Sjálfstæðisflokksbundið viðrini í stjórnmálum

 

Mér finnst flokkslínurnar stundum alveg með ólíkindum!

Hvernig getur það verið "vinstrisinnað" viðhorf að vera á móti mislægum gatnamótum og vilja flugvöllinn í burtu úr Vatnsmýrinni?

Hvernig getur það verið "hægrisinnað" viðhorf að elska mislæg gatnamót og mega ekki með nokkru móti heyra að flugvöllurinn verði fluttur úr Vatnsmýrinni?

Sama máli gegnir að sjálfsögðu um umhverfismál, landbúnaðarmál, fiskveiðistjórnunarkerfið, stóriðju og jafnvel Evrópusambandsaðild!

Ég finn það nú samt þegar ég vakna á morgnana að hjartað hjá mér slær aðeins meira til hægri en vinstri, en í málunum sem að framan greinir er ég með skoðanir eins og mér hentar.

Ég er kommi þegar kemur að flugvellinum í Vatnsmýrinni - vill hann burtu - og einnig varðandi aðildarviðræður að ESB auk þess sem ég vil stórauka almenningssamgöngur m.a. með léttlestakerfi; blanda af framsóknarmanni og samfylkingarmanni þegar kemur að íslenskum landbúnaði, því ég vil stórauka innflutning á landbúnaðarafurðum, en samt hafa áfram landbúnað á Íslandi; elska mislæg gatnamót og er því sjálfstæðismaður í þeim efnum, sem og varðandi umhverfismál og stóriðju; frjálslyndur varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið, því aldrei hef ég verið neitt sérstaklega hrifinn af kvótakerfinu.

Ég er sem sagt sjálfstæðisflokksbundið viðrini í stjórnmálum og er eitthvað að því?


Sjálfstæðismenn með sjálfstæða hugsun - Bjarni Ben og Illugi Gunnars

Það tók mig nokkurn tíma að melta þá frétt að tveir þingmenn, Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, hafi komið fram á þann hátt, sem þeir gerðu í dag og gagnrýnt stefnu ríkisstjórnarinnar, Seðlabankann og þar með okkar gamla formann Davíð Oddsson.

Þetta var djarfmannlegt og tek ég ofan fyrir þeim fyrir að hafa gert þetta, því þessu höfum við sjálfstæðismenn því miður ekki átt að venjast undanfarna áratugi. Loksins eru komnir fram ungir sjálfstæðismenn, sem þora að taka afstöðu og þora að segja sannleikann. Slíkir menn eru til forystu fallnir, en ekki þeir sem eru viljalausir málafylgjumenn annarra á þingi svo árum eða áratugum skiptir. Að ekki sé talað um copy/paste þingmennina, sem ekki hefur verið hægt að þverfóta fyrir á þingi síðustu árin. Nei, við þurfum þor og ferska nýja hugsun í Sjálfstæðisflokknum og hér virðist eitthvað slíkt vera að fæðast. Við þurfum að hrista af okkur klafa fortíðarinnar og endurnýja hina klassísku sýn hægri manna í landinu. Það þýðir ekki að koma fram áratug eftir áratug með sömu stefnumálin, sem flest öll eru hvort eð er komin í framkvæmd.

Fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins mættu hafa manndóm í sér til að gera slíkt hið sama, t.d. þegar málefni eru rædd, sem varða þeirra kjördæmi miklu. Það sem við Reyknesingar höfum mátt sjá er að okkar þingmenn taka gagnrýnislaust við öllum þeim þvættingi, sem ráðherrar henda í þá,  án þess svo mikið sem að líta á það eða reyna að hafa á þeim hlutum sjálfstæða skoðun. Þetta aflar nýjum þingmönnum flokksins í kjördæminu ekki mikils trúverðugleika, það eitt er víst.

Þannig hefur lítið orðið úr því að eitthvað af þeim miklu peningum hafi skilað sér, sem hálfpartinn var lofað á Reykjanesið eftir að herinn fór. Ef ekki væri fyrir dugnað Árna Sigfússonar, og síðan auðvitað Norðurálsmanna sjálfra, væri ekki verið að taka grunninn fyrir nýju álveri í Helguvík þessa dagana. Ég hef allavega ekki haft á tilfinningunni að þingmenn kjördæmisins hafi komið mikið þar að verki nema með því að taka skóflustungu. Sömu sögu hefur verið að segja í mörgum öðrum þjóðþrifamálum á Suðurnesjum. Það er skömm frá því að segja að síðan að Hjálmar Árnason fór af þingi eiga Reyknesingar engan þingmann, engan öflunga málsvara lengur á Alþingi, nema ef vera skyldi Grétar Mar. Þingmenn Suðurlands og Vestmanneyja sýna Reykjanesinu því miður lítinn sem engan áhuga nema rétt fyrir kosningar, þrátt fyrir að Reyknesingar séu um 22.000 og 47% íbúa kjördæmisins.

Sumir munu eflaust halda því fram að flokksaginn sé nú fyrir bí, en ég held að það sé ekki rétt. Reyndar líkar mér afspyrnuilla við þetta orð, flokksagi. Þingmenn eru einungis bundnir af sannfæringu sinni, sbr. 48. gr. stjórnarskrárinnar, og því á agi afskaplega illa við þegar talað er um þingmenn.Það þýðir ekki að þingmenn séu að snú bakinu við flokknum sínum, þótt þeir séu ósammála í stöku máli eða ósammála um leiðir að lausnum í sumum málum. Ef þingmenn eru hins vegar ósammála um markmið þurfa forystumenn flokkanna að fara að hafa áhyggjur. Það er ekki svo í þessu máli. 


MBL.IS - slök fréttamennska

Þessi frétt er mjög gott dæmi um slök vinnubrögð á Morgunblaðinu og ástæðan fyrir því að ég sagði blaðinu upp:

 

 

Er ástæðan meðal annars rakin til hækkandi hráefnis- og orkukostnaðar og lækkunar á álverði, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

 

 

Í frétt blaðsins er sagt að minni hagnað Norsk Hydro megi m.a. rekja til að álverð hafi fallið. Þetta vakti vakti grunsemdir mínar um að ekki væri allt með felldu varðandi fréttina, því eins og allir vita - nema blaðamenn Morgunblaðsins - hefur verð á áli og öðrum málmum snarhækkað að undanförnu.

 

Því fór ég inn á netútgáfu dagsins í dag á "The International Herald Tribune", sem er alþjóðleg útgáfa af "The New York Times" (sem sagt þokkalega góð heimild) og kynnti mér málin þar. Ég fór einnig á heimasíðu Norsk Hydro og staðreyndi fréttina þar. Fréttirnar voru á báðum netmiðlum í meginatriðum áþekkar:

 

 

Hydro, which had issued a profit warning earlier this month, citing cost increases, blamed the drop on the weakening U.S. dollar and higher input costs in the aluminum industry. It said the higher costs more than offset the positive effect of higher aluminum prices.

 

Skáletrun, undirstrikun og feitletrun í tilvitnunum frá höfundi pistils).

Það verður að gera kröfur til þess að skoðanir fréttamanna á stóriðju á Íslandi liti ekki fréttaflutning fjölmiðla og þeir falsi ekki fréttir á þennan hátt. Þetta hefur því miður verið allt of algengt á undanförnum árum, þ.e. að umhverfissinnar hafi hreinlega látið skoðanir sínar lita fréttir. Besta dæmið voru auðvitað þættir Ómars Ragnarssonar fyrir nokkrum árum, en dæmin eru því miður mýmörg.

Ennfremur eru dæmi um að starfsmenn ríkisins hafi hagrætt staðreyndum, sbr. hagfræðing hagstofunnar, sem hélt því fram í fjölmiðlum um daginn að stóriðjan í landinu skildi ekkert annað eftir í landinu en þau laun sem starfsmenn fengju greidd. Samtök Iðnaðarins leiðréttu þá frétt daginn eftir.


mbl.is Hagnaður Norsk Hydro 87% minni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausn VG er að hætta atvinnuuppbyggingu í landinu

Það er ótrúlegt að forystumenn VG krefjist þess að þingið komi saman til að ræða málin. Einu tillögurnar, sem hafa komið frá þeim bænum síðastliðna mánuði, er að helst ætti að hætta við alla atvinnuuppbyggingu í stóriðju og virkjanaframkvæmdir.

Slíkrar uppbyggingar var oft þörf, en nú er hennar hreinlega nauðsyn. Ef ekki verður blásið krafti í þá uppbyggingu strax í dag, stefnir í mun harðari lendingu í efnahagslífi þjóðarinnar enn annars verður.

Ég veit svo sannarlega ekki hvað þingið getur gert við núverandi aðstæður. Það er ríkisstjórnin, sem verður að bregðast við og ég á von á að bæði hún og Seðlabankinn sitji ekki aðgerðalaus þessa dagana.

Það sem við örugglega ekki þurfum í dag er einhver leikþáttur á Alþingi, þar sem stjórnarandstaðan málar skrattann á veginn. Nú gildir að halda ró sinni og reyna að finna lausnir. 


mbl.is Vilja að Alþingi verði kallað saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir er glúrinn

Það var skynsamleg ákvörðun hjá Geir að ráða Tryggva Þór Herbertsson hagfræðing til ráðgjafar næstu sex mánuði. Tryggvi er ljónvelgefinn og jarðbundinn maður og sýndi það og sannaði sem forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Ég gruna Geir um að lúra á fleiri og stærri útspilum þegar líður á sumarið.

Útgáfa reglugerðar, sem heimilar Íbúðalánasjóði að endurfjármagna húsnæðislán fjármálafyrirtækja, er  mikilvægt skref í átt til að koma í veg fyrir óróa á fasteignamarkaði.

Annað skref kom einnig í ljós í dag, en það var að í undirbúningi er lagafrumvarp um að Íbúðalánasjóður fái heimild til að fjármagna og kaupa ný íbúðalán af fjármálafyrirtækjum, sem mun einnig hjálpa mikið.

Það sem við megum síst við í augnablikinu er verðhrun á fasteignum, sem hefði ekki aðeins hræðilegar afleiðingar fyrir stóran hluta þjóðarinnar, sem skipt hefur um húsnæði undanfarin ár, heldur gengi endanlega frá byggingariðnaðinum í landinu.

Án efa er unnið af krafti hjá Seðlabankanum við leit að láni erlendis, sem er á ásættanlegum kjörum.

Þótt margir óski sér meiri viðbragða frá ríkisstjórninni er ljóst að í svona ástandi er það mikilvægasta að fara ekki á taugum og gera eitthvað vanhugsað. Ástandið breytist frá degi til dags og því erfitt að segja til um hvaða bragðs eigi að grípa næstu vikur og mánuði.

Ég er því sammála þeim, sem segja að lausnin á erfiðleikum dagsins í dag er ekki aðild að ESB eða upptaka evru. Þennan slag verðum við að taka sjálf og á okkar forsendum.

Hins vegar er rétt að skoða ESB aðild og upptöku evru þegar umræðan snýr að framtíðinni.

 


mbl.is Geir fær efnahagsráðgjafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótt að segja það, en ...

Ég efast ekki um að þessar tölur eru hárréttar. Það er ömurlegt til þess að hugsa hversu íslenska þjóðin er gjörsamlega veruleikafirrt og spillt af góðæri. Þessi skammsýni hverfur með haustinu eða um leið og atvinnuleysið fer yfir 10%. Vinir mínir í VG munu segja mig vera með hræðsluáróður, en það er ekki rétt, ég er raunsær.

Einkennilegt af VG að segja 66% (2/3) vera lítinn stuðning við stóriðjuframkvæmdir, eða eins og þeir orða það að "umtalsverð andstaða eða efasemdir heimamanna á Suðurnesjum" sé fyrir hendi. Er 1/3 meira en eða jafnt og 2/3?

Skrítin tölfræði þetta: 66% (fylgjandi) versus 22% (á móti) er lítill munur, en 41,6% (á móti) og 36% (fylgjandi) er mikill munur.

Síðan segir VG: "Enn og aftur kemur í ljós að góður meirihluti landsmanna styður baráttu Vinstrihreyfingarinnar" og þá erum við að tala um að 41,6% séu andvíg álveri í Helguvík og 36% hlynnt, en 22,4% tóku ekki afstöðu í könnuninni.

Það að fréttamenn MBL lepji þessa vitleysu upp sýnir að Mogginn er andsnúinn stóriðju og stundar ekki hlutlausa og gagnrýna fréttamennsku, frekar en aðrir fjölmiðlar. Sem betur fer er þó Ómar kominn af launaskrá ríkisins, sem sérlegur almannatengslafulltrúi umhverfissinna.

Já, sé miðað við þessa stærðfræðikunnáttu er gott að forsvarsmenn VG eru ekki verkfræðingar að byggja brú!


mbl.is Fleiri á móti en með álveri í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með eða móti ESB - "Five Easy Lessons"

Inngangur 

Þetta er langur pistill og sennilega nennir enginn að lesa hann. Það skiptir ekki öllu, því ég þarf bara að koma þessu frá mér. Allt sem fram kemur hef ég pikkað upp einhversstaðar á blogginu og því ekki um mínar skoðanir að ræða

Sumum finnst pistillinn eflaust "naive" (barnalegur, einfaldur), en hvað með það, ég læt þetta flakka, því svona kemur mér Erópuumræðan fyrir sjónir á báða bóga:

Þrír aðalflokkar ástæða fyrir að vera utan ESB

Þetta voru þau rök, sem mig minnir að fram hafi komið gegn aðild og voru þau þrískipt:

  1. Við töpum sjálfstæðinu/fullveldinu
  2. Efnahagslífið og peningamálin
  3. Óáran og holskefla þjóðfélagslegra og félagslegra vandamála, sem dynja á Íslendingum í kjölfar aðildar að ESB

I. - Fullveldi/sjálfstæði

Við skulum byrja á vandamálum, sem snúa að því að tapa "fullveldi/sjálfstæði" landsins:

  • Jón Sigurðsson snýr sér við í gröfinni

Önnur rök en tilfinningaleg - sem ég ætla ekki að gera lítið úr - komu ekki fram.

Ég spyr á móti: Hafa öll  27 aðildarríki ESB gefið frá sér fullveldið/sjálfstæðið?

II. - Efnahags- og peningamál

Nú snúum við okkur að vandamálum er snúa að efnahags- og peningamálum í kjölfar upptöku evru:

Hin frábæra króna

  • Við töpum hinni "frábæru"krónu, sem hefur mikið tilfinningalegt gildi og sálfræðilega þýðingu fyrir þjóðarsálina í okkur. Þetta er nefnilega mynt sem við "identifiserum" okkur með djúpt í iðrum þjóðarsálarinnar (finn fyrir þessu þjóðarstolti á hverju degi þegar ég handfjatla þennan gjaldmiðil, sem hefur fallið um 30% á nokkrum mánuðum)
  • Krónan er frábært hagstjórnunartæki (þetta vita allir Íslendingar í dag)
  • Krónan hefur þann eiginleika að geta fallið um 30-40% og það er að mati ESB andstæðinga mikill kostur í hagstjórn (Þekkt staðreynd - það er svo gaman þegar innfluttar vöru hækka, auðskiljanleg rök)

Gengisfall er af hinu góða

  • Við gengisfallið verða allar erlendar vörur svo dýrar að við getum ekki keypt þær lengur, við það lagast viðskiptahallinn (hann lagast fljótt og vel eins við höfum þegar séð - að auki er frábært þegar maður hefur ekki efni á að fara til útlands eða kaupa innflutta vöru og bílalánið hækkað um 30-40% á nokkrum vikum)

Verðbólga og minni kaupmáttur laga hlutina

  • Þegar verðbólgan hefur geisað í 1-2 ár - þetta 10-15% verðbólga á ári - þá hefur kaupmáttur launa dregist saman um 25-30% og það er kostur (bara augljós rök og maður gleðst ósegjanlega yfir kaupmáttarmissinum - Þá erum við komin með svipaðan kaupmátt og á Spáni - alltaf dreymt um að komast á spænsk laun og íslenskt verðlag - þvílíkur draumur í dós)
  • Þá lagast verðbólgan, því við eigum ekki lengur fyrir mat, húsnæðislánum eða bílalánum og eyðum þar af leiðandi engu ("nostalgían" blossar upp - blankheitin á námsárunum, æðislegir tímar)
  • Þá verða allir að selja húsið og bílinn eða sitja á skuldum, sem eru hærri en bílinn og húsið (enn meiri "nostalgía - maður er bara kominn í misgengis "eighties" fíling)
  • Við gætum ekki verið með okkar bullandi hagvöxt og þenslu upp á 8-9%, sem setur allt á annan endann hjá okkur (þessi tilfinning þegar við erum að sigra heiminn - "can´t beat that feeling!")

III. - Óáran, félagsleg vandamál í kjölfar ESB aðildar

Þensla/kreppa er rammíslensk - stöðugleiki "alla" ESB er eitthvað útlenskt, sem ber að forðast

  • Við gætum ekki verið með kreppu í kjölfar þenslunnar (í kreppum er yndisleg samstaða í þjóðfélaginu - allir skítblankir og maður plantar kartöflum, borðar núðlur og kaupir nautakjöt beint frá bóndanum - finnst ég vera sex ára og síldin horfin, allir til Svíþjóðar!)
  • Í kreppunni verður alltaf neikvæður hagvöxtur á Íslandi (enn meiri kreppa, gaman, gaman!)
  •  Þetta er gert til að ná þenslunni niður í 2-4%, sem er talinn "ideal" hagvöxtur meðal allra siðmenntaðra þjóða (auðvitað þarf að koma þessu niður í eðlegan hagvöxt sem tíðkast annarsstaðar)
  • Þetta þenslu/kreppu ástand er æðislegt, það er rammíslenskt - jaðrar við að vera framsóknar-þjóðlegt - og því mjög ákjósanlegt (það hafa alltaf skipst á kreppu- og þensluskeið á Íslandi og þetta er náttúrulögmál, sem ástæðulaust er að breyta)
  • Að vera með 2-4 jafnan hagvöxt er útlenskt og hræðilega hættulegt rammíslenskri þjóðarsál, sem þrífst á spennunni, sem fylgir þenslu/kreppu ástandinu (ég vil ekki útlenskan hugsunarhátt - reyndar kominn í smá "konflikt", er ekki samkvæmur sjálfum mér, en hvað með það - ef Seðlabankinn getur verið ósamkvæmur sjálfum sér og viljað 2-4% hagvöxt - sambærilegan ESB hagvexti - en vill samt ekki evru eða ESB get ég það líka)

Þensla/kreppa er fjölskylduvæn stefna  og stuðlar að því að búa til "ofurviðskiptamenn"

  • Það er frábært að vera Íslendingur, vinna í 2-3 ár í 70 tíma á viku á meðan á þenslunni stendur og vera síðan atvinnulaus í kreppunni næstu 2-3 ár og vinna ekki neitt (sjá ekki fjölskylduna í 2-3 ár og vera síðan heima atvinnulaus í 2-3 ár og ná þá að tengja aftur - frábært, eitthvað svo íslenskt og æðislegt!)
  • Þetta þensla/kreppa er auðvitað þjóðhagslega hagkvæmt, því þá fara skussarnir á hausinn (það þarf að hreinsa til í þjóðfélaginu af og til, svona höfum við búið til algjöra snillinga í rekstri og yfirtekið heiminn - dæmi: Marel, Heimsferðir o.fl. - fólk lærir á að fara á hausinn og skipta um kennitölur - lærir reyndar "the hard way" en svona erum við Íslendingar nú einu sinni ...)

Það er reyndar sannleikskorn í öllum rökum, sem er talin upp hér að framan. Og flest eiga þessi atriði við um nær öll ríki Evrópu. ESB og ríki Evrópu eru í "djúpum" skít og þurfa að taka sig saman í andlitinu og staðreynd er að eiginlega öll ríki Evrópu eru fátækari en við.

En löndin eru samt gjörólík. Hvað er t.d. líkt með efnahagsmálum eða löggjöf Svíþjóðar og Portúgal eða Tékklands og Hollands eða Lúxemborgar og Póllands. Þrátt fyrir að ég þekki ekki löggjöf allra þessara ríkja eða efnahagsmál til hlítar, veit ég að ESB ríkin eru aðeins með sameiginlega löggjöf að hluta til, þótt þeim málaflokkum fjölgi stöðugt. Ég veit einnig að mikið svigrúm er fyrir aðildarríkin til að setja sína eigin löggjöf til viðbótar og hafa þannig áhrif á gang mála innan sinna landamæra. Þjóðþingin eru ekki gjörsamlega valdalaus og ofurseld Brussel valdinu, líkt og margir hér vilja halda fram. Ég veit einnig að ekki er allt gott, sem kemur frá Brussel og að aðildinni fylgja ekki bara kostir. En er allt gott hjá okkur sjálfum og fylgja því ekki einnig gallar að vera ekki innan ESB?

Það sem ég þó get ekki séð fyrir mér er að allar þessar Grýlusögur ESB andstæðinga - sem eru taldar upp hér að neðan - séu sannar. Mér finnst lygarnar og ýkjurnar jafnslæmar, hvort sem þær koma frá fylgjendum eða andstæðingum ESB aðildar:

Barneignir og ellilífeyrisþegar

  • Innan ESB fæðast engin börn (Íslendingar vilja eignast börn og helst áður en þeir eru búnir í námi, síðan er best að basla í nokkur ár og sjá helst ekki börnin fyrr en um fermingu eða jafnvel þegar þau eru gift - síðan erum við bara góð við barnabörnin í staðinn)
  • Íslendingar verða annaðhvort steingeldir eða hætta eignast börn daginn eftir inngöngu í ESB (kemur einhver frá ESB og vanar alla Íslendinga eða er hugsanlega um einhvern ESB faraldur eða sótt að ræða, sem veldur þessu?)
  • Meðalaldur hér á landi hækkar um 10-15 ár daginn eftir að við göngum í ESB (hefur ESB yfir tímavél að ráða?)
  • ESB er hálfgert gamalmennahæli (Við höfum ekkert gamalt fólk af því að við puðum fram á grafarbakkann og erum því alltaf ung)
  • Vegna gamalmennanna og skorts á börnum eru lífeyriskerfi ESB á hausnum, þar sem enginn er til að borga í sjóðina. Hér er nóg af ungu fólki hér til að borga í sjóðina og það þarf að borga fyrir gamalmenn í ESB. (Þeir þjóðnýta íslensku lífeyrissjóðina um leið og við förum inn í ESB og sama myndi gerast með norska olíusjóðinn - líklegt?)
  • Við verðum þvinguð af ESB til að gefa lífeyriskerfið upp á bátinn (verðum við neydd til að gefa þeim innistæðuna í lífeyrissjóðunum og bannað að spara í lífeyrissjóði?)

Atvinnuleysi eykst

  • Við verðum neydd til að taka upp vinnulöggjöf, sem aðeins sumar ESB þjóðir hafa, og önnur ESB ríki eru að reyna að losa um breyta (órökrétt, ef þjóðirnar með slæmu löggjöfina eru að reyna að laga hana í átt að okkar og við verðum að breyta henni í átt til þess, sem hún var hjá þeim!)
  • Hér skellur á krónískt 10-15% atvinnuleysi yfir nótt (kemur ESB löggan og lokar fyrirtækjum hér og bannar fólki að vinna og setja upp fyrirtæki?)
  • Sambandið er með 10% atvinnuleysi vegna of hárra skatta of hárra atvinnuleysisbóta og of góðs félagslegs kerfis (gerist ekki hér, allavega ekki fyrr en í haust og þá er það íslenskt atvinnuleysi og kreppa en ekki ESB atvinnuleysi vegna stöðugleika, þarna er auðvitað gjörsamlega ólíku saman að jafna - annars vegar þjóðleg íslensk kreppa og hins vegar útlensk kreppa)
  • Sambandið er með úrelta vinnulöggjöf (við viljum geta rekið alla án ástæðu og ráðið son okkar eða frænda í staðinn - gamla ættarsamfélagið og svona réttlæti skilja Evrópubúar ekki)

Frumkvæði minnkar, skattar hækka og allir fara á félagslega kerfið

  • Frumkvæði Íslendinga og dugnaður minnkar (verða allir Íslendingar settir á geðlyf og geldir andlega af yfirlæknum ESB?)
  • Við verðum þvingaðir til að hækka skatta (það hefur aldrei tekist að ná samkomulagi um eina sameiginlega skattastefnu innan ESB, þótt sumar þjóðir vilji það - ákveður ESB að taka upp sameiginlega skattastefnu af því að við göngum í sambandið? - höfum við svona mikil áhrif?)
  • Við verðum þvingaðir til að taka upp félagslegt kerfi að hætti Dana og Svía, sem eru ekki til staðar í nema örfáum ríkja ESB (hvað með meirihluta ríkja ESB, sem eru með lélegra félagslegt kerfi en við, verða þau einnig að taka upp skandinavíska félagslega kerfið?)
  • Íslendingar verða húðlatir og fara allir á "sósíalinn" og mergsjúga félagslega kerfið (verður gerð á okkur heilaaðgerð eða hvernig á að breyta okkur á þennan hátt?)
  • Sambandið er með mikið hærri skatt en við (aðeins Danmörk er með hærra virðisaukaskattsstig en við - 25% - samt tekst þeim að vera með 25% lægra matvöruverð en við og þessu tökum við eins og hverju öðru hundsbiti)
  • allt of stórt félagslegt kerfi er innan ESB, sem tugir atvinnulausra evrópskra letingja mergsygju (þolum ekki leti - eru virkilega svona góð kerfi í austurhluta Evrópu eða í Portúgal, Spáni, Ítalíu og Grikklandi? Held ekki)

Útlendingamál 

  • Við yrðum neyddir til að hleypa inn fleiri útlendingum en við höfum gert (erum þegar ekki þegar hluti af sameiginlegum vinnumarkaði í gegnum EES og hafa útlendingar ekki þegar "flætt" inn í landið að okkar ósk?)
  • Sambandið hefur tekið upp á arma sína 100 milljónir þurfalinga í austurhluta Evrópu (erum á móti fátækum útlendingum - viljum ekki hjálpa þjóðum til sjálfshjálpar, jafnvel þótt þetta verði síðar öflugir markaðir fyrir okkar vörur)
  • Fleiri þurfalingar eru á leiðinni inn í ESB - Tyrklandi og Úkraína (viljum ekki samskipti við heiðingja og "wannabe" Evrópubúa, sem eru í raun Rússar!)

IV. - Niðurstaða

Ég hef ekki ákveðið mig enn, en það þarf að finna betri rök en þetta til að sannfæra mig. Og það gildir einnig um Samtök Iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Samtök stórkaupmanna og 60% þjóðarinnar - það er ljóst!


Fólki fækkar þar sem stóriðjan er ekki

Það er hreint með ólíkindum hvað Andra Snæ og Björk gengur illa að kenna þessu fólki á Norðurlandi eystra og á Vestfjörðum þetta "eitthvað annað", sem leysir öll vandamál. Á tíu árum frá 1996 - 2006 hefur fólkið fækkað á þessum stöðum um 15%.

Á meðan fjölgar fólki annarsstaðar á landinu, þar sem nóga vinnu er að fá. Gaman væri að sjá þróunina í kringum uppbygginguna í Hvalfirðinum á þessu sama tímabili og á Austfjörðum og bera það saman við Norðausturland og Vestfirði.

Það sem er verst er að þetta öfgaumhverfisfólk tekur engum rökum og þylur einungis upp sömu vitleysuna og það hefur gert undanfarin ár.


mbl.is Viðvarandi fólksfækkun í 22 sveitarfélögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð hugmynd - ef mögulegt?

Ég átti satt best að segja ekki von á þessu frá Birni. Ég verð þó að segja að þetta er sú lausn sem mér hugnast best og mest sátt væri um. Ég minnist hins vegar umræðunnar fyrir 2-3 árum, þegar Valgerður Sverrisdóttir, sem þá var utanríkisráðherra, kom fram með þessa hugmynd.

Þá fullyrtu allir sem einn - sjálfstæðismenn sem samfylkingarfólk - að þetta væri ekki mögulegt. Nú sendum við Björn til Brussel að semja.


mbl.is Evruleið fremur en aðildarleið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúrverndarsinnar, herandstæðingar og aðrir sértrúarhópar

Hverjir eruð þið "náttúruverndarsinnar" að dæma þá, sem vilja nýta landsins gagn og gæði líkt og fyrri kynslóðir Íslendinga gerðu? Hvernig getið þið fullyrt að við elskum ekki landið okkar og náttúru þess?

Hvað með hann móðurafa minn, Skúla Jóhannesson, í Laxárdal í Dölum vestra, sem braut landið sitt og virkjaði bæjarlækinn? Elskaði hann ekki landið sitt, þótt hann hafi reynt að auka gæði þess sjálfum sér, fjölskyldunni og landinu öllu til góða. Hvað með hana ömmu mína blessunina, Lilju Kristjánsdóttir, sem stóð honum við hlið og hjálpaði honum í lífsbaráttunni, sem oft var hörð og miskunnarlaus. Það var mikið um dýrðir að Dönustöðum í Dölum, þegar fyrsta vatnið fór í gegnum litlu rafstöðina og rafmagnsljósið tindraði.

Hvað með föðurafa minn, Jens Hallgrímsson, sem var sjómaður og réri til fiskjar til að hafa ofan í sig og sína. Hvað með ömmu mína, Sigríði Ólafsdóttur, sem þvoði þvotta fyrir aðra í hitaveituvatninu í laugunum í Reykjavík, til að peningar væru til fyrir mjólk. Það var mikil umbreyting, þegar rafmagnsframleiðsla hófst í Reykjavík árið 1921 og fjölskyldur í Reykjavík fengu rafmagn. Það hefði verið dimmt í skammdeginu hjá afa og ömmu og börnum þeirra í Vogi á Baugsveginum í Skerjafirði hefði hin forljóta stífla og uppstöðulón í Elliðaárdalnum ekki verið byggð.

Allt var þetta fólk aðeins að nýta sér gæði landsins síns. Hver var að gera það á sinn hátt og allt elskaði þetta fólk landið sitt. Eðli málsins samkvæmt var það sennilega bundið landinu sterkari böndum en við, því það barðist við náttúruöflin og þurfti að hafa meira fyrir því landið gæfi það af sér, sem duga átti til lífsviðurværis á hverjum degi. Það var ekki alltaf fólkið, sem hafði betur í bardaganum við landið og náttúruöflin og líkt og aðrar fjölskyldur varð mín fjölskylda fyrir barðinu á því. Á þessum tíma voru Íslendingar ekki að velta því fyrir sér hvort Íslendingum myndi finnast  virkjunin í Elliðaárdalnum falleg eða ljót á því herrans ári 2008. Nei, þetta fólk var of upptekið við brauðstritið til að hafa áhyggjur af því.

Núna eru, sem betur fer, aðrir tímar, en sama fólk byggir þó í raun landið. Önnur tækni og tækifæri hafa komið til sögunnar til að nýta landsins gæði og auðvitað grípum við þau. Eins gerir náttúruvernd aðrar kröfur, t.d. varðandi umhverfismat o.s.frv., og það er einungis af hinu góða. Tíminn stöðvast ekki og áfram munum við líkt og forfeðurnir verða að nýta gæði landsins til að geta lifað af hér á hjara veraldar. Líkt og Norðmenn og Danir pumpa upp olíunni notum við okkar auðlindir. Líkt og Danir hafa fellt nær allan skóg og brotið nær allt landið til ræktunar, bæði til eigin nota og til útflutnings, líkt og Bretar, þjóðverjar og Frakkar hafa mokað upp kolum og brennt og notað í stálbræðslur í langan tíma.

Það eru hins vegar "handhafar hins eina endanlega sannleika", sem vekja mér áhyggjur og þarna á ég að sjálfsögðu við þá sjálfskipuðu "umhverfisverndaröfgasinna", sem mikið hefur borið á undanfarin ár. Mér finnst málflutningur þessa fólks einkennast af vissu yfirlæti eða skynhelgi. Já, ég vil segja "umhverfishelgislepju" og þar gengur "yfirgúrúinn", Björk Guðmundsdóttur fremst í flokki

Einhvernvegin hef ég á tilfinningunni, að þessu fólki þyki það vera betra fólk en við hin  - raunsæisfólkið, sem vill nýta gæði landsins til að halda þessu skeri gangandi næstu árin og áratugina. Svo sterkur hefur áróðurinn verið - enda flestir blaðamenn leigupennar þessa fólks - að hálf þjóðin trúir orðið þessari vitleysu og vill auðvitað ekki vera í "lúsera" liðinu, sem vill virkjanir og álver. Nei, það er "hip" og "kúl" í dag á Íslandi að vera á móti atvinnuuppbyggingu. Hin firrta þjóð, sem í langan tíma hefur upplifað einstakt góðæri og ekkert atvinnuleysi, hefur verið heilaþvegin og veit auðvitað ekki betur, henni er vorkunn. Annarsstaðar í Evrópu og stendur fólk fyrir framan álver og önnur atvinnufyrirtæki og mótmælir lokun þeirra harðlega, veit sem er hversu mikilvægt það er að hafa góða og vel launaða vinnu. Annarsstaðar í heiminum, þar sem hungrið sverfur að, fagnar fólk því þegar verksmiðjan opnar í þeirra bæjarfélagi.

Umhverfisverndarsinnar haga sér þó hvað flest varðar litlu skár en við hin. Til þess að hressa upp á slæma samvisku sína, standa þeir fyrir einhverskonar "hópsyndaaflausnum". Þannig safnast þetta fólk saman reglulega:hlustar á rokktónleika, mótmælir eða festir ykkur upp í mastur einhversstaðar á hálendinu. Við þessar helgiathafnir skilur það yfirleitt illa við, sbr. þau reiðarinnar býsn af áldósum og plastflöskum sem þurft að hreinsa í burtu eftir stórtónleika Bjarkar.

Líkt og aðrir sértrúarhópar þarf þessi að hafa leiðtoga og af einskærri hógværð og lítillæti hefur Björk Guðmundsdóttir tekið það hlutverk að sér. Og líkt og með flest önnur trúarbrögð þarf að vera heili eða fræðimaður á bak við bókstafstrúna, en þar á ég að sjálfsögðu við Andra Snæ Magnason. Andri skrifaði niður hina heilögu ritningu Umhverfisverndarsinna, Draumalandið, sem vitnað er í á hátíðlegum trúarstundum. Almannatengslafulltrúi eða áróðursmeistari, sem lengi vel var "sponseraður" af ríkinu og hafði ótakmarkaðan aðgang til að koma áróðri á framfæri hjá RÚV, hefur lengi verið til staðar. Honum hentaði þó betur að vera dulbúinn til að byrja með, en að lokum kom hann út úr skápnum eftir að hafa afneitað trúnni nokkrum sinnum opinberlega. Sjónvarpsþættirnir hjá Ómari voru svo frábærir að eini samanburðurinn er við Leni Riefenstahl. Bernharður Guðmundsson og eftirmenn hans hjá Þjóðkirkjunni komast aldrei með tærnar, þar sem Ómar Ragnarsson og hans fylgismenn eru með hælana í þessum efnum. Ég kann ekki við að nefna þann óróðursmeistara á nafn, sem mér dettur helst í hug, svo langt geng ég ekki.

Á milli trúarsamkoma - þar sem hópsefjunin fer fram - þeysist "yfirgúrúinn" heimshornanna á milli á útspýjandi og mengandi þotum og þá sennilega ekki í sjálfboðavinnu? Hún fullyrðir allavega að það sé hægt að græða jafnmikið á poppi og á álverum. Það er ekki græðginni eða mikilmennskubrjálæðinu að fara fyrir á þeim bænum, heldur hógværðinni og lítillætinu.

Þessi "öfgaumhverfistrúarbragðastefna, sem tröllríður öllu í dag varðandi umhverfismálin - og þá er ég ekki að tala um þá auknu almennu umhverfisvitund, sem vaknað hefur á undanförnum árum og er nauðsynleg og af hinu góða, heldur firringuna - minnir mig óneitanlega á gömlu herstöðvarandstæðingana, sem voru einnig þeirra tíma góða samviska Íslands. Herandstæðingar sjá aldrei neina hættu neins staðar. Þeir segjast trúa á það góða í manninum. Sagan segir okkur ekki er heillavænlegt að trúa einungis á hið góða og nægir að minna samskipti Neville Chamberlain og Adolfs Hitlers í því sambandi.

Herstöðvarandstæðingarnir fengu líka svona "hópsyndaaflausn", þegar þau mótmæltu fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna eða þegar þeir marseruðu til Keflavíkurflugvallar. Það er alltaf viss hluti af fólki, sem heldur að það sé hin góða samviska heimsins og viti allt betur en allir aðrir. Það skrýtna er að þessi hópur lítur svipað út, nema í stað Hekluúlpunnar er það núna komið með Palestínuklút, en "holningin" er sú sama.

Síðan höfum við hinn öfgahópinn, sem situr í Bandaríkjunum og marserar í bláum jakkafötum og með fallegt bindi annaðhvort í kirkju á hverjum sunnudegi og biður fyrir syndugum, eða þrammar í herbúningum inn í Víetnam, Kóreu, Kúpu og í seinni tíð inn í Afganistan og Írak. Það einkennilega er að þessir hópar þola ekki hvorn annan- þrátt fyrir að vera mjög líkir - fyrir utan klæðaburðinn að sjálfsögðu.

Þetta minnir mig einnig á gömlu kommúnistana, sem voru alltaf að tala um að frelsa fólk undan okinu. Framkvæmd stefnunnar varð að þessir sömu kommúnistar undirokuðu stóran hluta mannkyns um áratuga skeið - og gera reyndar enn í Kína. Sumir voru jafn trúir sinni stefnu í þessum efnum, þrátt fyrir fjöldamorð kommúnista á saklausu fólki í Sovétríkjunum, Kína og víðar og innrásir Sovétríkjanna í hvert ríkið á fætur öðru í Kalda stríðinu - 100 milljónir fórnarlamba.

Þetta minnir mig einnig á George W. Bush og innrásina inn í Írak (700.000 fórnarlömb), Joseph McCarthy og þær hræðilegu ofsóknir, sem hann stóð fyrir á sínum tíma, Adolf Hitler, Benito Mussolini og Seinni heimsstyrjöldina (50 milljónir fórnarlamba), Francisco Franco og ógnarstjórnina á Spáni og Augusto Pinchet og ógnarstjórnina í Chile (35.000 fórnarlömb), svo ekki sé hægt að saka mig um að nefna ekki báðar öfgarnar til hægri og vinstri.

Við erum öll samsek þegar kemur að umhverfissyndum og þurfum svo sannarlega að velta umhverfismálum fyrir okkur núna strax og í framtíðinni. Hluti af þessari breyttu hugsun er einmitt að nýta endurnýjanlega orku hér á landi til framleiðslu á áli. Annað skref væri t.d. að breyta samgöngum á Íslandi: léttlestakerfi, rafmagnsbílar o.s.frv.

Allar öfgastefnur eru jafn slæmar, hvort sem þær eru til hægri eða vinstri. Sama gildir auðvitað um umhverfismál, þjóðfélagsmál almennt (kapítalisma og kommúnisma) eða trúarbrögð (öfgar í kristni eða múslimatrú).

Meðalhófið er best.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband