Enga Þórðargleði - en brosum í kampinn

Nú er erfitt að halda stillingu.

Það er varla hægt að brosa í kampinn, því við erum ekki búnir að bíta úr nálinni með okkar banka.

Ég held við ættum að halda lágum "prófíl" í þessum máli og sjá til, hvort okkar bankar lifa næsta vetur af.


mbl.is Eitthvað er rotið í Danaveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð í tíma töluð

Ég er algjörlega sammála Ólafi Jóhanni í þessu máli. Það er virkilega kominn tími til að lægja öldurnar og á þetta ekki síst við um REI málið svokallaða.

Það er mitt mat að ef hreinsað hefði verið til strax hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Guðmundur Þóroddsson og fylgismenn hans verið látnir fara, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefði séð sóma sinn í að hypja sig eða hreinlega verið gefið í skyn af forystumönnum flokksins að hann ætti að taka pokann sinn, þá væri málum ekki svona háttað hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, hjá Orkuveitunni eða REI.

Það er þetta eilífa aðgerðaleysi, þessi ákvarðanafælni, sem allt er að drepa. Í REI málinu fylgdi síðan þessi gagnslausa naflaskoðun (skýrslan), sem málið var sett í. Hverju breytti þessi skýrsla svo á endanum, nákvæmlega engu og það gátu auðvitað allir vitað. Stjórnmálamennirnir voru að kaupa sér tíma og sá tími reyndist Sjálfstæðisflokknum dýrkeyptur. Var þörf á að kaupa sér tíma? Nei. Ég var þannig alinn upp að fresta því ekki til morguns, sem ég gæti gert í dag. Ég vildi óska að fleiri sjálfstæðismenn tækju sér það til fyrirmyndar. Stundum verða stjórnmálamenn að vera mannasættar og stundum ekki. Stundum þurfa þeir að hafa þor og kjark til að ganga hreint til verks innan flokks sem utan og af því eru þeir dæmdir þegar fram líða stundir.

Eins má segja að sala sveitarfélaganna á Suðurnesjum á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja hafi farið of snemma fram, þ.e.a.s. áður en almenn umræða hafði farið fram um þessi mál, þ.e. hvernig almannaveitumálum ætti að hátta í framtíðinni og áður en heilstæð löggjöf var sett um það mál. Menn voru komnir á undan sér, sem er þó skömminni til skárra en aðgerðaleysið, þar sem í því tilfelli getur einnig verið um framsýni að ræða.

Eflaust er hægt að telja upp fleiri ástæður en ég hef gert fyrir því í hvaða farvegi þessi mál eru, en það er í raun er óþarfi að velta sér lengur upp úr þessum málum - þetta er búið og gert og hefur því miður skaðað allt of mikið.

Mikilvægast af öllu er öll þessi mál eru í höfn. Sátt hefur verið sköpuð um að náttúrauðlindirnar verði alltaf í eign hins opinbera, dreifingarfyrirtæki rafmagns og heita og kalda vatnsins verði í meirihlutaeign opinberra aðila og að orkufyrirtækin geti verið að meirihluta einkarekin. Ég held að vinstri menn og þeir sjálfstæðismenn, sem voru sömu skoðunar og ég, þ.e.a.s. að orkulindirnar ættu að vera í opinberri eign, geti vel við unað. Tryggt er að krafti einkaframtaksins verður gefinn laus taumurinn við orkuframleiðsluna og borgarinn á dreifingarfyrirtækin og á þannig að geta keypt orkuna á hófsamlegu verði á markaði, þótt eðli málsins samkvæmt séu því settar nokkrar takmarkanir. Löggjöfin ætti þó að tryggja að ekki verði okrað á almenningi, þótt orkuverin færist í hendur einkaaðila.

Nú er tími kominn til að við Íslendingar styðjum í orði og á borði við þessi glæsilegu fyrirtæki, sem storma fram í bullandi útrás til að framleiða græna orku fyrir heimsbyggðina. Við sláum a.m.k. tvær flugur í einu höggi, flytjum út íslenskt hugvit og reynslu og fáum fyrir það greitt og leggjum okkar lóð á vogaskálarnar í baráttunni við loftlagsbreytingarnar.´

Ég hafði stórar efasemdir varðandi útrás peningamanna og sá ekki fljótu bragði, hvað við Íslendingar hefðum meira fram að færa en lönd og fjölskyldur, sem hafa verið að græða á fjárfestingum og bankastarfsemi allt frá tímum Medici ættarinnar í Flórens.

Þessi útrás er allt öðru vísi en fjármálaútrásin. Varðandi jarðhitann erum við á heimavelli að byggja á íslensku hugviti og reynslu og getum örugglega einhverju miðlað, sem aðrir vita ekki. Við megum þó ekki ofmetnast og halda að við eigum ekki í samkeppni á þessum markaði. Það er mikil reynsla og hugvit til víða í heiminum í þessum bransa.

Því gildir nú sem aldrei fyrr að spýta í lófana og fresta því ekki til morguns, sem við getum gert í dag.


mbl.is Ólafur Jóhann: Tími gífuryrða liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stund á milli stríða

Stórveldistilburðir Rússlands og einkennileg afstaða í ýmsum málum hlýtur að vekja ugg á meðal alls hugsandi fólk og jafnvel þeirra, sem öllu jafnan er andsnúið Bandaríkjunum. Ég á þó alveg eins von á að sömu Íslendingar og vilja ekki senda Paul Ramses til Kenýa vegna ástandsins þar, fagni nú að Rússum og Kínverjum hafi ekki tekist að beita harðstjórann og lýðskrumarann Mugabe refsiaðgerðum í Simbabve. Það virðist vera sumum vinstrimönnum meira virði að komið sé höggi á Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra, en að réttlæti í heiminum nái fram að ganga. Ég segi þetta án þess að vera einhver sérstakur aðdáandi George W. Bush og félaga hans.

Það er í sjálfu sér skiljanlegt að í ljósi sögunnar sé alræðisstjórnin í Kína á móti því að öryggisráðið beiti Simbabve refsiaðgerðum. En hvað eru Rússar að hugsa með þessu? Það læðist óneitanlega sá grunur að manni, að allar þær ásakanir á hendur Rússa, að grunnt sé á lýðræðinu þar í landi, séu því miður hárréttar. Eins hefur maður áhyggjur að hinn nýi olíustyrkur Rússa verði notaður til að ná aftur fyrri völdum í heiminum. Þetta er óneitanlega óþægileg tilfinning.


mbl.is Stjórnvöld í Simbabve fagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kratarnir á móti stóriðju í Straumsvík og Helguvík?

Mér finnst auðsjáanlegt að kratarnir eru í raun mótfallnir álverinu í Helguvík, stækkun álversins í Straumsvík og hugsanlega einnig á móti álverinu á Bakka. Ingibjörg Sólrún var þó svo heiðarleg að lýsa þessu yfir, en hver afstaða Össurar er hefur verið svolítið málum blendið, eins og reyndar svo margt hjá Samfylkingunni varðandi stóriðjuáform og fleiri mál.

Það er auðsjáanlegt, að Ingibjörg og Össur eru aftur komin í sama leikinn og fyrir síðust kosningar, þ.e.a.s. að bíða eftir því að stemmingin í þjóðfélaginu snúist stóriðjunni í hag og þá ætla þau að koma fram og segjast í raun hafa allan tímann stutt stækkun álversins í Straumsvík, byggingu álvers í Helguvík og á Bakka.

Því miður er þetta ekki svona einfalt, þegar maður er í ríkisstjórn. Þá er ekki hægt að fela sig og segja ekki neitt og koma svo fram þegar almenningur er búinn að breyta um skoðun og segjast allan tímann hafa verið sömu skoðunar og fólkið. Þetta virkar ótrúverðugt og "fólk er ekki fífl". Samfylkingin verður að ákveða í hvorn fótinn hún vill stíga í þessum málum.

Í þessum málum eru Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn með algjörlega skýra stefnu, en allir þessir þrír flokkar styðja stóriðjuna á þessum þremur stöðum, auk þess sem þeir hafa verið jákvæðir gagnvart öðrum iðnaði í Þorlákshöfn og í Helguvík.

Vinstri Grænir eru hins vegar enn staðfastlega á móti allri stóriðju, á móti öllum virkjunum, á móti öllum iðnaði, á móti öllum fiskveiðum, á móti öllum hvalveiðum,  alltaf á móti ...

Þessa skoðun er auðvelt að skilja og ég virði og umber þeirra skoðun - allavega á meðan þeir eru ekki í ríkisstjórn.  Þeir vilja jú þetta "eitthvað annað", sem ég veit nú ekki alveg hvað er, en samt þeir eru þó með "það" á dagskránni.

Hvað vilja kratarnir, þar sem þeir eru sennilega á móti stóriðju og virkjunum og vilja heldur ekki auka veiðiheimildirnar? Þeir vilja ekki endilega heldur þetta "eitthvað annað", heldur ... ?

Á hverjum andskotanum eigum við að lifa hér á hjara veraldar?


mbl.is Össur skammar Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert stefnir fréttaflutningur Morgunblaðsins?

Ég ætla ekki að hafa þetta langan pistil og veit ekki hvort ég er svona forpokaður og gamaldags. Ég er líklega eins og aðrir að stundum les ég eitthvað slúður þegar ég hef virkilega ekkert annað að gera.

 Það sem mér hins vegar blöskrar er hversu fréttaflutningi og málfari Morgunblaðsins hefur farið aftur á undanförnum árum. Fyrr á tímum var vandaðan fréttaflutning og fréttaskýringar að finna í Morgunblaðinu og mátti að mörgu leyti líkja því við stóru dagblöðin úti í heimi, þótt þeir hafi auðvitað ekki haft úr jafnmiklum fjármunum að spila og þau.

Núna er blaðið ekki svipur hjá sjón og mér er óljúft að viðurkenna að stundum er Fréttablaðið virkilega bitastæðara, þótt það sé auðvitað undantekningin og ekki reglan. Ég er áskrifandi að blaðinu og ég verð að segja að sú tilraun, sem gerð hefur verið að poppa blaðið upp hefur að mínu mati mistekist. Þarna á ég ekki við útlitsbreytingarnar, sem mér finnst vera ágætar, heldur innihaldið. Mér finnst blaðið vera að reyna að höfða meira til yngri lesenda og þá sennilega til að fá þá í hóp lesenda sinna. Með þessu eru eldri lesendur vanræktir og þeir eru áskrifendur blaðsins. Ég leyfi mér að efast um að yngri kynslóðin sé að lesa þessar "fólk í fréttum" síður og blaðagreinar um einhverjar "underground" hljómsveitir og hvað það nú allt saman er, sem ratar í Morgunblaðið þessa dagana.

Af ofangreindum ástæðum og í sparnaðarskyni er ég að hugsa um að segja blaðinu upp og láta ókeypis vefútgáfuna og Fréttablaðið nægja.


mbl.is Gengið frá skilnaði Brinkley
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn leggist undir feld líkt og Þorgeir forðum

 

Ég held að Íslendingar verði að taka afstöðu til máls Paul Ramses út frá hjartalagi sínu frekar en skynsemi. Ég segi þetta af því að þetta er orðið að máli fjölmiðla og að máli fólksins. Fólkið ræður á endanum en ekki ráðherra eða stofnanir. Ef fólkið vill taka þessi hjón og barn þeirra að sér - sem við höfum svo sem enga fullvissu um, þótt nokkrir tugir manna hafi mótmælt fyrir utan dóms- og kirkjumálaráðuneytið - á fólkið að ráða ferðinni.

Líkt og svo oft í svona málum, þá gefst því miður ekki alltaf tími til að kanna afstöðu almennings eða fulltrúa þess til málsins. Við kjósum alþingismenn ekki einungis til að setja almennar reglur um öll mál og til að geta breytt þeim reglum eða skýrt þær reglur.  Nei, við viljum einnig að alþingismenn ræði mál líðandi stundar og á þann hátt sýnt ráðherra, hvaða skoðanir Alþingi - vilji fólksins - hefur varðandi þau mál, sem eru til umfjöllunar að hverju sinni í þjóðfélaginu

Segjum sem svo að ákvörðun verði tekin í dómsmálaráðuneytinu um að Paul Ramses eigi að snú aftur til Íslands og að hann eigi jafnframt að hljóta hér pólitískt hæli. Síðan komi síðar í ljós að ákvörðunin var hugsanlega röng, þar sem aðrir flóttamenn noti þessa aðferð til að komast til landsins. Þá er bara að grípa til viðeigandi ráðstafana, t.d. með lagabreytingu og/eða breyttri stjórnsýsluframkvæmd. Ég sé ekki að neinn skaði sé skeður, þótt mannúðarákvæði laganna séu nýtt í þetta skipti.

Þeir sem setja lögin vita að af og til gerast svona hlutir, þ.e.a.s. að gera þarf undantekningar út frá meginreglunni, og einmitt þess vegna eru lagaákvæði  á borð við mannúðarákvæði sett í lög. Framkvæmd slíkra lagaákvæða er falin framkvæmdavaldinu, sem eftir bestu samvisku og samkvæmt lögum, stjórnarskrá landsins og alþjóðlegum skuldbindingum, tekur málefnalega ákvörðun. Lögin og túlkun þeirra eiga því að mínu mati ekki að vera köld og ópersónuleg, heldur að taka tillit til aðstæðna, málsbóta og skoðunar þjóðfélagsins á lagaákvæðunum.

Mannúðarsjónarmið er mjög teygjanlegt hugtak og er því ekki tilvalið tækifæri til að nota slíkar heimildir í lögum þegar mál eru auðsjáanlega svona umdeild í þjóðfélaginu og snerta svona marga Íslendinga?


mbl.is Kæra vegna Paul Ramses hefur ekki borist ráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir fyrir Suðurnesjamenn

Það er gaman að sjá hversu mikill kraftur er í okkur Suðurnesjamönnum þessa dagana, en auðvitað lítum við á fyrirtækið Geysi Green Energy sem okkar fyrirtæki og á hluthafana sem Val-Reyknesinga. Ég er viss um að fyrirtækið Geysir Green  Energy verður ásamt þekkingarþorpinu okkar og netþjónabúinu upp á gamla varnarsvæðinu, Hitaveitu Suðurnesja, starfseminni á Keflavíkurflugvelli og álverinu okkar, sem er að rísa í Helguvík, mikilvægustu fyrirtæki framtíðarinnar á Reykjanesi. Reykjanesið er gott dæmi um stað þar sem allar atvinnugreinar eru metnar að verðleikum, hvort sem um er að ræða fiskveiðar og fiskvinnslu (Grindavík), þekkingariðnaðinn (Gamla varnarsvæðið), græna orku (Hitaveitu Suðurnesja og Geysir Green Energy), ferðaiðnaðinn (Keflavíkurflugvöll og hótelin í Keflavík, Víkingasafnið og önnur söfn á Reykjanesi) og síðast en ekki síst hið nýja álver í Helguvík. Þetta er mín framtíðarsýn fyrir Ísland: fjölbreytt atvinnulíf, sem byggir á mörgum stoðum og þar sem allir landsmenn finna kröftum sínum viðnám.

Það var vel til fundið að hafa fundinn í Duus húsum og einnig var gaman að sjá okkar frábæra bæjarstjóra, Árna Sigfússon, í þeim góða manna hópi, sem þarna höfðu safnast saman. Það er mér sönn ánægja að bjóða þann mikla andans mann, Ólaf Jóhann Ólafsson, velkominn á Suðurnesin. Ég kynntist Ólafi aðeins í gegnum systkynabarn minn, óperusöngvarann Kolbein Jón Ketilsson, og ég verð að segja að ljúfari, skemmtilegri og gáfaðri mann er ekki hægt að hugsa sér. Ef Ólafur gæti hugsað sér að flytja heim til Íslands, gæti ég hugsað mér hann sem næsta forseta lýðveldisins. Þar hefðum við verðugan fulltrúa Íslands á Bessastöðum, sem allir stjórnmálaflokkar og allir landsmenn gætu sameinast um.


mbl.is Eigið fé Geysis Green aukið um fimm milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friedman fram á haust, en dustum svo rykið af Keynes

Ég er ekki hagfræðingur, en sé þó ekki betur en að stefna stjórnvalda sé hálfgerð "Laissez-faire" (afskiptaleysisstefna) að hætti Friedmans. Svo sem skiljanlegt er, virðist þetta fara afskaplega mikið í taugarnar á þjóðinni. Þjóðin kýs jú ríkisstjórn til að taka á hlutunum þegar svona ástand skapast. Hugsanlega vita þessir ágætu menn hvað þeir eru að gera og ætla að láta markaðinn laga það sem aflaga fór, enda var það markaðurinn sem orsakaði þetta ástand. Fórnarlömbin - íbúar Íslands og allrar heimsbyggðarinnar - eiga víst að halda kjafti og taka þessu eins og hverju hundsbiti. Mér finnst stjórnmálamenn heimsins vera að taka stóra áhættu með þessum hugsunarhætti. Hætta er á að gamlar öfgastefnur fái byr undir báða vængi og að sú mikla uppsveifla, sem átt hefur sér stað í Austu-Evrópu og Asíu, fái bakslag við þessar aðstæður, sem hefði mjög slæmar afleiðingar í þeim heimshlutum.

Fyrir þremur áratugum las ég sem Verslingur af mikilli áfergju allar helstu bókmenntir frjálshyggjunnar. Sennilega var um einhverskonar "foreldrauppreisn" eða "fjölskylduuppreisn" að ræða, þar sem flestir í minni fjölskyldu voru hreinir og klárir kommar eða að minnsta frekar vinstrisinnað fólk. Skoðanir mínar hafa aðeins breyst, þótt enn sé ég maður markaðslausna þegar þær eiga við. Það er þó mín skoðun að með haustinu ættu menn nú að fara að dusta rykið að kenningum Keynes - og þá ekki einungis hér á landi - og fara í einhverjar aðgerðir á vegum hins opinbera til að allt stoppi ekki hérna á skerinu.

Tilvalið væri að fara í eitthvað skynsamlegt samfélagslegt verkefni fyrir framtíðina. Ég hef áður bent á að tilvalið væri að fara framkvæmdir tengdar samgöngum, t.d. léttalestakerfi á höfuðborgarsvæðinu og til Reykjanesbæjar/Keflavíkurflugvallar. Með því að ganga strax af krafti til verks væri hægt að slá þrjár flugur í einu höggi: Slá á kreppuna sem allir segja að komi í haust, beina sjónum fólks frá "kreppunni" í átt að einhverju jákvæðu og þörfu verkefni og leggja okkar af mörkum í baráttunni við hitnandi heim.


Fjöldi ríkisstofnana í fjárhagsvandræðum

Auðsjáanlegt er að fjöldi ríkisstofnana hefur verið í fjárhagsvandræðum á þessu ári. Skemmst er að minnast fjárhagsvandræða hjá lögreglustjóranum í Reykjavík og lögreglu- og tollstjóranum á Suðurnesjum, en einnig vandræða undanfarin ár hjá Landspítala-háskólasjúkrahús og víðar.

Íbúar í Reykjanesbær voru um 11.000 árið 2004 en eru nú um 14.000. Íbúum í öðrum bæjarfélögum á Suðurnesjum hefur einnig fjölgað mikið: Grindavík 2760, Sandgerði 1723, Garður 1451, Vogar 1225 (tölur frá 1. desember 2007). Ekki er ólíklegt að íbúafjöldi Suðurnesja sé nú í kringum 22.000 manns.

Það væri hreint út sagt ótrúleg niðurstaða ef ekki væri talin ástæða til að halda úti næturvakt á heilsugæslunni  fyrir okkur íbúa Suðurnesja. Mér finnst það satt best að segja óásættanlegt að verða að aka alla leið til Reykjavíkur til að leita fara til læknis eftir kl.16.00 á daginn!


mbl.is Óviðunandi mismunun segir bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarslit, held ekki ...

 

Ég held að allir skynsamir menn, hvort sem þeir eru í Samfylkingunni eða Sjálfstæðisflokknum, sjái að við þurfum ekki á stjórnarslitum að halda ofan í það ástand í efnahagsmálum, sem er hér og annarsstaðar í heiminum í dag.

Ég er vissulega þeirrar skoðunar, að meira hefði verið hægt að gera á undanförnum vikum og mánuðum, en það snýr nú meira að því að róa ástandið og tala við almenning, líkt og Guðmundur  Magnússon lýsti svo vel í pistli sínum nýlega.

Spurningin er fyrst og fremst, hvað hægt sé að gera og hvort gott sé að gera eitthvað yfirleitt eins og sakir standa? Við sjáum að viðskiptahallinn er farinn að rétta sig af, framkvæmdir í Helguvík eru að fara af stað og jákvæðar fréttir heyrast að norðan frá Bakka. Stóraukinn útflutningur á áli, og virkjunar- og álversframkvæmdir á þessu og næsta ári, munu hafa góð áhrif á atvinnuástandið og viðskiptahallann. Aðrar útflutningsatvinnugreinar munu græða á veikingu krónunnar, þótt þess muni fyrst gæta hjá ferðaiðnaðinum á næsta ári. Nú er bara að reyna að halda atvinnuvegunum - og þó sérstaklega byggingariðnaðinum - gangandi næsta árið og þá erum við komin í góð mál aftur. Mér fundust niðurskurðarhugmyndir í ríkisfjármálum, því ekki réttu skilaboðin til atvinnulífsins og þjóðarinnar allrar. Ég held að við ættum að reyna að vera róleg, sparsöm og dugleg og ekki láta ótta og vonleysi ná tökum á okkur. Þessum skilaboðum þarf að hamra inn í þjóðina og erlenda viðmælendur viðstöðulaust. Þetta kunni Davíð Oddsson svo afskaplega vel.

Samfylkingin færi ekki vel út úr því að slíta stjórnarsamstarfinu einmitt  núna, það er held ég algjör misskilningur. Í stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna yrðu VG að setja framkvæmdabann á Helguvík og Bakka og hvað væri þá framundan í efnahagsmálum?

Í Samfylkingunni er uppistaðan ekki "draumórafólk" líkt og hjá VG. Auðvitað fyrirfinnst slíkt fólk innan flokksins -Mörður og Þórunn o.fl. - en flestir eru eins og Ingibjörg, Össur og Björgvin. Þetta fólk er búið að vera lengi í stjórnmálum og veit að svona gerast kjörin ekki á eyrinni.

Ef Samfylkingin vill láta taka sig alvarlega, sem stór stjórntækan miðjuflokk - líkur sósíaldemókrataísku flokkunum á Norðurlöndum - þarf hún að standa sig vel í ríkisstjórn og standa þessa krísu af sér. Að öðrum kosti er trúverðugleikinn farinn! Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir næstu kosningar, sem munu snúast um ESB aðild. Til þess að ná því markmiði sínu að koma landinu inn í ESB, þarf Samfylkingin annaðhvort að snú Sjálfstæðisflokknum í afstöðu sinni eða snú 10-15% sjálfstæðismanna til þess að kjósa Samfylkinguna - þótt það væri ekki nema í einum kosningum til að koma landinu inn í ESB. Hægri kratar innan Sjálfstæðisflokksins myndu aldrei styðja Samfylkinguna eftir vinstristjórn, heldur flykkja sér í kringum sinn gamla flokk. Sjálfstæðismenn, sem upplifað hafa góða og "stabíla" ríkisstjórn með frjálslyndum og umbótasinnuðum "sósíaldemókrötum", eru líklegri til þess að snú baki við flokknum í einum kosningum, af því að þeir eru ekki sáttir við stefnu flokksins í Evrópumálum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband