Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Með ósk um stutt, farsælt og árangursríkt ríkisstjórnarsamstarf

ESB FANIÉg efast um að nokkur Íslendingur óski nýrri ríkisstjórn öðru en velfarnaðar í starfi. Aldrei á lýðveldistímanum hefur verið jafn mikilvægt og nú að starfhæf ríkisstjórn hefjist strax handa um endurreisn landsins og láti þar hendur standa fram úr ermum. Aldrei hefur ríkisstjórn þurft að takast á við jafn erfið verkefni og segja má að hún sé á sviðinni jörð. Ég er sammála Steingrími og Jóhönnu, að einungis með samstöðu allra stétta landsins náum við að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Nú verða atvinnurekendur og launþegar að snú bökum saman í þjóðarsátt, en ekki berast á banaspjótum. Ég er ósammála Steingrími J. Sigfússyni að ekkert liggi á aðildarviðræðum við ESB, en ég er sammála honum að hagur atvinnuveganna og heimilanna njóti algers forgangs. Umsóknaraðild að ESB er það sem gæti gefið þjóðinni von, von um betri tíma og blóm í haga, í náinni framtíð.

Það væri samt hræsni af mér ef ég segðist óska samstarfi þeirrar Jóhönnu og Steingríms langlífis, því það geri ég ekki. Í reynd hef ég ekki trú á að samstarfið eigi langt líf fyrir höndum og þeim takist ætlunarverk sitt. Það sem ég óttast enn meir, er að hvorugt þeirra hafi getu og þor til að taka á ríkisfjármálunum, eða búi yfir þeirri hugmyndafræði sem nauðsynleg er og grundvöllur til lausnar þeirra vandamála sem við berjumst við. Íslendingar munu brátt sjá að vinstri flokkarnir verða samir við sig og munu ganga ótakmarkaðri skipulagshyggju og ríkisforsjá á hönd og hverfa frá frjálsu efnahagskerfi í fjötra félagshyggjunnar. Það er ekki lausnin, frekar en óheft frelsi "Chicago skólans". Allar öfgastefnur, öll bókstafstrú er af hinu illa.

FALKI SJALFSTAEDISFLOKKSINSSjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann getur tekið við erfiðri stöðu og snúið henni okkur Íslendingum í vil. Núna þurfum við sjálfstæðismenn að sætta okkur við að sjálfstæðisstefnunni og okkar lausnum var hafnað. Meirihluti kjósenda treysti vinstri öflunum betur en okkur til að leysa vandamálin. Við verðum að eiga þetta við okkur sjálf, því við áttum þátt í því að klúðra málum á undanförnum árum. Það er næstum ekki hægt að álasa þjóðinni fyrir að hafa kosið til vinstri, svo illa stóðum við okkur. Núna er naflaskoðun, eða öllu heldur hreinsun framundan. Hreinsun á andrúmsloftinu innan flokksins verður aðeins með því að ræða málin hreinskilnislega. Hvert einasta sjálfstæðisfélag verður að taka þátt í orðræðunni og hún verður að vera stutt, heiðarleg og árangursrík. Innan flokksins þarf að gaumgæfa breytingar í Valhöll og breytingar á fyrirkomulag landsfundar; gamlar valdaklíkur verða að víkja; hagsmunagæsla fyrir einn atvinnuveg verður að víkja; virkja verður lýðræðið betur innan flokksins.

Þrátt fyrir þetta vona ég að þessari nýju ríkisstjórn endist líf a.m.k. í eitt ár. Hún láti hendur standa fram úr ermum, bæði varðandi aðgerðir í efnahagsmálum og ekki síður í aðildarviðræðum við ESB. Mikilvægt er að aðgerðir til bjargar heimilunum og atvinnuvegunum í landinu hefjist strax í fyrramálið á mánudegi 11. maí. Einnig er mikilvægt að aðildarviðræður við ESB hefjist í sumar og reynt verði að ljúka þeim á sem allra skemmstum tíma. Það er og vilji forsætisráðherra. Von mín og trú er að góðir samningar muni takast með ESB og Íslandi og aðild að ESB muni hjálpa okkur að komast fyrr út úr þeim erfiðleikum sem við stríðum við.


mbl.is Ákvörðun um ESB í höndum þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópuþingið - hvaða þingflokk munu íslensku flokkarnir velja?

EVRÓPUÞINGIÐÍ byrjun júní verða kosningar til Evrópuþingsins og er flokki Evrópskra hægrimanna í Evrópu (e. European People´s Party), spáð sigri. Alla tíð frá árinu 1979 hafa borgara ESB kosið 5 ára fresti til Evrópuþingsins í almennum, beinum, frjálsum og leynilegum kosningum. Evrópuþingið er eina yfirþjóðlega stofnunin (e. Supranational Institution) í heiminum, þar sem fulltrúar eru kosnir í lýðræðislegum kosningum, en kjósendur eru nú rétt um 500 milljónir manns frá 27 aðildarríkjum ESB. Á þinginu eru 736 þingsæti í boði, en ætlað er að stækka það í 750 þingsæti. Þingflokkarnir eru 7 talsins, auk þess sem nokkrir þingmenn eru utan þingflokka. Þingmennirnir eru meðlimir um 160 stjórnmálaflokka í þeirra heimalöndum.

195px-composition_of_the_european_parliament_svg.pngNúverandi skipting milli þingflokka:

Evrópski hægriflokkurinn (288)
Jafnaðarmenn (217)
Frjálslyndir (100)
Íhaldssamir þjóðernissinnar (44)
Græningjar (43)
Vinstriflokkurinn (41)
Evrópugagnrýnisflokkurinn (22)

 

Þar sem hvorki Framkvæmdastjórn eða Ráðherraráð ESB styðst við þingmeirihluta Evrópuþingsins – líkt og almennt gerist í löndum Evrópu sem búa við þingræði – fer ekki jafnmikið fyrir að “meirihlutinn” stjórni landinu og keyri mál í gegn með offorsi, líkt og virðist gerast hér á landi bæði hjá vinstri- og hægri stjórnum. Í stað þess að fylkingarnar á þinginu takist á af hörku, reyna andstæðar fylkingar að komast að samkomulagi um um mál. Því er þó við að bæta, að aðallega er átt við samkomulag tveggja stærstu fylkinganna, Hægri flokksins og Jafnaðarmanna.

Evrópa og nautiðÞar til árið 1999 var þingflokkur Jafnaðarmanna stærstur, en síðan þá hafa hægri menn verið fjölmennastir. Allar líkur eru á að það haldist næstu fimm árin, skv. frétt Morgunblaðsins. Enginn þingflokkur hefur náð hreinum meirihluta, en um óformlegt samstarf er að ræða meðal Hægriflokksins og Jafnaðarmanna og deila þeir til skiptis forsetastóli þingsins. Þrátt fyrir að þingflokkar afgreiði málin eftir sannfæringu sinni, er það svo að ekkert mál fer í gegnum Evrópuþingið öðruvísi en að tveir stærstu þingflokkarnir hafi náð um það einhverju málamiðlunarsamkomulagi.

Nú spyr maður sig hvaða þingflokk Sjálfstæðisflokkurinn ætli að setjast í þegar og ef á Evrópuþingið er komið: Hægriflokkinn, Frjálslynda, Íhaldssama þjóðernissinna eða Evrópugagnrýnisflokkinn?

Hvort gamli bændaflokkurinn – Framsóknarflokkurinn – finni sig meðal Frjálslynda flokksins er síðan stór spurning, en ef hann gerir það, þá hefur gjörsamlega slitið tengslin við sínar gömlu rætur?

Ekki síður er ég spenntur að sjá hvort VG muni tilheyra Græningjum eða Vinstriflokknum á Evrópuþinginu? 


mbl.is Hægrimönnum spáð sigri í kosningum í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valhöll: vaknið og hafið þor til að viðurkenna vilja grasrótarinnar

VALHOLLÉg veit að það er ekki til siðs hjá forystu allra flokka að hlusta á grasrótina í flokkum sínum. Davíð Oddsson gekk t.d. svo langt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1996 að fullyrða að hlustaði maður um of á grasrótina myndu eyrun fyllast af ormum. Þótt Geir H. Haarde hafi hlustað aðeins meira á grasrótina - kallaði t.d. saman miðstjórn af og til - passaði hann vel upp á eyrun sín og hélt því að mestu sama verklagi og Davíð. Nú verðum við bíða og sjá hvað Bjarni Benediktsson gerir, en persónulega finnst mér að hann gæti hlustað meira á núverandi flokksmenn og síðan auðvitað á þá flokksmenn sem hugsanlega eru á leiðinni burtu að ógleymdum fyrrverandi sjálfstæðismönnum. 

Mér sýnist forusta allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins hafa áttað sig á því fyrir kosningar að vilji þjóðarinnar stefndi til stuðnings við aðildarviðræður. Vandamál Sjálfstæðisflokksins í vetur var að gömul og valdaþreytt klíka réði flokknum og hún var algjörlega andsnúin ESB og reyndar öllum breytingum og hafði heilaþvegið flokksmenn í 20 ár. Nýir og sprækir menn höfðu loksins losað sig undan galdri Davíðs og félaga og séð að það skynsamlegasta var að sækja um aðild og meira að segja ýjað að því í blöðunum í óþökk flokksforustunnar. Á síðustu stundu tókst afturhaldsöflunum með klækjum að ná yfir landsfundi flokksins og koma í veg fyrir allar breytingar. Ný forusta hafði ekki einu sinni verið kosin á landsfundi þegar málið bar á góma og gat hún því ekki hjálpað flokknum úr þeim ógöngum sem hann var kominn í.

EU FANINú er tækifærið komið fyrir nýja forystu að taka af skarið, sýna framsýni og þor og leiða flokkinn og stýra honum á ábyrgan hátt. Forustan á að byrja að móta nýjar áherslur, án þess að vera sífellt að horfa í baksýnisspegilinn til að sjá hvað Davíð, Geir eða Björn hefðu gert í sömu stöðu. Þeir eru hættir í stjórnmálum og þeirra skoðun skiptir í dag engu máli. Við viljum ekki stengjabrúður, heldur alvöru fólk af holdi og blóði og með skoðanir. Forustan verður að viðurkenna að fullkomlega eðlilegt er að þingið taki ákvörðun um aðildarviðræður, leyfa síðan þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að kjósa eftir eigin sannfæringu en ekki eftir landsfundarsamþykkt. Við megum ekki gleyma að sjálfstæðismenn voru og eru ekki einhuga í þessu máli - líkt og skoðanakannanir hafa alltaf sýnt fram á. Því ekkert óeðlilegt að þingmenn séu ekki heldur sammála í málinu.

Afleiðingar þess ef þingflokkur Sjálstæðisflokksins leggst gegn ESB aðild geta verið slæmar. Lengst af vorum við sjálfstæðismenn með 36 % fylgi. Í síðustu kosningum snéri 1/3 kjósenda bakinu við okkur og því eru við í 24% fylgi núna. Af þessum 24%, vilja 4 sjálfstæðismenn af hverjum 10 viðræður við ESB, 5 eru andvígir og einn er ekki alveg viss. Þetta þýðir í raun að 10 % af þessum 24 % vilja viðræður, 12 % eru andsnúnir viðræðum og 2 % vita ekki sitt rjúkandi ráð. Hvað gera þessi 10 % og 2 % ef forusta flokksins tekur einarða afstöðu gegn ESB aðildarviðræðum?

BJARNI & ILLUGIÉg er þess fullviss að muni þingflokkurinn kjósa sem einn maður gegn aðildarviðræðum, verður nýr hægri flokkur stofnaður. Það er mikil eftirspurn eftir slíkum flokki meðal kjósenda, því hann hefur úr fylgi 12% ónægðra sjálfstæðismanna að moða, sem snéru baki við flokknum í síðustu kosningum, síðan þessum 10 % sem enn eru í flokknum en vilja aðildarviðræður, að ógleymdum ónægðum hægri krötum innan Samfylkingar og framsóknarmönnum, sem kusu þann flokk eingöngu vegna þess að hann var "skásti" kosturinn. Slíkur flokkur ætti því hæglega að komast í 25% fylgi, meðan Sjálfstæðisflokkurinn lækkaði niður í 12 - 14% fylgi. Hinn möguleikinn er að slíkt fólk flykkist yfir til Framsóknarflokksins og hreinlega yfirtaki hann. Framsóknarflokkurinn hefur verið að breytast í frjálslyndan miðjuflokk með stefnu sem höfðar til marga líkt og síðustu kosningar sýndu.

Nú er tími til kominn að vekja Þyrnirós í Valhöll! Maður spyr sig einungis, hvort prinsinn hefur kraft í sér til að brjótast í gegnum þyrnana í kringum höllina og síðan þor til að kyssa Þyrnirós? 


mbl.is 61,2% vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hraðleið til Brussel í aðildarviðræður - kosningar að ári

euflagge-fahne-europampsams74355.jpgÉg sé ekki annað en að við séum á hraðleið til Brussel í næsta mánuði. Ef rétt er haldið á málum gætu niðurstöður legið fyrir næsta vetur, en þá yrði líklega kosið aftur á næsta ári. Ég efast heldur ekki um að Samfylkingin hefur nú þegar eytt miklum tíma í undirbúning aðildarviðræðna innan Utanríkisráðuneytisins og í reynd verið með málið í forgangi undanfarna mánuði.

Allir þingmenn Samfylkingar (20 þingmenn) eru yfirlýstir stuðningsmenn ESB aðildarviðræðna auk þess sem þetta mál var aðalkosningamál flokksins. Þótt Framsóknarflokkurinn (9 þingmenn) hafi sett aðild mjög ströng skilyrði, samþykkti landsfundur flokksins fyrir sitt leyti að gengið skyldi til viðræðna sem allra fyrst. Tvö af aðal kosningamálum Borgarahreyfingarinnar (4 þingmenn) voru að 7% þjóðarinnar ættu að geta óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu og að bera skuli alla samninga sem framselja vald undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég sé því ekki annað en að þeir hljóti að vera ánægðir ef farið er til viðræðna og niðurstaðan síðan borin undir þjóðaratkvæði. Samkvæmt minni talningu er því mjög líklegt að 33 þingmenn greiði atkvæði með því að haldið verði til Brussel í aðildarviðræður.

grote_markt.jpgÞeir sem eru andsnúnir ESB aðildarviðræðum eru 16 þingmenn Sjálfstæðisflokks og 14 þingmenn VG. Reyndar er alveg eins líklegt að einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiði atkvæði með aðildarviðræðum, þ.e.a.s. ef þeir greiða atkvæði í samræmi við sannfæringu sína. Einnig er ekki útilokað að einhver þingmaður VG greiði atkvæði með viðræðum, þótt það sé ólíklegra. Ég sé því ekki að fleiri en 30 þingmenn geti greitt atkvæði gegn aðildarviðræðum.

Ég efast heldur ekki um að Samfylkingin hafi kannað afstöðu Borgarahreyfingarinnar og Framsóknarflokksins til þessa máls áður en hún gekk frá því við VG. Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson og fleiri innan Samfylkingar voru ekki að byrja í stjórnmálum í gær! 


mbl.is Gæti orðið stutt kjörtímabil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðildarviðræður strax - evru sem fyrst


Íslenska peningamálastefnan


sedlabankastjorarnir.jpgÞað var í byrjun árs 2001 að ný lög voru sett um Seðlabanka Íslands og hvernig gengi krónunnar skyldi skráð. Ákveðið var að gengið yrði fljótandi og markmið Seðlabankans gengju fyrst og fremst út á að verðstöðugleiki væri tryggður. Í þessu felst í rauninni að vaxtahækkanir eða –lækkanir gengju frekar út á stýra gengi krónunnar en að stýra útlánum bankanna líkt og áður.

Landsins forni fjandi

Undanfarin ár hefur Seðlabanki Íslands háð mikla orrustu við landsins forna fjanda, verðbólguna. Þessa verðbólu má að stóru leyti rekja til alþjóðlegrar „útlánabólu”, sem byrjaði árið 2004. Þessi útlánabóla olli mikilli hækkun á hlutabréfum og húsnæði og það um allan heim. Segja má að allur heimurinn hafi alla tíð síðan verið á eyðslu- og fjárfestingarfylleríi. Græðgin tók völdin hjá bönkunum og fjárfestum, sem högnuðust mikið á fylleríinu og þá ekki síður hjá fjárfestum, hvort sem um einstaklinga, eftirlaunasjóði eða fyrirtæki var að ræða. 

Timburmennirnir

hafdiskolbeinsey.jpgTimburmennirnir voru slæmir. Verð hlutabréfa hrundi og verð á húsnæði mun líklega standa í stað eða lækka eitthvað, bæði hér á landi og annarsstaðar. Allskyns eftiráskýringar hafa komið á hlutunum og S.Í. verið gagnrýndur fyrir að hækkað ekki stýrivexti strax árið 2004. Eins hefði ríkisstjórnin getað dregið úr þenslu með minni framkvæmdum og með því að stíga á bremsuna varðandi vöxt velferðar- og menntakerfisins. Hægt hefði verið krefjast þess að bankarnir hægðu á útlánum og jafnvel að koma á bindiskyldu peningamagns. Þá hefði verið hægt að reyna að láta krónuna falla til draga aðeins úr viðskiptahallanum. Ekkert af þessu var gert og það var af því að enginn sá ástæðu til þess.

Stöðugleiki fyrir fyrirtæki og heimili

Það er oft gaman að kíkja á gömul gögn, sem maður sankaði að sér í „góðærinu”, og skoða þau nú í „hallærinu”. Í ársskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands árið 2005, sem bar nafnið: Fyrirkomulag gengismála á Íslandi – Horft til framtíðar, var farið ítarlega í peningamálastefnu Íslendinga og hvort horfið skyldi frá núverandi stefnu um fljótandi gengi. Ég man að ég las þessa skýrslu með hangandi hendi, enda hafði maður lítinn áhuga á breytingum í miðju góðærinu árið 2006. Fyrir tilviljun fann ég síðan í kvöld á netinu glærur sem Tryggvi Þór Herbertsson sýndi á morgunfundi FÍS 6. apríl 2006, þar mun hann hafa kynnt fyrrgreinda skýrslu þeirra Gylfa. Í skýrslunni var líkt og á undanförnum mánuðum verið velta upp nokkrum kostum til lausnar á peningamálum okkar: óbreytt ástandi (fljótandi gengi), myntráð, einhliða fastgengi (líkt og hér tíðkaðist fyrir 2001), einhliða upptaka evru, binda gengið fast við aðra mynt og að lokum myntbandalag, t.d. með því að ganga í ESB og taka upp evru. Flestir sem um málið hafa fjallað af einhverju viti eru sammála um að einungis séu tveir raunhæfir kostir í stöðunni: a) núverandi peningastefna, þ.e.a.s. sjálfstæð peningamálastefna og fljótandi gengi og b) að ganga í ESB og taka upp myntsamstarf með evrunni. Í fyrrgreindri skýrslu varð niðurstaðan sú að styðjast ætti áfram við núverandi fyrirkomulag, þ.e. fljótandi gengi.

Er krónan vandamálið eða lausnin?

kronur2.jpgMenn deila nú sem aldrei áður um svörin við tveimur þeirra mikilvægu spurninga, sem Tryggvi Þór Herbertsson og Gylfi Magnússon spurðu sig í fyrrgreindri skýrslu. Önnur spurningin er hvort sjálfstæð peningastefna sé ekki einmitt lausnin við áfalli líku og við urðum fyrir í október 2008. Ljóst er að mánuðum saman hefur viðskiptajöfnuður okkar verið hagstæður og það hjálpar okkur mjög hratt og örugglega varðandi aðlögum hagkerfisins að nýju jafnvægi. Einnig er ljóst að útflutningsgreinarnar standa sterkari nú þegar tekjur þeirra í krónum hafa aukist, þrátt fyrir að dýrari aðföng og hærri erlend lán geri þeim erfitt fyrir. Hin spurningin er hvort sjálfstæð peningamálastefna sé ekki í raun – að hluta til a.m.k. - uppspretta þess mikla vanda sem við stríðum við?.

Breyttar forsendur – breytt stefna

Öll framþróun á sér þannig stað, að maður að endurskoðar gamlar niðurstöður út frá nýjum forsendum og kemst að nýrri niðurstöðu. Ég er einmitt þeirrar skoðunar að nýjar forsendur sýni okkur berlega að krónan sé vandamálið, að betra sé að kasta krónunni og hefja aðildarviðræður við ESB sem fyrst og taka síðan upp evru við fyrsta mögulega tækifæri. Ekki eru mér allir sammála og sumir vilja halda áfram að lemja hausnum við steininn og láta sem allt sé í besta lagi, að við getum haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Við getum ekkert gert frekar en aðrar smáþjóðir varðandi heimskreppuna, en peningamálastefnuna höfum við í eigin hendi.

Alexander mikli hjó á Gordons hnútinn

alexander.jpgÞað voru m.a. helstu rökin fyrir því að hverfa frá fastgengisstefnu og yfir til fljótandi gengis að þau lönd sem lentu í fjármálakreppum á undanförnum áratugum hefðu öll fylgt fastgengisstefnu og verið með sjálfstæðan gjaldmiðil. Þessi kenning hefur nú verið afsönnuð hér á Íslandi með hörmulegum afleiðingum. Vegna hás vaxtastigs hér á landi freistuðust heimili landsins og fyrirtæki til að skuldsetja sig í erlendum gjaldmiðlum og fjárfestu með þessum peningum í eignum hér á landi, aðallega fasteignum og bifreiðum. Skyndileg gengislækkun varð til þess að skuldir tvöfölduðust, en verðgildi eignanna hélst óbreytt eða fer lækkandi. Þessu til viðbótar hefur geisað hér á landi óðaverðbólga til lengri tíma, þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi sett sér markmið varðandi verðstöðugleika og gengi krónunnar. Þessi hluti núverandi peningamálastefnu hefur því heldur ekki sannað sig.

Hvernig er ástandið á Evrusvæðinu?

Auðvitað er ástandið innan ESB grafalvarlegt líkt og annarsstaðar í heiminum. Undanfarnir mánuði hafa þó sýnt okkur fram á að fjármálalegur stöðugleiki hefur verið meiri á evrusvæðinu en utan þess. Nægir að minna á ástandið hjá hjá okkur Íslendingum og í austurhluta Evrópu þessu til staðfestingar. Þessar þjóðir eru ekki aðeins að glíma við kreppuna, heldur einnig handónýta peningamálastefnu, sem birtist m.a. í óðaverðbólgu og gengishruni. Skuldabyrði heimila og fyrirtækja hefur aukist vegna gengishruns í öllum þessum löndum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir skuldunauta og lánadrottna. Þetta gengur í raun þvert á spár Tryggva og Gylfa í skýrslunni frá 2005, sem höfðu meiri trú á flotgengisstefnunni en evrunni við erfiðar aðstæður.

Peningamálastefnan gjaldþrota?

Flotgengisstefnan, sú stefna að halda beri gengi krónunnar stöðugu og koma þannig í veg fyrir verðbólgu, gekk auðsjáanlega ekki upp. Sú stefna að hafa ákveðið verðbólgumarkmið, sem ylli því að gengið breyttist sífellt gekk ekki heldur upp. Þeir fræðimenn (Tryggvi Þór og Gylfi) sem héldu því fram að hættan á verðbólgu og háu raungengi væri meiri í myntbandalagi í myntbandalagi verða að skýra mál sitt. Flotgengisstefnan varð að mínu mati að vítahring, sem erfitt reyndist að rjúfa: raungengið var árum saman allt of hátt, viðskiptajöfnuður þar af leiðandi óhagstæður; vextir allt of háir, sem leiddu til innflutnings á fjármagni; Íslendingar skuldsettu sig í ódýrum erlendum lánum og allt olli þetta gífurlegri þenslu, sem leiddi til mikilla tekna ríkissjóðs, sem bruðlaði enn meira og virkaði það sem olía á eldinn; að ógleymdri verðtryggingunni og vandamálum henni tengd. Líkt og ég áður sagði eru flestir hagfræðingar þeirrar skoðunar að um tvo kosti sé að ræða: flotgengisstefna Seðlabanka Íslands eða ESB aðild. Þar sem flotgengisstefna er að flestra mati mati í raun gjaldþrota er aðeins ESB aðild eftir. Stundum eru hlutirnir nefnilega mjög einfaldir.

Allir nema hrapparnir græða á evrunni

Viðskipti á evrusvæðinu eru í dag gegnsærri en þau áður voru og verðsamanburður á milli landa auðveldari. Samkeppni innanlands myndi aukast þegar til lengri tíma er litið, sem kæmi neytendum og fyrirtækjum til góða. Ekki er að efa að erlend fyrirtæki myndu renna hýru auga til Íslands þegar við værum komin með evruna, hvort heldur þau myndu brjótast til áhrifa á markaði hér eða kaupa sig inn á markaðinn. Þetta myndi gilda um banka- og tryggingastarfsemi jafnt og matvörumarkað. Sumir hafa bent á að Íslendingar muni loksins njóta kosta stærðarhagkvæmni, þar sem þeir eru orðnir hluti af stærri markaði. Að mati flestra útflytjenda yrði stöðugt gengi til þess að styðja við útflutningsgreinarnar.

Aukin alþjóðaviðskipti

Fáar en nokkur þjóð í heiminum hagnast líklega meira á alþjóðaviðskiptum með vörur, þjónustu og fjármagn og við Íslendingar. Það var fyrst með viðskiptum við útlönd að lífskjör okkar bötnuðu til muna. Árum saman höfum hlustaða á stór fyrirtæki á borð við Össur, Marel og CCP kvarta unda gengisflökti, sem eykur áhættu og kostnað í viðskiptum við útlönd. Leiða má líkur að því að sveiflur yrðu einnig minni í innflutningi en hingað til. Það muna flestir eftir því þegar dollarinn fór niður í 60 kr. og öll skip og jafnvel flugvélar voru fullar af bandarískum pallbílum. Til þessa hafa sumir fræðimenn talið að gengisflökt hafi ekki haft marktæk áhrif á útflutning og vísa þá jafna til fábreytni í útflutningi. Þetta er að mínu mati alrangt og minni ég t.d. á að mörg íslensk fyrirtæki hafa ekki treyst sér til að byggja sín fyrirtæki upp hér á landi vegna óstöðugs gengis. 

Money makes the world go around

imagesmoney-makes-the-world-go-around-small.jpgStaðreynd er – líkt og Tryggvi Þór og Gylfi bentu á – að evran hefur haft jákvæð áhrif á flæði fjármagns milli evrulandanna, m.a. vegna lægri viðskiptakostnaðar og samþættingar markaða. 

Í fyrrgreindum glærum Tryggvi Þórs Herbertsson bendir hann á kosti fljótandi gengis:

 

„... í sumum tilvikum ákveðið merki um styrka peningastjórn og geti ýtt undir óbeina erlenda fjárfestingu. Merki um þetta hafa sést undanfarið á Íslandi með skuldabréfaútgáfu erlendra aðila í krónum (Carry Trade) [innskot höfundar: jöklabréf]. Fjármögnun viðskiptahalla er alla jafna auðveld til skamms tíma litið en vandamál geta skapast ef fjármagnsflæði bregst eða minnkar verulega.


Í framhaldi af þessum orðum þeirra Gylfa og Tryggva bentu þeir á að ríki með sveigjanlegt gengi ættu auðveldara með að takast á við slíkar aðstæður en þjóðir sem fylgja fastgengisstefnu. Dæmi nú hver fyrir sig.

Áfram bendir Tryggvi Þór á að:

...innganga í myntbandalag með aðgengi að stærri og dýpri fjármálamarkaði en áður gæti hugsanlega skilað sér í aukinni erlendri fjárfestingu á Íslandi. Niðurstaðan er því sú að sennilega myndi aðild að myntbandalagi leiða til aukinna alþjóðaviðskipta og erlendrar fjárfestingar hérlendis.


Ósveigjanlegur vinnumarkaður

Gylfi og Tryggvi Þór bentu í skýrslu sinni á að margt benti til að laun séu ekki mjög sveigjanleg hér á landi því myndi minnkandi eftirspurn eftir vöru og þjónustu – líkt og er að gerast núna – frekar leiða til uppsagna starfsfólks en launalækkana ef við værum með fastgengisstefnu (evru) en fljótandi gengi. Ég leyfi mér að benda á að laun hafa verið lækkuð að undanförnu auk þess sem laun fólks hafa lækkað mikið vegna óðaverðbólgunnar undanfarið ár. Atvinnuleysi er að verða svipað hér á landi og í Evrópu. Rök Tryggva og Gylfa um að íslenskur vinnumarkaður sé ekki nægilega sveigjanlegur og því óráðlegt fyrir Ísland að afsala sér stjórn peningamála standast að mínu mati ekki sé miðað við þessar nýju forsendur.


Hagstjórn

Tryggvi og Gylfi benda á að með upptöku evru færðist ábyrgðin af hagstjórninni frá seðlabanka yfir á stjórnendur ríkisfjármála. Þeir benda á að séu seinvirkt stýritæki. Þeir efast jafnframt um að hagstjórnin geti byggst á fjármálastefnunni einni saman innan myntbandalags, þar sem uppgangur og niðursveiflur séu mismunandi innan evrusvæðisins auk þess sem þeir efuðust um „sveiflujafnandi áhrif” sameiginlegrar peningamálastefnu vegna ólíks miðlunarferlis peningamálastefnunnar. Einnig er bent á að ríkisvaldið gæti „lagt stjórnendum peningamála öflugt lið ef gjaldmiðill væri sjálfstæður og fylgt væri flotgengisstefnu.”

Niðurstaða

Ég geri ráð fyrir að þeir félagar, Tryggvi og Gylfi, hafi á sínum tíma komist að niðurstöðu sinni með vísindalegri nákvæmni, borið saman kosti og galla, sem leiddi síðan í ljós að núverandi stefna væri affarasælust fyrir okkur Íslendinga.

Ekki er ég hagfræðingur að mennt, en jafnvel aumum stjórnsýslufræðingi, óperusöngvara og tollverði er ljóst að forsendur hafa mikið breyst á 3-4 árum og sé litið til þessara sömu kosta og galla núna, 3. maí 2009, er ljóst að flestir plúsarnir eru ESB megin en færri „fljótandi gengis” megin.


mbl.is Ný ríkisstjórn um næstu helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjörður skyldi milli frænda og vík á milli vina

Úrslit kosninganna eru ljós og Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað illa. Auðvitað eru nokkrar ástæður fyrir þessu hruni og að mínu mati eru þessar helstar:

1. Refsing fyrir klúðrið undanfarin ár (2002-2008 – sjá skýrslu endurreisnarnefndar á 100 síðum)
2. Óhóflegir styrkir til flokksins og eins frambjóðanda á undanförnum árum
3. Léleg frammistaða í allan vetur hjá fyrrverandi formanni flokksins og forsætisráðherra, samráðherrum hans og alls þingflokksins 
4. Tengsl nokkurra forystumanna flokksins við peningastofnanir í aðdraganda hrunsins og á eftir hrunið
5. Allt of lítil endurnýjun á framboðslistum flokksins, sérstaklega í Reykjavík
6. Klíkur innan flokksins sem stjórna honum beint og óbeint
7. Hagsmunagæsla fyrir LÍÚ
8. Landsfundur sem skilaði ekki af sér endurnýjun í stefnumálum flokksins
9. Afstaða flokksins til aðildar Íslands að ESB
10. Stefna flokksins í efnahagsmálum kom of seint fram á sjónarsviðið
11. Tillaga flokksins um að Ísland ætti að sækja um að taka upp evru með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var ódýrt kosningabragð sem virkaði þveröfugt á kjósendur

STAATSOPERAð þessu öllu upptöldu má í raun undrun sæta hversu góð útkoman var. Sennilega má þakka þetta góða gengi Bjarna Benediktssyni. Bjarni var kraftmikill og trúverðugur og allir sem ég hef talað við – andstæðingar sem félagar mínir í flokknum – segja að hann virki heiðarlegur á fólk. Ég held hann virki ekki aðeins heiðarlegur, hann er heiðarlegur!

Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn stæði sig vel á árunum 1991 - 2002 er það að sjálfsögðu löngu gleymt. Það er eðli stjórnmálanna að maður lifir ekki lengi á fornri frægð. Gamli söngkennarinn minn í Austur-Berlín sagði mér eitt sinn að óperusöngvari væri aðeins jafn góður og síðasta sýning hans var og þannig er það einnig í stjórnmálunum. Klikki einn hár tónn er maður undir pressu, klikki tveir getur maður leitað að nýrri vinnu og fiskisagan fréttist fljótt í óperuheiminum líkt og í stjórnmálunum!

Undanfarnar vikur og mánuði hef ég talað við mikinn fjölda sjálfstæðismanna, bæði á landsfundinum og þó ekki síður á ferðalagi mínu um suðurkjördæmi, allt frá Garði á Suðurnesjum til Hafnar í Hornafirði. Ég talaði við bændur, verkafólk, sjómenn, iðnaðarmenn, sýslumenn og framkvæmdastjóra iðnfyrirtækja og útgerðarfyrirtækja. Þetta er einhver mest gefandi og skemmtilegasti tími sem ég hef upplifað og ég kynntist yndislegu fólki allsstaðar í kjördæminu. Sú vinna og þeim fjármunum sem ég varði til þessa var vel varið.

SUDURLANDÁ ferðalagi mínu kynntist ég í fyrsta skipti almennilega sjálfstæðismönnum á landsbyggðinni. Það er skemmst frá því að segja, að mikill munur er á afstöðu sjálfstæðismanna á landsbyggðinni til margra megin málaflokka og þeirra sem búa í Reykjavík eða öðrum þéttbýliskjörnum. Þetta á ekki síst við um afstöðu varðandi ESB, landbúnaðar- og sjávarútvegsmál. Fólkið á mölinni áttar sig alls ekki á því að í raun byggjum við afkomu okkar að stóru leyti á sjávarútvegnum og fólkið sveitunum og í sjávarbyggðunum segir með réttu að góðærið hafi aldrei komið til þeirra, en nú eigi þau að borga brúsann, m.a. með hækkuðum skatti og niðurskurði í þjónustu. Þessu til viðbótar vill þjóðin á mölinni æða inn í ESB, sem eyðileggur að sögn bænda og útgerðarmanna fyrir landbúnaði og sjávarútvegi. Auðsjáanlegt er að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur ekki lengur sama fylgis í Reykjavík og áður og sömu sögu má segja um aðra þéttbýliskjarna, m.a. Reykjanesbæ. Hverjar eru ástæður þessa og hverjar eru ástæður þess að við Sjálfstæðismenn náðum ekki vopnum okkar aftur fyrir kosningar.

Ástæðan er að mínu mati einföld. Kjósendum í þéttbýli finnst Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur höfða jafnmikið til sín, hann hunsi að mestu hagsmuni borgarbúa og þeirra er búa í þéttbýli, en berjist þeim mun meira fyrir hagsmunum bænda og útgerðarmanna, flokkurinn sé að breytast úr frjálslyndum og víðsýnum hægri flokki með þjóðlegum karakter í þjóðlegan íhaldsflokk, einangrunarsinna og hagsmunagæsluaðila. Þetta sannaði síðasti landsfundur að mínu mati svo ekki var um villst og umræður um að færa eignarrétt þjóðarinnar á náttúruauðlindum í stjórnarskrá einnig. Sterkar raddir innan Sjálfstæðisflokksins vilja nú helst einangra sig frá umheiminum. Þær líkja Evrópu við Þriðja ríki Hitlers og segja Evrópubúa ekki hafa áhuga á öðru í viðræðum en að stela af okkur fiskinum og öðrum auðlindum okkar. Síðan byrja menn að líkja aðildarsamningi ESB við Gamla sáttmála og standa fastar á því en fótunum, að innan ESB myndu taka við fyrir okkur Íslendinga tímar fátæktar, arðráns og auðmýkingar. Já, við myndum þá upplifa aftur hörmungar líkar þeim sem voru örlög okkar undir Norðmönnum og Dönum. Aðrir segja að ESB sé að liðast í sundur og evran sé að líða undir lok og af þeim sökum taki því ekki að sækja um aðild.

EU FLAGGENMeð þessari einangrunarstefnu færist Sjálfstæðisflokkurinn ekki aðeins frá viðskiptalífinu, líkt og augljóst hefur verið á undanförnum mánuðum, heldur færist hann einnig frá mörgum frjálslyndum mönnum innan flokksins. Þessir frjálslyndu sjálfstæðismenn – ekki síst á höfuðborgarsvæðinu og í þéttbýliskjörnum – eru sammála ASÍ, stærstum hluta Samtaka atvinnulífsins og fleiri samtökum, að okkur sé betur borgið innan ESB en með þeirri heimóttalegu, þjóðernis- og einangrunarstefnu, sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú fyrir.

Forystu Sjálfstæðisflokksins varð fyrst ljóst að ESB málin væru á dagskrá þegar Samfylkingin setti þeim stólinn fyrir dyrnar varðandi áframhaldandi stjórnarsamstarf. Það dugði ekki að Samtök iðnaðarins og ASÍ og stór hluti Sjálfstæðisflokksins væri sömu skoðunar og Samfylkingin. Kristján Þór Júlíusson og Árni Sigfússon voru sendir út af örkinni og bjuggu til eina stærstu nefnd, sem starfað hefur í nafni flokksins – Evrópunefndina. Starf nefndarinnar varð kraftmikið og árangursríkt og nefndin komst að frábærri málamiðlun í ESB málinu. Þegar þessi árangur varð ESB andstæðingum ljós fylgdu í fótspor Árna og Kristjáns, Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson – málpípur íhaldsaflanna í flokknum. Þeir Björn og Styrmir hertóku að nýju Evrópuumræðuna innan Sjálfstæðisflokksins. Með hræðslurökum og hindurvitnum tókst þeim að skapa ótta meðal flokksmanna á landsbyggðinni og vekja þannig upp gamlan Evrópudraug Davíðs Oddssonar. Að þessu loknu var vel passað upp á að ESB andstæðingar skiluðu sér vel á landsfundinn. Ekki leist mér á blikuna þegar á landsfundinn var komið og því fór sem fór. Sem betur gaf sig fram á sjónarsviðið fyrir skömmu víðsýnn Engeyingur, Benedikt Jóhannesson, og umræðan var hafin upp á annað plan.

Frjálslyndir hægri menn gera sér hins vegar grein fyrir að lykillinn að áframhaldandi uppbyggingu þess blandaða markaðshagkerfis, sem við Íslendingar erum svo stolt af, er að ganga í ESB. Leiðin úr núverandi ógöngum felst í öflugum iðnaði; ferðaþjónustu, fiskvinnslu og viðskiptum; ekki kotbúskap og trilluútgerð. Til þess að við getum fjárhagslega leyft okkur að styrkja íslenskan landbúnað í framtíðinni líkt og hingað til, sem allir sannir Íslendingar vilja gera, verða aðrar atvinnugreinar að standa sterkum fótum. Þessa staðreynd verða bændur að skilja! Alvöru atvinnustarfsemi innanlands og alvöru útflutningsgreinar, sem standa í samkeppni við erlenda aðila, þurfa á þeim stöðugleika og því vaxtastigi að halda, sem fylgir alvöru lögeyri. Er Sjálfstæðisflokkurinn að verða holdgervinur hinna gömlu gilda Framsóknarflokksins - afturhaldsins - á meðan Framsóknarflokkurinn er að verða hinn frjálslyndi markaðsflokkur landsins með þjóðlegu ívafi, sem er opinn gagnvart umheiminum og Evrópu? Öðruvísi mér áður brá!

Spá mín er að nái Sjálfstæðisflokkurinn ekki að sætta þau ólíku sjónarmið, sem nú ríkja innan flokksins, verði til annar öflugur miðju eða hægri flokkur á Íslandi á næstu mánuðum. Slíkur flokkur hefði ekki aðeins ESB aðild á stefnuskrá, heldur einnig að hluta til önnur og frjálslyndari grundvallarsjónarmið en Sjálfstæðisflokkurinn hefur í dag. Við megum aldrei gleyma að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður upp úr tveimur flokkum, Frjálslynda flokknum og Íhaldsflokknum. Þeir tveir armar hafa alla tíð verið til innan flokksins. Það hefur stundum verið grunnt á því góða milli þeirra, sem hefur komið berlega í ljós í aðdraganda þessara kosninga og þeirra á undan. Það er mín skoðun að þolinmæði frjálslyndra sjálfstæðismanna sé að þverra.
mbl.is Ekki víst að langt sé í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættum við álversframkvæmdir, lækkum laun, hækkum skatta og bönnum olíuvinnslu

Loksins eru VG smám saman að koma út úr skápnum með sínar tillögur í efnahagsmálum og atvinnumálum. Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hafa ekki við að "leiðrétta" rangfærslur minna reyndra stjórnmálamanna í þeirra röðum, sem eru það heiðarleg að segja kjósendum frá áformum VG eftir kosningar. Hverjum eiga kjósendur að treysta að sé að segja satt og rétt frá, Katrínu Jakobsdóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur eða Steingrími J. Sigfússyni og Ögmundi Jónassyni?

Mér þykir rétt að benda á að þetta var ekki í fyrsta skipti sem meðlimir VG hafa lagst gegn olíuvinnslu á Drekasvæðinu, því Hjörleifur Guttormsson lýsti yfir þessari skoðun sinni fyrr í vetur.

Sá kvittur er á kreiki að Samfylkingin og VG hafi samið sín á milli um að farið verði í aðildarviðræður við ESB strax í vor. Samfylkingin hyggst launa VG þetta með því að hætta við áform um byggingu álvers í Helguvík og á Bakka.

Ég velti því fyrir mér hvenær yfirlýsingar koma frá Kolbrúnu Halldórsdóttur um bann við fiskveiðum og bann við kjötáti.

Ég spyr ykkur landsmenn góðir, haldið þið að við komumst úr úr þessum erfiðleikum með ofursköttum, lækkun launa og með því að hætta við einu atvinnustarfsemina sem getur útvegað okkur 3-4000 störf á stuttum tíma eða með því að hætta við olíuleit og olíuvinnslu á Drekasvæðinu?

Reynum að vera raunsæ og málefnaleg en lifum ekki í einhverskonar "Draumalandi"! 


Til Evrópu með Sjálfstæðisflokknum

ESB faniAfstaða mín til aðildarviðræðna við ESB er lesendum þessa bloggs og félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum ekkert launungamál. Ég vil hefja aðildarviðræður eins fljótt og mögulegt er. Hitt er svo annað mál, að slíkar viðræður taka a.m.k. 1-2 ár og að þeim loknum allsendis óvíst að samningurinn verði þess eðlis að Íslendingum sé stætt á að samþykkja hann. Hvort heldur sem er verðum við Íslendingar að vinna ötullega að lausn okkar mála næstu misserin með hjálp AGS og án nokkurra aðstoðar ESB. Ég set reyndar stórt spurningamerki við hvort ESB hefði aðstoðað okkur mikið í þeim erfiðleikum, sem við erum í.

Ég hef líkt og aðrir fylgst af athygli með skyndilegum áhuga VG á einhverskonar málamiðlun varðandi aðildarviðræður við ESB. VG hafa aldrei gert leyndarmál úr því að þeir eru alfarið andsnúnir aðildarviðræðum og hafa til þessa - ef eitthvað er - verið enn harðskeyttari í þeirri afstöðu sinni en sjálfstæðismenn. Innan vébanda Sjálfstæðisflokksins leynast eflaust enn 20-25% aðildarviðræðusinnar, þótt þeim hafi fækkað stórlega undanfarna 6 mánuði. Stór hluti þeirra sem yfirgefið hafa flokkinn voru einmitt þeir sem studdu ESB aðildarviðræður og er þetta m.a. útskýringin á því hversvegna færri sjálfstæðismenn styðja aðildarviðræður en áður. Ef þessi 20-25% aðildarviðræðusinna yfirgæfi flokkinn færi hann niður 18% fylgi eða um helming þess fylgis sem hann fékk í síðustu kosningum.

Hér að neðan er útdráttur úr ályktun Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál:

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar en jafnframt talið mikilvægt að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja.

 

 

Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það skoðun Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna.

 

 

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar þá afstöðu sina að hugsanleg niðurstaða úr samningsviðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði ávallt borin undir þjóðaratkvæði.

 

 

Í ofangreindri ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins er í raun opnað á þann möguleika, að Ísland gangi til aðildarviðræðna við ESB. Að vísu er sett skilyrði um að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin, hvort landið eigi að fara í viðræður. Þessi tvöfalda atkvæðagreiðsla er að mínu mati algjör þvættingur, en opnun er þetta engu að síður.

Hér að neðan er síðan ályktun landsfundar VG um Evrópusambandið: 

 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrábreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi.

 

VG opnuðu á sínum landsfundi einnig á ESB aðildarviðræður, líkt og sjá má skýrt hér að ofan og hvergi minnst á tvær atkvæðagreiðslur.

Ef við skoðum nú ályktun Framsóknarflokksins um Evrópusambandið:

 

... að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á
grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni
almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs
og landbúnaðar líkt og kveðið er á um í skilyrðum síðasta
flokksþings framsóknarmanna. Viðræðuferlið á að vera
opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings
skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í
þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu
 

Ég sé ekki betur en að allir stjórnmálaflokkar hafi opnað á aðildarviðræður við ESB, en sett það sem skilyrði að þjóðin eigi síðasta orðið. Ég veit ekki til þess að nokkuð ríki hafi gengið í ESB án þess að bera aðildarsamninginn undir þjóðaratkvæði.

Ég sé því ekki að um einhverja stefnubreytingu hafi verið ræða undanfarna daga?


Hallgrímur Helgason fer háðulegum orðum um Íslendinga í danska sjónvarpinu

Hallgrimur HelgasonÞað var hálf aumkvunarvert að sjá viðtalið við Hallgrím Helgason rithöfund í danska sjónvarpinu í kvöld (DR2), þar sem hann ekki aðeins dró upp dekkri mynd af ástandinu hér en ástæða er til, heldur fór svo háðulegum orðum um okkur Íslendinga og íslenskt samfélag, að mér blöskraði að nokkur maður gæti talað svona um eigin þjóð. Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti í vetur, sem "Höfundur Íslands" hefur farið offari í fjölmiðlum og annarsstaðar og orðið okkur til háborinnar skammar.

Í viðtalinu við DR líkti Hallgrímur okkur Íslendingum við grísina þrjá, þar sem Íslendingarnir bjuggu að sjálfsögðu í stráhúsinu, sem úlfinum tókst að blása koll, á meðan vinum okkar á Norðurlöndum hafði tekist að byggja steinhús, sem engum hefur enn tekist að leggja í rúst. Hallgrímur hefur víst gleymt bankakreppunni í Noregi, sem byrjaði árið 1987, stóð í 4 ár og lauk árið 1991 og bankakreppunni í Svíþjóð, sem byrjaði árið 1992 og sumir segja að sé ekki enn lokið, að ekki sé minnst á efnahagshrunið í Finnlandi upp úr 1990, þar sem börn eiga að hafa soltið heilu og hálfu hungri.

Samfylkingarmaðurinn Hallgrímur lýsti í viðtalinu Íslendingum sem "vanvita" smábörnum, sem hinir "fullorðnu" Norðurlandabúar þyrftu að kenna eitt og annað, t.d. hvernig á að byggja upp heilbrigða blöndu af auðhyggju eða markaðshyggju og sósíalisma, þannig að úr verði hið skandínavíska velferðarmódel.

Trír grísirSænska velferðarkerfið má sennilega rekja til fátækralaganna frá 1847 og 1853 og stofnun Sænska alþýðusambandsins árið 1898. Það var hins vegar Frjálslyndi flokkurinn í Svíþjóð, sem lagði grunninn að fyrstu greiðslum til fátækra og sjúkra með tryggingalögunum árið 1913, sem varð hornsteinn lífeyristrygginga næstu 40 árin. Önnur lönd byrjuðu ekki með slíkar tryggingar fyrr en upp úr 1930. Það voru svo Sænskir Jafnaðarmenn og Alþýðusamband Svíþjóðar, sem alltaf var nátengt Jafnaðarmannaflokknum, sem byggðu áfram upp "sænska velferðarkerfið".

Árið 1938 undirrituðu forvígismenn atvinnulífsins og Alþýðusambandsins samkomulag í Saltsjöbaden, sem jafnan var kennt við þann stað, þar sem leitt var til lykta, hvernig samskiptum milli þessa aðila skildi háttað. Þetta varð sænskum vinnumarkaði mikil hjálp við iðnvæðingu landsins næstu áratugi og tryggði ásamt velferðarkerfinu nauðsynlegan stöðugleika. 

Sænska velferðarkerfið þróaðist síðan á árunum 1950 - 1960 og Svíþjóð varð á tímabili annað ríkasta land í heimi með næstum ekkert atvinnuleysi. Upp úr 1970 náði kerfið "fullkomnun" og náði þá yfir allt líf borgarna frá fæðingu til dauðadags. Upp úr olíukreppunni 1973 byrjaði að hrikta í stoðum sænska velferðarkerfisins. 

SaltsjöbadÁ undanförnum  tveimur áratugum blöskraði Svíum og þeir sáu að landið var gjörsamlega staðnað, hagvöxtur stóð í stað, skattar voru orðnir allt of háir og atvinnuleysi mikið auk þess sem glæpum hafði fjölgað. Allt frá þessum tíma - upp úr 1990 - hafa hægri menn fengið að stjórna landinu af og til í stuttan tíma, en er þeir hafa komið smá skikki á atvinnulífið, lækkað skatta og minnkað atvinnuleysið, hafa Jafnaðarmenn aftur tekið við völdum, hækkað skattanna og aukið við "velferðarkerfið". Þarna hefur verið um þrálátan vítahring að ræða, sem Norðurlandaþjóðunum hefur enn ekki tekist að brjótast út úr. Þrátt fyrir allt má segja að sænska heilbrigðiskerfið, menntakerfið og miklar náttúruauðlindir hafi tryggt Svíum góð lífsskilyrði líkt og hinum Norðurlöndunum, einnig Íslandi.

Gagnrýnendur benda á að Norðurlöndin eigi einnig við vandamál að stríða samfara velferðarkerfinu, sem tengjast "velferðarmenningunni" (s. bidragskultur) sem skapast í þessum löndum. Þessir gagnrýnendur vilja meina að kerfið sé vinnuletjandi, og þá sérstaklega fyrir ungt fólk, og að háir skattar hvetji til skattsvika.

HjolastollEkki ætla ég að gera lítið úr sænska, norska eða danska velferðarkerfinu, sem við höfum að flestu leyti tekið upp og lagað að íslenskum aðstæðum. Ég frábið mér hins vegar að lítið sé gert úr okkar íslenska velferðarkerfi, sem er að mörgu leyti því norræna fremra, því það hefur ekki orðið til þess að hér hafi orðið til vandamál sem tengjast einhverskonar "velferðarmenningu", líkt og á Norðurlöndunum, auk þess sem það sligar ekki íslenskan ríkissjóð líkt og þau norrænu.

Ég held einmitt að okkur Íslendingum hafi tekist að búa til kerfi, sem ekki einungis hentar okkar aðstæðum mjög vel, heldur er eitthvað sem við höfum ráð á að borga. Ég hef því engan áhuga á að taka upp sænska, norska eða danska velferðarkerfið hér á landi með öllum þeim vandamálum, sem þeim fylgja.

Allir stjórnmálaflokkar og allir landsmenn standa vörð um íslenska velferðarkerfið og við skulum vona að niðurskurðurinn í því verði sem minnstur á þessu og næsta ári.


Klofningur í afstöðu um álver í Helguvík - framtíðartónlist varðandi fleiri mál?

Helguvík - álverSamkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu á vinnumarkaði var atvinnuleysi í mars mest á Suðurnesjum eða 14,3 %. Í febrúar voru 1.774 manns skráðir atvinnulausir á Suðurnesjum,
1.032 karlar og 742 konur. Á landinu öllu voru 16.822 atvinnulausir eða 8,9%. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi um 1% og 1.600 manns atvinnulausir.

Það er því ekki að undra að fagnað sé á Suðurnesjum í kvöld, nú þegar lög um heimild til samninga um álver í Helguvík hafa verið samþykkt. Alls sögðu 38 þingmenn já, 9 sögðu nei, 1 greiddi ekki atkvæði og 15 voru fjarstaddir.

Allir þingmenn VG nema Jón Bjarnason, sem var fjarstaddur, lögðust gegn álveri í Helguvík. Þetta voru þau: Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir,  Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Það var ekki að undra að Þórunn Sveinbjarnardóttir (Samfylking) sat hjá við atkvæðagreiðsluna og að Mörður Árnason (Samfylking) greiddi ásamt þingmönnum VG atkvæði gegn álverinu. Þetta fólk ætti að vera svo heiðarlegt að ganga til liðs við það fólk sem það deilir sannfæringu sinni með í nær öllum málum, VG. Mikið saknar maður stundum gömlu Kratanna, sem voru þó alltaf raunsæir þegar hlutirnir snérust um alvarleg mál.

Það má undrun sæta hvernig þingmenn geta haft brjóst í sér að leggjast gegn frumvarpi, sem skapað getur 3-4000 atvinnulausum starf næstu árin. Ef álverin í Helguvík og á Bakka verða að veruleika auk gagnavera og kísilverksmiðja, sem ætlað er að byggja getur atvinnuleysi á Íslandi heyrt sögunni til næstu 5-10 árin.

Þessa staðreynd eiga kjósendur að hugleiða áður en þeir kjósa yfir sig vinstri ríkisstjórn, þar sem "öfgaumhverfisstefna" VG verður í fyrirrúmi. Ég efast ekki eitt andartak að það verða VG sem hafa munu töglin og haldirnar í þeirri ríkisstjórn sem hugsanlega tekur við völdum í vor. Einnig megum við ekki gleyma að stór hluti Samfylkingarinnar er einnig hallur undir sömu atvinnustefnu og VG aðhyllist, þ.e.a.s. grasatínslu og lopapeysuprjón.

Nýlega voru VG og Samfylking klofin í afstöðu sinni um stækkun varnarbandalags NATO. Munum við í framtíðinni horfa ítrekað upp á að landinu verði í raun stjórnað af minnihlutanum á Alþingi með hluta af öðrum ríkisstjórnarflokknum, Samfylkingunni, þegar málin snúast um stór mál á borð við varnir landsins, atvinnumál eða jafnvel ríkisfjármál?

Koma þessir menn sér saman um eitt einasta mál í framtíðinni? 

 


mbl.is Lög um Helguvíkurálver samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband