borga þetta 750 og upp í 3000 dollara í mánuði og málið væri leyst. Fyrir þá örfáu, sem helst aldrei fara út úr húsi og eru grannir og stæltir, borða hollan mat og hreyfa sig aðeins á hlaupahjóli innandyra, eru í heilsurækt þar sem einkaþjálfari passar mjög vel upp á þá, nú þeir gætu síðan fengið 25 dollara bónus á dag í verðlaun. Þar sem um mjög fáa væri að ræða, myndi bónusinn kosta ríkið mjög lítið.
Ég er síðan með framhaldshugmynd um að leggja skatt á frekt fólk, leiðinlegt fólk, ljótt fólk og hávært fólk, kvartandi fólk o.s.frv. Svona kerfi býður upp á óendanlega möguleika.
![]() |
Bollurnar borgi eða grenni sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.8.2008 | 08:48
Hefði átt að sofa út ...
23.8.2008 | 01:18
Skemmtilegur fyrirlestur með Nigel Farage
Ég gerði mér ferð í Þjóðminjasafnið til að hlusta á þingmann breska Sjálfstæðisflokksins (e. Independence Party) á Evrópuþinginu. Ég hafði bæði gagn og gaman af fyrirlestrinum. Mér fannst þó að þingmaðurinn hefði mátt vera rökfastari, þ.e.a.s. ef hann ætlast til að verða tekinn fullkomlega alvarlega. Hann notaðist meira við svona "standard" frasa ESB andstæðinga, sem voru þó margir vissulega góðir og sannfærandi. Ég verð að segja að rök margra meðlima Heimssýnar finnst mér mun betri þau sem þingmaðurinn lagði fram í sínum fyririlestri. Ég var þó algjörlega sammála - og deili áhyggjum hans - varðandi að ESB sé ekki á réttri leið núna í því að gera sambandið að sambandsríki. Ég get þó einhvernveginn ekki tekið herra Farage fullkomlega alvarlega - þótt ég hafi skemmt mér vel - og fannst málflutningurinn bera keim af svolitlu lýðskrumi.
Athygliesverðast fannst mér þegar Nigel Farage lýsti ástandinu í Bretlandi eftir að þeir tengdust myntbandalaginu forðum daga, en þá hefðu vextir verið komnir í hæstu hæðir, verðbólgan hefði farið af stað o.s.frv. Það var engu líkara en að hann væri að lýsa ástandinu hjá okkur núna án myntbandalags eða evru. Einnig fannst mér skrítið þegar englendingurinn bar saman fimmta stærsta hagkerfi heims - Bretland - og Ísland, sem er með eitt smæsta myntkerfi í heimi og sagði að fyrst sjálfstæð mynt borgaði sig fyrir þá , hlyti það sama að gilda um okkur. Þessi tvö hagkerfi eru auðvitað ekki sambærileg að stærð og slagkrafti og fullyrðingin sem slík algjörlega órökstudd.
Auðvitað er það hárrétt, sem Geir Haarde hefur haldið fram, að við þurfum að hafa skikk á efnahagsmálunum og það gildi, hvort sem við erum innan ESB eða utan, með evru eða ekki. Vandamálið er hins vegar að við erum ekki með skikk á þeim eins og er. Þetta er einfaldlega staðreynd, sem ekki er hægt að loka augunum fyrir, hvað sem öðru líður.
Menn deila reyndar um hverju um var að kenna, Kárahnúkavirkjun, hækkun lánshlutfalls hjá Íbúðalánasjóði og innkoma bankanna á íbúðalánamarkað eða spákaupmennska erlendra og innlendra fjárglæframanna. Menn deila hins vegar minna um að Seðlabankinn og ríkisstjórnin virðast annaðhvort ekki hafa tækin til að koma skikki á eða hafa ekki beitt þeim nógu mikið eða ekki á réttan hátt.
Á meðan Seðlabankinn og ríkisstjórnin geta ekki sannað fyrir mér, að þau hafi stjórn á efnahagsástandinu, vextir hér eru mikið hærri en innan ESB og matarverð og annað verðlag líka, mun ég halda áfram að vilja skoða ESB aðild og upptöku evru. Mér finnast kostirnir einfaldlega vera fleiri en gallarnir. Auðvitað er svo sjálfhætt við aðild ef viðræður sýna okkur að við missum yfirráð yfir fiskimiðunum og verðum að leggja landbúnað á Íslandi niður að meira eða minna leyti.
Svo mörg voru þau orð!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.8.2008 kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.8.2008 | 10:43
Björn Bjarnason með hjartað á réttum stað
Ég er afskaplega sáttur við þessa niðurstöðu Björns Bjarnasonar og dómsmálaráðuneytisins.
Það virtist vera almenn sátt um það í þjóðfélaginu að vegna sérstakra aðstæðna hjá þessum manni og fjölskyldu hans, auk tengsla hans við landið, ættum við Íslendingar að skjóta skjólshúsi yfir þessa ógæfusömu fjölskyldu.
Nú er bara að vona að umfjöllun Útlendingastofnunar í málinu leiðir til þeirrar niðurstöðu, að Paul Ramses og fjölskylda hans nái hugsanlega að gleyma liðnum hörmungum og skjóta rótum hér á þessu kalda landi, sem er svo ólíkt þeirra heimkynnum.
Það má hins vegar ekki skilja orð mín sem svo að ég vilji galopna landið fyrir hverjum sem er, heldur að skoða eigi hvert mál fyrir sig gaumgæfilega út frá þeim forsendum, hvort viðkomandi einstaklingur hafi virkilega mátt sæta pólitískum ofsóknum í heimalandi sínu. Til viðbótar við þetta má síðan beita - en mjög sparlega þó - undanþáguheimildum.
Ég er þeirrar skoðunar að mótmælin fyrir utan ráðuneytið, mikil umfjöllun í fjölmiðlum og sú alda samúðar, sem gekk í gegnum þjóðfélagið, hafi leitt til þessarar niðurstöðu og það er vel. Þetta er gott dæmi um hvernig mótmæli geta leitt eitthvað gott af sér. Við tengjum mótmæli því miður allt of oft við eitthvað neikvætt - t.d. öfgafólk í umhverfisvernd. Við megum aldrei gleyma að eðlileg mótmæli, á borð við þau sem fram fóru í þessu máli, eru hluti af lýðræðislegum rétti okkar, sem við ættum að nota oftar þegar okkur mislíkar eitthvað. Það er hins vegar þegar mótmælin breytast í skrílslæti og spjöll á eignum annarra, sem mér mislíkar stórlega og finnst að stjórnvöld ættu að taka harðar á mótmælendum. Stjórnvöld verða að gera mun á þessu tvennu, þ.e. friðsamlegum mótmælum og skrílslátum.
![]() |
Mál Ramses tekið fyrir á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ég verð að segja að dapurlegri taktík í stjórnmálum hafa landsmenn aldrei þurft að upplifa en á þessu kjörtímabili í Reykjavík og það hjá fleiri flokkum en Sjálfstæðisflokkunum. Ég var nú einn af þeim sem þekki aðeins til gamla, góða Villa og hafði ekki það álit á honum, sem margir samflokksmenn mínir höfðu. Það fór sem fór og má segja að borgarstjórnarflokki Sjáfstæðisflokksins hafi tekist að klúðra öllu, sem hægt var að klúðra í 1. meirihluta á þessu kjörtímabili, geri aðrir betur!
Tjarnarkvartettinn hefði annaðhvort splundrast eða verið óstarfhæfur og þannig fært okkur völdin í borginni og var þetta nokkuð skýrt fannst mér og flestum sem ég þekki innan flokksins. Ég sá aldrei hversvegna sjálfstæðismönnum lá svo lífið á í borgarstjórn, þar sem Tjarnarkvartettinn var hvort eð er í dauðateygjunum. Á sínum 100 valdadögum höfði þetta fólk ekki komið sér saman um neinn hlut og ekkert gert, var það ekki augljóst?
Þegar þeir hefðu orðið gjaldþrota var engin leið að mynda starfhæfan meirihluta í borginni án Sjálfstæðisflokksins og eftir þessu tækifæri áttu þeir að bíða mjög rólegir - jafvel til næstu kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hefði plummað sig mikið betur í minnihluta og þeir sem þekktu til Ólafs F. Magnússonar - og það gera nú flestir sjálfstæðismenn - hefðu átt að vita að samstarf við hann var dauðadæmt frá upphafi.
Hvað sem hver segir snúast stjórnmál um völd; völd flokka til að koma málum í framkvæmd, hvort sem er í landsmálum eða sveitarstjórnamálum. Það er hreint og beint ekkert óeðlilegt við það. Sagt er að vald spilli og það er sannleikskorn í því. Þetta á þó sérstaklega við þegar einstaklingar hafa verið of lengi við stjórnvölinn og því ættu stjórnmálaflokkar að skipta út sínu fólki á a.m.k. 12-16 ára fresti. Þetta getur einnig gerst með því að fólk færi sig úr sveitarstjórnarmálum í landsmálin eða úr landsmálum í sveitarstjórnarmál. Aðalatriðið er að fólk staðni ekki. Það er ekki þörf á að skipta út flokkum, heldur fólki!
Með digurbarkalegum yfirlýsingum sínum kom Dagur B. Eggertsson í veg fyrir samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í borginni. Hann er hrokagikkur og lýðskrumari og það hljóta allir að sjá. Hroki Samfylkingarinnar gagnvart Framsóknarflokknum og Frjálslyndum kom og kemur í veg fyrir samstarf þessara flokka næstu árin. Sömu sögu er að segja um landsmálin, þar sem VG og Samfylkingin berast á banaspjótum í mörgum málum.
Vinstra fólk hefur alltaf verið með þetta digurbarkalega orðbragð og þessar öfgar og eru því ekki stjórntækir nema í algjörum neyðartilfellum. Það er langfarsælast að stjórna landinu með Framsókn, hvað sem hver segir. Maður stjórnar ekki landinu eða sveitarfélögum með fólki, sem hlekkjar sig við vinnuvélar og upp í möstur eða er með skrílslæti á fundum borgarstjórnar eða er á móti eðlilegri atvinnuuppbyggingu
Svo einfalt er það nú!